top of page
mainLong-1.png
  • Facebook

Fræg ýviðartré

Þú, lesandi góður, ert nú að lesa enn einn pistilinn um ývið eða Taxus eins og ættkvíslin kallast á fræðimálinu. Öll trén í þessum pistli tilheyra einni tegund ættkvíslarinnar. Það er evrópuýr eða Taxus baccata L. Áður höfum við fjallað vítt og breytt um ættkvíslina, notkun hennar og um tengsl hennar við menningu og sögu. Síðasti ýviðarpistillinn birtist þann 14. febrúar síðastliðinn.

Í Evrópu getur ýviður orðið allra trjáa elstur. Hann getur einnig orðið býsna stór og áberandi í umhverfi sínu þótt algengara sé á Íslandi að sjá ývið sem litla skrautrunna. Þar sem Íslendingar eru að jafnaði fremur ferðaþyrstir hafa margir þeirra án efa tekið eftir stórum, gömlum og glæsilegum ýviðartrjám í útlöndum. Samt er ekki víst að þeir hafi allir þekkt þessi tré. Í þessum pistli verður sagt stuttlega frá nokkrum af þessum frægu trjám. Öll trén eru í Evrópu.

Frægur ýviður í Noregi. Myndin fengin héðan.



Þessi bók, frá árinu 1897, geymir frásagnir af ýviðum sem margir hverjir setja enn svip á umhverfi sitt.

Í heimildaskrá má sjá okkar helstu heimildir. Meðal þeirra er bók frá 1897 sem heitir The Yew-Trees of Great Britain and Ireland. Bók þessi var endurprentuð árið 2015. Það er merkilegt að lesa um þessi tré og láta svo leitarvélar alnetsins finna þau. Kemur þá í ljós að flest þeirra eru enn hin glæsilegustu. Sum eiga jafnvel sína eigin Wikipediusíður. Er vísað í þær þar sem við á. Við bendum á þessa gömlu bók, sem hægt er að kaupa í rafrænu formi, ef menn vilja fræðast um fleiri fræga ýviði. Svo sendir alnetið grúskara í allar áttir. Facebooksíðan Unique trees hjálpaði mikið til við gerð þessa pistils.

Við byrjum á að fjalla um nokkra methafa í heimi ýviða.


Þykkustu stofnarnir

Til er stórmerkileg heimasíða þar sem safnað er saman upplýsingum um einstök tré. Heitir síðan Monumental trees. Þar er skrá yfir meira en 57.000 tré. Sum þeirra eru mjög stór eða eldgömul en önnur einfaldlega glæsileg. Á síðunni er skrá yfir 869 evrópska ýviði í tuttugu löndum. Á þessari undirsíðu er skrá yfir þykkustu ýviðastofna álfunnar sem vitað er um en ólíklegt er að skráin sé tæmandi. Ummál trjánna er mælt í brjósthæð, sem er í 1,3-1,5 metra hæð frá jörðu. Trjám með marga stofna er sleppt.

Samkvæmt þessari skrá á ýviður á Spáni metið. Hann er í Tejo de Borbonejo, Ladera de Peña Rionda ef það hjálpar einhverjum. Ummál stofnsins er 12,47 metrar. Næst breiðasta tréð á listanum er í Frakklandi. Þar er tré sem hefur ummálið 12,44 metra. Í þriðja sæti er enskt tré í Parish kirkjugarðinum í Breamore. Hefur það ummál upp á 11,91 metra. Á listanum eru reyndar þrjú ensk tré með ummál yfir 11 metra.


Fljótt á litið lætur þetta spænska tré ekki mikið yfir sér en stofninn er ekkert smáræði, enda sá þykkasti á ýviðartré sem sögur fara af. Báðar myndirnar teknar af þessari síðu.


Hæstu trén

Upplýsingar um hæstu ýviði álfunnar eru fengnar af sömu heimasíðu og vísað er til í kaflanum hér að ofan. Sá varnagli er sleginn á síðunni að vitanlega eru þarna aðeins þær upplýsingar sem síðuhöfum hafa borist. Samkvæmt þessum upplýsingum eru þrjú hæstu trén öll í Englandi. Það hæsta er við Belvoir kastala og var það 28,4 metrar á hæð þegar það var mælt árið 2015. Í Ashburnham eru tvö tré sem ná 27 metra hæð. Annað við Ashburnham höllina (27,4 metrar) og hitt í Holne Park (27 metrar). Bæði trén voru mæld árið 2021. Á Íslandi eru ýviðir fyrst og fremst ræktaðir sem lágvaxnir krúttrunnar. Þess vegna er merkilegt að vita til þess að svona risar séu til. Þeir eru hærri en hæstu tré Akureyrar sem við fjölluðum um í síðustu viku.


Þrír hæstu ýviðir Evrópu eru allir í Englandi og eru allir 27 metrar á hæð eða meira. Myndirnar fengnar af síðunni Monumenal trees.

Samkvæmt sömu heimasíðu má einnig finna ýviði sem náð hafa 20 metra hæð í Þýskalandi (24,5m), Frakklandi (23,2m), Tékklandi (21,4m) og Hollandi (sléttir 20 metrar árið 2021).

Elsta tré Evrópu?

Rétt er að hafa í huga að þegar rætt er um aldur trjáa er ýmist verið að tala um stofnana eða lífveruna í heild. Þegar talað er um stofna er oftast talað um „standandi tré“. Stofnar trjánna geta verið töluvert yngri en rótin. Í einum af fyrri pistlum okkar um ýviði höfum við nefnt að í eldri trjám á kjarnviðurinn það til að rotna. Eftir það er ekki nokkur leið að telja árhringi. Þess vegna er ekki einfalt að átta sig á aldri stofnanna. Þá er það rótin. Það getur verið verulega flókið að reyna að átta sig á aldri hennar, en það hafa menn samt reynt. Erfiðleikarnir stafa ekki eingöngu af því að rótin er alla jafna neðan jarðar heldur einnig vegna þess að rætur endurnýja sig stöðugt. Þær vaxa á meðan elsti hlutinn getur drepist og rotnað. Hver rót getur því verið eldri en elstu hlutar hennar. Þegar Lowe gaf út sína bók árið 1897, sem sagt er frá hér að framan, sagði hann frá því að til væru sagnir um ævagömul tré, en sjálfur sagðist hann ekki vera viss um að til væru eldri en rúmlega 200 ára gömul tré. Síðan það var skrifað, fyrir meira en heilli öld, hefur þekking okkar á aldri trjáa aukist töluvert. Ýviðurinn getur orðið miklu, miklu eldri en Lowe taldi.


Lengi vel var ýviðurinn við Fartingall í Skotlandi talinn aldursforseti allra ýviða á Bretlandseyjum og sennilega í álfunni allri. Um hann verður fjallað sérstaklega hér aðeins neðar. Svo var það að í hinu afskekkta þorpi St. Cynog, sem er suður í Veils, tókst mönnum að aldursgreina enn eldra tré. Frá því segir Hafsteinn Hafliðason (2016). Þessi ýviður, segir Hafsteinn, er að minnsta kosti 5000 ára gamall og er þar átt við þann part sem er ofan jarðar. Til að komast að þeirri niðurstöðu var notuð hin svokallaða C-14 aðferð. Það er sama aðferð og lýst var í pistli þar sem talað var um gamalt greni. Rótin á því greni er sögð vera hálfu árþúsundi eldri en á þessum ývið. Rótarleifar undir innsta kjarna þessa ýviðar í Veils eru taldar vera um 9000 ára gamlar. Ofan við elstu ræturnar var reyndar engan stofn að finna og því er það skilgreiningaratriði hvað við teljum þetta tré gamalt. Það er samt ljóst að fræið sem gat af sér þetta tré hafði spírað og skotið rótum nokkrum öldum áður en England aftengdist meginlandinu í kjölfar hækkandi sjávarstöðu.

Eitthvað er þetta þó enn málum blandið. Miles (2021) fullyrðir að ýviðurinn við Fortingall sé sá elsti. Hann segir að sá ýviður sé örugglega eldri en 3000-5000 ára og sennilega allt að 9000 ára. Er hér komið efni í ljómandi efnilegt rifrildi. Trén sjálf munu samt ekki taka þátt í því.

Á síðunni Monumental trees, sem vísað var í hér ofar, eru menn heldur varkárari í yfirlýsingum um gamla ýviði. Þeir segja að elsti ýviður í heimi sé ekki „nema“ 4023 ára gamall plús/mínus 100 ár. Er þar miðað við standandi við en ekki rætur. Aðrir gefa upp 4112 ár. Það er þá nálægt efri skekkjumörkum. Þetta tré er í Tyrklandi nálægt Svartahafi og má lesa um það hér. Kjarnviðurinn í þessu tré er löngu farinn að rotna og með borkjarnasýnum hefur aðeins tekist að telja um 1523 árhringi eða þar um bil. Ef aldur þessa trés er rétt reiknaður þá spíraði fræið á bronsöld um 2000 árum fyrir Kristsburð.

Sumir segja að þetta tyrkneska tré frá bronsöld sé elsti ýviðir Evrópu. Myndin fengin héðan.


Ýviðarskógar

Oftast nær vaxa ýviðir sem stök tré eða lundir í öðrum skógum. Á því eru þó undantekningar. A Norður-Spáni, nánar tiltekið í Tejedas del Sueve, sem við getum kallað Svavaland í Astúrías vaxa samfelldustu ýviðarskógar Evrópu. Þar eru yfir 8000 ýviðir á um 80 hekturum í einum af elstu skógum Evrópu. Við þökkum Aðalsteini Sigurgeirssyni fyrir að benda okkur á þessa heimild um skógana. Meðfylgjandi myndir eru þaðan.

Stærsti ýviðarskógur Evrópu í morgunþokunni og eldgamall stofn. Myndirnar eru fengnar héðan.


Við höfum áður sagt frá því að ýviður er eitraður öllum dýrum nema hjartardýrum. Sjá má að engar greinar og ekkert barr er að finna þar sem dýrin ná til. Myndin er fengin héðan þar sem fjallað er um skógana. Þetta minnir okkur á suma birkiskóga á Íslandi þar sem sauðfé fær að fjarlægja allar greinar og sprota sem það nær til.


Ýviðurinn í Fortingall

Í bænum Fortingall í Skotlandi er margnefndur ýviður. Hann stendur í kirkjugarði þar í bæ og hefur gert lengi. Á korti um útbreiðslu villts ýviðar í Evrópu er bærinn Fotingall norðan við náttúrulega útbreiðslu. Þetta er eitt af þeim trjám sem hafa eigin Wikipediusíðu.

Áður hefur komið fram að tréð er hundgamalt og hefur gert tilkall til að teljast eitt elsta tré Evrópu. Fólk er samt ekki á eitt sátt um aldurinn. Það er á bilinu 2000 til 9000 ára gamalt eftir heimildum og eftir því hvaða aðferðir eru notaðar til að mæla aldurinn. Skekkjumörkin verða varla meira en þetta í aldursmælingum trjáa.

Þessa mynd af ýviðinum í Fortingall tók Hilmar Malmquist.


Þetta tré hefur verið vel þekkt öldum saman. Elsta þekkta mæling á því er frá árinu 1769. Þá var ummál krónunnar einir 16 metrar en hæðarinnar var ekki getið. Einhvern tímann eftir þetta klofnaði stofn trésins þegar kjarnviðurinn tók að rotna í burtu. Til eru sagnir um það að árið 1854 hafi líkfylgd gengið á milli tveggja stofna, sem þá voru klofnir hvor frá öðrum. Nú er stofninn margklofinn og auðveldar það ekki aldursgreininguna. Hann lítur eiginlega út fyrir að vera þykkni stofna í stað þess að vera eitt tré. Þar fyrir utan má þó segja að tréð er enn við góða heilsu og getur sem best lifað í margar aldir í viðbót.

Tréð er svo frægt að um tíma þótti bráðsnjallt að skera af því greinar og stofna til að smíða úr því minjagripi. Sem betur fer hefur það verið aflagt. Aftur á móti hafa græðlingar af þessu tré verið teknir og þeim komið til í Royal Botanic Gardens í Edinborg og vaxa þar í mílulöngu skjólbelti. Þannig ætla Skotar að varðveita erfðaefni þessa fræga trés ef eitthvað kæmi nú fyrir það og það dræpist. Þetta er reyndar ekki eini ýviðurinn sem verndaður er á þennan hátt. Í þessu merka limgerði er varðveitt erfðaefni 200 trjáa frá 16 löndum (Gardner án ártals).

Upplýsingar um þetta verkefni um varðveislu erfðaefnis frægra ýviða í konunglega grasagarðinum í Edinborg hafa verið gefnar út á bók. Forsíðu hennar má sjá hér.


Elsti Spánverjinn

Á norðanverðum Spáni stendur vel skapaður ýviður við þorpskapelluna Santa Maria de Bermiego. Á þessum slóðum er ekki eins algengt að planta ývið við kirkjur og í grafreiti eins og sums staðar annars staðar í Evrópu en þetta tré er engu að síður við kapellu. Tréð er gjarnan kennt við þorpið og kallast þá Bermiego ýviðurinn. Þetta er eldgamalt tré sem stendur í brekku sem snýr mót vestri. Króna þess hefur 15 metra þvermál og stofninn hefur ummál upp á 6,5 til 7 metra, eftir því hvar mælt er og hver mælir. Tréð er um 10 metrar á hæð. Talið er að tréð sé um 2000 ára gamalt og heimamenn fullyrða að þetta sé elsta tré Evrópu. Reyndar er þetta ekki eina tréð sem gerir tilkall til þess eins og við vitum. Engu að síður nýtur þetta tré sérstakrar verndar yfirvalda vegna aldurs og formfegurðar. Frekari upplýsingar um tréð má fá á þessari Wikipediusíðu.

Gamli Spánverjinn við þorpskapelluna í Bermiego. Myndina á Elfo del Bosque.


Frægur Hollendingur

Sem dæmi um frægan Hollending viljum við nefna ýviðinn í garðinum við hús flæmska listmálarans Peter Paul Rubens (1577 – 1640) í Antwerpen. Rubens hannaði þennan garð sjálfur og í honum er mörg hundruð ára gamall ýviður sem sjálfsagt hefur verið vitni að ýmsu merkilegu á dögum málarans fræga.

Rubensýviðurinn í Antwerpen. Mynd: Gerald Girard og hann birti hana hér.


Villtir gamlingjar í Englandi

Á Bretlandseyjum er ýviður mest áberandi í suðurhluta Englands og í Veils. Sums staðar nær tegundin að mynda svo myrka trjálundi að fátt annað fær þar þrifist (Miles 2021). Miles segir að frægastur þessara lunda í suðurhluta Englands sé við Kingley Vale nálægt Lavant í Sussex. Þessi lundur er sagður glæsilegastur allra ýviðarskóga Evrópu. Hann var friðaður sérstaklega árið 1952 sem náttúruvætti. Samkvæmt sömu heimild hefur ýviður vaxið þarna í að minnsta kosti 2000 ár en flest trjánna eru mun yngri, jafnvel yngri en 100 ára. Telst það ekki hár aldur í heimi ýviða (Miles 2021).


Einn af gamlingjunum við Kingley Vale.

Myndin er héðan en hana tók Simon Burchell.


Frægir Írar

Lowe (1897) segir frá nokkrum írskum trjám í sínu riti. Hann segist ekki vita um eldri ýviði en þá sem vaxa í Milfor í Mayo sýslu í Írlandi. Þau tré segir hann að séu örugglega meira en tveggja alda gömul. Nú er meira en öld síðan hann setti það á blað og enn er að finna þar gömul ýviðartré. Sennilega hafa þau verið þarna miklu, miklu lengur. Samkvæmt The Irish Post heitir sýslan Mayo á vesturströnd eyjarinnar eftir samnefndu þorpi og ævafornu klaustri sem áður bar gelískt nafn. Það var Maigh Eo. Það merkir Ýrslétta, en á gelísku mun Eo vera sama orðið og ýr eins og fram kom í síðasta ýviðarpistli okkar. Þegar stofnað var til bæjarins munu ýviðir hafa verið þarna algengir en nafnið Maigh Eo hefur ný breyst í Mayo. Því má slá því föstu að á þessu svæði hafi ýviðartré vaxið býsna lengi en við vitum ekki hvað núlifandi tré eru gömul eða hvort þau hafi vaxið upp af fræi eða rótum enn eldri trjáa.

Mynd af ýviðarsléttunni á Írlandi er fengin héðan.


Til eru margir nafngreindir klónar eða yrki af ývið sem lengi hafa verið í ræktun. Margir þeirra eru upprunalega villt tré sem hafa vakið sérstaka athygli. Hið upprétta form 'Fastigiate' uppgötvaðist fyrir hreina tilviljun á milli áranna 1770 og 1780 af írskum bónda sem hét Georg Willis. Eintakið fann hann í Cuilcagh fjalllendinu í írska héraðinu Fermanagh. Hann plantaði tveimur slíkum trjám. Einu plantaði hann við hús sitt og lifði það til ársins 1865. Hinu plantaði hann við Florenxe Court og er það enn lifandi. Það tré er ættmóðir allra eintaka í heiminum af 'Fastigata' ývið (Miles 2021, Wells 2010). Yrki þetta er til á Íslandi og þrífst ágætlega (Sigurður Þórðarson 2023). Í sumum erlendum bókum er þetta yrki kallað írskur ýviður. Vísar það bæði í það að yrkið er upphaflega frá Írlandi og eins það að þar í landi er þetta yrki mjög algengt í ræktun.


Ættmóðir allra 'Fastigata' ýviða í heiminum er orðin mjög gömul og hefur ekki hið dæmigerða vaxtarlag sem yngri tré af sama yrki hafa. Fyrri myndin er af ættmóðurinni og er fengin héðan. Hin myndin er til samanburðar og sýnir dæmigerðara vaxtarlag sem ýtt er undir með klippingu. Myndin er úr þessum pistli okkar.


 'Fastigata' í íslenskum garði er beinn afkomandi trésins hér að ofan. Plantan hefur verið í garðinum síðan 1990 en óx lítið framan af ævinni. Nú er tréð orðið 1,87 m á hæð. Mynd og upplýsingar: Sigurður Þórðarson.


Á svipuðum tíma og 'Fastigata' var fyrst plantað var önnur fræg formóðir tekin til ræktunar. Árið 1777 tók John Dovaston upp litla ýviðarplöntu og plantaði í garð sinn í West Felton. Þegar það óx upp kom tvennt í ljós sem er mjög óvenjulegt. Hið fyrra er að þessi ýviður hefur glæsilegar hangandi smágreinar. Hið síðara er að hann er tvíkynja. Plantan ber bæði karl- og kvenblóm. Er það mjög óvenjulegt þegar ýviðir eiga í hlut. Svo virðist sem plantan frjóvgi sig sjálf og allir afkomendurnir hafa þetta hangandi vaxtarlag. Yrkið heitir eftir þessum Dovaston sem fyrstur manna ræktaði yrkið og kallast Taxus baccata 'Dovastoniana'. Ýviðurinn er lifandi enn í dag og nýtur sérstakrar verndar heimamanna (Miles 2021).

Taxus baccata 'Dovastoniana' er tvíkynja og hefur hangandi smágreinar. Myndin er fengin héðan.


Írar hafa ekki látið sitt eftir liggja þegar kemur að því að planta ýviðum í kirkjugarða og við leiði. Við endum írsku umfjöllun okkar með mynd af trénu í klaustrinu Muckross Abbey á Írlandi sem var yfirgefið á 17. öld.

Tvær sögur eru til um hvernig stendur á veru þessa trés á þessum stað. Önnur er sú að trénu hafi verið plantað á gröf munks sem skilaði sér aftur í klaustrið til að deyja eftir að hafa verið fjarverandi í eina öld. Það fylgir ekki sögunni hvað hann var þá orðinn gamall. Hin er sú að klaustrið hafi verið byggt í kringum tréð sem þá er töluvert eldra en klaustrið.

Ýviðurinn í garðinum í Muckross Abbey. Stundum má sjá þetta sama vaxtarlag á öðrum evrópuývið. Það er eins og það snúist upp á stofninn þegar tréð vex upp. Myndina á Aleksandar Bogoevski og birti hana hér.



Gamall Bæjari

Þjóðverjar eiga líka sína frægu ýviði. Einn þeirra er talinn vera elsta tré Þýskalands. Hann vex við þorpið Balderschwang í Bæjaralandi skammt frá landamærunum að Sviss. Hann er sagður vera 2000-4000 ára gamall. Tréð er með tvo hola stofna á einni rót og stendur stakt í brekku. Talið er að það hafi vaxið upp í skógi sem var felldur fyrir mörgum öldum. Girðing er í kringum tréð svo húsdýr éti ekki af því sér og trénu til tjóns. Vinsælt er meðal Bæjara að heimsækja tréð í tengslum við giftingar og heita þar maka sínum ævarandi tryggð. Sami eða svipaður siður tengist einnig ýviðum víðar í Evrópu. Nánari upplýsingar um Bæjarann er að finna á þessari síðu. Þar er einnig myndband af trénu.

Vetrarmynd af elsta Þjóðverjanum. Myndin er eftir Kauk0r og er fengin héðan. Þar má sjá fleiri myndir af þessu tré.

Fræg tré í kirkjugörðum

Sum af þeim frægu ýviðum sem nú þegar hafa verið nefnd til sögunnar vaxa í kirkjugörðum. Í fyrri pistlum okkar höfum við nefnt hugsanlegar skýringar á því og endurtökum þær ekki hér.

Svo virðist sem ývið megi finna við kirkjur og í kirkjugörðum víða um Evrópu, en mest er þetta áberandi í Skotlandi, Englandi, Veils og Normandí í Frakklandi. Í Normandí má finna breiðustu stofna ýviða í öllu Frakklandi. Einn þeirra er nefndur hér ofar, þar sem rætt er um met, en sá sem hefur næst mesta ummálið stendur við þorpskirkjuna í litlu þorpi sem heitir Estry. Á þessari síðu segir frá því að tréð hafi verið mælt árið 2012 og var þá með ummál upp á 11,43 m í 1,3 m hæð. Árið 2016 var það aftur mælt og var ummálið þá 11,60 m. Ef þessar mælingar eru réttar eykst ummálið að meðaltali um fjóra sentimetra á ári.

Mynd frá 1894 sem finna má hér af gamla Frakkanum.

Eitt af þessum frægu kirkjugarðstrjám sem enn er ónefnt vex í norðurhluta Veils í bænum Llangernyw. Það er eitt af þeim sem á sér Wikipediusíðu. Þetta tré er eldgamalt og hefur sett upp fjölda sprota frá rótarhálsi. Að auki hefur meginstofninn klofnað og rotnað að hluta. Á Wikipediusíðunni eru ýmsar tilgátur um aldur trésins sem við hirðum ekki um að nefna en eins og sjá má á meðfylgjandi mynd er það ákaflega merkilegt í laginu.

Ekki er hlaupið að því að ákvarða aldur þessa trés í Llangernyw. Myndin er fengin héðan.


Í þorpinu Corhampton í Hampskíri stendur saxnesk kirkja sem reist var árið 1020. Við kirkjuna stendur ýviður sem talin er vera álíka gamall og ef til vill eldri en kirkjan. Er ýviðurinn gjarnan kenndur við þorpið og þykir eitthvert merkilegasta tréð í öllu skírinu. Þetta er eitt af trjánum sem John Lowe (1897) segir frá í sinni bók. Þá mældi hann ummál stofnsins við jörðu og í brjósthæð. Þá var ummálið 671 cm við jörðu og 732 cm í brjósthæð. Hafsteinn Hafliðason benti okkur á að hér, á Facebooksíðu sem heitir Medieval Historia er sagt frá þessu tré. Nú er ummálið 767 cm í brjósthæð og 720 cm við jörðu. Það merkir að á 111 árum hefur ummál stofnsins aukist um 35 cm við brjósthæð og 49 cm við jörðu. Það merkir að stofninn þykknar að jafnaði um það bil 4 mm á ári. Mælingar, sem gerðar voru árið 1999 sýna svipaðan meðalvöxt, svo ekki er að sjá að tréð sé neitt að draga úr vextinum.


Corhampton ýrinn í samnefndu þorpi. Sjá má að það er rétt að ummál trésins er meira í brjósthæð en alveg við jörðu. Algengara er hjá trjám að hafa þetta á hinn veginn. Myndin fengin héðan.


Hinn blæðandi ýr í Nevern

Alþekkt er að mörg tré eru þeirrar náttúru að loka sárum sínum með safastreymi. Er gjarnan talað um að trjám blæði þegar þetta gerist, þótt vitanlega sé þetta ekki eiginlegt blóð. Víkur nú sögunni aftur til Veils. Þar er ýviður einn við kirkju sem stendur í bænum Nevern. Hann er álitinn vera um 700 ára gamall. Það sem gerir þennan kirkjugarðsývið frægan er að honum blæðir látlaust. Þetta hefur staðið yfir lengur en elstu menn muna en enn hefur ekki fundist nein skýring á því af hverju þetta safastreymi heldur endalaust áfram. Það sem gerir málið enn dularfyllra er að safinn er blóðrauður eins og í drekablóðstrjám sem við höfum áður fjallað um. Þar sem vísindunum hefur ekki tekist að benda á neina ástæðu fyrir þessari löngu og einkennilegu blæðingu taka trúarbrögðin við. Sumir standa á því fastar en fótunum að þessu tré blæði til að minnast fórnarinnar miklu þegar Jesús dó, blæðandi á krossinum, fyrir syndir mannanna.

Myndina af þessum blæðandi ývið tók Peter Heard og er hún fengin héðan.


Frægur Dani í Svíþjóð

Hjá frændum vorum á Norðurlöndum myndar ýviður frekar lágvaxin tré eða runnaþykkni í skógum um sunnanvert svæðið. Vex hann þar strjált í gömlum skógum. Þó eru til nokkur stór og stæðileg tré. Hefur þeim flestum verið plantað við kirkjur og herragarða í Danmörku og á Skáni. Við kirkjuna í Österslöv rétt norðan við Kristianstad er ýviður sem talinn er sá elsti í Svíþjóð (Hafsteinn 2016). Þetta eru samtals fimm tré sem mynda þó eina heild. Við höfum áður birt mynd af þessum trjám og má finna hana í þessum pistli.

Mynd af frægustu ýviðum Svíþjóðar úr fyrri pistli okkar.


Barrlindin á Varaldseyju

Án nokkurs efa er elsta ývið Noregs að finna á Varaldseyju sem tilheyrir Hálogalandi við vesturströnd Noregs. Um hann má lesa hér. Því er einnig haldið fram að þetta sé stærsti ýviður Noregs og verður það að teljast líklegt, því á Norðurlöndunum er algengara að villtir ýviðir verði lágvaxnir runnar eða kjarr.

Á norsku bókmáli er ýviður nefndur barlind. Við notum það heiti hér á þetta merka tré en lögum stafsetninguna að íslensku. Tré þetta mun vera helsta aðdráttarafl ferðamanna á Varaldseyju og er það engin furða. Tréð, sem er 2523 ára gamalt ± 500 ár, er sagt hafa fimm metra ummál og er 11,4 metrar á hæð. Eins og títt er um gömul tré er kjarnviður þess byrjaður að rotna svo í trénu er ágætis holrými. Þykir heilmikið sport að kanna hversu margir komast inn í tréð í einu. Metið er sagt vera 15 börn.

Eins og hjá mörgum öðrum ýviðum er kjarnviðurinn í þessari barrlind farinn að rotna í burtu. Mynd: Kåre Eik.


Ýviður í mannkynssögunni

Nú ætlum við að segja við frá tveimur trjám, öðru í Englandi, hinu í Belgíu, sem tengjast mannkynssögunni. Þar fyrir utan má minna á umfjöllun okkar í fyrri pistli um notkun langboga úr ýviði sem vissulega höfðu áhrif á söguna og hitt og þetta smálegt sem tengist sögunni má finna í þeim sama pistli.


Hið enska Lögberg

Þar sem ýviður getur orðið mjög gamall og að auki stór og mikill um sig er ekki að undra að ýmsir viðburðir hafa verið tengdir gömlum ýviðartrjám. Í þeim flokki skipar ýviðurinn á Ankerweycke eyju algera sérstöðu (Miles 2021, Hafsteinn 2016). Sagt er að við þetta tré hafi breska stjórnarskráin, Magna Carta, verið undirrituð árið 1215. Má því halda því fram að þetta sé einskonar Lögberg þeirra Breta. Sagt er að þetta tré sé um 2000 til 2500 ára þannig að við undirskriftina var þetta tré orðið stórt og mikið um sig enda trúlega meira 1000 ára gamalt á þeim tíma. Hér er síða um þetta tré. Hinrik áttundi átti leynileg stefnumót við Önnu Boleyn á árunum upp úr 1530. Hefur því verið haldið fram að þau hafi hist í skjóli þessa trés. Að minnsta kosti bjó hún þar skammt frá. Vegna þagmælsku Önnu er þó ekkert hægt að fullyrða um þennan konunglega stefnumótastað (Miles 2021). Á 12. öld var byggt nunnuklaustur á þessum stað. Tréð hefur þá væntanlega prýtt þann garð þar sem það enn stendur, en klaustrið var löngu aflagt þegar kóngurinn fór á sín stefnumót á 16. öld. Rústir klaustursins eru enn sjáanlegar.


Ýviðurinn sem kenndur er við Ankerwycke. Ummál þessa fræga trés er 8 metrar og er það að minnsta kosti 1400 ára gamalt en gæti verið allt að 2500 ára. Myndin af hinum umfangsmikla stofni er frá Woodland Trust og er fengin héðan en hana tók John Millar.


Tré Sesars í Belgíu

Í Belgíu er frægur ýviður sem talinn er vera um eða yfir 2000 ára gamall. Heimamenn kalla hann Caesarsboom eða Sesarstréð. Sagnir herma að sjálfur Júlíus Sesar hafi stoppað við tréð, bundið hest sinn við það og lagt sig í skugga greinanna árið 55 fyrir Kristsburð. Þá var hann einmitt á leiðinni til að gera innrás í þær eyjar sem nú kallast Bretlandseyjar. Einhverjir efasemdar- og úrtölumenn hafa reyndar haldið því fram að tvennt passi ekki alveg við þessa sögn. Á þessum tíma hafi tréð ef til vill verið til, en ekki það stórt að einhver hafi lagt sig í skugga þess. Hitt er það að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum bendir ekkert til þess að Sesar hafi farið þarna um á leiðinni til Bretlands. Hvorki við né heimamenn látum svona smámuni trufla okkur og köllum það áfram Sesarstréð, því hafa skal það sem hentugast þykir.

Upplýsingar og mynd fengin af þessari Wikipediusíðu.


Sesarstréð stendur við vesturhliðið í Lo Reninge í Belgíu. Mynd: Limo Wreck.


Fræg holrými

Þegar ýviður eldist á hann það til að mynda holrými. Það gerist þegar kjarnviðurinn fer að rotna og brotna niður eins og sagt var frá í fyrsta pistli okkar um ývið og nefnt hefur verið í þessum pistli. Þessi mikla tilhneiging ýviðar til að mynda holrými hefur leitt til margra sagna. Miles (2021) segir frá því að til séu sögur um að á fyrri hluta 19. aldar hafi hópur sautján manna haft dögurð í holrými í ýviðartré í kirkjugarði í Tisbury. Fáum árum síðar ákvað einhver að steypa upp í holrýmið. Slík meðferð yrði varla tíðkuð á okkar öld, en tréð stendur enn. Ummál þess hefur verið mælt og er níu og hálfur metri, sumir segja rúmir tíu metrar.

Myndin af steypuklumpinum er fengin héðan þar sem fjallað er um mörg merkileg tré.


Fleiri sagnir eru til um hvernig holrými í ýviðartrjám hafi verið nýtt. Jafnvel er sagt að 9 manna fjölskylda hafi búið í einu slíku og var hurð smíðuð í gatið og er þar enn, samkvæmt Archie Miles (2021). Vel má vera að bæði þessi tré séu eins og félagsheimilið í Stuðmannamyndinni Með allt á hreinu: Mun stærra að innan en utan.

Ýviðurinn í Crowhurst í Surrey. Hurðin er þarna enn en er aðeins farin að skekkjast. Myndin fengin af þessari Pinterest síðu.


Fyrst við erum farin að tala um hurðir á ýviðum verðum við að sýna ykkur mynd af kirkju St. Edward's í Stow-on-the-Wold í Englandi. Þar standa tveir ýviðir þétt við kirkjudyrnar svo helst er að sjá sem hurðin sé á trjánum. Sagt er að J.R.R. Tolkien hafi eitt sinn komið þarna og að þessar dyr hafi orðið kveikjan að Doors of Durin í sögum hans.

Kirkjudyrnar með steindum gluggum. Myndin er fengin héðan.


Þessi glæsilegi ýviður kallast Much Marcle Yew og stendur í kirkjugarði í Herefordskíri. Eins og sjá má er bekkur inni í trénu. Að sögn Miles (2021) er algengt að brúðhjón láti mynda sig inni í trénu. Ummálið er 9 metrar í brjósthæð og sagt er að því hafi verið plantað í garðinn árið 500. Myndin fengin héðan.


Klippt tré

Í mörg hundruð ár hefur ýviður verið klipptur í hvers kyns skjólbelti og stórvaxin limgerði. Að auki hefur hann verið klipptur í allskonar form. Að vísu er æði misjafnt hvaða áhrif slíkt hefur á fegurðarskyn okkar. John Lowe (1897) hefur það eftir Bacon lávarði að hann hafi, fyrir sitt leyti, þótt klipptar fígúrur úr eini og öðrum trjám vera fyrst og fremst fyrir börn. Slíkt höfðaði ekki til lávarðarins. Frægur enskur garðarkitekt, Brown að nafni, er sagður hafa átt mestan þátt í nýrri tegund garða þar í landi um miðja 18. öld sem kallaðir hafa verið landslagsgarðar. Til að búa þá til lét hann miskunnarlaust höggva niður mikið klippt ýviðartré. Honum þóttu þau bera vott um mikla ónáttúru (Lowe 1897). Honum tókst samt ekki að uppræta öll svona tré. Sum þeirra trjáa sem hann lýsti sem forljótum á sínum tíma eru enn lifandi og fagurlega klippt.

Stærsta þéttklippta limgerði heims úr ývið er framan við Bathurst Estate í Gloucesterskíri. Það er 300 ára gamalt, 40 feta hátt og 150 fet á breidd. Á hverju ári tekur það tvo menn eina tólf daga að halda því þéttu með klippingu (Miles 2021). Við birtum mynd af því í þessum pistli.

Frægasta dæmið um formklippingu á ývið er, að sögn Miles (2021), sennilega það sem sjá má hér að neðan. Þetta tré gengur undir nafninu „Regnhlífartréð“ og er talið vera að minnsta kosti 400 ára gamalt. Tréð er í garði sem hefur sína eigin Facebooksíðu. Þar má sjá margar myndir af formklipptum ývið.

Regnhlífartréð (The umbrella tree) í Levens Hall í Kendal er að minnsta kosti 400 ára gamalt. Myndin fengin frá Facebooksíðu Levens Hall.

Gamalt póstkort úr Levens Hall. Þarna er hani rétt hjá regnhlífatrénu en hann er ekki til lengur. Myndin fengin af Facebooksíðu Levens Hall.

Meðal þeirra trjáa sem Lowe (1897) fjallar um í sinni bók eru hin klipptu limgerði í Aldby Park nærri York. Sá bær kom við sögu í síðasta pistli okkar um ývið. Þetta er vinsæll garður þar sem klippt ýviðarlimgerði skipa enn stóran sess. Hann segir að þykkustu limgerðin þar séu 15 feta þykk eða meira en 4,5 metrar. Ef marka má upplýsingar á netinu eru þau ekki svona þykk á okkar tímum. Aftur á móti hefur ekki dregið úr vinsældum garðsins og er hann gjarnan leigður undir allskonar veislur. Ýviðurinn skipar þar enn algeran heiðurssess.


Brúðkaupsveisla í Aldby Park. Stífklipptur ýviður prýðir umhverfið, bæði lágvaxinn og hávaxinn. Myndin fengin héðan.


Lowe segir líka frá vel klipptum trjám við Painswick. Þar eru 99 stífklippt og glæsileg tré, samkvæmt honum. Painswick er bær í Glouxesterskíri í Englandi. Liggur skírið að Veils. Þar er enn glæsilegur garður í rokokkostíl og ýviðartrén við kirkjuna eru enn jafn glæsileg og á seinni hluta 19. aldar.


Hluti þeirra 99 ýviða sem finna má stífklippta í St Mary's Parish í Painswick í Glouxesterskíri.

Myndin fengin að láni hjá Wikipediu en hana tók John Bryan.


Við látum nú staðar numið í umfjöllun okkar um fræg ýviðartré og hvetjum lesendur okkar til að hafa augun hjá sér í ferðalögum og sjá þessa frægu öldunga sem finna má svo víða í Evrópu. Tré eru svo sannarlega partur af náttúru, menningu og fjölbreyttri sögu álfunnar. Ef þú, lesandi góður, átt ývið í þínum garði er gaman að hugsa til þess að ef til vill á hann eftir að lifa í nokkur þúsund ár. Vel má vera að einhver reyni að grafa upp sögu hans á næstu þúsöld. Saga þessara öldnu trjáa getur kennt okkur að hugsa okkur tvisvar um, hér á okkar ísakalda landi, ef við viljum fella gömul tré.

Enn eigum við eftir að fjalla um ývið á Íslandi og verður það að líkindum lokapistillinn okkar um ývið. Hann er tilbúinn en bíður birtingar.


Heimildir:

Martin Gardner (án ártals): Sjá: https://www.rbge.org.uk/business-centre/botanics-books/the-yew-hedge/ Royal Botanic Garden Edinburgh. Sótt 30. maí 2023.


Hafsteinn Hafliðason (25. febrúar 2016): Ýviður – tré lífs og dauða, eilífðarinnar, upprisu og endurnýjunar. Sjá: https://www.bbl.is/skodun/a-faglegum-notum/yvidur-%E2%80%93-tre-lifs-og-dauda-eilifdarinnar-upprisu-og-endurnyjunar. Sótt 26. janúar. 2023.


John Lowe (1897): The Yew-Trees of Great Britain and Ireland. AlbaCraft Publishing. Endurprentað árið 2015.


Archie Miles (2021): The Trees that Made Britain. An Evergreen History. BBC Books. Byggt á samnefndum sjónvarpsþætti BBC2 Sjá: https://www.bbc.co.uk/programmes/b006z75x


Diana Wells (2010): Lives of the Trees. An Uncommon History. Algonquin Books of Chapel Hill. Chapel Hill, North Carolina.


Sigurður Þórðarson (2023): Taxus. Í: Garðyrkjuritið 2023. Ársrit Garðyrkjufélags Íslands 103. árgangur. Bls. 40-42.


Vísað er í fjölmargar netheimildir beint í texta.


Þakkir fá þeir sem bentu okkur á merk tré og lánuðu okkur myndir. Sérstakar þakkir fær Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir fyrir yfirlestur og ábendingar.









102 views0 comments

Recent Posts

See All

Heimilisfang:

Skógræktarfélag Eyfirðinga

Kjarnaskógi

600 Akureyri

Netfang: ingi@kjarnaskogur.is

bottom of page