top of page
mainLong-1.png
  • Facebook

Um nöfn og flokkunarkerfi. Fyrri hluti

Writer: Sigurður ArnarsonSigurður Arnarson

Updated: 5 days ago

Eitt af því sem virðist vera sameiginlegt einkenni alls mannkyns er þörfin til að flokka alla skapaða hluti. Þegar rýnt er í eldri flokkunarkerfi lífvera er ekki endilega byggt á skyldleika, heldur tilteknum atriðum sem auðvelt er að greina. Það má til dæmis skipta öllum dýrum í skríðandi dýr, ferfætt dýr, fljúgandi dýr, sunddýr, tvífætt dýr og svo framvegis. Þá lendum við í vandræðum þegar einstakir hópar eru skoðaðir nánar. Hvar á að flokka flugfiska? Strútar fljúga ekki og eiga þá ef til vill betur heima með mönnum og öpum, enda tvífættir. Leðurblökur fljúga og geta því verið í hópi með fljúgandi fuglum frekar en spendýrum og svona má áfram telja. Frægt er þegar fyrrum sjávarútvegsráðherra Íslands sagði að frá Seyðisfirði hafi lengi verið stundaðar veiðar á hvölum og öðrum fiskum.

Ljómandi falleg en smá blóm á Stellaria media. Media getur merkt miðlungs, algengur eða jafnvel venjulegt. Því mætti þýða nafnið sem algenga stjörnublómið eða miðlungs stjörnublóm. Þetta er ekki talin skrautjurt og er víða óvinsæl. Á íslensku kallast hún haugarfi. Arfinn er blómplanta. Mynd: Sig.A.
Ljómandi falleg en smá blóm á Stellaria media. Media getur merkt miðlungs, algengur eða jafnvel venjulegt. Því mætti þýða nafnið sem algenga stjörnublómið eða miðlungs stjörnublóm. Þetta er ekki talin skrautjurt og er víða óvinsæl. Á íslensku kallast hún haugarfi. Arfinn er blómplanta. Mynd: Sig.A.

Lengi vel var flokkun manna á náttúrunni fólgin í því að reyna að raða tegundunum eftir því hversu fullkomnar þær töldust vera. Samkvæmt því var maðurinn talinn hátindur sköpunarverksins enda talinn eftirmynd Guðs. Allar aðrar lífverur voru svo flokkaðar eftir þessari trúarlegu nálgun. Sumar lífverur töldust „óæðri verur“. Þær mátti líta á sem einhverskonar æfingu máttarvalda eða missmíði. Ekki er laust við að enn eimi eftir af þessari stigveldishugmynd í flokkun plantna. Einfaldar plöntur eins og þörungar eru þá óæðri en flóknari plöntur eins og tré og runnar. Það er auðvitað engin ástæða til þess að telja að svo sé. Heildarvirkni lífheimsins byggir á öllum lífverum tiltekinna vistkerfa. Þar er ekkert líf öðru æðra nema ef til vill í augum okkar manna. Þetta er fyrri pistill okkar af tveimur um flokkunarfræði og nafngiftir. Í þessum hluta beinum við sjónum okkar að tvínafnakerfinu en í seinni pistlinum fjöllum við um frekari flokkun.


Flokkun plantna

Sennilega eigum við flest einhvers konar flokkunarkerfi fyrir plöntur í huga okkur. Sumir flokka þær í illgresi og aðrar plöntur, eða blóm, grös og tré svo dæmi séu nefnd. Fyrrum framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga var á dögunum spurður hvort hann teldi að fíflar væru blóm. Það bendir til þess að spyrjandinn hafi haft aðra skilgreiningu í huga á blómum en almennt er viðurkennd meðal líffræðinga. Fyrirspyrjandi taldi fífla ekki til blóma, heldur til illgresis.

Eru fíflar illgresi aða blóm? Geta þeir verið bæði illgresi og blóm? Mynd: Sig.A.
Eru fíflar illgresi aða blóm? Geta þeir verið bæði illgresi og blóm? Mynd: Sig.A.

Við höfnum því að plöntur séu góðar eða vondar enda er slík flokkun ekki skynsamleg. Við kunnum enga gagnlega skýringu á því hvað kalla beri illgresi eða amagresi, nema þá helst það að planta sem vex á vitlausum stað, miðað við þarfir okkar manna, telst vera illgresi. Þá er birki, sem sáir sér í grenisáningu illgresi og greni sem kemur sér fyrir í birkibakka er líka illgresi. Það sem kann að vera nytjaplanta í dag getur verið illgresi á morgun.

Sumir hafa jafnvel stungið upp á því að flokka plöntur á Íslandi í flokkana góðar plöntur og vondar plöntur. Sú flokkun virðist byggjast á því hversu duglegar eða áberandi plönturnar eru. Einnig virðist skipta máli hvaðan og hvenær þær komu upphaflega til landsins. Þetta er ekki mjög vísindaleg flokkun. Á þessu sést að flokkun lífvera, þar með talin trjáa og blóma, getur verið breytileg milli manna, tímabila, staða og jafnvel sjónarhorna.

Þessir mega muna sína fífla fegurri. Það sem við venjulega lítum á sem eitt fíflablóm er í raun ótrúlegur fjöldi blóma sem sitja saman í einni körfu. Mynd: Sig.A.
Þessir mega muna sína fífla fegurri. Það sem við venjulega lítum á sem eitt fíflablóm er í raun ótrúlegur fjöldi blóma sem sitja saman í einni körfu. Mynd: Sig.A.

Samanburður flokkunarfræðinga

Þeir sem leggja stund á flokkunarfræði kallast flokkunarfræðingar en fræðigreinin kallast flokkunarfræði eða taxonomy í fræðaheiminum. Svo virðist sem töluverður munur geti verið á flokkun innan líffræðinnar. Þannig virðast grasafræðingar og fuglafræðingar ekki endilega sammála um hvar mörk liggja milli skilgreindra hópa. Fuglum er skipt í meira en 200 ættir. Samt eru ekki til nema um 9000 tegundir fugla í heiminum. Það er svipaður fjöldi og finna má í mörgum stórum ættum plantna (Armstrong 2014). Til samanburðar nefnir Armstrong (2014) að þekktar séu um 220.000 tegundir blómplantna sem skipt er niður í tæplega 400 ættir. Það virðist því vera nokkuð ljóst að fugla- og grasafræðingar skilgreina ættir á mismunandi hátt. Hér er þörf á að nefna að þótt Armstrong setji þetta svona fram þarf það ekki endilega að merkja að þetta sé fyllilega samanburðarhæft. Það vekur þó furðu að innan brönugrasaættarinnar einnar eru taldar vera um 28.000 tegundir (Christenhuszi & Byng 2016). Það eru því til rúmlega þrjár tegundir af brönugrasaætt fyrir hverja fuglategund í heiminum. Örnólfur Thorlacius (2010) hefur bent á annan mun á milli heita hjá dýra- og plöntufræðingum. Hjá báðum hópum eru starfræktar nefndir sem samþykkja eða hafna fræðiheitum. Nefnd dýrafræðinga hefur hafnað nöfnum ef þau hafa of mörg heiti og standa saman af nafni ættkvíslar, viðurnafni, deilitegund og afbrigðis. Þarna eru grasafræðingarnir frjálslyndari.

Mynd úr Lystigarðinum á Akureyri frá september 2018. Í garðinum er plöntum gjarnan raðað saman eftir ættum eins og vera ber í grasagörðum í heiminum. Plönturnar eru merktar með fræðiheiti ætta og ættkvísla auk íslenskra heita. Mynd: Sig.A.
Mynd úr Lystigarðinum á Akureyri frá september 2018. Í garðinum er plöntum gjarnan raðað saman eftir ættum eins og vera ber í grasagörðum í heiminum. Plönturnar eru merktar með fræðiheiti ætta og ættkvísla auk íslenskra heita. Mynd: Sig.A.

Rétt er þó að geta þess að ekki eru allir grasafræðingar sammála um fjölda tegunda, enda ekki alltaf ljóst hvar mörkin milli þeirra liggja. Þannig segja þeir félagar Christenhuszi & Byng (2016) að tegundir plantna séu um það bil 374.000 og þar af séu æðplöntur 308.312 og af þeim séu 295.383 blómplöntur. Það er umtalsvert meira en Armstrong segir í sínu riti og vísað er í hér ofar. Enn hærri tala er gefin upp á vefsíðunni State of the World's Plants and Fungi 2023 sem vistuð er hjá Royal Botanic Gardens, Kew. Þar segir að æðplöntur í heiminum séu 350.386 og sífellt bætist við þá tölu.

Hér er þremur stærstu æðplöntuættunum raðað eftir fjölda plantna miðað við tölur úr riti Christenhuszi & Byng (2016). Þeir benda á að því fari fjærri að öll kurl séu komin til grafar. Þeim þykir til að mynda skjóta skökku við að fjöldi ættkvísla í körfublómaættinni séu meira en tvöfalt fleiri en hjá brönugrösum. Þeir telja líklegt að ættkvíslum körfublóma muni fækka með sameiningu sumra þeirra í kjölfar frekari rannsókna. Mynd: Sig.A.
Hér er þremur stærstu æðplöntuættunum raðað eftir fjölda plantna miðað við tölur úr riti Christenhuszi & Byng (2016). Þeir benda á að því fari fjærri að öll kurl séu komin til grafar. Þeim þykir til að mynda skjóta skökku við að fjöldi ættkvísla í körfublómaættinni séu meira en tvöfalt fleiri en hjá brönugrösum. Þeir telja líklegt að ættkvíslum körfublóma muni fækka með sameiningu sumra þeirra í kjölfar frekari rannsókna. Mynd: Sig.A.

Eldri kerfi

Strax á dögum Grikkja og Rómverja til forna voru sett saman flokkunarkerfi sem dugðu ágætlega á þeim tíma. Að sögn Ágústs H. Bjarnasonar (1993) er elsta varðveitta flokkunarkerfi sem þekkt er eignað hinum gríska Þeófrastosi sem var nemandi Aristótelesar. Hann gaf út rit þar sem hann lýsti 480 tegundum planta og flokkaði þær eftir ýmsum útlitseinkennum. Seinna kom fram enn frægari náttúrufræðingur. Það var Rómverjinn Plíníus eldri. Hann gaf út rit þar sem hann lýsti um 1000 tegundum plantna.

Á miðöldum voru gefin út fjölmörg rit um plöntur. Þá höfðu flestar plöntur aðeins eitt nafn en smám saman fjölgaði þeim plöntum sem lýst var. Samhliða því fjölgaði nöfnunum á plöntunum. Oftast var einfaldlega bætt við nafni á eldri tegundir þegar þurfti að greina þær að. Nafn hverrar plöntu gat þá orðið óslitin röð lýsingarorða (Ágúst 1993).


Hinn sænski Linnæus

Árið 1707 fæddist í Smálöndum Svíþjóðar drengur sem nefndur var Carl. Faðir hans hét Nicolaus Ingemarsson en hann tók upp ættarnafnið Linnæus fyrir sig og fjölskylduna. Árið 1757 var Carl aðlaður og nefndist eftir það Carl von Linné. Hann skrifaði mest á latínu, sem á þessum tíma var mál allra vísinda. Því þótti honum við hæfi að nefna sig Carl eða jafnvel Carolus Linnæus. Nú orðið er bókstafurinn æ vandfundinn á mörgum lyklaborðum og því er algengara á okkar dögum að skrifa Linnaeus. Svo eru ýmsir sem skrifa frekar Linné en Linnæus. Það eru tvö nöfn fyrir einn og sama manninn.


Linnæus sá að í hverju landi voru grasafræðingar með sitt eigið kerfi en á milli landa var ekki nokkur leið að skilja hvað menn voru að tala um. Sumir notuðu móðurmál sitt, en þó var algengara að nota latínu. Stóri gallinn var sá að hvert tré gat hlotið fjölmörg heiti sem áttu að lýsa trénu. Allt eðlilegt fólk átti í hinu mesta basli með að skilja þetta og samræmi var ekkert.

Rauðgreni, blágreni og sitkagreni tilheyra öll sömu ættkvíslinni (Picea) en furan, lengst til vinstri (Pinus)  tilheyrir annarri ættkvísl. Sama á við um lerkið (Larix) fyrir miðri mynd. Saman tilheyra öll trén á myndinni sömu ættinni sem heitir þallarætt eða Pinaceae. Mynd: Sig.A.
Rauðgreni, blágreni og sitkagreni tilheyra öll sömu ættkvíslinni (Picea) en furan, lengst til vinstri (Pinus) tilheyrir annarri ættkvísl. Sama á við um lerkið (Larix) fyrir miðri mynd. Saman tilheyra öll trén á myndinni sömu ættinni sem heitir þallarætt eða Pinaceae. Mynd: Sig.A.

Það var í þessu umhverfi sem Linnæus gaf út sitt merka rit Systema Naturæ árið 1735. Þetta rit var algert grundvallarrit á sínum tíma. Þarna lýsti hann því tvínafnakerfi (binomial = tvö nöfn) sem enn er notað. Þetta var hans stóra nýjung á þessum tíma. Ritið nær ekki bara yfir tvínefnin sem notuð eru á allar tegundir í heimi, heldur er flokkunarkerfinu í heild lýst í ritinu.

Linnæus stakk upp á því í þessu riti að reyna að flokka allar lífverur heimsins eftir skyldleika frekar en útlitseinkennum. Hann bjó til hugtök yfir hverja flokkunareiningu sem áttu að lýsa skyldleikunum. Þetta minnir pínulítið á rússneskar trédúkkur sem raðað er inn í hverja aðra og eru stundum kallaðar babúskur á íslensku. Það þýðir reyndar amma á ýmsum slavneskum tungum, en það er önnur saga.

Innsta dúkkan er þá tegundin sjálf, eða öllu heldur viðurnafn hennar, skrifað með skáletri. Ef það er ekki mögulegt (til dæmis í handskrifuðum textum) má bjarga sér með undirstrikun. Næsta dúkka þar utanum er ættkvíslin. Heiti tegunda er skráð með nafni ættkvíslarinnar og svo einhverju lýsandi viðurnafni, þannig að fyrra heiti tegunda er einnig nafn ættkvíslarinnar. Við lýsum þessu aðeins nánar í sérstökum kafla. Skyldum ættkvíslum er síðan raðað saman í næstu dúkku. Kallast hún ætt. Nöfn ætta á ekki að skrifa með skáletri þótt það sé oft gert í óvönduðum ritum og vefsíðum.

Framhaldið má sjá á meðfylgjandi töflu.

Í þessari töflu eru bornar saman tvær tegundir sem Linnæus gaf nöfn. Innsta dúkkan er viðurnafnið. Utan um hana er ættkvísl, síðan ætt og svo koll af kolli. Sama kerfi er notað fyrir allar lífverur. Tvær innstu dúkkurnar, ættkvísl og viðurnafn, gefa tegundarheitin. Tígrisdýr heitir Panthera tigris  og blæösp heitir Populus tremula. Náskyldar tegundir bera sama ættkvíslarheiti. Þannig heitir ljón Panthera leo, svo dæmi sé tekið. Fjarskyldari kattardýr bera annað ættkvíslarheiti. Má nefna af heimiliskettir eru af ættkvísl smákatta en fræðiheiti þeirra er Felis. Sama kerfi á við um plönturíkið. Allar aspir eru af ættkvíslinni Populus. Víðisættkvíslin, Salix, er skyld öspum. Saman mynda þessar ættkvíslir víðisætt, Salicaceae. Mynd: Sig.A.
Í þessari töflu eru bornar saman tvær tegundir sem Linnæus gaf nöfn. Innsta dúkkan er viðurnafnið. Utan um hana er ættkvísl, síðan ætt og svo koll af kolli. Sama kerfi er notað fyrir allar lífverur. Tvær innstu dúkkurnar, ættkvísl og viðurnafn, gefa tegundarheitin. Tígrisdýr heitir Panthera tigris  og blæösp heitir Populus tremula. Náskyldar tegundir bera sama ættkvíslarheiti. Þannig heitir ljón Panthera leo, svo dæmi sé tekið. Fjarskyldari kattardýr bera annað ættkvíslarheiti. Má nefna af heimiliskettir eru af ættkvísl smákatta en fræðiheiti þeirra er Felis. Sama kerfi á við um plönturíkið. Allar aspir eru af ættkvíslinni Populus. Víðisættkvíslin, Salix, er skyld öspum. Saman mynda þessar ættkvíslir víðisætt, Salicaceae. Mynd: Sig.A.

Tvínafnakerfið

Í öðru merku riti, Species Plantarum, sem út kom árið 1753 lýsti Linnæus öllum þeim tegundum plantna sem þekktar voru á þeim tíma. Hann notaði hið nýja kerfi til að lýsa tegundunum og gaf þeim öllum tvínefni sem flest eru enn notuð.  

Síðan þetta rit kom út hefur það verið föst regla að sérhver tegund er nefnd tveimur nöfnum. Eru þau jafnan skáletruð. Hið fyrra er heiti ættkvíslarinnar (generic epithet) og er alltaf ritað með stórum upphafsstaf. Hið síðara er viðurnafn eða viðurnefni (specific epithet) sem ritað er með litlum upphafsstaf.

Þessi tvö orð, sem saman mynda heiti hverrar einustu þekktu lífveru í heiminum, geta verið af margvíslegum uppruna. Oft eru orðstofnarnir úr latínu eða grísku en það er ekkert skilyrði. Með hnignandi kunnáttu líffræðinga á klassískum tungumálum hafa stofnar úr öðrum tungumálum fengið að fljóta með. Öll þau tvínefni sem til eru eiga að falla að latneskri beygingu og í flestum tilfellum gera þau það. Því eru þau oft nefnd latnesk heiti eða latínuheiti. Það verður þó að telja eðlilegra að kalla þau fræðiheiti því orðstofnarnir þurfa ekki að vera úr latínu (Örnólfur 2010).

Viðurnafnið á helst að vera lýsandi á einhvern hátt. Það getur lýst einhverju einkenni eða verið heiti á landsvæði svo dæmi séu tekin. Það getur valdið nokkrum vanda að finna lýsandi viðurnafn í stórum ættkvíslum og þess vegna teygja menn sig dálítið langt á stundum. Því kemur fyrir að leitað sé á önnur mið. Það er til dæmis nokkuð algengt að viðurnafnið sé nafn einhvers grasafræðings.

Örnólfur Thorlacius skrifaði stutta og skemmtilega grein í Náttúrufræðinginn árið 2010 þar sem hann tiltekur nokkur einkennileg heiti lífvera. Hann nefnir meðal annars að eitt sinn styrkti þekkt skyndibitakeðja leiðangur grasafræðinga til Madagaskar. Þá hlaut nýfundin pálmaættkvísl á eyjunni nafnið Macdonaldia. Heiti ættkvíslar ásamt viðurnafni mynda saman tegundarheiti. Ef verið er að fjalla um margar tegundir af sömu ættkvísl er óþarfi að endurtaka nafn hennar í hvert skipti. Þess í stað dugar að nota upphafsstaf ættkvíslarinnar sem skammstöfun og setja punkt á eftir (Ágúst 1996). Sem dæmi um slíkt mætti nefna að ef við ætluðum að fjalla um þrjár reynitegundir; ilmreyni, Sorbus aucuparia, skrautreyni, S. decora og kasmírreyni, S. cashmiriana, þá má gera það eins og hér er sýnt.

Linnæus og titilsíða ritsins Species Plantarum. Myndin fengin kínverskri síðu enda er kerfið alþjóðlegt.																		Linnæus lýsti um 5.900 tegundum og nefndi þær allar. Yfirgnæfandi meirihluti þeirra nafna er enn notaður í grasafræðinni. Þau má þekkja á því að aftan við fræðiheiti þeirra má gjarnan sjá bókstafinn L. Má sem dæmi nefna kattarmyntu eða Nepeta cataria L.  Áður en Linnæus setti fram sitt kerfi og gaf þessari plöntu nafn kallaðist hún Nepeta floribus interrupte spicatus pedunculatis. Það merkir um það bil „kattarmynta með blóm á stilk og rofna gadda“ (Armstrong 2014). Það er varla leggjandi á nokkurn mann að muna svona nafnarunur. Þetta sýnir hversu framúrstefnuleg aðferð Linnæusar var á sínum tíma.
Linnæus og titilsíða ritsins Species Plantarum. Myndin fengin kínverskri síðu enda er kerfið alþjóðlegt. Linnæus lýsti um 5.900 tegundum og nefndi þær allar. Yfirgnæfandi meirihluti þeirra nafna er enn notaður í grasafræðinni. Þau má þekkja á því að aftan við fræðiheiti þeirra má gjarnan sjá bókstafinn L. Má sem dæmi nefna kattarmyntu eða Nepeta cataria L. Áður en Linnæus setti fram sitt kerfi og gaf þessari plöntu nafn kallaðist hún Nepeta floribus interrupte spicatus pedunculatis. Það merkir um það bil „kattarmynta með blóm á stilk og rofna gadda“ (Armstrong 2014). Það er varla leggjandi á nokkurn mann að muna svona nafnarunur. Þetta sýnir hversu framúrstefnuleg aðferð Linnæusar var á sínum tíma.

Frá því að Linnæus gaf út bók sína um plöntur, Species Plantarum, árið 1753 hafa vísindamenn lýst og nefnt meira en 250.000 plöntum í viðbót (Christenhuszi & Byng 2016). Samt er grunnur kerfisins, sem hann bjó til, enn í notkun. Kerfið hefur þó verið lagað samhliða aukinni þekkingu og í raun hafa verulegar breytingar verið gerðar og ýmsar reglur settar, en grunnurinn er sá sami. Á þessari síðu má skoða þær reglur sem nú eru í gildi fyrir nafngiftir á þörungum, plöntum og sveppum. Að vísu voru nýjar reglur samþykktar árið 2024 í Madríd og má sjá þær hér. Þær munu leysa eldri reglur af hólmi í sumar þegar þær verða gefnar út með formlegum hætti. (Guðríður Gyða 2025)



Ný nöfn

Þegar einhver líffræðingur lýsir lífveru í fyrsta skipti og birtir lýsinguna opinberlega gefur hann henni fræðiheiti. Nafnið sem viðkomandi gefur er hið viðurkennda nafn, nema ef hægt er að sýna fram á að eitthvað verulega brogað eða bogið sé við lýsingu eða greiningu tegundarinnar. Nýjar rannsóknir hafa oft sýnt fram á að eitthvað í eldri rannsóknum stenst ekki alveg, þótt þær hafi verið gerðar með bestu þekkingu, tækni og upplýsingum á þeim tíma. Það er engin minnkun þótt vísindamenn lendi í því. Það kallast framþróun.

Sá sem fyrstur lýsir nýrri tegund verður að setja nafn sitt, ártal og hvar grein birtist þar á eftir. Kallast hann nafnhöfundur. Hann má einnig nota viðurkennda skammstöfun á nafni. Á þessari síðu má skoða hvaða nöfn standa að baki þessum skammstöfunum og hér er gagnagrunnur um höfunda plöntunafna. Til marks um hvað Linnæus skiptir þessa sögu miklu máli má nefna að ef hann hefur gefið plöntu nafn stendur L. á eftir nafninu. Aðeins nafn hans má skammstafa með aðeins einum bókstaf.

Þegar greint er frá fræðiheitum tegunda má gjarnan birta nafn höfundar á eftir fræðiheitinu en oft er því sleppt.


Endurskoðun nafna

Eitt af því sem Linnæus sá ekki fyrir sér var að nýjar rannsóknir gætu leitt til þess að planta væri færð á milli ættkvísla án þess að breyta þyrfti lýsingu á plöntunni sjálfri. Nafn hvaða grasafræðings ætti þá að setja á eftir slíkum plöntum? Við getum nefnt sem dæmi að Linnæus lýsti tiltekinni plöntu af sveipjurtaætt, Apiaceae og gaf henni nafnið Laserpitium prutenicum L. Þið sjáið hið kunnuglega L. á eftir nafninu. Svo hafa grasafræðingar sett fram rök fyrir því að þessi planta eigi frekar að tilheyra annarri ættkvísl, þótt lýsing Linnæusar standist tímans tönn að öðru leyti. Því hefur ættkvíslarheitinu verið breytt en viðurnafninu er haldið óbreyttu, nema í þeim tilfellum sem laga þarf nafnið að öðru kyni. Svo er bókstafurinn L. settur í sviga til að minna á þátt Linnæusar í lýsingunni. Reyndar voru það óvenjumargir grasafræðingar sem settu þetta nafn fram í sameiningu. Þeir voru fimm talsins og vilja vitanlega allir að þeirra sé getið. Þess vegna má sjá nafnasúpu á vef WFO þegar tegundin er nefnd. Hún er kölluð Silphiodaucus prutenicus (L.) Spalik, Wojew., Banasiak, Piwczyński & Reduron. Það er ekkert undarlegt að flestir láti sér duga að nota bara tvínefnið og sleppa nafnarununni en heimilt er að stytta þessa nafnarunu með því að skrifa Spalik et al. Sem betur fer er það sjaldgæft að svona mörg höfundaheiti sjáist á samþykktum plöntunöfnum. Oft er það þannig í ritum um grasafræði að þegar fræðiheitið er nefnt í fyrsta sinn er höfundurinn heiðraður með því að nefna hann. Eftir það er nafni hans eða skammstöfun sleppt. Svo má í mörgum flórubókum sjá að stuðst er við fræðiheiti án þess að geta höfunda. Það er alveg heimilt að hafa það þannig.


Það geta komið upp ýmsar aðstæður sem verða til þess að flokkunarfræðingar ákveða að breyta um nöfn á tegundum. Hér má sjá frétt um að til standi að breyta nöfnum plantna sem þykja móðgandi eða óviðkvæmileg.

Ein af þeim trjátegundum sem Linnæus lýsti og gaf nafn er Salix babylonica L. eða grátvíðir. Að kenna tegundina við Babylon er dálítið merkilegt í ljósi þess að hún kemur frá Kína. Ef við förum á dýptina, þá mætti halda að sérlega ruglingslegar tegundir mætti kenna við Babylon eða meintan turn í því landi, en svo er ekki. Mynd: Sig.A.
Ein af þeim trjátegundum sem Linnæus lýsti og gaf nafn er Salix babylonica L. eða grátvíðir. Að kenna tegundina við Babylon er dálítið merkilegt í ljósi þess að hún kemur frá Kína. Ef við förum á dýptina, þá mætti halda að sérlega ruglingslegar tegundir mætti kenna við Babylon eða meintan turn í því landi, en svo er ekki. Mynd: Sig.A.

Er besta nafnið rétta nafnið?

Rétt er að árétta að það er fyrsta og þar með elsta nafnið sem gildir. Það á þó aðeins við ef það hefur verið gefið eftir þeim nafnareglum sem í gildi voru þegar heitið var birt. Þar með telst það löglegt. Breytir þá engu þótt það sé ekki mjög lýsandi eða kunni jafnvel að vera örlítið villandi. Ef ekki hefur verið farið að settum reglum um nafngiftina á sínum tíma telst nafnið ólöglegt og þá má alveg skipta því út. Það má einnig nefna að stundum hefur latínukunnáttan verið þannig að til verða fræðiheiti með ranga beygingu eða rangt kyn. Ef nafnið var engu að síður búið til samkvæmt gildandi reglum telst það gott og gilt. Eða að minnsta kosti gilt.

Það er ekki besta nafnið sem ræður, heldur hið fyrsta. Skulu hér nefnd tvö dæmi um merkileg nöfn sem hvorugt er sérlega lýsandi. Annað er viðurkennt fræðiheiti, hitt er íslenskt heiti á algengu blómi.

Sýprus kallast Cupressus sempervirens L. á fræðimálinu. Viðurnafnið sempervirens merkir eilífur og vísar í það að tegundin er sígræn. Virens er notað yfir það sem er grænt. Þegar tegundin fékk þetta nafn voru til tegundir innan ættkvíslarinnar sem áttu það sameiginlegt að fella barrið yfir veturinn. Það gerir sýprusinn ekki og hlaut því þetta nafn. Nú hafa þær tegundir verið fluttar í aðra ættkvísl þannig að allar tegundirnar sem nú eru innan Cupressus ættkvíslarinnar eru sígrænar. Því er þetta nafn að sumra mati ákaflega óhentugt en þrátt fyrir það verður nafninu aldrei breytt. Aðrir telja að þetta sé heppilegt til að leggja áherslu á að tegundinn sé sígræn. Við munum segja nánar frá mikilvægi þessarar tegundar í tengslum við nafnakerfið í sérstökum pistli sem bíður birtingar. Enn furðulegra er þó heitið mýrasóley. Hún ber fræðiheitið Parnassia palustris. Palustris vísar í að plantan vex í mýrum og vel má vera að þannig sé því háttað í þurrara loftslagi en býðst á Íslandi. En hér á landi er hún algengust í graslendi og móum. Auk þess tilheyrir hún ekki sóleyjum, Ranunculus. Því er ekki beinlínis hægt að halda því fram að mýrasóley sé lýsandi heiti á tegund sem vex ekki í mýrum og er ekki af sóleyjarætt.


Nöfn ætta

Nöfn ætta eru að jafnaði dregin af nafni einnar ættkvíslar innan hverrar ættar. Hvernig það er ákveðið liggur ekki alltaf fyrir. Stundum er það stærsta ættkvíslin en oft geta frekari rannsóknir leitt til þess að tegundum fækki eða fjölgi innan tiltekinna ættkvísla. Þá er óvíst að ættkvíslin, sem ættin er nefnd eftir, sé ennþá stærst innan ættarinnar. Þetta er þó ekki talin ástæða til að skipta um nafn á heilli ætt. Stundum er eins og mikilvægasta ættkvíslin gefi ættinni nafn, en hver ákveður hvað er mikilvægast og hvernig á að ákveða það? Er mikilvægið ákveðið út frá þörfum manna, umhverfis eða einhvers annars? Sjálfsagt eru einhverjar reglur til um þetta en sá sem þetta ritar þekkir þær ekki.

Ættirnar fá gjarnan íslensk heiti. Þá er stundum farið eftir fræðiheitinu en stundum ekki. Og stundum er nafnið valið út frá eldri nöfnum tegunda innan ættanna.

Oftast nær er það einfaldlega þannig að fræðiheitin eru þýdd á íslensku. Stundum er málið örlítið flóknara. Verða hér nefnd þrjú dæmi um nöfn ætta á latínu og íslensku sem fljótt á litið eru ekki endilega alveg rökrétt.

Mynd úr grasagarðinum í Kaupmannahöfn. Þarna er fjölbreyttur gróður og hver planta merkt með fræðiheiti ættar og tegundar. Mynd: Sig.A.
Mynd úr grasagarðinum í Kaupmannahöfn. Þarna er fjölbreyttur gróður og hver planta merkt með fræðiheiti ættar og tegundar. Mynd: Sig.A.

Þallarætt

Stundum hafa gömul, úrelt orð öðlast nýtt líf þegar þau hafa verið færð á eitthvað nýtt. Fræg dæmi um slíkt eru heitin sími og skjár. Þau höfðu forðum allt aðra merkingu en voru endurnýtt og allir þekkja hina nýju merkingu. Orðið þöll er einnig svona endurvinnsluorð. Í fornu máli merkti það fura og er enn notað þannig í sænsku þar sem furan kallast tall. Í Hávamálum stendur: Hrörnar þöll/sú er stendur þorpi á./Hlýr-at henni börkur né barr.“ Sýnir þetta vísubrot að orðið er fornt.

Þegar gefa þurfti ættkvísl sem kallast Tsuga á fræðimálinu íslenskt heiti þá var þallarheitið endurnýtt. Við höfum fjallað um þessa ættkvísl í sérstökum pistli um þallarættkvíslina. Þallir eru af ætt sem kallast Pinaceae eftir furuættkvíslinni Pinus. Það er mjög eðlilegt enda er það stærsta ættkvísl ættarinnar og reyndar stærsta ættkvísl allra barrtrjáa. Á íslensku heitir hún samt ekki furuætt, heldur er nefnd eftir hinu forna heiti yfir furur og kallast þallarætt á íslensku. Þannig að þrátt fyrir að ættin sé kennd við þallir á íslensku má segja að heitið vísi í furur.

Þinir, Abies spp. tilheyra þallarætt Pinaceae. Þeir þekkjast meðal annars á því að könglarnir snúa upp í stað þess að hanga niður eins og algengast er innan ættarinnar. Mynd: Sig.A.
Þinir, Abies spp. tilheyra þallarætt Pinaceae. Þeir þekkjast meðal annars á því að könglarnir snúa upp í stað þess að hanga niður eins og algengast er innan ættarinnar. Mynd: Sig.A.

Einisætt eða sýprisætt

Hér er komin ætt sem hreint engin samstaða er um hvað nefna skuli á íslensku. Stefán Stefánsson (1863-1921) skrifaði bók árið 1901 sem hann nefndi Flóru Íslands. Þessi bók var á sínum tíma ákaflega mikilvæg og algert grundvallarrit. Í henni kallar hann þessa ætt sýprisætt. Þótt rit Stefáns teljist enn vera grundvallarrit má sjá í Orðabanka Íslenskrar málstöðvar, sem varðveittur er hjá Árnastonfun, að þar er ættin nefnd einisætt. Fjölmörg samheiti eru þar nefnd en einisætt er nafnið sem þar er nefnt fyrst.

Einisætt er hreint ekki nefnd eftir ættkvíslinni sem ættin er nefnd eftir á fræðimálinu. Hún heitir Cupressaceae á fræðimálinu og er þar kennd við sýprusa, Cupressus. Því hafa nöfn eins og kýprisætt og sýprusætt sést á prenti og reyndar mörg önnur. Þar á meðal er að sjálfsögðu orðið sýprisætt sem Steindór nefndi í sínu riti og það telst ekkert rangt við að nota það. Annars bendum við á tengilinn á heimasíðu Árnastofnunar, sem við birtum hér ofar, fyrir þá sem vilja skoða fleiri tillögur að nöfnum á þessa tilteknu ætt. Það má þó færa fram tvenn rök fyrir heitinu einisætt. Í fyrsta lagi er einir, Juniperus communis, eina tegundin ættarinnar sem vex á Íslandi. Því er ekkert óeðlilegt að nefna ættina eftir eini á íslensku. Að auki er það svo að Cupressaceae hefur stækkað nokkuð hin síðari ár þegar aðrar ættir hafa verið felldar í hana. Ein af þeim ættum sem nú teljast til hennar kallaðist áður Juniperaceae eftir eininum. Sú ætt er ekki lengur viðurkennd en engin sérstök ástæða til að breyta um íslenska heiti ættarinnar á eini þótt tegundin hafi verið færð á milli ætta. Má segja að þegar ættirnar voru sameinaðar hafi fræðaheimurinn fært einisættina inn í aðra ætt en á Íslandi var farið í hina áttina. Rétt er að árétta að við vitum vel að hér á landi er hreint engin sátt um hvað kalla beri ættina Cupressaceae á íslensku.

Á þessari haustmynd er birkilaufið gult, lyngið rautt en einirinn er sígrænn. Hann tilheyrir einisætt þótt gamla ættin hafi verið felld inn í aðra ætt. Mynd: Sig.A.
Á þessari haustmynd er birkilaufið gult, lyngið rautt en einirinn er sígrænn. Hann tilheyrir einisætt þótt gamla ættin hafi verið felld inn í aðra ætt. Mynd: Sig.A.

Mórberjaætt

Mórberjaættin heitir eftir mórberjum, Morus og kallast Moraceae. Við höfum fjallað um mórberin en hún er ekki stærsta ættkvíslin innan ættarinnar. Þar eru nefnilega líka fíkjutré, Ficus sem við höfum áður fjallað um. Þetta er stórmerkileg ættkvísl og fíkjur eru á engan hátt ómerkilegri en mórber. Að auki er ættkvíslin stærri. Samt ákvað Linnæus á sínum tíma að kenna ættina frekar við mórber. Sennilega er það vegna þess að mórberjarunnar eru undirstaða silkiræktar í heiminum. Það gerir ættkvíslina alveg einstaka og ákaflega mikilvæga í heimsviðskiptum. Á íslensku hefur ættin hlotið sambærilegt nafn og notað er á fræðimálinu, þótt mórberin geti ekki talist meginættkvísl ættarinnar.

Aldin á benjamínfíkus, Ficus benjamina, í Portúgal. Þar vex tegundin utan dyra en hér á landi er þetta stofuplanta. Til eru um 750 tegundir af fíkjum en ættin er kennd við mórber, Morus. Ættin kallast Moraceae eftir mórberjunum. Mynd: Sig.A.
Aldin á benjamínfíkus, Ficus benjamina, í Portúgal. Þar vex tegundin utan dyra en hér á landi er þetta stofuplanta. Til eru um 750 tegundir af fíkjum en ættin er kennd við mórber, Morus. Ættin kallast Moraceae eftir mórberjunum. Mynd: Sig.A.

Greiningaratriði

Rétt er að taka það fram að Linnæus var ekki fyrstur manna til að setja fram einhvers konar flokkunarkerfi. En það var hann sem setti fram það kerfi sem er grundvöllurinn af því kerfi sem enn er notað. Til að flokka plöntur eftir skyldleika ákvað hann að réttast væri að nota blóm og aldin til að meta hann. Blöð, vaxtarlag og annað gefur okkur miklu minni upplýsingar um skyldleika. Má sem dæmi nefna að oftast er auðvelt að greina flestar tegundir þallarættarinnar niður í ættkvíslir eftir könglum. Furukönglar eru mjög frábrugðnir grenikönglum eða könglum deglis í útliti, svo dæmi séu tekin. Könglar innan hverrar ættkvíslar geta verið nokkuð líkir, en þó má oftast greina plöntur til tegunda eða jafnvel afbrigða út frá þeim. Annað dæmi eru ertublóm sem einnig eru nefnd belgjurtir. Þá stóru ættkvísl má auðveldlega þekkja af blómum og ekki síður af aldinum sem mynda alltaf einskonar belgi.

Oft eru ýmsar blómaættir nefndar eftir útliti blómanna. Má nefna sveipjurtaætt, Apiaceae, þar sem blómin mynda alltaf sveipi og körfublómaætt, Asteraceae, þar sem blómskipanin myndar einskonar körfur.

Hvannir, Angelica spp. eru af sveipjurtaætt. Blómin mynda sveipi og fræin líka, eins og sjá má. Mynd: Sig.A.
Hvannir, Angelica spp. eru af sveipjurtaætt. Blómin mynda sveipi og fræin líka, eins og sjá má. Mynd: Sig.A.

Önnur einkenni, til dæmis lögun blaða, geta verið ákaflega misvísandi. Má nefna sem dæmi að fjöðruð blöð, eins og við þekkjum svo vel á íslenska reyninum, Sorbus aucuparia, þekkjast innan fjölmargra ættkvísla og ætta. Má nefna ask, Fraxinus spp. og ylli, Sambucus spp. sem dæmi. Því er oftast fremur óhentugt að nota lögun laufblaða til að flokka saman tré. Samt er það svo að lengi hafa verið uppi hugmyndir að skipta reyniættkvíslinni upp. Þá eiga reynitré og -runnar með fjöðruð blöð að mynda sérstaka ættkvísl, en reynir með heil blöð aðra. Ekki hefur náðst full eining um þetta en fleiri og fleiri flokkunarfræðingar telja þetta réttast. Við komum aðeins inn á þetta í pistli okkar um rúmenareyni.


Hér má sjá mynd af hinum fágæta lárhegg eða Prunus laurocerasus L. á Akureyri. Hann er reyndar ekkert fágætur í útlöndum, en hann er það á Íslandi. Blómin eru mjög dæmigerð fyrir hegg enda tilheyrir tegundin heggættkvíslinni, Prunus. Aftur á móti eru laufin ótrúlega lík lárviðarlaufum. Um lárvið, Laurus nobilis L. höfum við fjallað í sérstökum pistli. Viðurnafn tegundarinnar vísar í þessi líkindi eins og sjá má ef fræðiheitin eru borin saman. Það dettur samt engum í hug að lárheggur tilheyri lárviðum. Mynd: Sig.A.
Hér má sjá mynd af hinum fágæta lárhegg eða Prunus laurocerasus L. á Akureyri. Hann er reyndar ekkert fágætur í útlöndum, en hann er það á Íslandi. Blómin eru mjög dæmigerð fyrir hegg enda tilheyrir tegundin heggættkvíslinni, Prunus. Aftur á móti eru laufin ótrúlega lík lárviðarlaufum. Um lárvið, Laurus nobilis L. höfum við fjallað í sérstökum pistli. Viðurnafn tegundarinnar vísar í þessi líkindi eins og sjá má ef fræðiheitin eru borin saman. Það dettur samt engum í hug að lárheggur tilheyri lárviðum. Mynd: Sig.A.

Þegar farið var að nota erfðaefni til að meta skyldleika plantna kom í ljós að þótt blóm og aldin veiti vissulega allgóðar vísbendingar eru fjölmörg dæmi um að þau hafi leitt okkur á villigötur. Þetta getur átt við um óskyldar tegundir sem mynda lík blóm eins og hið kvenlega keisaratré og fingurbjargarblóm. Einu sinni voru þessar tegundir settar í sömu ættkvísl vegna þess hve lík blómin eru. Erfðafræðirannsóknir breyttu því og nú eru þessar tegundir ekki einu sinni í sömu ætt. Frá þessu sögðum við í pistli um tréð á sínum tíma. Þetta getur einnig átt við um skyldar tegundir sem mynda ólík blóm eða ólík aldin. Ágætt dæmi um það er kanadalífviður sem stundum er settur í sömu ættkvísl og annar lífviður en stundum í sérstaka ættkvísl, því könglarnir eru frábrugðnir flestum öðrum könglum innan ættkvíslarinnar.


Framhald

Við látum nú staðar numið í bili í lýsingum okkar á nafnakerfinu og sögu þess enda gerum við ráð fyrir að þetta séu alveg nægar upplýsingar í einu fyrir venjulega lesendur. Eins bráðsnjallt og tvínafnakerfi Linnæusar reyndist vera hefur það ekki dugað til að lýsa nákvæmari flokkunareiningum. Það liggur fyrir að ekki eru allar plöntur sömu tegundar nákvæmlega eins. Komið hefur í ljós að hverri tegund má oft og tíðum skipta í smærri flokkunareiningar. Um það ætlum við að fjalla í sérstökum pistli sem við birtum síðar. Við lofum því hér með að sá pistill verður styttri en þessi.


Þakkir

Til að minnka líkurnar á því að fylla þennan pistil af allskonar vitleysu lásu þau Ágúst H. Bjarnason og Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir yfir handritið í vinnslu. Hér með er þeim báðum þakkað fyrir þarfar ábendingar og leiðréttingar. Allar villur sem kunna að leynast í textanum eru alfarið á ábyrgð höfundar.


Heimildir og frekari lestur


Joseph E. Armstrong (2014): How the Earth Turned Green: A Brief 3.8- Billion-Year History of Plants. The University of Chicago Press, Chicago & London.


Ágúst H. Bjarnason (ritstj.) (1996): Stóra garðabókin. Forlagið, Reykjavík.


Ágúst H. Bjarnason (2007): Ágrip af grasa- og dýrafræði. Fyrri hluti, 2. útgáfa. Reykjavík.


Ágúst H. Bjarnason (1993): Tvínafnakerfið. Í Náttúrufræðingurinn, 62. árg. (1-2): 35-36. Hið íslenska náttúrufræðifélag. Reykjavík.


Maarten J.M. Christenhuszi & James W. Byng (2016) The number of known plants species in the world and its annual increase. Phytotaxa 261 (3) Magnolia Press. Sjá: The number of known plants species in the world and its annual increase | Phytotaxa (biotaxa.org).


Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir (2025): Upplýsingar í gegnum samskiptamiðla í mars 2025.


Royal Botanic Gardens, Kew (2023): State of the World's Plants and Fungi 2023. Sjá: State of the World's Plants and Fungi | Kew.


Örnólfur Thorlacius (2010): Skondin fræðiheiti. Í Náttúrufræðingurinn, 80. árg. (3-4): 130-134. Hið íslenska náttúrufræðifélag. Náttúrufræðistofa Kópavogs.

Comments


Heimilisfang:

Skógræktarfélag Eyfirðinga

Kjarnaskógi

600 Akureyri

Netfang: ingi@kjarnaskogur.is

bottom of page