top of page

Balsaviður

Writer's picture: Sigurður ArnarsonSigurður Arnarson

Norðmaðurinn hafði siglt og látið sig reka á litlum fleka yfir óravíddir Kyrrahafsins ásamt fimm félögum sínum og páfagauk. Þeir höfðu verið 101 dag á leiðinni þegar þeir komust til kóraleyjarinnar Túamótú sem er hluti af Pólýnesíu. Þá höfðu þeir lagt að baki um 6900 km leið frá vesturströnd Suður-Ameríku. Hvað voru þeir að þvælast og hvers konar fleki er það sem hægt er að nota til svona úthafssiglinga?

Þessi Norðmaður var enginn annar en þjóðfræðingurinn Thor Heyerdahl (1914 – 2002). Hann var sannfærður um að landnám manna í Pólýnesíu hafi verið frá austri til vesturs en ekki frá vestri til austurs eins og almennt var talið. Til að sýna fram á að ferðalög frá Suður-Ameríku til Pólýnesíu hefðu verið möguleg á forsögulegum tíma bjó hann sér til fleka og sigldi þessa leið í frægum leiðangri árið 1947. Flekinn og leiðangurinn gengu undir nafninu Kon-Tiki og í Osló er safn sem er tileinkað þessari ferð. Þessi pistill fjallar um trjátegundina sem Heyerdahl notaði í þennan sögulega leiðangur.

Thor Heyerdahl á flekanum góða. Myndin fengin frá norsku safni sem tileinkað er leiðangrinum.


Balsaviður

Trjáviðurinn sem Heyerdahl notaði í flekann sinn var af tegund sem kallast Ochroma pyramidale. Á flestum tungumálum er tréð kallað balsa eða eitthvað í þá áttina. Á íslensku hefur heitið balsaviður verið notað en einnig hefur orðið korkviður sést. Það nafn er ekki alveg nægilega lýsandi því þrátt fyrir að við teljum kork ákaflega létt efni er það að jafnaði um þrefalt eðlisþyngra en balsaviður. Heitið „balsa“ er ættað úr spænsku og merkir fleki. Er það vel til fundið enda flýtur balsaviður alveg einstaklega vel eins og nærri má geta með svona léttan við. Ef við viljum endilega íslenska heitið mætti kalla bæði tréð og viðinn flekavið. Það heiti virðist með öllu óþekkt. Því notum við heitið sem best þekkist.

Akur af balsavið. Myndin fengin héðan.

Eiginleikar

Balsaviður er þekktur fyrir að vera alveg ótrúlega eðlisléttur og sterkur miðað við þyngd. Samkvæmt þessari heimasíðu er eðlisþyngdin aðeins 40-340 kg/m³. Tegundin er frumbýlingur í hitabeltinu og vex mjög hratt. Tréð getur vel náð um 30 metra hæð á innan við 15 árum og dæmi eru um allt að þriggja metra vöxt á einu ári. Þetta tvennt, mjög léttur viður og hraður vöxtur, tengist afar náið. Eftir því sem tréð vex hraðar verður viðurinn léttari.

Talið er að balsaviður sé léttasti viður sem almennt er nýttur til smíða í heiminum. Þessi viður er samt ekki léttasti trjáviður í heimi. Til eru tegundir sem mynda enn léttari við en viður þeirra trjáa er ákaflega veikbyggður og er því ekki nýttur til smíða af neinu tagi. Rysjan er mest notuð. Hún er mjög ljós á litinn, nánast hvít en hefur stundum gulleitan eða bleikan blæ. Segja má að balsaviður taki sér ýmsa fræga rokkara til fyrirmyndar þegar kemur að lífsferli. Tréð lifir eftir mottóinu: "Live fast, die young". Ef þér, lesandi góður, er illa við svona enskuslettur getum við þýtt þetta yfir á dönsku: "Lev hurtigt dø ung". Þetta er reyndar vel þekktur lífsmáti hjá mörgum frumbýlingstrjám, en þessi tegund verður sjaldan eldri en 35 ára en algengara er að hún verði um 27 ára gömul. Meðal þeirra poppgoða sem dáið hafa 27 ára gömul má nefna Jim Morrison, Kurt Cobain, Janis Joplin, Amy Winehouse, Jimi Hendrix og Brian Jones.


Lýsing

Þetta er beinvaxið lauftré með fremur smáa krónu. Laufin eru stór. Sjaldan undir 30 cm á lengd og stundum stærri. Þau eru nokkuð þríhyrningslaga og enda í oddi. Nálægt honum eru tveir flipar svo laufin minna dálítið á lauf á hlyni. Viðurnefnið pyramidale vísar í lögun laufblaðanna.


Þrjár myndir af laufum balsaviðar. Fyrstu tvær eru héðan af síðu sem kallast Tropical Plant Encyclopedia. Lokamyndin sýnir óvenjustórt laufblað. Hana á © Mark Thompson. Sú mynd er fengin af vefsíðunni Inaturalist.org.

Tréð fer jafnan að blómstra þegar það hefur náð þriggja ára aldri. Blómin eru hvít og bjöllulaga. Út úr þeim standa gulir, áberandi fræflar. Sum tré hitabeltisins hafa myndað náið samband við einstaka frævara þannig að sem minnst af frjói fari til spillis. Balsaviðurinn er ekki þannig. Mjög fjölbreyttur hópur dýra sækir í blómin sem framleiða mikið frjó. Í þau sækja margvísleg skordýr, fuglar og spendýr, þar á meðal leðurblökur. Jafnvel apar taka þátt í veislunni. Sum dýrin sækja í blómin á daginn, önnur á nóttinni og mun það vera algengara. Þetta veisluborð laðar einnig að ýmiss rándýr sem bíða í rólegheitunum uns frjóberarnir birtast. Spide (2023) segir frá rannsókn þar sem kom í ljós að 22 tegundir fugla sóttu í blómin. Eru þá skordýr og spendýr ótalin. Þeir sem vilja fræðast meira um frjóbera balsaviðar er bent á þessa grein.

Glæsileg mynd af blómi balsaviðar. Myndin fengin héðan.


Tvær myndir af ólíkum dýrum sem sækja í þessi blóm. Sú fyrri sýnir arnpáfa og er fengin af heimasíðunni Inaturalist.org. Myndina á © Chien Lee. Seinni myndin sýnir næturdýrið kinkajou sem er sækir mikið í þessi blóm. Myndin er frá National Geographic. Á þeirri síðu má sjá fleiri dýr sem sækja í blómin.

Fræin eru í fyrstu græn og síðan ljósbrún. Þau hafa löng svifhár sem geta borið þau víða. Stundum hefur fræullin verið notuð sem troð í kodda og dýnur.


Fræ og fræull. Fyrri myndin er frá Inaturalist.org og hana á © Jim (sem segir ekki mikið). Seinni myndin er frá Kew Gardens en hana tók © Dick Culbert.

Útbreiðsla

Balsaviður vex villtur frá suðurhluta Mexíkó og suður til regnskóga Suður-Ameríku frá láglendi og upp í um 1800 metra hæð yfir sjávarmáli. Að auki hefur tréð verið flutt til ýmissa landa hitabeltisins til ræktunar. Má þar nefna Andamanneyjar, Kamerún, Víetnam, Indónesíu og jafnvel Galápagos eyjar.

Kort frá Kew Gardens. Grænmerkt eru þau lönd þar sem tréð finnst villt en á kortið eru einnig merkt önnur þau lönd þar sem tréð er ræktað.


Balsaviður vex ekki eingöngu í síblautum regnskógum. Hann vex einnig á stöðum þar sem skiptast á þurrkatímabil og regntímabil. Á slíkum stöðum kastar hann laufinu á þurrkatímum sem verða einhvern tímann á tímabilinu desember til apríl og laufgast aftur þegar fer að rigna á ný. Vanalega standa þurrkarnir ekki lengi yfir og því er hvíldartíminn ekki langur. Þar sem engin þurrkatímabil ganga yfir telst balsaviður sígrænn.

Mynd af síðu Inaturalist.org en hana tók © Mateo Hernandez Schmidt.


Ræktun

Tegundin er töluvert mikið ræktuð þótt dregið hafi úr ræktuninni hin síðari ár. Stafar það af því að ýmis gerviefni hafa leyst viðinn af hólmi. Það er þó almennt talið umhverfisvænna að nota trjávið en plastefni, svo framtíð ræktunar er nokkuð björt. Stundum er balsaviður ræktaður á plantekrum og er þá vaxtarlotan sjaldan höfð lengri en sex til tíu ár. Þá er stærð trjánna heppileg til vinnslu. Það er enn skemmri tími en líftími rokkstjarna en getur verið í samræmi við þann tíma sem þær skína í lifanda lífi. Í heiminum er langmest framleitt af balsaviði í Ekvador. Meira en 95% heimsframleiðslunnar er þaðan en í öðrum löndum eru trén ræktuð í minna mæli. Á það bæði við um lönd þar sem trén finnast villt og önnur lönd þar sem aðstæður fyrir ræktun henta vel.

Trén þurfa sólríkan og bjartan stað og gott afrennsli. Þau þrífast ekki í of blautum jarðvegi. Því miður er það svo að ekki er allur viðurinn í Ekvador fenginn með heiðarlegum hætti. Hluti af viðnum er einfaldlega stolið af Sapara frumbyggjaþjóðinni þar í landi. Um það má meðal annars lesa hér þar sem sagt er frá einskonar timburmafíu í Ekvador. Þetta er ekki síst sorglegt í ljósi þess að meðal frumbyggjanna telst tegundin mikilvægur menningararfur. Tréð telst heilagt á meðal þeirra og er notað í trúarathafnir, til lækninga og til verndar. Svo koma bara einhverjir dúddar og stela trjánum!

Stolinn balsaviður við Conambo ána á landsvæði Saparo þjóðarinnar í Ekvador. Myndin fengin héðan.


Notkun

Mjög algengt er að nota balsavið í hverskyns módelsmíði, enda auðvelt og meðfærilegt að smíða úr viðnum og það sem smíðað er úr honum verður mjög létt. Sjálfsagt hafa einhverjir lesendur sett saman módel úr balsavið án þess að vita hvaða tré þeir (fornafnið vísar hér í kk orðið „lesandi“ en hefur ekkert með kyn viðkomandi að gera) voru með í höndunum. Viðurinn er þó ekki bara nýttur í leikföng og föndur. Allskonar hönnuðir smíða gjarnan hluti fyrst úr balsavið til að sjá hvort og hvernig þeir virka. Má nefna bíla, flugvélar og brýr sem dæmi. Þetta hjálpar hönnuðum að finna út styrkleika og veikleika í hönnun sinni án þess að þurfa að smíða hlutina úr dýrum efnum. Fyrir varanlegri smíði eru önnur efni notuð, jafnvel önnur tré sem endast betur.

Einnig má nefna að viðurinn er stundum notaður í blöð eða vængi á vindmyllum ef fólk vill síður nota plast. Rétt eins og plastið slitnar viðurinn dálítið með tímanum vegna þess vindálags sem vængirnir verða fyrir. Kosturinn er sá að efnin sem þannig losna úr balsavið eru lífræn en ekki ólífrænt plast sem safnast upp í umhverfinu. Enn er ónefnt að balsaviður er ákaflega algengur í leikmyndagerð, bæði í leikhúsum og kvikmyndum. Kemur þar sér vel hversu léttur viðurinn er. Auðveldar það sviðsmönnum að sinna starfi sínu og dregur mjög úr hættu á að leikarar slasist í vinnunni (Tudge 2005).

Flugmódel af Spitfire orrustuflugvél úr balsaviði. Myndin fengin af þessari sölusíðu.


Áður fyrr var viðurinn meðal annars nýttur í björgunarvesti og -kúta, einnig í björgunarbáta og hitabeltishjálma, svo dæmi séu tekin. Nú hafa gerviefni leyst hann af hólmi í mörgum tilfellum. Sama á við um ýmsa aðra létta hluti, svo sem flugvélar. Þó er viðurinn enn nýttur í léttar flugvélar og í sumum tilfellum í innréttingar í flugvélum. Viðurinn er einnig nýttur til fleka- og bátasmíði og í allskonar vatnaíþróttir.

Brimbretti úr balsavið. Myndirnar fengnar héðan.


Eins og mörg önnur frumherjatré er þessi tegund gjarnan nýtt sem fóstrutré fyrir aðrar verðmætar tegundir sem kunna betur við að vaxa í skugga eða hálfskugga. Þar kemur sér vel hversu hratt trén vaxa. Svo má höggva þau og nýta þegar hin trén eru komin vel á veg.


De Havilland Mosquito

Í fyrri heimsstyrjöldinni tóku menn af öllum kynjum upp á því að smíða herflugvélar. Mikilvægt var að þær væru nógu léttar. Því voru þær gjarnan smíðaðar úr timbri. Við munum fljótlega fjalla um það í öðrum pistli, einkum um hvernig sitkagreni var nýtt í þeim tilgangi. Þegar síðari heimsstyrjöldin hófst var meira lagt upp úr því að nota sterkari efni en timbur. Gerði það vélarnar öruggari en um leið þyngri. Því var það að sumir flugvélahönnuðir reyndu sig áfram við flugvélar úr timbri. Frægust þessara véla í seinna stríði voru eflaust léttar, breskar sprengjuflugvélar sem kallast De Havilland Mosquito. Flugvélarnar voru einnig notaðar töluvert til njósnaflugs. Í þessar flugvélar var notaður balsaviður en einnig var birki, sitkagreni, degli og askur nýttur í skrokk þessara véla (Tudge 2005). Kosturinn var að þær voru léttari og þar með hraðfleygari en vélar af sömu stærð úr málmi. Þær gátu einnig borið þyngri farm áður en það fór að hafa áhrif á fluggetu. Gallinn var auðvitað sá að þær þoldu vitanlega minna en sambærilegar vélar úr sterkari efnum. Flugmennirnir þurftu að vera fljótir að yfirgefa vélarnar ef þær lentu í skothríð. Samkvæmt Smithsonian stofnuninni er þetta best heppnaða herflugvél úr timbri sem framleidd hefur verið í heiminum.

De Havilland Mosquito. Myndin fengin af heimasíðu Smithsonian.


Kon-Tiki

Í upphafi þessa pistils sögðum við frá siglingu Heyerdahls um Kyrrahafið á fleka úr balsaviði. Nú skoðum við það aðeins nánar. Áður en Inkaþjóðin varð ríkjandi í vesturhluta Suður-Ameríku voru þar fyrir aðrir menn. Thor Heyerdahl sagði frá þeirri fornu sögu að höfðinginn Kon-Tiki hafi siglt vestur frá Perú ásamt Viracochfólki sínu í leit að nýjum heimahögum þegar Inkarnir færðu sig upp á skaftið. Algengara er að þessi goðum líka vera sé kölluð Viracocha en stundum eru bæði nöfnin notuð. Samkvæmt sögunni fór Kon-Tiki Viracocha þessa ferð á stórum fleka úr balsaviði.

Svo vill til að í Pólýnesíu eru til sagnir um hinn fyrsta mann. Á mismunandi eyjum heitir hann ýmsum nöfnum en þau eru furðu lík. Má þar nefna Kiki, Ti´i og Tiki. Þetta var ein af röksemdum Heyerdahls fyrir landnámi frumbyggja Ameríku í Pólýnesíu. Hann taldi að orðið væri greinilega það sama í Pólýnesíu og á höfðingjanum sem flúði undan Inkunum.

Skógur af balsaviði. Myndin fengin héðan.

Ekki voru allir mannfræðingar sannfærðir um þessa tilgátu og töldu þessa siglingu algerlega vonlausa. Það fór svo að einn þeirra skoraði á Heyerdahl að sigla sjálfur þessa leið ef hann teldi það mögulegt. Flestum á óvart féllst Norðmaðurinn á þetta og fór í sína frægu ferð árið 1947 á fleka úr balsaviði. Á þessum tíma höfðu menn ekki gert sér ljóst hversu magnaður viðurinn er. Því töldu margir fráleitt að fleki úr balsaviði gæti farið í úthafssiglingar. Hann gæti sjálfsagt flotið vel til að byrja með en svona léttur viður hlyti að draga í sig vatn með tímanum og að lokum sökkva. Þyrfti ekki einu sinni óveður til.

Tvær myndir frá Kon-Tiki safninu í Noregi. Önnur sýnir flekann fræga en hin sýnir biðröð á Óskarsverðlaunamynd sem gerð var um ferðina.

Á sínum tíma lagði Heyerdahl fram ýmis gögn sem rök fyrir kenningum sínum um landnám Pólýnesíu frá Ameríku. Meðal annars hvernig straumakerfið er á þessum slóðum, orðalista yfir örnefni sem eru lík í Suður-Ameríku og í Pólýnesíu, útlitseinkenni frumbyggjaþjóðarinnar Kwakiútl í Ameríku sem eiga að svipa til íbúa eyjanna og svo mætti áfram telja. Ekki er annað að sjá en rök hans hafi hugnast æði mörgum. Má sem dæmi nefna bókina Könnun Kyrrahafsins eftir John Gilbert (1971) í þýðingu Steindórs Steindórssonar frá Hlöðum (1975). Þar segir um kenningar Heyerdahls: „Skortir þar síst á rökrétta hugsun“. Einnig: „Til stuðnings þessari [. . .] kenningu sinni færir Heyerdahl raðir af glæsilegum og lítt hrekjanlegum röksemdum.“


Heyerdahl skrifaði fræga bók um leiðangurinn árið 1948 sem þýdd var á fjölmörg tungumál. Upp úr þeirri bók var gerð kvikmynd sem hlaut Óskarsverðlaun í flokki heimildarmynda árið 1950. Árið 2012 var önnur mynd gerð um leiðangurinn sem tilnefnd var til Óskarsverðlauna sem besta mynd ársins á öðru tungumáli en ensku. Sú mynd hlaut ekki náð dómnefndar.


Við getum ekki sagt skilið við söguna af Kon-Tiki leiðangri Heyerdahls án þess að nefna að kenningum hans um landnám Pólýnesíu frá Ameríku hefur algerlega verið hafnað af flestum. Rannsóknir á skyldleika þjóðanna út frá genum, tungumálum, siðum og fleiri þáttum benda eindregið til þess að íbúar Pólýnesíu séu ættaðir frá Ástralíu og Asíu frekar en Ameríku. Nú telja vísindamenn að Heyerdahl hafi einfaldlega haft rangt fyrir sér. Engu að síður var sigling hans í rúmlega þrjá mánuði á litlum fleka á sjálfu Kyrrahafinu einstakt afrek. Það hefði aldrei gengið nema vegna þess að flekinn Kon-Tiki var úr balsaviði.


Heimildir:


Bækur:


John Gilbert (1975): Könnun Kyrrahafsins. Í bókaflokknum: Lönd og landkönnuðir. Steindór Steindórsson frá Hlöðum íslenskaði. Örn & Örlygur, Reykjavík. Bókin hét upphaflega Charting the Vast Pacific (1971).


Colin Tudge (2005): The Tree: A Natural History of What Trees Are, How They Live, and Why They Matter. Crown Publishers, a division of Random House, Inc, New York.


Heimasíður:

The Kon-Tiki Museum (án ártals): Sjá; https://www.kon-tiki.no/expeditions/kon-tiki-expedition/?lang=nb Sótt 18.08. 2023.


Royal Botanic Gardens, Kew (án ártals): Ochroma pyramidale, Balsa tree. Sjá: https://www.kew.org/plants/balsa-tree Sótt 18.08.2023.


Thomas Spade (2023): The Balsa Tree. Þáttur númer 78 í hlaðvarpsþáttaröðinni My Favorite Trees frá 13. júní 2023. Sjá: https://mftpodcast.com/episode-78-the-balsa-tree/


Smithsonian (án ártals): De Havilland DH-98 B/TT Mk. 35 Mosquito. Sjá: https://www.si.edu/object/de-havilland-dh-98-btt-mk-35-mosquito%3Anasm_A19640023000 Sótt 19.08. 2023.


Í aðrar netheimildir er vísað beint í texta.


154 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page