Melgerðismelar
Eyjafjarðarsveit - 1990
Á grundvelli átaks um ræktun Landgræðsluskóga vegna 60 ára afmælis Skógræktarfélags Íslands var árið 1993 gerður samstarfssamningur milli Eyjafjarðarsveitar og Skógræktarfélags Eyfirðinga um ræktun landgræðsluskóga á um fimmtíu hektara spildu úr landi Melgerðis í Eyjafjarðarsveit.
Markmiðið var að rækta skóg á örfoka, ógrónu, lítt- eða hálfgrónu landi. Með samningnum fylgdi uppdráttur sem sýndi mörk væntanlegra skógarreita og skyldi samstarfsverkefnið taka til 75 ára frá undirskrift samningsins. Umsjón með ræktuninni skyldi vera á höndum Skógræktarfélags Eyfirðinga og félagið hafa nytjar sem kynnu að fást af skógræktinni á samningstímanum í samræmi við skógræktarlög. Sveitarfélagið tók að sér að friða svæðið með girðingu en í samningnum er kveðið á um að hluti landsins skuli ávallt nýtast almenningi til útivistar.
Jafnvel þótt samstarfssamningur hafi ekki verið undirritaður fyrr en 1993 hófst gróðursetning á Melgerðismelum árið 1990 og þegar samningurinn var gerður höfðu verið gróðursettar hátt í 150 þúsund trjáplöntur á svæðinu, langmest lerki en einnig nokkuð af birki og elri.
Félagar í hestamannafélaginu Funa í Eyjafjarðarsveit hafa síðan reynst liðtækir við gróðursetningu og sömuleiðis hefur áhugafólk um svifflug og flugmódel lagt sitt af mörkum enda hafa félög um þessi áhugamál öll aðstöðu á Melgerðismelum.
Skógurinn hefur vaxið og dafnað, einkum lerkið sem breytt hefur gróðurlausum melsvæðum í gróskumikið skóglendi og aukið mjög skjól á svæðinu. Skógurinn hefur einnig haft mikil áhrif á annan gróður og þar sem áður var svartur melur er nú víða komið gróskumikið gras- og blómlendi.
Flatarmál:
Upphaf:
Hæsta tré:
Mælt árið:
Landeigandi:
50 ha
1990
Lerki X m
20XX
Eyjafjarðarsveit