top of page
Writer's pictureSigurður Arnarson

Hvaðan koma eplatrén?

Updated: Oct 26, 2023

Epli (Malus) eru af rósaætt (Rosaceae). Til eru um 30 tegundir þeirra en mörk hverrar og einnar eru oft óljós því skyldar tegundir geta auðveldlega blandast saman. Matareplin sem við neytum eru öll mismunandi yrki af tegundinni Malus domestica sem við getum kallað garðepli. Þeim er öllum fjölgað kynlaust þannig að hvert yrki er einn klónn, gjarnan grætt á rót eða stofn af öðru eplatré. Til eru mörg þúsund yrki af eplum og sum þeirra eru nægilega harðgerð til að þrífast hér á landi og gefa aldin. Önnur eru aðeins ræktuð til skrauts. Samt sem áður eru þau öll af sömu tegundinni. Þau eru öll garðepli. Viðurnefnið domestica er gjarnan notað yfir tegundir sem notaðar eru til heimabrúks. Viðurnefnið er aldrei notað á villtar tegundir. Því vaknar spurningin:

Hvaðan koma eplin?


Malus sylvestris

Lengst af hefur því verið tekið sem gefnu að garðeplin (sem við vanalega köllum bara epli) séu afkomendur skógarepla eða villiepla: Malus sylvestris. Tegundin getur orðið um 10 metra há og framleiðir fremur lítil, gallsúr epli. Tegundin er nokkuð breytileg en hefur oftast þyrna og á vorin birtast glæsileg, fimmdeild blóm. Blómin geta verið frá hvítu yfir í bleikt. Villiepli finnst villt í flestum löndum Evrópu en er hvergi algengt tré. Á hinum Norðurlöndunum finnast villiepli aðeins sunnan til en sennilega er Ísland eina landið í Evrópu þar sem engin epli vaxa villt.

Svo vissir voru menn um að þetta væri forfaðir ræktaðra matarepla að stundum var heiti þeirra skráð sem Malus sylvestris var. domestica sjá t.d. hér

Nú hafa vísindamenn komist að því að þetta stemmir ekki. Rétt er þó að halda því til haga að allra nýjustu DNA rannsóknir sýna að þessi tegund á vissulega dálítið af erfðaefni sameiginlegu með garðeplunum en önnur tegund er þó talin formóðir allra epla.


Myndir fengnar af síðu Wikipediu. Þær sýna vel að bæði epli og blóm geta verið fjölbreytt.


Malus pumila

Um tima töldu menn að M. pumila, sem kallast paradísarepli á íslensku, væri formóðir garðeplanna. Nú hafa menn fallið frá því. Sumir telja jafnvel að þetta latínuheiti sé úrelt og hafa fellt það úr skrám. Grasafræðingarnir hjá Kew Gardens segja þó nafnið enn vera viðurkennt og sá sem þetta ritar er gjarn á að taka mark á þeim. Tegundin finnst villt í Evrópu og Asíu og sem slæðingur í Norður-Ameríku.

Paradísarepli er oft notuð sem grunnstofn fyrir ágrædd eplayrki og er því sennilega til nokkuð víða á Íslandi án þess að eigendurnir viti af því. Ef garðepli setja rótarskot má vel vera að þessi tegund birtist.

Þar sem paradísarepli er ekki lengur talið formóðir garðeplanna verður þetta stysti kaflinn í þessari frásögn. Tegundin verður þó aftur nefnd í lokakaflanum.


Malus sieversii

Í fjöllum Mið-Asíu, nánar tiltekið í suðurhluta Kasakstan eru heimkynni þessarar eplategundar sem enn á sér ekkert íslenskt heiti. Sumir telja reyndar að á þessum slóðum séu upprunaleg heimkynni epla, svona almennt séð. Um það má lesa hér og hjá J. Robinson í heimildaskrá.

Mynd: Rætur Tian Shan fjalla í Kasakstan voru í eina tíð þakin M. sieversii.


Á fyrri hluta 19. aldar ferðaðist þýsk-eistneski grasafræðingurinn Carl Friedrich von Ledebour (1786-1851) um Mið-Asíu og skoðaði gróður. Hann er meðal annars þekktur fyrir að hafa fyrstur manna gefið út bók um flóru Rússlands. Dugði ekki minna en fjögur bindi sem gefin voru út á árunum 1841-1853.

Þarna í fjöllum Mið-Asíu fann von Ledebour tré sem var vísindaheiminum óþekkt á 19. öld. Það er alls ekki algengt að tré af rósaætt myndi skóga. Oftast mynda þau bara lundi eða eru stakstæð í skógunum. Aftur á móti myndar M. sieversii á köflum nær samfellda skóga með mjög miklum genabreytileika. Á haustin birtast eplin. Þau eru allt frá því að vera gul eða græn yfir í eldrauð eða næstum fjólublá. Á vorin birtast blómin og má reyna að gera sér í hugarlund hversu glæsileg sjón það er að sjá nær heilan skóg blómstra svona fagurlega eins og eplatré gera. Myndin hér að ofan gefur einhverja hugmynd um þá fegurð.

Ledebour taldi tegundina vera perutré enda eru perutré og eplatré náskyld og í sumum tilfellum býsna lík. Árið 1833 nefndi hann tréð Pyrus sieversii enda stendur Pyrus fyrir perutré. Þetta opinberaði hann í sínu fræga verki Flora Altaica (1833). Önnur tegund, sem hann lýsti fyrstur manna, er einnig fyrst getið í þessari bók hans. Tegund sem okkur Íslendingum er vel kunn. Það er síberíulerki Larix sibirica.

Mynd: Haustmynd af M. sieversii í grasagarðinum í Berlin-Dahlem.


Seinna sáu menn að þetta var ekki perutré heldur eplatré. Síðan heitir það Malus sieversii. Svo var það löngu seinna að menn fóru að skoða DNA í trjám. Þá kom í ljós að það er einmitt þessi tegund sem er formóðir allra eplatrjáa. Vísindamönnum frá Oxford tókst að færa sönnur á þetta árið 2010. Þeir voru samt ekki þeir fyrstu sem sett höfðu fram þessa tilgátu. Samkvæmt þessari heimild (og M. Pollan í heimildaskrá) setti rússneski grasafræðingurinn Nikolai Vavilov fram þessa rökstuddu tilgátu árið 1929. Tilgátan byggðist á því að líffjölbreytileikinn innan hverrar tegundar er að jafnaði mestur þar sem náttúran hefur haft lengstan tíma til að hræra í erfðaefninu. Hvergi er erfðabreytileiki eplatrjáa meiri en þarna í fjöllunum og því er líklegast að þar hafi þau vaxið lengst. Annars er það af Vavilov að frétta að hann féll í ónáð hjá Stalín og lést úr hungri í fangelsi í Leníngrad áriðið 1943.

Rétt er þó að halda því til haga að erfðaefni fleiri Malus-tegunda má finna í nútíma garðeplum en megnið er klárlega frá þessari tegund.


Lýsing

Malus sieversii er sagt geta vaxið við margs konar aðstæður en best þrífst það ef veturinn er fremur stuttur og sumarið hlýtt. Það finnst þó einnig í fjalllendi þar sem veturinn getur orðið langur og kaldur. Tréð verður 5-12 metrar á hæð í heimkynnum sínum og ber stærstu epli allra villtra eplategunda. Þau geta orðið allt að 7 cm í þvermál sem er svipað og hjá sumum yrkjum garðepla. Ólíkt flestum ræktuðum yrkjum nútíma garðepla getur M. sieversii myndað fallega, rauða haustliti. Útlitið er að öðru leyti svipað og á ræktuðum yrkjum garðepla.

Þessi tegund er ein af þeim sem ekki treystir eingöngu á kynæxlun. Plantan setur gjarnan rótarskot og getur því smám saman myndað þykkni. Það er líka þekkt að garðepli myndi rótarskot. Þau eru þá klippt af því yrkin eru að jafnaði grædd á rætur annarra eplatrjáa. Því er það svo að rótarskot garðepla eru allt annað yrki en það sem sóst er eftir.

Það er eftirtektarvert að erfðabreytileiki innan þessarar tegundar er talinn mjög mikill. Sá erfðabreytileiki hefur að einhverju leyti skilað sér í matareplin sem við leggjum okkur til munns og sést m.a. í ótrúlegum breytileika í lit á eplayrkjum. Sagt er að bragðið af M. sieversii sé mjög fjölbreytilegt og ekkert nútíma eplayrki eigi sér bragð sem ekki finnst þarna í fjöllum Kasakstan.

Vel má vera að hægt sé að finna erfðaefni í fjöllunum í Kasakstan sem hentað gæti prýðilega á Íslandi.


Mynd frá Wikipediu sem sýnir hæðir með villtum, fjölbreyttum eplatrjám.


Ávöxturinn.


Eins og áður segir myndar engin villt eplategund jafn stór epli og M. sieversii. Eplin eru allt að 7 cm á stærð og geta verið bæði rauð eða gul þegar þau þroskast. Almennt má segja að þróun sem skilar einhverju sérstöku, eins og svona stórum aldinum, hljóti að hafa einhverja kosti í för með sér. Ef ekki yrði náttúruvalið til þess að eiginleikinn hyrfi smám saman. Því má spyrja: Hvaða kostir fylgja því að vera með svona stór aldin? Dugar ekki að framleiða bara lítil ber eins og reyniviðurinn (sem einnig er af rósaætt) gerir?


Svarið við þessu er væntanlega það að stórir ávextir höfða til stærri dýra. Reyniber eru étin af fuglum sem dreifa fræjunum með driti sínu, sem nýst getur sem áburður þegar fræið spírar. Stór spendýr éta epli.


Í fjöllum Kasakstan má enn finna brúnbirni sem eru sólgnir í stór og safarík epli á haustin. Þeir hika ekki við að brjóta niður greinar og stofna til að ná í þau. Niður af þeim ganga svo fræin þegar þar að kemur og þá vantar nú ekki áburðinn! Hestar eru einnig sérlega sólgnir í epli. Þeir fara að auki víðar um heldur en bjarndýr og geta því flutt fræin langar leiðir með tilheyrandi áburðargjöf. Fleiri spendýr geta vel gagnast eplatrjánum á sama hátt ef þau á annað borð eru hrifin af eplum. Eitt þeirra er tegundin maður. Einnig má nefna dádýr og svín sem dæmi um tegundir sem sækjast í epli á þessum slóðum.

Eplamyndir fengnar frá Wikipediu.


Hvað á barnið að heita?

Á vef Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er vistaður hinn ágætasti íðorðabanki. Þar er reynt að halda utan um nöfn í hinum aðskiljanlegustu fræðigreinum. Nöfn á plöntum eru þar engin undantekning. Á þeim vef má meðal annars finna nöfn á 28 tegundum af ættkvíslinni Malus. Þar er þó ekkert heiti á M. sieversii. Það merkir þó ekki að aldrei hafi verið reynt að gefa tegundinni nafn. Nokkrar umræður sköpuðust í vikunni á Facebooksíðu Trjáræktarklúbbsins um nafnið á þessari tegund. Stungið hefur verið upp á heitunum frumepli eða móðurepli (sama hugmynd) en einnig almaty-epli eftir hinni gömlu höfuðborg sem fjallað verður um í næsta kafla. Einnig hefur orðið iðunnarepli borið á góma.

Frumepli og móðurepli eru heiti sem vísa í það að tegundin er talin formóðir allra garð- og matarepla í heiminum. Tegundin er samt ekki endilega ættmóðir annarra eplategunda sem ræktuð eru hér og þar til skrauts.


Eplayrkið ´Idun´

Iðunnarepli vísar í goðafræðina. Sumir halda því fram að upprunaleg heimkynni Ásanna séu á þessum slóðum og vísa í nafnið Aserbaísjan í því tilliti sem á að merkja land Ásanna. Margir draga þá fullyrðingu reyndar í efa. Það breytir því ekki að Iðunn var sú gyðja nefnd sem gætti eplanna í Ásgarði og gaf ásum sem einhvers konar yngingarmeðal. Því getur farið vel á því að kenna þessa tegund við Iðunni. Gallinn er reyndar sá að til er norskt yrki af garðeplum sem heitir 'Idun' og hefur verið ræktað hér á landi og myndin hér til hliðar er af því yrki. Það er vitanlega sama Iðunn sem þarna er átt við og því hefur yrkið stundum verið nefnt iðunnarepli manna á milli. Því skapast þarna ákveðin hætta á ruglingi.

Tíminn mun leiða í ljós hvaða nafn verður ofan á.


Saga

Talið er víst að ávextir M. sieversii hafi verið nýttir af heimamönnum í árhundruð ef ekki árþúsundir. Epli skipa töluverðan sess í menningu heimamanna. Gamla höfuðborgin Almaty, sem enn er stærsta borg Kasakstan með um 2 milljónir íbúa stendur einmitt á því svæði sem eru heimkynni þessara trjáa. Nafn hennar er dregið af heiti heimamanna á eplum; alma. Sama orð er notað í mörgum tyrkneskum orðum yfir epli sem og í ungversku. Almaty, eða Alma-Ata, mun merkja eitthvað svipað og „eplafaðir“. Þetta sýnir að heimamenn hafa lengi nýtt sér þessi epli, enda ekki við öðru að búast.


Mynd: Græni markaðurinn í Almaty. Ljósmynd: Ben Reade/Guardian


Trjám af þessari tegund hefur fækkað mikið hin síðari ár. Nú er svo komið að tegundin er talin í yfirvofandi útrýmingarhættu. Kemur þar einkum fernt til. Í fyrsta lagi hefur búsvæðum verið eytt til að rýma fyrir frekari byggð á svæðinu enda vex Almaty eins og aðrar stórar borgir. Að auki hefur búfjárhald á svæðinu (sem tengist aukinni byggð) dregið verulega úr líkum á því að ung tré komist á legg. Húsdýrin éta ungviðið, rétt eins og við þekkjum hér á landi þegar sauðfjárbeit kemur í veg fyrir útbreiðslu og endurnýjun birkiskóga. Í þriðja lagi hefur búsvæðum verið eytt vegna akuryrkju og annars landbúnaðar og í fjórða lagi hefur garðeplum verið plantað í garða í þessum nýju hverfum og þau tré geta auðveldlega myndað afkvæmi með villtum M. sieversii. Talið er að allt að 70% allra eplatrjáa í fjöllunum hafi horfið á þremur áratugum vegna byggingaframkvæmda, akuryrkju og ofbeitar.


Mynd: Blandaður ávaxtaskógur í Kasakstan og stakt eplatré í forgrunni. Mynd: Ben Reade


Reynsla á Íslandi af þessari tegund er hverfandi. Þó er það þannig að Helgi Þórsson í Kristnesi á nokkrar plöntur af M. sieversii af fræi sem hann fékk frá Rússlandi. Uppruni var skráður Kasakstan eins og vera ber en ekki var farið nánar út í þá sálma hjá söluaðila. Þegar þetta er skrifað eru þessar plöntur á sínum fyrsta vetri í Kristnesi svo of snemmt er að segja til um hvernig þeim vegnar hér á landi.



Silkileiðin

Útbreiðsla eplatrjáa og tilkoma garðepla er talin tengjast hinni vel þekktu silkileið. Sennilega hefur M. sieversii borist vestur til Evrópu með kaupmönnum sem fóru þessa leið, bæði viljandi og óviljandi. M. sieversii hefur samt ekki náð að nema land (svo vitað sé) vestan við fjöllin. Þar tekur M. sylvatica við. Aftur á móti hafa menn sjálfsagt ræktað M. sieversii í heimalöndum sínum þegar þau tóku að berast vestur eftir silkileiðinni. Kaupmenn hafa trúlega tekið með sér bestu eplin til Evrópu. Þessi stóru, bragðgóðu og safaríku. Það sjáum við á afkomendum þeirra í dag. Trén hafa væntanlega verið alla veganna en endurtekið úrval og blöndun við aðrar eplategundir hefur að lokum gefið okkur þá tegund sem við nú köllum M. domestica.

Það var ekki svo að silkileiðin færði eplin eingöngu í vestur. Auðvitað fóru eplin líka með kaupmönnum í austurátt. Þau bárust til Kína og það var þar sem menn byrjuðu fyrst að rækta alls konar eplayrki og fjölga þeim kynlaust með því að græða greinar, sem báru eftirsóknarverð epli, á rætur eða stofna annarra eplatrjáa. Þessi aðferð er notuð enn í dag.

Garðeplin eru nú ræktuð víða um heim og eru öllum vel kunn. Strax á miðöldum voru komin fram yrki sem sum hver líkjast mjög þeim yrkjum sem enn eru ræktuð. Alltaf bætast samt við ný yrki. Nú er svo komið að ræktun þeirra hefur fært okkur mörg þúsund mismunandi yrki af eplum sem öll tilheyra sömu tegundinni, M. domestica og eiga ættir að rekja til Kasakstan þar sem formóðirin, M. siversii á nú undir högg að sækja.


Mynd: Enn í dag má kaupa epli af götusölum við hina fornu silkileið.


Eftirmáli

Eitt vandamál sem tengist þessari sögu allri situr í hausnum á pistlahöfundi sem hann fær ekki nokkurn botn í. Fyrir liggur að þegar eplasteinum er potað niður má búast við að fá upp eplatré. Það eplatré verður að öllum líkindum gjörólíkt því eplatré sem eplið var af. Miklu líklegra er að ef eplatréð gefur af sér epli verði þau lítil og gallsúr eins og á villieplum. Það liggur einnig fyrir að maðurinn hefur stundum dreift eplatrjám óviljandi um stóran hluta Evrópu. Annað hvort með því að henda eplakjarna í hugsunarleysi eða eplaætan hefur þurft að bregða sér afsíðis þegar náttúran kallar. Menn eru ekkert öðruvísi en t.d. hestar og birnir með það að þeir þurfa stundum að „hleypa brúnum“. Þessa afkomendur má víða finna í Evrópu og eru að jafnaði með fremur lítil og súr epli eins og þau tré sem spretta upp ef eplasteini er stungið í blómapott.

Þá kemur að vandamálinu sem haldið hefur vöku fyrir pistlahöfundi: Hvert er latínuheiti þessara epla og af hverju líkjast þeir ekki M. sieversii? Varla getum við talið villt epli, sem vaxa í Evrópu og eru afkomendur matarepla, til M. Sylvestris fyrst erfðaefnið er annað. Af hverju hefur M. sieversii ekki tekist að nema land í Evrópu?

Til er tilgáta um svar við þessu. Hún er sú að Malus pumila, sem nefnd var framarlega í þessum pistli, sé í raun afkomendur garðeplanna, M. domestica. Um það má meðal annars lesa hér.

Ef það er rétt hefur erfðaefni M. sieversii ratað mun víðar en bara í þau ræktuðu epli sem mörg okkar borða svo til daglega.

Ekki verður felldur dómur um þetta álitamál hér en pistlahöfundi þykir sem eitthvað sé hér óljóst og passi ekki. Það kemur þá síðar í ljós.


Helstu heimildir:

Colin Tudge (2007): The Tree: A Natural History of What Trees Are, How They Live, and Why They Matter.

Michael Pollan (2001): The Botany of Desire. A Plant‘s-Eye View of the World. Random House Trade, Inc.

Julian Robinson 1997: Origin of the cultivated apple. Sjá: https://herbaria.plants.ox.ac.uk/bol/Content/Projects/oxford/ops/ops5.pdf

Aðrar vefsíður sem nýttar voru er vísað í í texta.



481 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page