Upphaf skipulagðrar skógræktar á Norðurlandi má rekja til aldamótaársins 1900. Það ár hófst skógrækt í afgirtum reit á Grund í Eyjafirði. Ári áður hófst skipulögð skógrækt á Suðurlandi þegar plantað var í furulundinn á Þingvöllum. Mörg þeirra trjáa sem plantað var á Grund standa enn og ýmsu hefur verið bætt við. Í seinni hópnum eru broddfurur, Pinus aristata. Pistill vikunnar fjallar um þær. Þetta er annar pistill okkar um broddfurur. Hinn fyrsti fjallar um rindafurur sem eru öldungarnir í heimi broddfurunnar. Óbirtur er pistill okkar sem fjallar almennt um broddfurur. Hann er væntanlegur í vetur. Það sem helst fær okkur til að leiða hugann sérstaklega að þessum furum er einkum tvennt. Í fyrsta lagi er sú staðreynd að á Grund virðist vera kominn upp sníkjusveppur sem skaðað getur fururnar verulega. Hitt atriðið er að fururnar hafa sáð sér út á staðnum. Það vekur upp spurningar um náttúruval og hvort næsta kynslóð kunni að standa sig enn betur en sú fyrri.
Göngustígurinn inn í Grundarreit eftir bjarta frostnótt seint að hausti. Til vinstri eru broddfurur, Pinus aristata. Til hægri er glæsileg skógarfura, Pinus sylvestris. Mynd: Sig.A.
Upphafið
Árið 1899 fóru Carl H. Ryder, kapteinn og Einar Helgason, garðyrkjumaður, norður í land í leit að hentugum stað fyrir skógræktartilraunir. Ryder kapteinn var einna ánægðastur með aðstæður í Eyjafirði. Magnús Sigurðsson, stórbóndi á Grund í Eyjafirði bauð fram land til tilraunarinnar endurgjaldslaust og hafist var handa við gróðursetningu aldamótaárið 1900. Strax var plantað þarna ýmsum trjátegundum sem enn setja svip sinn á reitinn. Má nefna blæöspina sem dæmi en um hana höfum við fjallað áður.
Á þessum tíma hafði ekkert fræ af broddfuru borist til landsins. Það gerðist fáum árum síðar en þá voru þær ekki reyndar við Grund. Síðan þetta var hefur mikið vatn runnið til sjávar með Eyjafjarðaránni og margt verið reynt á þessum slóðum.
Það var ekki fyrr en árið 1977 sem broddfurum, Pinus aristata, var plantað í Grundarreit. Þær hafa því fengið að vaxa í reitnum í 46 ár þegar þetta er skrifað en sáð var til þeirra fyrir rétt rúmlega hálfri öld.
Broddfurur í Grundarreit, gróðursettar 1997. Mynd: Sig.A.
Staðsetning
Bílastæðin við Grundarreit eru í suðausturhorni reitsins. Rétt við bílastæðin er hár hóll sem heitir Helguhóll. Það er alveg þess virði að ganga upp á hann og njóta útsýnisins yfir reitinn. Við komum nánar að þessum hól aðeins síðar. Við þetta bílastæði var nokkrum broddfurum plantað árið 1977. Þær eru við girðinguna sem liggur sunnan við reitinn og fylgja göngustígnum frá bílastæðunum. Þar eru þessar furur auðfundnar. Þegar þetta er skrifað líta fururnar ágætlega út en því miður hefur sveppurinn furubikar eða Gremmeniella abietina, numið land í reitnum. Því er framtíð furanna í nokkurri óvissu. Hæstu fururtrén eru rúmir 5 metrar á hæð og þvermál í brjósthæð er 20 cm á stærstu trjánum.
Tvær myndir af broddfurunum við suðurendann á girðingunni utan um Grundarreit. Fyrri myndin tekin innan reits við göngustíginn frá bílastæðinu. Seinni myndin tekin utan við reitinn. Myndir: Sig.A.
Af hverju Grund?
Árið 1900 fór C. E. Flensborg í ferð um landið og skrifaði skýrslu um ferðina árið 1901. Hún var gefin út undir nafninu Skovrester og Nyanlæg af skov paa Island. Flensborg heimsótti Grund sama ár og gróðursetningar hófust og tók þátt í að planta þeim 16.400 plöntum sem til stóð að planta það ár. Einhver afföll urðu þó af plöntum á leiðinni svo heldur færri plöntum var plantað en til stóð. Í riti sínu bendir Flensborg á að þótt sumrin séu styttri á Norðurlandi en á landinu sunnanverðu þá eru umhleypingar miklu algengari sunnan heiða. Því taldi hann að skógar ættu að geta þrifist betur á norðanverðu landinu en fyrir sunnan. Hann taldi Grund ákjósanlegan stað, enda ekki nema um tveggja klukkustunda reið frá Akureyri fram að Grund en samt væri loftslagið „bedre og mildere der end længere ude“.
Svo skrifaði hann: „Øfjord-Dalen og især den inderste Del af den, hvor Grund ligger, er bekendt for at have det mildeste Klima paa hele Nordlandet og ikke megen Sne om Vinteren.“ Hann nefnir einnig að hin kalda norðanátt, sem kemur beint frá Íshafinu, mildist töluvert þegar komið er inn að Grund og þangað berist minna salt með hafáttinni en vænta má utar í firðinum. Vegi þetta meira en sú staðreynd að hægt var á þessum tíma að finna frjórra land víða annars staðar, samkvæmt ritinu.
Mikilvægasta ástæðan var samt önnur, að sögn Danans. Hún var sú að Magnús Sigurðsson, bóndi á Grund, bauðst til að viðhalda girðingum í kringum reitinn og verja hann fyrir ágangi búfjár. Flensborg vissi vel að til að rækta skóg á skóglausu landi þarf að koma í veg fyrir ágang húsdýra.
Við getum ekki stillt okkur um að setja hér inn áhyggjur sem Flensborg hafði af dýru vinnuafli. Ástæðan var sú að „ikke var muligt til dette Arbejde at faa fat i Kvinder eller Børn her, saa at jeg maatte bruge Mænd til“. Auðvitað þurfti að borga þessum mönnum meira en þurft hefði ef hann hefði fengið konur og börn til að vinna verkið eins og til stóð. Svona gátu hremmingar manna verið miklar og margvíslegar við upphaf skógræktar á Íslandi.
Broddfururöðin við stíginn frá bílastæðinu. Hér er horft í austur. Mynd: Sig.A.
Lýsing
Í tveimur pistlum okkar um broddfurur lýsum við tegundinni. Óþarfi er að endurtaka það allt saman hér en nefnum þó helstu einkenni enda höfum við bara birt annan pistilinn. Broddfurur eru svokallaðar fimm nála furur. Það merkir að þær hafa fimm nálar í hverju nálaknippi. Einnig finnast á Íslandi furutegundir sem hafa tvær eða þrjár nálar í knippi. Til eru fleiri fimm nála furur á landinu en þær hafa allar langar nálar. Aftur á móti eru broddfururnar með stuttar nálar. Þetta gerir broddfurur ólíkar öllum öðrum furum á Íslandi. Rétt er að nefna tvö önnur atriði. Hið fyrra er að á nálunum eru áberandi harpix-útfellingar sem aðrar furur hafa ekki. Hið síðara er að á köngulhreistrinu myndast broddar og gefa þeir furunum nafn. Þessi atriði má sjá á myndunum hér að neðan. Frekari lýsingu má finna í pistlum okkar um tegundina.
Tvær myndir frá Grund sem sýna helstu einkenni broddfura. Fyrri myndin sýnir opna og lokaða köngla. Einnig má sjá rauðbrún karlblóm. Vel sést hvernig árssprotarnir eru miklu ljósari en eldra barr. Seinni myndin sýnir nærmynd af nálum þar sem harpix-útfellingarnar sjást vel. Myndir: Sig.A.
Ætt og uppruni
Upphaflega koma broddfururnar úr Klettafjöllum Norður-Ameríku. Til landsins barst fræ í upphafi síðustu aldar eða skömmu eftir að hafist var handa við að planta í Grundarreit. Fyrst var þeim sáð í gróðrarstöð Skógræktarinnar á Hallormsstað og fyrstu plöntunum var plantað þar árið 1908. Í lok síðari heimsstyrjaldar fóru þær að bera þroskað fræ og nær allar broddfurur á landinu eru afkomendur þeirra. Furan í Grundarreit er samt ekki þaðan. Hún er af kvæmi sem kallast Park Country og frænúmerið er 711789 ef marka má fræskrár Skógræktarinnar. Samkvæmt skráningunni voru þær orðnar sex ára gamlar við útplöntun árið 1977 (Rúnar Ísleifsson 2023). Þá höfðu þær verið tvö ár í sáðbeði og síðan færðar tvisvar áður en þeim var plantað í grundina á Grund. Þegar þetta er skrifað eru því slétt 50 ár síðan fururnar voru teknar úr sáðbeði. Það má slá í pönnukökur að minna tilefni. Aðeins 20 plöntum var plantað, samkvæmt þessari sömu skrá (Rúnar Ísleifsson 2023). Við talningu haustið 2023 kom í ljós að allar fururnar standa ennþá með um 2 metra millibili. Það verður að teljast góð lifun. 18 þeirra standa í nokkuð beinni röð og tvær aftan við þær á móts við bílastæðið.
Mynd frá Park Country í Colorado. Þaðan er fræið sem broddfururnar í Grundarreit eru sprottnar upp af. Myndin fengin héðan.
Viðsjár
Alla síðustu öld uxu broddfurur vel á Norðurlandi. Eftir miðja öldina fóru þó viðvörunarbjöllur að hringja. Þær voru þó ekki mjög háværar í byrjun. Sveppurinn furubikar eða Gremmeniella abietina fannst fyrst í Reykjavík árið 1969. Síðan hefur hann breiðst út, lagst á nokkrar furutegundir og leikið broddfurur illa. Sveppurinn kemst inn í tréð í gegnum sár á berki og veldur því að greinar visna. Sveppurinn vex áfram og leiðir til átusára á berki. Fururnar glata þokka sínum og fegurð þegar sveppurinn ræðst á þær og í verstu tilfellum ganga sveppirnir af þeim dauðum. Verst fer sveppurinn með veiklaða einstaklinga í kjölfar snjóbrots eða kals sem opnar leið sveppagróa inn í tréð. Því miður hefur þessi sveppur numið land í Grundarreit.
Eðlilegt verður að teljast að eldri nálar verði brúnar og falli af. Þegar ungar nálar, jafnvel á árssprotum eins og hér má sjá, verða brúnar er það sterk vísbending um að eitthvað sé í ólagi. Viðbúið er að sveppurinn Gremmeniella abietina valdi þessum skaða. Myndin er tekin í Grundarreit. Mynd: Sig.A.
Aðventuhretið
Frá því að broddfurunum var plantað árið 1977 hafa þær, lengst af, staðið sig mjög vel. Að vísu vaxa broddfurur hvorki hratt né mikið, en þær geta verið sérlega fallegar. Árið 2019 breyttist allt. Á aðventunni það ár kom mikið leiðindaveður sem braut bæði staura undir rafmagnslínur og tré um allt Norðurland. Bleytusnjór lagðist yfir allt og tók ekki upp fyrr en á útmánuðum. Myndir af skemmdum trjám birtum við í þessum pistli um vorið árið 2020 þegar skemmdirnar eftir veturinn voru komnar í ljós. Þarna má meðal annars sjá brotnar broddfurur. Að sögn Rúnars Ísleifssonar skógarvarðar (2023) fór þetta hret mjög illa með broddfururnar á Grund og sjást þess enn merki þótt þær hafi verið lagaðar talsvert með klippingu. Svipaða sögu má segja af mörgum broddfurum á Norðurlandi og verður nánar sagt frá því í næsta broddfurupistli okkar. En sjaldan er ein báran stök. Þegar trén urðu fyrir svona miklu snjóbroti glöddust sníkjusveppirnir. Aðgengi gróa að viðnum stórjókst. Fram að þessum tíma var sveppurinn ekki áberandi í lundinum en nú kom tækifærið sem hann hafði beðið eftir.
Broddfurur á Grund sem fóru illa í hretinu árið 2019. Þær hafa verið klipptar til en sjá má að þær hafa ekki allar náð sér að fullu árið 2023. Mynd: Sig.A.
Hvað er til ráða?
Þessi leiðinlegi vágestur finnst víða um land. Verst er ástandið í hafrænu loftslagi þar sem sveppurinn kann vel við sig í raka. Aftur á móti hefur sveppurinn einnig valdið tjóni inn til landsins, svo sem á Hallormsstað. Því er við því að búast að sveppurinn stórskaði þessar furur á Grund og gangi jafnvel af þeim dauðum.
Sennilega eru engar varnir til við þessari sveppasýkingu sem duga til lengri tíma. Þó má reyna. Úr því að sveppurinn þrífst betur í raka má grisja furulundinn hraustlega til að betur lofti um þær. Það gæti leitt til þess að fururnar standist ásóknina betur. Við slíka grisjun er rétt að fjarlægja þær furur sem sýna mestu merkin um sýkingu. Vel má vera að það sé einstaklingsmunur á þoli furanna og grisjun gæti leitt það í ljós.
Ekkert er þó öruggt í þessu sambandi.
Samson Bjarnar Harðarson mundar símamyndavélina við sjálfsána bergfuru, Pinus uncinata utan í Helguhól. Bergfurur eru næmar fyrir sveppasýkingum af völdum furubikars eins og broddfururnar. Mynd: Sig.A.
Helguhóll
Eins og áður segir er stór hóll rétt við bílastæðið við Grundarreit og þar með rétt hjá broddfurunum. Hóll þessi heitir Helguhóll og er hans getið í þjóðsögum. Hóllinn er nefndur eftir Grundar-Helgu sem var uppi er svartidauði geisaði á landinu. Hóllinn var lengst af nær alveg gróðurlaus og engan veginn heppilegur til trjáræktar. Því var ekki plantað neinu í hann. Nú hefur fjölbreyttur gróður vaxið upp í kringum hólinn og skýlir honum. Því hefur þarna myndast tækifæri fyrir trjátegundir í nágrenninu að sá sér út. Það hefur broddfuran nýtt sér. Það er þessi sjálfsáning broddfuranna sem gerir þennan reit einn þann merkilegasta af öllum broddfurureitum landsins. Vissulega hefur furan sáð sér víðar út en sennilega hvergi jafnmikið. Þarna hafa fleiri tegundir numið land, svo sem reynir og bergfura, en það hefur gerst víðar um landið. Mynd af einni bergfurunni má sjá hér ofar.
Sjálfsánar trjáplöntur í Helguhól. Þessi með rauðu laufblöðin er reynir. Lengst til hægri sér í litla bergfuru. Fremst eru tvær státlegar broddfurur og ein minni er lengst til vinstri. Á milli toppanna á stærstu broddfurunum má einnig sjá í litla furu. Mynd: Sig.A.
Grundar-Helga
Munnmæli segja að Grundar-Helga sé heygð í hólnum og sitji þar í hásæti miklu, umkringd gulli og hverskyns gersemum. Eins og títt er um slíka hóla hvíla á honum álög. Ef grafið er í hólinn má búast við að allar kirkjur sveitarinnar standi í björtu báli.
Jón Árnason þjóðsagnasafnari segir svona frá þessu: „Hjá Grund í Eyjafirði er hóll einn er nefnist Helguhóll. Í þeim hól er sagt að Grundar-Helga hafi látið haugsetja sig, en hún var auðkona hin mesta og þar eftir ágjörn sem síðar verður getið, og segja Eyfirðingar að hún hafi lifað þegar svartidauði geisaði hér. Sagt er að hún hafi látið bera fé mikið í hól þenna; en er menn fóru að grafa í hann sýndist þeim Grundarkirkja vera að brenna. Hlupu þeir þá til og vildu slökkva eldinn, en þetta voru eintómar missýningar til að aftra graftarmönnum frá fyrirtæki sínu.“
Helguhóll 1. nóvember 2023. Lengst til hægri sér í lerki. Líklegt er að það sé lerkiblendingurinn ´Hrymur´ sem hefur verið plantað þarna. Allt annað lerki á svæðinu var barrlaust með öllu er myndin var tekin. Sjá má sjálfsánar furur á myndinni. Mynd: Sig.A.
Í þessari stuttu frásögn úr þjóðsögum Jóns Árnasonar er nefnt að síðar verði getið um ágirnd Grundar-Helgu. Þess vegna bendum við á þessa sögu sem höfð er eftir þessum sama Jóni og lesa má á Snerpu.is. Þarna kemur fram að Grundar-Helga hafi látið hola hólinn innan og sitji þar í stól.
Við þekkjum ekki önnur dæmi þess en þau sem Jón þjóðsagnasafnari nefnir að á þessi álög hafi reynt. Og þó. Vel má vera að álögin séu allt önnur en sagt er frá í sögunum. Hver veit nema sú farsótt sem hrjáir broddfurur á landinu sé einmitt tengd þessum álögum. Stafar sveppasýkingin á broddfurum landsins af því að einhver hafi reynt að grafa í Helguhól eða hafi á einhvern annan hátt svívirt minningu Grundar-Helgu? Svo er auðvitað ekki útilokað að Helga hafi mildast með árunum og sé nú orðin að sérstökum verndara broddfuranna ungu sem nú vaxa utan í hólnum.
Sjálfsánu broddfururnar eru ekki allar frá sama tíma. Svo er að sjá sem um endurtekinn atburð sé að ræða. Myndir: Sig.A.
Framtíðin
Fróðlegt verður að fylgjast með þessum sjálfsánu furum þarna í framtíðinni. Landið er rýrt og þurrt en fururnar vaxa þarna ágætlega. Hvernig mun þeim vegna í framtíðinni? Allar tuttugu broddfururnar sem upphaflega var plantað á Grund standa enn. Það er samt ekki endilega þannig að þær hafi allar lagt jafnmikið til erfðaefnis þeirrar kynslóðar sem nú er að vaxa upp utan í Helguhól. Það eru fyrst og fremst öflugustu fururnar sem blómgast og mynda köngla en sníkjusveppurinn sækir mest á veiklaðar furur. Því má alveg búast við að nokkurs náttúruvals sé nú þegar tekið að gæta. Önnur kynslóð kann því að vera betur aðlöguð en sú fyrsta og þolir vonandi sveppinn eitthvað betur. Hvernig mun önnur kynslóð broddfura á Íslandi, sem ættaðar eru frá Park Country í Ameríkuhreppi, standast ásókn sveppsins sem hrjáir tegundina um allt land? Hvernig stendur þetta kvæmi sig miðað við önnur? Tíminn mun gefa okkur svör við þessum spurningum og jafnvel svar við því hvort broddfura eigi sér gæfuríka framtíð á landinu eða hvort ræktun hennar muni smám saman leggjast af.
Þakkir:
Eftirtaldir aðilar veittu allskonar upplýsingar og aðstoð við gerð þessa pistils og mætti jafnvel kalla meðhöfunda. Eru þeim öllum færðar okkar bestu þakkir.
Aðalsteinn Svanur Sigfússon Helgi Þórsson Pétur Halldórsson
Rúnar Ísleifsson Samson B. Harðarson Sigríður Hrefna Pálsdóttir.
Heimildir:
C. E. Flensborg, Forestkandidat (1901): Skovrester og Nyanlæg af skov paa Island. V. Oscar Søtofte. Kjøbenhavn. Rúnar Ísleifsson, skógarvörður að Vöglum (2023): Munnlegar upplýsingar. Rúnar veitti okkur að auki góðfúslegt leyfi til að skoða fræskrár Skógræktarinnar.
Commentaires