Þróun trjáa og runna getur verið stórfurðuleg. Ein af þeim plöntuættum sem margir kannast við er lyngætt eða Ericaceae. Innan hennar eru sagðar vera 124 ættkvíslir tvíkímblöðunga. Þar af vaxa ellefu hér á okkar ægi girta landi og fjölmargar tegundir. Má nefna krækilyng, sortulyng og bláber sem dæmi um tegundir sem flestir þekkja og tilheyra þessari ætt.
Í suðvesturhluta Norður-Ameríku má finna tré sem eru af ætt sem talin er töluvert skyld lyngættinni. Báðar ættirnar tilheyra þeim hópi plantna sem kallast Ericales eftir lyngættinni. Þarna, í brennheitum eyðimörkum, hefur þróunin búið til fáliðaða ætt sem heitir vaxviðarætt eða Fouquieriaceae. Hún inniheldur aðeins eina ættkvísl; Fouquiera. Talið er að innan hennar séu aðeins til 11 tegundir sem líkjast töluvert kaktusum sem þarna vaxa. Þetta eru hvorki kaktusar né lyng en samt einskonar lyngkaktusar. Umhverfisaðstæður hafa að sumu leyti leitt til svipaðrar þróunar hjá þessum frænkum og frændum lyngsins og þekkist meðal kaktusa og skapað stórfurðuleg tré og runna.
Samkvæmt Britannicu er Fouguieria splendens ein af ellefu tegundum þessarar ættkvíslar. Það er eiginlega auðveldara að trúa því að þessi tegund sé skyld lyngi á Íslandi en þessi fáránlegu gulrótartré sem við skoðum hér að neðan. Myndin er frá Brittannicu.
Ein af þessum tegundum lítur út eins og risastór gulrót á hvolfi. Kallast hún Fouquieria columnaris á fræðimálinu en eldra nafn er Idria columnaris. Þetta furðutré á sér ekkert íslenskt heiti en þrátt fyrir það útnefnum við það sem tré vikunnar.
Tré vikunnar vex í hrjóstrugu landi þar sem fátt vex nema kaktusar. Myndin er héðan.
Nafnið
Ættkvíslarheitið Fouquieria er dregið af nafni fransks eðlisfræðings að nafni Pierre Fouquier (1776 – 1850). Á Wikipediusíðu um þennan ágæta mann kemur fram að ættkvíslin Fouquiera er nefnd eftir honum, en það er ekkert minnst á hvað varð til þess að hann verðskuldaði þessa upphefð. Þeir Clapp og Crowson (2024) nefna þetta líka en viðurkenna að þeir hafi ekki hugmynd um af hverju þetta stafar. Seinni hluti fræðiheitisins, viðurnafnið columnaris hefur oft komið fyrir í pistlum okkar. Það er gjarnan notað um tré sem eru blýantslaga. Það á alveg sérlega vel við um þetta tré, nema ef það fær helst til lítið af vatni. Þá breytist vöxturinn eins og við nefnum hér síðar.
Það kemur ekkert sérstaklega á óvart að þessi tegund skuli hafa viðurnafnið columnaris. Myndina fengum við héðan.
Þar sem tréð vex í Bandaríkjunum og í Mexíkó er rétt að geta þess að á ensku heitir tréð Boojum tree en á spænsku Cirio. Ef þið viljið fræðast frekar um tréð má skrá þessi heiti í leitarvélar Alnetsins.
Þessa mynd fengum við frá Boyce Thompson Arboretum. Þar má finna upplýsingar um tréð.
Heimkynni
Við höfum stundum nefnt að sumar tegundir trjáa eru einlendar. Það merkir að þær finnast bara á afmörkuðu svæði og þá helst bara í einu landi. Þetta tré á sér mjög takmarkað útbreiðslusvæði og vex aðeins í eyðimörkum í vesturhluta Norður-Ameríku. Vandinn er að eyðimörkin er bæði í Mexíkó og í Kaliforníu á Kaliforníuskaganum. Tréð er því í tveimur löndum og þar með er ekki hægt að halda því fram, með góðu móti, að tegundin sé einlend. En það munar æði litlu. Tréð vex aðeins í eyðimerkurvistinni á þessum slóðum og í sömu vist á eyjum í Kaliforníuflóa og handan hans. Ef við höfum það í huga að landamæri eru mannanna verk, en ekki eitthvert náttúrulögmál, má vel halda því fram að tegundin sé einlend.
Tegundina er að finna meðal granítkletta og í gömlum eldfjallajarðvegi í hlíðum og gljúfrum. Tréð er að finna frá 10 m hæð yfir sjávarmáli og allt upp í 660 metra hæð. Reyndar er það algengara í nokkurri hæð. Tréð vex gjarnan með kaktusum og Yucca valida og öðrum tegundum sinnar ættkvíslar, sem allar mynda runna (The Encyclopedia of Trees 2024).
Útbreiðsla þessa furðutrés og frænda þess, F. burragei, samkvæmt þessari síðu. Það er næstum einlent á Kaliforníuskaga en finnst einnig á eyju í flóanum og á litlu svæði handan flóans í Mexíkó.
Nánar um ættkvíslina
Tegundir ættkvíslarinnar eiga sér ákveðin einkenni. Má nefna að allar ellefu tegundirnar af þessari ættkvísl eru þaktar hárbeittum þyrnum sem verja þær fyrir ásókn grasbíta.
Oftast vaxa tegundir ættkvíslarinnar upp sem fjölmargir stofnar frá einni og sömu rótinni. Þannig myndast þyrnóttir runnar. Tré vikunnar hefur annan háttinn á. Það myndar bara einn stofn. Þar sem þessi tegund þarf einungis að fóðra einn stofn er ekki að undra að tegundin geti orðið hærri en runnarnir. Það er óhætt að kalla tegundina tré. Þetta er sennilega ástæða þess að um tíma var talið að þessi tegund tilheyrði annarri ættkvísl; Idria. Það ættkvíslarheiti hefur nú verið fellt niður og gert að samheiti Fouquieria. Oftast eru Fouquieria tegundirnar með lauf sem raðast í spíral á mjög stuttar greinar og á stofninn. Laufin falla af yfir mesta þurrkatímann (Luteyn 2024).
Furðulegt útlit trjáa. Myndin fengin af þessari vefsíðu þar sem tréð var útnefnt sem tré mánaðarins. Í þessum pistli er sagt frá því hvernig trén geta fengið svona einkennilegan vöxt. Framan við tréð er runnakenndur kaktus.
Lauf að byrja að vaxa og mynda spíral utan um stofninn. Myndina fengum við héðan þar sem sjá má margar myndir af þessari tegund.
Blóm
Innan ættkvíslarinnar þekkjast rauð og rauðgul blóm. Okkar tré er með þessi rauðgulu og stundum jafnvel alveg gul blóm sem myndast nokkur saman í einskonar kippum. Flestar tegundir ættkvíslarinnar eru ekki fævaðar af skordýrum, heldur af kólíbrífuglum eða leðurblökum. Síðan er það vindurinn sem sér um að dreifa fræjunum (Luteyn 2024). Ungplöntur er jafnan að finna undir runnum eða í skjóli runna. Blómin á okkar tré hafa sterka hunangsangan. Ólíkt flestum runnum ættkvíslarinnar treystir tréð ekki bara á fugla og leðurblökur, heldur einnig á ýmis skordýr sem nýta þessa fæðuuppsprettu. Allskonar skordýr heimsækja blómin. Þar á meðal eru 15 tegundir af hunangsflugum en einnig bjöllur, maurar og fiðrildi (The Encyclopedia of Trees 2024).
Við verðum líka að segja frá því að tréð gegnir öðru mikilvægu hlutverki fyrir býflugur. Þær eiga það nefnilega til að bora sig inn í stofna trjánna og búa til bú inni í þeim. Þar eru býflugurnar í góðu skjóli fyrir brennheitri eyðimerkursól og hugsanlegum afræningjum (The Encyclopedia of Trees 2024).
Það er allt undarlegt við þetta tré. Hér má sjá allaufgað tré og efst á stofninum eru blómin sem bíða eftir að leðurblökur, kólíbrífuglar eða skordýr sæki sér fæðu í þau og frævi þau í leiðinni. Myndina tók © Walter Stiedenroth og birti á DreamsTime.
Lýsing
Tré vikunnar myndar einn stofn eins og algengt er með tré. Þau geta meira að segja orðið nokkuð hávaxin. Þar með má næstum halda því fram að líkingu við önnur tré sé lokið. Það myndar ekki krónu eins og við þekkjum, heldur sendir tréð út stuttar og lítt áberandi greinar, nánast lárétt frá stofninum. Þessar litlu greinar dreifast jafnt á allt tréð í stað þess að mynda krónu. Á greinunum og beint út úr stofni vaxa lítil og krúttleg lauf. Þegar þurrkar herja þrengist blaðstilkurinn og harðnar. Það verður til þess að laufið fellur af en blaðstilkarnir breytast í nýja þyrna. Þannig fjölgar þyrnunum árlega þegar laufin falla. Hér er grein þar sem reynt er að útskýra hvernig þetta gerist. Teikningin hér að neðan er úr sömu grein.
Teikning sem sýnir grein sem lengst hefur í byrjun regntímans og myndað blóm. Á teikningunni má einnig sjá lauf sem vaxa nokkuð þétt saman nálægt stofni. Á greininni eru þyrnar frá fyrra ári. Myndin er héðan þar sem farið er djúpt í hvernig þyrnarnir myndast. Þegar lauf og blóm myndast fyrst á nýjum greinum er enga þyrna að sjá. Þeim fjölgar svo í hvert skipti sem tegundin laufgast.
Þessi eini stofn, sem tréð myndar, er þykkastur neðst og mjókkar svo upp eftir plöntunni. Þessu hafa sumir lýst þannig að stofninn líti út eins og risastór en fremur grönn gulrót á hvolfi. Laufið á gulrótinni myndar þá rótarkerfið, en þessar láréttu smágreinar eru eins og litlu ræturnar á nýuppteknum gulrótum.
Stofninn getur orðið allt að 1,5 m í þvermál. Reyndar gefa sumar heimildir upp mun lægri tölur en myndin hér að neðan virðist staðfesta þetta. Heimildum ber heldur ekki saman um hversu há þessi tré geta orðið. Hámarkshæð virðist vera um 15 til 20 metrar.
Stofninn getur orðið býsna þykkur þótt hann myndi ekki hefðbundinn við. Myndin er fengin héðan.
Fyrir kemur að hæsti punktur trjánna verður fyrir tjóni af ýmsum orsökum. Þeir geta meðal annars drepist í miklum þurrkum. Þegar það gerist hjá flestum þeim trjám sem við þekkjum vaxa viðarfrumur yfir sárið og loka því. Þetta tré hefur annan háttinn á, enda eru viðarfrumurnar af skornum skammti hjá því. Frumurnar við sárið skipta sér einfaldlega og þá geta myndast nokkrir stofnar þar fyrir ofan. Sum trén eru því eins og einhvers konar risagaflar í laginu frekar en gulrætur á hvolfi (Clapp & Crowson 2024).
Við náttúrulegar aðstæður verður árlegur vöxtur ekki meiri en 2-5 cm á ári. Þeim vexti ná tré sem eru um 2,5-3,5 m á hæð. Bæði lægri og hærri plöntur vaxa hægar, þannig að þessar tölur teljast hámarksvöxtur. Miðað við mælingar á vexti og hæð má áætla að plöntur sem náð hafa um 15 metra hæð geti sem best verið 500 til 600 ára gamlar (The Encyclopedia of Trees 2024).
Næturmynd af allaufguðu og mikið blómstrandi tré sem hefur oft orðið fyrir tjóni og myndar því marga stofna. Þetta tré minnir mikið á vaxtarlag kaktusa. Myndina tók © Pat Goltz og birti á DreamsTime.
Ljóstillífun
Líkt og flestar aðrar plöntur þarf þetta tré að ljóstillífa til að afla sér orku. Tréð laufgast aðeins eftir rigningar. Þegar þurrkar fara að herja fellir tréð laufin þannig að meirihluta ársins eru engin lauf að sjá á þeim. Myndir af lauflausum trjám sýna ljósgráa stofna en samkvæmt Britannicu eru grænukorn í stofninum, rétt eins og hjá mörgum kaktusum. Meirihluti ljóstillífunar fer fram í stofninum, ef marka má heimildina.
Stofnar og greinar með laufum. Grænukorn í stofni eru ekki áberandi. Merkilegt að sjá að spíralarnir liggja í sitt hvora áttina á stofnunum. Myndina tók Dominika Heusinkveld og birti hér.
Vatn
Eins og hjá öðrum plöntum eyðimerkurinnar snýst lífið um að ná í vatn og geyma það. Þess vegna er þetta tré, rétt eins og svo margar aðrar plöntur í svipaðri vist, með stórt og öflugt rótarkerfi sem dregur vatn mjög hratt upp úr jörðinni þegar það er að finna. Vatnið sogar plantan inn í stofninn og geymir það í honum. Stofninn á trénu er ekki fullur af hefðbundnum viðarfrumum eins og við þekkjum, heldur er meirihluti frumnanna einskonar geymslufrumur fyrir vatn. Svokallaður turgorþrýstingur eða safaspenna sem við höfum stundum nefnt áður, nær til alls stofnsins og gerir hann bísperrtan. Hann er eiginlega einskonar svampur, fullur af vatni. Það er því ekkert undarlegt að tréð skuli hafa alla þessa þyrna til að verja sig. Ef vatn fer að skorta linast tréð og stofninn dregst saman. Þá getur tréð farið að halla í hvaða átt sem er (Clapp & Crowson 2024).
Þessa mynd fengum við héðan. Hún sýnir tvö af þessum furðutrjám ásamt ýmsum gerðum kaktusa og þykkblöðunga. Annað tréð er nokkuð beinvaxið en hitt virðist ætla að mynda spurningamerki. Það hefur þá misst safaspennuna og því lítur það svona út. Svona aflagaður vöxtur kallar á vonda vísu.
Ef Fouquieria ei fer í bað
frábrugðið verður lerki
Það er næstum orðið að
einu ?
Ræktun
Tré þetta er stundum ræktað í görðum í Kaliforníu og Arisóna, enda æði sérstakt í útliti. Ungar plöntur eru gjarnan ræktaðar innan dyra eins og svo margar eyðimerkurplöntur (Britannica 2024) enda er loftslag að jafnaði þurrt og hlýtt í húsum. Þá kemur sér vel hversu hægt tréð vex. Annars gengi tæplega að hafa það í hefðbundnum húsum.
Samkvæmt bókinni Allt í blóma eftir Hafstein Hafliðason eru plöntur af þessari ættkvísl ekki ræktaðar í húsum á Íslandi.
Furðutréð er stundum ræktað innandyra eins og hér. Myndin er fengin héðan en hana tók K.k. Agrawal.
Allir eru góðir í einhverju
Í kvæðinu Skógarmannaskál eftir Þorstein Valdimarsson má finna þetta erindi:
Og lærdóm tökum við af trjánna dæmi,
ef til þess kæmi, ef til þess kæmi
og lærdóm tökum við af trjánna dæmi,
ef til þess kæmi, að öll skógartré
þau hættu að drekka, hvað haldið þið að myndi ske?
Svarið við því er í næsta erindi. Þar kemur fram að líf og heimsmenning hlytu að kvolast og hrörna og skolast út í grænan sjó.
Tré vikunnar lifir við aðstæður þar sem vatn er af skornum skammti og vatnsskortur getur aflagað vöxt trésins, sem er nægilega furðulegt í útliti þótt það gerist ekki. Það leggur sitt af mörkum til að verja líf og heimsmenningu svo þau hrörni ekki og skolist út í grænan sjó. Við getum ef til vill lært af þessu tré að óhefðbundnar lausnir á tilteknum vandamálum geta virkað ágætlega. Við getum líka lært að öll erum við mismunandi og hvert og eitt hefur sína kosti. Allir eru góðir í einhverju. Að lokum viljum við þakka Guðríði Gyðu Eyjólfsdóttur fyrir þarfan og vandaðan yfirlestur handrits.
Lokamyndin sýnir hið hrjóstuga og sólbakaða umhverfi sem tré vikunnar vex við í ryðimerkurloftslagi á Kaliforníuskaga. Myndina fengum við héðan.
Heimildir og frekari lestur
Britannica (2024): Boojum tree. Sjá: Boojum tree | Description & Facts | Britannica. Sótt 22.11. 2024.
Casey Clapp & Alex Crowson (2024): PARENCHYMA SCHMARENCHYMA (BOOJUM TREE). Hlaðvarpsþáttur úr þáttaröðinni: Completely Arbortrary frá október 2024. Sjá: PARENCHYMA SCHMARENCHYMA (BOOJUM TREE) — Completely Arbortrary.
The Encyclopedia of Trees (2024): Fouquieria columnaris (Kellogg) Kellogg ex Curran. Sjá: Fouquieria columnaris. Sótt 24. 11. 2024.
James L. Luteyn (2024): Fouquieria columnaris. Á vef Britannicu. Sjá: Fouquieriaceae | Description, Species, & Facts. og Boojum tree | Description & Facts. Sótt 22.11. 2024.
Comments