Í síðustu viku birtum við pistil um ásætur á íslenskum skógartrjám. Núna beinum við sjónum okkar að mestu til útlanda og skoðum fjölbreyttar ásætur í suðrænni skógum. Við tengjum þær samt við Ísland eins og við getum. Ásætur í regnskógum eru svo algengar að stórar greinar skógartrjáa geta verið þéttsetnar óboðnum gestum af mörgum tegundum.
Þessi mynd, sem tekin er í gróðurhúsum Grasagarðsins í Edinborg, lítur út fyrir að vera einhvers konar flétta (sambýli sveppa og þörunga) eins og talað var um í pistlinum fyrir viku. Slíkar ásætur eru einnig til í útlöndum. Þetta er samt ekki flétta heldur æðplantan Tillandsia usneoides sem kölluð hefur verið spænskur mosi. Hún er samt ekkert mosi. Fæst okkar hafa mörg tækifæri til að fara í regnskóga en þá má heimsækja gróðurhús í grasagörðum til að fá tilfinninguna. Mynd: Sigurður Arnarson
Blómplöntur og byrkningar
Úti í hinum stóra heimi er ótrúlegur fjöldi plantna sem fyrst og fremst eru ásætur á trjám. Sumar þeirra eru stundum ræktaðar innanhúss sem stofuplöntur vegna þess að almennt eru þær ekki mjög kröfuharðar um jarðveg. Íslensku flórunni tilheyra engar háplöntur þeim hópi sem kallast ásætur en stöku plöntur, sem ræktaðar eru í görðum, geta gert tilkall til titilsins á einn eða annan hátt. Hæst ber þar þekjuplöntuna bergfléttu, Hedera helix,. Oftast nær eru rætur hennar í jörðu en hún notar heftirætur til að vaxa upp eftir allskonar undirlagi, s.s. húsveggjum og trjástofnum. Fyrir kemur að þær vaxi á trjám án þess að rætur þeirra séu í jörðu og má þá kalla þær ásætur. Það er þó sjaldgæft. Stundum eru afbrigði bergfléttu ræktuð inni sem stofublóm.
Sumar ásætuplöntur frá suðlægum löndum má rækta sem stofublóm á Íslandi. Mynd: Sigurður Arnarson
Þessar ásætur eru í rauðgreniskógi í austurrísku Ölpunum. Myndir: Sigurður Arnarson.
Tjón af völdum ásætaplantna
Þar sem sambýli ásætuplantna og hýsla kallast gistilífi má gera ráð fyrir að ásæturnar valdi hýslum sínum engu tjóni. Það fellur einnig vel að skilgreiningum sem birtar voru í síðasta pistli. Svo einfalt er það þó ekki alltaf. Fyrir kemur að ásætur verða svo miklar og þungar að þær brjóta niður greinar trjáa. Einnig geta stórar ásætur orðið svo fyrirferðamiklar að þær taka að draga úr ljóstillífun hýsla sinna. Svo eru til ásætur sem eru svo miklir tækifærissinnar að þeir geta stundað eins konar sníkjulífi við vissar aðstæður. Þá taka þær upp á að ræna þær vatni eða næringu með ýmsum leiðum. Almennt má þó segja að ásætur valdi hýslum sínum sjaldnast nokkru tjóni, en auka á fjölbreytni skóganna og virka jafnvel sem skraut. Á þessum síðum hefur áður verið fjallað um regntré sem hleypa vatni mjög greiðlega niður í gegnum trjákrónur sínar. Regntré eru meðal annars víða ræktuð í hitabeltinu vegna þess hversu margar tegundir ásæta nýta sér það sem hýsiltré. Getur það gefið regntrjánum mjög sérkennilegt yfirbragð.
Ásætur á grein í regnskógi í Costa Rica. Þarna má sjá plöntur af ættum ananasplantna, brönugrasa, og burkna. Að auki eru þarna mosar og fleiri plöntur. Myndin er fengin héðan.
Kostir ásæta
Ásætur geta bætt töluverðu við ljóstillífun þeirra vistkerfa sem þær vaxa í og þar með kolefnisbindingu skóganna. Þannig tekst vistkerfum sem hafa margar gerðir ásæta að binda meira kolefni og mynda meiri lífmassa og líffjölbreytni heldur en þar sem lítið er um ásætur. Með tilliti til líffjölbreytileika eru ásætur því mjög mikilvægar.
Sumar ásætur í regnskógum safna öllu því vatni sem þær geta náð í, hátt uppi í krónum trjánna. Sumum tekst að búa til eins konar polla í laufum sínum. Í þá sækja moskítóflugur og froskar sem á flugunum lifa ásamt fleiri dýrum. Frá þeim kemur svo úrgangur sem nýtist ásætunum sem uppspretta næringarefna. Þannig verða til sýnishorn af nánast sjálfbærum, litlum pollavistkerfum, hátt uppi í krónum trjánna. Nánar verður sagt frá svona pollum aðeins neðar á síðunni.
Myndin hér að ofan er af ásætu sem ræktuð er í gróðurhúsi í Kaupmannahöfn. Mynd:Sigurður Arnarson.
Þessu mynd, sem fengin er héðan, sýnir fjaldann allan af ásætum á tré í frumskógum Costa Rica.
Frægar ásætuplöntur
Í hópi þeirra plantna sem teljast ásætur og var ekki fjallað um í síðasta pistli eru meðal annars allskonar burknar og blómplöntur. Bæði einkímblöðungar og tvíkímblöðungar eiga sína fulltrúa en berfrævingar (barrtré) eru ekki þekktir sem ásætur. Flestar orkideur (brönugrös) eru ásætur í trjám og stór hluti ættar sem kallast Bromeliaceae eru það líka. Frægasta planta þeirrar ættar er án efa ananas og ættin er því oftast nefnd ananasplöntuætt. Ekki nóg með það. Jafnvel kaktusar eru til sem ásætur. Það er ef til vill ekkert undarlegt að allur þessi fjöldi ólíkra planta hafi þróast sem ásætur ef það er haft í huga að auðvitað er meira pláss fyrir litlar plöntur en stórar. Margar smávaxnar plöntur taka til samans miklu minna pláss en margar stórar plöntur. Á milli hinna stærri tegunda og uppi í krónum þeirra er nóg ljós og rúm til þess að fullnægja þörfum hinna smávaxnari. Því er það í hæsta máta eðlilegt að þróunin hafi leitt af sér litlar plöntur sem nýta sér þær stóru sem vaxtarstaði.
Þar sem fjöldi ásætuplantna í heiminum er alveg með ólíkindum getum við auðvitað ekki sagt frá þeim öllum. Þess í stað höfum við valið fáeina hópa plantna sem fulltrúa þeirra, rétt til að kynna fjölbreytni þeirra í heiminum. Til eru enn fleiri hópar, t.d. nokkrar tegundir af lyngi, sem við sleppum.
Cavendishia complectens er ásæta af lyngætt. Blómin koma upp um ásætuna en ekki er alveg auðvelt að átta sig á hvar tréð, sem hún býr á, tekur við. Myndin er fengin héðan. Þar er fjallað um ásætur af lyngætt.
Mynd úr gróðurhúsi grasagarðisn í Edinborg. Sjá má stórar ásætur og friðarlilju, sem er ræktuð sem stofuplanta á Íslandi.
Fíkjur, Ficus
Áður hefur verið fjallað hér um fíkjutré. Þar kemur fram að um helmingur fíkjutrjáa hefur líf sitt sem ásætur. Þá spíra fræin uppi í trjám og þar vaxa þær framan af ævinni. Svo fara þær að senda rætur sínar niður í átt til jarðar. Á meðan á því skeiði stendur eru fíkjutrén ásætur. Þegar ræturnar ná niður í jarðveginn breytia fíkjurnar um takt, ef svo má segja. Þá fara trén að haga sér á allt annan hátt eins og lesa má um í pistlinum.
Ryðfíkjutré, Ficus rubiginosa, vex hér sem ásæta á pálmatré í Kaliforníu. Myndin er fengin héðan. Myndina tók Richard E. Riefner Jr.
Brönugrös, Orchidaceae
Brönugrasaætt og körfublómaætt (Asteraceae) eru stærstu ættir plantna í heiminum. Stór hluti brönugrasaættarinnar, sumir segja stærsti hlutinn, lifa sem ásætur í trjám. Sumar þeirra eru gjarnan seldar undir ættarheitinu sem stofuplöntur og kallast þá orkideur. Þegar þær eru ræktaðar í pottum verður að gæta þess að grafa ekki ræturnar í venjulega mold því þannig vaxa þær einfaldlega ekki. Þess vegna er sérstök blanda í orkideupottum. Ef þið farið inn í gróðurhús í stórum grasagörðum erlendis er næsta víst að þar má sjá margar tegundir brönugrasa.
Fjölbreytni brönugrasa er ótrúlegur. Myndir: Sigurður Arnarson.
Í náttúrunni vaxa þessar ásætur gjarnan hátt uppi í laufkrónum trjáa og forðast þannig skuggann sem er neðar í skóginum. Þær geta haft afar langar rætur sem hanga gjarnan í lausu lofti og taka raka úr andrúmsloftinu með aðeins smávægilegri næringu sem það ber með sér úr laufþykkninu. Aðrar dreifa rótum sínum meira og minna til allra hliða í sama tilgangi og reyna að ná sér í vatn og uppleyst næringarefni. Sumar tegundir brönugrasa gera það sem engar aðrar plöntur gera. Þær senda rætur sínar ekki niður í átt að jörðu, heldur upp á við í leit að frekari festingu og ljósi. Það er einstakt í plöntuheiminum. Einnig má nefna það að til eru brönugrös sem hafa blaðgrænu í rótum sínum þannig að þær geta ljóstillífað eins og blöð þeirra gera. Þótt ótrúlegt megi virðast eru einnig til brönugrös sem hafa hreint enga blaðgrænu í laufum sínum. Þær hafa þá hætt að lifa sem ásætur en lifa sem sníkjuplöntur og ræna hýsla sína næringu. Lesa má meira um allskonar brönugrös í bókinni Einkalíf plantna sem vísað er í í heimildaskrá.
Rétt er að taka það fram að til eru plöntur af brönugrasaætt á Íslandi. Þær plöntur lifa hvorki sníkju- né gistilífi.
Fjölbreytni brönugrasa á sér lítil takmörk. Mynd: Sigurður Arnarson
Ananasjurtaætt, Bromeliaceae
Frægasta planta þessarar ættar er auðvitað ananas. En 75 ættkvíslir eru innan ættarinnar og 3590 þekktar tegundir. Mjög stór hluti þeirra vex sem ásætur í trjám. Einkum finnast þær í Mið- og Suður-Ameríku og sumar eru ræktaðar í heimahúsum sem skrautblóm. Þær festa sig við hýsla sína með því að vefja rótunum utan um greinar trjánna. Fjölbreytni þeirra og fegurð vekur hvarvetna athygli. Þetta eru einkímblöðungar, eins og grös og orkideur og blöðin eru stór og vaxa alltaf í hvirfingum kringum skállaga miðju. Í þessari skál myndast hjá flestum tegundum eins konar pollur. Þessir pollar, hátt uppi í krónum trjánna, eru smáheimar út af fyrir sig. Þangað leita alls konar skordýr til að verpa, svo sem moskítóflugur og drekaflugur. Til eru froskategundir sem treysta algerlega á þessa vist. Þeir eru litlir og skrautlitaðir. Þeir halda sig við eða í pollunum. Þeir skila úrgangi sínum í pollana og þangað falla einnig jurtaleifar og alls konar úrgangur annarra dýra sem leita tímabundið í þessa vist. Myndin hér að ofan er af krabbategund sem elur afkvæmi sín í svona polli, hátt uppi í trjánum. Vatnið í þessum pollum er því sjaldnast tært og hreint heldur brúnt af lífrænum efnum. Það hentar plöntunum prýðilega sem nýta efnin sér til vaxtar og viðhalds. Í svona plöntum er hægt að finna, auk áðurnefndra froska og skordýra, ýmsar aðrar tegundir svo sem krabba, samamöndrur, snigla, allskonar orma, bjöllur og eðlur. Einnig koma þarna við smávaxin spendýr og fuglar til að svala þorsta sínum. Það eru jafnvel til smávaxnir snákar sem sækja í þessa vist. (Attenborough 1995)
Lýsingin á þessum ananasjurtum er auðvitað lýsing á ásætum, enda vaxa þær á öðrum jurtum. En eins og sjá má af lestrinum stunda þær einnig samhjálp með fjölbreyttum hópi dýra. Plönturnar veita þeim heppilega vist og dýrin skila af sér áburðarefnum. Þau þurfa á plöntunum að halda og þær á dýrunum. Ananasjurtaætt er því gríðarlega mikilvæg fyrir líffræðilegan fjölbreytileika þeirra vistkerfa sem þær þrífast í.
Nokkrar gerðir ásæta í regnskógi. Fremst er planta af ætt ananasjurta. Myndin er fengin héðan. Copyright:© www.nickgarbutt.com.
Vaktarar, Tillandsia
Plöntur af ættkvísl vaktara eru nær alltaf ásætur. Þær eru sígrænar og finnast í miklum mæli á rökum og blautum svæðum í suðurhluta Bandaríkjanna, fjöllum Mexíkó og allt suður til Argentínu. Sumar lifa einnig í fremur þurru loftslagi en þær eru færri. Varla er til sú kvikmynd frá suðurríkjum Bandaríkjanna þar sem ekki má sjá vaktara í trjám eða á einhverju öðru eins og til dæmis síma- eða rafmagnsvírum. Ættkvíslin tilheyrir ananasættinni sem nefnd var hér að ofan en verðskuldar sérstaka umfjöllun.
Nokkrar þeirra rúmlega 650 tegunda sem þekktar eru hafa hlotið íslensk heiti, einkum þær sem eru ræktaðar sem stofuplöntur. Samkvæmt Íðorðabanka Árnastofnunar eru einar 14 tegundir sem hafa íslensk nöfn. Þau enda annað hvort á viðskeytinu -vaktari (eins og barrvaktari Tillandsia tenuifolia) eða -prýði (eins og til dæmis stofuprýði Tillandsia cyanea).
Þetta er ein af þeim tegundum sem hefur íslenskt nafn samkvæmt Íðorðabanka Árnastofnunar. Hún heitir fjóluprýði eða Tillandsia ionantha. Myndin er fengin héðan.
Mauragleði, Myrmecodia
Í bókinni Einkalíf plantna eftir Dawid Attenborough er sagt frá nokkrum tegundum ásæta. Umfjöllun um ananasjurtir og brönugrös er að hluta byggð á þeirri umfjöllun eins og áður greinir. Hann segir einnig frá einni ættkvísl frá Suð-Austur Asíu sem kölluð er mauragleði eða Myrmecodia. Latínuheitið er úr grísku og merkir bókstaflega mauraplanta en mauragleði er mun skemmtilegra nafn. Mauragleðin er að sjálfsögðu ásæta en hún hefur tekið upp sérhæft sambýli með maurum þannig að hvorug tegundin getur án hinnar verið. Það kallast samhjálp. Algengust er mauragleðin á greinum leiruviðartrjáa (sem eflaust verða einhvern tímann valin sem tré vikunnar). Ofan á greinunum myndar mauragleðin stofn sinn sem er ummyndaður í kúlu á stærð við fótbolta. Utan á kúlunni má oftast sjá ótal maura sem skríða inn og út úr litlum götum á kúlunni. Innan við götin er fjöldinn allur af hólfum sem maurarnir nýta sér. Drottningin er í einu hólfi og verpir án afláts en önnur hólf eru vöggustofur ungviðisins. Svo eru í kúlunum úrgangsherbergi. Þangað fara maurarnir með allan úrgang búsins svo sem leifar skordýra sem þeir næra lirfurnar á. Að auki gera þar þarfir sínar í þessum hólfum. Í þessum úrgangi er öll sú næring sem plantan þarfnast. Hún dregur næringarefnin upp í gegnum veggi þessara hólfa og það fullnægir þörf hennar. Án mauragleðinnar þrífast ekki maurarnir og án mauranna þrífst mauragleðin ekki heldur. Samkvæmt The Plant List eru til 27 tegundir innan ættkvíslarinnar og allar hafa þær þennan háttinn á sem lýst er hér að framan.
Myrmecodia beccarii. Þessi mynd er tekin í Flecker Botanical Gardens Cairns, Australia. Mynd:Jan Tilden. Myndin er fengin af þessari Flickr síðu.
Kjötætuplöntur
Til eru ásætur úr plönturíkinu sem sleppa allri samhjálp við að ná sér í næringarefni úr dýraríkinu. Þær veiða einfaldlega flugur og önnur smádýr til að ná í næringarefni. Þekktar eru kjötætuplöntur af 17 mismunandi ættum. Þær nota mismunandi aðferðir við fæðuöflun sína. Algengastar eru slíkar plöntur þar sem örðugt er að taka næringarefnin upp með rótum eða þar sem lítið er um næringarefni. Það er t.d. í vatnsósa mýrarjarðvegi eða þar sem rætur plantnanna komast ekkert í jörðu. Þannig er því háttað með ásætur í háum trjám. Aðferðirnar við veiðarnar geta verið mjög misjafnar en myndirnar, sem hér fylgja, tók höfundur texta í gróðurhúsum Grasagarðsins í Edinborg árið 2018. Þar er mikið látið með svona plöntur og upplýsingarnar um fjölda ætta sem haga sér þannig eru fengnar þaðan.
Nokkrar kjötætuplöntur sem lifa sem ásætur í regnskógum. Myndirnar teknar í Grasagarðinum í Edinborg. Myndir: Sigurður Arnarson.
Nóvemberkaktus, Schlumbergera truncata
Jafnvel kaktusar eiga sér sína fulltrúa í hópi ásætna. Langfrægastur þeirra er mjög vinsæll sem stofuplanta og kallast nóvemberkaktus. Í heimkynnum sínum, sem eru skóglendi við strendur Suðaustur-Brasilíu, er hann fyrst og fremst ásæta á trjám. Þar vex hann best í holum þar sem einhver jarðvegur getur safnast saman.
Nóvemberkaktus er ásæta í Brasilíu og blómstrar þegar daginn tekur að stytta á haustin. Talið er að nóttin þurfi að vera a.m.k. 12 stundir svo hann blómstri. Á suðurhveli jarðar er haustið í apríl eða maí. Myndin er fengin héðan.
Það eru til ásætur úr heimi kaktusa og það eru til ásætur á kaktusum. Þessi er í gróðurhúsi í Edinborg. Mynd: Sigurður Arnarson
Burknar
Burknar teljast ekki til blómplantna enda mynda þeir gró en ekki fræ.
Gróhirslur á burkna sem lifir sem ásæta, ásamt mosa, í Grasagarðinum í Edinborg. Mynd: Sigurður Arnarson.
Evrópskir burknar, þar með talið þeir íslensku, eru margir þannig að þeir þurfa ekki mikinn jarðveg. Geta jafnvel vaxið í hraungjótum og vegghleðslum. Því kemur það ekki á óvart að margir þeirra geta einnig vaxið á trjám ef aðstæður eru heppilegar. Raunin er enda sú að mjög margar tegundir burkna vaxa, eða geta vaxið, sem ásætur í trjám í hinum stóra heimi. Flestar tegundir burkna sem ræktaðar eru í heimahúsum eru í raun ásætur. Margir þeirra vaxa í regnskógum og þurfa því meiri raka en margar aðrar ásætuplöntur sem ræktaðar eru innandyra. Því er óheppilegt að rækta burkna nálægt miðstöðvarofnum og gott að spreyja yfir þá með vatni. Að auki þurfa allir burknar aðgang að vatni eða miklum raka þegar kemur að tímgun. Venjulega þurfa þó ræktendur stofublóma ekkert að velta því fyrir sér. Hér er síða þar sem 6 tegundir ásætuburkna, sem rækta má í heimahúsum, eru kynntir fyrir lesendum. Burknar sem flokkast sem ásætur eru ákaflega fjölbreyttir og misjafnlega sérhæfðir. Þeir geta verið fjölbreyttir í útliti, jafnvel svo að leikmenn átta sig ekkert endilega á að um burkna sé að ræða.
Fjölbreytni burkna er ótrúlega mikil í regnskógum. Mynd: Sigurður Arnarson
Á þessari síðu er því haldið fram að á Taiwan séu til meira en 800 tegundir af burknum og að hvergi sé fjölbreytni þeirra meiri. Myndin er af sömu síðu og sýnir burkna sem ásætur í trjám.
Samantekt
Fjöldinn allur af plöntum lifir sem ásætur á trjám. Hér á landi eru það einkum fléttur og í minna mæli mosar. Víða erlendis er fjöldi ásætuplantna mun meiri. Einkum á það við um regnskóga. Lífsferill þeirra er svo merkilegur að í gróðurhúsum í Evrópskum grasagörðum eru þeim gjarnan gerð góð skil. Við þurfum því ekki endilega að fara í regnskóga til að sjá þær. Að auki eru margar stofuplöntur í heimahúsum í raun ásætur. Ásætur eru eflaust miklu algengari og nær okkur en halda mætti.
Comments