Tími og tíska er nokkuð sem víða kemur við sögu. Val okkar á plöntum til ræktunar er ekki undanskilið þessari reglu. Runnar, blóm og tré eiga sitt blómaskeið og hverfa svo aftur úr tísku. Sýrenuættkvíslin (Syringa spp.) á ótal fulltrúa sem þrífast með mestu ágætum á Íslandi. Flest sýrenuyrki og -tegundir sem við ræktum hér eru nokkuð keimlíkar að því leyti að þær hafa bleik, lillablá eða sjaldnar hvít blóm og eru stórir runnar. En þegar litið er nánar á þetta þá er nú samt alltaf svolítill munur sem sumir myndu kalla mikinn mun.
Mynd 1. Upprunalega dúnsýrenan í Lystigarðinum á meðan hún var og hét. Þarna var hún einstofna og mikið tré af sýrenu að vera. Mynd: Björgvin Steindórsson. Af síðu Lystigarðsins á Akureyri.
Fyrir rúmum þremur áratugum, þegar undirritaður var starfsmaður Skógræktarsfélags Eyfirðinga í Kjarnaskógi, þá varð á vegi hans sýrena sem heitir dúnsýrena. Þetta verður að teljast alveg eðlilegt þar sem skógræktarfélagið rak gróðrarstöð og fjölgaði allskonar trjám og runnum. Þessi sýrena átti rætur að rekja til Lystigarðsins á Akureyri og þangað hafði hún borist einhvern tíma fyrir 1960. Þegar undirritaður man fyrst eftir þessari formóður dúnsýrena við Eyjafjörð, þá stóð hún sem einstofna tré sunnan undir litlum kofa í Lystigarðinum. Nú eru bæði sýrenan og kofinn fallin.
Mynd 2. Dúnsýrenan í garði á Akureyri. Pattaralegur runni og hlaðinn blómum sumarið 2022.
Þessari sýrenu hafði verið fjölgað mikið í Kjarna og var vinsæl. Enda segir svo í leiðarvísi skógræktarfélagsins frá því um 1990 að dúnsýrena sé; „algeng, harðgerð og beri rósrauð blóm.“ En þrátt fyrir allar þessar vinsældir var mikið til af úr sér vaxinni dúnsýrenu í pottum, eitt vorið í kringum 1990. Þá var brugðið á það ráð að planta henni hist og her um Kjarnaskóg, frekar en að henda þessum gömlu plöntum. Margar fóru fyrir ofan Kjarnakot og við leiðina upp að gamla leikvelli. Einnig fór nokkuð af plöntum í skógana ofan vegar á móti flugvellinum. Plönturnar tóku ágætlega við sér og það er gaman núna, nokkrum áratugum síðar, að rekast á þessa stóru runna þakta í lillabláum blómum í júlímánuði. Hún er enn nokkuð algeng í görðum Akureyrar en fer þó fækkandi enda verða runnarnir ansi fyrirferðarmiklir með aldrinum.
Mynd 3. Sýrenusafn í garði höfundar í Kristnesi. Dúnsýrenan er sú stóra til vinstri, svo ´Elinor‘ og loks glittir í einhverja gljásýrenu.
Skömmu eftir 1990 fór fagursýrenan ´Elenor´ (Syringa x prestoniae´Elenor´) að verða alls ráðandi í framleiðslu og gamla dúnsýrenan fékk að víkja. En gamla dúnsýrenan er ágætlega harðger og oft nokkuð blómviljug. Ekki hefur undirritaður skoðað grasafræðina og er ekki fær um að meta það hvort tegundin sé réttt greind, en oft vill brenna við að plöntur sem berast milli grasagarða séu blendingar. Þessi gamla dúnsýrena er planta sem gæti hentað í skjólbelti og víða á ræktuðu landi, svona fyrir augað. Auðvitað líka í sumarbústaðalóðir, stærri garða og þar sem lítil tré eða stórir runnar njóta sín. En þessi dúnsýrena getur náð 4-5 meta hæð.
Mynd 4. Dúnsýrenan blómasumarið 2022. Það er eiginlega regla að blómgunin verður lítil árið eftir gott blómasumar.
Það hefur vakið athygli undirritaðs í sveitinni að kýr vilja helst ekki éta sýrenur, þó ekki séu þær eitraðar. Hinsvegar er það svo að kettir naga gjarnan sýrenur í tætlur eins og garðeigendur margir hverjir vita. Það verður að teljast merkilegur eiginleiki að vera ofbeitt af rándýrum en látin vera af grasbítum.
Mynd 5. Lítið tré eða stór runni? 30 ára dúnsýrena í Kristnesi.
Þessi gamla dúnsýrena hentar ágætlega sem lítið tré sé hún klippt reglulega á þann hátt. Það er þá best að láta nokkra stofna vaxa upp og klippa svo reglulega þau skot sem koma við jörð eða á neðri part stofnsins. Loks má bæta því við að af öllum þeim óteljandi sýrenuyrkjum og -tegundum sem undirritaður er með í ræktun er það þessi sem myndar mest fræ. En hvort fræið er frjótt kemur ekki í ljós fyrr en í vor.
Mynd 6. Fræ og fræbelgir á fræskúfum gömlu dúnsýrenunnar. Það verður æsispennandi að sjá hvort líf leynist í þessu.
Dúnsýrena kemur frá Austur-Asíu. Hún á sín náttúrulegu heimkynni í Tientsin í Norður-Kína, til fjalla, frá því um 1500 metra hæð yfir sjávarmáli til svona 3000 metra. Núnú og hver veit, ef hún þroskar fræ hér þá verður hún ef til vill Íslendingur einn daginn. En það er nú spurning sem gaman gæti verið að deila um, á þessum síðustu og verstu tímum.
Helgi Þórsson Kristnesi.
Bestu þakkir fá:
Valgerður Jónsdóttir fyrir að líta yfir textann.
Guðrún Kristín Björgvindóttir, Lystigarðinum fyrir lán á mynd.
Commenti