Kortasjár
Með landupplýsingarkerfinu ArcGIS er hægt að útbúa kortsjár með ýmsum fróðleik. Á þessari síðu ætlum við að safna saman kortasjám sem sýna ýmsar upplýsingar um tré og skóga.
Merk tré í Eyjafirði
Þessi kortasjá sýnir staðsetningu margra merkilegustu trjáa í Eyjafirði ásamt margskonar upplýsingum um trén og myndum af þeim. Trén í kortasjánni geta verið í einkagörðum, opnum svæðum sveitarfélaga eða í skógarreitum Skógræktarfélagsins.
Ekki er alltaf augljóst hvaða tré eiga heima í kortasjá og hver ekki og þar með að fá þann virðulega titil merk tré í Eyjafirði enda er fjöldi merkilegra trjáa í Eyjafirði mikill.
Við val á trjám er þó horft til nokkra þátta:
• Gott er ef trén eru stakstæð og trén þurfa að vera aðgengileg og vel sýnileg frá götu eða stígum. Ekki er hægt að velja tré í bakgörðum eða í afskekktum skógarþykknum þar sem erfitt er að sjá þau.
• Tré af sjaldgæfum tegundum eru mjög líkleg til að komast í kortasjána.
• Stór tré og þá bæði tré sem eru há og einnig tré sem eru bolmikil eða krónubreið
• Gömul tré
• Sérstaklega falleg eða sérkennileg tré
• Tré sem eiga sér einhverja merkilega sögu
Í kortasjánni er trjánum er skipt upp í þrjá flokka
• Rauðir punktar sýna stórmerkileg tré. Þetta eru falleg tré, gömul, stór og oft sjaldgæf. Nánast öll trén í þessum flokki eru tré sem valin voru í bæklinginn Merk tré á Akureyri sem Skógræktarfélag Eyfirðinga og Akureyrarbær gáfu út árið 2005
• Bláir punktar sýna merkileg tré. Þetta eru falleg tré, gömul og gjarnan stór en ekki endilega sjaldgæf. Sem sagt flott tré en mögulega ekki eins merkileg og þau í rauða flokknum
• Grænir punktar sýna efnileg tré. Þetta eru ung tré af sjaldgæfum tegundum sem með tíð og tíma gætu átt eftir að verða stórmerkileg tré.
Rétt er að taka fram að mörkin á milli hópa geta verið nokkuð fljótandi.
Kortasjáin er byggð þannig upp að undir liggur kort af Eyjafirði og við hvert tré er punktur sem sýnir staðsetningu þess. Þegar þysjað er að punkti kemur upp texti sem segir af hvaða tegund tréð er. Þegar smellt er á punktinn kemur upp gluggi sem segir tegundarnafn á íslensku og latínu, stuttur texti með upplýsingum um tréð, hæð trésins og hvenær það var mælt, upplýsingar um gróðursetningarár ef það liggur fyrir, hlekkur á nánari upplýsingar um tréð ef þær eru til og svo eru þarna myndir af trénu. Ef kortasjáin er opnuð í síma getur þú látið þig birtast sem bláan punkt á kortinu og þannig séð hvort þú ert í nágrenni við eitthvað af trjánum í kortasjánni.
Í kortasjánni eru núna rúmlega 70 tré og segja má að þetta sé nokkurskonar frumútgáfa. Nú er bara búið að setja inn tré sem eru í stærstum hluta Akureyrar og örlítið í skógum næst Akureyri en stærstur hluti Eyjafjarðar er eftir. Reiknað er með að smám saman bætist tré við í kortasjánna og það bætist við myndir af trjám og jafnvel ýtarlegri texti um sum trén. Allar ábendingar um tré sem menn telja að ættu heima í kortasjánni eru vel þegnar og má senda upplýsingar um þau á beggi@kjarnaskogur.is. Þá er ekkert annað eftir en að taka upp símann, opna kortasjánna og arka af stað og skoða merkustu tré Eyjafjarðar.
Skógar í umsjón SE
Í vinnslu er önnur kortasjá þar sem finna má alla skóga sem félagið á eða hefur umsjón með. Þar er að sjá stígakerfin um skógana, hvar bílastæði er að finna, örnefni og fleira.