Júdasartré
- Sigurður Arnarson
- 4 hours ago
- 12 min read
Þegar Júdas Ískaríot hafði svikið mentor sinn, með frægasta kossi heimssögunnar, fékk hann vænan silfursjóð og alveg heiftarlegan móral. Hann hafnaði silfrinu, gekk út og hengdi sig. Í Nýja testamentinu er sagt frá þessu í Matteusarguðspjalli en þar kemur ekki fram um hvaða tré var að ræða. Það hindrar samt ekki þjóðsögurnar. Samkvæmt Wells (2010) hafa fíkjutré, aspir og elri verið meðal þeirra trjátegunda sem nefndar hafa verið til sögunnar. Sum þeirra eru ólíklegri en önnur, meðal annars vegna þess að þau vaxa ekki öll í Palestínu. Ein trjátegund er þó nefnd oftar en aðrar. Það er eins og sögur um það tré hafi öðlast fætur, ef ekki vængi þegar kemur að þessu hlutverki. Það heitir Cercis siliquastrum á fræðimálinu og hefur verið nefnt júdasartré á mörgum tungumálum.

Heimkynni
Júdasartré vex villt í þurru loftslagi við Miðjarðarhafið í Suður-Evrópu og í Asíu fyrir botni þess sama hafs og allt austur til Afganistan. Þar með vex það villt í Palestínu og í Ísrael og hefur eflaust vaxið á sömu slóðum þegar Júdas var á lífi. Því kemur það betur til greina í þetta sorglega hlutverk en sum þeirra trjáa sem nefnd eru í inngangskaflanum. Þegar Júdas var upp á sitt besta var landið nefnd Júdea. Á frönsku er tréð kennt við það forna land. Þar kallast tréð arbre de Judée. Vel má vera að þarna sé komin fram skýringin á nafninu sem tréð ber á flestum tungumálum. Það gæti vel verið að Júdea hafi orðið að Júdasi í máli manna og það hafi orðið grunnurinn að þjóðsögunni.

Júdasartré hefur verið ákaflega lengi í ræktun í heiminum. Það á bæði við um heimaslóðir og að auki hefur það lengi verið ræktað víða á svæðum allfjarri þeim. Má sem nefna að samkvæmt síðunni Trees and Shrubs Online hefur tegundin verið ræktuð í Englandi í meira en þrjú hundruð ár. Á kortinu hér að ofan má sjá að júdasartré hefur víða orðið ílendur slæðingur en það á ekki við í hinu svala loftslagi Englands.
Ættfræði
Júdasartré er af hinni geysistóru belgjurtaætt sem einnig er nefnd ertublómaætt og ber fræðiheitið Fabaceae. Hún er talin þriðja stærsta plöntuætt í heimi og innan hennar eru jurtir, klifurjurtir, runnar og tré af öllum stærðum og gerðum. Margar tegundir ættarinnar eru ræktaðar til manneldis í heiminum. Það eru fyrst og fremst fræin sem eru borðuð og kallast þau í mörgum tilfellum baunir. Þau þroskast í sérstökum belgjum og af því hlýtur ættin nafn sitt (Sigurður 2014). Eitt það merkilegasta við þessa ætt er að nær allar tegundirnar hafa gerla á rótunum sem vinna köfnunarefni beint úr andrúmsloftinu sem nýtist plöntunum sem áburður. Þess vegna eru margar belgjurtir ágætar landgræðslujurtir og þær má nýta sem áburðargjöf í skógrækt. Við höfum skrifað þennan pistil um ágæti þeirra í þessum tilgangi. Annars bendum við á Belgjurtabókina frá 2014 fyrir þá sem vilja fræðast meira um þessa ætt (Sigurður 2014).
Samkvæmt Wells (2010) er júdasartréð undantekning frá þeirri meginreglu að belgjurtir vinni nitur úr andrúmsloftinu með hjálp gerla. Það má segja að það svíki málstað belgjurta með því að gera það ekki. Það hæfir sjálfsagt nafni trésins ágætlega að svíkja málstaðinn, hver sem hann er.
Meðal þeirra trjáa sem við höfum skrifað um og teljast til belgjurtaættarinnar má nefna gullregn og akasíur.

Caesalpinioideae
Þróun belgjurta hefur orðið til þess að þrjár undirættir hafa verið skilgreindar. Þær kallast Papilionoideae, Caesalpinioideae og Mimosoideae í fræðiritum. Sumir grasafræðingar vilja ganga lengra og skilja seinni tvær undirættirnar frá aðalættinni. Sérstaklega á það við um síðastnefnda hópinn enda eru blómin innan Mimosoideae nokkuð frábrugðin öðrum blómum í ættinni.
Við höfum áður fjallað um tegundir af þessari undirætt (eða ætt) í pistlum okkar. Má nefna pistil um regntré, Samanea saman og pistlaröð um akasíur, Acacia spp.
Tré vikunnar, júdasartréð, er hið fyrsta sem við fjöllum um og tilheyrir Caesalpinioideae. Engin planta af þessari undirætt, hvorki tré né blóm, þrífast utandyra á Íslandi. Hér þrífast aðeins plöntur sem tilheyra Papilionoideae. Þetta merkir að þrátt fyrir að tegundin sé af belgjurtaætt er hún mjög fjarskyld þeim belgjurtum sem hér má finna (Sigurður 2014, Lewis 2005).
Nánustu ættingjar
Þar sem belgjurtaættin er ákaflega stór eru margar ættkvíslir innan hennar. Júdasartréð er af ættkvísl sem kallast Cercis. Til hennar heyrir um tugur tegunda auk afbrigða og undirtegunda (Lewis 2005). Tegundirnar eru nokkuð líkar og sums staðar er ekki gerður greinarmunur á þeim af almenningi. Í Norður-Ameríku eru til tvær eða þrjár tegundir af þessari ættkvísl. Ein þeirra vex í austurhlutanum og er kennd við Kanada á fræðimálinu. Hún kallast C. canadensis. Þrátt fyrir nafnið er hún algengari sunnan landamæranna og afbrigði hennar vex meira að segja alveg suður til Mexíkó (WFO 2024, Lewis 2005 ). Samkvæmt hinni stóru bók Legumes of the World (2005) er þessi tegund alveg náskyld júdasartrénu. Í vesturhluta álfunnar má finna eina eða tvær tegundir runna af þessari ættkvísl. Annar þeirra ber fræðiheitið C. orbiculata en hinn heitir C. occidentalis. Sá fyrrnefndi vex sunnar og á þurrari stöðum en sá síðarnefndi. Lewis (2005) segir að þetta sé ein og sama tegundin. Allar þessar amerísku tegundir (eða báðar) ganga undir nafninu redbud á ensku. Fjölbreyttastar eru tegundirnar í Kína. Þar má finna sex af þessum tug tegunda sem til er í heiminum (Lewis 2005). Í Evrópu og Norður-Ameríku má stundum sjá eina af þessum kínversku tegundum af þessari ættkvísl. Kallast hún C. chinensis og hefur henni verið plantað víða. Sums staðar hefur hún sáð sér út frá ræktun, til dæmis í Austur-Evrópu. Fleiri tegundir af ættkvíslinni vaxa í Kína en þær virðast ekki hafa borist til Evrópu í eins miklum mæli. Þá eru aðeins fáeinar tegundir ónefndar af þessari ættkvísl en við þreytum ykkur ekki með að telja þær upp en vísum þess í stað á þessa síðu.

Útlit
Júdasartré er fremur lítið, lauffellandi tré eða stór runni. Tegundin getur haft einn stofn og telst þá til trjáa. Stundum hefur hún marga stofna. Þá er hún að jafnaði lægri og telst til runna.
Þar sem tréð getur verið nokkuð breytilegt í útliti hefur því stundum verið skipt í þrjár undirtegundir (WFO 2024). Þess vegna ber að taka allar tölur hér að neðan með nokkrum fyrirvara.

Júdasartré getur orðið um 13 metrar á hæð og krónan getur orðið um 10 m í þvermál. Það nær samt alls ekki alltaf þessari stærð. Sumum finnst tréð reyndar svo lítið og runnalegt að það hljóti að benda til þess að aumingja Júdas hafi verið mjög lágvaxinn og léttbyggður, enda eru greinarnar veikari eftir því sem þær eru minni og vaxa ofar í trénu. Aðrir, til dæmis Wells (2010), segja að greinar trjánna séu sterkar og geti því vel haldið uppi eins og einum manni í snöru. Tréð þarf töluverða birtu en getur einnig vaxið í hálfskugga. Því vex það ekki inni í þéttum skógum heldur í jöðrum þeirra eða í rjóðrum og öðrum sambærilegum stöðum. Ef skógurinn er nægilega gisinn getur júdasartré vaxið sem undirgróður með stærri trjám.

Laufblöð
Innan ættarinnar er mjög algengt að tré hafi fjöðruð blöð. Júdasartréð hafnar því ættareinkenni. Það er reyndar mjög algengt innan Caesalpinioideae undirættarinnar sem tréð tilheyrir. Það hefur stór laufblöð með hjartalaga blaðbotn en þau eru snubbótt í hinn endann. Aðrar tegundir ættkvíslarinnar eru með alveg hjartalaga blöð eins og sést á mynd hér að neðan. Júdasartréð er ekki alveg með þannig lauf. Má segja að þau séu nýrnalaga frekar en hjartalaga. Laufin á júdasartré geta orðið allt að 13 cm í þvermál og eru oftast breiðari en sem nemur lengd þeirra. Þau eru hárlaus og glansandi (WFO 2024).
Neðra og efra borð laufblaða júdasartrés. Laufblöðin eru hjartalaga í grunninn en mynda sjaldnast næga totu til að geta kallast hjartalaga eins og laufblöð annarra tegunda ættkvíslarinnar. Þessi lauf uxu á tré sem stendur í grasagarði háskólans í Bern í Sviss. Mynd: © Jan De Langhe - Arboretum Wespelaar.
Til samanburðar höfum við mynd af laufum Cercis canadensis L. sem hefur enn dæmigerðari blöð fyrir ættkvíslina. Þá mynd tók R. A. Nonenmacher.
Blómin
Blómin á júdasartré eru mjög merkileg. Þau birtast á vorin áður en tréð laufgast. Það er að vísu nokkuð algengt að tré hafi það einmitt þannig. Aftur á móti er staðsetning þeirra mjög spes. Þau vaxa út úr eldri greinum en þó ekki út úr enda þeirra eins og algengast er. Að auki vaxa blóm beint út úr stofni trjánna. Það að blóm vaxi beint út úr stofnum trjáa er óvanalegt og gerir tréð ákaflega sérstakt. Þetta þekkist þó hjá fleiri trjám, meðal annars hjá kakóplöntunni. Greinarnar geta verið algerlega kafin blómum og þau eru um 1,3 til 1,5 cm í þvermál. Þau vaxa í klösum, þrjú til sex saman.

Í blóma vekja þessi tré mikla athygli. Blómin hafa nokkuð dæmigert lag ertublóma eins og blóm innan belgjurtaættarinnar eru oft nefnd. Oftast nær eru blómin purpurarauð eða bleik en til eru tré sem bera hvít blóm eins og sést á mynd hér aðeins ofar (Wells 2010, WFO 2024). Blómin hafa sætukeim og algengt var fyrrum að nota þau til að bragðbæta mat (Lewis 2005). Enn eru þau stundum borðuð í Miðausturlöndum.

Sumir telja að bleikrauðu blómin á júdasartré minni á blóðdropa. Sérstaklega á það við þegar blómin falla, eitt og eitt, af greinum og stofni. Þá má vel ímynda sér blóðdropa. Það hjálpar til við að viðhalda sögunni um að Júdas hafi endað líf sitt í svona tré. Þá þarf að vísu að aðlaga söguna dálítið því hann ku hafa hengt sig en ekki blóðgað. Til er þjóðsaga sem segir að upphaflega hafi öll blómin á tegundinni verið hvít. En þegar Júdas hengdi sig í svona tré urðu trén svo sorgmædd að litur blómanna breyttist yfir í rautt (Wells 2010).
Ef allt gengur að óskum myndast lóðréttir fræbelgir þannig að ekkert fer á milli mála með að tréð tilheyrir belgjurtaættinni. Þeir verða um 7,5 til 10 cm langir og tæpir 2 cm á breidd. Ef til vill ýta þessir lóðréttu belgir einnig undir söguna um Júdas. Þeir hanga á trénu og eiga það til að hanga nokkuð lengi. Þeir opnast vanalega ekki fyrr en að ári liðnu. Því má oft sjá belgi frá fyrra ári á sömu trjánum og þakin eru blómum á vorin (Clapp & Crowson 2022, WFO 2024). Fullþroskaðir belgir eru ljósbrúnir eins og sést á meðfylgjandi mynd en ungir belgir geta verið rauðir að lit áður en þeir ná fullum þroska.

Saga um býflugur
Til eru fleiri sögur sem tengjast þessu tré. Þær virðast flestar tengjast blómunum á einn eða annan hátt. Heimild okkar fyrir þeim er Wikipedia.
Ein saga segir að blómin á júdasartré séu eitruð og geti drepið þær býflugur sem álpast í þau. Þá eiga þær að falla steindauðar til jarðar. Ef til vill tengist þetta eitthvað sögunni um Júdas þannig að tréð hljóti að tengjast sorg og dauða. Ef til vill hefur það þótt eitthvað drungalegt ef tréð gæti drepið flugur en ekki bara þá sem svíkja Guðssoninn. Þessi saga er samt tóm þvæla. Býflugur sækja mjög í þessi blóm og sjá um frævun þeirra. Í bókinni Legumes of the World er því beinlínis haldið fram að tegundin sé mikilvæg fyrir hunangsflugur í heiminum. Sambærilegar sögur hafa heyrst um eina belgjurt á Íslandi. Hún kallast lúpína, Lupinus nootkatensis. Samt má á hverju ári sjá býflugur sem fljúga á milli lúpínublóma, rétt eins og á milli blóma júdasartrésins, án þess að það verði þeim að fjörtjóni.
Humla í júdasartré í útlöndum og ryðhumla í lúpínu í Síðuhverfi á Akureyri. Humlur sækja jafnt í lúpínur sem júdasartré, en þau eru af sömu ætt. Einhverra hluta vegna er til fólk sem telur að báðar tegundirnar séu hættulegar býflugum og humlum. Fyrri myndin er héðan en þá seinni tók Sig.A.
Tyrklandssögur
Til eru tyrkneskar sögur af júdasartré er tengjast lit blómanna. Einkum á það við um nágrenni Bosbórussunds, en þar mun tréð lengi hafa verið algengt. Þegar Austrómverska ríkið var til þá þóttu ríkisbubbar ekki vera bubbar með bubbum nema þeir gætu klæðst purpuralitum skikkjum eða að minnsta kosti hvítum skikkjum með purpurarauðum borðum og bryddingum. Þetta hefur stundum verið rakið til þess hversu liturinn var dýr í framleiðslu. Sama fyrirbæri þekktist vel í Róm á sínum tíma. Liturinn var því tákn um velmegun og ríkidæmi.
Á vorin, þegar trén blómstra, geta þau verið purpurarauð á litinn. Þá áttu þau að minna á aðalinn og þó sérstaklega hinn kristna höfðingja sem réð yfir borginni og klæddist þessum lit við hvert tækifæri.
Á 14. öld var búið að skipta um sið á þessum slóðum og Ottómanveldið stóð þá sem hæst. Þá var uppi emír að nafni Sultan. Sagan segir að á hverju vori hafi hann komið til borgarinnar Bursa þegar júdasartrén voru í fullum blóma. Þetta nýttu íbúarnir sér og sérstök hátíð, tileinkuð trénu, var haldin þar á hverju vori og var mjög vinsæl allt fram á 19. öld. Laðaði hún margan ferðalanginn til borgarinnar til að dást að trjánum. Enn er hátíðin haldin en hún laðar ekki lengur að eins marga ferðamenn og hefur því ekki sömu efnahagslegu þýðingu fyrir borgina sem fyrrum.

Fræðiheitið
Fræðiheiti tegundarinnar er Cercis siliquastrum L.
Bókstafurinn á eftir fræðiheitinu segir til um að það hafi verið sjálfur Linnæus sem gaf tegundinni nafn. Enginn annar grasafræðingur kemst upp með að tákna nafn sitt með aðeins einum bókstaf. Mun nafn tegundarinnar fyrst hafa birst árið 1753. Það hlýtur þá að hafa verið í ritinu Species Plantarum sem einmitt kom út það ár og var algert lykilrit á sínum tíma.
Fyrri hluti heitisins, cercis, er komið úr grísku þar sem orðið kerkis merkir eitthvað í líkingu við stöng (Wells 2010). Væntanlega, segja sumir, vísar það í stofninn en það gæti líka vísað í blaðstilkana. Aðrar heimildir segja að orðið cercis tengist vefnaði og merki skutlu sem notuð er til að draga þráð í gegnum vef í vefstól. Þetta orð á þá að vísa í hina flötu, stóru fræbelgi sem minna á þetta verkfæri (Wikipedia 2024, Clapp & Crowson 2022). Lewis (2005) segir að þetta orð, cercis (sem hann skrifar reyndar sem cerkis) hafi lengi verið notað yfir tegundina. Hann segir að það sé komið úr ritum Þeofrastusar. Þessi forngríski heimspekingur var uppi frá um það bil 371 – 287 fyrir okkar tímatal.
Seinni orðið, siliquastrum, kemur úr latínu. Á henni má nota orðið siliqua fyrir belgi með vísan í fræbelgi eins og þekkjast svo víða í ættinni. Við þekkjum eflaust flest fræbelgina sem lúpínur mynda og allskonar baunabelgi. Það eru þessir belgir sem kallast siliqua á latínu. Seinni hluti orðsins, astrum, merkir stjarna á latínu en Clapp & Crowson (2022) segja að það sé stundum notað yfir eitthvað sem líkist einhverju öðru. Vissulega líkjast belgirnir öðrum belgjum. Ekki er þetta heiti sérstaklega upplýsandi fyrir þessa ættkvísl því belgirnir eru eitt helsta einkenni ættarinnar í heild. Þó eru belgir innan ættarinnar stundum gjörólíkir þessum dæmigerðu belgjum. Má nefna fræbelgi smára eða Trifolium spp. sem dæmi.
Ef við viljum þýða fræðiheitið beint yfir á íslensku fáum við út eitthvað svipað og „stangartré með belgi“. Við getum engan veginn mælt með því heiti.

Önnur nöfn
Vestur í Ameríkuhreppi ganga tegundir af þessari ættkvísl undir nafninu redbud. Samkvæmt Britannicu þekkist heitið einnig í öðrum enskumælandi löndum. Stundum hefur þetta heiti verið notað á júdasartréð. Til aðgreiningar frá öðrum tegundum ættkvíslarinnar er það kallað European redbud. Sumum þykja þessi orð ekki nægilega söluvænleg. Það má vel vera að einmitt þess vegna sé það kallað Love tree. Sambærilegt heiti þekkist í spænsku: árbol del amor, þótt samheitið árbol del Judas þekkist einnig.
Samkvæmt þessum orðabanka, sem við höfum oft vitnað til, er þó lang algengast í evrópskum tungumálum að kenna tréð við Júdas. Á því er þó sú undantekning að Frakkar kenna tréð við Júdeu en ekki Júdas, eins og að framan greinir.

Nytjar
Það má gera margt skemmtilegra við júdasartré en að hengja sig í þeim.
Fræin og belgirnir á trjánum eru ætir og reyndar má segja það sama um fræbelgi allrar ættkvíslarinnar og margra annarra plantna innan ættarinnar. Þó ekki allra. Að auki þykja blómknúpparnir sérlega bragðgóðir. Wells (2010) segir að í Miðausturlöndum hafi þeir löngum verið tíndir af trjánum og nýttir eins og kapers. Blómin eru borðuð hrá og gjarnan höfð í salat.
Viðinn má einnig nýta. Hann er harður og gjarnan notaður í rennismíði og fleira. Tegundin C. canadensis frá austurhluta Norður-Ameríku var á sínum tíma eftirsótt af frumbyggjum álfunnar í bogasmíði.
Mest er þó tegundin nýtt sem skrauttré eða skrautrunni. Það eru fáar tegundir sem standast samanburð á vorin á meðan greinarnar og stofninn eru þakin blómum.

Heimildir
Casey Clapp & Alex Crowson (2022): The Cult of St. Francis (Judas Tree). Hlaðvarpsþáttur úr þáttaröðinni: Completely Arbortrary frá 14. júlí 2022. Sjá: THE CULT OF ST. FRANCIS (JUDAS TREE) — Completely Arbortrary. Sótt 3. október 2024.
Gwilym Lewis (ritstj.) o.fl. (2005): Legumes of the World. Royal Botanic Gardens, Kew.
Sigurður Arnarson 2014: Belgjurtabókin. Tré, runnar og blómjurtir af ertublómaætt. Sumarhúsið og garðurinn, Selfossi.
Trees and Shrubs Online (2024): Cercis siliquastrum L. Sjá: Cercis siliquastrum. Sótt 3. október 2024.
WFO, The World Flora Online (2024): Cercis siliquastrum L. Sjá: Cercis siliquastrum L. Sótt: 4. október 2024.
Wikipedia. The Free Encyclopedia (2024): Cercis siliquastrum. Sjá: Cercis siliquastrum - Wikipedia. Sótt 3. október 2024.
Í netheimildir er varða myndir er vísað undir hverri mynd fyrir sig. Þakkir fær Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir fyrir gagnlegan yfirlestur og þarfar ábendingar.
Comments