Snípur í skógi
- Sigurður Arnarson
- 12 minutes ago
- 19 min read
Skógar á Íslandi eru af mörgum stærðum og gerðum og lífríki þeirra er fjölbreytt. Mismunandi skógar fóstra mismunandi líf og þar með mismunandi fugla. Meðal þeirra fugla sem finna má í íslenskum skógum eru þrjár tegundir sem tilheyra svokölluðum snípum. Einn af þessum fuglum á sér nafnið mýrisnípa en hann er miklu betur þekktur undir nafninu hrossagaukur. Hann velur sér gjarnan skóga sem búsvæði og er alveg sérstaklega hrifinn af kjarrskógum og vel grisjuðum og opnum skógum þar sem finna má rjóður og mikla fjölbreytni. Hrossagaukur er einnig að finna utan skóga, til dæmis í mýrum, enda telst hann til vaðfugla. Hann er mjög algengur á láglendi um land allt en sjaldgæfur til fjalla. Í pistli dagsins fjöllum við um þennan skógarfugl og hvernig skóga hann kýs sér. Einnig fjöllum við um náskylda ættingja hans. Annar þeirra, dvergsnípan, er gjarnan vetrargestur á landinu en hinn, skógarsnípa, telst nú til íslenskra varpfugla. Þökk sé skógum landsins.

Útlit
Hrossagaukur er enginn sérstakur felufugl þegar hann flýgur um og gefur frá sér sín áberandi hljóð. Það breytist þegar hann sest á jörðina. Hann er í mjög góðum felulitum og fellur vel að umhverfi sínu þegar hann er ekki á flugi. Hann dylst oft í þéttum gróðri og þá getur verið erfitt að koma auga á hann. Hann er í brúnum og ryðbrúnum litum, nema hvað kviðurinn er mjög ljós. Á baki og höfði eru mógular rákir og dökkar kollrákir eru á höfði. Þetta myndar afbragðsgóða feluliti og á hreiðri getur verið ákaflega erfitt að koma auga á hann. Langrendur á baki eru einkennandi fyrir fuglinn og hið langa, beina nef kemur alltaf upp um tegundina. Fæturnir eru stuttir en tærnar fremur langar. Stundum er eins og nef og tær séu heldur í stærra lagi fyrir þennan fugl.

Hnegg
Eins og önnur hross geta hrossagaukar hneggjað. Nafnið á honum er án efa dregið af þessu hljóði. Hann er jú kenndur við hross. Þetta ljúfa hnegg gleður marga á Íslandi og í huga margra skiptir miklu máli hvaðan fyrsta hnegg vorsins kemur, enda telst hrossagaukurinn vera spáfugl. Nánar um það í sérstökum kafla. Hvernig hrossagaukurinn hneggjar vafðist lengi vel fyrir fólki. Nú er talið víst að hljóðið sé framkallað með stélfjöðrunum. Í öllum tilfellum er það karlfuglinn sem hneggjar. Þegar hann gerir það hnitar hann hringi yfir óðali sínu. Hann flýgur fyrst nokkuð bratt upp og lætur sig svo falla í átt að jörðu í um 45° horni og sperrir þá ystu stélfjaðrirnar út. Á sama tíma er hann með svo stutt og hröð vængjatök að það er eins og vængirnir titri. Hin hröðu tök kljúfa loftstrauminn 11 sinnum á hverri sekúndu og loftstraumurinn, sem titringurinn myndar, leikur um stélfjaðrirnar sem þá mynda þetta hljóð. Það má segja að stélið sé hljóðfærið en á það spilar fuglinn með vængjunum (Guðmundur Páll 2005 og Hjálmar R. 1986). Í upphafi varptímans flýgur fuglinn um nokkuð stórt svæði og hringurinn getur verið allt að hálfur kílómetri í þvermál. Smám saman minnkar hringurinn yfir hreiðrinu. Eftir að varptíma lýkur hættir hrossagaukurinn alfarið þessu flugi. Stundum gerist það, einkum ef varp fyrirferst, að fuglarnir verpa aftur og þá hefur karlinn aftur þetta hringflug sitt með tilheyrandi hneggi.

Spáfugl
Það er gömul þjóðtrú að hrossagaukurinn sé spáfugl. Í bók sinni Íslensku fuglarnir og þjóðtrúin gefur Sigurður Ægisson (2020) fjölmörg dæmi um þessa gáfu. Í bókinni hefur hann eftirfarandi eftir Jónasi Jónassyni á Hrafnagili. „Hrossagaukurinn er spáfugl meðal Íslendinga, því að bæði eru öll vorharðindi búin, þegar hann fer að hneggja á vorin, þó að það bregðist nú stundum, og svo er annað merkisatriði sem gerir hann að spáfugli. Það er það, í hvaða átt maður heyrir hann hneggja í fyrsta sinn á vorin.“
Þarna koma fram tvö merkileg atriði sem eru nokkuð þekkt og varða spádómsgáfu hrossagauks. Hið fyrra er að hætta á vorhretum sé liðin þegar hann byrjar að hneggja. Svo er þessi varnagli, að spáin gangi ekki alltaf eftir, býsna merkilegur. Sennilega á hann við um ýmsa spádóma og því best að slá þá sem víðast. Þó nefnir Sigurður nokkuð mörg dæmi um þessa þjóðtrú. Seinna atriðið er sennilega það sem frægast er og varðar spásagnargáfu fuglsins. Það skiptir höfuðmáli úr hvaða átt fyrst heyrist til gauksins á vorin. Samkvæmt bók Sigurðar eru ýmsar útgáfur til á þessari þjóðtrú. Ein er sú að veðráttuna megi ráða af því úr hvaða átt hans fyrsta hnegg heyrist á vorin. Ef hann hneggjar fyrst í suðri, þá spáir hann góðu veðri næstu vikurnar en ef hann hneggjar í norðri verður vorið kalt.
Auðvitað hafa Íslendingar bundið þessa spádómsgáfu í stuðla. Eins og vænta má eru svona vísur til í nokkrum útgáfum en Sigurður (2020) birtir eftirfarandi vísu í riti sínu og hefur hana eftir Jóni Árnasyni.
Í austri ununar gaukur [aðrir: auðs gaukur],
í suðri sæls gaukur,
í vestri vesals gaukur,
í norðri námsgaukur.
Uppi er auðs gaukur [aðrir: ununar gaukur],
niðri er nágaukur.
Áður en fólk fer á límingunum af hræðslu við að heyra hnegg í nágaukum undir fótum sér er rétt að minna á hvernig hljóðið er myndað. Því er lýst hér að ofan. Það er harla ólíklegt að hrossagaukur geti steypt sér undir fólk til að hneggja, jafnvel þótt það sé alveg bráðfeigt.
Í títtnefndri bók Sigurðar kemur fram að hrossagaukar í útlöndum virðast ekki búa yfir sömu hæfileikum til spádóma sem rekja má til þess úr hvaða átt heyrist í honum. Aftur á móti er allsendis óskyldur fugl til sem hefur keimlíka hæfileika. Það er sjálfur gaukurinn (Sigurður 2020). Vel má vera að í þessu tilfelli gildi hið fornkveðna: Að fjórðungi bregði til nafns.
Við þetta má bæta að því var einnig trúað að hrossagaukur geti spáð fyrir um vætutíð og sitthvað fleira. Samsvarandi trú má finna víðar í germönskum löndum og þeir sem vilja fræðast um það er bent á bók Sigurðar frá árinu 2020.

Fjöldi
Hrossagauksstofninn á Íslandi er talinn stór og traustur. Kristinn Haukur Skarphéðinsson (2018-a) segir á vef Náttúrufræðistofnunar að áætlað sé að á Íslandi séu yfir 300.000 varppör. Annars má finna tegundina sem varpfugl í öllum heimsálfum nema í Ástralíu og á Suðurskautslandinu samkvæmt því sem Guðmundur Páll (2005) sagði árið 2005. Sennilega hefur þessum fuglum verið skipt upp í fleiri, skyldar tegundir frá því að sú bók var gefin út því á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands segir að fuglinn verpi í Evrópu og Asíu, allt austur til Kyrrahafs. Heildarstofninn í heiminum er talinn mjög sterkur.

Er hrossagaukur skógarfugl?
Þegar talað er um skóga á Íslandi er gjarnan allt skóglendi talið, bæði kjarr og skógar. Þannig er hægt að koma tölunni yfir skóga á Íslandi upp í 2% þekju landsins þótt kjarrskógarnir nái ekki alþjóðlegum viðmiðum um skóga.
Árið 2002 var varpþéttleiki mó- og skógarfugla rannsakaður á Héraði. Var rannsóknin partur af stærri rannsókn sem kallast Skógvist. Skoðuð voru mismunandi gerðir búsvæða eins og sjá má á meðfylgjandi töflu. Talið var á nokkrum stöðum fyrir hverja gerð búsvæða en öll voru svæðin austan megin Lagarfljóts. Í fyrsta lagi var um að ræða opið land sem kallast Mói í töflunni. Birki-1 er gamall birkiskógur en Birki-2 er birkikjarr. Munurinn á lerkiskógunum ræðst af aldri þeirra. Lerki-1 var 7 til 12 ára gamalt. Þar voru krónur trjánna ekki farnar að vaxa saman og botngróður var ekki tekinn að breytast frá gróðursetning. Má af þessu ráða að þetta sé sú vist sem líkust er opna mólendinu. Lerki-2 var 17 til 23 ára gamalt og krónurnar trjánna náðu orðið saman. Lerki-3 var elsta lerkið. Það var 33 til 47 ára gamalt þegar rannsóknin var gerð. Höfðu þeir skógar verið grisjaðir og voru nokkuð opnir þegar talið var (Ólafur 2003). Skýrsluna má sjá hér. Er hún hin fróðlegasta og fjallað er um nokkrar fuglategundir sem við sleppum í þessari umfjöllun. Í töflunni hér að neðan eru aðeins dregnar út upplýsingar um hrossagaukinn.

Við þessar tölur má bæta upplýsingum sem Kristinn Haukur Skarphéðinsson (2018-a) setti fram á vef Náttúrufræðistofnunar. Þar segir hann að mestur þéttleiki tegundarinnar sé í mýravist. Þar má finna 21,3 pör/km², næst kemur graslendi með 19,7 pör/km² og þar á eftir lúpína með 19,5 pör/km². Þessar tölur eru allar lægri en Ólafur gefur upp í móavist (36 pör/km²) og miklu minni en í birkikjarri. Hvernig á þessum mun stendur vitum við ekki. Sjálfsagt eru þetta meðaltöl yfir margar rannsóknir á misjöfnum tíma og mismunandi landshlutum og óvíst er hvort aðferðafræðin sé sú sama fyrst svona miklu munar.

Samkvæmt Guðmundi Páli (2005) er varpið þéttast í Flatey á Breiðafirði. Þar eru um 160 pör/km². Ekki einu sinni birkikjarrið hefur jafn marga hrossagauka á flatareiningu eins og finna má í Flatey.
Samkvæmt ofangreindum tölum er ekki annað hægt en að líta á hrossagauk sem skógarfugl. Á Héraði er hann helst að finna í kjarrskógum og þroskuðum og vel grisjuðum skógum. Samkvæmt töflunni hér að ofan er einnig meira af hrossagaukum í ógrisjuðum lerkiskógum á aldrinum 17 til 23 ára en í hefðbundnu mólendi. Í slíkum skógum má búast við að finna tvö óðul fyrir hvert eitt sem finna má í mólendi, ef marka má rannsóknina sem hér er vísað í. Niðurstaðan hlýtur því að vera sú að hrossagaukur telst til skógarfugla þótt hann finnist einnig víða utan skóga.

Farflug
Flestir hrossagaukar fljúga af landi brott á haustin til heitari landa. Þó ekki allir. Fáeinir fuglar þreyja þorrann og góuna á Íslandi í flestum landshlutum.
Því má á vetrum sjá stöku hrossagauka við lindarlæki í skógum (Einar og Daníel 2006). Farfuglarnir fljúga til Vestur-Evrópu. Algengast er að íslenskir fuglar fljúgi til Írlands. Þar virðast þeir fyrst og fremst dveljast við og í mýrlendi á vetrum.
Fyrstu farfuglarnir koma til landsins um miðjan apríl. Þeir eru fastheldnir á fornar slóðir og sýna fornum varplöndum sínum mikla tryggð (Guðmundur Páll 2005).

Varp
Sá sem þetta ritar hefur stundum gengið fram á hrossagauk á hreiðri. Þar situr kvenfuglinn á eggjum sínum og treystir á felulitina. Hann flýgur ekki upp fyrr en komið er nánast alveg upp að hreiðrinu. Þá gefur hann frá sér mikla skræki og flýgur nánast lóðbeint upp með miklum fyrirgangi. Hjálmar R. Bárðarson (1986) líkir þessum hljóðum við ískur í skærum og verður það að teljast vel heppnuð líking. Það er segin saga að ritara þessa pistils bregður jafnmikið í hvert skipti sem þetta hendir. Breytir þá engu hvort hann veit af hreiðrinu eður ei. Hann er reyndar sannfærður um að ef fugl yrði honum að aldurtila yrði það hrossagaukskerling að fljúga undan fótum hans af hreiðri og ylli með því hjartaáfalli. Það er ekki útilokað að hross hafi einnig fælst svona háttalag með tilheyrandi hættu fyrir knapa. Tilhugalífið hefst á vordögum en talið er að ekki sé gengið frá hjúskap fyrr en hreiðurstaður hefur verið valinn. Á þeim tíma heyrist mikið í hrossagauknum en þegar líður á sumarið dregur hann úr hljóðunum, enda mikilvægt að draga ekki afræningja að eggjum og ungum.
Almennt er talið að hrossagaukar séu sérlega lauslátir fuglar. Á það við um bæði kynin. Eftir að kvenfuglinn er lagstur á heldur karlfuglinn gjarnan áfram kvennafari sínu (Guðmundur Páll 2005). Það er kvenfuglinn sem sér um hreiðurgerð og útungun. Hreiðrið er vel falið. Það er gjarnan á milli þúfna eða inni í runnum. Fuglinn verpir fjórum eggjum og útungun tekur um 18 til 20 daga. Ef varp misferst eiga hrossagaukar það til að verpa aftur.

Ungauppeldi
Eftir að ungar skríða úr hreiðri er sambúð foreldranna slitið. Ungarnir eru til í að yfirgefa hreiðrið nær strax og þeir eru orðnir vel þurrir. Þá er afkvæmunum skipt á milli foreldranna. Sennilega eykur það líkurnar á því að einhver unganna komist upp ef þeir eru ekki allir saman. Eftir þessa skiptingu má karlfuglinn ekki lengur vera að því að fljúga hringflug með tilheyrandi hneggi. Ungarnir eru bráðþroska og uppeldið tekur ekki langan tíma. Foreldrarnir fóðra þá í um eina til tvær vikur og um mánaðargamlir verða þeir fleygir og sjá um sig sjálfir eftir það.

Fæða og vist
Hjálmar R. Bárðarson (1986) segir í bókinni Fuglar Íslands að fremri hluti hins langa og beina goggs, sem fuglinn skartar, sé mjúkur og mjög næmur. Oft má sjá hrossagauka pota nefinu í votan og mjúkan jarðveg og hjakka með því í sama farinu. Þá tínir hann upp allskonar hryggleysingja eins og orma, lirfur, snigla og köngulær. Allt sem snertir þetta sérlega næma nef virðist hann gleypa án mikillar fyrirhafnar og án þess endilega að draga nefið upp úr jarðveginum. Hann er einnig talinn éta eitthvað af jurtafæðu. Þessa fæðu er bæði að finna í mýrum og skógum. Skógarskjólið skilar oft rakari jarðvegi en finna má á berangri og kann það að eiga þátt í því að hrossagaukurinn sækir í skóga. Hér ofar segir frá því að á vetrum dvelst stærsti hluti stofnsins í og við mýrlendi á Írlandi. Þar er ekki að finna neina kjarrskóga handa hrossagaukum. Aftur á móti má vænta þess að þar sé meira um skógarfugla en hér á landi. Oft er það þannig í dýraríkinu að bæði fuglar og önnur dýr taka yfir þá vist sem þeim hentar. Ef önnur dýr birtast, sem ef til vill eru betur aðlöguð þeirri vist, kemur það fyrir að þau dýr sem fyrir voru hrekjast í burtu. Ef til vill er það svo að hrossagaukur sækir í skóga á Íslandi vegna þess að aðrar skyldar fuglategundir, sem hugsanlega eru betur aðlagaðar slíkri vist, hafa ekki numið land eða eru enn mjög fáliðaðar. Því er rétt að skoða þá fugla aðeins nánar og við gerum það hér aðeins neðar. Við vitum ekki hvort fjölgun þeirra kunni að hafa áhrif á stofnstærð hrossagauks. Ef skógar landsins stækka, eins og vonir eru bundnar við, eru litlar líkur á því.

Hægt er að fylgjast með hrossagaukum úr fuglahúsum við tjarnir og mýrar en þeir eru í ákaflega góðum felulitum. Því sjást þeir varla nema þegar þeir afla sér fæðu eða koma sér fyrir á útsýnisstöðum.
Frændgarðurinn
Hrossagaukur, Gallinago gallinago, tilheyrir hópi fugla sem kallast snípur eins og segir í inngangi. Eins og svo algengt er með dýr og plöntur er íslensk heiti gjarnan mynduð með heiti sem vísar í ættkvíslina eða hópinn og við það er gjarnan skeytt forskeyti sem vísar í eitthvert sérkenni. Má nefna að flestar víðitegundir, Salix spp, falla undir þetta. Þá verða til heiti eins og loðvíðir, gulvíðir og alaskavíðir, svo dæmi séu nefnd. Þetta er þó ekki algilt með víðinn frekar en aðrar ættkvíslir. Tegundirnar selja og viðja eru víðitegundir sem ekki falla undir þessa reglu.
Svipaða sögu er að segja af snípunum, nema hvað þær þrjár tegundir sem hér hafa sést tilheyra þremur, skyldum ættkvíslum en ekki einni. Algengasta tegundin heitir hrossagaukur, en til eru önnur heiti eins og mýrisnípa. Fellur það betur að reglunni en hrossagauksheitið (sem vísar í allt annan hóp fugla; gauka) hefur unnið sér þegnskyldurétt. Aðrar sníputegundir, sem reynt hafa hér landnám, hafa hlotið heiti sem falla betur að nafnakerfinu. Það eru skógarsnípa, Scolopax rusticola, og dvergsnípa, Lymnocryptes minimus. Við verðum líka að geta þess að af sömu ætt, snípuætt eða Scolopacidae eru fleiri fuglar á Íslandi sem við fjöllum ekki um í þessum pistli. Þeir eru væntanlega fjarskyldari þeim snípum sem hér er rætt um. Þetta eru fuglar eins og lóuþræll, sendlingur, tildra, spói, jaðrakan, stelkur og óðinshani. Er þó ekki allt upp talið (Jóhann Óli 2011). Sá síðasttaldi er með svipaðar rákir á baki og dvergsnípan og hrossagaukurinn, en annars eru þessir fuglar ekkert mjög líkir þessum snípum sem við fjöllum um.

Skyldar snípur
Fuglum af snípuætt er gjarnan skipt í minni hópa. Einn hópurinn kallast snípur og er talið að innan hans séu um 25 tegundir af þremur ættkvíslum. Þær eiga allar einn fulltrúa sem sjá má reglulega á Íslandi. Tvær skyldar tegundir, sem berast hingað reglulega, halda sig í svipuðu kjörlendi og hrossagaukurinn. Vel má vera að þar sem þær eru fáliðaðar ennþá sé nægilegt pláss í skógunum fyrir hrossagaukinn. Þessar tvær tegundir heita skógarsnípa og dvergsnípa. Dvergsnípan hefur fyrst og fremst sést hér á landi sem sjaldséður gestur í skógum á vetrum. Öðru máli gegnir um skógarsnípuna. Hún hefur verið grunuð um að verpa hér á landi frá því á áttunda áratug síðustu aldar. Skógarsnípur hafa til dæmis margoft sést í söngflugi yfir óðali sínu á vorin við Ásbyrgi og víðar. Fyrsta staðfesta dæmið um að hún hafi verpt hér á landi var í Skorradal (Einar og Daníel 2006). Fuglaáhugamaðurinn Gaukur Hjartarson (2025) hefur frætt okkur á því að óhætt sé að fullyrða að skógarsnípa teljist nú til íslenskra varpfugla. Sama segir Jóhannn Óli (2011) í sínu gagnlega riti.

Þótt hrossagaukar sjáist oft í gisnu skóglendi og finnist jafnvel í meira mæli í þannig vist en í hefðbundinni móa- og mýravist, þá er skógarsnípan eindregnari skógarfugl. Að sögn Einars og Daníels (2006) er hana að finna í eldri og þéttari skógum en hrossagauk og dvergsnípu. Skógarsnípa finnst einnig dýpra í skóginum á meðan hrossagaukurinn er meira í skógarjöðrum eða við stór rjóður og í kjarrlendi eða víðiflákum við mýrar.

Allir þessir fuglar afla sér fæðu á svipaðan hátt. Þeir stinga löngu nefi sínu í raka jörð, gjarnan mýrar, og draga upp maðka skordýralirfur eða aðra hryggleysingja eins og lýst er hér að ofan þegar fjallað var um hrossagaukinn.
Snípurnar eiga það allar sameiginlegt að treysta svo mjög á felulitina að þær fljúga ekki upp fyrr en komið er nánast alveg að þeim. Þá fljúga þær upp með miklum hamagangi og ógurlegum látum. Eins og áður segir telur sá sem þetta skrifar að hrossagaukar hljóti að teljast með hættulegri fuglum landsins, því hann hefur svo oft hrokkið í kút þegar þeir fljúga undan fótum hans. Það að hrökkva í kút gæti þó verið gagnlegt ef maður dettur í mjög blauta mýri.
Við segjum nú lítillega frá þessum tveimur frænkum hrossagauksins.
Dvergsnípa við ófrosinn læk í kjarrlendi. Myndir teknar í Kelduhverfi á fyrsta degi ársins 2025. Myndir: Snæþór Aðalsteinsson.
Dvergsnípa
Dvergsnípan er lík hrossagauk en miklu minni eins og sést á töflunni hér að ofan. Að auki er hún með minni gogg. Langrákirnar á baki dvergsnípunnar eru svipaðar og hjá hrossagauknum en þó er sá munur á að þær eru töluvert gulari en hjá stóra frænda. Hún verpir í barrskógum og í túndrum í Evrópu og Asíu (Jóhann Óli 2011).
Hér á landi sést hún oft nokkuð víða yfir vetrarmánuðina en stakir fuglar hafa sést í öllum mánuðum (Jóhann Óli 2011). Vel má vera að dvergsnípan gæti sest hér að. Það verður þó að segjast að það dregur verulega úr líkunum á landnámi að dvergsnípa er farfugl í Norður-Evrópu. Það hindrar samt ekki hrossagaukinn, enda er hann stærri. Að auki eru til dæmi um fugla, eins og glókollinn, sem eru staðfuglar á Íslandi en farfuglar í Norður-Evrópu.

Skógarsnípa
Undanfarna áratugi hefur skógarsnípa sést hér reglulega og hún hefur lengi verið grunuð um að verpa hér. Það hefur verið staðfest og nú er talið að hún verpi hér árlega.
Algengust hefur hún verið hér á haustin og yfir veturinn. Virðist hún alveg getað lifað af íslenska vetur í þéttum skógum landsins einkum ef þar er að finna kaldavermsl. Svo á hún það til að dvelja við jarðhitasvæði yfir veturinn (Bjarni Diðrik og Borgþór 2005).

Lýsing
Skógarsnípa er stærri og dekkri en hrossagaukurinn sem við flest þekkjum. Jóhann Óli (2011) segir að hún sé eins og ofvaxinn hrossagaukur. Hún er á stærð við dúfu og er um 300 g á þyngd og um 34 cm á lengd og er þá goggurinn meðtalinn, en hann er um 6-7 cm langur. Ungfuglar hafa aðeins styttri gogg en þeir fullorðnu. Vænghaf skógarsnípu er 56-60 cm (Bjarni Diðrik og Borgþór 2005) og vængirnir eru áberandi breiðari en hjá hrossagauknum. (Jóhann Óli 2011). Þessi stóra sníputegund er einstaklega felugjörn. Helst er að sjá hana í ljósaskiptum kvölds og morgna. Þá er það karlfuglinn sem flýgur í kringum óðal sitt, lágt yfir trjátoppunum í rökkurflugi. Þessu flugi fylgir sérkennilegt, ískrandi hljóð. Annars er fuglinn mikill næturfugl. Á daginn situr hann gjarnan í trjám og lætur lítið fyrir sér fara. Þetta atferli hefur til dæmis sést í Elliðarárdal (Einar 2025). Goggurinn á skógarsnípu er gildvaxinn og brúnleitur með dökkan brodd. Þegar fuglinn er á flugi vísar goggurinn niður.
Í skógum Norður-Ameríku er önnur skógarsníputegund sem er heldur minni en sú evrópska en hefur líka lifnaðarhætti (Bjarni Diðrik og Borgþór 2005).

Vist
Skógarsnípa er algengur varpfugl í skógum, sérstaklega barrskógum, í Norður-Evrópu og Asíu, allt austur að Kyrrahafi. Hún er vel aðlöguð lífi í skógum og verpir helst í þéttum skógarfurulundum. Hér á landi virðist stafafuran geta leyst skógarfuruna af hólmi. Hún getur einnig verpt í kjarrivaxið votlendið eða annað skóglendi, rétt eins og frændi hennar hrossagaukurinn. Þannig hefur tegundin lengi verið grunuð um varp í birkiskógum í Kelduhverfi og Öxarfirði.
Þeir Bjarni Diðrik Sigurðsson og Borgþór Magnússon skrifuðu grein um fuglinn í Skógræktarritið árið 2005. Þar kemur fram að erfitt getur verið að áætla stofnstærðina þar sem fuglinn er mjög felugjarn. Samt er talið að til séu um fimm hundruð til sjö hundruð þúsund pör í Evrópu. Svona stór stofn af stórum fuglum hefur gert það að verkum að hann er víða vinsæl bráð skotveiðimanna. Einar Þorleifsson (2025) segir að við þessar veiðar séu gjarnan notaðir hundar sem hrekja fuglana upp þar sem þeir fela sig í skóginum.
Þótt fuglinn sé sérstaklega felugjarn þá er það ekki sérlega flókið að finna skógarsnípur í varpkjörlendi hin seinni ár að sögn Gauks Hjartarsonar (2025). Honum hefur reynst ágætlega að fara inn í Vaglaskóg eða Kjarnaskóg á góðviðriskvöldi í júní. Þar er líklegt að finna skógarsnípu á söngflugi eftir kl. 10 að kvöldi. Aftur á móti getur það talist hrein hending að sjá þennan fugl á Íslandi utan varptíma snemma á sumrin.
Fæðu sína finnur snípan helst á skógarbotni. Hún er mest ánamaðkar og aðrir hryggleysingjar svo sem skordýr og köngulær. Einnig tekur skógarsnípan jurtafæðu.

Staðfest varp
Lengi hefur skógarsnípan verið grunuð um að verpa í litlum mæli á Íslandi. Hér að ofan er lýst hvernig karlfuglinn flýgur yfir varpóðali sínu og hefur það atferli oft sést á Íslandi. Það hefur meðal annars sést í Skorradal, Hallormsstað og í Kelduhverfi (Bjarni Diðrik og Borgþór 2005). Það dugar þó ekki til að staðfesta varp. Þó telja ýmsir, til dæmis Jóhann Óli (2011) að fuglinn hafi verpt hér síðan um 1970. Syngjandi karlfuglar á vorkvöldum eru besta vísbending um varp, en vegna felugirni sjást hreiðrin mjög sjaldan.
Svo erfitt getur verið að finna hreiður fuglsins að lengi var ekki hægt að staðfesta það. Þann 23. apríl 2004 voru Bjarni Diðrik Sigurðsson og Borgþór Magnússon að kanna lífríki skóga í Skorradal. Eitt af svæðunum sem þeir skoðuðu var 46 ára gamall stafafurulundur. Allt í einu flaug stór torkennilegur vaðfugl upp úr greinahrúgu á skógarbotninum. Flaug hann nánast lóðbeint upp í loftið, rétt eins og hrossagaukur gerir stundum. Þeir félagar komust að því að fuglinn hafði legið á hreiðri og í því voru 4 egg. Þetta er fyrsta, staðfesta dæmið um varp skógarsnípu á Íslandi (Bjarni Diðrik og Borgþór 2005). Sama sumar fann Einar Þorleifsson (2025) hreiður skógarsnípu í birkiskógi við Mývatn. Síðan hafa aðeins örfá hreiður fundist en rökkurflugið bendir til þess að hann verpi hér árlega á nokkrum stöðum.
Þeir félagar Bjarni Diðrik og Borgþór fengu tækifæri til að fara aftur um svæðið þann 4. maí og þá var fuglinn horfinn. Í hreiðrinu var eggjaskurn sem bar þess merki að ungar hefðu ekki komist á legg. Hafði hreiðrið verið afrænt og þá sennilega af mink, þannig að ekki endaði þessi saga vel (Bjarni Diðrik og Borgþór 2005).
Vanalega verpir skógarsnípan fjórum eggjum í hreiðurskál á skógarbotni og þau klekjast út á 23 dögum. Þessar myndir sýna fyrsta staðfesta varp skógarsnípu á Íslandi. Myndirnar voru teknar þann 23. apríl 2004 í Skorradal. Myndir: Bjarni Diðrik Sigurðsson.
Varanlegt landnám
Frá því um 1970 hefur reglulega sést til skógarsnípa í og yfir birkiskógum Kelduhverfis og Öxarfjarðar en athuganir eru fáar. Nú er jafnvel talið að tegundin hafi verpt þar í litlum mæli allt frá þeim tíma. Það verður þó seint staðfest (Gaukur 2025). Síðan á áttunda og níunda áratug síðustu aldar hefur fuglinn sést svo víða að talið er víst að telja megi skógarsnípu til íslenskra varpfugla. Á vef Náttúrufræðistofnunar kemur fram að sennilega verpi hér nokkrir tugir para á hverju ári (Kristinn Haukur 2018-b). Það telst líklegt að skógarsnípur leynist í flestum stærri skóglendum landsins en þeirra þekktasta vígi á Íslandi er væntanlega Skorradalur (Gaukur 2025). Eins og að ofan segir var fyrsta varp fuglsins einmitt staðfest í Skorradal og þá var jafnvel talið að þær væru fáein pör í varpi á svæðinu (Bjarni Diðrik og Borgþór 2005). Fuglaáhugamaðurinn Einar Þorleifsson (2025) hefur séð þennan fugl í mörgum skógarteigum um nánast land allt. Hann bendir á að þar sem fuglinn sé hálfgerður næturfugl sé erfitt að finna hann í skógunum.

Farfuglar eða staðfuglar?
Þar sem þessi tegund er bæði felugjörn og fáliðuð er ekki vitað hvort fuglarnir séu farfuglar á Íslandi eins og flestir hrossagaukar, eða hvort þá vetrargesti, sem stundum sjást, beri að túlka þannig að skógarsnípan sé staðfugl. Til þess að skera úr um þetta þarf frekari rannsóknir. Jóhann Óli (2011) segir í sinni bók að í Skandinavíu séu þeir farfuglar en á Bretlandseyjum og í Vestur-Evrópu teljast þeir vera staðfuglar. Á vef Náttúrufræðistofnunar segir að skógarsnípa sé víðast hvar farfugl og dveljist á vetrum í V- og S-Evrópu, N-Afríku og hér og hvar í S-Asíu (Kristinn Haukur 2018-b). Hér er komið kjörið verkefni fyrir líffræðinema að finna út hvernig þessu er háttað með skógarsnípu á Íslandi.
Samantekt
Hrossagaukur eða mýrisnípa er algengur varpfugl á láglendi Íslands. Ekki er að sjá annað en hann njóti þess að skógar á Íslandi hafa vaxið hin síðari ár, þótt enn þeki þeir aðeins um 2 hluta af hverjum hundrað á landinu. Er þá kjarr meðtalið. Hrossagaukurinn er einnig mjög algengur í og við mýrlendi en minna er af honum í móavist. Vel kann að vera að ástæða þess að hann sækir svo mikið í skóga sem raun ber vitni sé sú að aðrar, skyldar tegundir, sem kjósa sér skóga sem búsvæði, eru fáliðaðar á Íslandi. Þar með er pláss fyrir hrossagauk í slíkri vist. Svo getur einnig vel verið að hrossagaukar sæki í skóga og kjarr af þeirri einföldu ástæðu að þetta búsvæði hentar fuglinum vel. Sérstaklega þegar skógarnir eru ungir eða ekki of þéttir. Tvær aðrar tegundir af snípum finnast á Íslandi. Dvergsnípa sést reglulega en hún er ekki enn talin til íslenskra varpfugla. Öðru máli gegnir um skógarsnípuna. Hún hefur numið hér land og er væntanlega komin hingað til að vera. Að lokum viljum við þakka þeim sem lánuðu okkur myndir og veittu okkur upplýsingar sem við höfum nýtt við gerð pistilsins. Sérstakar þakkir fær Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir fyrir prófarkalestur. Allar villur, sem kunna að leynast í textanum, eru þó á ábyrgð höfundar.
Heimildir:
Bjarni Diðrik Sigurðsson og Borgþór Magnússon (2005): Skógarsnípa: nýr íslenskur varpfugl finns í furuskógi í Skorradal. Í Skógræktarritið 2005 1. tbl. bls. 58-61. Skógræktarfélag Íslands, Reykjavík.
Einar Þorleifsson (2025): Upplýsingar í gegnum samskiptamiðla í janúar og apríl 2025.
Einar Ó. Þorleifson og Daníel Bergmann (2006): Fuglalíf í skóginum að vetrarlagi. Í Skógræktarritið 2006 2. tbl. bls. 84-89. Skógræktarfélag Íslands, Reykjavík.
Gaukur Hjartarsson (2025) Upplýsisngar í gegnum samskiptamiðla í janúar 2025.
Guðmundur Páll Ólafsson (2005) Fuglar í náttúru Íslands. Bls. 290-291. Mál og menning.
Hjálmar R. Bárðarson(1986): Fuglar Íslands. Bls. 266-269. Hjálmar R. Bárðarson, Reykjavík.
Jóhann Óli Hilmarsson (2011): Íslenskur Fuglavísir. 3. útgáfa, bls. 76-79. Mál og menning.
Kristinn Haukur Skarphéðinsson (2018-a): Hrossagaukur (Gallinago gallinago). Á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands. Sjá: Hrossagaukur (Gallinago gallinago) | Náttúrufræðistofnun Íslands
Kristinn Haukur Skarphéðinsson (2018-b): Skógarsnípa (Scolopax rusticola). Á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands. Sjá: Skógarsnípa (Scolopax rusticola) | Náttúrufræðistofnun Íslands.
Ólafur K. Nielsen (2003): Skógvist: Mófuglar og skógarfuglar á Héraði 2002. Náttúrufræðistofnun Íslands, NÍ-03010. Sjá: Microsoft Word - 03010_skogvist
Sigurður Ægisson (2020): Íslensku fuglarnir og þjóðtrúin. Bókaútgáfan Hólar.
Comments