top of page
Writer's pictureSigurður Arnarson

Tré frá tímum risaeðla: Köngulpálmar

Í þáttum okkar um tré vikunnar höfum við víða komið við. Við höfum sagt frá trjám sem drepa önnur tré, tré sem blæðir, tré sem tengjast trúarbrögðum og tónlist og svo mætti áfram telja. Við höfum fjallað um tré sem uxu á Íslandi áður en ísöld gekk í garð, tré sem vaxa hér nú og tré sem alls ekki geta vaxið hér. Nú ætlum við að fjalla um tré sem eru svo gömul að þau áttu sitt blómaskeið áður en Ísland varð til. Þessi tré eru samt enn til í heiminum og hafa verið á jörðinni allt frá því að risaeðlurnar voru upp. Þetta eru svokallaðir köngulpálmar eða krónuviðir. Hér höldum við okkur við fyrra heitið. Ættin er kölluð Cycadaceae á latínu og á mörgum tungumálum er talað um Cycad þegar þessi tré ber á góma. Ef til vill hringir það einhverjum bjöllum.


Í Höfðaborg í Suður-Afríku er grasagarður sem heitir Kirstenbosch Botanical Gardens. Þar er mikið safn af köngulpálmum. Myndin fengin héðan.


Útlit

Þrátt fyrir að köngulpálmar séu óskyldir pálmum þá líkjast þeir þeim nokkuð. Bæði köngulpálmar og pálmar mynda einn áberandi stofn og efst á honum eru lauf. Óskyldar lífverur geta tekið upp svipað útlit ef umhverfið leiðir til líkrar þróunar. Það sem ber á milli þessara óskyldu lífvera er að laufin sem vaxa efst á stofnum köngulpálma eru gjörólík laufum pálma. Köngulpálmar hafa blöð sem rúllast upp eins og við þekkjum hjá burknum. Því má segja að trén standa svona nokkurn veginn á milli pálma og burkna í útliti. Rétt er að taka fram að þótt laufin séu lík á köngulpálmum og burknum er ekki talið að þau séu vitund skyld enda teljast burknar ekki einu sinni til fræplantna. Þessi lauf mynda gjarnan einskonar körfu eða rósettu á toppnum á plöntunum. Þau eru viðkvæm í fyrstu en verða svo leðurkennd og þykk. Á flestum tegundum eru þau stór og vekja sérstaka athygli á fremur lágum plöntum. Þá virka laufin óeðlilega stór miðað við stofninn.


Laufblöð á köngulpálmum að opnast. Til vinstri er laufblað sem opnast alveg eins og hjá burknum. Til hægri er smá tilbrigði. Fyrri myndin er fengin héðan en seinni myndin héðan.

Til að valda grasafræðingum enn meir höfuðverk er fræmyndun allt önnur en hjá þessum líku tegundum. (Reyndar mynda burknar ekki fræ, heldur gró). Köngulpálmar eru berfrævingar og þeir mynda því einskonar köngla eins og barrtré, sem eru líka berfrævingar. Þess vegna kallast þeir köngulpálmar. Ólíkt mörgum barrtrjám eru þessar plöntur með sérbýli. Það merkir að trén eru annaðhvort karlkyns eða kvenkyns. Í könglum karlkynsins myndast frjó en aðeins kvenplönturnar mynda fræ. Flestar köngulpálmategundir nota vindinn til að dreifa frjói sínu en til eru tegundir sem laða að sér skordýr, einkum bjöllur, til að sjá um frævun plantna. Þær hafa því verið á undan dulfrævingum til að feta þá slóð. Með öðrum orðum: Plöntur notuðu skordýr til að dreifa frjói sínu áður en fyrstu blómin urðu til! (Attenborough 1995, bls. 99).


Könglar mismunandi tegunda. Samsett mynd fengin héðan.


Til að laða að sér skordýr notar ein tegund merkilega aðferð. Hún hækkar hitann í könglinum sínum um rúmar tvær gráður þegar frjóið er tilbúið til dreifingar. Til eru bjöllur sem láta þetta ekki fara fram hjá sér og sækja í hitann og háma í sig frjóin. Þar sem borðsiðir þeirra eru ekkert til að mæla með verða þær útataðar í frjóum. Svo fljúga þær í burtu að leit að næstu veislumáltíð og álpast þá að kvenköngli og skríða um hann í leit að frjói. Þar með er markmiði köngulpálmans náð (Attenborough, 1995 bls. 99). Attenborough heldur því fram að þessi aðferð sé einstök í öllu plönturíkinu en það er nokkuð djúpt í árinni tekið. Þótt þessari tegund hafi tekist að þróa þessa aðferð betur en öðrum (enda haft tímann fyrir sér) verður að geta þess að til eru blómplöntur sem eru þannig að við ákveðin skilyrði hækkar hitinn örlítið í blómunum. Það gerir það að verkum að flugur dvelja þar aðeins lengur en annars og safna frjói. Hér á Íslandi endurvarpa hvít krónublöð holtasóleyjar birtunni að miðju blómsins. Við það hækkar hitinn örlítið og flugurnar kunna að meta það.


Könglar köngulpálma geta verið æði fjölbreyttir í útliti. Sumar tegundir mynda fjölmarga samhangandi köngla þarna upp í burknalaufinu á meðan aðrar mynda einn stóran köngul. Sennilega er það algengara. Í útliti minna þeir helst á rúgbýbolta eða egg frá einhverjum fornaldar furðufugli. Þroskaðir könglar bera litfagra köngla sem oft eru skærrauðir, fjólubláir eða gulir. Það laðar að fugla og spendýr sem dreift geta fræjunum (Mahr án ártals). Það er sama kerfi og margir tvíkímblöðungar tóku upp þegar þeir urðu til.


Sem sagt: Ef þú sérð tiltölulega lágvaxið pálmatré með stórum burknalaufum á toppnum og í miðri laufhrúgunni er stór rúgbýbolti, þá ertu að horfa á köngulpálma.

Rétt er að taka fram að þótt margar tegundir köngulpálma myndi svo stórar plöntur að við köllum þær tré á það ekki við um allar tegundirnar.

Encephalartos woodii í Durban Botanical Garden í Suður-Afríku. Myndin fengin héðan.


Ættfræði

Þessi tré eru ekkert lík öðrum trjám, nema ef vera skyldi pálmatrjám eins og áður er lýst. Eins og áður segir eru Þeir samt ekkert skyldir pálmum. Pálmatré tilheyra þeim hópi dulfrævinga sem kallast einkímblöðungar. Þeir eru því skyldari grösum en öðrum trjám og miklu yngri í þróunarsögunni. Köngulpálmar eru ekki heldur skyldir burknum. Burknar eru eldri í þróuninni og mynda ekki fræ heldur gró. Hvað eru þá köngulpálmar? Þessi hópur trjáa myndar alveg sína eigin grein á ættartrénu. Hún vex út úr því mun nær barrtrjám en lauftrjám en enn nær er þó greinin sem musterisviðurinn tilheyrir. Það merkir að þetta eru þau tré í heiminum sem eru skyldastir honum. Um hann höfum við fjallað áður í pistli sem heitir: Tréð sem tíminn gleymdi. Það eru þó mun fleiri tegundir til af köngulpálmum en musterisviðum. Þar er bara ein tegund eftir, en köngulpálmarnir eru býsna fjölbreyttir. Af þeim eru til um 300 þekktar tegundir sem lifa góðu lífi í hitabeltinu og á heittempruðum svæðum. Samkvæmt Mahr (án ártals) er líklegt að sú tala sé jafnvel töluvert hærri. Það byggir hún á því að á undanförnum árum hafa margar nýjar tegundir fundist, sérstaklega í Asíu og Suður-Ameríku. Margar þessar tegundir eru einlendar og fáliðaðar og má búast við að fleiri slíkar tegundir leynist enn á torförnum stöðum.


Risaeðlutré

Elstu steingervingar þessara trjáa eru taldir vera um 280 til 325 milljón ára gamlir (Mahr án ártals). Þau hafa því verið til á meðan allar heimsálfurnar voru enn tengdar saman í eina stóra heimsálfu. Þess vegna finnast leifarnar jafnt á suður- sem norðurhveli jarðarinnar. A þessum tíma bólaði ekkert á því sem seinna var kallað Ísland.

Steingervingur af laufblaði köngulpálma sem greindur hefur verið sem Eostangeria pseudopteris. Kvarðinn er 1 cm. Myndin fengin héðan en er upphaflega frá Z. Kvaček og Manchester (1999).


Þegar risaeðlurnar spásseruðu um jörðina, löngu áður en Ísland varð til, var almennt mun hlýrra á jörðinni en nú er. Þá þróuðust köngulpálmarnir og áttu sitt blómaskeið. Það er ef til vill ekki heppilegt orð því engri plöntu hafði á þeim tíma tekist að mynda litfögur blóm eins og við þekkjum í dag. Ef þið hafið áhuga á risaeðlum og kvikmyndum eins og Júragarðinum hafið þið efalítið tekið eftir trjánum sem þar sjást. Eða ef til vill voru þau aukaatriði. Hvort heldur sem er þá tilheyra flest þeirra trjáa köngulpálmum. Steingervingarnir segja okkur að þessi hópur hafi verið á hátindi frægðar sinnar á júratímanum fyrir um 150-200 milljónum ára. Það á bæði við um stærð og fjölda tegunda. Á þeim tíma voru þessar tegundir nær einráðar í flórunni, rétt eins og risaeðlurnar í fánunni (Mahr án ártals).


Eldfjallið Koʻolau á Hawaii. Að hluta til var myndin Jurassic Park tekin þar því þarna má finna köngulpálma. Myndin er fengin héðan.

Þegar jörðin tók að kólna og fleiri ættir trjáa spruttu fram viku þessi tré smám saman. Þá skapaðist kjörið tækifæri fyrir barrtré og síðar tvíkímblöðunga að leggja þeirra svæði undir sig. Tvíkímblöðungarnir eru mjög fjölbreyttir í hitabeltinu en hafa ekki enn rutt köngulpálmum af sviðinu. Á mjög köldum svæðum er enga köngulpálma að finna. Það er samt ekki svo að aðrar plöntur hafi útrýmt þeim þar. Þeir hafa bara aldri þrifist á slíkum stöðum. Svona kaldir staðir voru ekki til þegar köngulpálmar rýktu í heiminum.


Hvar?

Mesta líffjölbreytni þessara fornu tegunda er í Suð- og Mið-Ameríku. Susan Mahr segir að meira en 70% þekktra tegunda vaxi þar og í Ástralíu, Suður-Afríku, Mexíkó, Kína og Víetnam. Þær finnast í minna mæli í suðurríkjum Bandaríkjanna, Asíu, Indlandi, Pólynesíu, Míkrónesíu og jafnvel víðar (Mahr án ártals). Á þessu stóra svæði vaxa fjölbreyttar tegundir við allskonar aðstæður. Sumar tilheyra regnskógunum á meðan aðrar vaxa á mun þurrari stöðum, jafnvel í hálfgerðum eyðimörkum. Einnig eru til tegundir sem vaxa á gresjum og í skógum þar sem skiptast á regntímabil og þurrkatímabil. Sumar tegundir vaxa í frjórri mold á meðan aðrar vaxa í sendnum jarðvegi eða í klettum og klungri. Enn aðrar í mýrum og jafnvel á svæðum þar sem salt í jarðvegi hindrar flest tré í að vaxa. Sumar tegundir vilja mikið sólskin en aðrar eru skuggþolnar og til eru fáeinar tegundir sem þola örlítið frost og jafnvel smá snjó (Mahr án ártals). Engin þessara tegunda er samt nógu harðgerð til að lifa utandyra á Íslandi eða öðrum köldum svæðum.


Laufblöð fimm mismunandi tegunda af köngulpálmum. A) Bowenia spectabilis (Ástralía), B) Macrozamia moorei (Ástralía), C) Encephalartos lebomboens (Afrika), D) Lepidozamia peroffskyana (Austur-Ástalía) og E) Stangeria eriopus (Afrika). Samsett mynd fengin héðan.


Nýting

↑ Íbúar Vanuatu hafa mynd af laufi köngulpálma í fánanum.

Frumbyggjaþjóðir í hitabeltinu hafa lengi nýtt sér þessar plöntur til lækninga og matar. Sennilega er þó engin þjóð jafn hrifin af köngulpálmum eins og íbúar Vanuatu sem liggur mitt á milli Fijjieyja og Solomoneyja. Þeir hafa meira að segja mynd af laufi köngulpálma í fána sínum. Fræ köngulpálma geta verið eitruð. Sem betur fer brotnar eitrið auðveldlega niður við matreiðslu og því eru fræin notuð til matar á Vanuatu og víðar. Rætur trjánna eru þykkar og mjölríkar. Þær eru stundum grafnar upp og muldar sem hvert annað mjöl. Úr mjölinu er bakað einskonar brauð. Þetta mjöl nýtur vaxandi vinsælda víða um heim hjá þeim sem haldnir eru glútenóþoli því það inniheldur ekki glúten enda með öllu óskylt hveiti og öðrum einkímblöðungum. Því má stundum finna mjöl úr rótum köngulpálma í heilsuvöruhillum stórmarkaða. Gengur það undir ýmsum nöfnum, allt eftir tegundum köngulpálma og markaðssetningu viðskiptajöfra. Oft má þó sjá heitið Cycad í vöruheitinu eða lýsingu. Á þessari síðu má fræðast meira um nýtingu köngulpálma.

Ræktun

Þótt köngulpálmar finnist fyrst og fremst í hitabeltinu eru til nokkrar tegundir sem vaxa norðar ef þar er nægilega hlýtt. Á slíkum stöðum eru ýmsar tegundir ræktaðar bæði í almennings- og einkagörðum. Svo má einnig finna ýmsa köngulpálma sem stofublóm. Það er auðvitað dálítið svalt að rækta plöntur í stofunni hjá sér sem voru upp á sitt besta þegar risaeðlur gengu um jörðina.

Hópur af tegundinni Cycas revoluta í Audubon Park, New Orleans. Myndin fengin héðan.

Þróun

Á tímum risaeðlanna voru köngulpálmar ríkjandi tegundir á jörðinni. Síðan hafa aðrar tegundir tekið við og nú eru þeir hvergi ríkjandi nema á litlum blettum. Þeir hafa lítið þróast frá þessum tíma og því víðast hvar lent undir í samkeppninni. Aldrei tókst köngulpálmum að bregðast við miklum frostum og ótrúlegt að það gerist úr þessu. Þeir hafa smám saman látið undan síga fyrir plöntum sem spruttu seinna fram á þróunartrénu. Og enn fer þeim fækkandi. Sumar tegundir eru beinlínis í útrýmingarhættu. Margar hafa lítið útbreiðslusvæði og eru viðkvæmar fyrir breytingum á umhverfi. Þær hafa ekki sömu möguleika til að bregðast við eins og algengari tegundir með stærra útbreiðslusvæði.

Til eru tegundir í ræktun sem taldar eru útdauðar sem villtar plöntur. Ein slík tegund er afrísk og heitir Encephalartos woodii og er töluvert ræktuð, meðal annars í grasagörðum þar sem veður hentar. Engar líkur eru samt á því að hún nemi aftur land í náttúrunni. Ástæðan er sú að aðeins eru þekktar karlkynsplöntur af þessari tegund. Hún getur því ekki myndað fræ og mun aldrei sá sér út. Ef til vill er þetta kynsveltasta plöntutegund í heimi.


Encephalartos woodii í gróðurhúsi Kew Gardens. Myndin fengin héðan af heimasíðu garðsins.

Það má vel halda því fram að það verði örlög allra lifandi vera, fyrr eða síðar, að deyja út. Því miður á mannkynið sinn þátt í þeirri útrýmingu en við getum samt ekki haft alla köngulpálmana á samviskunni. Þeir lifa enn og gera sjálfsagt í mörg árþúsund í viðbót, en smám saman hverfa tegundir í öldurót tímans og aðrar taka við. Þannig hefur það alltaf verið og þannig verður það áfram. Við getum engu að síður lagt okkar að mörkum til að vernda búsvæði og draga úr mengun. Ef við tökum ekki á þeim vandamálum sem tengjast núverandi lífsmáta okkar mun tegundum köngulpálma fækka hraðar en eðlilegt getur talist. Hér má lesa frekar um þróun kögurpálma.

Við getum hrósað happi að vera uppi á þeim tíma sem við getum skoðað plöntur sem voru upp á sitt besta á tímum risaeðlanna og vonandi geta komandi kynslóðir einnig gert það.


Heimildaskrá:


David Attenborough (1995) Einkalíf plantna. Þýðing: Óskar Ingimarsson. Bókaútgáfan Skjaldborg hf, Reykjavík.


Danielle L. Brown, John M. Cullen og fleiri (2017): Cycad. Sciance Direct.

Susan Mahr, University of Wisconsin (án ártals): Cycad. Wisconsin Horticulture https://hort.extension.wisc.edu/articles/cycads/ sótt 14.07. 2023.



Thomas Spadea (2022): The Cycad. Hlaðvarpsþáttur í þáttaröðinni My Favorite Trees https://mftpodcast.com// nr. 54 frá 12. júlí 2022. Sjá: https://podcasts.apple.com/us/podcast/ep-54-the-cycad/id1539712341?i=1000569624620


Í aðrar netheimildir er vísað beint í texta.





128 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page