top of page
Writer's pictureSigurður Arnarson

Hin dularfullu fíkjutré

Updated: Jul 4, 2023

Ættkvísl fíkjutrjáa, Ficus, er ótrúlega stór og fjölbreytt. Ættkvíslin gegnir mjög mikilvægu hlutverki í þeim vistkerfum sem hún finnst í og hefur mikil áhrif bæði á á annan gróður og dýralíf. Að auki tengjast fíkjutré kristni, búddisma, hindúisma og mörgum öðrum trúarbrögðum. Til eru margvíslegar helgisögur sem tengjast fíkjutrjám. Að auki eru til alls konar þjóðsögur sem tengjast trjám af þessari ættkvísl.

Stór meirihluti trjánna tilheyrir regnskógum hitabeltisins. Sum finnast þó í þurrara loftslagi svipað því sem ríkir við Miðjarðarhafið og sólþyrstir Íslendingar sækja í á hverju ári. Innan þessarar stóru ættkvíslar eru líka nokkur af allra stærstu trjám jarðar. Það á einkum við ef mælt er umfang trjánna.


Bengalfíkjutré, Ficus benghalensis, myndar ótal stofna. Þeir vaxa ekki að neðan og upp, heldur frá krónunni og niður. Allra stærstu trén geta verið hátt í kílómetri í þvermál með ótal stofna. Það má segja að hvert tré myndi sinn eigin skóg! Sagt er að tréð á myndinni, the Great Banyan á Indlandi, sé umfangsmesta tré í heimi og nái yfir 1,5 hektara og hafi 2880 stofna. Myndin fengin hjá Wikipediu.

Nafnið og sagan

Ef til vill skítur það örlítið skökku við að ættkvíslin öll er nefnd eftir fremur lágvöxnu tré eða runna í Litlu Asíu sem Rómverjar kölluðu Ficus. Sá runni er ekki nærri eins merkilegur og margir frændur hans í regnskógum heimsins. Og þó. Hans er getið í Biblíunni. Annars er það ágæta ritsafn ekki yfirfullt af umfjöllun um trjágróður. Þó má finna umfjöllun um bæði vínber og fíkjur hér og hvar í Biblíunni. Það gerir fíkjutré dálítið merkileg. Með einfaldri leit á https://biblian.is/biblian/ er að finna að minnsta kosti 45 staði í Biblíunni þar sem fjallað er um fíkjur. Sjá má lista yfir þessa staði í viðauka sem er aftast í þessum pistli. Frægust þessara sagna er í fyrstu Mósebók. Þar segir frá því þegar höggormurinn gabbaði Evu til að fá sér að borða ávöxt af skilningstré góðs og ills. Eva gerði það og bauð Adam með sér. „Þá lukust upp augu þeirra beggja og þeim varð ljóst að þau voru nakin. Þau saumuðu því saman fíkjuviðarblöð og gerðu sér mittisskýlur.“

Það kann að koma einhverjum á óvart en hvergi er minnst á epli í þessari sögu. Það var ekki fyrr en evrópskir listamenn fóru að mála myndir af Adam og Evu að ávöxtur skilningstrésins varð að epli, enda þekktu þeir fáa aðra ávexti. Í margar aldir var það einnig svo að evrópskir listamenn máluðu fíkjulauf til að hylja nekt á málverkum.

Rétt er að geta þess að víðar í Biblíunni eru fíkjur nefndar. Sem dæmi má nefna að flestir þekkja tilvitnunina „Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá“. Hún kemur fyrir í 7. kafla Matteusarguðspjallsins þar sem varað er við falsspámönnum. Framhaldið er: „Hvort lesa menn vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum?


Sem dæmi um alkunna þjóðsögu má rifja upp upphaf Rómarborgar. Eins og kunnugt er segir sagana að tvíburarnir Romulus og Remus hafi stofnað borgina. Flestir vita líka að fósturmóðir þeirra var úlfynja en færri muna að þeir fundust einmitt undir fíkjutré í umsjón téðrar úlfynju.

Eru þó aðeins fáein dæmi nefnd um fíkjutré í fornum sögum.


Bóndinn Faustulus tekur tvíburana Romulus og Remus frá úlfynjunni sem liggur undir fíkjutré.


Fíkjuviðurinn í fornum sögnum í kringum Miðjarðarhafið er tréð sem ber fíkjuna sem oftast er nýtt til manneldis, Ficus carica. Talið er að hún sé framleidd á um 500 þúsund hekturum. Mest er framleitt í löndum við Miðjarðarhafið en í Tyrklandi er framleiðslan mest eða rúm 300 þúsund tonn af fíkjum á hverju ári.


Yrki, ræktunarafbrigði og staðbrigði af fíkjum, F. carica, skipta þúsundum og hafa orðið til í gegnum aldir vegna fólksflutninga og aðlögunar. Hin myndin sýnir blöð fíkjutrés F. carica ásamt fíkjum. Myndin fengin að láni hjá Wikipediu. Eins og sjá má eru laufin samskonar og á myndinni af stofnendum Rómarborgar hér að ofan.


Þessi megin tegund er um margt ólík frænkum sínum. Ekki bara í stærð heldur er hún, öfugt við flestar aðrar tegundir, sumargræn. Miklu, miklu algengara er að þær séu sígrænar.

Ýmsar aðrar og mismunandi fíkjutegundir njóta helgi í ólíkum trúarbrögðum heimsins. Ein tegund er svo tengd trúarbrögðum að hún er kennd við þau og kallast Ficus religiosa á fræðimálinu. Á íslensku hefur hún verið nefnd hoffíkja.

Málverk frá árinu 1810 sem sýnir lítið búddahof undir hoffíkjutrénu sem Búdda hugleiddi undir.


Vöxtur

Um helmingur tegunda ættkvíslarinnar hefur líf sitt eins og hvert annað tré, eða runni. Fræið spírar í jörðinni og upp vex teinungur sem verður að tré með tíð og tíma ef aðstæður leyfa.



Gljáfíkja, F. macrophylla vex eins og flest tré í heiminum gera. Fræið spírar í frjórri jörð og upp vex tré. Myndin fengin frá Wikipediu.


Hinn helmingurinn fer öðru vísi að. Þær fíkjur hefja líf sitt sem ásætur á trjám. Fræ þeirra spíra ekki í jörðinni heldur uppi í öðrum trjám. Fræið sest þá í sprungu á berki eða grein eða á öðrum hrjúfum hluta trjánna (misjafnt eftir trjám). Þess finnast einnig dæmi að fræin spíri einfaldlega í sprungum í veggjum eða á milli steina. Þetta kann að þykja framandi en fjöldi ásæta í trjám, einkum í regnskógum, er ótrúlegur! Það getur verið miklu heppilegra fyrir ýmsar tegundir að fræ þeirra spíri hátt upp í trjákrónunum þar sem aðgangur að sólarljósi getur verið mun meiri en í rökkvuðum skógarbotninum. Í regnskógum er sjaldan skortur á vatni og næringarefnum ná ásæturnar úr umhverfi sínu með ýmsum leiðum. Engin ætt treystir þó á þessa aðferð eins og brönugrasaættin. Hún er önnur stærsta plöntuætt í heimi og flestar tegundirnar eru ásætur í trjám í hitabeltinu. Að vísu er sá munur á brönugrösum og fíkjum að hinar fyrrnefndu eru dæmigerðar ásætur sem valda hýslum sínum ekki skaða. Svo kurteisar eru fíkjurnar ekki.

Þegar fíkjutré hefja líf sitt sem ásætur senda þær rætur sínar, hægt og rólega, í átt að jörðu. Þegar þær hafa náð jarðsambandi hætta þær að haga sér eins og einfaldar ásætur en fara að valda hýslum sínum skaða.

Til þess eru tvær leiðir og sumar tegundir nota þær báðar.

Önnur er sú að gefa rótunum stuðning á leiðinni niður með því að láta þær hringa sig utan um trjástofninn sem þær vaxa á. Hin er að mynda „hangandi rætur“ sem vaxa einfaldlega skemmstu leið niður þar til þær ná í jarðveginn. Í báðum tilfellum fara ræturnar að þykkna þegar náð er til jarðar og þær breytast í stofna. Þá hafa fíkjurnar ekki lengur þörf á hýslum sínum og smám saman fara þær að valda hýsiltrjám sínum tjóni sem oftast lýkur með dauða hýsilsins.

Annars vegar er það vegna þess að rætur sem hringa sig niður stofna þrengja mjög að stofnum hýslanna og koma að lokum í veg fyrir að æðar stofns þeirra starfi eðlilega. Þeir missa hæfileikann til að flytja vatn og næringu upp til laufanna og sykrur niður til rótanna. Fíkjutré sem haga sér svona virka eins og eins konar kirkjuslöngur í trjáheimum.


Hér klifrar Marek Laciný upp í fíkjutré af tegundinni Ficus virens. Kalla mætti hana grænfíkju á íslensku. Hún er dæmigert kirkingatré. Á hverju ári fellir það laufin og laufgast á ný. Stundum eru fleiri en eitt fíkjutré á hverju hýsiltré. Þá vefjast ræturnar (og stofnarnir) á ýmsa veg. Trén fella ekki laufin á sama tíma svo stundum má því sjá lauflaust fíkjutré í faðmlögum við allaufgað fíkjutré.


Ásætur af ættkvísl fíkjutrjáa sem senda rætur sínar skemmstu leið til jarðar valda hýslum sínum líka tjóni. Þegar ræturnar ná til jarðar fer fíkjutréð að vaxa mun meira en áður. Það hættir samt ekkert að senda niður loftræturnar sínar og smám saman geta fleiri og fleiri stofnar myndast niður úr krónunni þar til hvert fíkjutré getur orðið mjög umfangsmikið með fjölmarga stofna. Þá er ekki lengur þörf fyrir aumingja hýsiltréð. Fíkjutréð vex einfaldlega yfir það og skyggir það út. Í sumum tilfellum brotnar hýsillinn eða bognar undan þunganum og má sjá dæmi um slíkt tré hér að neðan á myndum sem Marek Laciný tók í Ástralíu og leyfði okkur góðfúslega að nota.


Fyrir langa löngu hefur fræ fíkjutrés spírað uppi í krónu á hýsiltré. Þegar það óx varð þungi þess svo mikill að hýsiltréð varð unan að láta og féll. Það féll samt ekki til jarðar heldur aðeins að næsta tré og því hallar fíkjutréð eins og sjá má. Fíkjutréð hélt áfram að senda rætur sínar skemmstu leið til jarðar og þær breyttust í stofna. Nú er hýsiltréð löngu dautt og hefur rotnað í burtu. Eftir stendur þetta einkennilega fíkjutré nálægt borginni Cairns í Ástralíu. Myndir: Marek Laciný.


Báðir þessir ferlar leiða að lokum til þess að hýsiltréð drepst. Það getur tekið allt upp í öld eða jafnvel nokkrar aldir fyrir fíkjutré að drepa hýsil sinn á hvorn veginn sem er en það er nokkuð öruggt að það gerist.

Sum þessara umfangsmiklu fíkjutrjáa teljast til helgra trjáa í Indlandi, svo dæmi sé nefnt. Þau veita að auki svalan skugga sem er þakkarvert á þessum slóðum. Það þarf því ekki að koma á óvart að það var einmitt undir fíkjutré sem hinn ungi prins Siddhartha settist, einhvern tímann á sjöttu öld fyrir Krist, til að hugleiða í fjörutíu sólarhringa. Það var upphafið að Búddadómi eins og við þekkjum hann í dag.


Öll fíkjutré koma frá heitum löndum. Þó er það svo að örfáar eru ræktaðar á Íslandi. En miðað við hvaðan þau koma þarf það ekki að koma á óvart að hér þrífast þær bara innan dyra. Ein algengasta stofuplantan af ætt fíkjutrjáa er benjamínfíkus (Ficus benjamina) sem er þjóðartré Tælands og getur þar orðið allt að 30 metrar á hæð. Til eru ótal ræktunarafbrigði af benjamínfíkus. Sennilega hafa flestir Íslendingar séð þessi tré. Annað hvort sem stofublóm eða sem götutré á Tenerife. Ekki er þó alveg víst að fólk átti sig alveg á því að þetta eru sömu tegundirnar.


Þrjár myndir af benjamínfíkus af Wikipediasíðu sem tileinkuð er tegundinni. Fyrsta myndin sýnir dæmigerð lauf tegundarinnar. Miðmyndin sýnir götutré á Tenerife. Síðasta myndin sýnir vinsælt ræktunarafbrigði með flikróttum laufum.


Önnur tegund fíkjutrjáa er einnig mjög algengt stofublóm en færri átta sig á því að það er fíkjutré. Það er Ficus elastica sem oftast gengur undir nafninu gúmmítré. Það er ekki beinlínis upplýsandi nafn enda er það ekkrty skylt gúmmítrjám. Íslenski íðorðabankinn kallar plöntuna stofufíkus. Hér má lesa um gúmmítré.

Til eru fleiri tegundir fíkjutrjáa sem nýtt eru sem stofublóm á Íslandi enda af nægu að taka.


Ficus elastica er algengt stofublóm á Íslandi.


Blómin

Eins og að framan greinir geta fíkjutré verið ákaflega ólík í vaxtarlagi. En af hverju eru þau samt öll sett í sömu ættkvíslina? Því veldur hin furðulega blómgun. Það verður að teljast nær útilokað, lesandi góður, að þú munir nokkurn tímann sjá blóm fíkjutrés. Trén mynda samt blóm. Þau eru inni í litlum grænum kúlum (sem eru í raun ummyndaðar greinar) sem vaxa í knippum á örsmáum greinum út úr stofni trjánna. Ef frjóvgun tekst verða kúlurnar síðan að eins konar aldinum þegar fram líða. Í hverri kúlu er mikill fjöldi blóma. Stundum svo hundruðum skiptir Þau eru pínu lítil og koma aldrei undir bert loft. Það vekur auðvitað upp spurninguna: Hvernig fer frjóvgun fram?

Fíkjur að þroskast á F. oppositifolia. Sjá má ltilu götin í enda fíkjanna.


Á hverri kúlu er örsmátt gat. Sérstakar tegundir af vespum, svokallaðar fíkjuvespur, sækja í þessi göt. Þær fljúga um og hafa það eina markmið að finna þessar litlu kúlur. Fíkjuvespurnar eru aðeins um 2 mm að stærð, oftast svartar að lit og af ætt hnúðvespa. Aðeins kvenvespurnar hafa vængi og geta flogið. Það eru því alltaf kvendýr sem setjast á blómkúlurnar og eru þá þegar frjóvgaðar og bera að auki með sér mikið magn af frjódufti frá öðru fíkjutré. Þær þurfa að troða sér í gegnum gatið og við það missa þær oftast vængina svo þær eiga ekki afturkvæmt úr litlu, grænu kúlunum. Þarna inni er lítið hringlaga hólf og fullt af litlum blómum í myrkrinu. Næst innganginum eru karlblóm. Þegar kvenflugan skríður inn eru karlblómin enn óþroskuð og mynda því ekki frjó. Vespan fer nú að dreifa frjóduftinu sem hún hafði meðferðis yfir kvenblómin og frjóvga þau. Síðan verpir hún eggjum sínum í blómin. Eitt egg í hvert blóm. Blómin eru samt miklu fleiri en egg vespunnar svo ekki er líklegt að öll blómin fái egg. Það er eins gott fyrir fíkjurnar því þegar eggin klekjast út skríða úr þeim pínu litla lirfur sem éta fræið. Til vonar og vara hafa flestar fíkjutegundir slegið merkilegan varnagla til að koma í veg fyrir að vespurnar verpi í öll blómin. Varnaglinn er sá að blómin eru af þremur gerðum. Ein tegund af karlblómum og tvær tegundir af kvenblómum. Karlblómin bera fræfla eins og vera ber en tvenns konar kvenblóm bera frævur. Sum kvenblómin eru með löng blóm en önnur með stutt blóm. Litlu vespurnar hafa ekki nægilega langa varppípu til að verpa í löngu blómin. Það tryggir að alltaf verða til blóm án lirfa. Þeim blómum er ætlað að koma erfðaefninu til næstu kynslóða en hinum er fórnað í launakostnað fyrir svangar vespulirfur.


Þroskuð aldin af fíkjum, F. carica. sjá má hvar vespan, eða vespurnar fóru inn í myrkvaða kúluna neðst á fíkjunni til vinstri.


Eftir að vespan hefur verpt er hlutverki hennar lokið og hún drepst. Lirfan þroskast í blóminu , ein í hverju blómi, og myndar púpu. Úr púpunni skriður örsmátt skordýrið. Kvenvespurnar eru aldrei færri en 50% afkvæmanna en stundum allt að 95%. Karlvespurnar fara aldrei yfir 50% fjöldans og stundum eru þær einungis 5% af heildarfjöldanum. Ástæða þessa er sú að úr frjóvguðum eggjum koma alltaf kvenvespur en úr ófrjóvguðum eggjum koma karlvespur. Svo er að sjá sem kvenvespurnar geti sjálfar ákveðið hvort þær frjóvgi öll eggin sem þær bera og stjórnað því á einhvern hátt hversu mörg eggjanna sem hún verpir séu ófrjóvguð og verði að karldýrum. Ef hún er eina vespan í aldininu (grænu kúlunni) þarf hún ekkert að búa til marga karla. Einn á móti hverjum tuttugu dugar alveg til að frjóvga allar kvenvespurnar sem úr eggjunum koma og eftir því sem kvendýrin eru fleiri, þeim mun fleiri geta flogið út og komið að næstu kynslóð. Ef fleiri vespur eru á sama tíma inni í kúlunni gæti borgað sig að fjölga körlunum til að koma erfðaefninu áfram til næstu kynslóðar í gegnum kvenafkvæmi hinna vespanna. Ef sex eða fleiri vespur komast inn í grænu kúluna frjóvga þær aðeins um helming eggjanna sem þær verpa. Þá geta þeirra synir frjóvgað meira af eggjum hinna vespanna og þannig komið meira af þeirra erfðaefni til næstu kynslóðar.

Kvenkyns fíkjuvespur að sinna starfi sínu.


Karlarnir þroskast fyrr og skríða út úr blóminu (en ekki út úr grænu kúlunni) á undan kvenflugunum. Þeir eru blindir og vænglausir og minna satt að segja meira á orma en vespur. Þeir hefjast þegar handa við að leita sér að kvenflugu. Karlinn nagar lítil göng í átt að næstu kvenflugu og þar eðla þau sig. Svo leitar hann uppi fleiri kvenflugur. Þar sem karlvespurnar eru bæði blindir og vænglausir hafa þeir ekkert að gera undir berum himni. Þeir drepast þarna inni þegar hlutverki þeirra er lokið. Kvenflugurnar geta nú skriðið út úr blómum sínum og þurfa þá að skriða yfir karlblómin sem eru næst litla gatinu á grænu kúlunni og safna þar frjódufti sem þær bera með sér. Síðan fljúga þær út í frelsið til þess eins að finna aðra græna kúlu með blómum. . .

Þetta kerfi hentar bæði vespunum og fíkjunum. Vespurnar fá öruggt skjól til að vaxa og þroskast með næga fæðu fyrir hverja og eina lirfu. Fíkjurnar leggja til þessa fæðu en þess í stað bera vespurnar frjóduft á fræni blómanna í öðrum trjám. Að auki er gróðinn í því fólginn að þau blóm sem ekki er verpt í verða að fræjum inni í kúlunum sem þroskast í fíkjur.




Tegundir

Hingað til hafa aðeins fáeinar tegundir af fíkjutrjám verið nefndar í þessum pistli. Ekki er ætlunin að nefna þær allar. Fyrir því liggja gildar ástæður og verður nú greint frá þeim.

Samtals eru til yfir 750 tegundir af fíkjutrjám. Það er t.d. mun meira en fjöldi eikartrjáa svo dæmi sé tekið. Til að skoða hversu margar tegundir eru til af ákveðnum ættkvíslum trjáa og blóma hefur sá er þetta pikkar vanið sig á að skoða hvað grasafræðingarnir við Kew Gardens hafa um málið að segja. Þeir halda úti síðu um plöntunöfn sem heitir einfaldlega The Plant List. Á listanum eru gefin upp hvorki meira né minna en 3629 nöfn á fíkjum (Ficus). Sum þeirra eru óstaðfest, önnur samheiti en ef þú, lesandi góður, vilt vita nákvæman fjölda þá getur þú talið samþykkt nöfn (Accepted). Hér má sjá þennan lista


Við getum einnig bara haldið okkur við það að tegundirnar séu rúmlega 750 og getum vonandi verið sammála um að það þjóni ekki tilgangi að nefna þær allar í svona pistli. Af öllum þessum fjölda hafa 24 hlotið íslensk nöfn og má sjá þau með því að slá inn leitarorðið Ficus í leitargluggann.


En ekki er öll sagan sögð. Hver tegund af fíkjum treystir á eina tegund af vespum og hver tegund af þeim leitar aðeins uppi eina tegund af fíkjutrjám. Vespurnar eru að vísu mjög líkar útlits en DNA greining staðfestir að fyrir hverja tegund af fíkjutrjám er ein tegund af vespum. Á þessu eru aðeins örfáar undantekningar. Fáeinar vespur sækja í fleiri en eina tegund og fáeinar fíkjutegundir nýta þjónustu fleiri en einnar tegundir af vespum (sem þurfa ekki endilega að vera náskyldar). Þetta stendur nokkuð á endum, þannig að fyrst til eru rúmlega 750 tegundir af fíkjutrjám eru líka til rúmlega 750 tegundir af fíkjuvespum! Þetta er mjög mikilvægt fyrir samvinnu þessara tegunda. Ástæðan er sú að í hitabeltinu, þar sem flestar fíkjurnar er að finna, getur verið mjög langt á milli einstaklinga af sömu tegund. Á milli þeirra geta þó verið margar aðrar skyldar tegundir af sömu ættkvísl en þær nýtast ekki vespunum. Því hætta þær ekki leitinni fyrr en rétt tegund finnst. Ef vespurnar gætu nýtt sér fleiri tegundir gæti hreinlega tekið fyrir frjóvgun. Þá þyrftu þær ekki lengur að fara á milli trjáa af sömu tegund og frjóið bærist þá ekki á rétt blóm.


Eldgömul mórfíka, F. sycomours með holan stofn. Á ensku kalast mórfíkja sycamore tree eða sycamore fig.

Heimild: Wikipedia.

Þessi samvinna hefur staðið yfir í óratíma. Það sést meðal annars á því að erfðafræðirannsóknir sýna, svo ekki verður um villst, að það er ekki nóg með að öll fíkjutrén eiga sér sameiginlegan forföður, heldur á það einnig við um vespurnar. Þannig að í hvert skipti sem til varð nýtt afbrigði af fíkjutrjám sem þróast gat í nýja tegund, þá átti það sama við um vespurnar. Vilmundur Hansen skrifaði grein um fíkjur í Bændablaðið árið 2017 og þar segir að þetta samstarf hafi þróast í meira en 80 milljón ár.


Aldin að þroskast á F. hispida. Mynd frá Wikipediu.


Það sem virðist halda þessu kerfi gangandi er sú staðreynd að þroski fíkjanna á sér ekki endilega stað á sama tíma. Því er það svo að þegar ein tegund af vespum flýgur á milli trjánna þá er líklegt að bara ein tegund af fíkjum sé tilbúin að taka á móti þeim. Þar sem þroski hverrar vesputegundar fellur saman við þroska hverrar fíkjutegundar á hver vesputegund engra kosta völ. Hún verður að finna rétta tegund af fíkjutrjám.


Þar með er ekki öll sagan sögð. Allt bendir til að hverja og eina vesputegund hrjái ein tegund af sníkjudýrum af ætt þráðorma (Nematode). Það er í raun vel skiljanlegt því þroski hverrar vesputegundar fyrir sig er frábrugðin öllum öðrum vespum, enda stillt inn á þroska ákveðinnar fíkjutegundar. Þar með verður þroski hvers þráðorms að taka mið af þroska vespanna. Það gerir þá svo sérhæfða að þeir lifa ekki af nema þeir finni rétta vesputegund. Því er það svo að til eru 750 tegundir af sníkjuþráðormum sem hrjá 750 vesputegundir sem háðar eru 750 tegundum af fíkjutrjám.


Dreifing fræja

Til að fíkjutré geti dafnað dugar ekki að hafa bara ævarandi samband við fíkjuvespur. Þau þurfa einnig þjónustu frá fleiri dýrum. Þar er fjölbreytnin mun meiri en við frævunina.


Simpansi í Úganda situr við veisluborð og étur fíkjur.

Fjölmörg dýr éta fíkjur og sum þeirra dreifa fræjunum í leiðinni. Mun fleiri dýr eru þó háð fíkjum en þau sem skila af sér fræjum. Það eru einkum tveir hópar dýra sem eru í þjónustu fíkjutrjáa við þessa iðju. Annars vegar ýmsar tegundir fugla og hins vegar ávaxtaleðurblökur. Hægt er að sjá á útliti fullþroskaðra fíkja hvorn hópinn þær treysta á til að dreifa fræjunum. Fuglar treysta mjög á sjón sína við að finna sér æti og rauðir litir eru sérlega áberandi í þeirra augum. Því er það svo að þau fíkjutré sem bera rauðar eða rauðleitar fíkjur treysta á fugla. Leðurblökurnar eru næturdýr. Á næturnar er mun erfiðara að greina liti og leðurblökur treysta meira á bergmálsmið en litasjón til að finna æti. Því er það svo að þau fíkjutré sem treysta á ávaxtaleðurblökur hafa ekki fyrir því að gera þær áberandi rauðar. Þeirra fíkjur eru einfaldlega grænar eða ljósar.

Mynd fengin af Facebooksíðu Chien Lee Wildlife Photography sýnir leðurblöku nálgast fíkjur. Með því að smella hér má sjá leðurblökuna með ávöxt erfiðisins.


Til eru fleiri dýr sem dreifa fræjum fíkjutrjáa. Á Madagaskar eru það aðallega lemúrar sem sjá um þennan þátt.


Fyrst við erum að nefna liti á fíkjum getum við ekki látið hjá líðast að nefna að svokallaðar gráfíkjur eru einfaldlega þurrkaðar fíkjur. Við þurrkunina glata þær lit sínum og verða gráleitar.

Þurrkaðar fíkjur kallast gráfíkjur.


Mikilvægi fíkjutrjáa

Fíkjutré eru mjög mikilvæg fyrir þau vistkerfi sem þau lifa í. Áður hefur verið nefnt að þær mynda svala skugga sem bæði menn og dýr sækja í. Mikilvægi þeirra er þó ekki síður það að mynda fæðu fyrir mikinn fjölda dýra. Ljósasta dæmið um það er að finna í Panama. Þar vex ótrúlegur fjöldi ávaxtatrjáa. Þau eiga það öll sameiginlegt að framleiða ávexti á ákveðnum tímum árs. Þá er veisla hjá þeim dýrum sem lifa á þeim. Þess á milli getur hungrið sorfið að ef ekkert annað er að hafa. Þá koma fíkjutrén sterk inn. Hver tegund myndar fíkjur á mismunandi tímum þannig að allt árið um kring er hægt að finna einhverjar fíkjur. Stundum eru það einu ávextirnir sem hægt er að finna á þessum slóðum. Það er því ótrúlegur fjöldi dýra sem treystir á fíkjutré sér til viðurværis.


Horft upp eftir fíkjutré.

Mynd: Marek Laciný


Þar sem pistill þessi birtist á fæðingarhátið frelsarans er rétt að enda hann með fleiri tilvitnunum í Biblíuna. Í henni kemur fram að á kraftaverkatímum bera fíkjutré ávöxt í hverjum mánuði. Ef til vill er því tími kraftaverka ekki liðinn í Panama.

Í 11. kafla Markúsarguðspalls segir frá því að Jesús var svangur. Eins og títt er um fólk var hann að sjálfsögðu pirraður þegar hann var svangur. „Á leiðinni frá Betaníu morguninn eftir kenndi Jesús hungurs. Þá sá hann álengdar laufgað fíkjutré og fór að gá hvort hann fyndi nokkuð á því. En þegar hann kom að því fann hann ekkert nema blöð enda var ekki fíknatíð. Jesús sagði þá við tréð: „Enginn neyti framar ávaxtar af þér að eilífu!“ Þetta heyrðu lærisveinar hans.“

Skömmu síðar segir í sama kafla: Árla morguns fóru þeir hjá fíkjutrénu og sáu að það var visnað frá rótum. Pétur minntist þess sem gerst hafði og segir við hann: „Meistari, sjáðu! fíkjutréð, sem þú formæltir, er visnað.“


Eins gott að Guðssonurinn gekk um Palestínu en ekki Panama.


F. citrifolia á eyjunni Martinique.


Helstu heimildir


Colin Tudge 2007: The Tree: A Natural History of What Trees Are, How They Live, and Why They Matter. (þetta er megin heimildin)


Stirling MaCoboy 1991: What Tree is That? Bls. 133-135 Crescent Books.


Biblían (höfundur ókunnur); Fyrsta Mósebók, 3. kafli. https://biblian.is/biblian/fyrsta-mosebok-3-kafli/?hilite=h%C3%B6ggorm


Vilmundur Hansen 6. október 2017 Fíkjur – kóngaspörð með blómafyllingu. Á vef Bændablaðsins.


Marek Laciný munlegar upplýsingar og lán á myndum


Wikipedia.com


Íðorðabanki Árnastofnunar https://idordabanki.arnastofnun.is/leit/


Viðauki

Hvar má finna umfjöllun um fíkjur og fíkjutré í Biblíunni? Með því að slá inn leitarorðið „fíkju“ í leitargluggann á https://biblian.is/biblian/ fengust bæði fíkjur og fíkjutré í köflunum sem sjá má í stafrófsröð hér að neðan. Alls eru þetta 45 kaflar. Með því að setja bendilinn yfir nöfn kaflanna má sjá slóð á kaflana.


437 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page