Hánefsstaðaskógur
Svarfaðardal - 1946
Upphafsmaður skógræktar að Hánefsstöðum var Eiríkur Hjartarson rafmagnsverkfræðingur en hann keypti jörðina um 1940 og hóf skógrækt 1946. Eiríkur var fæddur árið 1885 að Uppsölum og ólst þar upp. Uppsalir eru hér beint fyrir ofan Hánefsstaði nær fjallinu.
Ungur fór Eiríkur til Ameríku og nam þar rafmagnsverkfræði. Þar kynntist hann konu sinni, Valgerði Halldórsdóttur, en hún var fædd í Norður-Dakóta og var af íslenskum ættum. Heim flutti Eiríkur árið 1918.
Í Laugardalnum í Reykjavík byggði hann sér íbúðarhús ásamt gróðurhúsi og ræktunarbeðum þar sem nú er Grasagarðurinn. Gerði hann tilraunir með tegundir sem ekki höfðu verið reyndar hér á landi.
Girðing var reist í kringum reitinn á árunum 1945–1946 og var það mikið mannvirki sem stendur enn að nokkru leyti. Staurar þurftu að vera með stuttu millibili því snjóþungt er í Svarfaðardal.
Gróðursetning hófst af krafti árið 1946 og mætti Eiríkur að minnsta kosti næstu tíu árin á hverju vori með fullhlaðna jeppakerru af trjáplöntum norður í Svarfaðardal. Í dagbókum lýsir hann þessum ferðum sem ekki voru allar auðveldar. Með Eiríki voru jafnan Valgerður kona hans, Hjörtur sonur þeirra og Una systir Eiríks. Höfðu þau til afnota efstu hæðina að Hánefsstöðum. Ýmsir nágrannar voru fengnir til að gróðursetja og halda við girðingum. Eiríkur útbjó tjörn nyrst í skóginum og sleppti þar silungum sem svo dóu á frosthörðum vetri er tjörnin botnfraus.
Árið 1965 ánafnaði Eiríkur Skógræktarfélagi Eyfirðinga jörðina Hánefsstaði ásamt skógarreitnum. Jörðin var í eigu SE fram yfir 1980 en var þá seld að undanskildum reitnum og andvirði varið til að byggja upp og þróa plöntuframleiðslu. Eiríkur lést árið 1981 og reisti fjölskyldan minnisvarða um hann hér í reitnum árið 1998.
SE tók við umhirðu reitsins árið 1965 og hafði þá um nokkurt skeið séð um útplöntun. Reiturinn var endurgirtur árið 1992 en á árunum í kringum 1980 var átak gert í að grisja reitinn og planta inn í eyður. Miklu hafði verið plantað af skógarfuru sem féll að mestu í lúsafaraldri.
Árið 1999 var gerður samningur við Dalvíkurbyggð um að Hánefsstaðaskógur yrði útivistarsvæði Dalvíkinga og Svarfdælinga. Í því fólst að komið yrði upp snyrtingum, leiktækjum, grillaðstöðu auk göngustíga. Samningurinn var til 20 ára og sér SE um skipulag og yfirumsjón framkvæmda en Dalvíkurbyggð greiðir kostnað við þær.
Flatarmál:
Upphaf:
Hæsta tré:
Mælt árið:
Landeigandi:
12 ha
1946
Alaskaösp 10 m
2000
Skógræktarfélag Eyfirðinga