top of page

Ættkvísl þalla

Writer's picture: Sigurður ArnarsonSigurður Arnarson

Updated: Dec 14, 2023

Einu sinni, fyrir langa löngu, ákvað skapari allra hluta að verðlauna sígrænu trén í skóginum í Bresku Kólumbíu með því að gefa þeim stóra og fallega köngla sem gætu skreytt þau. Marþallirnar, sem þarna vaxa, töldu sig vera bestu og glæsilegustu trén og ættu því rétt á að fá stærstu og flottustu könglana. Þær vildu því troða sér fremst í röðina til að velja heppilega köngla fyrir sig. Skaparinn mikli sagði að það væri frekja að haga sér svona og samræmdist hvorki góðum siðum né þeim reglum sem hann hafi af visku sinni sett öllum trjám. Til að refsa þeim setti hann þær aftast í röðina. Þegar loks kom að þeim voru eingöngu litlir könglar eftir. Þess vegna bera þallir minni köngla en önnur barrtré á þessum slóðum. Ekki nóg með það. Aumingja þallirnar skömmuðust sín svo mikið að enn þann dag í dag drúpa þær höfði eins og sjá má á toppsprotunum. Skömm þeirra varir að eilífu.

Þessi saga er frá þjóð sem kallast Squamish og er frumbyggjaþjóð í Bresku Kólumbíu. Nánar má lesa um sagnaarf þjóðarinnar hér.


Þessi fjallaþöll, í garði við Markarflöt 15 í Garðabæ, er mikið augnayndi. Mynd: Sigurður Þórðarson.


Í þessum pistli beinum við sjónum okkar að þessari ættkvísl trjáa sem ættuð eru frá Norður-Ameríku og Austur-Asíu. Að minnsta kosti tvær tegundir ættkvíslarinnar þrífast ágætlega á Íslandi og hafa prýtt hér garða og skóga um langt skeið. Sá kostur fylgir þessari auðmýkt hinna skömmustulegu þalla að toppar þeirra brotna mun síður en toppar annarra barrtrjáa í stórviðrum og snjóþyngslum. Í pistlinum segjum við frá þessum trjám. Við lýsum þeim, segjum frá tegundum innan ættkvíslarinnar, og ýmsu er tengist þessum tegundum. Við endum svo á annarri sögu frá frumbyggjum Norður-Ameríku.


Þallir eru auðþekktar frá ættingjum sínum á toppsprotanum. Myndin fengin héðan.


Nafnið

Á latínu kallast þessi ættkvísl Tsuga. Nafnið er úr japönsku og samkvæmt sumum heimildum er það sett saman úr orðunum tsu og ga sem geta merkt tré og móðir. Það er reyndar furðu algengt að kalla tré „móðurtré“ í heiminum. Mismunandi þjóðir nota heitið yfir mismunandi tré en vegna skorts á kunnáttu í austurlandamálum getum við ekki staðfest þessa merkingu. Því spurðum við þýðingarvél frá Google en hún er þessari merkingu algerlega ósammála.


Þallir eru auðþekktar á toppsprotanum. Ekki er auðvelt að sjá hann á stórum trjám í útlöndum. Hér á landi er það ekki enn orðið vandamál. Myndirnar eru fengnar úr þessum hlaðvarpsþætti og eru af marþöllum í regnskógum í norð-vesturhluta Bandaríkjanna.

Lýsing

Almennt má segja um allar tegundir þalla að þær eru oftast einstofna, beinvaxin tré með keilulaga krónu og slútandi toppsprota. Greinarnar slúta einnig, en aðeins í endann. Þeir sem ekki nenna að lesa frekar um sérkenni þeirra geta farið beint í næsta kafla.

Þallir eru af þallarætt (Pinaceae). Öll ættin á ákveðin einkenni sameiginleg og má lesa um þau hér. Að auki hefur hver ættkvísl ákveðin einkenni. Til að greina í sundur hinar ólíku ættkvíslir þallarættarinnar getur verið gagnlegt að skoða hvernig nálarnar eru fastar við greinarnar. Við höfum áður sagt frá því að furur hafa 2,3 eða 5 nálar í knippum á meðan hver nál á greni vex stök á einskonar vörtu sem verður eftir þegar nálarnar falla af. Því verða greinarnar dálítið hrjúfar viðkomu. Þinur er líkur greni en hefur ekki þessar vörtur og greinarnar verða alveg sléttar þegar nálarnar falla. Nálarnar á þöllum eru fastar við greinarnar á litlum, grönnum stilk eða þykkum þræði, ef svo má segja. Nálarnar sjálfar eru flatar og minna á margar aðrar nálar ættarinnar. Er þær falla af minna sprotarnir á greni, enda er talið að þallirnar séu skyldastar greni af öllum ættkvíslum ættarinnar.


Eitt af einkennum þalla er hvernig nálarnar vaxa úr sprotunum. Þessi mynd sýnir það ágætlega. Í hvítu rákunum eru loftaugu. Um hlutverkt þeirra má lesa hér. Lögun og fjöldi ráka getur hjálpað til við að greina í sundur tegundir. Myndin fengin úr þessum hlaðvarpsþætti.

Rétt er að taka það fram að af barrnálum þalla er sérstök lykt en erfitt er að lýsa henni á prenti. Sumir segja að hún minni á lykt af eitraðri plöntu sem kallast óðjurt eða Conium maculatum. Á ensku kallast sú jurt Poison Hemlock. Á ensku hafa þallir verið kallaðar Hemlock og má vera að það tengist lyktinni. Aðrir, sem lyktað hafa af bæði þöllum og óðjurt, draga það mjög í efa. Við þurfum samt ekki að hafa áhyggjur af þessu vandamáli því á íslensku kallast tegundirnar þallir.

Önnur einkenni eru meira áberandi en þessar nálar. Það eru þau einkenni sem sagan, fremst í pistlinum, er ætlað að útskýra. Könglarnir eru áberandi minni en hjá öðrum sígrænum ættkvíslum ættarinnar. Svo eru það hinir skömmustulegu toppar sem slúta alltaf. Þegar þeir fara að tréna á haustin dregur mjög úr skömminni og þá rísa þær aðeins. Þegar nýjir sprotar birtast á vori komanda hafa gömlu sprotarnir reist sig töluvert.

Könglar á helstu trjám sem finna má á heimaslóðum Squamish fólksins.

Frá vinstri: Sitkagreni, marþöll og degli. Myndin fengin af heimasíðu sem tengist þessum hlaðvarpsþætti.

Greinar og toppur

Bæði greinar og þó enn frekar topparnir eru óvenju sveigjanlegar á þöllum. Þeir láta auðveldlega eftir og svigna og bogna ef reynir á og í stað þess að sperrast upp í loftið þá sveigjast þeir auðmjúkir niður á við. Því verða þeir síður fyrir skaða af völdum vinda, snjóþyngsla eða fugla sem gjarnan setjast á hæsta punkt. Ef þallirnar eru ekki orðnar þeim mun stærri er þægilegast að þekkja þær frá öðrum ættkvíslum ættarinnar á toppsprotunum. Þetta er ekki eins áberandi á stórum, gömlum þöllum í útlöndum því þá er toppurinn svo hátt uppi að við sjáum hann ekki. Þá dugar að skoða nálarnar. Þessir toppar gerir það að verkum að það þekkist varla í heiminum að nota tréð sem jólatré. Hver vill jólatré sem ekki stendur undir almennilegum toppi?


Fjallaþöll í Hallormsstað. Myndin tekin í júní 2023 og á henni sjást könglar frá árinu áður. Eins árs könglar eru brúnir á litinn. Mynd: Helgi Þórsson.


Uppvöxtur litla trés

Eitt af því sem allar þallir eiga sameiginlegt er hversu skuggþolnar þær eru. Villtar þallir vaxa tíðum upp í þéttum barrskógum þar sem litla birtu er að fá og það hentar þeim prýðilega. Gott er að hafa þetta í huga þegar þöllum er plantað. Það má vel planta þeim á skuggsæla staði í görðum eða í þéttum skógum þar sem fátt annað vex. Þar vaxa þær hægt og rólega en uppvöxtur lítilla trjáa af ættkvísl þalla er oftast öruggur í þéttum skógum, enda er þar mjög gott skjól. Sá galli getur fylgt slíkri staðsetningu að í skugganum er svalara en í sólinni. Því getur verið heppilegra á okkar ísakalda landi að planta þeim frekar í hálfskugga en í algeran skugga. Skjólið er lykilatriði fyrir ungar plöntur.


Norrænir skógfræðingar í koldimmum marþallarskógi í trjásafninu í Skorradal sumarið 2018. Þetta er einhver myrkasti trjálundur sem eigandi myndarinnar, Helgi Þórsson, hefur komið í.

Þetta atriði skiptir þallirnar miklu máli. Flestar þeirra eru fyrst og fremst undirgróður í öðrum skógum framan af ævi. Ef hvorki eldur né járn fella skógana þá munu þallirnar að lokum skyggja nánast allar aðrar trjáplöntur út. Þegar stærri trén í skógunum falla úr elli eða sjúkdómum taka þallirnar við. Sums staðar, einkum nálægt vesturströnd Norður-Ameríku, má því finna forna skóga þar sem marþöll er ríkjandi tegund og jafnvel nær einráð á stórum svæðum. Önnur tré, svo sem sitkagreni og degli, verða þarna mun stærri en þallirnar en keppa ekki við þær í tíma nema eitthvað utan að komandi komi til. David Attenborough (1995) segir frá því að á þessum slóðum, þar sem þallir, sitkagreni og degli eru aðal tegundir, sé það stundum þannig að burknar skyggi út það litla ljósmagn sem kemst niður í gegnum trjákrónurnar þannig að jafnvel þallir eigi erfitt með að vaxa upp. Þá kemur sér vel hversu sverir stofnarnir geta orðið á skógartrjánum. Þegar trén að lokum falla standa þeir upp úr burknastóðinu og þar geta trjáfræin spírað.


Myndir úr bókinni Einkalíf plantna. Sú fyrsta sýnir barrtré, þar á meðal marþöll, sem spírað hafa á föllnum trjábol. Miðmyndin sýnir ung sitkagreni og marþallir að vaxa upp af trjábolnum sem gaf þeim líf. Lokamyndin sýnir röð af trjám en trjábolurinn sem fóstraði þau er löngu horfinn. Stækka má myndirnar með því að smella á þær.

Í Kjarnaskógi eru aðeins fáeinar þallir. Ef við gætum skroppið í burtu í eins og eitt til tvö þúsund ár og látið skóginn algerlega í friði á meðan er ekki ólíklegt að við okkur tæki þallarskógur þegar við kæmum til baka. Það er auðvitað háð því að ekki verði teljandi rask á meðan.


Marþöll í Kjarnaskógi. Hún er á skjólsælum stað og dálitlum skugga. Mynd: Sig.A.


Almennt má þó segja að þallir vaxa fremur hægt og verða ekkert sérstaklega háar miðað við aðrar tegundir ættarinnar. Með tíð og tíma geta þær þó orðið nokkuð stórar en það er misjafnt eftir tegundum og hér á landi stefnir ekki í það að þessi tré verði tiltakanlega hávaxin nema þá helst marþöllin. Þessi hægi vöxtur gerir það að verkum að þær geta verið hentugar í skjólgóða garða, einkum á þeim svæðum þar sem skortur á ljósi gerir öðrum tegundum erfitt fyrir. Rétt er þó að muna það sem við nefndum hér að ofan. Lofthiti á Íslandi verður sjaldan jafn hár á skuggsælum stöðum og á sólríkum stöðum ef báðir staðirnir njóta skjóls. Gott er að hafa í huga að það er hitinn í laufunum (barrinun) sem skiptir máli fyrir ljóstillífun. Barr sem sólin skín á hitnar meira en barr í skugga. Meiri hiti getur skilað meiri vexti. Því geta þallir vaxið hraðar og betur ef þær eru ekki í of miklum skugga.


Náttúrusaga

Fyrir ísöld uxu þallir á stærra svæði en þær gera nú. Samkvæmt heimasíðu Skógræktarinnar uxu þallir í Evrópu fram á síðasta jökulskeið ísaldar. Kuldinn og ísinn varð þeim um megn og þær hurfu. Nú er þær fyrst og fremst að finna beggja vegna við norðanvert Kyrrahafið en einnig víðar í Asíu og Ameríku. Hin síðari ár hefur þöllum verið plantað aftur í Evrópu og þrífast prýðilega. Sums staðar eru þær duglegar að sá sér út og telst jafnvel ágengar. Sumir kjósa þó frekar að segja duglegar.

Allar tegundir þalla eru aðlagaðar tempruðu loftslagi. Því eru ekki miklar líkur á að fjölda tegunda sé hægt að rækta hér á landi með góðum árangri. Á þessu eru þó undantekningar. Fjallaþöll sker sig úr þar sem hún er háfjallategund og dregur af því nafn sitt. Hún er af sumum jafnvel talin mynda sérstaka undirætt og er þá talin fjarskyld öðrum tegundum ættkvíslarinnar. Svo er það marþöllin. Hún vex vel í tempruðu loftslagi en þrífst einnig norðar þar sem loftslagið er svalara. Loftslag á Íslandi hentar ljómandi vel fyrir marþöll og fjallaþöll. Þær eru þó nokkuð erfiðar í ræktun hér á landi vegna þess hversu skjólleysið er algengt. Ef þær fá gott skjól vaxa þær prýðilega. Marþöllin vex að jafnaði mun hraðar og betur en fjallaþöllin. Hún verður að öllum líkindum stórvaxið tré á Íslandi er fram líða stundir. Ekki er víst að fjallaþöllin verði eins há. Sennilega setur hún markið ekki hærra en á 10 metra.


Fjallaþöll í Lystigarðinum. Myndin tekin síðsumars þegar toppsprotinn er farinn að rétta sig töluvert. Mynd: Sig.A.



Áhrif mannsins

Það er kunnara en frá þurfi að segja að spendýrategundin sem kallar sig vitiborna hefur sífellt meiri og meiri áhrif á umhverfi sitt. Afleiðingar þess eru margvíslegar og hefur hamfarahlýnun af manna völdum varla farið fram hjá neinum nema þeim er afneita staðreyndum. Eitt af því sem fylgir áhrifum mannsins er að gamlir, lítt eða ósnortnir skógar eiga undir högg að sækja. Það hefur leitt til þess að allar tegundir þalla eiga í vök að verjast. Asísku tegundirnar eru allar fremur sjaldgæfar og þöllum í Ameríku fækkar einnig. Samt er marþöllin og skógarþöllin enn nokkuð algeng á sumum svæðum. Hvað þetta varðar sker fjallaþöllin sig úr. Þar sem hún er háfjallategund hafa vaxtarstaðir hennar að mestu verið látnir ósnortnir. Í ríkjum austurstrandar Norður-Ameríku eru það ekki bara minnkandi búsvæði sem herja á þessa tegund. Sérstök tegund ullarlúsa, ættuð frá Asíu, hefur numið þar land og lagst þungt á þallir. Hún getur varla hafa borist þangað nema fyrir tilstilli manna. Asísku þallirnar hafa þróast með þessari lús og þar veldur hún ekki teljandi tjóni. Þar á hún líka náttúrulega óvini sem lifa á lúsinni. Þeir hafa nú verið fluttir til Norður-Ameríku til að bjarga þöllunum og hefur það gefið góða raun. Sama hugmynd hefur verið rædd á Íslandi í tengslum við birkiþélu og birkikembu sem farið hafa illa með íslenskt birki eftir að þær bárust til landsins. Ef til vill þarf að flytja inn náttúrulega óvini þeirra til að bjarga birkinu.


Til vinstri má sjá fullorðnar lýs við barrnálar. Mynd: Mark Whitmore. Til hægri má sjá egg á nálum. Mynd: Cornell University Connecticut Agriculture Experiment Station. Myndirnar fengnar héðan þar sem fjallað er um ófögnuðinn.


Við vonum auðvitað að þessi padda berist ekki til Íslands og ber okkur að reyna að koma í veg fyrir það með öllum ráðum. Hér er heimild okkar um þetta skaðræði.



Tegundir

Tegundirnar þessarar ættkvíslar eru aðeins 8 til 10. Það verður að segjast eins og er að það ber ekki vott um mikið samlyndi plöntu- og flokkunarfræðinga að geta ekki komist að samkomulagi um fjöldann þegar hann er ekki meiri en raun ber vitni, en spilin liggja ekki þannig. Eins og svo oft áður leitum við til fræðinganna í Kew Gardens til að fá úr svona álitamálum skorið. Þeir halda úti vefsíðunni World FLora Online Samkvæmt þeirra spilum eru tegundirnar níu auk einnar blendingstegundar sem hefur mjög takmarkaða útbreiðslu.

Um helmingur tegundanna vex í Austur-Asíu en restin í Norður-Ameríku. Sumar í norðaustur hlutanum, aðrar í norðvestri. Þær tegundir sem reynst hafa hvað best á Íslandi eru af þessum amerísku tegundum frá vesturhluta álfunnar.

Hér á eftir segjum við aðeins frá þessum tegundum. Byrjum á amerísku tegundunum og tökum svo þær asísku. Þær eru lítt reyndar á Íslandi og eru hvergi mjög algengar. Að auki er alveg óvíst að þær þrífist hér á landi. Því er umfjöllun um þær styttri en um amerísku tegundirnar.


Fjallaþallir við Balmoral kastala í Skotlandi. Toppsprotinn sést vel á minni þöllinni en erfiðara er að greina hann á stóru þöllinni. Þau kvæmi sem borist hafa til Íslands af fjallaþöll sýna minni vöxt en þessar. Myndir Sig.A


Marþöll, Tsuga hetrophila Sarg.

Marþöll er önnur þeirra tegunda sem reynst hafa best á Íslandi. Því byrjum við á henni. Fræðiheitið hetrophila merkir „misjöfn lauf“. Í tilfelli þalla kallast laufin reyndar barr en það er aukaatriði. Nafnið er til komið vegna þess að nálarnar eru misjafnar að lengd og lögun er þær vaxa út úr greinunum. Nálarnar ofan á sprotanum vaxa nánast beint upp en til hliðanna vaxa þær meira fram. Neðri hluti sprotanna er oftast svo til nálalaus. Má þekkja þær á þessu einkenni frá öðrum þöllum.


Myndarleg marþöll í Lystigarðinum á Akureyri. Mynd: Sig.A.

Tegundin vex nálægt vesturströnd Norður-Ameríku, allt frá Kaliforníu og norður til suðurhluta Alaska. Tréð finnst einnig á nokkrum stöðum á einangruðum vaxtarstöðum fjær ströndinni, meðal annars í Bresku Kólumbíu og víðar. Mjög algengt á þessu vaxtarsvæði er að sjá sitkagreni og marþallir saman í skógum og oft er degli með í partíinu. Tréð er ríkistré í Wosingtonríki. Þar verða trén yfir 70 metrar á hæð og geta orðið meira en 1000 ára gömul (Spadea 2021). Aðrar tegundir þalla ná ekki þessari hæð og það er alveg óvíst hversu stórar þær geta orðið á Íslandi. Eins og áður segir gerum við þó ráð fyrir að marþöll geti orðið hávaxin á Íslandi.


Ungir könglar marþallar eru ljósgrænir á litinn. Mynd: Sigurður Þórðarson.


Skógarnir á heimaslóðum marþallarinnar nálægt norðvestur strönd Norður-Ameríku eru mjög hávaxnir. Jafnvel svo mjög að 70 metra háar þallir þykja ekkert tiltakanlega stórar. Aljos Farjon (2008) segir frá því að það sé nokkuð algent í þessum skógum að marþallirnar spíri hátt uppi í þessum stóru trjám svo kalla megi þær ásætur! Þar geta þær jafnvel vaxið töluvert áður en greinar eða stofn hýsiltrésins láta undan.


Heimkynni marþalla (fyrri mynd) og fjallaþalla (seinni mynd) í Norður-Ameríku samkvæmt Plantmaps.com. Eins og sjá má skarast útbreiðslan.



Fjallaþöll, Tsuga mertensiana (Bong.) Carrière Fjallaþöll ber þetta nafn því hún er fyrst og fremst háfjallategund. Að vísu vex hún alveg niður að sjávarmáli á nyrstu útbreiðslusvæðum sínu í Alaska en sunnar vex hún aðeins til fjalla. Hún hefur vaxið prýðilega á Íslandi en vex hægt og óvíst er hversu stór hún getur orðið hér á landi. Hún hefur gott frostþol og þroskar fræ nær árvisst á Íslandi. Hún er að auki alveg laus við hverskyns óþrif. Sjálfsagt má rækta hana meira í görðum hér á landi og í skjólgóðum skógum þar sem ekki er mikið pláss fyrir stór tré. Því miður verða oft töluverð afföll af ungum plöntum þegar þeim er plantað. Nálarnar á fjallaþöll vaxa fram á við á sprotunum og eru nánast jafndreifðir um allan sprotann.


Ungir könglar fjallaþalla eru mikil prýði. Sjá má hvernig nálarnar vaxa fram á við á sprotum. Mynd: Sigurður Þórðarson.


Fjallaþallarlundur í Hallormsstað. Mynd tekin í júní 2023, fullt af könglum frá 2022. Mynd: Helgi Þórsson.



Hvernig þekkjum við þær í sundur?

Þar sem marþöll og fjallaþöll eru langsamlega algengustu þallartegundirnar á Íslandi er ekki úr vegi að bera þær aðeins saman. Það gerði Sigurður Þórðarson í grein í Garðyrkjuritinu árið 2017 og lánaði okkur góðfúslega myndir úr þeirri grein. Það er ekki alveg auðvelt fyrir óvana að þekkja hvort við erum með marþöll eða fjallaþöll fyrir framan okkur. Aftur á móti er tiltölulega auðvelt að þekkja þær hvora frá annarri ef við erum með þær báðar fyrir augunum. Hægt er að þekkja þessar tegundir í sundur á nálunum. Hér að ofan er nálabyggingunni lýst. Ef það vantar nálar á neðra borð sprotans er það marþöll. Samt er það stundum þannig að stöku nál er á neðra borði marþalla þannig að aðferðin er ekki óbrigðul. Sigurður Þórðarson (2017) bendir á ágæta minnistækni í sinni grein sem byggir á þessu. Ef greinarnar eru marflatar eru þær á marþöll. Ástæða þessa er að nær allar nálarnar standa láréttar út frá greinunum en vantar á neðra borð þeirra. Annað einkenni á nálunum er það að neðra borðið er bláhvítt en mun meira áberandi á marþöll. Það er auðséð ef við berum saman smágreinar af báðum tegundum.


Smágreinar af marþöll (til vinstri) og fjallaþöll (til hægri). Myndin sýnir neðra borð þeirra. Á marþöllinni vaxa nálarnar nær beint út en á fjallaþöllinni vaxa þær fram. Nær engar nálar eru á neðra borði greinanna hjá marþöllinni og þær eru ljósari að neðan. Mynd: Sigurður Þórðarson.



Þriðja útlitseinkenni nálanna krefst þess að skoða þær með stækkunargleri. Þá kemur í ljós að fjallaþallirnar eru með heilrenndar nálar en marþallir hafa smákróka á jöðrunum.


Nálar á fjallaþöll og marþöll. Nálar fjallaþallarinnar eru heilrenndar en ef vel er að góð sést að marþöllin er með örlitla króka á nálunum. Myndir: Sigurður Þórðarson.

Annað sem skilur tegundirnar að eru könglarnir. Þótt almennt hafi þallir mjög litla köngla eru þeir heldur stærri á fjallaþöllinni en marþöllinni. Reyndar ber fjallaþöllin stærstu köngla ættkvíslarinnar og hjá henni eru ungir könglar ótrúlega fallegir á litinn. Þeir eru djúpfjólubláir en grána með aldrinum og verða smám saman brúnir. Marþöllin ber græna köngla. Báðar tegundir bera köngla nær árvisst eftir að ákveðnum þroska er náð og fjallaþöllin myndar þá yfirleitt fyrr en marþöllin. Vandinn er sá að oft tekur það eina tvo áratugi að mynda fyrstu könglana.

Blóm og könglar á fyrsta ári eru ólík hjá mest ræktuðu þöllum landsins. Myndirnar fengnar héðan og héðan. Fjallaþöll fyrst, svo marþöll.


Enn er ónefnt að þótt allar þallir hafi slútandi toppa þá slúta þeir miklu meira á marþöllinni fram að miðju sumri. Eftir það fer toppurinn að tréna og réttir sig þá aðeins. Eins og með sumt annað er erfitt að treysta á þetta nema hafa báðar tegundir til samanburðar.


Toppur marþallar á miðju sumri. Mynd: Sigurður Þórðarson.


Kanadaþöll eða skógarþöll, Tsuga canadensis Carrière Þessi tegund er frá austurhluta Norður-Ameríku og vex bæði sunnan og norðan vatnanna miklu en aldrei jafn norðarlega og ofangreindar tegundir frá vesturhluta sömu álfu.

Heimkynni skógarþallar samkvæmt Plantmaps.com.


Hún getur orðið um 500 ára gömul og 30 metrar á hæð. Til eru enn hærri tré eða allt að 47 metrar á hæð. Það verður að teljast merkilegt að þallirnar í austurhéruðum Bandaríkjanna þykja ekki eins góð timburtré eins og tegundirnar sem vaxa vestast í álfunni (Spadea 2021). Áður fyrr voru þær mun algengari á þessum slóðum en hefur fækkað mjög eftir að bleiknefjar námu land, bæði vegna skógarhöggs og ullarlúsar sem leggst á tegundina og áður er nefnd.


Mynd af skógarþöll sem einnig er kölluð kanadaþöll af vef Lystigarðsins. Hana tók Björgvin Steindórsson.


Á latínu er hún kennd við Kanada. Eins og vænta má gengur ekki „sunnan við línu“ eins og Vestur-Íslendingar sögðu gjarnan, að þýða latínuheitið á þessari tegund og kenna hana við nágrannaríkið „norðan við línu“. Þess í stað kalla Bandaríkjamenn hana Eastern hemlock eða austurþöll. Þá er marþöllin kölluð vesturþöll. Þessar tvær tegundir eru algengustu þallir Ameríku. Tréð er ríkistré Pensilvaníu. Ekki er vitað hvort hún getur myndað almennileg tré hér á landi eða hvort hún teljist frekar til runna. Margir þekktir trjáræktendur hafa reynt að rækta þessa tegund án mikils árangurs. Má nefna menn eins og Kristján Friðbertsson og Val Þór Norðdahl. Tegundin hefur verið reynd í Lystigarðinum og þótt margar hafi drepist lifa sumar þar og ná stundum að mynda köngla. Kemur nokkuð á óvart hversu vel hún stendur sig í garðinum. Til eru fjölmörg ræktunarafbrigði og yrkja af þessari tegund. Sumar óvenju lágvaxnar, aðrar með óvanalegan lit eða mjög slútandi vaxtarlag svo dæmi séu tekin.


Tvær plöntur af Tsuga canadensis ´Pendula´ í grasagarðinum í Edinborg. Myndir: Sig.A.



Fagurþöll, Tsuga caroliniana Engelm.

Í Lystigarðinum á Akureyri er til eitt eintak af þessari tegund og tvö eintök eru í uppeldi. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu garðsins segir að þessi eina hafi verið keypt og gróðursett árið 1985. Fyrstu árin varð hún fyrir endurteknu kali en frá árinu 2011, segir á síðunni, hefur hún þrifist vel. Sigvarður Einarsson rifjaði það upp fyrir okkur að árið 1994 kól hún svo illa að aðeins neðstu greinakransarnir lifðu. Nú virðist hún hafa komið sér vel fyrir og lítur vel út. Ef til vill má reyna þessa tegund víðar.


Ljómandi falleg Fagurþöll í Lystigarðinum. Hún stendur í hálfskugga en fær að njóta sólar yfir hádaginn. Mynd: Sig.A.

Ekki er alveg ljóst af hverju þessi þöll er kennd við fegurð frekar en aðrar þallir. Tegundin vex í 700 til 1200 metra hæð í Appalachian fjöllunum í austurhluta Bandaríkjanna. Hún vex fyrst og fremst í SV Virginíu, Norður Karolínu og allra nyrst í Georgíu. Sagt er að tegundin geti náð um 30 metra hæð og hún er náskyld hinni algengari skógar- eða kanadaþöll.

Fagurþöll, Tsuga caroliniana. Myndina á Jennifer Ceska og birti hana hér.

Tsuga ×jeffreyi (A.Henry) A.Henry Síðust amerísku tegundanna er þessi blendingstegund. X-ið í nafninu vísar í það. Annað foreldrið er fjallaþöll og er þessi blendingur stundum talinn afbrigði hennar eða undirtegund. Þannir er það meðal annars hjá The Gymnosperm Database Varla kemur annað til greina en að hitt foreldrið sé marþöll, ef þetta er blendingur en ekki afbrigði. Mjög óalgengt er að þessar tegundir blandist og er blendingurinn aðeins þekktur frá Suðvestur Kanada og Norðvestur Bandaríkjanna á landamærum Bresku Kólumbíu og Wahington.

Í lýsingu á tegundum marþallar og fjallaþallar var bent á að fjallaþöll er með áberandi loftaugu á báðum hliðum en marþöllin aðeins á neðra borði. Þessi er þarna mitt á milli. Áberandi loftaugu í tveimur röndum á neðra borði en minna áberandi og færri á efra borði. Annað hvort stafar þetta af því að þetta er blendingstegund eða aðlögun fjallategundarinnar að umhverfi neðar í fjallshlíðum. Tegundin hefur sennilega ekki borist til landsins en gaman væri að reyna hana. Hún ætti að geta þrifist hér.

Asískar tegundir

Þá snúum við okkur að asísku tegundunum. Þar sem þær hafa lítt eða ekki verið reyndar hér á landi og algerlega óvíst hvort þær þrífist hér yfir höfuð höldum við umsögnunum í lágmarki.


Tsuga diversifolia (Maxim.) Mast.

Tegund sem stundum hefur verið kölluð japansþöll, enda er hún ættuð þaðan. Hún vex villt á eyjunum Honshú, Kyushú og Shikokú. Ekki er hægt að útiloka að hún geti þrifist hér og hinn mikli ræktandi, Ólafur Sturla Njálsson telur að hún standi marþöllum fyllilega á sporði. Hún þarf góðan raka og ef hún er reynd hér fyrir norðan þarf hún gott skjól og sæmilega hlýjan stað. Nyrstu kvæmi tegundarinnar vaxa ekki endilega í miklum skugga í heimalandinu. Sennilega stafar það af því að hún þarf meiri hlýindi en hún fær á skuggsælum stöðum. Tegundin hefur verið reynd í Lystigarðinum en hefur ekki lifað af dvölina utan dyra.


Tsuga diversifolia. Greinar með nálum og könglum í snjónum í Japan. Myndina tók Sten Porse og birti hana á Wikipedia.


Tsuga sieboldii Carrière

Þessi tegund á sér ekkert íslenskt heiti sem fest hefur rætur. Hún vex á syðstu eyjum Japans. Tréð er ólíkt öðrum þöllum á því leyti að algengt er að það sé margstofna en ekki bara með einn stofn. Það þolir einnig meiri næðing en aðrar þallir og er jafnvel notað í skjólbelti í Japan, þótt hægvaxta sé. Það getur þó náð allt að 30 metra hæð. Ekki eins algeng og ofangreind tegund. Eins ot títt er um tré í Japan er tegundin stundum ræktuð sem bonsai-tré.


Tsuga sieboldii. Fyrri myndin fengin héðan en sú seinni héðan.


Tsuga chinensis (Franch.) E.Pritz. in Diels Á latínu er þessi tegund kennd við Kína en hún vex einnig í Tíbet, Taiwan og Víetnam. Tegundin er hávaxin og breytileg. Henni er gjarnan skipt í nokkur afbrigði. Í Arnold Arboretum í Boston hefur því verið veitt athygli að þessi kínverska tegund hættir að vaxa á haustin um 2 vikum á undan skógarþöllinni (kanadaþöll) sem þar vex. Það hljómar vel í eyrum okkar Íslendinga, en því miður hjálpar það ekki, því hún hefur líka vöxt um 2 vikum á undan skógarþöllinni. Því er vart við því að búast að hún vaxi hér á landi. Að minnsta kosti lifði hún ekki utan dyra í Lystigarðinum.


Þöll í Kína. Myndin er frá Arnold Arboretum.

Tsuga forrestii Downie

Lík ofangreindri tegund og er af sumum talin afbrigði hennar. Vex í blandskógum í háum fjöllum í um 2000-3000 metra hæð. Tegundin telst sjaldgæf og er ekki mikið ræktuð.

Tsuga dumosa Eichl. Tegund sem á ensku er kennd við Himalajafjöllin enda vex hún í þeim. Hún vex villt í Nepal, Indlandi, Bhutan, Myanmar, Víetnam og Tibet. Hún hefur verið flutt til Bandaríkjanna og Evrópu en er ekki mikið ræktuð. Það má heita merkilegt að hjá The Gymnosperm Database er sagt frá því að fræðiheitið dumosa muni vera algengt alþýðuheiti úr japönsku yfir þallir. Af hverju það er notað á tré sem vaxa í Himalajafjöllum er með öllu óþekkt. Sennilega einhver misskilningur. Ef við viljum gefa þessari tegund íslenskt heiti má kenna hana við hinn stóra fjallgarð eins og algengast er og kalla hana himalajaþöll. Einnig mætti þýða fræðiheitið úr japönsku. Þá héti tréð þallarþöll. Væri það á pari við ýmiss íslensk heiti sem hafa sama stofninn tvisvar í sama orðinu. Má þar nefna Vatnskarðsvatn, Gilsárgil og bílaleigubíl, en af nægu er að taka.

Gömul þöll í Himalajafjöllum. Myndin fengin héðan.

Þallir og kuldi

Í stórskemmtilegum hlaðvarpsþáttum hefur Thomas Spadea fjallað um allskonar tré. 20. þáttur hans er um þallir. Eins og svo algengt er í Bandaríkjunum er kastljósinu fyrst og fremst beint að tveimur algengustu tegundunum: Marþöll og skógarþöll. Í þættinum segir hann meðal annars sögur af þessum trjám sem ættaðar eru frá frumbyggjum Norður-Ameríku. Ein slík saga birtist fremst í þessum pistli og fjallar um marþöll. Við endum þennan pistil á annarri sögu. Hún tengist skógarþöllinni sem einnig er kennd við Kanada. Þessar frumbyggjasögur tengjast gjarnan því að topparnir drúpa í stað þess að sperra sig upp í loftið eins og algengast er.

Frumbyggjar í austurhluta álfunnar litu á skógarþöll sem tákngerving sigurs vorsins yfir vetrinum. Það tengist ekki bara hinum sígræna lit, því hann er vel þekktur hjá flestum tegundum ættarinnar. Þetta tengist því hvernig greinar og toppar bogna undan snjó en reisa sig við er vorar eins og ekkert hafi í skorist. Til er þjóðsaga þessu tengd.

Hún er frá Senekaþjóðinni sem bjó sunnan við hið stóra Ontarióvatn. Í menningu þeirra er til þjóðsagnapersóna sem er fulltrúi fyrir vetrarveðrin. Einskonar Vetur konungur. Nafn hans er Hóþó. Einu sinni hitti hugrakkur veiðimaður Hóþó. Hann hélt því fram að Hóþó gæti aldrei skapað svo kalt veður að það gæti orðið hinum mikla veiðimanni að fjörtjóni. Þessu var Vetur konungur ósammála og það fór svo að þeir ákváðu að kanna þetta strax um nóttina, sem var að skella á. Veiðimaðurinn safnaði að sér miklum eldiviði og kveikti stærðar bál. Hann vissi að það yrði sennilega ekki nóg svo hann safnaði saman nálum af þöllum og sauð upp á þeim og bjó sér til þallarte. Um nóttina varð alltaf kaldara og kaldara, en veiðimaðurinn bætti stöðugt á eldinn og drakk sitt þallarte alla nóttina til að halda á sér hita. Um morguninn varþ Hóþó að viðurkenna ósigur sinn. Sagan á að kenna okkur að ef rétt er að farið er hægt að lifa af hin köldustu veður. Sérstaklega ef við nýtum okkur kraft náttúrunnar og þá staðreynd að þótt þallir beygi sig fyrir Vetri konungi, þá rísa þær alltaf upp aftur og láta ekki bugast. Betra er að bogna en brotna.


Lokamyndin er fengin héðan. Hana tók Michaela.


Heimildir:

Department of Environmental Conservation (án ártals): Hemlock Woolly Adelgid


Aljos Farjon (2008): A Narual History of Conifers. Timber Press, Inc. Portland, Oregon, USA.



Ólafur Sturla Njálsson (2023) Munnlegar upplýsingar í des. 2023.



Thomas Spadea (2021): The Hemlock. Hlaðvarpsþáttur númer 20 úr þáttaröðinni My Favorite Trees. Sjá: https://mftpodcast.com/episode-20-the-hemlock/


Sigurður Þórðarson (2017): Fjallaþöll eða marþöll. Í: Garðyrkjuritið 2017. Ársrit Garðyrkjélags Íslands 97. árgangur, bls. 36-37. Garðyrkjufélag Íslands.


Í fleiri netheimildir er vísað beint í texta. Grasafræðingurinn Travis Anthony Þrymur Heafield fær okkar bestu þakkir fyrir aðgang að upplýsingum úr skráningum Lystigarðsins.

194 views0 comments

Recent Posts

See All

Comentarios


bottom of page