Almennt er talið að við landnám hafi fjórar víðitegundir vaxið á landinu. Þar er gulvíðir einn af fjórum. Hann er óumdeilanlega þeirra mestur og stærstur. Má því klárlega segja að á meðal íslenskra víðitegunda sé hann mestur meðal jafningja. Stundum er einnig sagt að við landnám hafi vaxið hér fjórar tegundir sem gert geta tilkall til að teljast til trjáa. Þar er gulvíðirinn einnig einn af fjórum, sumum kunni að þykja þar vel í lagt. Á meðal trjátegundanna fjögurra skipar hann sérstakan sess. Það er bara stundum sem hann getur talist til trjáa. Miklu oftar er hann runni. Ef við segjum að fjöldi stofna hjá trjám megi vera ótakmarkaður er gulvíðirinn mestur meðal jafningja. Ekkert annað íslenskt tré myndar fleiri stofna. Að auki er hann mestur meðal jafningja þegar kemur að því að vaxa í bleytu. Þess má einnig geta að engin önnur trjákennd, íslensk planta á sér hvorki jafn mörg yrkisheiti né alþýðuheiti eins og og blessaður gulvíðirinn. Gulvíðirinn er mestur meðal jafningja.
Gulvíðir fær gula haustliti. Mynd: Sig.A.
Lýsing
Gulvíðir er stærstur íslensku víðitegundanna og sá eini þeirra sem getur gert tilkall til að kallast tré, ef miðað er við hæð. Hann er þó miklu oftar margstofna runni og stundum alveg jarðlægur við erfið skilyrði en verður gjarnan um fjórir metrar á hæð við góð skilyrði. Stundum hærri, jafnvel allt að sex eða átta metrum, en það er sjaldgæft.
Stakir gulvíðirunnar geta verið mjög tilkomumiklir. Mynd: Sig.A.
Gulvíðir á leiði. Mynd: Sig.A.
Lauf
Gulvíðir getur verið nokkuð breytilegur. Að jafnaði er hann þó auðþekktur frá öðrum, íslenskum víðitegundum af laufunum. Þau geta þó verið dálítið mismunandi. Oftast eru þau aflöng og oft dálítið oddbaugótt. Laufin eru gulgræn eða dökkgræn að lit, gljáandi og oftast nær alveg hárlaus á efra borði. Á neðra borði eru þau bláleitari, ljósgræn eða lítið eitt grádöggvuð. Mött og stundum dálítið hærð. Mjög er mismunandi hvenær víðirunnar laufgast og hvenær þeir fara í haustliti, sem alltaf eru gulir. Getur munað allt að hálfum mánuði eða meir á laufgun og komu haustlita, jafnvel á runnum sem standa hlið við hlið. Gul haustblöð geta staðið mjög lengi á runnunum og stundum jafnvel langt fram á veturinn.
Gulvíðir við Hundatjörn í Krossanesborgum. Stóri runninn er grænn. Svo sést í annan minni með gulum blöðum. Lengst til hægri er lauflaus runni. Upp úr græna runnanum vex reynitré. Myndin tekin 15.09.2022. Mynd: Sig.A.
Athyglisvert er að víða um sunnan og vestanvert landið laufgast sumar plöntur af gulvíði mun seinna en annar gulvíðir. Hið sama má stundum sjá á víði sem fluttur hefur verið inn til landsins frá suðlægum breiddargráðum og er ekki nægilega vel aðlagaður íslenskum árstíðum. Ekki er hægt að útiloka að þannig sé þessu háttað hjá gulvíðinum. Að fræ þessara stofna hafi borist langt að. Hitt verður þó að teljast líklegra að um sé að ræða aðlögun að skordýrum. Þær lirfur sem mest hrjá víði á Íslandi klekjast út snemma á vorin. Ef víðirinn frestar laufgun fram yfir lirfustigið verður hann síður étinn. Þetta herbragð dugar þó ekki gegn asparglittu (eða -glyttu) sem leggst seinna á víðinn en aðrar lirfur.
Gulvíðir og í minna mæli loðvíðir að vaxa upp úr mýri í Grímsnesinu eftir að hún var friðuð fyrir beit. Ný, ágeng tegund: Asparglitta (eða -glytta) hefur drepið sumt af gulvíðinum. Á myndinni má einnig sjá stæðilegan birkirunna í mýrinni. Þessi mýri er auðug af fuglalífi. Fjöldi jarakana, spóa, stelka og hrossagauka verpir þarna. Gæsir og endur ala upp unga sína á svæðinu og skúföndin heldur sig á skurðum og tjörnum.
Mynd og upplýsingar: Halldór Sverrisson.
Gulvíðir vex út úr vegg sem einangraður er með reiðingstorfi. Myndin tekin á eyðibýlinu Skeggjastöðum á Jökuldal. Mynd: Sig.A.
Strandavíðir
Nú á dögum eru ekki mjög margir nafngreindir klónar ræktaðir af gulvíði. Einn af þeim mest ræktuðu kallast ´Strandavíðir´. Hann er frábrugðinn öðrum gulvíði á þann hátt að hann hefur fínlegri og mjórri blöð. Að sögn Sigurðar Blöndal (2002) er þannig gulvíðir algengur í Steingrímsfirði á Ströndum og er þessi klónn úr Selárdal sem gengur inn úr Steingrímsfirði. Þar er að finna nokkuð stórvaxinn gulvíði.
Strandavíðir í vindi. Sjá má bæði efra og neðra borð blaðanna sem og rauðleita sprota. Runninn er að taka á sig haustliti. Mynd: Sig.A.
Tunguvíðir
Annar klónn af gulvíði er sunnlenskur. Hann hefur óvenju breið blöð og að auki nokkuð þykka sprota. Dregið hefur úr ræktun hans hin síðari ár. Hann er nauðalíkur brekkuvíði, en er karlkyns. Fannst þessi klónn í Tungu í Fljótshlíð að sögn Þrastar Eysteinssonar (2022). Ber hann af því nafn sitt.
Laufblöð brekkuvíðis og tunguvíðis eru nauðalík. Blómin, efst á myndinni, taka af allan vafa. Þetta er brekkuvíðir. Mynd: Sig.A.
Brekkuvíðir
Brekkuvíðir er oft talinn blendingur gulvíðis og sennilega loðvíðis. Einkenni gulvíðisins eru samt ríkjandi en vaxtarlagið er annað en á dæmigerðum gulvíðiplöntum. Vel er hugsanlegt að erfðaflæði geti orðið milli þessara tegunda og þar sem loðvíðirinn er tvílitna en gulvíðirinn sexlitna verða blendingarnir meira í ætt við gulvíði en loðvíði. Blendingurinn ætti að vera fjórlitna. Samson Bjarnar Harðarson (2013) segir frá því að búið sé að skoða litningafjöldann, sem og ríbósómgen á litningum. Niðurstaðan er sú að brekkuvíðir er ekki blendingstegund. Hann er sérstakt afbrigði af gulvíði.
Óli Valur Hannsson, garðyrkjuráðunautur og einn mesti trjátegundasafnari landsins, sagði undirrituðum eitt sinn að hann hefði oft séð gulvíði, víða um land, sem væru líkari brekkuvíði en dæmigerðum gulvíði. Hann benti höfundi á einn slíkan austur í Skriðdal. Eins og ofar greinir eru brekkuvíðir og tunguvíðir mjög líkir og nú eru þeir báðir taldir til gulvíðis.
Blóm brekkuvíðis bíða eftir þurrki svo fræin geti svifið á braut. Mynd: Sig.A.
Sprotar
Ungir sprotar á gulvíði eru hreint ekki einsleitir. Þeir geta verið rauðbrúnir og gulbrúnir yfir í það að vera sítrónugulir (Sigurður Blöndal 2002). Gulu sprotarnir geta verið mikið skraut á þeim tíma sem skógar eru lauflausir. Um tíma var slíkur víðir ræktaður sérstaklega og gekk undir nafninu ´Glitvíðir´. Hann er með ljósgula eða sítrónugula sprota.
Glitvíðir er stórvaxinn karlkyns runni sem enn finnst í görðum víða um land oftast sem limgerði. Er eins og hann hafi látið undan þegar brekkuvíðir varð vinsælli í ræktun (Samson Bjarnar Harðarson 2013).
Glitvíðir í limgerði á Blönduósi árið 2008. Myndir: Samson Bjarnar Harðarson.
Vöxtur
Að jafnaði er gulvíðirinn margstofna runni. Ef hann vex upp í þéttu birki getur hann þó stöku sinnum verið meira eins og tré í laginu. Þar sem hann hefur nægt vaxtarrými getur hann myndað stórar hálfkúlur.
Víðir, mest gulvíðir, vex upp og er farinn að mynda hálfkúlur á bökkum Hörgár. Mynd: Sig.A.
Stundum eiga neðstu greinar hans það til að slá rótum og getur þá hver plantað orðið mjög víðfeðm, jafnvel 10-20 metrar að mati Helga Hallgrímssonar (1995). Algengara er þó að sjá svona hálfkúlur sem verða um 5-10 metrar í þvermál og 4 metrar á hæð eða meira. Svona hálfkúlur eiga það til að gliðna undan snjóþyngslum þegar þær eldast.
Gulvíðiklónn frá Sörlastöðum í Fnjóskadal, gróðursettur árið 1903 í Grundarreit í Eyjafirði. Vaxtarlag víðisins sést vel því hann er orðinn lauflaus að hausti. Þarna vex hann með frægri blæösp sem enn heldur öllum sínum laufum. Ef gulvíðir fær meira pláss og meiri birtu verður hann enn meiri kúla en þessi planta. Myndin tekin 30. september 2022. Á fyrstu áratugum skipulagðrar skógræktar á Íslandi var víðir frá Sörlastöðum langmest ræktaði víðirinn. Mynd: Sig.A.
Þetta vaxtarlag greinir gulvíðinn auðveldlega frá viðju sem sums staðar hefur sáð sér út og minnir á gulvíðinn. Hann myndar oftar granna runna sem vaxa meira upp á við en til hliðarHver stofn á gulvíði verður ekki nema fárra áratuga gamall og ekki hjálpar til að hann er viðkvæmur fyrir beit. Því má oft sjá kalkvisti í gömlu víðikjarri. Gamlir, fúnir viðardrumbar kallast fnjóskar og vel er hugsanlegt að Fnjóskadalur og Fnjóská heiti eftir dauðu víðispreki, en þar gæti dautt birki einnig komið við sögu.
Dæmigert hálfkúluvaxtarlag gulvíðis. Myndin sýnir plöntu að vori sem þakin er blómreklum. Mynd: Sig.A.
Þegar aðstæður henta gulvíði hvað best getur hann vaxið á við íslenskt birki og orðið allt að 8 metrar á hæð.
Á hálendinu verður gulvíðir stundum alveg jarðlægur. Í sandorpnum jarðvegi norðaustan til á hálendinu myndar hann stundum lágvaxnar breiður með loðvíði.
Tæplega tveggja áratuga gamall gulvíðir á rýru og þurru landi á Hólasandi. Hann lifir enn en sýnir lítil tilþrif í vexti. Mynd: Sig.A.
Útbreiðsla
Gulvíðir vex á norðlægum slóðum um alla Evrasíu, allt frá Íslandi í vestri og austur til Vestur-Kína og Innri-Mongólíu. Hann vex einnig í miðhluta Evrópu. Þar fer hann syðst til Herz í Þýskalandi og Vogesafjöll í Frakklandi.
Í Færeyjum er hann mjög sjaldgæfur (Jóhannes Jóhansen 2000). Þar er hann sagður vera runni sem verður 0,5-2 metrar á hæð og breytilegur í vaxtarlagi. Þar er hann víða ræktaður í görðum en er horfinn af mörgum svæðum þar sem hann áður óx.
Haustmynd úr Rauðhólum seint í október 2017. Allir runnarnir lauflausir nema einn. Mynd: Sig.A.
Tveir gulvíðirunnar að hausti. Annar grænn, hinn gulur. Mynd: Sig.A.
Á Íslandi er gulvíðir algengur um allt land, en misjafnlega þó. Aðrar íslenskar víðitegundir fara allar hærra upp til fjalla en gulvíðirinn sem heldur sig frekar á láglendi. Hann finnst þó upp í 550 til 600 metra hæð en vex sjaldan hærra. Þegar hann vex hátt til fjalla verður hann oft jarðlægur og ræfilslegur.
Mest áberandi er gulvíðirinn á Norður- og Austurlandi (Helgi Hallgrímsson 1995). Þar myndar hann oft samfellda kjarrskóga og verður til muna hærri en í öðrum landshlutum.
Vist
Hér á landi vex gulvíðir við fjölbreytt skilyrði. Bestum þroska nær hann í deiglendi eins og í jöðrum mýra. Þar verður hann stærstur og vöxtulegastur og má kalla mýrarjaðra kjörlendi hans. Þar sem mýrar hafa verið framræstar skapast einnig mjög góð skilyrði fyrir víði og nefnir Sigurður Blöndal (2002) tvö dæmi um slíkt í ágætri grein í Skógræktarritinu. Þá er hávaxnasti gulvíðir sem vitað er um í Atlavíkurmýri, sem var framræst mörgum árum áður. Sá víðir var 7,5 metrar á hæð þegar greinin var skrifuð.
Gulvíðir kann því ekki illa þótt hann fari nánast á kaf í leysingum. Hér blómstrar einn gulvíðir í vorflóðum. Mynd: Sig.A.
Svokallaðir víðrar (samfelld svæði gróin víði) myndast helst „þar sem landið er flatt og stendur lágt. Og ár eða vörn flæða reglulega yfir á vorin eða í vatnavöxtum. Á slíkum stöðum er gulvíðir gjarnan ríkjandi. Oft með einhverju íblandi af loðvíði, fjalldrapa og birki. Þetta gróðurlendi mætti kalla flæðivíðra, til aðgreiningar frá öðrum víðrum.“ (Helgi Hallgrímsson 1995 bls. 143).
Víðrar í Fnjóskadal. Mynd: Sig.A.
Í Krossanesborgum, norðan við Akureyri, hafa orðið ótrúlegar breytingar á gróðri frá því að borgirnar voru friðaðar fyrir beit. Fróðlegt er að sjá hvernig birki og víðir eykur við veldi sitt. Svo er að sjá sem gulvíðirinn nái bestum þroska þar sem of blautt er fyrir birkið. Þegar gulvíðir vex með birki velur hann sér gjarnan lægri og votari svæði.
Tvær myndir úr Krossanesborgum.
Á jöðrum mýrarinnar er gulvíðir og birkið þar fyrir ofan. Myndir: Sig.A.
Náttúrufræðingurinn Snorri Baldursson skrifaði aðeins um gulvíði í stórvirki sínu um lífríki Íslands (2014). Þar lýsir hann meðal annars mólendi. Það flokkar hann í tvennt. Annars vegar í rýrt mólendi sem á láglendi „endurspeglar yfirleitt land sem hefur hnignað verulega vegna langvarandi ofbeitar en finnst einnig þar sem land er að gróa upp.“ (bls. 251) Á þannig stöðum sést varla gulvíðir. Aftur á móti er hann algengur í ríku mólendi. Þar er mun meiri kolefnisforði sem ríkulegur gróður hefur bundið. Mörkin milli rýra og ríka mólendisins geta verið óglögg, sem og mörkin á milli ríka mólendisins og kjarrlendis. Kjarrlendi er fyrst og fremst myndað af birki en bæði loðvíðir og þó enn frekar gulvíðir, finnst í kjarrlendi. Gulvíðir er mikilvæg tegund í birkiskógum landsins.
Birki og gulvíðir geta myndað kjarrskóga á Íslandi. Mynd: Sig.A.
Gulvíðir og birki á bökkum Fnjóskár. Fjær sér í ræktaðan skóg. Mynd: Sig.A.
Nýliðun
Gulvíðir framleiðir heil ósköp af fræi, en þó ekki eins mikið fræ og loðvíðir samkvæmt rannsóknum Landgræðslunnar (Kristín Svavarsdóttir 2006). Geta fræin borist langar vegalengdir með vindi enda eru löng bómullarhár föst við fræin. Því getur hann sáð sér undrafljótt í hvers kyns raskað land ef fræuppspretta er til staðar.
Hann getur einnig endurnýjað sig þegar dregur úr beit þar sem víðirinn hefur þraukað í sverðinum. Sigurður Blöndal (2002) bendir á dæmi í Skaftafellsheiði í Öræfum. Þar var áður slegið útengi en nú er að vaxa þar upp þétt gulvíðikjarr. Það hefur sennilega verið þarna lengi áður en það fór að vaxa.
Kvenplanta af gulvíði hlaðin fræi. Mynd: Sig.A.
Örnefni
Áður er þess getið að vel geti verið að Fnjóskadalur og Fnjóská heiti eftir dauðu víðikjarri. Þess vegna birtum við þessa mynd hér að neðan.
Fnjóskar í Fnjóskadal. Mynd: Sig.A.
Helgi Hallgrímsson (1995) skrifaði fróðlega grein um gulvíði í Skógræktar-ritið þar sem hann tiltekur ýmiss örnefni sem hann telur vera nefnd eftir víði og þá líklegast gulvíði. Til eru dalir sem eru ekkert sérstaklega víðir en heita samt Víðidalir. Finnast þeir nokkuð víða. Það er miklu líklegra að þeir heiti eftir gulvíði en víðernum. Víðikjarr á Norður- og Austurlandi gengur oft undir nöfnunum víðar eða víðrar eins og áður greinir. Hafa þau nöfn einnig ratað inn í örnefni eins og Víðar, Víðarsel og Víðastaðir. Einnig eru til Víðiker, Víðilækur, Víðimýri, Víðigerði, Víðines, Víðivellir og Víðarhóll. Helgi nefnir einnig örnefnið Slútnes (framborið Slúttnes) í Mývatnssveit sem að líkindum sé nefnt eftir slútandi gulvíði.
Slútvíðir (gulvíðir) við Eyjafjarðará. Þegar þessi planta heldur áfram að stækka mun slútvöxturinn aukast. Mynd: Sig.A.
Í bók sinni Draumalandið birtir Andri Snær Magnason (2006) lista yfir böfn bæja á Íslandi. Þar bætist við þessa upptalningu bæjarnöfn nöfn eins og Víðidalstunga, Víðifell, Víðihlíð, Víðiholt, Víðirhóll og Víðivallagerði. Eru þá aðeins nefnd þau nöfn sem hefjast á forskeytinu víði-.
Gulvíðir þarf ekki að vera mjög hávaxinn til að slúta yfir vatnsbakka.
Mynd: Sig.A.
Nafngiftir
Helgi Hallgrímsson, náttúrufræðingur á Egilsstöðum skrifaði snjalla grein um víði árið 1995 sem áður er nefnt. Þar segir hann frá nöfnum á gulvíði og er hér stuðst við greinina.
Latínuheiti gulvíðis er Salix phylicifolia. Viðurnefnið phylicifolia er sett saman úr tveimur orðum. Það fyrra er gríska orðið fylice sem mun vera heiti á einhverju sígrænu tré í riti Þeophrasostar sem var uppi um 300 fyrir upphaf okkar tímatals. Hið síðara er folia. Það er úr latínu og merkir laufblað. Salix phylixifolia merkir því eitthvað svipað og víðir-með-lauf-eins-og-sígrænt-tré. Þetta passar ágætlega við nöfn tegundarinnar á norsku og sænsku. Á norsku heitir hann grönvier og gronvide á sænsku. Við þetta vill höfundur pistilsins bæta að Orðabanki Árnastofnunar gefur upp þýska nafnið Grüne Weide. Það er greinilega sama nafn.
Á sumum tungumálum þykir við hæfi að kenna gulvíði við hinn græna lit.
Mynd: Sig.A.
Misjafnt er hvenær gulvíðir fer í haustliti og stundum haldast þau græn á sumum runnum fram í október. Þegar þau gulna geta þau hangið fagurgul á víðirunnum í margar vikur. Líklegt verður að telja að þess vegna kallist þessi víðir gulvíðir. Ýmiss önnur nöfn eru til á gulvíði. Nefnir Helgi nöfn eins og bleikivíðir, rauðvíðir og rauðalauf. Þessi nöfn eru væntanlega dregin af rauðbleikum lit sumarsprotanna.
Gul blöð á víði á miðjum vetri. Sprotarnir bleikrauðir. Þá þarf bara að ákveða hvort nefna beri víðinn eftir blöðum eða sprotum. Mynd: Sig.A.
Nafnið slútvíðir hefur einnig verið notað, meðal annars notar Áskell Löve það í Íslenzkri ferðaflóru. Í sinni bók gefur hann ekki upp nafnið gulvíðir nema í atriðisorðaskrá. Annars talar hann um slútvíði. Þar er komin tenging við eyjuna Slútnes sem áður var nefnd. Örnefnið Slútgerði í Jökulsárhlíð gæti verið af sama stofni.
Slútvíðir. Myndin er tekin ofan við núverandi stíflu við Skeiðsfoss, innst í Fljótum norður. Þá fór þetta land á kaf ásamt sjö bóndabýlum. Að sögn hins fjölfróða Jónatans Hermannssonar töldu margir þetta fegurstu sveit landsins áður en henni var sökkt. Má vera að slútvíðirinn hafi átt þar einhvern þátt. Myndin fengin af Facebooksíðu Jónatans.
Beinvíðir er gamalt heiti á einhverri víðitegund. Líklegt er að það hafi verið notað á gulvíðinn. Annað hvort vegna þess að dauðar gulvíðigreinar eru beinhvítar á litinn eða vegna þess að hann er beinvaxnari en aðrar víðitegundir á Íslandi.
Beinvíðir er eitt af heitunum sem nýtt hafa verið á gulvíði. Mynd: Sig.A.
Helgi segir líka frá því að orðin víðiviður og víriviður séu þekkt úr Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslum yfir gulvíðinn. Ber hann orðabókarhöfundinn Sigfús Blöndal fyrir þessum upplýsingum. Við þessa upptalningu bætir Íðorðabankinn orðinu íravíðir sem samheiti fyrir gulvíði.
Pálmavíðir
Enn er ónefnt eitt heiti sem lifir enn í færeysku. Þar heitir gulvíðirinn pálmapílur (Jóhannes Jóhansen 2000). Helgi segir frá því að orðið pálmavíðir hafi verið notað á Austurlandi yfir gulvíðinn. Hefur hann það úr grein eftir séra Sigurð Gunnarsson á Hallormsstað. Almennt kallar Sigurður þennan víði rauðvíði en hann er nýttur til skreytinga á pálmasunnudegi og breytir þá um nafn. Helgi vitnar í Steindór Steindórsson frá Hlöðum sem segir að sennilega hafi nafnið komið til Íslands í kaþólskum sið. Má vel vera að bæjarnafnið Pálmholt í Arnarneshreppi í Eyjafirði heiti þá eftir gulvíði, þegar öll kurl koma til grafar (Helgi Hallgrímsson 1995).
Blómstrandi karlplanta af gulvíði í Kjarnaskógi. Klippa má greinar af víði snemma á vorin, taka þær inn og láta í vatn. Þá laufgast þær og lífga upp á páskahátíðina. Má vera að það hafi áður verið algengara en nú er og víðirinn hlotið af því nafn. Mynd: Sig.A.
Vel má vera að til séu enn fleiri gömul heiti yfir gulvíði. Sennilega eru þau flestum gleymd. Björn Halldórsson (1783) nefnir ýmsar víðitegundir í Grasnytjum en ekkert þeirra nafna sem Helgi tilgreinir í sinni ágætu grein. Hann notar ekki einu sinni orðið gulvíðir. Aftur á móti fjallar hann um sauðkvist (eða Saud-qvist) í riti sínu. Má vera að þar fjalli hann um gulvíðinn og bætist þetta heiti þá í sarpinn.
Ólíkir haustlitir víðis í Eyjafirði. Dökkgræna tréð er birki. Mynd: Sig.A.
Gulvíðir og beit
Gulvíðir er eftirsótt beitarplanta. Á það jafnt við um víði á Ísland sem í öðrum löndum. Jóhannes Jóhansen (2000) segir frá því að í Færeyjum sé hann mjög sjaldgæfur og horfinn af mörgum svæðum þar sem hann áður óx. Er varla um annað að ræða en að sauðfjárbeit haldi honum niðri, enda þrífst hann prýðilega í görðum þar í landi samkvæmt sömu heimild.
Gulvíðir og birki vex upp úr landi sem nýtt er sem beitarhólf fyrir hross. Mynd: Sig.A.
Bæði nautgripir og sauðfé eru gráðug í gulvíði en hross eru ekki eins hrifin. Þó má oft sjá hross éta gulvíðigreinar á vetrum. „Þannig hefur búfjárbeitin haldið víðinum niðri öldum saman“ sagði Sigurður Blöndal árið 2002. Hann bendir einnig á að eðli gulvíðisins er slíkt að þótt honum sé haldið lengi niðri með beit geti ræturnar lifað áfram. Þegar tækifæri gefast fer hann síðan að vaxa aftur. Ótalmörg dæmi eru um slíka hegðun, meðal annars í Eyjafirði og Krossanesborgum.
Dæmigert útlit á nokkuð hávöxnum gulvíði í beitilandi. Á sinunni sést að þarna er ekki mjög mikil beit. Samt eru öll lauf fjarlægð sem sauðféð nær til. Sjá má dauðar greinar. Þar er líklegt að sauðféð hafi étið börkinn og drepið þar með greinarnar. Fjær sér í víði sem ekki þarf að þola beit. Hann klæðir sig með laufi allt til jarðar. Mynd: Sig. A.
Nýir skaðvaldar sækja á víði á Íslandi. Kanínur í Kjarnaskógi hafa nagað þennan gulvíði að vetri til og drepið greinarnar sem stóðu upp úr snjónum. Eftir því sem snjóskaflarnir bráðna kemur meira upp af greinum sem hægt er að naga. Mynd: Sig.A.
Vaxandi fjöldi skordýra herjar á víði. Einkum eru það lirfur sem éta blöðin. Myndin sýnir gulvíði sem hefur mátt þola afrán skordýra. Mynd: Sig.A.
Eins og áður er frá sagt skrifaði Björn Halldórsson í Sauðlauksdal (1783) um íslenskar víðitegundir í rit sitt Grasnytjar. Hann skrifar um víðitegund sem hann kallar sauðkvist. Með hans stafsetningu er heiti hans skrifað: Saud-qvistr. Ekki er alveg ljóst hvaða víðir þetta er. Sérstaklega í ljósi þess að hann gefur upp latínuheitið Salix repens. Það bendir til þess að hann sé að tala um víði sem skríður um enda kallast sú tegund skriðvíðir á íslensku.
Skriðvíðir, Salix repens, í Lystigarðinum. Hann minnir vissulega á gulvíði. Mynd: Sig.A.
Annaðhvort skiptir hann hinum íslensku víðitegundunum í fleiri tegundir en nú er gert, eða þá að hann telur þetta latínuheiti eiga við um gulvíðinn. Að minnsta kosti talar hann ekki um neinn annan víði sem gæti verið gulvíðir. Má vera að viðurnefnið repens vísi í það að neðstu greinarnar eiga það til að slá rótum þegar þær snerta jörðu. Því má færa fyrir því rök að þannig geti víðirinn skriðið um. Einnig má vel vera að hann hafi fyrst og fremst þekkt gulvíði af plöntum sem aldrei höfðu fengið tækifæri til að vaxa upp á við vegna beitarinnar. Þannig svipar vaxtarlaginu til skriðvíðis. Sá víðir vex á bresku eyjunum og er mjög fjölbreyttur í útliti (Newshome 1992)
Því setjum við lýsingu Björns á sauðkvisti hér inn.
Þegar gulvíðirinn á myndunum hér að ofan er skoðaður kemur ekki á óvart að nafnið Salix repens hafi flogið mönnum í hug. Myndir: Sig.A.
Vel má vera að Björn í Sauðlauksdal hafi haft svona gulvíði í huga þegar hann nefndi hann Salix repens. Engu er líkara en hann skríði þarna um í grasinu. Sauðfjárbeit sér um að hann hækki ekki um of. Mynd: Sig.A.
„Þessi vídir-tegund er ein þarfasta, því hún hefir vidlíka verkan, sem hinar adrar vídir-tegundir, enn er þó mjúkara fódur fyrir allann pening, því fitnar peningr fljótar af honum enn ødrum vídi. Þat er almenn søgn, at þar verdi betri skinn af sláturðfe, sem þat hefir gengist á saud-qvistar landi um sumar, enn þó ønnur gód beit væri.“ Svo heldur Björn áfram og skiptir um nafn. Af samhenginu verður þó ekki ráðið annað en um sömu tegund sé að ræða. „Kálfar, lømb og allt undan-elldi, hefir alldrei betri þrif, enn þegar þat fær beiti-qvist (hér hlýtur hann að vera að tala um sauðkvistinn insk. Höfundar); þat er betra enn hid besta hey, því þessi sand- eða beitqvistr bædi fædir elr og feitir allan bú-pening og bú-smala.“
Beitarskemmdir á gulvíði eftir sauðfé. Öll lauf sem sauðféð nær til eru horfin en hæstu sprotarnir hafa enn nokkur lauf. Minni sprotar dauðir. Mynd: Sig.A.
Myndin sýnir gulvíði og loðvíði utan við girðinguna sem dauði víðirinn á myndinni hér að ofan er innan við. Mynd: Sig.A.
Í pistli um íslenskan víði var fjallað um víði og beit og sagt frá því hversu miklu máli skiptir fyrir þrif gulvíðis á Auðkúluheiði hvort hann er á beittu svæði eða friðuðu. Fer þekja hans úr 0% á beittu landi yfir í um 35% á friðuðu landi. Við þetta má bæta því sem Snorra Baldurssonar skrifaði árið 2014 um þessa rannsókn: „Samanburðurinn sýnir ljóslega að langvarandi beit á heiðunum hefur umbylt gróðurfari þar og jafnframt hefur gróðurþekja þynnst. Ferlið er í stórum dráttum eftirfarandi. Fé sækir í gulvíði og loðvíði og stórvaxnar jurtir, svo sem ætihvönn og burnirót.“ Svo lýsir Snorri því hvernig þróunin heldur áfram og að endingu „ . . . minnkar hlutdeild lostætra plantna jafnt og þétt og rýrt gras- eða mólendi myndast. Gróðurþekjan rofna smám saman og rofblettir myndast. Svipuð umbylting gróðurfars hefur orðið á öllum þurrari hluta hálendisins og einnig á útjörð á láglendi þar sem sauðfjárbeit hefur verið langvarandi.“
Ef tekst að koma á vörsluskyldu búfjár á Íslandi, líkt og í löndunum í kringum okkur, má búast við því að skógar og kjarr stóraukist á Íslandi án frekari aðgerða. Þá munu aftur spretta upp birkiskógar með gulvíðibryddingum.
Gulvíðir fer vel við vatn og í skógarjöðrum. Mynd: Sig.A.
Heimildir:
Andri Freyr Magnason (2006): Draumalandið. Sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð. Mál og Menning. Reykjavík.
Áskell Löve (1970): Íslenzk Ferðaflóra. Jurtabók AB. Almenna bókafélagið.
Björn Halldórsson í Sauðlauksdal (1783): Grasnytjar. Ljósprentun frumútgáfunnar gefin út árið 1983. Bókaforlag Odds Björnssonar, Náttúrugripasafnið á Akureyri og Ræktunarfélag Norðurlands.
Halldór Sverrisson: Munnlegar upplýsingar 06.07.2001.
Hafsteinn Hafliðason: Munnlegar upplýsingar 17.09.2022.
Helgi Hallgrímsson (1995): Gulvíðir - Pálmavíðir - Rauðvíðir - Slútvíðir. Um gulvíði á Íslandi og hin ýmsu nöfn hans. Í: Skógræktarritið 1995. Ársrit Skógræktarfélags Íslands. Reykjavík.
Jóhannes Jóhansen (2000): Føroysk Flora. Føroya Skúlabókagrunnur. Tórshavn.
Kristín Svavarsdóttir (ritstj. 2006 ): Innlendar víðiteguir: Líffræði og notkunarmöguleikar í landgræðslu. Landgræðsla ríkisins. Sjá: https://land.is/wp-content/uploads/2018/01/Innlendar-v%C3%AD%C3%B0itegundir.pdf
Íðorðabankinn (sótt 14.9. 2022) Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. https://idordabanki.arnastofnun.is/leit/gulv%C3%AD%C3%B0ir
Jónatan Hermannsson. Munnleg heimild 17.09.2022
Christopher Newsholme (1992): Willows. The Genus Salix. B.T. Batsford. London.
Samson Bjarnar Harðarson 2013: Söfnun og varðveisla ræktaðra íslenskra víðiyrkja. Yndisgróður. Landbúnaðarháskóli Íslands, Hvanneyri.
Sigurður Blöndal (2002): Íslensku skógartrén 2. Í: Skógræktarritið 2002 2. tbl. Skógræktarfélag Íslands. Reykjavík.
Snorri Baldursson (2014): Lífríki Íslands. Vistkerfi lands og sjávar. Bókaútgáfan Opna og Forlagið. Reykjavík.
Þröstur Eysteinsson. Munnleg heimild 16.09.2022.
Comments