top of page
Writer's picturePétur Halldórsson

'Hekla' - rauðblaða birki

Updated: Jun 6, 2023

Tré vikunnar að þessu sinni er birkitré með dumbrauðum laufblöðum #TrévikunnarSE . Yrki þetta er klónn af kynbættu tré sem er afrakstur af kynbótastarfi Þorsteins Tómassonar erfðafræðings. Þorsteinn hefur unnið að margvíslegum kynbótum á birki undanfarin ár og þekkt er yrkið 'Embla' sem ræktað var fram af úrvalstrjám sem að mestu voru ættuð úr Bæjarstaðarskógi. 'Embla' er þróttmikið yrki sem vex vel og myndar beinvaxin tré með hvítum berki.


Þorsteinn hefur líka látið sig dreyma um að ná fram rauðblaða yrki af birki. Þekkt eru í ýmsum lauftrjám stökkbreytt afbrigði og líklega kannast Íslendingar helst við blóðhegg og blóðbeyki af þem toga. Í Skandinavíu hafa fundist einstaklingar af hengibirki með þessum eiginleika og nú hefur Þorsteini tekist að koma þeim eiginleika inn í birkitré sem eru blendingar ilmbjarkar og hengibjarkar. Yrkið kallar hann 'Heklu'. Rauði liturinn er ríkjandi í erfðamenginu þannig að um helmingur trjáa sem spretta af fræi 'Heklu' verða rauðir en hinn helmingurinn með grænum blöðum. Til þess að fá örugglega fram rauða litinn og aðra eiginleika Heklu án þess að utanaðkomandi erfðir trufli er hægt að taka vaxtarvef úr trénu og vefjarækta á rannsóknarstofu. Þorsteinn lét vefjarækta í Finnlandi á annað hundrað plöntuvísa af Heklu og flutti þá inn í handfarangri með öllum tilskildum leyfum og vottorðum. Trén voru svo ræktuð upp í gróðurhúsi og eru nú tilbúin til gróðursetningar.


Nú í vikunni var undirritaður samstarfssamningur um þrjú þróunarverkefni með notkun moltu við skógrækt, landgræðslu og akuryrkju á Norðurlandi. Samningurinn var undirritaður í garðinum við Gömlu-Gróðrarstöðina á Akureyri þar sem var á sínum tíma ein fyrsta gróðrarstöð landsins. Samninginn undirrituðu þau Guðmundur Haukur Sigurðsson fyrir hönd Vistorku, Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri fyrir hönd Akureyrarbæjar og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, fyrir hönd ráðuneytisins sem veitti fimmtán milljónir króna til verkefnanna.


Við þetta tilefni gróðursetti ráðherra eina 'Heklu' við lækinn hjá Gömlu-Gróðrarstöðinni þar sem þessi sérstæða tegund á eftir að sóma sér vel með dumbrauð lauf á sumrin, hvítan börk og eldrauða haustliti. Þorsteinn Tómasson hyggst halda áfram kynbótum á birki og stefnir að því að laða betur fram ýmis eftirsóknarverð einkenni hengibjarkar í rauðblaðayrkjum birkis. Spennandi verður að fylgjast með þessu starfi hans sem nýtur stuðnings Skógræktarfélags Íslands.




210 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page