top of page

Fuglaskógar

Writer's picture: Sigurður ArnarsonSigurður Arnarson

Eitt af því sem laðar margan manninn í skóga landsins eru skógarfuglarnir. Í þessari grein verður auðvitað minnst á fugla, en kastljósinu er beint að trjánum og hvaða tré henta fuglum best og af hverju. Þetta getur verið gott að hafa í huga við skipulag skóga, til dæmis við sumarbústaðalönd, ef markmiðið er að laða að skógarfugla. Rétt er þó að taka það fram að auðvitað eru fuglar í öllum skógum, en sum tré laða að sér fleiri fugla og fuglategundir en önnur. Skógar veita skjól og fæðu sem hentar fuglum prýðilega og sumar tegundir fugla væru ekki hér á landi ef ekki væri fyrir skóga. Eftir því sem skógarnir eru fjölbreyttari, þeim mun meira fuglalíf má vænta að finnist í þeim.

Þetta er fyrsti pistill okkar um fugla og skóga. Í framhaldinu verður full ástæða er til birta pistla um einstakar fuglategundir í skógum. Við munum koma því í verk í fyllingu tímans. Í þeim munum við birta myndir sem Sigurður H. Ringsted hefur tekið. Viljum við hér nota tækifærið og færa honum okkar bestu þakkir fyrir samstarfið. Vel getur hugsast að fleiri láni okkur myndir í slíka pistla og við viljum einnig þakka þeim.

Líta má á þennan pistil sem inngangspistil um fugla og skóga.

Skógarþröstur, Turdus iliacus, nær sér í reyniber. Hann er einn af einkennisfuglum íslenskra birkiskóga. Fræðiheiti reynisins er Sorbus aucuparia. Viðurnafnið aucuparia er sett saman úr orðunum avis, sem merkir fugl og capera, sem merkir grípa. Myndin sýnir af hverju þetta nafn var valið. Mynd: Sigurður H. Ringsted. 

Lykilatriði

Þrjár tegundir fugla, sem hafa verið öldum saman á Íslandi, eru háðar trjám og skógum. Það eru skógarþröstur, músarrindill, Troglodytes troglodytes, og auðnutittlingur, Carduelis flammea. Stofnar þessara tegunda fara stöðugt stækkandi vegna skógræktar, aukinnar trjáræktar í görðum og vegna beitarfriðunar sumra náttúrulegra birkiskóga (Einar og Jóhann 2002). Rannsóknir hafa sýnt að almennt er fjöldi varpfugla til muna meiri í skógum en á opnum svæðum. Sjá til dæmis hér (Ólafur 2003). Aðrir fuglar en dæmigerðir skógarfuglar sækja einnig í skóga og nýlegir landnemar treysta á skóga sér til viðurværis. Þegar kemur að sambýli fugla og skóga má segja að þrjú atriði skipti mestu máli. Það eru skjól, hreiðurstæði og fæða. Ef til vill má bæta fjórða atriðinu við sem gæti verið útsýnissvæði. Í næstu köflum fjöllum við nánar um þessa þætti og margt annað sem skiptir máli í þessu sambandi. Rétt er einnig að nefna, áður en lengra er haldið, að flestir þeir fuglar, sem sækja sér fæðu í garða, eru í raun skógarfuglar. Það merkir að það sem hér er sagt um skógarfugla á fullt eins við um fugla í görðum landsmanna.

Auðnutittlingur hefur öldum saman verið í íslenskum birkiskógum. Hann fagnar aukinni skógrækt. Hér er hann í lerkitré, enda hefur hann lært að éta lerkifræ. Það má einmitt sjá lerkiköngul undir fuglinum á myndinni. Mynd: Sigurður H. Ringsted.

Skjól

Skógar veita mikið skjól. Margar lífverur kunna að meta það og fuglar fylla þann flokk. Það eru meira að segja til fuglar sem ekki teljast til dæmigerðra skógarfugla sem engu að síður leita skjóls í skógum. Margir þeirra leita sér fæðu mjög víða en nýta skjól skógarins til að nátta sig eða til að fela unga sína. Því má oft sjá ýmsa fugla í skógum í ljósaskiptunum, bæði kvölds og morgna, sem eru ekki endilega þar yfir daginn en nátta sig gjarnan í skógarskjóli. Um einn þeirra fugla sem leita gjarnan í skóga fjöllum við sérstaklega hér aðeins neðar. Svo má nefna að branduglur, Asio flammeus, eiga það til að steinsofa í skjóli trjáa á daginn. Þær velja gjarnan stór og þétt grenitré til þess ef þau eru í boði.

Svo eru það auðvitað hinir dæmigerðu skógarfuglar eins og auðnutittlingur, þrestir og músarrindill. Þeir leita skjóls í skógum og þéttum trjám. Þegar stormar og stórviðri skekja land og þjóð skiptir skjól skóganna miklu máli fyrir afkomu fugla. Ýmis tré veita fuglum gott skjól. Þó má fullyrða að ekkert skjóltré jafnast á við hin sígrænu grenitré, Picea spp., og fremst meðal jafningja er sitkagrenið, P. sitchensis. Grenitré skýla skógarfuglum allt árið og eru þannig vaxin að rándýrið heimilisköttur, Felis silvestris catus, á ekki auðvelt með að klifra í þeim. Skjólgóð tré eru að auki vinsæl hreiðurstæði eins og við komum að hér aðeins neðar. Nokkur tré með þyrna, eins og til dæmis þyrnar, Crataegus spp., rósir, Rosa spp., og broddar, Berberis spp., veita litlum fuglum gott skjól fyrir dýrum sem eiga erfitt með að þola þyrna og brodda.

Fjölbreyttur gróður við Varmá í Mosfellsbæ veitir allskonar fuglum skjól. Mynd: Sig.A.

Rjúpur og skógarskjól

Nokkur umræða hefur orðið um rjúpur, Lagopus muta, og skóga á undanförnum árum. Sumir telja að rjúpan teljist ekki til eiginlegra skógarfugla og að skógar geti jafnvel verið ógn við tilveru þeirra. Engu að síður leitar hún oft skjóls í skógum þar sem þá er að finna. Svo líkar henni alveg sérlega vel við kjarrskóga. Má jafnvel segja að hún sé kjarrskógarfugl. Hluti skýringarinnar kann að vera sá að hér er ekki að finna neina villta hænsnfugla sem teljast sérhæfðir skógarfuglar. Því er skógarvistin á lausu fyrir rjúpuna.

Á Íslandi eru um 2% landsins vaxin skógi. Þar af þekja birkiskógar og birkikjarr um 1,5%. Það er vist sem rjúpan sækir í bæði til skjóls og fæðu. Hún er jurtaæta sem nærist gjarnan á brumi víðitegunda, Salix spp., og birkis, Betula spp. Sérstaklega á það við á vetrum þegar jarðbönn eru og lítið annað að hafa. Aftur á móti nær hún ekki í mikla fæðu í barrskógum nema þar sem finna má gróskumikinn undirgróður eða birki og víði með barrtrjánum. Þannig er það reyndar oftast. Hún leitar þó skjóls í skógunum í slæmum veðrum og teymir stundum unga sína í felur í slíku umhverfi, einkum ef skógarnir eru það gisnir að finna megi þar fæðu. Annars leitar hún í rjóður og í móa eftir heppilegri fæðu fyrir sig og unga sína. Svo verpir rjúpan gjarnan í skjóli trjáa.

Kjarrskógar við Mývatn veita ýmsum fuglum skjól. Mynd: Sig.A.

Sá sem þetta skrifar bjó eitt sinn austur í Skriðdal. Oft var það svo að rjúpur voru þar mjög áberandi í birkiskógum, Betula pubescens, sérstaklega þegar þær sátu uppi í birkitrjánum í rökkrinu í skærhvítum vetrarbúningi. Þá voru þær stundum eins og luktir í trjánum.

Rjúpa étur brum uppi í birkitré í 17° frosti. Mynd: Höskuldur Birkir Erlingsson.

Ritari hefur oft varið sumrunum á Skeiðunum, sem nú tilheyra Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Þar sá hann aldrei rjúpur fyrr en sumarhúsaeigendur fóru að rækta fjölbreytta skóga á sumarhúsalöndum sínum. Það líkaði rjúpunum stórvel.

Þótt samfelldir, stórir og þéttir barrskógar séu ekki kjörlendi rjúpunnar geta gisnir skógar, blandskógar, birkiskógar og skógarreitir verið henni til hagsbóta. Einar Ó. Þorleifsson og Daníel Bergmann segja í grein frá 1986 að blandaður skógur lauftrjáa og barrtrjáa með stórum opnum svæðum inn á milli er líklegastur til að bjóða rjúpunni góð skilyrði“. Undir þetta getum við tekið og því hljótum við að telja rjúpu til skógarfugla.

Rjúpukarri á óðali sínu. Hann gætir oft óðals síns með því að sitja uppi í trjágreinum, en hér er hann í lyngi og fjalldrapa. Mynd: Sigurður H. Ringsted.

Hreiðurstæði

Flest tré geta hentað til hreiðurgerðar. Þó eru þau misvel til þess fallin. Hjá sumum trjám getur verið langt á milli greina eða greinakransa og lítið skjól að hafa í krónunni. Ósennilegt er að slík tré laði að sér fugla til hreiðurgerðar. Svo eru greinahorn trjáa misjafnlega vel til þess fallin að skapa grunn undir hreiður. Börkur getur einnig verið misjafnlega hrjúfur og erfiðara er að festa hreiður við slétt yfirborð. Þess vegna eru hreiður fugla ekkert sérstaklega algeng í alaskaöspum, Populus trichocarpa, svo dæmi sé tekið. Þó kann að vera klónamunur þar á. Ef til vill laðar Grænugötuöspin að sér fleiri fugla en margir aðrir klónar, því greinahornið er annað. Tré, sem hafa þétt og mikið laufskrúð og heppilegt greinahorn, sem veita hreiðrum góða undirstöðu, eru vinsæl hjá flestum skógarfuglum. Þar sem skógarfuglar eru svo heppnir að hafa barrtré, einkum grenitré, eru þau gjarnan valin undir hreiður. Þau veita gott skjól fyrir veðri, vindum og augum afræningja. Einar og Jóhann Óli (2002) benda á að jafnvel maríuerlur, Motacilla alba, eigi það til að verpa í grenitrjám. Að auki er það svo að hægt er að verpa í sígrænum barrtrjám áður en lauftrén laufgast og veita skjól. Þetta nýta til dæmis þrestir og auðnutittlingar sér. Þeir geta sem best verpt í grenitré snemma vors ef tíðin er góð. Þeir verpa jafnvel strax í apríl á meðan lauftré standa enn ber og nakin. Þetta gefur þessum fuglum tækifæri á að verpa oftar yfir sumarið en ef aðeins væri að finna lauftré í skógunum. Það eykur viðkomu tegundanna.

Auðnutittlingar við og í hreiðri. Mynd: Sigurður Ægisson.

Fæða

Fuglar geta nýtt sér fjölbreytta fæðu. Það er samt ekki þannig að allir fuglar éti allt. Öðru nær. Sumir fuglar, eins og til dæmis finkur, Fringillidae, eru fyrst og fremst fræætur. Aðrir éta frekar skordýr og aðrar pöddur á meðan enn aðrir eru sólgnir í ber. Því skiptum við þessari umfjöllun í þrjá kafla.

Allskonar tré falla jafnt mönnum og fuglum í geð. Hér má sjá aldin á reynivið og hegg, Prunus padus, í vætutíð. Myndir: Sig.A.


Fræ

Frææta er ákaflega skemmtilegt orð enda rithátturinn óvenjulegur.

Auðnutittlingur er finkutegund og sækir mjög í birkifræ. Því miður er mikill áramunur á fræframleiðslu birkis og þegar lítið er um það harðnar á dalnum hjá auðnutittlingum og öðrum fræætum. Einkum þó á vetrum þegar lítið annað er að hafa. Þá getur fækkað mjög í stofnum slíkra tegunda.

Rétt er að geta þess að fræin, sem dæmigerðar fræætur éta, lifa ekki af ferðalagið í gegnum meltingarkerfið. Það gæti verið ein af nokkrum ástæðum þess að trén neyðast til að framleiða ókjör af fræi. Það eykur líkurnar á að einhver þeirra verði ekki étin og geti spírað á heppilegum stað. Þess vegna geta fræ myndað ótrúlega stórt veisluborð fyrir fugla. Þótt birkifræ sé uppistaðan í fæðu auðnutittlinga geta þeir aldrei étið nema mjög lítinn hluta af öllu því fræi sem birkið framleiðir í eðlilegu fræári.

Uppáhaldsfæða auðnutittlings er birkifræ. Þarna situr hann við veisluborð. Mynd: Sig.A.

Sá sem þetta ritar bjó lengi vel í Síðuhverfi. Í garði hans var veglegt birkitré sem stóð við upphitaða gangstétt. Flest ár myndaði þetta tré mikið fræ og féll hluti af því á stéttina. Þegar jarðbönn urðu, seinnipart vetrar, komu gjarnan auðnutittlingar og pikkuðu upp birkifræið á milli gangstéttarhellnanna þar sem engan snjó festi. Þá varð þeim er þetta ritar gjarnan hugsað til þeirra auðnutittlinga sem ekki höfðu aðgang að ófrosinni jörð til að leita sér að fræi. Annars er auðnutittlinga fyrst og fremst að finna í birkiskógum og blandskógum, en þeir hafa einnig komist upp á lag með að tína fræ úr könglum margra barrtrjáa. Þeir geta líka nælt sér í skordýr og þeir ala unga sína að stórum hluta á þeim.


Nýbúar úr hópi frææta

Krossnefur, Loxia curvirostra, er finkutegund eins og auðnutittlingur. Hann er líka frææta. Nef hans er þannig lagað að það á auðvelt með að komast inn á milli köngulhreisturs greni- og furuköngla og þannig getur fuglinn togað fræið út og étið innan úr könglunum. Það verður að teljast líklegt að sú tíð renni upp að krossnefurinn setjist hér að. Það gerist þó ekki fyrr en barrtré eru orðin nægilega öflug til að krossnefurinn hafi fæðu yfir allan veturinn í formi fræja úr könglum. Hann hefur það oft reynt varp á Íslandi að ef til vill má nú þegar telja hann til íslenskra varpfugla. Pétur Halldórsson (2024) benti okkur á að krossnefur getur verpt mjög snemma árs, jafnvel í febrúar. Varpið fer meira eftir því hvenær könglarnir opnast en tíðarfari. Ef könglarnir opnast snemma og næg fæða er í boði þá skella þeir í varp.


Könglar á stafafuru, Pinus contorta, (fyrri mynd) og broddfuru, Pinus aristata, (seinni mynd) geyma fræ sem getur freistað krossnefs og jafnvel fleiri fugla. Myndir: Sig.A.


Fleiri finkutegundir eru mögulegir varpfuglar á Íslandi í framtíðinni ef heppileg skilyrði verða fyrir hendi sem gætu orðið til þess að þeir gætu orðið hér staðfuglar. Hið langa farflug yfir Atlantshaf gæti annars orðið þeim óyfirstíganlegur þröskuldur. Má nefna bókfinku, Fringilla coelebs, fjallafinku, Fringilla montifringilla, barrfinku, Carduelis spinus, og dómpápa, Pyrrhula pyrrhula, sem dæmi (Einar og Daníel 2006). Öllum þessum finkutegundum má hjálpa að þreyja hér þorrann og góuna með því að koma fyrir fóðurkössum eða -brettum og fóðra fuglana með heppilegum fræjum, svo sem sólblómafræi eða páfagaukafóðri.

Fjallafinka á lerkigrein í Kjarnaskógi. Mynd: Sigurður H. Ringsted.

Þau tré sem helst mynda mikið fræ, sem fuglar sækja í, eru birki, greni, og jafnvel lerki, Larix spp., og elritegundir, Alnus spp. Sumar tegundir trjáa mynda fræ sem telst ekki mjög vinsælt. Má nefna víðitegundir sem dæmi. Þó segir Einar Þorleifsson (2015) frá því að minnsta frææta landsins, auðnutittlingur, éti bæði víði- og asparfræ.


Ber

Tré sem mynda ber eru vinsæl meðal margra fugla. Á þeim geta ýmsir fuglar fitað sig á haustin fyrir langt farflug yfir Atlantshafið. Aðrir safna mikilvægum forða fyrir veturinn með berjaáti.

Síberíuþyrnir, Crataegus sanguinea, með fullt af berjum. Tilvalið tré fyrir fugla í skógum og görðum. Mynd: Sig.A.

Mismunandi tegundir trjáa og runna þroska ber á mismunandi tímum. Eftir því sem fjölbreytni berjategunda er meiri eykst tíminn sem fuglarnir hafa til að tína upp í sig berin. Sum ár framleiða tré svo mikið af berjum að þegar farfuglar yfirgefa landið er enn urmull af þeim á trjánum. Þannig var það til dæmis haustið 2024 á Akureyri. Þessi ber nýtast þá sem fæða allan veturinn fyrir þá fugla sem lifa hér allt árið og þá vetrargesti sem hingað berast, oft alveg óvart.

Allskonar tré og runnar geta framleitt svo mikið af berjum að þau verða til reiðu langt fram eftir vetri og fram á vor. Myndir: Sig.A.


Fjölmargar reynitegundir þrífast á Íslandi og flestar mynda mikið af berjum nánast árlega. Það hentar fuglum prýðilega. Að auki mynda reynitré falleg blóm sem laða að sér skordýr sem fuglar geta einnig étið. Því er það bæði í þágu fugla og fólks, sem kann að njóta fegurðar skóga, að planta allskonar reynitrjám í skóga. Þrestirnir sjá svo um að dreifa þeim víðar um skógana.

Sjálfsáður reynir í lerkiskógi í Naustaborgum. Mynd: Sig.A.

Ýmsir runnar mynda mikið af berjum og á misjöfnum tíma. Má nefna rifs, Ribes spp., mispla, Cotoneaster spp., toppa, Lonicera spp., brodda, Berberis spp., hegg, Prunus spp., ylli, Sambucus spp., snjóber, Symphoricarpus albus, og ýmsar rósir sem dæmi. Er þó aðeins fátt eitt nefnt. Ef skógar eru sæmilega bjartir hjálpar það runnunum að mynda ber. Að auki má finna lyngtegundir í sumum skógarbotnum. Má nefna bláber, Vaccinium spp., og hrútaber, Rubus saxatilis, sem dæmi. Meira er af þeim ef skógarnir eru ekki of þéttir.


Einir, rósir og misplar eru ættkvíslir runna sem vel má rækta í útivistarskógum og gefa aldin sem fuglar éta. Myndir: Sig.A.


Litur berja

Inni í berjunum er að finna fræ. Ólíkt hefðbundnum fræjum, sem fræætur éta, lifa fræin í berjunum af ferðalagið í gegnum meltingarveg fuglanna. Stafar þetta meðal annars af því að hefðbundnar fræætur gleypa sand sem mylur fræin í sarpinum svo þau nýtist sem fæða. Þetta gera berjaætur eins og þrestir ekki. Því fara fræin ómelt í gegnum þá en sjálf berin nýtast sem fæða.

Litir berja eru einskonar auglýsingar fyrir fugla. Þeir merkja: „Komdu og éttu mig!“ Þessar auglýsingar virka prýðilega. Berjaæturnar geta svo farið víða um skóga og dritað óskemmdum fræjunum út um allt. Að launum fá fuglarnir matinn úr berjunum. Fuglar hafa alveg prýðilega litasjón. Margir þeirra geta meira að segja skynjað fleiri liti en mannsaugað getur gert. Þannig sjá margir spörfuglar útfjólubláan lit, sem við greinum ekki. Þótt ótrúlegt megi virðast geta sum ber trjáa og runna skartað slíkum litum. Má nefna sem dæmi að reyniber eru fyrst græn en verða síðan rauð. Þegar þau roðna geta þrestir nýtt sér þau. Þegar berin þroskast frekar bæta þau við sig útfjólubláum lit. Það eru bestu berin að mati flestra fugla. Þess vegna er það svo að stundum má sjá reynitré, hlið við hlið í görðum eða skógum, sem þakin eru berjum. Samt er eins og allir fuglarnir fari beint í annað tréð en láti hitt alveg vera, þar til einn góðan veðurdag. Þá velja þau bæði trén. Þetta stafar oftast af því að berin í öðru trénu eru ekki bara rauð eins og við sjáum þau, heldur útfjólublá. Það sjá fuglarnir og velja þau frekar.

Berjaveisla haustið 2024. Þá stóðu mörg reynitré þakin berjum löngu eftir að farfuglar höfðu yfirgefið landið. Mynd: Sig.A.

Sumar af innfluttu reynitegundunum bera ekki rauð ber, heldur hvít eða bleik. Lengi vel var það svo að þrestir á Íslandi höfðu ekki hugmynd um að hvít ber væru æt og litu ekki við þeim. Smám saman virðast þeir þó hafa áttað sig á þessari matarkistu og núorðið eru hvít ber étin, rétt eins og önnur ber.

Hvít ber á kasmírreyni, Sorbus cashmiriana, létu skógarþrestir lengi vel í friði. Svo er ekki lengur, en þau geta þó staðið býsna lengi á trjánum. Mynd: Sig.A.

Skordýr og aðrar pöddur

Innlendar tegundir trjáa og runna eiga það allar sameiginlegt að þeim fylgir fjöldi skordýra og annarra smádýra sem henta sem fæða fyrir fugla. Má nefna allskonar köngulær og fiðrildategundir. Þær síðarnefndu nýtast sem fæða bæði sem fullvaxta dýr og sem lirfur. Því getur verið gott að gróðursetja tré og runna í skóga sem vinsæl eru af skordýrum. Oftast nær viljum við frekar velja tré og runna sem eru að mestu laus við slíkar pöddur en fuglar eru okkur algerlega ósammála hvað þetta varðar. Lús- og ormsæknar víðiplöntur henta fuglum miklu betur en til dæmis lensuvíðir, Salix lasiandra, og alaskaösp. Fáar pöddur sækja á þessi tré, nema hvað asparglittur eða asparglyttur sækja í aspirnar öllum til ama. Furðu fáir fuglar virðast gera sér mat úr þeim.


Allskonar lirfur éta blöð trjátegunda og fuglar éta lirfur. Fyrri myndin sýnir lirfu asparglittu eða -glyttu (báðir rithættir eru enn notaðir), Phratora vitellinae, en óvíst er hvaða lirfa étur gulvíðinn, Salix phylicifolia, til hægri. Myndir: Sig.A.

Rétt er að taka það fram að ef ekkert étur af trjánum þínum geta þau varla talist almennilegur þáttur af vistkerfinu. Með því að eitra tré og runna til að losna við pöddur er í leiðinni verið að eitra fyrir fuglum.

Kónguló með bráð sína. Í heiminum fer alltaf meira og meira af uppskeru í kjaftinn á hryggleysingjum á sama tíma og hærri upphæðum er varið árlega til að eitra fyrir þeim. Með því að eitra tré og runna drepast einnig afræningjarnir sem halda plágum í skefjum. Myndir: Sig.A.

Hingað til lands hafa borist ýmis skordýr sem þrífast á allskonar trjám. Ein tegund heitir sitkalús, Elatobium abietinum, og sýgur næringu úr greninálum. Sitkalúsin er ólík flestum lúsum á Íslandi að því leyti að hún lifir af allan veturinn í stað þess að verpa á haustin og drepast í vetrarbyrjun eins og þær flestar. Aumingja trén eru ekkert sérstaklega kát með þetta, en til eru fuglar sem gleðjast mjög. Einkum er það hinn nýlegi landnemi glókollur, Regulus regulus. Án sitkalúsar gæti hann að öllum líkindum ekki lifað af veturinn á Íslandi. Aðrir smáfuglar í skóginum sækja einnig í lúsina en þeir eru ekki eins háðir henni og glókollurinn.


Allskonar blaðlýs lifa á trjám. Músarrindlar, glókollar og fleiri söngfuglar eru stórtæktar lúsaætur. Myndin til hægri sýnir sitkalús sem nefnd er hér að ofan. Í smíðum hjá okkur er pistill um hana. Myndir: Sig.A.


Fæða í skógarbotni

Það sem sagt er hér að framan um fuglafæðu í skógum á að stórum hluta einnig við um skógarbotninn. Til eru fuglar, eins og til dæmis stari, Sturnus vulgaris, og svartþröstur, Turdus merula, sem gjarnan róta í skógarbotninum í leit að æti. Þar finna þeir til dæmis snigla og orma auk fræja, skordýra og fleiri smádýra.

Margar tegundir hryggleysingja lifa í og við skógarbotninn. Sumar lífverurnar geta verið svo elskulegar að setjast á gluggarúður fyrir myndatöku. Mynd: Sig.A.

Í skógarbotni getur verið æði fjölbreytt lífríki. Partur af því eru dauðar greinar og stofnar sem smám saman grotna niður fyrir tilstuðlan lífvera. Sumar af þeim lífverum eru prýðisgóð fæða fyrir ýmsa skógarfugla eða fyrir ýmsar pöddur sem fuglar éta. Er þetta ein af ástæðum þess að óráðlegt er að vera of dugleg við að fjarlægja dauðar greinar og stofna úr skógum, enda eru þeir ekki skrúðgarðar.

Fjölbreyttur gróður í skógarbotnum er mikill plús fyrir lífríkið og eykur fæðu fyrir ýmsa fugla. Um leið eykst gróskan og umsetning næringarefna.

Sveppir og aðrir sundrendur eru mikilvægar lífverur í skógarvistkerfinu. Mynd: Sig.A.

Útsýni

Í flestum tilfellum er óþarfi að huga sérstaklega að útsýnistrjám fyrir fugla í skógum. Fuglar setjast einfaldlega á hæsta tréð til að njóta útsýnis eða láta á sér bera. Má sem dæmi nefna að hrafna, Corvus corax, má oft sjá í stórum öspum. Annars teljast aspir ekkert sérstaklega fuglavæn tré. Hrafnar hafa einnig verið staðnir að því að verpa í stór birkitré, grenitré og stöku sinnum í furur hér á landi. Þetta atferli hrafna, að verpa í tré, er vel þekkt á Norðurlöndum og mun væntanlega aukast á næstu árum með auknum vexti trjáa. Almennt telst hrafninn samt ekki til skógarfugla, en eins og svo margir aðrir fuglar sést hann oft í skógum.

Uglur, Strigiformes, eru gjarnan í skógum eða skjólbeltum, enda setjast þær oft á kvista eins og kunnugt er. Sérstaklega á það við um branduglur. Þær nýta sér trén gjarnan sem útsýnisstaði er þær skima eftir bráð eins og músum eða kanínuungum. Ýmsir spörfuglar, Passeriformes, sitja iðulega á áberandi stað í trjám eftir að hafa helgað sér varpóðul. Til að auglýsa yfirráð sín er mikilvægt að sjást vel og koma sér þannig fyrir að söngurinn berist sem víðast. Því setjast þeir gjarnan á toppa á grenitrjám þar sem ekkert truflar þá.

Brandugla í furu á Húsavík stuttu eftir að hafa sporðrennt mús. Mynd: Gaukur Hjartarson.

Miðurheppileg tré

Flest tré auka á fjölbreytni og gera fuglum gagn. Samt er það svo að sum tré eru ekki eins heppileg og önnur. Hér nefnum við fjallagullregn, Laburnum alpinum, stafafuru, alaskaösp og örfáar víðitegundir sem gagnast ekki mörgum fuglum.

Gullregn er virkilega fallegt tré og ber fögur blóm. Aftur á móti vitum við ekki um neina fugla sem reyna að éta hin eitruðu fræ gullregnsins og fá skordýr herja á tréð. Því er það ekkert mjög vinsælt meðal fugla. Það sama á við um kergi eða síberískt baunatré, Caragana arborescens, sem er af sömu ætt. Þó er kergið það þétt að það hentar vel undir hreiður margra fugla. Stafafura hentar stundum sem hreiðurtré en greinahornið getur verið þannig að sumir fuglar velja frekar önnur tré, ef þau eru í boði, sem undirlag undir hreiður sín. Fá skordýr herja á hana og könglar haldast oftast lengi lokaðir. Því gefa stafafurur fremur litla fæðu  (Einar og Jóhann Óli 2002). Rannsóknir sýna að fremur fáar fuglategundir halda til í stafafurureitum um land allt en það er vel hugsanlegt að krossnefur nýti sér köngla stafaruru sér til viðurværis. Því má vel vera að hennar bíði uppreisn æru í kjölfar landnáms hins fagra krossnefs.

Glókollur situr hér á lindifurugrein, Pinus cembra, í Kjarnaskógi. Það má finna fugla í flestum trjátegundum ef vel er að gáð. Mynd: Sigurður H. Ringsted.

Alaskaösp hefur lengst af verið að mestu laus við ásókn skordýra og fræ hennar eru ekki heppilegt fóður fyrir fugla nema hvað auðnutittlingar éta það (Einar 2015). Reyndar þroskast fræ víðiættarinnar, Salicaceae, á þeim tíma þegar næga aðra fæðu er að fá. Innan ættarinnar eru bæði aspir og víðir. Þar sem fræin eru mjög lítil innan ættarinnar er ef til vill einfaldara og auðveldara að ná í aðra fæðu.

Að auki verpa fáir fuglar í aspir. Þetta eru þættir sem koma í veg fyrir að aspir teljist sérlega fuglavæn tré. Aftur á móti hleypir öspin miklu sólarljósi í skógarbotninn og stuðlar þannig að aukinni grósku. Hún skýlir líka stórum svæðum vegna þess hversu há hún getur orðið. Planta mætti klifurjurtum eða stórum runnum undir aspir til að búa til hreiðurstæði og fæðu fyrir fugla. Má nefna hina sígrænu bergfléttu, Hedera helix, en einnig bergsóleyjar, Clematis spp. og skógartopp, Lonicera periclymenum, svo dæmi séu nefnd. Jafnvel rifstegundir, Ribes spp., eiga það til að styðja sig við tré sem þær vaxa upp með. Þannig gæti öspin stuðlað að meira fuglalífi.


Tvær myndir sem sýna botngróður í asparskógi. Fyrri myndin sýnir ylli í vel grisjuðum skógi í Kjarnaskógi, hin sínir reyniblöðku, Sorbaria sorbifolia, í ógrisjuðum asparskógi á Skeiðum á Suðurlandi. Myndir: Sig.A.


Fyrri myndin sýnir mikið magn asparfræja en sú seinni sýnir blóm skógartopps. Þar sem mikið ljós kemst í botn asparskóga er tilvalið að fjölga blómstrandi runnum og búa þannig í haginn fyrir fugla um leið og skógarnir verða fallegri til útivistar. Myndir: Sig.A.

Margar víðitegundir eru fyrirtaks fæða fyrir allskonar skordýr. Slíkar víðitegundir eru á vinsældalista margra fugla. Aðrar víðitegundir eru að mestu lausar við ásókn meindýra. Þar höfum við ekki sama smekk og fuglarnir. Að auki er það svo að fræ víðitegunda nýtast ekki sem fæða fyrir nema fyrir auðnutittlinga. Aftur á móti er þekkt, samkvæmt Einari og Jóhanni Óla (2002) að fræull víðitegunda nota ýmsir smáfuglar til að fóðra hreiður sín. Að auki sækja rjúpur mikið í að éta víðibrum þegar lítið annað er að hafa. Þess vegna má segja að almennt henti víðitegundir fuglum í skógum, þótt á því séu örfáar undantekningar.

Fáir fuglar éta víðifræ. Sumir þeirra nota fræullina til að fóðra hreiður sín og margir eru til í að éta flugurnar sem sækja í víðiblómin. Mynd: Sig.A.

Skógarfuglar að vetrarlagi

Þeir félagar Einar Ó. Þorleifsson og Daníel Bergmann skrifuðu snjalla grein í Skógræktarritið árið 2006 um fuglalíf í skógum að vetrarlagi. Í grein sinni benda þeir á að skógar landsins virðist við fyrstu sýn frekar líflausir á vetrum enda séu farfuglarnir farnir. Ef betur er að gáð leynist furðumikið fuglalíf í skógum á vetrum. Á Íslandi eru margir fuglar staðfuglar og þeir halda gjarnan til í skógum í leit að fæðu. Sumir þeirra vilja helst alltaf vera í skógum á meðan aðrir sækja þangað einkum á vetrum, þegar lítið er að hafa utan þeirra. Í skógum er einnig miklu líklegra að rekast á flækingsfugla sem hingað berast nánast hvern vetur. Má nefna eyruglu, Asio otus, fjallafinku, barrfinku, krossnef og silkitoppu, Bombycilla garrulus, sem dæmi.

Silkitoppa í Lystigarðinum. Þar er hún algengur vetrargestur. Mynd: Sigurður H. Ringsted.

Fjöldi fugla í skógum á vetrum getur verið mjög breytilegur frá ári til árs. Fjöldinn getur ráðist af varpárangri og fæðuframboði. Hvort tveggja getur svo tengst veðri. Á það bæði við um vetrarveðrin og hvernig veður var sumarið áður. Sitkalýs eru mikilvæg fæða fyrir glókolla en talið er víst að músarrindlar og jafnvel auðnutittlingar éti þær líka. Hrun í stofni sitkalúsa leiðir til hruns í stofni glókolla en hinar tvær tegundirnar geta þá snúið sér að öðru. Fræmyndun birkis og barrtrjáa er æði misjöfn frá ári til árs og getur dugað mörgum fuglum langt fram eftir vetri þegar þannig árar. Finkutegundir eru háðar því að fræ hangi á trjánum yfir veturinn.

Svipaða sögu má segja um þær tegundir sem mynda ber. Þegar mikið er eftir af berjum á haustin, þegar farfuglarnir eru farnir, þá nýtast þau fuglum skógarins yfir vetrarmánuðina. Gera má fuglum ífið auðveldara með fæðugjöfum á vetrum.

Auðnutittlingur í lendingu í snjó. Mynd: Sigurður H. Ringsted.

Skipulag skóga

Því fjölbreyttari sem skógarnir eru, þeim mun fuglavænni eru þeir. Ljóst er að sumir mófuglar forðast að fara inn í þétta skóga. Því er það svo að stórir, samfelldir skógar með einni eða fáum tegundum, eru ekkert sérstaklega fuglavænir. Oft hefur verið um það rætt að slíkir skógar geti hrakið lóur, Pluvialis apricaria, spóa, Numenius phaeopus, og aðra mófugla af búsvæðum sínum. Slíkir skógar eru býsna fágætir á Íslandi eins og þekkt er, þótt öðru sé stundum haldið fram. Oftast er gert ráð fyrir opnum svæðum inn á milli trjánna, til dæmis þar sem mýrar, tjarnir, klettar eða eitthvað annað áhugavert er að finna. Þá verða gróðursettir skógar gjarnan fjölbreyttir af sjálfu sér með sjálfsáningu birkis, víðis, reyniviðar og fleiri tegunda í kjölfar friðunar fyrir búfjárbeit.

Spói við Hörgá. Bak við hann sést í sjálfsprottin tré sem nálgast það að kallast skógur. Mynd: Sig.A.

Rétt er líka að nefna að jafnvel þótt skógrækt aukist mikið á næstu árum og áratugum fer því öldungis fjarri að hún verði svo mikil í náinni framtíð að það fari að sjá á stofnum mófugla. Til þess er skógarþekjan allt of lítil. Svo má einnig minna á að þessi svæði, sem mófuglar hafa lagt undir sig á láglendi, urðu oftast til vegna þeirrar landnýtingar sem viðgengist hefur á Íslandi í langan tíma. Þetta er því sjaldnast náttúrulegt ástand íslenskra vistkerfa. Samt ber okkur auðvitað að hugsa um mófuglana. Sumar mófuglategundir eru sérstakar ábyrgðartegundir Íslendinga, því stór hluti heimsstofnsins dvelst hér yfir sumarið. Því er mjög mikilvægt að hafa nægilega stór og samfelld svæði inni á milli skógarteiga sem henta fyrir mófugla. Pétur (2024) hefur bent á að slík svæði koma gjarnan af sjálfu sér í ræktaða skóga. Hann nefnir sem dæmi að votlendi er núorðið alltaf undanskilið skógrækt, frostpollum og klapparsvæðum sleppt og svo framvegis. Svæðin sem undanskilin eru njóta hins vegar friðunarinnar og gróskunnar sem friðuninni fylgir.

Stundum má sjá fugla í skógum sem almennt teljast ekki til skógarfugla. Þessa óvenjulegu skógarfugla myndaði Helgi Þórsson í Vaðlaskógi.

Hafa má í huga að sum svæði á láglendi eru svokallaðir frostpollar. Þetta eru svæði þar sem hætta er á að svalt loft safnist saman síðsumars og hitinn falli jafnvel undir frostmark á heiðskírum síðsumarskvöldum. Slík svæði henta stundum illa til skógræktar vegna endurtekins kals. Aftur á móti líður mófuglum prýðilega á svona stöðum. Þess háttar vandamál eru ekki til staðar í brekkum og brekkurótum. Þar vaxa skógar vel. Þetta er gott að hafa í huga við skipulag skóga. Þá geta farið saman þarfir skógarins annars vegar og mófuglanna hins vegar.

Mikilvægt er fyrir timburgæði og almenn gæði skógarins að grisja snemma. Því miður gleymist það stundum. Vel grisjaðir skógar eru skemmtilegir til útivistar og skila betra timbri þegar þar að kemur. Þeir gefa okkur líka meiri birtu á skógarbotninn og þar með meiri grósku. Þetta líkar skógarfuglunum okkar alveg prýðilega við.

Í Naustaborgum við Kjarnaskóg stuðlar skógræktin að fjölbreyttu fuglalífi. Mynd: Sig.A.

Klettar og urðir henta sjaldnast vel til skógræktar en þetta eru helstu heimkynni steindepils. Hann er ekki skógarfugl. Svona svæði geta aukið útivistargildi skógræktarsvæða og óþarfi að spilla þeim. Aftur á móti geta birki og víðir sáð sér á svona svæði en sennilega hefur það ekki mikil áhrif á steindepilinn. Hann hefur verið hér frá því fyrir landnám og þá var landið skógi vaxið.

Að þessu má sjá að oftast leiðir gott skipulag, sem miðar að fjölbreyttum skógum, til þess að fuglum fjölgar. Í þessu fara þarfir skóga, manna og fugla saman.

Náttúrulegir skógar auka frjósemi og þar með fæðuframboð fyrir fugla. Þarna er meðal annars gott pláss fyrir steindepil, Oenanthe oenanthe, þótt hann teljist ekki til skógarfugla. Mynd: Sig.A.

Skógarjaðrar

Ýmsir fuglar, sem almennt eru ekki endilega taldir til skógarfugla, nýta sér skóginn til fæðuöflunar og skjóls og jafnvel til varps. Þetta á sérstaklega við um skógarjaðra og -rjóður. Við höfum áður nefnt rjúpuna sem gjarnan er í skógarjöðrum og birkikjarri en þar má einnig finna þúfutittlinga, Anthus pratensis, og marga aðra fugla. Það er til dæmis nokkuð algengt að ýmsar endur, Anseriformes, geri sér hreiður í þéttum runnum eins og gjarnan má finna í jöðrum skóga. Jafnvel grágæsir, Anser anser, hafa verið staðnar að því að gera sér hreiður í skógarjöðrum og -rjóðrum. Þær fara samt helst ekki inn í þétta skóga, því það getur orðið erfitt fyrir þær að hefja sig til flugs án flugbrautar. Stundum hafa fáfarnir skógarstígar og -vegir gegnt því hlutverki fyrir gæsirnar. Við höfum fjallað sérstaklega um skógarjaðra í einum af pistlum okkar. Margt sem þar kemur fram getur aukið hag fugla.


Skógarjaðrar geta boðið upp á fjölbreytta vist fyrir margar tegundir fugla. Mynd: Sig.A.

Birkiskógar

Stór hluti íslensku birkiskóganna telst vera kjarr frekar en skógur. Birkiskógar og birkikjarr þekur um 1,5% landsins. Samkvæmt alþjóðlegum viðmiðum lætur nærri að aðeins um 5% íslensku birkiskóganna teljist til skóga. Þá er miðað við að minnsta kosti 4 metra hæð fullvaxinna trjáa. Restin telst vera birkikjarr. Hér á landi er þó venjan sú að telja birkikjarr með skógum.

Birkikjarr hentar mörgum fuglum mjög vel. Má nefna rjúpur, hrossagauk, Gallinago gallinago, músarrindla, skógarþröst og auðnutittlinga sem dæmi. Ef við teljum birkikjarr til skóga teljast rjúpa og hrossagaukur til skógarfugla. Þá er líka að finna í hærri birkiskógum, einkum nálægt jöðrum og rjóðrum. Hinar fuglategundirnar sem hér eru nefndar eru algengar í hávöxnum og þéttum birkiskógum og teljast ótvírætt til skógarfugla. Einn þeirra, auðnutittlingurinn, heldur sig fyrst og fremst í birkiskógum og er háður birki til að komast af. Á næstu vikum munum við birta sérstakan pistil um hann.

Þeir Einar Ó. Þorleifsson og Jóhann Óli Hilmarsson bentu á það í grein frá árinu 2002 að óbeittur eða hóflega beittur birkiskógur er mun heppilegri fyrir fugla en nauðbeittur skógur. Stafar það af því að undirgróður er miklu ríkulegri í friðuðum skógum en beittum. Það hentar sérlega vel fyrir músarrindil og skógarþröst sem gjarnan sækja sér fæðu í skógarbotna. Við þetta má bæta að svartþröstur vill gjarnan svona vist.


Víðast hvar eru íslenskir birkiskógar svokallaðir kjarrskógar. Þar má oft finna fjölbreyttar tegundir fugla, svo sem auðnutittlinga, músarrindla, rjúpur, hrossagauk og ýmsa fleiri. Mynd: Sig.A.

Aldur skóga og umhirða

Fuglalíf getur verið misjafnt eftir aldri og meðhöndlun skóga. Gera má ráð fyrir að fyrstu 10-15 árin verði mjög mikið fuglalíf í ungum skógum. Kemur þar margt til. Meðal annars eru ýmsir mófuglar oft í ungum skógum en leita annað þegar trén stækka. Annað er að skógræktarlönd eru að jafnaði friðuð fyrir beit búfjár. Það hefur margvísleg áhrif. Mest áberandi er að við það eykst gróskan í hinum uppvaxandi skógum og þar með verður meira að bíta og brenna fyrir fuglana. Annað er að það er vel þekkt að sauðfé fúlsar ekki við eggjum spóa ef það rekst á þau. Um það má meðal annars lesa hér. Það er líka þekkt að kindur hræðast ekki skúminn á sunnlenskum söndum en éta egg hans ef þær finna þau. Ekkert bendir til að þetta eigi ekki einnig við um aðrar fuglategundir.

Margar jaðartegundir eins og hrossagaukur og þúfutittlingur, sem vilja helst ekki vera í stórvöxnum og þéttum skógum, kunna alveg prýðilega við sig í ungum skógum. Við viljum nefna hrossagauk alveg sérstaklega. Hann er víða mjög algengur í ungskógum og þar sem ríkulegan undirgróður er að finna í eldri skógum. Einnig má nefna að margir skógareigendur hafa talað um aukið varp gæsa og andfugla í kjölfar skógræktar (Pétur 2024).

Svo eldast skógarnir og þéttast. Þá breytist fuglalífið í þeim. Þegar tré stækka og fara að mynda aldin hefur það góð áhrif á fugla, einkum ef skógarnir eru fjölbreyttir. Rannsóknir hafa sýnt að þéttleiki fugla á flatareiningu er hvergi meiri á Íslandi en í skógum.

Við getum haft mikil áhrif á fuglalíf skóga með því að velja réttar tegundir og með því að grisja snemma og skilja eftir greinar og dauð tré til að auka lífríkið. Þá er líklegt að skordýrum og berjum fjölgi og þar með fuglum.

Skógarbotn í lerkiskógi í Leyningshólum. Mynd: Sig.A.

Samantekt

Að ofansögðu má sjá að fjölbreyttir skógar með mörgum tegundum trjáa og runna ásamt rjóðrum, mismunandi þéttleika trjáa og opnum svæðum, eru tilvalin fyrir margar tegundir fugla. Þannig skógar eru einnig vinsælir til útivistar eins og við sjáum til dæmis í Kjarnaskógi. Einar Ó. Þorleifsson og Jóhann Óli Hilmarsson (2002) bentu á það í grein í Skógræktarritinu að í slíkum skógum verður þéttleiki fuglanna mikill og margar, ólíkar tegundir setjast þar að. Ræktun fjölbreyttra tegunda trjáa og runna skapar fjölbreytta fæðu í formi fræja, berja og skordýra sem nýtast mörgum tegundum fugla á mismunandi árstímum. Að auki veita þau gott skjól og fjölbreytt hreiðurstæði. Á næstu misserum munum við annað slagið halda áfram að fjalla um fugla og skóga. Við munum beina sjónum okkar að einstökum tegundum og hugsanlegum nýbúum í íslenskum skógum.

Að lokum viljum við þakka þeim sem veittu okkur upplýsingar og lásu yfir handritið að hluta eða í heild, bættu við upplýsingum og löguðu það sem laga þurfti. Sérstaklega viljum við nefna Pétur Halldórsson og Guðríði Gyðu Eyjólfsdóttur og þakka þeim fyrir veitta aðstoð. Allar villur, sem kunna að finnast í textanum eru þó á ábyrgð höfundar. Við viljum einnig þakka þeim sem lánuðu okkur myndir til birtingar. Nöfn þeirra eru undir viðkomandi myndum.

 

Helstu heimildir og frekari lestur:


Aðalsteinn Örn Snæþórsson og Jón Geir Pétursson (1992): Fuglar og skógrækt. Í Skógræktarritið 1992 bls. 99-108. Skógræktarfélags Ísland, Reykjavík.


Daníel Bergmann (2008): Landnám glókolls. Í Skógræktarritið 2008 2. tbl. bls. 8-13. Skógræktarfélags Ísland, Reykjavík.

 

Einar Ó. Þorleifson og Daníel Bergmann (2006): Fuglalíf í skóginum að vetrarlagi. Í Skógræktarritið 2006 2. tbl. bls. 84-89. Skógræktarfélag Íslands, Reykjavík.

Einar Ó. Þorleifsson og Jóhann Óli Hilmarsson (2002): Íslenskir skógarfuglar. Í Skógræktarritið 2002 1. tbl. bls. 67-76. Skógræktarfélags Ísland, Reykjavík.


Einar Þorleifsson (2015): Fuglarnir í skóginum - Auðnutittlingur (Acanthis flammea). Í Skógræktarritið 2015 1. tbl. bls. 78-81. Skógræktarfélag Íslands, Reykjavík.

Ólafur K. Nielsen (2003): SKÓGVIST: Mófuglar og skógarfuglar á Héraði 2002. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. NÍ-03010. Sjá: Microsoft Word - 03010_skogvist Pétur Halldórsson (2024). Upplýsingar í gegnum samskiptamiðla þann 30. 12. 2024.

45 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page