top of page
Writer's pictureSigurður Arnarson

Birkið í Krossanesborgum

Updated: Jul 7, 2023

„Krossanesborgir voru friðlýstar sem fólkvangur árið 2005. Markmiðið er að vernda svæðið til útivistar almennings, náttúruskoðunar og fræðslu. Auk þess er verndaður mikilvægur varpstaður fjölda fuglategunda, búsvæði sjaldgæfra plöntutegunda og sérstæðar jarðmyndanir og þannig stuðlað að varðveislu líffræðilegrar og jarðfræðilegrar fjölbreytni.“

Svo segir á vef Umhverfisstofnunar. Þar má einnig fá frekari upplýsingar með því að opna slóðina sem er hér.


Í Krossanesborgum má ekki bara finna fjölbreyttan gróður, landslag og fugla, heldur einnig stríðsminjar úr síðari heimsstyrjöld. Hér vex birki upp úr gamalli skotgröf.


Haustmynd úr Krossanesborgum.

Stærð fólkvangsins eru tæpir 115 hektarar og skiptast þar á mýrardrög, tjarnir, klettaborgir, melar og klappir. Það gerir svæðið sérlega fjölbreytt og fuglalíf er þar æði fjölskrúðugt.


Hér er horft úr lofti yfir Krossanesborgir við Akureyri í apríl 2018. Sjá má hvernig trjágróður hefur komið inn á svæðið eftir friðun. Einnig sjást ógrónir melar í borgunum enda eru hrunin vistkerfi lengi að ná sér.

Eftir að svæðið var friðað árið 2005 hefur það tekið algerum stakkaskiptum. Gróðri hefur farið mikið fram og allskonar trjágróður hefur fest þar rætur. Á það bæði við um tegundir sem vaxið hafa á Íslandi frá því að land byggðist en einnig má finna þarna trjátegundir sem borist hafa hingað til lands á síðari tímum.


Í þessum pistli er sjónunum beint að birkinu í Krossanesborgum.




Hvaðan kemur birkið?

Svo er að sjá sem birkið eigi sér tvennskonar uppruna. Annars vegar má gera ráð fyrir að stór hluti þess sé svokallað staðarbirki. Eflaust hefur eitthvað af birkinu þraukað þrátt fyrir beitina í gegnum aldirnar. Það fékk þó aldrei tækifæri á að vaxa upp á við heldur kúrði í grasrótinni. Þegar beitaránauðinni létti fékk birkið svo tækifæri til að vaxa upp á við. Slíkt birki myndar fyrst og fremst margstofna runna. Sumt af birkinu, sem nú er að vaxa upp getur síðan verið fræplöntur af þessu sama birki. Það svipar til þess birkis sem hefur leynst í grassverðinum nema hvað það hefur minni tilhneigingu til að verða runni.


Birkið í borgunum er æði fjölbreytt.


Beinvaxið birki með hvítan stofn snemma vors.


Hvar vex birkið best?

Eitt af því sem svo fróðlegt er að skoða í Krossanesborgum er að sjá mismunandi vöxt birkisins eftir því hvar það er staðsett. Eins og áður getur er landið mjög fjölbreytt og býður upp á mismunandi vaxtarskilyrði með tilliti til næringarefna og aðgang að vatni.


Það er eins og birkið raði sér í kringum mýrarnar.


Þegar birkið í Krossanesborgum er skoðað sést hvað aðgangur að hæfilegu vatni er mikilvægur. Birkið vill ferskan jarðraka en vex miklu minna í þurrara landi og í mýrum, enda vill það ekki vera blautt í fæturna. Þess vegna er eins og vöxtulegasta birkið raði sér í hring í kringum mýrarnar. Ein og ein planta virðist þrífast í mýrinni en í klettaborgunum og á melum, þar sem þurrt er, vex birkið sáralítið. Að minnsta kosti ennþá. Þetta má vel sjá á meðfylgjandi myndum.


Birkið vex lítið og fer snemma í haustliti þar sem landið er rýrast.



Hvað svo?

Það er undravert að sjá hversu landið hefur tekið vel við sér eftir að það var friðað fyrir beit. Gera má ráð fyrir að birkið haldi áfram að vera aðal trjátegundin á svæðinu þótt aðrar tegundir séu þarna líka. Eftir því sem birkið vex upp mun það hafa áhrif á nærumhverfi sitt og gefa öðrum gróðri tækifæri til að vaxa upp í skjólinu. Það á einnig við um annað birki svo smám saman mun birkið á rýrara landinu einnig vaxa upp.


Vöxtulegasta birkið í borgunum. Má ekki kalla þetta skóg?


Nú þegar má sjá vísi að sjálfsprotnum birkiskógi í Krossanesborgum og er tímar líða mun hann bæta við sig, bæði í hæð og umfangi. Krossanesborgirnar munu að öllum líkindum þróast í skóg ef mannshöndin blandar sér ekki í málið. Í skóginum munu verða sömu tjarnir og eru þar enn, sömu mýrarnar (en sennilega minni) og þurrustu klettaborgirnar munu sjálfsagt vera skóglausar að mestu.


Sálfsánar, ungar birkiplöntur í landi sem enn hefur ekki náð sér að fullu þrátt fyrir friðun. Mjór er mikils vísir.

Fróðlegt verður að fylgjast með þróuninni á næstu árum og sjá birkið vaxa og dafna.

201 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page