top of page
Writer's pictureSigurður Arnarson

Hvað er tré?

Updated: Oct 22, 2023

Tré er stór planta með beinan, stóran stofn í miðjunni sem heldur uppi krónu.

Þessi skilgreining er ágæt svo langt sem hún nær. Þó má vera að hún sé ef til vill ekki að fullu og öllu leyti nægilega góð til að hægt sé að nýta hana sem algildan sannleika. Hversu stórt er stórt? Skiptir máli úr hvaða efni stofninn er? Þarf stofninn að vera beinn? Hversu beinn? Mega þeir ekki vera fleiri en einn? Hvað um unga plöntu sem að öllum líkindum mun verða stórt tré? Hvenær telst hún orðin tré? Er það þegar plantan hefur náð tiltekinni stærð eða er hún tré um leið og fræið spírar? Getur runni verið stærri en tré eða telst hann þá tré?

Við getum hugsað okkur tvö fræ af sama birkinu. Annað fellur í frjóan svörð, spírar og verður stórt og myndarlegt tré með einn nokkuð beinan stofn. Hitt fellur á mel og nær þar að spíra milli tveggja steina. Þar er skortur á vatni og flestum næringarefnum, en birkið sýnir hörku og nær að lifa. Þarna getur það samt aldrei vaxið almennilega upp í loftið. Er sanngjarnt að kalla aðra plöntuna tré en hina ekki, bara vegna þess að fræin spíruðu á mismunandi stöðum?


Til að reyna að fá einhvern botn í þetta hafa verið gerðar tilraunir til að skilgreina hugtakið tré. Rétt er þó að taka það fram að náttúrunni sjálfri er alveg sama um skilgreiningar. Þær eru hugarfóstur okkar mannanna. Samt getur verið gagnlegt að huga að skilgreiningum svo við getum verið sammála um merkingu hugtaka.


Stofn

Skoðum fyrst þetta með stofninn.

Skiptir máli úr hvaða efni þessi stofn er?

Til eru plöntur sem geta myndað nokkuð stóra stofna sem teljast samt ekki til trjáa, svona strangt til tekið. Má nefna bananaplöntuna sem dæmi. Hún getur orðið býsna stór og minnir um margt á pálmatré. En stofn bananaplöntunnar er ekki úr viði. Hann er að mestu búinn til úr samansafni laufstilka sem halda uppi laufblöðunum. Til að auka styrk hins meinta stofns vaxa trefjar á milli laufstilkanna sem eru gjörólík viðartrefjum í trjám eins og eik og furu. Þess vegna telst bananaplantan ekki vera bananatré þótt hún hafi einn stofn og nái töluverðri hæð. Hún hagar sér eins og tré og keppir við þau á jafnréttisgrundvelli en er frekar risablóm en tré. Til að tré teljist tré þarf stofninn að vera úr viði. Það köllum við trjákenndar plöntur. Ef við notum þessa skilgreiningu getur t.d. bambus aldrei myndað tré. Sama á reyndar við um ýmsar aðrar plöntur sem geta orðið býsna háar, hafa einn beinan stofn og mynda krónu. Jafnvel pálmatré mynda ekki raunverulegan við. Þarf þá tré að hafa við? Er pálmatré ekki tré? Við þessumi spurningum eru engin einföld sör. Ef tré þurfa að hafa við stórfækkar þeim plöntum sem teljast til trjáa.


Oft má í lýsingum trjákenndra plantna sjá lýsinguna: „Stór runni eða lítið tré“. Þarna er oftast verið að miða við fjölda stofna. Sama tegund, t.d. kasmírreynir, getur haft marga stofna en stundum er hann klipptur þannig að hann hefur einn eða mjög fáa stofna. Þar skilur á milli. Margir stofnar merkir runni, einn stofn merkir tré. Þá eigum við eftir að ákveða hvort tré með tvo til fjóra stofna telst vera runni eða tré.


Hæð

Hvað þarf tré að vera hátt til að teljast tré? Alþjóða matvælastofnunin FAO hefur reynt að skilgreina tré oftar en einu sinni. Þar á bæ hafa menn ekki alveg verið sammála um hvaða hæð trjákenndar plöntur þurfa að ná til að teljast til trjáa en segja að tré sé fjölær, trjákennd planta með einn aðalstofn eða fáa aðalstöngla og með meira eða minna afmarkaða krónu. Stofnunin hefur líka skilgreint runna, enda oft erfitt að greina þarna á milli. Runnar eru hjá stofnuninni skilgreindir sem viðarkennd fjölær planta, oft án ákveðinnar krónu og yfirleitt á hæðarbilinu 0,5 til 5 metrar á hæð. Eins og sjá má er vel hægt að hugsa sér hitt og þetta sem illa fellur að þessu. Íslenskt birki hefur gjarnan marga stofna og er oft innan við 5 metrar á hæð (runnaskilgreining FAO). Getur verið að íslenskir birkiskógar innihaldi upp til hópa engin tré? Geta skógar verið án trjáa?


Hinir og þessir virtir vísindamenn hafa birt mjög mismunandi tillögur að hæð trjákenndra fjölærra jurta svo þau geti kallast tré. Hafa sést tölur frá allt frá 3m að 10 metrum.


Annað vandamál er ónefnt. Sumir vilja miða við það að kalla allar þær tegundir tré ef einstaklingar innan tegundarinnar geta náð tiltekinni hæð og myndað krónu innan útbreiðslusvæðisins. Ef við notum þessa skilgreiningu getur einir vel flokkast sem tré því víða um heim myndar hann klárlega tré. Hér nær hann aldrei trjáhæð en Ísland er ekki eina landið þar sem einir vex. Telst þá einirinn til trjáa eða ekki?


Birki í Vatnajökulsþjóðgarði nærri Skaftafellsjökli. Eru þetta tré? Verða þau tré? (Mynd: Sig.A.)


Að öllu þessu má ljóst vera að skilgreiningar á hugtakinu tré eru mjög á reiki. Það gleður þá sem skrifa pistlana um tré vikunnar. Við getum því án minnsta samviskubits haldið áfram að skrifa um hverja þá plöntu sem myndar einhverskonar við eða vex upp á við og kallað hana #TrévikunnarSE. Okkar vegna þarf tré ekki endilega að uppfylla öll sett skilyrði til að kallast tré.

451 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page