top of page
Writer's pictureSigurður Arnarson

Dalbergia

Updated: Oct 25, 2023

Sænsku bræðurnir Nils E. Dalberg (1736-1820) og Carl Gustav Dalberg (1743-1781) voru báðir virtir grasafræðingar á sinni tíð og að auki vinir Carl von Linné, eða Carl Linnaeus eins og hann kallaði sig. Linné er frægur fyrir að búa til tvínafnakerfið sem enn er notað í allri líffræði. Yngri bróðirinn, Carl Gustav, var duglegur plöntusafnari. Hann flutti til Súrínam og kvæntist þar hollenskri ekkju. Þar safnaði hann allskonar plöntum og sendi sýnishorn heim til Svíþjóðar þar sem Linnaeus tók við þeim. Eldri bróðirinn, Nils, var á sínum tíma þekktari fyrir að vera læknir Gustav III. Svíakonungs. Hvernig tengjast þessir 18. aldar Svíar tré vikunnar? Vinur þeirra, Linnaeus, nefndi eina af stóru ættkvíslum belgjurta eftir þeim bræðrum. Þótt yngri bróðirinn hefði verið meira í því að safna plöntum var ekki hægt að ganga fram hjá þeim eldri, enda líflæknir konungs. Því var ættkvíslin nefnd eftir þeim báðum. Þetta er ástæða þess að allskonar fagrir og glæsilegir munir eru smíðaðir úr dökkum kjörviði af ættkvísl trjáa sem kallast Dalbergia.



Heimkynni

Dalbergía-ættkvíslin tilheyrir hinni risastóru ætt belgjurta eða Fabaceae. Engin ætt á jafn margar trjátegundir í heiminum og belgjurtaættin. Innan ættkvíslarinnar eru runnar, tré og trjákenndar klifurplöntur. Þeir sem vilja kynna sér muninn á þessum hugtökum, ætt og ættkvísl, geta skoðað það hér. Sumar tegundir geta verið æði misjafnar í vexti eftir aðstæðum. Mynda t.d. runna í þurru landi en stærðar tré í regnskógum. Þessi munur gerir talningu tegunda dálítið erfiða.


Í ættkvíslinni eru um það bil 250 tegundir sem vaxa flestar í hitabeltinu en sumar í heittempraða beltinu. Þær finnast fyrst og fremst í regnskógum en einnig í skógum þar sem þurrkar ríkja hluta ársins. Einnig má finna þær í heittempruðu skóglendi og stundum sem stakstæð tré eða runna á gresjum. Flestar finnast í gamla heiminum. 60 til 70 tegundir vaxa í Afríku (ein af þeim, D. ecastaphyllum, vex einnig á Indlandi og í Ameríku). 43 tegundir vaxa á hinni stóru eyju Madagaskar. Þar af eru 42 sem eru einlendar. Það merkir að þær vaxa hvergi annarsstaðar en þar. Aðeins ein tegund á Madagaskar vex einnig á meginlandinu.


Í Asíu finnast einar 80 tegundir. Af þeim vaxa 33 tegundir á Indlandi, þar af 19 einlendar. 44 tegundir vaxa í Indó-Kína og átta á Nýju-Guineu. Af þessum 80 asísku tegundum vex ein í Afríku eins og áður greinir en að auki vaxa tvær þeirra, D. candenatensis og D. densa í Ástralíu. Báðar eru þær fyrst og fremst klifurplöntur og viður þeirra er ekki nýttur. Verður ekki fjallað meira um þær í bili.


Mynd: Lauf og fræbelgir á Dalbergia densa.


Talið er að 60-70 tegundir vaxi í Ameríku. Þar af vaxa um það bil 45-50 í Suður-Ameríku, flestar í Amazonfrumskóginum. Að auki vaxa 15-20 í regnskógum Mið-Ameríku, Mexíkó og einnig á eyjum í karabíska hafinu.


Svo er að sjá sem ættkvíslin hafi alltaf verið háð umtalsvert hlýrra veðri en hér er hægt að bjóða upp á. Reyndar er öll Evrópa of köld fyrir ættkvíslina. Svo hefur þó ekki alltaf verið. Á sumum jarðsögutímabilum hefur allt annað veðurfar ríkt í álfunni. Þá uxu í henni tegundir af Dalbergia sem nú eru útdauðar. Steingervingar hafa fundist í Frakklandi, Slóvakíu og Ungverjalandi af slíkum trjám.


Notkun

Nokkrar indverskar, afrískar og brasilískar tegundir eru þekktar fyrir að mynda eftirsótt hágæðatimbur. Má þar nefna tegundir eins og D. nigra, D. sissoo, D. latifolia og D. melanoxylon. Það sem gerir viðinn af Dalbergiatrjám svona eftirsóttan er áferðin og hvað hann er fallegur á litinn. Oftast mjög dökkur og á sumum tegundum nánast svartur. Viðurinn er að auki harður og þungur kjörviður, lyktar vel, olíuríkur og heldur sér vel. Þetta er ástæðan fyrir því að viðurinn er meðal annars notaður í svörtu nóturnar á píanóum, nóturnar á sílafónum, bakið og hliðar á vönduðum gíturum og í dökklituð tréblásturshljóðfæri eins og óbó og klarinett. Viðurinn er að auki nýttur í ýmsa aðra vandaða, dökka hluti. Í vönduðum taflsettum eru svörtu mennirnir oft úr Dalbergia. Harðir hlutir sem þurfa að halda sér vel og lengi eru einnig gjarnan úr við af þessum trjám. Það er til dæmis algengur viður í billjardborðum og billjardkjuðum. Allskonar húsgögn eru úr Dalbergia sem og hverskyns skrautmunir. Er þó enn aðeins fátt eitt nefnt.


Mynd: Þessir taflmenn eru úr Dalbergia latifolia.


Því miður er það svo að vinsældir þessara trjáa til viðarframleiðslu hafa leitt til þess að margar tegundir ættkvíslarinnar eru nú í útrýmingarhættu vegna ofnýtingar. Fáeinar tegundir eru aftur á móti ræktaðar í stórum stíl þar sem loftslag hentar.


Nafnaruglingur

Svona stór ættkvísl sem nýtt er til margvíslegra hluta hefur mörg nöfn í sumum heimsmálum. Má nefna sem dæmi að viður sem gengur undir jafn fjölbreyttum enskum heitum og rosewood, blackwood, tulipwood, kingwood, ebonywood (sannur íbenviður er þó af allt annarri ætt), cocobolo, namber, palisandro og sisam er allt saman viður af ættkvíslinni Dalbergia. Fyrsta heitið í þessari upptalningu, rosewood eða rós(a)viður vísar hvorki til rósaættkvíslarinnar (Rosa) né rósaættarinnar (Rosaceae) í heild eins og ætla mætti, enda eru rósir almennt ekki nýttar til viðarframleislu. Nafnið er dregið af því að þægilegan ilm leggur af mörgum tegundum ættkvíslarinnar og minnir hann marga á rósailm. Af þessum nöfnum er rósviðarnafnið sennilega mest notað.


Mynd: Dalbergiaviður er vissulega dálítið flottur!


Samkvæmt Íðorðabanka Árnastofnunar hafa einar fjórar tegundir af ættkvíslinni íslensk heiti. Tvær þeirra eru kenndar við rósvið.


Nokkrar tegundir

Hér að framan hafa aðeins örfáar af öllum þeim aragrúa tegunda innan ættkvíslarinnar verið nefndar. Verður nú sagt frá sumum þessara tegunda sem hér hafa verið nefndar og fáeinum öðrum.


Dalbergia Ecastaphyllum er einkum þekkt fyrir sína víðfemu útbreiðslu. Þetta er eina tegundin sem vex villt í Afríku, Asíu og Ameríku. Í Afríku finnst hún í löndum í vesturhluta álfunnar. Hún vex í Senegal og Guinea-Bissau til Ghana og Kamerún, Gabon og Angola. Í Asíu vex hún fyrst og fremst á Indlandi en að auki finnst hún á Flórídaskaga í Bandaríkjunum, á eyjum í karabíska hafinu og í Mið-Ameríku. Þessi tegund er fremur lágvaxin, stundum bara runni eða hálfgerður klifurrunni sem getur náð um sjö metra hæð. Vex meðal annars í leiruviðarskógum og sandöldum nálægt sjó.



Dalbergia latifolia heitir indlandsrósviður á íslensku. Hann vex í regnskógum Austur-Indlands og er þar sígrænt tré. Hann vex einnig í öðrum skógum þar sem minni raka er að fá. Þá fellir hann laufið á þurrkatímum. Það er ræktað, gjarnan í einrækt, á plantekrum á Indlandi og á eyjunni Jövu. Sennilega er þetta mest ræktaða tré ættkvíslarinnar. Tréð getur orðið um 40 metrar á hæð og viðurinn er þungur, harður, vel lyktandi og dökkur. Liturinn getur verið frá dökk gullbrúnu yfir í brúnfjólubláa tóna. Æðarnar eru dökkbrúnar. Með aldrinum dekkist viðurinn.


Mynd: Nýfelldur stofn af indlandsrósviði.


Viðurinn gengur undir ýmsum nöfnum en algengast er að kalla hann Indian rosewood.


Viðurinn af þessari tegund er notaður í flesta þá muni sem nú þegar eru nefndir en að auki er hann frægur fyrir að vera notaður í hverskonar spónlagningu, veglega innanhússmíði, húsgögn, skrautmuni og að auki er hann vinsæll í rennismíði.



Dalbergia melanoxylon er frá Afríku. Tegundin hefur íslenskt nafn og kallast afríkusvartviður og hæfir það vel þessari plöntu. Á ensku kallast þetta tré African blackwood en á sér nokkur samheiti. Afríkusvartviður vex einkum á staktrjáasléttum, allt frá Eritreu og Senigal í norðri og allt suður til Suður-Afríku. Algengast er það í Mósambík og Tansaníu. Tréð getur verið 4 til 15 metrar á hæð og er oft margstofna.

Rysjan er lítil og vel afmörkuð frá kjarnviðnum. Það er hann sem mest er notaður. Þegar vel er að gáð er hann dökkpurpurabrúnn með svörtum rákum. Fljótt á litið virðist hann nánast svartur og er það stundum. Hinn dökki viður er mikið notaður í hverskyns tréblásturshljóðfæri svo sem klarinett, óbó og fleiri.


Óbófjölskylda.


Um tíma var viðurinn af afríkusvartvið meira að segja sá viður sem algenastur var í pípurnar á skoskum sekkjapípum.


Áður en alþjóðaviðskipti urðu jafn algeng og síðar varð voru aðrar tegundir nýttar í þetta hljóðfæri. Þá mælti hefðin svo fyrir að önnur belgjurt var notuð. Belgjurt, sem vex á Bretlandseyjum og við þekkjum á Íslandi. Pípurnar voru áður úr gullregni. Viðurinn er einnig notaður í hverskyns skrautmuni og rennismíði. Margir hafa séð nánast svartar útskurðarmyndir frá Afríku sem einmitt eru skornar í þennan við.


Mynd: Arnaldur Haraldsson.


Þessar þrjár myndir af Dalbergia melanoxylon eru héðan.


Dalbergia decipularis gengur undir nafninu Brazilian tulipwood (samt óskylt Liriodendron ættkvíslinni sem kallast tuplip tree á ensku). Áður fyrr þóttu fá tré jafnast á við það í húsgagnagerð. Það sést meðal annars á því að í Frakklandi gekk það undir nafninu bois de rose og var notað í sum af fallegustu húsgögnum Lúðvíks XV og Lúðvíks XVI. Enn í dag vekja þau aðdáun þeirra sem séð hafa. Viðurinn er miklu ljósari en úr flestum Dalbergia tegundum. Eiginlega kremaður með bleikleitum rákum en getur verið nokkuð breytilegur.


Mynd: Viður af Dalbergia decipularis


Dalbergia sissoo vex villt við rætur Himalajafjalla í Indlandi. Á flestum tungumálum er viðurnefnið sissoo notað sem nafn á tegundina. Á íslensku kallast tréð sissoorósviður. Hann vex hægar en flestar tegundirnar sem nýttar eru til viðarframleiðslu og er stundum heldur kræklóttara en þær. Tréð er þolnara gegn veðuráföllum en margar aðrar tegundir ættkvíslarinnar. Það þolir vel tímabundna þurrka og getur lifað af vetrarfrost sem fæstar tegundir ættkvíslarinnar gera. Tegundin er talin náskyld D. latifolia sem áður er nefnt. Stundum gengur viður þessara tegunda undir sömu nöfnum. Heimamenn rækt það ekki eingöngu til smíða heldur einnig til fóðurs, eldsneytis, kolagerðar og lyfjaframleiðslu. Blómin laða að auki að sér býflugur sem nýtast til hunangsgerðar. Þetta er því mjög mikilvægt tré á heimaslóðum sínum. Timbrið af þessari tegund er sérlega fallegt og dökkbrúnt að lit. Það er bæði þungt og hart og þess vegna stundum notað í brúarstólpa og undir járnbrautarteina auk hefðbundinnar húsgagnagerðar og fleira.



Dalbergia nigra er á latínu kennt við hinn svarta lit en á flestum tungumálum kallast tréð eitthvað í líkingu við rósaviður eða rósviður. Það er heitið sem notað er hér. Nöfnin brasilíurósviður og palisander hafa einnig verið notuð. Viðurinn er dökkbrúnn með fíngerðum svörtum rákum. Þaðan er latínuheitið. Viðurinn er mjög olíuríkur og ilmar vel. Af því dregur hann nafn sitt á mörgum tungumálum. Notkun er lík og hjá öðrum tegundum ættkvíslarinnar. Vönduð og dýr húsgögn, spónlagning, rennismíði og ýmsir skrautmunir eru úr rósvið. Lengi hefur rósviður einnig verið sérlega eftirsóttur í gítarsmíði. Tréð verður um 15-20 metrar á hæð og vex um austanverða Brasilíu allt frá Bahia í norðri til Rio de Janeiro í suðri. Því miður hefur nýtingin á rósvið verið langt frá því sjálfbær. Gengið hefur mjög á náttúrulega skóga. Þetta hefur orðið til þess að dregið hefur úr notkun hans og aðrar Dalbergiategundir hafa verið notaðar í staðinn.



Dalbergia lanceolaria er um 20 metra hátt tré og oft margstofna. Það vex villt á Indlandi, Sri Lanka, Nepal, Burma og Indó-Kína. Það er ekki bara viðurinn sem er nýttur af þessu tré (mjög hefðbundnar nytjar fyrir ættkvíslina; skrautmunir úr dökkum viði) heldur er það óvenjulegt á þann hátt innan ættkvíslarinnar að börkurinn er einnig nýttur. Hann er nýttur við gerð verkjalyfja og til að lækna niðurgang.


Tréð endurnýjar sig stöðugt frá rót og hefur gjarnan verið nýtt til landgræðslu þar sem þess gerist þörf. Það er notkun sem við þekkjum vel frá skyldum plöntum af belgjurtaætt sem þrífast á Íslandi.



Dalbergia cearensis heitir fjóluviður á íslensku. Nafnið er dregið af hinum djúpfjólubláa grunnlit viðarins. Í honum eru mislitar rákir. Svartar, svartfjólubláar og brúnfjólubláar. Stundum sjást einnig gullgular rákir. Viðurinn er harður, þungur og sterkur og hefur mjúka og gljáandi áferð. Viðurinn er eftirsóttur í húsgögn og dýra skrautmuni og til margra annarra nota svo sem í hluta af billjardkjuðum og í svarta taflmenn. Tréð er fremur lágvaxið. Verður stundum ekki nema um 5 til 10 metrar á hæð en getur orðið allt að 20 metrar. Tréð er hraðvaxta og sígrænt. Vex í Norðaustur-Brasilíu í sendnum jarðvegi á flæðilöndum sem ár færa reglulega í kaf.


Myndir: Dalbergia cearensis er gjarnan nýtt í litla, rennda muni. Fjólublái blærinn er misjafnlega algengur.


Í Austur-Afríku vex klifurplanta sem kallast Dalbergia armata. Hún er ein af þeim Dalbergiategundum sem vopnuð er hvössum þyrnum. Þeir nýtast til varnar gegn stórum grasbítum en einkum þó til að auðvelda henni að ná tökum á hýsilplöntum sem hún vefur sig upp með. Tegundin myndar líka einskonar kaðla svipaðir þeim sem Tarzan sveiflaði sér í hér áður fyrr. Það væri vel skiljanlegt að hann gæfi frá sér öskur ef hann gripi í þyrnana sem geta verið allt að 10 cm langir. Þessir kaðlar geta orðið um 15 cm þykkir. Plantan getur líka vaxið sem margstofna runni. Hún hefur mörg og óvenju smá laufblöð.


Myndir: Dalbergia armata. Einkennin sjást vel.


Auðvelt er að fjölga þessari tegund, hvort heldur er með fræi eða græðlingum. Það hafa menn nýtt sér og ræktað hana sem bomsai tré.



Ofnýting og verndun

Eins og að framan greinir hefur borið við að tré af þessari ættkvísl hafi verið ofnýtt. Sums staðar hafa þau horfið af þeim svæðum sem þau áður uxu á. Alþjóðasamfélagið hefur brugðis við þessu með ýmsum hætti. Árið 2017 voru allar Dalbergia-tegundir settar á svokallaðan CITES lista. Skammstöfunin stendur fyrir Convention on International Trade in Endangered Species of Wild Fauna and Flora. Þetta er því listi yfir tegundir í útrýmingarhættu. CITES listanum er skipt í þrennt. Á CITES I eru tegundir í bráðri útrýmingarhættu. Á CITES II eru tegundir í yfirvofandi hættu. Ef tilvíst tegunda er ógnað en ógnin ekki talin bráð lenda þær á CITES III. Dalbergiategundirnar eru á CITES II og því hafa flest ríki heims bannað innflutning á vörum úr viði af þessari ættkvísl. Samt er það svo að sums staðar eru Dalbergiategundir ræktaðar á einskonar plantekrum. Þeim tegundum er ekki hætta búin en villtum trjám af sömu tegund eru í hættu. Því er það svo að hægt er að fá sérstaka vottun ef hægt er að sýna fram á að ræktunin sé sjálfbær. Á netinu má meðal annars finna dæmi um svokallaða FSC vottun á Dalbergia. FSC stendur fyrir Forest Stewardship Council. Svo virðist sem það séu fyrst og fremst D. latifolia og D. nigra sem fást vottaðar, enda báðar ræktaðar töluvert. Sennilega hefur verið tiltölulega einfalt að fá vottun á D. latifolia því það hefur lengi verið ræktað. En það lítur út fyrir að eftir að allar Dalbergiategundir rötuðu á CITES II hafi skipulögð ræktun hafist fyrir alvöru á D. nigra sem viðbrögð við alþjóðabanninu.


Mynd Dalbergia reniformis í Bangladesh. Myndina tók Md Sharif Hossain Sourav. Tegundin getur staðið mánuðum saman í vatni og er talin mikilvæg til að binda jarðveg í flóðum í Bangladesh.


Mynd: Harðviður af (a) D. cultrate, (b) D. latifolia og (c) D. melanoxylon.



Hljóðfæravandi

Eins og að framan greinir er verslun með vörur sem unnar eru úr Dalbergiatrjám bundin nokkrum vandkvæðum. Verða hér nefnd dæmi um hvernig þessi saga tengist tveimur gjörólíkum hljóðfærum.


Pípurnar í skoskum sekkjapípum voru um skeið gjarnan úr afríkusvartvið (Dalbergia melanoxylon). Samkvæmt þessari heimild þótti þessi viður einfaldlega bestur í pípurnar og var því mest notaður. Svo gerðist það að D. Melanoxylon rataði á CITES listann. Þess vegna eru sekkjapípurnar nú að mestu smíðaðar úr öðrum viðartegundum. Þegar tegundinni hefur verið bjargað verður bara að koma í ljós hvort viðurinn verður aftur nýttur í þetta merkilega hljóðfæri.


Mynd: Sekkjapípa með pípum úr fleiri en einni tegund.


Brasilíurósviður eða palisander (D. nigra) er eftirsóttasti rósviðurinn í gítarheiminum. Ofnýting hans gerði það að verkum að um tíma var hann mjög vandfundinn. Því er hreinlega bannað að nota hann í gítarsmíði (og reyndar aðra framleiðslu) nema hægt sé að sýna fram á að tréð hafi verið fellt áður en tegundin rataði á CITES listann eða að það sé úr vottaðri framleiðslu. Þetta hefur leitt til þess að nýir gítarar með braselíurósvið í baki og hliðum eru margfalt dýrari en þeir sem skarta indverskum Dalbergia latifolia. Á sjöunda áratug síðustu aldar leysti D. latifolia því D. nigra af hólmi í gítarsmíði því þá var farið að votta framleiðslu á þeirri fyrnefndu en vottunin á þeirri síðarnefndu kom síðar. D. latifolia er vissulega kjörviður en þykir þó ekki standast samanburð við afríska frænku sína. Um tíma var reyndar bannað að nota D. latifolia í gítarsmíði. Fyrir þann tíma var það algengasta viðartegundin í gripbretti gítara. Framleiðendur fóru þá að nota aðra belgjurt í sama tilgangi og nú eru tegunduin Machaerium scleroxylon sem er náskyld belgjurt mest notaðar í gripbretti á gíturum. Heimildir herma að það sé eins nálægt því að vera rósviður og hægt er án þess að nota Dalbergia.


Svona getur samstaða á alþjóðavísu bjargað tegundum í útrýmingarhættu og fengið framleiðendur til að leita nýrra leiða.


Helstu heimildir:

Lewis, Gwilym o,fl. (ritstjórn) 2005; Legumes of the World. Royal bls. 327. Botanic Gardens, Kew. 576 blaðsíður.

Sigurður Arnarson 2014; Belgjurtabókin. Sumarhúsið og Garðurinn.

Tudge, Colin 2007: The Tree: A Natural History of What Trees Are, How They Live, and Why They Matter.

Munnlegar heimildir: Bræðurnir og gítarleikararnir Örn og Jón Kristófer Arnarsynir.

Í netheimildir er vísað í pistlinum.

230 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page