top of page
Laugaland.jpg

Laugalandsskógur

Hörgársveit - 1980

Árið 1979 sendi Skógræktarfélag Eyfirðinga fyrirspurn á landeigendur Laugalands á Þelamörk og  óskaði eftir því að sá hluti jarðarinnar sem stóð austan þjóðvegar yrði friðaður. Landeigandi svæðisins á þeim tíma var Legatssjóður Jóns Sigurðssonar. Erindi skógræktarfélagsins var vel tekið og í framhaldi var undirritaður samningur milli SE og þáverandi Sýslunefndar Eyjafjarðarsýslu. Samningurinn gekk út á að félagið fengi land til skógræktar að Laugalandi. Framkvæmdir við friðun hófust árið 1980, á 50 ára afmælisári Skógræktarfélags Eyfirðinga, með girðingarvinnu og í kjölfarið hófust gróðursetningar. Á fyrstu 10 árunum voru gróðursettar á svæðinu tæplega 200.000 plöntur, mest megnis barrtré sem hugsuð voru sem jólatré framtíðarinnar. Á fyrstu árum gróðursetningar á Laugalandi skapaðist sú hefð að nýstúdentar frá Menntaskólanum á Akureyri kæmu þangað í gróðursetningaferð að afloknu síðasta prófi að vori. Þessi hefði mun hafa haldist lengi, sem og sú hefði að júbílantar heimsæki lundina sína í tengslum við júbílantahátíðir í júní á hverju ári. 


Í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín sem skráð var 1712, segir um Laugaland á Þelamörk að skógur væri þar víða til eldiviðar en lítið til kolagerðar. Reynslan hefur sýnt að víðast hvar á svæðinu þar sem land er friðað er náttúrulegt birki að finna. Skógrækt á Laugalandi hefur gengið ágætlega og eru aðstæður þar ákjósanlegar til ræktunar flestra trjátegunda. Svæðið er fremur snjólétt og hentar vel til skógræktar almennt.

 
Í dag er flatarmál skógarins um 100 ha og helstu trjátegundir í skóginum eru stafafura, lerki, birki og rauðgreni, en auk þess má finna ýmsar aðrar tegundir. Búið er að merkja margar þeirra. Um árabil hefur verið höggvið nokkurt magn af stafafuru og hún seld sem jólatré. Auk þess hefur fólki verið boðið að koma í skóginn og höggva sitt eigið tré í desember. Margar norðlenskar fjölskyldur hafa fundið draumajólatréð sitt í Laugalandsskógi.

 

Skógurinn er svokallaður „Opinn skógur“ en í því felst að lögð hefur verið áhersla á að bæta aðgengi fyrir alla um skóginn, miðla upplýsingnum og fræðslu um lífríki, náttúru og sögu og gera skóginn eftirsóknarverðan til áningar, útivistar og heilsubótar. Í skóginum eru góð berja- og sveppasvæði. 

20190915_154349.jpg

Flatarmál:

Upphaf:

Hæsta tré:

Mælt árið:

Landeigandi:

100 ha

1980

Lerki 4 m

2000

Norðurorka hf.

bottom of page