top of page

Landnám blæaspa

Writer's picture: Sigurður ArnarsonSigurður Arnarson

Updated: Jun 12, 2023

Það er engum blöðum um það að fletta, hvorki laufblöðum né öðrum blöðum, að ásýnd Íslands var ekki sú sama við landnám og nú er. Landið var allt betur gróið og 25-40% landsins var skógi vaxið. Undraskamman tíma tók forfeður okkar að breyta þessari ásýnd. Skógum var miskunnarlaust eytt og landgæðum hnignaði. Af þeim trjátegundum sem talið er að hafi verið hér við landnám tókst næstum að útrýma einni en ekki alveg. Þetta er tegundin blæösp eða Populus tremula.

Í þessum pistli skoðum við hinn endann á keðjunni. Hvernig barst þessi tegund til Íslands og hvaðan kom hún?

Meginheimildirnar eru genarannsóknir og tvær ritgerðir sem Sæmundur Sveinsson átti þátt í. Eru honum færðar okkar bestu þakkir fyrir aðstoðina sem og þeim sem góðfúslega leyfðu okkur afnot af myndum. Þakkir fá einnig þeir sem veittu okkur ýmsar gagnlegar upplýsingar.


Blæösp í Grundarreit þann 22. september 2022. Þá er hún enn heiðgræn. Fremst á myndinni má sjá gul og græn birkilauf. Mynd: Helgi Þórsson.


Ending blæaspa í vistkerfum

Þar sem aðstæður eru heppilegar geta blæaspir myndað mikið fræ sem fýkur víða. Íslenskar blæaspir verða þó seint taldar með frjósömustu öspum í heimi. Aðeins örfá dæmi eru til um að aspirnar hafi blómgast hér á landi og engin staðfest dæmi um að þær nái að mynda og þroska frjótt fræ. Hvað blómgun varðar standa þær frænkum sínum, sem kenndar eru við Alaska, langt að baki.

En þær lauma á öðru bragði. Þær setja heilan urmul af rótarskotum. Alaskaaspir geta gert þetta líka en hvað fjölda rótarskota varðar hefur blæöspin gríðarlegt forskot. Með þeim bætir hún smám saman við veldi sitt ef aðstæður leyfa og getur haldið sér við áratugum og jafnvel öldum saman. Sumum þykir jafnvel nó um fjölda rótarskota. Þeirra vegna er ræktun blæaspa í görðum ekki almenn.


Blæöspin í Vaðlaskógi eða Vaðlareit þann 22. september 2022. Þá er hún enn græn en birkið og víðirinn á myndinni í mismiklum haustlitum.

Mynd: Helgi Þórsson.


Þessi hegðun blæaspa, að fjölga sér eingöngu með rótarskotum, þekkist víðar en á Íslandi. Þórarinn Benedikz (1994) segir frá því að á eyjunni Hoy, sem er ein af Orkneyjum, megi finna blæasparteig sem talinn er hafa verið þar frá því á ísöld og haldið sér við með kynlausri æxlun í formi rótarskota. Aldrei hefur frést af blómgun þeirrar aspar.


Mynd af karlkyns blómum blæaspa árið 2022. Það sumar blómgaðist öspin í görðum bæði á Norður- og Austurlandi. Það tengist án efa hlýja sumrinu árið 2021. Blómgun í blæösp á Íslandi er mjög sjaldgæf og langoftast eru það aðeins karlblóm. Aðeins er vitað einu sinni um blómgun kvenkynsins aspar. Erfðafræðirannsóknir sýna þó að kvenkyns aspir finnast víðar.

Mynd: Pétur Halldórsson.


Þórarinn segir líka frá því að í Utah í Bandaríkjum Norður-Ameríku vex systurtegund blæasparinnar sem kallast nöturösp, Populus tremuloides. Þar er nú allt of þurrt til að asparfræ geti spírað. Samt vex hún þarna. Telja menn, af ýmsum kynjum, að hún kunni að hafa viðhaldið sér með rótarskotum í að minnsta kosti 8000 ár (Þórarinn Benedikz 1994).

Við getum því dregið þann lærdóm að þótt hver stofn á blæösp verði ekkert mjög gamall getur vel verið að blæösp hafi verið mjög lengi hér á Íslandi.


Aspir hjá frændum okkar á Hjaltlandseyjum. Þar, eins og hér, hefur sauðfjárbeit haldið öspunum niðri og komið í veg fyrir að þær myndi tré. Mynd: Phil Smith. Fleiri myndir má sjá á Facebooksíðunni Rewilding Scotland


Gróður á ísöld

Eins og kunnugt er lauk ísöld á Íslandi fyrir um 10.000 árum. Lengi voru skiptar skoðanir um hvort einhver gróður lifði af hremmingar ísaldar eða ekki. Annars vegar voru (og eru) uppi hugmyndir sem kallast ördeyðu-kenningin (Tabula rasa) sem gerir ráð fyrir að allur gróður (að minnsta kosti háplöntur) hafi þurrkast út á ísöldinni. Síðan hafi gróður aftur numið land eftir að henni lauk. Hins vegar er það miðsvæðakenningin eða vetursetu-kenningin (Nunatak theory) sem gerir ráð fyrir að einhver gróður, jafnvel stór hluti, hafi lifað af ísaldirnar á jökullausum svæðum sem héldu uppi gróðursamfélögum á meðan á ísöldinni stóð. Einhvers konar blöndur þessara kenninga hafa einnig sést svo ef til vill er rétt að setja þetta fram sem fjórar sviðsmyndir, svo notað sé tískuorð.

1. Hrein ördeyðukenning sem gerir ráð fyrir að allar tegundir hafi borist hingað eftir að ísöld lauk. Jafnvel að allur gróður hafi horfið af landinu að minnsta kosti þrisvar sinnum og þurft aftur að nema land (Einar Þorleifsson 2023)

2. Aðeins lítill hluti lifði ísöld af, einkum fjallaplöntur og arktískar plöntur.

3. Nokkur, eða jafnvel stór hluti flórunnar lifði af en sumar aðrar tegundir bárust hingað eftir að henni lauk.

4. Stór hluti flórunnar lifði af og aðeins fáar tegundir bárust hingað frá því að henni lauk og þar til landnám hófst.


Einhvers staðar þarna er sannleikurinn og sem best getur hann verið allskonar blanda af þessu. Rétt er að fara aðeins nánar yfir þessar tilgátur.


Þessi mynd er tekin í iðnaðarhverfi á Egilsstöðum í maí 2020. Skógurinn handan álftanna er Egilsstaðaskógur. Trén með ljósu stofnanna og ljósu greinarnar, efst á myndinni, eru blæaspir. Mynd: Sig.A.


Asparstofnar í Egilsstaðaskógi. Mynd: Þröstur Eysteinsson.



Ördeyðukenningin

Samkvæmt vefsíðunni floraislands.is má nú finna 5610 tegundir plantna ef við skilgreinum þær nógu vítt. Ef við teljum bara háplönturnar með eru 452 blómplöntur og 37 byrkningar þekktir á landinu. Ef allar háplöntur hafa horfið og aðeins 3 tegundir borist hingað á hverri öld frá því að ísöld lauk gengur þetta alveg upp og landnámið er enn í gangi. Einnig gerir kenningin ráð fyrir að hugsanlega hafi aðstæður verið öðruvísi í lok ísaldar sem auðveldað hafi landnám. Gróðurtorfur gætu hafa borist með ísjökum eða á annan hátt frá Skandinavíu og Bretlandseyjum. Minni selta í hafinu, einkum efstu lögum þess, hafi gert þessa flutninga mögulega.


Mynd þessi er fengin að láni af vef um flóru Íslands segir til um fjölda þekktra plöntutegunda á Íslandi.


Það má einnig nefna að sumum þykir merkilegt að hér skuli ekki vera neinar einlendar (endemic) tegundir. Það er mjög eðlilegt ef allar tegundirnar hafa borist hingað á síðastliðnum 10.000 árum. Þá er tíminn tæpast nægur til að mynda nýjar tegundir, þótt hér megi finna sérstök afbrigði. Ef gróður hefði lengri tíma til þróunar mætti ætla að hér væru tegundir sem hvergi finnast annars staðar. Einar Þorleifsson (2023) hefur bent á að á eyjum líkt og hér myndast einlendar tegundir furðufljótt. Nefnir hann sem dæmi að mikið er af þeim á Kanaríeyjum. Einar, sem er einn af mestu fuglafræðingum landsins, nefnir líka að íslenskir fuglar sýni glögg merki þess að þeir séu að mynda nýjar tegundir. Á það bæði við um staðfugla og farfugla.


Ekki er þó hægt að útiloka að hér hafi verið einlendar tegundir sem hafi hopað hratt eftir að landnám hófst og horfið alveg ofan í þau húsdýr sem komu með innflytjendum. Plönturnar hafa þá þróuðust án grasbíta úr hópi spendýra og átt litla möguleika þegar þeir lentu á matseðli þeirra. Ef svo hefur verið hafa engar menjar þeirra fundist. Aftur á móti hafa fundist menjar plantna sem uxu á Íslandi fyrir ísöld og hafa sennilega verið einlendar.


Lárus Heiðarsson er tæpir tveir metrar á hæð. Hér stendur hann innan um blæaspirnar í Jórvík í Breiðdal. Mynd: Þröstur Eysteinsson.


Það mælir gegn ördeyðukenningunni að margar þær plöntur sem hér má finna hafa ekki sérstaka dreifingarhæfileika til að berast yfir opið haf, en aðstæður kunna að hafa verið öðruvísi eins og áður segir. Annað er að svo virðist sem nær eingöngu hafi borist hingað plöntur frá Evrópu en ekki Ameríku. Aftur verða menn því að vísa í „sérstakar aðstæður“ í lok ísaldar til að dæmið gangi upp. Það er þó hvorki í fyrsta eða síðasta skiptið sem gripið er til frasans þegar ekkert annað dugar. Það lítur út fyrir að við myndun Grænlandsjökuls hafi tekið fyrir flutninga úr vestri.


Blæösp í Stöðvarfirði. Myndin er tekin 30. júní 2015 og sýnir hvernig rauðleitu laufblöðin eru að skipta yfir í grænan lit. Rauði liturinn er meria áberandi í köldu árferði, en árið 2015 voraði mjög seint á Austurland.

Mynd: Runólfur Sveinsson.

Ördeyðukenningin og blæaspirnar

Hvort sem allur hágróður drapst á Íslandi á Ísöld eða ekki er ljóst að margar tegundir dóu út. Þannig virðist sem elritegundir hafi lifað af flest kuldaskeið ísaldar, en að lokum horfið. Má vel vera að það sama eigi við um blæaspir.

Fræ blæaspa eru mjög létt og geta borist langt. Að vísu eru þau ekkert sérstaklega langlíf en það útilokar ekki að blæaspir hafi borist hingað sem fræ eftir að öllum, eða nánast öllum, gróðri var eytt á landinu.

Hér á eftir verður sagt frá því að erfðafræðirannsóknir á blæösp benda til að hún hafi borist hingað eftir að ísöld lauk. Það útilokar samt ekki að aðrar tegundir hafa lifað ísöldina af.


Blæösp vex innan um lynggróður í landi Gestsstaða í Fáskrúðsfirði. Lítið beitarálag er á svæðinu þar sem öspin finnst en það virðist vera nóg til þess að takmarka vöxt hennar. Mynd og texti: Sæmundur Sveinsson.


Sæmundur Sveinsson, Þór Þorfinnsson og Lárus Heiðarsson í miðri aspargræðu á Gestsstöðum í Fáskrúðsfirði. Mynd: Þröstur Eysteinsson.

Miðsvæðakenningin

Nú er algengara að menn telji að hluti flórunnar hafi lifað af á íslausum svæðum. Jökulsker, brattar hlíðar við sjó og hugsanlega fleiri svæði gætu hafa verið íslaus og geymt að minnsta kosti sýnishorn flórunnar, rétt eins og sjá má á jökulskerjum á okkar tímum svo sem í Esjufjöllum í Vatnajökli. Þau eru lægst í um 550 metra hæð yfir sjávarmáli og þar vaxa nú um 100 háplöntutegundir, 100 mosar og 100 fléttutegundir. Samkvæmt kenningunni fór gróðurinn að breiðast yfir landið frá jökulskerjunum eftir að ísöld lauk. Slitrótt útbreiðsla sumra tegunda kann að merkja að þær séu enn að breiðast út frá þessum horfnu skerjum. Kenningin gerir ráð fyrir að svokölluð miðsvæði falli saman við þau svæði sem kunni að hafa verið íslaus á síðasta kuldaskeiði ísaldarinnar. Það skýtur einnig stoðum undir kenninguna að núverandi tegundasamsetning á sér samsvörun á fyrri hlýskeiðum ísaldar, ef marka má rannsóknir.


Aðrir telja að aðeins arktískar tegundir plantna hafi getað lifað af á íslausum jökulskerjum. Því ætti hlutfall þeirra tegunda plantna að vera hærra en raun ber vitni í flórunni á okkar tímum. Aftur á móti er það ekki svo í Esjufjöllum að þar finnist eingöngu háarktískar plöntur.


Starri Heiðmarsson (með fingur á lofti) og Bjarni Diðrik Sigurðsson við gróðurrannsóknir í Káraskeri árið 2016. Það kom upp úr Vatnajökli um 1940. Getur blæöspin hafa þraukað ísaldirnar á svona jökulskeri?

Mynd: Mariusz Wierzgon.


Miðsvæðiskenningin og blæaspirnar

Voru blæaspirnar hér á íslausum stöðum á ísöldinni?

Færa má ákveðin rök fyrir því að núverandi útbreiðsla blæaspa á landinu fari ágætlega saman við miðsvæðiskenninguna. Fyrirliggjandi heimildir nefna samt ekki blæöspina sérstaklega þegar fjallað er um þá kenningu.


Skjólbelti í landi Kristness í Eyjafirði þann 21.09. 2022. Skærgula plantan er blæösp frá Garði. Hún er enn á táningsaldri en er strax farin að mynda rótarskot sem geta þétt og bætt skjólbeltið. Garðsöspin fer mikið fyrr í haustliti en aspirnar í Grundarreit og Vaðlaheiði. Mynd: Helgi Þórsson.


Sami asparklónn og á myndinni fyrir ofan. Þessi hefur reyni á báðar hendur (ef svo má segja um tré). Annar orðinn rauður, hinn að byrja að roðna. Mynd: Helgi Þórsson.


Blæaspir á Íslandi

Nú á dögum gera flestir ráð fyrir að minnsta kosti hluti flórunnar hafi lifað af ísöldina en stór hluti hlýtur að hafa borist hingað eftir að ísöld lauk og margar eftir að landnám hófst. Helstu leiðir fyrir plöntur til að berast hingað virðist hafa legið frá Skandinavíu og Skotlandi en hér neðar verður sagt frá því að mjög ólíklegt er að blæaspir hafi borist hingað frá Skotlandi. Þær gætu hafa borist sem fræ með vindum og fuglum eða með hafstraumum og þá með rekís eða rekavið.

Villtar blæaspir finnast aðeins um norðan- og austanvert landið. Ef við miðum við núverandi kosningakerfi finnast aspirnar aðeins í Norðaustur kjördæmi. Til heiðurs þeirri útbreiðslu birtum við þennan gamla kviðling sem settur var saman þegar það kjördæmi var búið til.

Austurlandsins æðsta pláss öðrum stöðum meiri. Hann er okkar helsta stáss heitir Akureyri.

Kort Náttúrufræðistofnunar sem sýnir útbreiðslu blæaspa. Samkvæmt sömu heimild þekur blæösp aðeins um 10 km2. Eitthvað er kortið samt málum blandið. Sennilega sýna sumir punktarnir, eins og þessi í Hvalfirði, hvar blæösp hefur verið plantað. Að minnsta kosti hafa fréttir af villtri blæösp í Hvalfirði ekki borist norður í Eyjafjörð. Kortið sýnir samt ekki alla staði þar sem blæösp hefur verið plantað. Myndin er héðan.


Tilgáta skógræktarstjórans

Hákon Bjarnason (1907-1989) var skógræktarstjóri á Íslandi frá 1935 til 1977. Hann hafði ákveðna tilgátu um uppruna blæaspa á Íslandi. Hann benti á að hægt væri að leggja reglustiku á kort sem sýnir útbreiðslu blæaspa á Íslandi. Þá sést að útbreiðsla þeirra liggur nánast í línu frá norðvestri til suðausturs. Aspirnar í Eyjafirði falla utan við þessa línu, enda var þeim plantað. Það sem meira er: Ef þessi lína er framlengd á landakorti lendir línan á suðvesturhluta Noregs. Því má ætla að fræin af öspinni hafi einmitt borist frá þeim slóðum. Þetta gæti líka útskýrt af hverju aspirnar eru ekkert sérlega vel aðlagaðar þeirri ljóslotu sem þær hafa hér. Þær eru betur aðlagaðar ljóslotunni frá suðurhluta Vestur-Noregs (Jón Hákon Bjarnason 2022).


Þessi tilgáta virðist fá góðan stuðning þeirra genarannsókna sem vísað er í hér neðar. Aspirnar gætu sem best verið frá þessu svæði. Aftur á móti sýna rannsóknirnar að líklegast sé um endurtekna atburði að ræða. Öspin hefur numið hér land oftar en einu sinni. Það dregur heldur úr líkunum á að þær séu allar komnar frá sömu slóðum. Þó má vel vera að fræið hafi borist hingað, aftur og aftur, frá sömu svæðum. Sá flutningur gæti þá sem best enn verið í gangi. Það gæti útskýrt af hverju finna má fleiri en einn klón í Egilsstaðaskógi. Í næsta köflum verður fjallað um erfðafræðirannsóknir sem varpa ljósi á skyldleika blæaspa á Íslandi og út frá því má reyna að nálgast svar við því hvaðan þær bárust til landsins.


Á Höfða á Héraði er klónasafn blæaspa. Þann 23. 09. 2022 voru Strandaröspin frá Stöðvarfirði, Gestsstaðaöspin frá Fáskrúðsfirði og Garðsöspin úr Fnjóskadal heiðgular. Jórvíkuröspin úr Breiðdal og Halllandsöspin úr Vaðlareit voru ekki komnar eins langt en eru þó að sölna.

Upphaflega öspin úr Höfðaskógi á Héraði var rauð (aldrei gerst áður að sögn Þrastar) og prýðir hún myndina. Við hlið hennar er upphaflega öspin úr Egilsstaðaskógi ennþá græn. Þær eru umkringdar rótarskotum sem öll eru gul og gætu verið frá annarri þeirra eða báðum. Vegir aspa eru ekki einfaldir.

Mynd og upplýsingar: Þröstur Eysteinsson, skógræktarstjóri.


Erfðafræðirannsóknir

Með bættri tækni verður alltaf auðveldara og auðveldara að skoða genasamsetningu lífvera. Blæaspir eru þar með taldar. Þær hafa verið skoðaðar sérstaklega. Hér er fyrst og fremst stuðst við rannsóknir Sæmundar Sveinssonar og skýrslur sem hann tengist frá árunum 2007 og 2021. Verður nú sagt frá helstu niðurstöðum skýrslunnar frá 2007 og þeim viðbótarupplýsingum sem skýrslan frá 2021 gefa okkur og tengjast efni pistilsins. Segja má að blæösp finnist á sex stöðum á landinu og skoðaði Sæmundur efnivið frá þeim öllum. Komið hefur í ljós að erfðabreytileiki innan blæaspa á Íslandi er mikill. Bendir það til að hún hafi verið hér lengi og er sennilega ekki öll komin hingað á sama tíma og ekki endilega frá sömu slóðum.

Kort úr skýrslu Sæmundar frá árinu 2007 sem sýnir söfnunarstaði þeirra klóna er hann rannsakaði. Söfnunarstaðirnir eru merktir með rauðum punktum og númer við hlið þeirra. Ef of stutt er á milli söfnunarstaðanna til að sýna þá með punktum eru tvær tölur við punktana.

Mynd: Sæmundur Sveinsson 2007.



Skýrslan frá 2007

Í skýrslunni frá 2007 segir Sæmundur frá því að ösp var safnað á öllum þekktum fundarstöðum hennar á Íslandi. Það merkir samt ekki endilega að Sæmundur hafi fengið efni frá öllum klónum á hverjum stað enda ekki alltaf auðvelt að aðgreina þá með sjónmati. Víðast hvar er þó aðeins um einn eða fáa klóna að ræða og samkvæmt eldri rannsóknum er almennt lítill breytileiki innan erfðamengisins á hverjum stað. Erfðamengi blæaspa frá öllum fundarstöðum voru raðgreind og upplýsingarnar nýttar til þess að meta skyldleika meðal trjánna. Tvær sænskar blæaspir voru jafnframt notaðar til viðmiðunar. Önnur þessara sænsku aspa var frá norðurhluta landsins en hin sunnar.


Tafla yfir þá klóna sem skoðaðir voru. Tölurnar vísa í Íslandskortið hér að ofan. Skemmtilegt að sjá að sú planta sem er næst sjávarmáli er úr heiði.

Mynd: Sæmundur Sveinsson.


Skyldleiki blæaspa var metinn út frá raðgreindum erfðamengjum. Í ljós kom að skipta má öspinni í þrjá erfðahópa eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Aspirnar í Fnjóskadal eru sér á parti. Sama má segja um aspirnar í Egilsstaðaskógi á Héraði. Í þriðja hópnum eru aspir á Austfjörðum og á Höfða á Héraði og einnig aspirnar í Eyjafirði. Í þessum sama erfðahópi er einnig að finna öspina frá norðurhluta Svíþjóðar. Með öðrum orðum: Blæaspir á Íslandi eru skyldari blæöspum í norðurhluta Svíþjóðar en í suðurhlutanum. Mikla athygli vekur að blæaspirnar á Egilsstöðum eru gjörólíkar öspinni á Höfða en á milli fundarstaðanna eru aðeins um 3 km eins og fuglinn flýgur.


Samkvæmt niðurstöðum Sæmundar er ekkert í þessari rannsókn sem rennir stoðum undir þá kenningu að blæaspir hafi lifað af ísöld hér á landi. Hann telur miklu líklegra að tegundin hafi borist til landsins eftir að síðustu ísöld lauk og verið mun algengari í skógum landsins áður fyrr. Henni hafi síðan næstum verið útrýmt með mikilli beit. Enn fremur benda niðurstöðurnar til þess að þar sem aspirnar eru mjög ólíkar innbyrðis að tegundin hafi numið hér land oftar en einu sinni og frá fleiri en einum stað (Sæmundur Sveinsson 2007).


Í skýrslunni segir Sæmundur að Líklegast þyki að „tegundin hafi borist til landsins eftir síðustu ísöld, frá Skandinavíu eða Bretlandseyjum.“ (Sæmundur Sveinsson 2007). Það er í samræmi við fyrirliggjandi upplýsingar um flóru landsins. Aftur á móti er í þessari rannsókn ekki nægur erlendur efniviður til að staðfesta hvaðan hún barst. Þó er ljóst að norðlægar aspir í Svíþjóð eru skyldari þeim íslensku en suðlægar aspir. Þegar þetta lá fyrir lá auðvitað beint við að skoða skyldleika íslenskra aspa við aspir frá fleiri stöðum.


Greining á erfðafjölbreytileika blæaspa. Grænir punktar sýna sænskar aspir, gulir punktar tákna íslenskar blæaspir frá Norðurlandi og rauðir punktar tákna blæaspir frá Austurlandi. Öspunum frá Svíþjóð var safnað á tveimur mismunandi breiddargráðum, Luleå í norður Svíþjóð við 65,5°N og Simlang í suður Svíþjóð við 56,7°N. Sjá nánar: Sæmundur Sveinsson 2007.


Nýjar upplýsingar

Sæmundur tók þátt í sameiginlegu verkefni með samstarfsmönnum sínum í öðrum löndum til að meta skyldleika blæaspa. Niðurstöðurnar voru birtar í þessari skýrslu árið 2021. Margt rennir stoðum undir þær hugmyndir sem uppi voru um uppruna aspanna en annað kemur meira á óvart. Svo er það auðvitað eins og alltaf að rannsóknir vekja upp nýjar spurningar og sagan verður að skera úr um hvort og hvenær þeim verður svarað.


Í fyrri skýrslunni kom fram að aspir frá norðurhluta Svíþjóðar eru skyldari okkar öspum en frá suðurhlutanum. Í stuttu máli má segja að samkvæmt þessari fjölþjóðlegu rannsókn eru mestar líkur á að þær aspir sem finnast villtar á Íslandi hafi fyrst og fremst borist hingað frá Noregi, einkum frá mið- og suðurhluta Noregs. Er það í fullu samræmi við tilgátur Hákonar Bjarnasonar sem áður eru nefndar.


Kort sem sýnir hvaðan aspirnar í þessari tilraun voru. Sjá nánar hér. Því miður er engin dönsk ösp í úrtakinu en aspirnar í Eyjafirði eru að öllum líkindum þaðan.


Sæmundur skoðar aspir í Egilsstaðaskógi. Mynd: Þröstur Eysteinsson.

Líflandafræðilegar rannsóknir hafa áður sýnt að allnokkrar íslenskar tegundir bárust hingað frá Bretlandseyjum. Því er forvitnilegt að skoða skyldleika íslenskra blæaspa við þær skosku. Niðurstöður þessara rannsókna benda til að líkurnar á því að aspirnar á Íslandi hafi borist frá Skotlandi séu hverfandi. Íslensku aspirnar eru álíka skyldar þeim og öspum í Kína! Samt er rétt að slá þann varnagla að samkvæmt fyrrnefndu skýrslunni hefur blæösp numið hér land oftar en einu sinni. Hugsanlegt er að blæaspir hafi borist hingað frá Skotlandi, numið hér land og verið hér þegar landnám hófst. Ósjálfbær landnýting hefur þá útrýmt henni alveg en öspin frá Norðurlöndum lifað, fyrir einhverja hundaheppni. Ef einhver ösp hefur borist frá Skotlandi er hún nú með öllu glötuð. Um það er auðvitað ekkert hægt að fullyrða. Í þessu sambandi er rétt að benda á að á heimasíðu NÍ segir: „Tegundin þolir illa mikla beit og hefur nær verið útrýmt á meðan allt landið var nýtt til stöðugrar beitar“ (Hörður Kristinsson 2007).


Skyldleiki þeirra blæaspa sem skoðaðar voru í þessari könnun. Merkilegt hvað skoskar aspir eru gjörólíkar okkar öspum.

Skyldleikinn við norskar aspir er mikill, eins og sjá má.

Því miður eru engar aspir frá Danmörku í þessari rannsókn. Aspirnar í Grundarreit eru taldar hafa borist þaðan (C. E. Flensborg 1901). Grundaröspin í þessari rannsókn er skyldari blæöspunum í suðvestur Noregi en suðurhluta Svíþjóðar. Þarna er kominn fyrirtaks verkefni fyrir unga vísindamenn. Hvaðan er öspin í Grundarreit?



Þessi mósaíkmynd sýnir skyldleika blæaspa út frá genarannsóknum. Greinilegt er að aspirnar skiptast í nokkra landfræðilega hópa. Í skýrslunni er skoðað hvort og hvernig erfðaefni berst milli svæða. Sem dæmi má nefna að aspir í norðurhluta Norðurlandanna hafa að meðaltali 26% erfðaefni frá Rússlandi og allt upp í 52% þaðan. Þetta má lesa út úr blágrænu svæðunum. Merkilegt er að sjá hversu sérstakt erfðaefni blæaspa í Skotlandi er. Grafið sýnir að íslensku aspirnar eru almennt líkastar blæöspum í suður- og miðhluta Noregs. Myndin fengin úr títtnefndri skýrslu.



Öspin á Höfða er farin að teygja úr sér eftir tveggja áratuga friðun. Hún er skyldari öspunum á Austfjörðum en í Egilsstaðaskógi.

Mynd: Þröstur Eysteinsson.


Heimildir

C. E. Flensborg (1901): Skovrester og nyanlæg af skov paa Island. V. Oscar Søtofte. Kjøbenhavn.


Helgi Þórsson. Munnleg heimild 13. 10. 2022.


Hörður Kristinsson (án ártals): Flora Íslands. http://floraislands.is/ Sótt 15.10. 2022.


Einar Þorleifsson (2023) Munnlegar upplýsingar 13. 01. 2023


Hörður Kristinsson (2007), Starri Heiðmarsson og Pawel Wasowicz (2018): Blæösp (Populus tremula) Á: Heimasíðu NÍ. Sjá: https://www.ni.is/is/biota/plantae/tracheophyta/magnoliopsida/salicaceae/blaeosp-populus-tremula


Martha Rendón-Anaya, Sæmundur Sveinsson o.fl. (2021): Adaptive Introgression Facilitates Adaptation to High Latitudes in European Aspen (Populus tremula L.) í: Molucular Biology and Evelution (MBE) Volume 38, Issue 11, November 2021, Pages 5034–5050. Sjá: https://academic.oup.com/mbe/article/38/11/5034/6332012


Jón Hákon Bjarnason (2022): Munnlegar upplýsingar 20. 10. 2022.


Sæmundur Sveinsson (2007): Uppruni og erfðabreytileiki blæaspar (Populus tremula L.) á Íslandi. Framvinduskýrsla til Orkurannsóknasjóðs Landsvirkjunar. Landbúnaðarháskóli Íslands.


Þórarinn Benedikz (1994): Hugleiðingar um blæösp vegna hins nýja fundarstaðar hennar. Í: Skógræktarritið 1994. Ársrit Skógræktarfélags Íslands. Reykjavík.


Þröstur Eysteinsson (2015): Blæasparleiðangur á Austurlandi. Frétt á heimasíðu Skógræktarinnar. Sjá: https://www.skogur.is/is/um-skograektina/frettir-og-vidburdir/frettir-og-pistlar/blaeasparleidangur-a-austurlandi

Þröstur Eysteinsson, skógræktarstjóri. Munnlegar upplýsingar 23. 09. 2022.

399 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page