top of page
mainLong-1.png
  • Facebook

Eplabóndi í aldarfjórðung

Nú eru  liðin 25 ár frá því að fyrst voru sett niður eplatré í Kristnesi. Hvernig gengur það? Það gengur svona: 

Við skulum segja að 25 ár séu nægilegur tími til að gefa einhverja hugmynd um það hvaða möguleikar séu fyrir hendi í eplarækt. Einhverja hugmynd höfum við um fjölmarga þætti ræktunarinnar. Þetta er alls ekki vísindaleg tilraun og efalaust dregur undirritaður einhverjar rangar ályktanir. En skítt með það. Þær munu þá vafalaust verða leiðréttar af þeim eplapælurum sem sem vita gerr.

Hin stóru blóm eplatrjánna eru glæsileg ein og sér og ekki verra ef vel tekst til með frjóvgun.
Hin stóru blóm eplatrjánna eru glæsileg ein og sér og ekki verra ef vel tekst til með frjóvgun.

Það var árið 1999 sem fyrstu trén voru gróðursett í aldingarðinn í Kristnesi. Aldingarðurinn stendur sunnan undir Kristnesskógi í brekku mót suðaustri. Staðurinn er kallaður Aldingarður á tyllidögum og Berjagarðurinn þess á milli. Fyrst trén voru 'Astrakan Gylenkrok' og 'Transparente  Blance'. Árið eftir kom svo 'Rödluvan' og  'Sävstaholm'. Allt voru þetta tré sem Valgerður Jónsdóttir hafði ágrætt í gróðrarstöð Skógræktarfélags Eyfirðinga í Kjarna.

'Rödluvan' árið 2017. Hamingjusamur eplabóndi myndaði uppskeruna og setti náttúrulega fallegustu eplin efst og snéri þeim rétt til að undirstrika dýrðina.
'Rödluvan' árið 2017. Hamingjusamur eplabóndi myndaði uppskeruna og setti náttúrulega fallegustu eplin efst og snéri þeim rétt til að undirstrika dýrðina.

Nú þykir okkur rétt að birta lista yfir þau tré sem reynd hafa verið í Kristnesi.


Eplatré í Kristnesi, gróðursett á árunum 1999-2020.


Annar dálkurinn í töflunni hér að ofan þarfnast örlítilla skýringa. „Af hverju er maðurinn að setja sérstakan dálk sem merktur er rót?“ gæti einhver spurt.

Ástæðan er sú að öll nútíma yrki af eplatrjám eru grædd á einhverja trjárót sem ræktuð eru og fjölgað sérstaklega í þessum tilgangi. Gerð rótarinnar ræður miklu um hvernig eplatrén vaxa. Þannig getur sama yrkið vaxið á mismunandi hátt eftir því hversu öflug rótin er undir því. Í venjulegri garðrækt, þar sem ræktendur vilja gjarnan hafa nokkur mismunandi yrki, er ekki endilega heppilegt að rækta eplatré með kröftuga rót. Það getur líka skapað vanda ef trén verða það há að þau vaxa upp úr skjólinu eða mynda epli sem vaxa svo hátt í trénu að ómögulegt er að ná í þau nema með því að leggja sig í stórhættu. Þess vegna getur verið gott, fyrir eplaræktendur framtíðarinnar, að skrá hjá sér hvað rótin heitir sem eplayrkið er grætt á. Slíkar upplýsingar eiga að sjálfsögðu að liggja fyrir í þeim garðyrkjustöðvum sem selja eplatré til almennings.

Það er mikill munur milli ára á blómgun trjánna. Þarna er mikil blómgun hjá 'Rödluvan'
Það er mikill munur milli ára á blómgun trjánna. Þarna er mikil blómgun hjá 'Rödluvan'

Hvernig er svo eplalandið Ísland?  

Einhver myndi hugsa sem svo að ef hægt er að rækta epli í Finnlandi, Noregi og Kanada þá er sko líka hægt að rækta epli á Íslandi. Þetta lýsir sönnum keppnisanda og er yfirlýsing sem allir geta tekið heils hugar undir. Reyndar er einn galli við hugmyndina og það er hitastig sumars. Hvað þurfa epli mikinn hita? Við því eru mörg svör. Eitt þeirra er að finna í gamalli norskri ávaxtabók sem segir eftirfarandi:

   Fimm mánaða sumarhita - meðaltal fyrir viðkvæm yrki= 13°C

   Fimm mánaða sumarhita - meðaltal fyrir harðgerðari yrki= 12,5°C

   Fimm mánaða sumarhita - meðaltal til heimabrúks= 12°C


   Sambærileg hitatala fyrir Akureyri og Reykjavík árin 2015-2024 er 9,5°C.  


Samkvæmt þessu má halda því fram að hitasumma tveggja sumra á Íslandi gæti hentað prýðilega til eplaræktar ef enginn vetur væri á milli þeirra.

Það verður sem sagt að viðurkennast að það þarf að skrúfa svolítið upp hitann til þes að hægt sé að segja að Ísland sé mikið eplaland.

 Eplabóndinn nælir sér í epli af honum 'Haugmann'.
 Eplabóndinn nælir sér í epli af honum 'Haugmann'.

Norður-suður átakalínan

Vér Íslendingar erum fjölfróðir um veður. Það er líklega vegna þess að við höfum lent í allskonar veðri sem útlendingar geta aðeins látið sig dreyma um í sínum villtustu draumum. Oft kemur til tals hinn mikli munur á Suður- og Norðurlandi. Sunnlendingar telja þá að Norðurland sé alfarið heimskautasvæði og vart byggilegt og Norðlendingar eru gjarnan þeirrar skoðunar að Suðurland sé allt á floti með eilífu roki. Gallinn við þessa norður- suður átakalínu er sá að hún er eiginlega ekki hentug í raunheimum.

Árið 2017 var metár í aldingarðinum. 'Rödluvan' kom með nokkur kíló af eplum það ár.
Árið 2017 var metár í aldingarðinum. 'Rödluvan' kom með nokkur kíló af eplum það ár.

Það má segja að munur á veðurfari sé oft meiri innan svæða Norðanlands, en á milli Akureyrar og Reykjavíkur, svo dæmi sé tekið. Vissulega er munur á veðurfari á Akureyri og Reykjavík og þeir sem eru þrautreyndir í ræktun kannast oft við einstaka plöntur sem kunna betur við sig á hlýjum stöðum Norðanlands en á hlýjum stöðum Sunnanlands - eða öfugt. Það verður samt að teljast til undantekninga. Snjóbrot er áreiðanlega algengara á Norðurlandi og sveppasjúkdómar sem herja á plöntur algengari á sunnanverðu landinu og við sjávarsíðuna. Og hvers eiga Austlendingar og Vestlendingar að gjalda að vera ekki taldir með? Tvö atriði er gott að nefna þegar kemur að norður-suður veðrinu. Meðal fimm mánaða sumarhiti er stundum örlítið hærri í Reykjavík en á Akureyri og því ætti að vera betra að rækta í Reykjavík. Hitt atriðið er það að heitir dagar eru fleiri á Akureyri, og þar sem plöntuvöxtur tekur kipp þegar hitinn fer að gæla við 20°C þá er Akureyri betri. Þá er sólin örlítið skærari á Akureyri en vökvunin betri í Reykjavík.

Ryðhumla að störfum. Húshumlan er ekki áberandi í júní þegar trén blómstra en ryðhumlan er þá á kreiki.
Ryðhumla að störfum. Húshumlan er ekki áberandi í júní þegar trén blómstra en ryðhumlan er þá á kreiki.

Uppgjöf?

Jæja jæja eigum við þá að gefast upp á eplarækt vegna kulda? Huummmmmm . . . Ef markmiðið er að rækta epli til að keppa við danska eplabændur þá ættum við að gefast upp á eplarækt. En ef við erum með smá eplaþráhyggju og óbilandi von og trú og njótum þess að fá stundum fremur smá og ef til vill ekki of sæt epli, þá skulum við halda áfram.

Eitt af því sem getur hjálpað okkur í útiræktun er fyrirbrigði sem kallað er nærloftslag (Microclima). Við skulum búa til dæmi. Gefum okkur að júlíhiti á Akureyri sé 10°C. Þá gætum við samt verið með meðalhita upp á 12°C sunnan undir vegg á svartmáluðu steinhúsi á Brekkunni. Þarna liggur hundurinn grafinn.

Ålingseplið er sérstakt tré með glansandi laufi. Tréð hefur farið sér hægt en ber ávöxt í miklum mæli.
Ålingseplið er sérstakt tré með glansandi laufi. Tréð hefur farið sér hægt en ber ávöxt í miklum mæli.

Nú erum við búin að sjá það að ramminn sem við vinnum í er þröngur og möguleikar á árangri eru mestir á bestu stöðum í hlýrri sveitum. Við þurfum helst eftirfarandi þætti: Brekku mót suðri, klettabelti mót norðri, algjört skjól og ekki minnsta skugga.  Já, eða eitthvað í þessa átt.

Jæja þá skulum við koma okkur niður á jörðina í Kristnesi, því þar gerist sagan.

Plönturnar hafa fengið skít með sér í nesti við gróðursetningu, tilbúinn áburð á vorin og svart plast til að halda niðri illgresi fyrstu árin. Skordýraeitur hefur ekki þurft að nota lengi en fyrstu árin voru maðkar (skordýralirfur sem éta blöð) til vandræða.

Blessuð blómin. Þá er bara að mismunandi yrki trjánna blómstri á sama tíma til að tryggja frjóvgun. Til eru ræktendur sem gleðjast yfir að sjá hin fögru blóm en láta sér í léttu rúmi liggja hvort nokkur epli þroskast yfir höfuð. Þau eru þá bara bónus á blómaræktina.
Blessuð blómin. Þá er bara að mismunandi yrki trjánna blómstri á sama tíma til að tryggja frjóvgun. Til eru ræktendur sem gleðjast yfir að sjá hin fögru blóm en láta sér í léttu rúmi liggja hvort nokkur epli þroskast yfir höfuð. Þau eru þá bara bónus á blómaræktina.

Fyrstu árin gerðist lítið. Hríslurnar voru nagaðar af möðkum, blöðin voru væskisleg og vöxtur lítill. Það var snjóbrot og það var áta. Aðeins tvö af upphafstrjánum fjórum standa í dag og eftirlifendurnir tveir hafa báðir mátt þola slæmt snjóbrot og viðgerðir sem jafnast á við gjörgæsluinnlögn hjá okkur mannfólkinu. En þau er orðnar dálitlar hríslur svona 2-3 m á hæð eftir þessi 25 ár.  Eftir því sem árin líða hefur samt sem áður allt stefnt í rétta átt. Trjánum fjölgar, þau stækka og blómstra oft fallega í júní og stundum koma sum þeirra með epli. Þau hafa alltaf verið fremur smá og ekki mikið þroskuð en ágæt í eplaköku.

Varðandi þroska epla er það að segja að þau þroskast ekki yfir nótt eins og reyniber virðast gera (ef mark má taka á vali skógarþrasta), heldur eykst sykurinnihaldið smátt og smátt. Velþroskað epli er laust á trénu með brún fræ.

'Haugmann' nær en 'Sävstaholm' fjær.
'Haugmann' nær en 'Sävstaholm' fjær.

Oftast nær myndast fáein epli. Árið 2003 kom 'Rödluvan' með eitt epli og haustið 2004 Kom 'Astrakan' með tíu mjög lítil en æt epli og 'Sävstaholm' með eitt epli. Árið 2017 voru trén í miklu stuði. Yrkið 'Sävstaholm' blómstraði fyrst að vanda en nú var það strax þann 23. 5. Fram að því höfðu epli aldrei áður blómgast hér í maímánuði. Sumarið byrjaði með miklu blómskrúði sem fékk heimsóknir af ryðhumlum. Útkoman af því var mikill fjöldi eplavísa, sem endaði með fullþroska eplum af nokkrum yrkjum í október. Samtals voru tínd um 7 kg af eplum mest af 'Rödluvan' sem gaf sérlega falleg og bragðgóð epli sem geymdust ágætlega. Þá voru nokkur falleg og góð epli á Ålingstrénu og nokkur ágæt á 'Sävstaholm'. Síðustu eplin voru tínd í lok október og þau voru í fínu lagi þrátt fyrir margar frostnætur. Það er rétt að geta þess að 'Rödluvan' tréð, sem mest gaf, var 18 ára gamalt. Það var dásamleg tilfinning að fylgjast með eplatrjánum allt sumarið og fá svo þetta fína haust. Árið 2023 fer líka í sögubækurnar því þá var engin blómgun. Það skrifast á vorkal. Sumarið 2024 var líka einstaklega kalt. Samt ekki verra en það að slatti kom af eplum sem reyndar náðu litlum þroska.

'Sockermiron' með fáein epli.
'Sockermiron' með fáein epli.

Eftir öll þessi ár hafa vaknað nýjar spurningar. Upphaflega voru áhyggjur af því að kal myndi fara illa með trén. En það varð ekki raunin. Einstaka sinnum er eitthvað kal í vaxtarsprotum en ekki til vandræða. Það eru líka nokkur dæmi um að trén standi í stað ár eftir ár og vaxi nánast ekkert. Það sem undirrituðum finnst þó merkilegast er að sum tré koma oftast með epli en önnur ekki þrátt fyrir blómgun á sama tíma. Stundum hef ég frjóvgað handvirkt og stundum ekki. Þegar blómgun er mikil þá hafa flugurnar alfarið séð um frjóvgunina.

'Haugmann' yrkið er auðþekkt á köntuðum eplum.
'Haugmann' yrkið er auðþekkt á köntuðum eplum.

Þessa ófrjósemi sumra trjánna get ég ekki skýrt fyllilega en staðreyndin er þessi: 'Rödluvan' kemur iðulega með epli. 'Haugmann' kemur líka með allmikið af eplum og sömu sögu er að segja um Ålingsepli. Þetta eru þau þrjú yrki sem hafa staðið sig best hjá mér. Það kann líka að spila inní að þessi þrjú yrki, eða einhver þeirra, séu í raun að hluta sjálffrjóvga. Það kann vel að vera að eftir fimm ár verði það einhver önnur yrki sem bera af, það veit ég ekki, en svona er staðan eftir tuttugu og fimm ár í Aldingarðinum í Kristnesi. Eins og tekið var fram hér framar í greininni eru trén of fá og á of mismunandi aldri svo þetta geti talist fyllilega marktæk tilraun.

Miklar vonir batt ég við yrkið 'Pirja' sem sagt er þroskast mjög snemma í Finnlandi. Hjá mér hefur það ekki enn komið með epli sem talandi er um, þrátt fyrir blóm og ágætan vöxt. Þannig að spurningin er þessi: Af hverju er 'Pirja' ekki besta tréð í Kristnesi? 'Pirja' sem eftir finnskri reynslu þarf sérlega lítinn hita til að þroska epli? Maður náttúrulega segir eins og kellingin „það þarf að stórauka rannsóknir“.


Sumarepli og haustepli

Á Íslandi reynast öll epli vera haustepli. Örlítið sunnar á hnettinum er talað um sumar-, haust - og vetrarepli. Þar skiptir uppskerutíminn mestu. En geymsluþolið er mest hjá vetrareplum og minnst í sumareplum. Eðlilega hafa menn verið þeirrar skoðunar að líklega séu sumarepli best utandyra á Íslandi þar sem þau þurfa stystan tíma til að þroskast. En það virðist ekki endilega vera raunin. Þannig er 'Rödluvan' haustepli, það sama má segja um 'Haugmann' og yrkið 'Summerred' sem hefur fengið ágæt aldin á Akureyri og er á leiðinni í Aldingarðinn í Kristnesi.

Önnur ágeng spurning er þessi: Af hverju hafa 'Suislepp', 'Geneva Erly' og fleiri tré nánast ekkert vaxið hér í Kristnesi? Er það út af þurrki, næringarskorti , kulda,  vindi? Gæti verið að ágræðsluræturnar hagi sér á einhvern hátt öðruvísi hér á landi en annars staðar? Eða er eitthvað annað á ferðinni sem við höfum ekki komið auga á? Auðvitað gefur eitt stakt tré ekki fullnægjandi upplýsingar um hversu gott eða lélegt ákveðið yrki er. Það þarf fleiri tré á fleiri stöðum og lengri tíma til að svara svona grundvallarspurningum. En það bætist stöðugt í reynslubankann og ef til vill mun okkur á endanum takast að finna eða búa til hin fullkomnu eplatré fyrir íslenskar aðstæður.

Eplatínsla í október 2017. Ef þetta væri árviss viðburður þá væri eplaræktun ekki mikið mál.
Eplatínsla í október 2017. Ef þetta væri árviss viðburður þá væri eplaræktun ekki mikið mál.

Ef til vill eru eplaræktendur Íslands að færast skrefi nær því að geta nefnt  tíu líklegustu yrkin og ef til vill fimm sem oft og víða hafa gefið uppskeru. Til landsins hafa borist ótal yrki frá ýmsum stöðum svo sem Kanada,  Rússlandi, Eistlandi, Finnlandi, Noregi, Svíþjóð og jafnvel Kasakstan og víðar. Þökk sé nokkrum frumkvöðlum. Eru þau öll jafn góð eða er ef til vill mikill munur? Á íslenskum ávaxtasíðum á Facebook deilir fólk reynslu og spyr spurninga sem vissulega geta hjálpað til við að finna hið fullkomna tré fyrir íslenskar aðstæður.


Fram, fram aldrei að víkja

Síðustu árin hefur eplatrjánum í Kristnesi fjölgað og stefnan er að bæta enn við. Litla gróðurhúsið í garðinum og garðyrkjustöðvar um allt land luma á enn fleiri trjám sem bíða eftir að spreyta sig, því það jafnast ekkert á við skógargöngu í október þegar maður getur nælt sér í eitt og eitt epli til að maula á í leiðinni.   

Loks ber að þakka Beate Stormo, konunni minni, fyrir að vera ómissandi samstarfsaðili í þessu verkefni sem og öðrum. Þá veitti Bergsveinn Þórsson aðstoð við að reikna fimm mánaða sumarhitameðaltal úr gögnum Veðurstofunnar.

Loks ber að þakka Sigurði Arnarsyni fyrir yfirlestur, uppsetningu og þarfar ábendingar. Einnig fær Guðríður Gyða Ejólfsdóttir þakkir fyrir yfirlestur prófarkar.


    Helgi Þórsson Kristnesi.

 


Heimildir:



Jón Guðmundsson. Aldingarðurinn. Ávaxtatré og berjarunnar á Íslandi. Sumarhúsið og garðurinn 2014.


Lars Haugse. Fruktdyrkning. Landbrugsforlaget,Oslo 1986.


Leif Blomqvist. Våra fruktsortar. Ab Leif JM Blomqvist Oy Bodövegen 2010.


Leplax Finland 2010.


Helgi Þórsson, dagbækur og aldingarðsskýrslur.


Facebook síðan Ávöxtur.

 

 

 

 

Comments


Heimilisfang:

Skógræktarfélag Eyfirðinga

Kjarnaskógi

600 Akureyri

Netfang: ingi@kjarnaskogur.is

bottom of page