Í fyrndinni bjó allt mannkyn í gleðisnauðum heimi á tiltölulega litlum skika á þessari jörð. Endalaus nótt grúfði yfir og fólkið kunni ekki að kveikja eld. Hann var allur á valdi risabjarndýrs í hinu fjarlæga norðri. Gætti björninn eldsins af svo miklu offorsi að enginn maður vogaði sér að reyna að ná í svo mikið sem sýnishorn. Á þessum tíma var auðnutittlingur óásjálegur smáfugl í skóginum, án allra sérkenna. Hann heyrði mannkynið gráta þessi örlög sín enda skildu fuglar og menn hvorir aðra í þá daga. Þrátt fyrir smæðina var auðnutittlingurinn bæði kotroskinn og hugaður. Nú kom að því að þessi litli fugl vildi hjálpa mannkyni. Hann fór því í hina óralöngu ferð í norður í leit að hinum grimma birni. Á leiðinni lenti hann í margvíslegum ævintýrum sem margar sögur fara af og sannaðist þar að margur er knár þótt hann sé smár. Að lokum tókst honum með klækjum að næla sér í brot af eilífðareldinum. Hann flaug með hann til mannkyns í gogginum og var að sjálfsögðu tekið fagnandi. Litli fuglinn rétti fólkinu eldinn og bað það að gæta hans vel.
Þetta var engan veginn auðvelt fyrir svona lítinn fugl. Hans helsta vandamál á heimleiðinni var hitinn frá glóðinni sem hann bar á kvisti í nefinu. Hitinn skildi eftir sig rauðan blett á kolli fuglsins. Síðan ber hann þetta rauða merki á höfðinu sem vitnisburð um dáð sína, knáleika og hugrekki. Þessa skýringarsögn, um rauða blettinn í enni auðnutittlings, hafði Sigurður Ægisson í svipaðri útgáfu eftir frumbyggjaþjóð í Norður-Ameríku og birti í sinni skemmtilegu bók: Íslensku fuglarnir og þjóðtrúin (2020).

Auðnutittlingur, Carduelis flammea (syn. Acanthis flammea) er einn af þeim fuglum sem heldur til í skógum og kjarrlendi Íslands allt árið. Má líta á hann sem einn af einkennisfuglum birkiskóganna en hann heldur einnig til í blandskógum og verpir ekkert síður í grenitré en birkitré. Svo er algengt að hann dvelji í görðum landsmanna og þar verpir hann einnig og þiggur fóðurgjafir á vetrum. Hann er algengur og útbreiddur varpfugl og telst til finkuættar, Fringillidae.
Sumir segja að auðnutittlingar hér á landi séu taldir til sérstakrar deilitegundar. Kallast hún Carduelis flammea islandica. Sumar bækur geta þess ekki, svo ef til vill er þetta eitthvað málum blandið. Sigurður Ægisson (2024) fræddi okkur á að nokkur uppstokkun hefur verið að undanförnu í flokkun auðnutittlinga og skyldra tegunda. Það skýrir smávægilegan mun sem sjá má milli heimilda.

Lýsing
Eftir að glókollur nam land á Íslandi telst auðnutittlingur vera þriðji minnsti fugl landsins ef miðað er við lengd. Hann er um 13 cm langur og um 15 g að þyngd sem gerir hann örlítið lengri en músarrindil en minni en þúfutittling. Ef miðað er við þyngd er hann næst minnstur, því músarrindill er stundum örlítið þyngri, þótt ekki muni miklu. Því getur verið nokkuð örðugt að fullyrða um hvor fuglinn telst vera minni, eins og Guðmundur Páll (2005) bendir á í sinni bók, en glókollurinn er klárlega minnstur.
Grunnlitir fuglsins geta verið nokkuð breytilegir eftir árstíma. Þeir eru dekkstir á sumrin og eru fuglarnir þá mógráir að ofan með dekkri langrákum. Á veturna lýsist grunnliturinn. Bæði vængir og stél hafa ljósa fjaðurjaðra.

Auðvelt er að þekkja auðnutittling á kollinum því þar er skærrauði bletturinn sem hann fékk í fyrndinni. Kverkin er mósvört og ekki síður einkennandi fyrir tegundina. Er sá litur líka allt í kringum gogginn. Stundum er hægt að þekkja kynin í sundur á því að á karlfuglinum er fjólurauður blær á bringu á meðan kvenfuglinn er þar grár (Hjálmar 1986, Jóhann 2011). Þetta er mest áberandi á eldri karlfuglum en stóran hluta ársins sést þetta ekki. Auðnutittlingur hefur stutt stél og stuttan, keilulaga, gulan finkugogg. Á honum sést vel að fuglinn er frææta. Hann er það sterklegur að fuglinn fer létt með að brjóta fræskurn með honum.

Auðnutittlingar eru oftast í litlum hópum utan varptíma og stundum er eins og hópar sameinist. Þá geta hóparnir orðið allstórir. Yfir varptímann mynda þeir ekki hópa og eru þá ekki mjög áberandi.

Veðrið og þjóðtrúin
Í inngangi þessa pistils má sjá eina sögu sem Sigurður Ægisson birti í bók sinni frá árinu 2020. Nú höldum við okkur á heimaslóðum en horfum enn til bókar Sigurðar. Samkvæmt þeim frásögnum, sem lesa má í bókinni, birtist auðnutittlingur hér á landi á undan illviðrum.
Séra Snorri Björnsson birti þann fróðleik árið 1792 að þegar minni sólskríkjan eða heiðatittlingur komi til bæja viti hún fyrir „hardvidri langsöm“. Þarna koma fyrir tvö heiti sem notuð hafa verið á auðnutittling. Sambærilega sögu sagði karlmaður í Suður-Þingeyjarsýslu sem fæddur var árið 1897. Hann sagði að auðnutittlingar komi í stórum hópum úr skóginum í Aðaldalshrauni, einkum í mjög hörðum og löngum vorhretum. Þeir fara heim í tún eða að húsum í leit að æti. Svo hverfa þeir skyndilega og er þá segin saga að veðrið fer að skána.
Það sama var uppi á teningum víðar um land, að sögn Sigurðar (2020). Auðnutittlingar hópuðust að bæjum á undan illviðrum. Meðal fleiri sagna nefnir Sigurður konu í Eyjafirði sem fæddist árið 1911 og sagði að fuglinn spái vondu, bæði sumar og vetur, með einkennilegu kvörtunarhljóði. Þetta gerir hann oft löngu áður en óveðrið brestur á að sögn þessarar eyfirsku konu.

Nafnið
Nokkrir smáfuglar kallast tittlingar á Íslandi. Má þar nefna þúfutittling og snjótittling sem dæmi auk auðnutittlings. Annars er þetta heiti notað í ýmsum myndum á smáfugla hér á landi.
Fyrri liður orðsins, sem myndar heiti þessa litla fugls, er auðna. Orðið merkir hamingja eða jafnvel örlög. Því má draga þá ályktun að auðnutittlingur boði hamingju en ekki bara illviðri eins og greint er frá hér að ofan. Víst er að í gamalli þjóðtrú þótti það boða gæfu ef smáfuglar hlupu eða flögruðu á undan lestarmönnum. Vel má vera að orðið sé tengt þessari sögn. Sigurður Ægisson (2020 og 2024) segir frá því að í eina tíð hafi músarrindill verið kallaður auðnutittlingur um sunnanvert landið, einmitt vegna þess að hann flögraði gjarnan undan lestarmönnum. Ef til vill er þarna einhver samsláttur.
Önnur heiti sem notuð hafa verið á auðnutittling eru heiðatittlingur, litli snjótittlingur, minni sólskríkja, rauðkollur og auðnatittlingur (Sigurður 2020). Síðasta heitið er aðeins önnur mynd algenga heitisins sem mest er notað en hefur gjörólíka merkingu.
Heitið rauðkollur er auðskiljanlegt. Fyrst kom þetta heiti fyrir í riti Jóns lærða á fyrri hluta 17. aldar (Sigurður 2020) og er elsta heiti fuglsins sem ratað hefur á prent.
Heiðatittlingur og auðnatittlingur eru merkilegt orð því fuglinn er fyrst og fremst að finna í skógum á láglendi. Þau heiti ber þó að skoða í ljósi sagna sem urðu til þegar svo lítið var um fuglinn að fólk taldi hann halda til fjærri mannabyggðum á heiðum uppi. Þeir Eggert og Bjarni notuðu annað þessara orða og kölluðu fuglinn auðnatittling að sögn Sigurðar Ægissonar (2020). Það er gaman að sjá hvað ein breyting á sérhljóða skiptir miklu máli.

Útbreiðsla
Auðnutittlingur er algengur í skóglendi og gróskumiklum görðum um nánast allt land en útbreiðsla hans er slitrótt. Stafar það fyrst og fremst af almennum skorti á skógum. Hann er fyrst og fremst fugl láglendis en þar sem skógar teygja sig upp í 400 m hæð yfir sjávarmál fylgir fuglinn á eftir. Einar Þorleifsson (2015) bendir á að gera má ráð fyrir að auðnutittlingur hafi verið mun tíðari við landnám en síðar varð, enda var landið fýsilegt til búsetu fyrir skógarfugla þegar hér voru birkiskógar milli fjalls og fjöru.
Fyrr á öldum, þegar kjörlendi auðnutittlings hafði verið nær gjöreytt með búfjárbeit og annarri ósjálfbærri landnýtingu, var fuglinn nánast horfinn með skógunum sem hann er háður. Það sést meðal annars á Ferðabók Eggerts og Bjarna, sem fyrst var gefin út árið 1772. Í kaflanum um Vestfirði segja þeir að stundum sjáist þar ókenndir fuglar á Íslandi. Þar er meðal annars fjallað um fugl sem samkvæmt lýsingu getur ekki verið neinn annar en auðnutittlingur. „Hann kemur í stórhópum og er svo gæfur og gálaus í atferli sínu, að hann sezt á húfur manna og hatta. Tittlingur þessi er ekki stærri en rindillinn, en bústinn og klunnalegur, almórauður, en þó ljósari á brjóstinu. Hann er ólíkur öllum öðrum íslenzkum tittlingum í því að kollur hans er rauður. Við höfum þessa tilvitnun eftir Sigurði Ægissyni (2020). Hann telur að þessi frásögn bendi sterklega til þess að menn hafi ekki þekkt þennan fugl nema afar takmarkað. Að sögn Sigurðar var íslenski stofninn bundinn við norðlenska og austfirska birkiskóga á þessum tíma. Þannig sagði karlmaður í Suður-Þingeyjarsýslu, sem fæddur var árið 1897: „Að auðnutittlingum er mikil mergð í skógum og þá einnig í skóginum í Aðaldalshrauni“ (Sigurður 2020).
Auðnutittlingar á lerkigreinum. Þeir hafa lært að éta fræ úr könglum eins og þessum sem sjá má á tveimur myndanna. Myndir: Sigurður H. Ringsted.
Einar Þorleifsson (2015) bendir á að birkiskógarnir lifðu helst af þar sem var fremur fábýlt og því takmörkuð beit sem getur komið í veg fyrir að birkiskógar endurnýi sig. Þess vegna var auðnutittlingur lengi vel algengastur á Norður- og Austurlandi en samhliða aukinni skógrækt hefur honum fjölgað víða um landið. Þetta fellur vel að frásögn Sigurðar hér að framan.
Fuglinn virðist vera nokkuð lengi að leggja undir sig ný búsvæði, því hann er staðfugl sem heldur sig í svipuðu kjörlendi allt árið og fer ekki mjög víða (Guðmundur Páll 2005). Það á þó ekki við um veturinn, samkvæmt Kristni Hauki Skarphéðinssyni (2018). Hann segir að yfir veturinn flakki auðnutittlingar töluvert um. Einar Þorleifsson (2015) segir að fuglar af þessari tegund sem merktir voru í Reykjavík, hafi sést á Akureyri.
Einnig er rétt að geta þess að samkvæmt meðfylgjandi korti, sem fengið er af vef Náttúrufræðistofnunar Íslands, er um þessar mundir ekkert minna um auðnutittlinga á suðvesturhluta landsins en á Norðausturlandi. Til dæmis kemur fram á vefnum að 16,7% reiknaðs stofns sé á Suðurlandi. Þetta kann að vera breyting frá því að Guðmundur Páll skrifaði sína bók árið 2005. Nú er svo komið, segir Einar (2015) að varla er til sá ræktaði trjálundur þar sem auðnutittlinga verður ekki vart. Er óhætt að segja að auðnutittlingar séu sérstakir unnendur trjágróðurs og skóga. Með fjölgun þeirra hefur fuglunum einnig fjölgað. Á vef Náttúrufræðistofnunar kemur fram að um 82% stofnsins er að finna í skógum landsins en 22% á þeim svæðum sem teljast innan mikilvægra fuglasvæða á landinu.

Gestir
Heimkynni auðnutittlinga eru á breiðu belti um allt norðurhvelið, allt að Íshafi (Jóhann Óli 2011, Guðmundur Páll 2005, Sigurður 2020). Flestir þeirra eru staðfuglar en fuglar sem verpa næst Íshafinu teljast farfuglar.

Á suðurhluta Grænlands má finna auðnutittlinga sem teljast til farfugla. Þeir koma gjarnan hingað á haustin og sumir eru hér allan veturinn og fara síðan vestur til Grænlands að vori. Þeir eru grunaðir um að hafa stundum verpt hér á landi. Því má vel vera að sumir auðnutittlingar, sem við sjáum á vetrum, séu ekki endilega íslenskir staðfuglar, heldur grænlenskir farfuglar. Tittlingar eru víðar á Grænlandi. Hingað koma stundum náskyldir tittlingar frá norðurhluta Grænlands. Þeir eru ljósari að lit, heldur stærri og með mjórri gogg að sögn Guðmundar Páls (2005). Lengi voru þeir taldir til sérstakrar tegundar sem kallast hrímtittlingur eða Carduelis hornemanni. Samkvæmt upplýsingum frá Sigurði Ægissyni (2024) hefur nú verið fallið frá því að kalla hrímtittling sérstaka tegund, heldur er hann talinn undirtegund auðnutittlinga. Þessi breyting var ekki gerð fyrr en í júlí 2024 og þá var birkifinka einnig flokkuð sem auðnutittlingur. Þetta sýnir okkur ágætlega að Sigurður Ægisson er með puttann á púlsinum í þessum fræðum. Vegna þess hve sutt er síðan þessi breyting var gerð er hrímtittlingur ekki merktur á kortið hér að ofan. Stundum eru íslenskir auðnutittlingar nokkuð ljósir og þá getur verið torvelt að greina þessa fugla í sundur. Þá bætir ekki úr skák að á veturna eru auðnutittlingar ljósari að lit en á sumrin. Því getur litur þeirra verið mjög áþekkur að vetri til.

Fæða
Auðnutittlingur er fyrst og fremst frææta. Hann er sérstaklega hrifinn af birkifræi og er í raun háður því. Samt fúlsar hann ekki við öðru fræi ef það er í boði. Hann étur lerkifræ og fræ annarra barrtrjáa ef hann kemst í það. Einnig elrifræ og fræ af víði og ösp ásamt fræi ýmissa fjölæringa sem margir hverjir geta vaxið í skógum. Mikið af þessu fræi er afar smátt og sumt jafnvel innan við millimetra í þvermál (Einar 2015). Það á meðal annars við um víði- og aspafræ.
Hjálmar R. Bárðarson (1986) minnir á að hann éti einnig reynifræ. Það gagnast ekki reynitrjánum eins og þegar þrestir éta berin því fræið kemst ekki óskaddað í gegnum meltingarveg auðnutittlinga (sjá hér neðar). Auðnutittlingar hafa ekki nokkurn áhuga á berjunum sjálfum. Þeir tæta þau niður þar til þeir ná í fræin sem eru innan í þeim og éta þau. Það er virkilega skemmtilegt að fylgjast með því hvernig þeir fara að.
Tvær frábærar myndir af auðnutittlingum í berjaveislu að vetri til. Þeir hafa þó ekki áhuga á sjálfum berjunum, heldur fræjunum sem eru inni í þeim. Myndir: Emma Hulda Steinarsdóttir.
Á sumrin tekur auðnutittlingur einnig ýmis skordýr og fóðrar hann unga sína á þeim ásamt fræjum. Hann hefur lært að éta sitkalús og fleiri skordýr sem finna má í skógum þannig að ef lítið er um fræ getur hann sótt í lýs og aðrar pöddur ef á þarf að halda. Þetta bendir til þess að þótt auðnutittlingar séu almennt taldir háðir birkiskógum, þá geta fjölbreyttir skógar tryggt þeim fæðu ef í harðbakkann slær og fæðan bregst í birkinu.

Auðnutittlingar fara einnig niður á jörðina í fæðuleit. Þar má gjarnan finna ýmis fræ í skógum, meðal annars af þeim botngróðri sem þar þrífst. Því meira af blómum og puntstráum, þeim mun meira fræ er að finna handa þeim.

Enn er ónefnt að auðnutittlingur étur gjarnan dálítinn sand. Sandur í sarpi frææta hjálpar til við að mylja og melta fræið svo það nýtist sem fæða. Þetta bætist við þá staðreynd að goggur fuglsins getur brotið skurn utan af fræjum. Þess vegna berst ekkert lifandi fræ út með driti auðnutittlings. Sama á við um ýmsa aðra fugla. Það er til dæmis vel þekkt að hænur þurfa að komast í sand til að ráða við að melta fræ.
Þar sem fuglum er gefið fræ á vetrum má gjarnan sjá auðnutittlinga. Sennilega er allra best að fóðra þá á fóðurbrettum með sólblómafræi.
Birkifræ er aðalfæða auðnutittlinga. Myndirnar teknar í desember þegar hluti af fræinu hefur fokið og liggur í snjónum ásamt hismi. Sjá má á fyrri myndinni að hluti af fræinu er horfinn en af nægu er að taka. Misjafnt er á milli ára hversu mikið er af fræi og stundum neyðist fuglinn til að leita annarrar fæðu. Myndir: Sig.A.
Veturinn
Eftir varptímann ferðast auðnutittlingar gjarnan um í smáhópum. Þannig er það einnig á veturna. Því má oft sjá smáa hópa af þeim í skógum frekar en einstaka fugla. Fram eftir vetri er þá helst að finna í birkitrjám við fræát. Þar sem mikið er af þeim má gjarnan sjá hismið af fræinu á jörðinni undir trjánum (Einar og Daníel 2006). Vitanlega er þetta mest áberandi ef snjór er á jörðu.
Þegar lítið er um birkifræ getur verið ansi hart í búi hjá þessum smávinum okkar. Þá sækja þeir gjarnan í svæði þar sem sjá má auða jörð og leita þar ætis. Þegar svo háttar koma þeir mjög gjarnan nærri mannabústöðum. Þetta varpar ljósi á sagnirnar úr bókinni Íslensku fuglarnir og þjóðtrúin sem sagt er frá hér fyrr í pistlinum.
Þótt auðnutittlingur teljist til staðfugla þá á hann það til að flakka mikið á veturna eins og áður er nefnt. Vel má vera að það stafi af leit hans að fæðu. Þetta gæti sem best verið ástæða þjóðsagna um að þeir birtist á undan harðviðrum.

Fjölgun
Auðnutittlingar gera sér hreiður ýmist í birki- eða grenitrjám. Oft er þau að finna nærri mannabústöðum eða trjáræktarstöðvum að sögn Hjálmars R. Bárðarsonar (1986). Að auki er auðnutittlinga víða að finna í skógum eins og þekkt er og auðvitað verpa þeir í skógartrjám. Það er dálítið skemmtilegt að segja frá því að bæði í bókum Hjálmars R. Bárðarsonar (1986) og Jóhanns Óla Hilmarssonar (2011) eru myndir af auðnutittlingum í hreiðri. Í báðum tilfellum eru þau í grenitrjám. Mynd Jóhanns Óla er einnig að finna í bók Guðmundar Páls (2005).
Tilhugalíf auðnutittlinga hefst í mars og apríl. Þá eru fuglarnir gjarnan í hópum og mikið ber á biðilslátum milli þess að þeir fá sér í gogginn. Fuglar á biðilsbuxum eru hávaðasamir, rífast mikið og hver eltir annan. (Guðmundur Páll Ólafsson 2005).

Oft er hreiður að finna nærri mannabústöðum eða trjáræktarstöðvum að sögn Hjálmars R. Bárðarsonar (1986). Að auki eru fuglarnir víða í skógum eins og þekkt er og þar verpa þeir að sjálfsögðu.
Tilhugalíf auðnutittlinga hefst í mars og apríl. Þá eru fuglarnir gjarnan í hópum og mikið ber á biðilslátum milli þess að þeir fá sér í gogginn. Fuglar á biðilsbuxum eru hávaðasamir, rífast mikið og hver eltir annan. (Guðmundur Páll 2005).

Hreiður þessa litla vinar eru gjarnan í 2-8 metra hæð yfir jörðu en annars fer það eftir aðstæðum. Stundum verpir hann í þétta runna sem eru lægri en þetta og hann getur vel verpt í stórum grenitrjám sem eru mun hærri en uppgefnar tölur. Kvenfuglinn annast hreiðurgerðina. Hreiðrið er haganlega gerð karfa úr sinustráum, smágreinum og öðru tiltæku. Til að koma réttri lögun á hreiðrið þrýstir kvenfuglinn sér ofan í körfuna og snýr sér í nokkra hringi. Hreiðrið er síðan fóðrað með hári, fjöðrum og jafnvel ull eða einhverju álíka (Hjálmar 1986, Jóhann Óli 2011).
Varp auðnutittlinga getur hafist í apríl ef þeir hafa grenitré eða önnur sígræn barrtré til að verpa í. Aðalvarptíminn fylgir laufgun birkist um mánaðarmótin maí-júní og stendur fram í júlí. Fuglarnir geta verpt tvisvar eða jafnvel þrisvar á ári ef þeir verpa fyrst í sígræn barrtré. Ef engin grenitré eru til að verpa í fækkar vörpunum um eitt, því þeir verpa ekki í birkið fyrr en það er laufgað og veitir skjól. Karlfuglinn helgar sér varpóðal og auglýsir yfirráð sín með söng úr setstað.
Oftast eru eggin fjögur til sex að tölu og tekur klakið um 11 daga. Eggin eru mjög smá eða aðeins um sentimetri á lengd. Hjálmar (1986) segir að foreldrarnir skiptist á að liggja á eggjunum en Guðmundur Páll (2005) segir að aðeins kvenfuglinn liggi á. Þótt auðnutittlingur sé fyrst og fremst frææta, eins og sjá má á nefi hans, þá fóðrar hann unga sína að stórum hluta á skordýrum. Báðir foreldrarnir bera björg í bú eftir að ungarnir stálpast.

Eftir um tvær vikur eða tæplega það yfirgefa ungarnir hreiðrið og til að byrja með fylgja þeir foreldrum sínum. Það tekur þá um fjórar vikur að vera alveg sjálfbjarga.
Ungarnir eru í fyrstu brúnflikróttir og án rauða blettsins á enni sem einkennir fullorðna fugla. Þegar líður á ágústmánuð fá ungarnir sama lit og foreldrarnir.
Þrír ungar. Þeir líkjast foreldrum sínum en vantar rauða blettinn á ennið. Myndir: Sigurður H. Ringsted.
Fjöldi
Í Íslenskum fuglavísi eftir Jóhann Óla Hilmarsson (2011) segir að á Íslandi séu um 10.000 til 30.000 varppör. Þessar tölur eru byggðar á þeirri þekkingu sem þá var til staðar en bilið verður að teljast nokkuð breitt. Hluti skýringarinnar er sú að almennt verða mikil afföll af auðnutittlingum yfir veturinn en mikill munur er á milli ára. Það ræðst einna helst af fæðuframboði þótt miklir kuldar kunni einnig að eiga hlut að máli. Stundum fer það saman. Ef tíðin er hörð getur verið erfitt að ná í fræ sem hugsanlega hefur fokið af trjánum og grafist í snjó. Ef mikið er af birkifræi farnast honum vel en í lélegum fræárum fækkar honum mikið, einkum ef ekkert annað er að hafa í staðinn. Sé tekið mið af þessu er ágiskun Jóhanns Óla vel skiljanleg og mjög góð.

Kristinn Haukur Skarphéðinsson (2018) segir frá því á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands að varpstofninn sé 31.000 pör. Þar liggja að baki nákvæmari gögn en Jóhann Óli bjó yfir árið 2011. Á vef Fuglaverndar er að finna sömu tölu en að auki segir að á vetrum séu hér 20.000-100.000 einstaklingar. Segir það sína sögu um stofnsveiflurnar.
Vonandi getur aukin skógrækt, einkum þar sem fuglinn hefur lært að ná í fræ sumra barrtrjátegunda, hjálpað þessum fallega, litla fugli að lifa hér af. Að auki má sums staðar sjá vöxtulegan undirgróður í skógum sem getur gefið heilmikið fræ og þannig hjálpað þessum gleðigjafa að lifa af veturinn í íslenskum skógum.

Skoðun
Oft heyrist í auðnutittlingum áður en þeir sjást. Þetta á ekki síst við í skógum þar sem tré geta dregið nokkuð úr útsýni. Fuglarnir eiga það til að kallast heilmikið á sín á milli. Því er oft hægt að ganga á hljóðið og finna þá þannig. Þá er hægt að virða þá fyrir sér. Þar hjálpar líka að auðnutittlingar eru með gæfari smáfuglum (Einar og Daníel 2006). Þegar fuglarnir mynda hópa eru þeir að jafnaði mun styggari en snemmsumars þegar þeir eru í varphugleiðingum. Komi styggð að einum fugli fljúga þeir allir upp. Aftur á móti er stundum hægt að komast ótrúlega nærri stökum fuglum. Staka auðnutittlinga má jafnvel kalla spaka. Fjörugastir eru þeir í tilhugalífinu og þá er líka auðveldast að finna þá. Svo má oft sjá þá í görðum að vetri til, einkum þar sem birkifræ er að finna. Þeir sækja líka í fæðugjafir og líkar stórvel við fuglaböð í görðum.

Að lokum
Það er engum blöðum um það að fletta að aukin skógrækt á Íslandi hefur styrkt stofna auðnutittlinga hér á landi og gert þeim lífið bærilegra. Sama má reyndar segja um ýmsa aðra skógarfugla. Bæði þá sem hafa verið hér frá aldaöðli og hina sem nýlega hafa numið hér land (Einar og Daníel 2006).
Við getum ekki annað en gert þessi orð að okkar og við þennan sannleika er litlu að bæta nema þökkum til Guðríðar Gyðu Eyjólfsdóttur fyrir að lesa yfir próförk og leiðrétta það sem miður hafði farið í textanum. Einnig viljum við færa öllum þeim sem veittu okkur upplýsingar og lánuðu okkur myndir okkar bestu þakkir. Þar viljum við sérstaklega nefna Sigurð Ægisson, Sigurð H. Ringsted, Emmu Huldu Steinarsdóttur, Örn Óskarsson og Einar Þorleifsson.

Heimildir
Einar Ó. Þorleifsson og Daníel Bergmann (2006): Fuglalíf í skóginum að vetrarlagi. Í Skógræktarritið 2006 2. tbl. bls. 84-89. Skógræktarfélag Íslands, Reykjavík.
Einar Þorleifsson (2015): Fuglarnir í skóginum - Auðnutittlingur (Acanthis flammea). Í Skógræktarritið 2015 1. tbl. bls. 78-81. Skógræktarfélag Íslands, Reykjavík.
Hjálmar R. Bárðarson (1986): Fuglar Íslands. Bls. 244-245. Hjálmar R. Bárðarson, Reykjavík. Guðmundur Páll Ólafsson (2005) Fuglar í náttúru Íslands. Bls. 230-231. Mál og menning.
Jóhann Óli Hilmarsson (2011): Íslenskur Fuglavísir. 3. útgáfa, bls. 240-241. Mál og menning.
Kristinn Haukur Skarphéðinsson (2018): Auðnutittlingur (Acanthis flammea). Á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands. Sjá: Auðnutittlingur (Acanthis flammea) | Náttúrufræðistofnun Íslands. Sótt 28.12.2024.
Sigurður Ægisson (2020): Íslensku fuglarnir og þjóðtrúin. Bókaútgáfan Hólar
Sigurður Ægisson (2024): Munnlegar heimildir í gegnum samskiptamiðla þann 29. 12. 2024.
Comments