Áður hefur verið fjallað um hvaða skilyrði plöntur þurfa að uppfylla til að geta talist tré. Eitt er það að tegundin þarf að ná ákveðinni hæð (oft miðað við 5 metra) innan útbreiðslusvæðisins. Íslenski einirinn, Juniperus communis, nær ekki þeirri hæð á Íslandi. Hér er hann oftast jarðlægur eða lítið eitt uppréttur og kræklóttur runni. Þó má á stöku stað finna eintök sem eru um 120 til jafnvel allt að 200 cm háar. Það er þó langt frá þessu fimm metra marki sem stundum er talað um. En hann má samt kalla trjátegund því innan víðáttumikils útbreiðslusvæðis eru vissulega til einstaklingar sem ná hæð trjáa eins og sjá má á mynd hér neðar.
Fyrrum framkvæmdarstjóri SE, Jón Kristófer Arnarson, stendur hér við myndarlegan eini í Ekeskog í Svíþjóð ásamt systur sinni, Fríðu Hrefnu. Myndin frá árinu 2000 og er ljósmynd af litskyggnu.
Fulltrúar á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands skoða eini í Fossselsskógi árið 2017.
Einirinn er eina barrtrjátegundin sem óx villt á Íslandi við landnám. Þá voru útdauð þau berrtré sem uxu hér áður en ísöldin eyddi þeim öllum. Öll önnur barrtré á Íslandi eru flutt inn af mönnum.
Haustmynd af sígrænum eini ásamt rauðu lyngi og gulu birki.
Einir, Juniperus, er af grátviðarætt sem stundum er einnig kölluð sýprisætt (Cupressaceae) en ekki af þallarætt (Pinaceae) eins og flest barrtré sem eru ræktuð á Íslandi. Talið er að um 50-60 tegundir séu til af eini í heiminum og lætur nærri að það séu 40% allrar ættarinnar. Svo er að sjá að sem tegundamyndun hafi verið nokkuð hröð á síðustu jarðsögutímabilum innan ættkvíslarinnar. Talið er að sumar tegundirnar séu aðeins nokkur þúsund ára, ef marka má bókina The Tree eftir Colin Tudge (2007) Áður hefur verið fjallað um eina tegund einis í þessum pistlum. Það er himalajaeinir (Juniperus squamata) enn nú er komið að komið að íslenska eininum sem oftast er bara nefndur einir.
Almennt
Enginn annar einir hefur jafn víðáttumikla útbreiðslu í heiminum. Ekki nóg með það. Talið er að einirinn sé sú barrtrjátegund sem hefur mesta útbreiðslu allra berfrævinga. Því verður að telja latínuheitið nokkuð vel heppnað en viðurnafnið communis merkir venjulegur eða almennur. Ekkert barrtré er jafn venjulegt og einirinn. Heitið á ættkvíslinni Juniperus er aftur á móti mjög gamalt og uppruni þess er algerlega óviss.
Einirinn getur orðið býsna langlífur og harðgerður en vex að jafnaði ekki mikið hér á landi. Samkvæmt vef Skógræktarinnar er elsti einir sem fundist hefur á landinu á Hólasandi, Hann er talinn er vera allt að 280 ára gamall. Má líta á hann sem elstra tré Íslands.
Afbrigði og undirtegundir
Eins og vænta má með tegund sem vex svo víða eru til margskonar nafngreind afbrigði og klónar. Sumir beinvaxnir, aðrir skriðulir og allt þar á milli.
Fjölbreytt vaxtalag hjá eini á jósku heiðunum.
Uppréttur einir í sænskum skógarjaðri.
Talið er að hér á landi vaxi tvær deilitegundir af eini. Kallast önnur þeirra J. communis ssp. nana (áður ssp. alpina). Hún er miklu algengari en sú síðarnefnda. Hún er alltaf smávaxin (sbr. viðurnefnið nana sem merkir smávaxinn) og hefur styttri nálar. Hin er J. communis ssp. communis og er sjaldgæfari hér á landi (þvert á það sem ætla mætti af viðurnefninu). Nálarnar eru hvassari og plönturnar eru hávaxnari en hjá fyrrnefndu deilitegundinni. Hún vex aðallega um landið norðanvert og getur náð allt að 2 metra hæð. Ef þið eruð í vafa um hvora deilitegundina er um að ræða má skoða ljósu rákina ofan á barrinu (sjá síðar). Hjá ssp. nana er rákin um tvöfallt breiðari en grænu jaðrarnir en hjá ssp. communis er rákin álika breið og jaðrarnir.
Juniperus communis ssp. nana í Grýtubakkahreppi.
Juniperus communis ssp. communis í Fossselsskógi.
Að auki hafa verið ræktuð hér nafngreind yrki af innfluttum eini. Sum þeirra eru upprétt en sennilega er mest ræktaði klónninn ´Repanda´ sem er alveg jarðlægur og vex mikið. Má sjá hann víða í görðum.
Juniperus communis ´Repanda´ í garði í Síðuhverfi.
Uppréttur einir í garði á Akureyri. Uppruni óþekktur.
Börkur
Börkurinn á eini er brúnn og þunnur. Hann flagnar auðveldlega af í ræmur. Er það sérlega áberandi hjá gömlum trjám.
Barr
Einirinn er barrtré (eða -runni). Því hefur hann ekki venjuleg blöð, heldur sígrænt barr. Hver barrnál er oddhvöss og stingur töluvert. Þær eru 8–12 mm á lengd og 1–2 mm breiðar Efra borð barrsins er blágrænt með hvítleita rák. Neðara borðið er dekkra og án ljósu rákarinnar. Barrnálarnar sitja saman, þrjár og þrjár, í þéttum krönsum. Hver barrnál situr venjulega í allt að fjögur ár á greinunum og endurnýjast þá.
Þegar Íslendingar tóku upp á því að dansa í kringum jólatré að dönskum sið voru þau ekki auðfundin á landinu. Því tóku landar vorir upp á því að smíða þau úr spýtum og skreyta með eini. Enn lifir þessi hefð í jólalaginu „Göngum við í kring um“ þótt að jafnaði sé ekki lengur gengið í kringum einiberjarunn.
Aldin
Einirinn er sérbýlisplanta. Það merkir að hver planta hefur annað hvort kk. eða kvk. æxlunarfæri. Því eru það aðeins kvenkyns plöntur sem þroska ber en það gerist ekki nema að karlkyns planta sé nægilega nálægt til að vindurinn geti borið frjó að kvenplöntunni á vorin. Ef æxlun tekst tekur við þriggja ára ferli til að þroska fræ. Þau þroskast á fyrsta ári í einskonar gulgrænum köngli. Hin frjóu blöð kvenkönglanna (þrjú efstu fræblöðin) vaxa saman að lokinni frjóvgun og mynda kjötkennt aldin sem er um 8 mm í þvermál. Fræblöðin vaxa saman utan um fræið. Það köllum við einiber en strangt til tekið er þetta ekki ber. Á öðru ári vaxa „berin“ frekar og eru þá græn að lit. Svo er það ekki fyrr en á þriðja ári sem berköngullinn verður dökklár að lit og fræin ná fullum þroska. Oft má sjá allar þrjár gerðirnar á sömu plöntunni en berkönglar á 2. og 3. ári eru áberandi.
Fremst á þroskuðum einiberjum má sjá hvar fræblöðin hafa vaxið saman. Þar sjást þrjár skorur.
Einiber hafa lengi verið nýtt til manneldis og eru meðal annars notuð til að krydda gin. Ef þú, lesandi góður, villt nýta þér einiberin er best að tína þau á haustin og þá aðeins þau ber sem orðin eru blá.
Þar sem fræblöðin þrjú koma saman á einiberi, myndast skorur á milli þeirra. Fyrir tíma kristni sáu menn það sem tákn Mjölnis, hamars Þórs, en eftir að heiðni lagðist af sáu menn þríarma kross.
Grænu berin á þessari mynd eru á öðru ári og því ekki tilbúin til átu.
Hér að neðan birtum við enn fleiri myndir af eini. Allar myndirnar tók Sigurður Arnarson.
Einirinn er ótrúlega harðgerður en hér á hann erfiða daga.
Á vorin má oft sjá dálítið sólbrenndar nálar á eini. Vanalega jafnar það sig þegar líður á sumarið. Þessi er í Hljóðaklettum nálægt Ásbyrgi.
Uppréttur einir að hausti til í Skriðdal.
Vetrarmynd af eini. Hann er sígrænn og lífgar upp á umhverfið allt árið.
Einir er ekkert sérlega eftirsótt beitarplanta. Hér lifir hann í beitilandi í Svíþjóð.
Íslenskur einir ásamt loðvíði, birki, beitilyngi og fleiri tegundum.
Einirinn þarf ekki mikið.
Nokkuð uppréttur einir.
Einir í birkikjarri.
Einir í Fossselsskógi ásamt fjalldrapa og bugðupunti.
Þessi einir vex við Goðafoss. Hann vekur samt ekki eins mikla athygli og fossinn sjálfur.
Einir í sandorpnu hrauni.
Einir í beitilandi á Jótlandi.
Fjölbreyttileiki í jóskum eini.
Lítill einir gægist upp úr rauðu lyngi í haustrigningu.
Comments