Ferðaþyrstir Íslendingar í útlöndum hafa oft gert sér til dundurs að dást að höllum í Evrópu sem smíðaðar voru þegar Íslendingar bjuggu í moldarkofum. Við slíkar hallir má gjarnan sjá svokallaða hnútagarða á meðan helsti gróðurinn við hús á Íslandi frá sama tíma er grasið á þökunum ásamt stöku túnfífli. Það er fyrst og fremst ein tegund sem notuð er í þessa stífklipptu lágu og sígrænu lauflimgerði í hnútagörðunum. Það er tegund sem á íslensku kallast fagurlim en er sennilega betur þekkt undir latneska heitinu Buxus sempervirens L. Fagurlim er tré vikunnar að þessu sinni.
Í desember settum við inn litla getraun er tengdist jólapistli okkar. Það var garðyrkjukonan Helen Teitsson sem bar þar sigur úr bítum og fékk í verðlaun að velja umfjöllunarefni. Hún valdi þessa tegund og því er þessi pistill tileinkaður henni.
Garður við danska höll, Ekeskov Slot, á Fjóni. Sjá má fagurlim sem myndar mynstur, runna sem klipptir eru í ýmiss form og dæmigert, þétt limgerði. Allt gert úr sömu tegundinni. Mynd: Sig.A. árið 2007.
Fræðiheitið
Í Grikklandi hinu forna tíðkaðist að búa til litla kassa úr sérstökum trjám bæði undir helga muni og undir smyrsl og þess háttar. Þeir kölluðu þá pyxides sem dregið var af orðinu pyknos sem merkir „þéttur“. Enn í dag má í mörgum gömlum kirkjum í Evrópu finna helgiskrín sem smíðuð eru úr viði þessara trjáa. Eins og svo margt annað tóku Rómverjar þetta upp eftir Grikkjum. Þeir kölluðu bæði kassana og trén buxus (Wells 2010). Nú er þetta nafn notað á alla ættkvíslina en tréð kallast Buxus sempervirens á latínu. Þessi sami orðstofn hefur skilað sér inn í íslensku eins og svo mörg latnesk orð. Hér á landi er algengt að nota orðið box yfir kassa, einkum litla, þétta kassa eins og upphaflega var gert.
Seinna orðið, sempervirens merkir sígrænn. Það á vel við, enda er fagurlim með sígræn lauf. Að vísu er þetta ekkert sérlega lýsandi heiti fyrir tegundina vegna þess að allar 70 tegundirnar innan ættkvíslarinnar eru sígrænar. Fræðiheitið mætti þýða sem „sígræna kassatréð“.
Íslenskt heiti
Samkvæmt íslenskri nafnahefð sem nær yfir flestar plöntur (nema stöku stofublóm) þá heita plöntur að jafnaði einu nafni, gjarnan samsettu, þar sem seinni liðurinn vísar oft til ættkvíslar. Sem dæmi má nefna gulvíði og skriðsóley. Heitið „sígrænt kassatré“ fellur ekki að þessari hefð. Í þessari grein notum við það heiti sem Íslensk málstöð stingur upp á. Það er fagurlim. Sama heiti er notað hjá nágrönnum okkar í Sólskógum sem hafa tegundina til sölu. Íslensk málstöð gefur upp samheitin eskiviður, og stórblaða eskiviður. Seinna heitið væntanlega notað til að aðgreina þessa tegund frá asísku tegundinni Buxus microphylla en microphylla vísar í lítil (micro) lauf (phylla). Sú tegund er nefnd garðalim hjá málstöðinni en það heiti er notað á B. sempervirens í Stóru Garðabókinni (1997). Í þeim garðyrkjubókum sem okkur eru aðgengilegar er fyrst og fremst fjallað um eitt yrki af þessari smáblaða tegund frá Asíu. Heitir það ´Green Pillow´ og er 30-50 cm hár og breiður krúttrunni. Hér á landi er sennilega algengara að nota latínuheitið Buxus en íslenska heitið. Við erum að reyna að venja okkur á íslenskt heiti og notum það í þessari grein, nema þegar talið berst að viðnum. Hann kallast boxviður samkvæmt hefð. Samkvæmt því mætti kalla tegundina boxtré eða boxrunna en það hefur ekki unnið sér sess. Stundum hefur heitið boxviður verið notað yfir tegundina sjálfa en við notum það ekki og það er ekki að finna í Íðorðabanka Árnastofnunar.
Tvær plöntur af fagurlimi í keri í Skotlandi. Svona er hægt að rækta tegundina á Íslandi. Mynd: Sig.A.
Ættfræði
Fagurlim er ein af um sjötíu tegundum sem finna má innan ættkvíslarinnar. Í öllum tilfellum er um að ræða sígrænar hægvaxta plöntur sem verða ekki mjög hávaxnar. Þær finnast villtar í Evrópu, Asíu, Ameríku og Afríku. Flestar tegundirnar eru allt of suðlægar fyrir Ísland. Þær eru fyrst og fremst í regnskógum eða í nágrenni þeirra. Aðeins örfáar þola frost og þá aðeins asískar eða evrópskar tegundir. Mestri fjölbreytni ná tegundirnar á Kúbu (um þrír tugir tegunda), Kína (17 tegundir) og Madagaskar (9 tegundir). Grasafræðingar hafa skipt ættkvíslinni í þrjá hópa eftir skyldleika. Aðeins plöntur úr fyrsta hópnum koma til greina á Íslandi. Það eru plöntur sem eru frá Evrópu, Asíu og norðvesturhluta Afríku. Hinir hóparnir eru annars vegar afrískar og hins vegar amerískar. Þær þola ekki frost. Í þessum pistli fjöllum við fyrst og fremst um evrópsku tegundina Buxus sempervirens en ein asísk tegund flýtur með, enda er hún stundum ræktuð í Evrópu, eins og nefnt er hér að framan.
Fagurlim klippt þannig að það myndi einskonar hnúta. Með því eru aðrir runnar og fjölæringar. Broddar, Berberis spp. eina mest áberandi. Mynd: KarlGercens.com
Lýsing
Algengast er að sjá fagurlim sem stífklippt limgerði. Sé það ekki gert þá geta þetta orðið státin tré með tíð og tíma. Það er að minnsta kosti þannig víða um sunnanverða Evrópu. Þetta geta orðið stórir runnar eða lítil tré sem verða frá rúmlega mannhæð og allt að 10 metrum (Tudge 2005). Blöðin eru lítil og sporöskjulaga, fremur þykk og sígræn og standa gagnstæð á greinunum. Liturinn er frá dökkgrænu yfir í gulgrænt. Hver planta er tvíkynja og ber bæði karlkyns og kvenkyns æxlunarfæri. Blómin eru gulgræn og ekki áberandi.
Þessi mynd sýnir ágætlega hversu þéttur laufmassinn getur verið. Krakkar dunduðu sér við að búa til þetta andlit með vatnsbrúsum og rörum úr þeim. Mynd: Sig.A.
Í hinum stóra heimi eru til mörg yrki af fagurlimi. Með því að velja rétt yrki má ráða nokkuð hvað limgerðunum er ætlað að verða há. Þannig má nefna yrkið ´Handsworthensis‘ sem sagt er harðgert og á að ná um þriggja metra hæð. Það er mælt með þessu yrki í mörgum garðyrkjubókum (t.d. John Brookes 1991, The Royal Horticultural Society 1996). Óvíst er hvernig því muni vegna hér á landi ef og þegar það verður flutt inn. Við viljum einnig nefna yrki sem hefur verið verðlaunað sérstaklega af Konunglega breska garðyrkjufélaginu (RHS). Það heitir ´Suffruticosa´ og er mjög þétt, glansandi grænt yrki sem getur orðið um metri á hæð og þolir klippingu einstaklega vel. Það má klippa það niður í um 15 cm hæð ef vilji er fyrir hendi. Þetta yrki er mest notað í svokallaða hnútagarða. Í litlum görðum erlendis má oft finna fagurlim í lágvöxnum, þéttum brúskum eða limgerðum. Í stærri görðum og þar sem plássið er meira eru hærri yrki oftast notuð, stundum stífklippt, stundum frjálslegri í vextinum. Mjög algengt er að sjá bjöllulaga form á stífklipptum runnum sem andstæður við frjálslegra form lauffallegra runna. Vænta má þess að sjá svipaða notkun hérlendis á næstu árum í skjólgóðum görðum.
Óklippt fagurlim í Norðymbralandi á Englandi. Myndin fengin frá Wikepediu.
Notkun til skrauts
Allt frá tímum Rómverja hefur fagurlim verið notað í lágvaxin klippt limgerði og einnig verið klippt í allskonar form. Á það jafnt við hvort heldur það er klippt í einföld form eða flóknar myndir. Það vex mjög hægt og þolir svo vel klippingu að það má forma það nánast í hvað sem fólki dettur í hug. Rómverjar fluttu þennan sið með sér um gjörvallt heimsveldi sitt og við fornleifauppgröft víða í álfunni finnast dæmi þess að fagurlim hafi verið plantað við rómversk hýbýli. Rómverski sagnfræðingurinn Plinyus eldri lýsti garðmenningu landa sinna og sagði að fagurlim mætti klippa í óteljandi form. Svo bætti hann við að sumir klipptu út bókstafi svo þeir gætu skrifað nöfn garðyrkjumanna eða húsbænda þeirra. Þessi síðast nefndi siður virðist nú að mestu aflagður en enn er fagurlim klippt í óteljandi form. Plinyus sagði líka að klippa mætti fagurlim í litlar rúmfræðieiningar, eins og pýramída, kassa eða kúlur, en einnig í form dýra. Hvoru tveggja þekkist enn (Wells 2010).
Danskt fagurlim. Það tekur tíma að halda því svona vel klipptu. Myndir: Sig.A.
Hátíska
Óhætt er að segja að hátindur ræktunar á fagurlimi hafi verið þegar formfastir garðar voru hvað mest í tísku á miðöldum. Það er eins og þeim sem áttu garðana hafi verið mikið í mun að sýna að þeir réðu yfir náttúrunni og gátu mótað hana að vild. Enn eru til nokkuð viðhaldsfrekir garðar þar sem fagurlim skipar stóran sess. Slíkir garðar eru stundum nefndir hnútagarðar á erlendum tungumálum. Sennilega er frægasti garður þessarar tegundar við Versalahöllina í Frakklandi. Um síðir dró mjög úr vinsældum þessara garða og þeir fengu náttúrulegra yfirbragð. Samt sem áður er það svo að víða í Evrópu standa hnútagarðar enn, einkum við hallir (eða stórhýsi með hallardrauma) þar sem garðyrkjumenn eru í fullu starfi við að halda þeim stífklipptum.
Við sjálfa Versalahöll má sjá dæmigerðan hnútagarð þar sem stífklippt limgerði úr fagurlimi afmarka blómabeð. Fjær má sjá runna sem klipptir eru í keilur. Þær gætu sem best einnig verið úr fagurlimi. Myndin fengin af þessari auglýsingasíðu.
Notkun á Íslandi
Enn sem komið er má óvíða sjá fagurlim í íslenskum görðum, enda er það hér á mörkum þess að halda velli. Tegundin er næstum of suðlæg til að þrífast hér á landi. Þar sem fagurlim er að finna er það gjarnan í stórum kerjum eða í beðum þar sem gott skjól er að finna. Sérstaklega er mikilvægt að planta því þar sem frostkaldir vindar ná sér ekki upp. Á það reyndar við um flesta sígræna skrautrunna. Hér á landi er gott að sjá til þess að plönturnar fái næga næringu en í erlendum garðyrkjubókum er sagt að þær þoli hvaða jarðveg sem er svo framarlega sem hann er ekki vatnsósa (t.d. The Royal Horticultural Society 1996).
Ungar plöntur af fagurlimi í ræktun á Íslandi. Mynd: Sig.A.
Í Stóru Garðabókinni er sýnd mynd af dæmigerðu hnútlimgerði og sagt að hér mætti nota loðvíði eða gljámispil í sama tilgangi (Ágúst H. Bjarnason 1996). Við mótmælum þessu ekki en vitum að hægt er að rækta fagurlim til skrauts á skýldum stöðum. Reynslan er misjöfn en mörgum ræktendum hefur gengið prýðilega að rækta fagurlim í görðum. Má nefna að hinn mikli ræktandi, Sigurður Þórðarson, hefur góða reynslu af tegundinni í meira en áratug. Hann hefur fjölgað plöntunum sjálfur með græðlingum og plantað víða í garðinn sinn. Veturinn 2022-2023 reyndist mörgum plöntutegundum erfiður og þá varð mikið kal í sumum plöntum af fagurlimi en aðrar sluppu alveg hjá Sigurði. Það verður að teljast merkilegt að veturinn fór misjafnlega með plöntur sem stóðu hlið við hlið þótt um sama yrki væri að ræða (Sigurður 2023).
Boxviður
Þegar talað er um við fagurlims er oftast talað um boxvið með vísan í hefðina og í latínuheitið. Hann er samt ekki eingöngu notaður til kassagerðar. Boxviður hefur lengi verið talinn mjög verðmætur í hverskyns fína smíði og handverk. Hann er ljósgulur, þéttur og fíngerður en ekki er mikið til af honum þar sem stofnar runnanna verða varla meira en 20 cm í þvermál. Ekki nóg með það. Ræturnar hafa einnig verið nýttar til smíða. Má nefna sem dæmi að það þykir voða fínt að nota þær í handföng á rýtingum. Á ensku hafa harðar ræturnar verið nefndar dudgeon (Wells 2010). Í meðförum Shakespeares talaði Macbeth um „The blade on dudgeon“ þegar hann talaði um drápsvopnið. Gaman að segja frá því að aðalleikarinn í Midsomer Murders eða Barnaby ræður gátuna, eins og þættirnir heita í íslenskri þýðingu, heitir einmitt Neil Dudgeon. Hversu oft hafa rýtingar með við boxviðarhaldi verið morðvopn í þeim þáttum?
Skjáskot úr sjónvarpsþáttunum vinsælu. Oft má sjá fagurlega klippt fagurlim í görðum í Midsomer. Látið samt ekki blekkjast. Þetta virðist vera einhver hættulegasti staður í heimi með tvö til fjögur morð á viku, ef marka má þættina.
Enn er ónefnt að bæði viður úr rótum og stofni hefur lengi verið eftirsóttur til allskonar útskurðar og í fína rennismíði. Sennilega er það helsta notkun viðarins á okkar tímum. Einnig mælir hefðin fyrir að reglustikur eru gjarnan smíðaðar úr þessum viði en síðustu áratugi hefur plast oft leyst hann af hólmi. Sjálfsagt muna þó margir lesendur eftir ljósgulum tréreglustikum sem sennilega eru úr boxviði. Svo kann að vera að þeir sem stunda hina göfugu skákíþrótt hafi handleikið þennan við, því hvítu taflmennirnir eru oft úr honum.
Þessir hvítu taflmenn eru úr boxvið. Myndin fengin héðan.
Fyrr á öldum var einnig algengt að nota viðinn í ýmiss konar blásturshljóðfæri. Enn má oft finna blokkflautur og sekkjapípur sem að hluta eða heild eru gerð úr boxvið. Annars hefur dregið mjög úr þessari notkun hin síðari ár og aðrar, ódýrari viðartegundir tekið við.
Sópran- og altblokkflautur úr boxvið. Áferðin mjög dæmigerð fyrir tegundina. Mynd: Helen Teitsson.
Þegar farið var að prenta bækur voru stafir gjarnan skornir út úr viðnum en fljótlega fóru prentarar frekar að nota stafi úr málmi. Þó var það svo að þegar heilar blaðsíður voru skornar út, með myndum og öllu saman, þótti ekkert jafnast á við viðinn af fagurlimi til bókagerðar (Wells 2010, Tudge 2005).
Heimkynni
Ljóst er að villt fagurlim hefur frá örófi vaxið nálægt Miðjarðarhafi, meðal annars í Grikklandi hinu forna og á Ítalíu. Einnig um vestanverða Norður-Afríku og austur til Asíuhluta Tyrklands. Þegar Rómverjar fóru að leggja undir sig lönd fluttu þeir með sér ýmsa siði, byggðu vegi og vatnsleiðslur sem enn standa, hófu ræktun á víni þar sem það var hægt og margt fleira. Eitt af því sem fylgdi þeim víða var fagurlimið sem þeir notuðu til að skreyta í kringum byggingar sýnar. Þar sem það á annað borð þreifst gat það sáð sér út og haldið velli eftir að Rómverjar yfirgáfu svæðin. Því er í dag hreint ekki vitað hvar í Evrópu fagurlimið telst vera upphaflegt og hvar það hefur numið land í kjölfar þess að Rómverjar settust að. Þetta er ástæða þess að í bókum er stundum sagt að til dæmis á Bretlandseyjum sé ein tegund sígrænna lauftrjáa en stundum eru tegundirnar sagðar tvær. Hin er kristþyrnir eða Ilex spp. Hvort heldur fagurlimið telst vera innflutt eða upprunalegt á Bretlandseyjum (þá aðeins suðurhlutanum) dettur varla nokkrum manni í hug að ráðast gegn því og reyna að uppræta það. Það hvort tegund telst góð eða slæm hefur varla neitt með það að gera hvenær eða hvernig þær bárust til viðkomandi staða.
Útbreiðsla fagurlims í heiminum samkvæmt Wikipediu. Grasafræðingar eru ekki endilega sammála um hvort kortið sýni hvar tegundin hefur sjálf komið sér fyrir eða verið flutt með Rómverjum.
Ekki svo að skilja að það valdi fólki miklum áhyggjum. Fagurlim telst hvergi það ágengt að það setji heilu vistkerfin úr skorðum eða kosti innrásalífræðinga svefn.
Fagurlim var á sínum tíma einnig flutt til Norður-Ameríku svo hægt væri að nota það í formlega hnútagarða. Þar hefur það einnig numið land án þess að fólk reiti hár sitt og skegg eða stofni samtök sín á milli til að ráðast gegn því með oddi og egg. Um miðja 19. öld var harðgerð japönsk tegund flutt til Bandaríkjanna og er þar nú meira áberandi en evrópski ættinginn (Wells 2010).
Varnarefni
Áður en lauftré leggjast í dvala losa þau sig flest við laufin. Fagurlimið er þar undantekning ásamt til dæmis kristþyrni, Ilex spp., sem við höfum áður fjallað um. Það er mjög mikilvægt fyrir þessi sígrænu tré að verja sig fyrir afræningjum sem vanir eru laufáti. Annars má búast við því að illa fari þegar lítið annað er að hafa. Fagurlimið hefur þróað með sér varnarefni eða eitur sem nefnt er eftir ættkvíslinni og kallast buxine. Það veldur því að mjög fá dýr vilja leggja þau sér til munns (Wells 2010). Ef til vill eru það þessi varnarefni, eða einhver önnur, sem valda því að sumum þykir lyktin af fagurlimi fremur þung og jafnvel yfirþyrmandi. Sumir hafa jafnvel haldið því fram að laufin lykti af dauða. Frægt varð að þegar Anna var krýnd Drottning Englands og Skotlands árið 1702 lét hún verða eitt af sínum fyrstu verkum að láta fjarlægja allt fagurlauf úr görðunum við Hamoton Court og Kensingon Palace. Ástæðan var sú að henni var illa við lyktina (Wells 2010).
Skreyting í 100 ára afmælisveislu Skákfélgas Akureyrar í febrúar árið 2019. Plöntur fengnar að láni frá Sólskógum. Meðal annars er þarna fagurlim. Mynd: Sig.A.
Táknræn notkun
Eins og lesendum er sjálfsagt kunnugt hafa sígræn tré gjarnan verið tengd eilífu lífi í ýmsum trúarbrögðum. Fagurlim er þar ekki undantekning. Það hefur lengi verið tengt bæði eilífðinni og útfararsiðum. Diana Wells (2010) segir frá því að enska skáldið William Wordsworth (1770 – 1850) hafi sagt frá þeim sið að hafa skál með sprotum af fagurlimi við kirkjudyr við útfarir. Þá gátu þeir, sem voru viðstaddir, tekið sprotana og kastað ofan í hina nýju gröf að kirkjuathöfn lokinni. Einnig þekktist sá siður að láta fagurlim taka við af kristþyrni sem sígrænt tákn á milli jóla og páska. Um páska fór svo annar gróður að laufgast og fagurlimið fékk frí, nema við útfarir.
Framtíðin
Með auknu skjóli í kjölfar aukinnar skóg- og garðræktar hefur nærviðri í stórum og smáum görðum batnað mikið. Útlit er fyrir að sú þróun haldi áfram ásamt því að hamfarahlýnun getur gert það að verkum að hér má hugsanlega rækta margar tegundir sem ættaðar eru af suðlægari stöðum. Þar sem fagurlim hefur þegar sýnt að það getur vaxið á Íslandi við réttar aðstæður má búast við að ræktun þess aukist á komandi árum. Fróðlegt verður að fylgjast með hvernig því muni reiða af hér á landi.
Fagurlim er hægt að forma og klippa. Mismunandi yrki geta farið prýðilega saman. Ætli við eignumst svona garða á Íslandi? Myndirnar fengnar héðan.
Heimildir og frekari lestur:
Ágúst H. Bjarnason (ritstj.) (1996): Stóra Garðabókin. Bókin byggð á fyrirmyndinni The RHS Encyclopedia of Gardening (1992). Forlagið, Reykjavík 1997.
John Brookes (1991): John Brookes´ Garden Design Book. Dorling Kindersley Limited, London.
The Royal Horticultural Society (1996). Plant Guides. Shrubs & Climbers. Dorlington Kindersley Limeted. London
Colin Tudge (2005): The Tree: A Natural History of What Trees Are, How They Live, and Why They Matter. Crown Publishers, a division of Random House, Inc, New York.
Diana Wells (2010): Lives of the Trees. An Uncommon History. Algonquin Books of Chapel Hill. Chapel Hill, North Carolina.
Sigurður Þórðarson (2023) Munnleg heimild í desember 2023.
Yorumlar