top of page
Writer's pictureSigurður Arnarson

Himalajaeinir

Updated: Oct 15, 2023

Í heiminum er talið að til séu liðlega 50 tegundir af eini eða Juniperus eins og hann er kallaður á fræðimálinu. Ein þeirra vex villt á Íslandi en nokkrar aðrar eru oft ræktaðar í görðum hér á landi sem og annars staðar í heiminum. Á Íslandi verðum við víst að segja að einir flokkist truðla sem tré, heldur sem sígrænn runni. Í hinum stóra heimi eru vissulega til einitré sem geta orðið nokkuð há og því full ástæða til að gefa ættkvíslinni gaum á þessum vettvangi.


Ein af tegundum sem mikið er ræktuð í görðum er himalajaeinir (Juniperus squamata). Hann fær nú tilnefningu okkar sem #TrévikunnarSE. Eins og nafnið bendir til er hann uppruninn úr Himalajafjöllum en hann finnst einnig víðar í fjalllendi í Suður-Asíu. Helst kýs hann sól og vel framræstan, léttan og meðalfrjóan jarðveg.


Nærmynd af barri himalajaeinis. Nálarnar raðast í hringi utan um sprotann og mynda einskonar kransa upp eftir sprotanum. Það kallast kransstætt.


Eins og íslenski einirinn er himalajaeinir nokkuð fjölbreyttur í vaxtarlagi. Nokkur atriði á samt allur himalajaeinir sameiginleg. Barrnálarnar eru kransstæðar, nállaga og standa mjög þétt saman. Oftast eru heilbrigðar nálar bláleitar á efra borði en grænni á því neðra. Til eru yrki sem eru með aðeins annan lit á barrinu. Sumar aðeins á vorin og síðla hausts fær barrið hinn dæmigerða stálbláa lit. Það er þetta bláleita barr sem auðveldast er að greina himalajaeini frá öðrum einitegundum.


Myndin til vinstri er tekin haustið 2011 en hin vorið 2021. Þetta er sama beðið. Sjá má þrjár gerðir af himalajaeini og nokkrar aðrar plöntur.


Kosturinn við að rækta sígrænar einiplöntur í görðum er að þær eru fallegar allt árið. Hér fyrir neðan má sjá þrjár vetrarmyndir af himalajaeini.


Þar sem himalajaeinir getur verið ákaflega fjölbreyttur í vaxtarlagi hafa verið tekin fjölmörg yrki til ræktunar í hinum stóra heimi. Hvert yrki hefur sama erfðaefnið og er fjölgað kynlaust með græðlingum. Því er erfðaefni hvers yrkis fyrir sig það sama og einstaklingarnir innan hvers yrkis hafa því sama vaxtarform.


Sígrænt beð í ræktunarstöð Reykjavíkurborgar í Fossvogsdal. Lengst til vinstri og neðst til hægri má sjá bláleit yrki af himalajaeini.


Lengi vel var aðeins eitt yrki í ræktun hér á landi en hin síðari ár hafa fleiri bæst við. Hér norðan heiða eru það einkum fjögur yrki sem mest eru ræktuð og sennilega eru það þau sömu sem mest eru ræktuð annars staðar á landinu. Hér verða fyrst nefnd þessi fjögur yrki en síðan tvö í viðbót sem eru ræktuð sunnan heiða. Vel má vera að bæta megi fleiri yrkjum við þessa upptalningu.

Fyrst ber að nefna yrkið 'Meyeri'. Það hefur lengi verið í ræktun og þegar fólk talar um himalajaeini án þess að nefna sérstakt yrki á það vanalega við þetta yrki. Þetta er stærsta yrki tegundarinnar sem hér er í ræktun og getur auðveldlega orðið 1-3 metrar á hæð og nokkuð plássfrekt. Oftast er það ræktað sem sígrænn runni en erlendis er það stundum klippt til og ræktað sem lágvaxið tré. Þannig getur það orðið allt að 6m á hæð. Sá sem þetta pikkar á lyklaborð hefur hvergi séð þetta reynt á Íslandi.Gamlar greinar runnans eru uppréttar og stuttar en yngri greinar sveigjast upp á við en drjúpa í endann. Barrið er áberandi bláleitt eins og á flestum yrkjum tegundarinnar. Ef stendur til að gróðursetja himalajaeini í náttúrugarða frekar en í heimilisgarða er þetta rétta yrkið. Hér fyrir neðan eru þrjár myndir af 'Meyeri'.



Finnist mönnum 'Meyeri' verða of fyrirferðarmikill má nota yrkið 'Blue Star´. Það er mun fínlegri runni og vex hægar eða aðeins örfáa sentimetra á ári. Verður dálítið eins og nokkuð flöt þúfa í laginu og afar þéttur. Með tíð og tíma verður hann um hálfur metri á hæð en er meiri á breidd en hæð. Barrið og liturinn mjög líkt og á fyrstnefnda yrkinu. Þegar farið var að rækta þetta yrki hér á landi töldu menn að það væri varla jafn harðgert og . 'Meyeri' en reynslan virðist ekki styðja það. Að minnsta kosti ekki eftir að lofthiti tók að hækka.



Þriðja yrkið er 'Blue Carpet´. Það er alveg jarðlægt eða því sem næst, afar þétt og með sama lit og fyrrnefndu tvö yrkin. Það vex mun hraðar en 'Blue Star´ og getur smám saman þakið nokkuð stórt svæði. Þetta yrki er sérstaklega glæsilegt ef það fær að vaxa þannig að það nái að flæða niður veggi eða hleðslur. Þar sem vaxtarrýmið er takmarkað getur þurft að halda yrkinu í skefjum með klippingu. Þegar einir er klipptur er best að stífa ekki greinarnar heldur taka neðstu greinarnar innan úr þannig að yngri greinar hylji sárin. Það má til dæmis gera í desember og fá þá úrvalsefni í hverskonar jólaskreytingar.



Fjórða yrkið er 'Holger'. Á vorin er það frábrugðið hinum þremur hvað lit varðar. Ungar greinar af 'Holger' eru gulleitar og mynda sérstakt tvílitt barr á vorin með gula brodda en eldri nálar eru með þennan dæmigerða stálbláa lit. Þetta gefur honum sérstakan svip. Þegar líður á haustið fer liturinn á barrinu að líkjast öðrum yrkum. Þetta yrki verður um 30-90 cm á hæð með tíð og tíma og enn meiri á breidd en hæð.



Að lokum má nefna tvö yrki sem eru meira ræktuð sunnan heiða en norðan. Þótt þau séu lítið reynd hér nyrðra má vel vera að þau séu alveg jafn harðger. Annað þeirra er ´Blue Swede´. Það rís dálítið upp og er ljósblárra en önnur yrki. Það myndar um hálfs metra háa breiðu sem getur orðið nokkuð víðfem. Hitt er ´Blue Spider´. Það er dekkra á litinn en hin yrkin og með flatt vaxtarlag. Það sem einkennir þetta yrki eru langir árssprotar sem eru krókbognir í endann. Á það að minna á köngulóarfætur og er nafn yrkisins af því dregið. Því miður hefur sá er þetta pikkar ekki tekið neinar myndir af þeim yrkjum.

Texti og myndir: Sigurður Arnarson.

280 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page