Eitt af því sem einkennir störf Skógræktarfélags Eyfirðinga er jólatrjáavertíðin. Sú vertíð færir íbúum svæðisins gleði og hamingju en félaginu tekjur sem nýtast til skógræktar, viðhalds og umhirðu. Íbúar bæjarins taka flestir þátt í að skreyta bæinn, enda ekki vanþörf á yfir dimmasta tímann. Verslunareigendur eru þar ekki undantekning. Einna mesta athygli vekja skreytingarnar við herradeild JMJ og tískuvöruverslunina Joe's. Þar er það sjálfur Jón M. Ragnarsson eða Nonni, sem ber hitann og þungann af skreytingunum sem laða að gesti og gangandi. Nonni er af þriðju kynslóð verslunarmanna í þessari herrafataverslun, en á undan honum hafa bæði faðir hans og afi unnið í búðinni. Iðulega má sjá ferðamenn við glugga verslunarinnar að taka af sér sjálfur og margir heimamenn taka á sig krók til að skoða dýrðina.
Það er jólalegt í ljósaskiptunum við JMJ og Joe's. Myndir: Sig.A.
Sagan
Eins og hjá svo mörgum búðareigendum hafa gluggaskreytingar á aðventu, eða í aðdraganda hennar, verið áberandi. Þannig hefur það verið nær alla tíð í herrafatadeild JMJ. Æskuheimili Jóns var í Áshlíð 11 hér í bæ. Faðir hans, Ragnar Sverrisson kaupmaður, stóð lengi fyrir miklum skreytingum í og við heimili þeirra ásamt öðrum fjölskyldumeðlimum eins og Ragnari Þór Ragnarssyni og auðvitað Jóni M. Ragnarssyni. Var þetta eitt mest skreytta hús bæjarins árum saman. Fyrir um sex eða sjö árum þótti komið nóg af þeim skreytingum og þá fóru starfsmenn JMJ og Joe's að leggja meiri áherslu á skreytingar við verslunina. Má segja að hún hafi tekið við hlutverkinu sem garðurinn í Áshlíðinni hafði og margir muna eftir.
Æskuheimili Jóns M. Ragnarssonar vakti í mörg ár mikla athygli fyrir glæsilegar jólaskreytingar. Mynd: Pálmar Edvardsson.
Nú er svo komið að það tekur eina 5 til 6 daga að skreyta verslunina að utan jafnt sem innan, enda metnaður lagður í þetta árlega verkefni. Allir starfsmenn koma að þessu á einn eða annan hátt þótt yfirumsjón hvíli á herðum Nonna. Hann er í þessu af lífi og sál. Aðrir starfsmenn hafa þó sínar skoðanir og hafa að sjálfsögðu tillögurétt.
Skreytingar í gluggum og við verslunina eru mismunandi milli ára og njóta sín á öllum tímum dagsins. Hér er það austurglugginn á verslunarhúsnæðinu. Fyrri myndin tekin í ljósaskiptum árið 2021 en sú seinni í dagsbirtu árið 2024. Myndir úr eigu Skógræktarfélagsins.
Jólasveinar
Mikilvægur hluti af gluggaskreytingum verslunarinnar eru tréjólasveinar úr birki. Eins og svo margt annað í skreytingunum, svo sem trjábörkur og könglar, eiga þessir jólasveinar ættir sínar að rekja í Kjarnaskóg. Þar uxu þau birkitré sem þeir eru gerðir úr. Starfsmenn félagsins hafa sagað greinar og stofna í heppilegar stærðir. Svo kemur Corina Paduret, sem vinnur á saumastofu verslunarinnar, til skjalanna. Það er hún sem teiknar þessi skemmtilegu andlit á viðinn og saumar húfur fyrir sveinkana, sem brosa kankvísir til gesta og gangandi.
Könglar og trjábörkur úr Kjarnaskógi eru í gluggum verslunarinnar ásamt birkijólasveinunum sem starfsmenn Skógræktarfélagsins söguðu og Corina teiknaði.
Kostnaður
Eins og vænta má eru svona skreytingar ekki hristar fram úr erminni. Auðvitað kostar þetta mikla vinnu og yfirlegu. En starfsmenn herrafataverslunarinnar telja það ekki eftir sér. Þvert á móti. Þeir vilja gjarnan styrkja hið góða starf Skógræktarfélagsins og þær stundir sem fara í jólaundirbúninginn veita starfsfólkinu gleði. Að auki er það sjálfsögð skylda allra fyrirtækja að vinna með samfélaginu sem þau eru sprottin úr. „Mikilvægast af öllu“ segir Jón M. Ragnarsson aðspurður „er að þetta snýst um að gleðja fólkið í kringum okkur.“
Eru þetta glæsilegustu jólaskreytingarnar við verslun á Akureyri þetta árið? Mynd: Sig.A.
Trén
Við þessa einu verslun í bænum eru um 14 rauðgrenitré úr Kjarnaskógi. Sum eru föst við vegginn á efri hæðinni en sum eru í sérstökum kössum sem smíðaðir eru hjá Skógræktarfélaginu. Slík tré köllum við aðventutré og um þau verður nánar fjallað í næsta kafla. Trén, sem fest eru á vegginn eru sérvalin, því þá er betra að þau hafi ekki of mikið af greinum á þeirri hlið sem snýr að veggnum.
Fyrri myndin sýnir innganginn í verslunina Joe's en sú seinni í JMJ. Myndir: Sig.A.
Þessi tré eru sérvalin af Nonna og starfsmönnum Skógræktarfélagsins. Það er hluti af jólaundirbúningi verslunarmannsins að mæta upp í Kjarnaskóg og horfa framan í starfsmenn og ræða málin. Við það kvikna nýjar hugmyndir að skreytingum þannig að hvert ár er einstakt. Þetta gengur þannig fyrir sig að eftir samtal við starfsmenn segir Nonni hvað hann vilji fá þetta árið. Hann gefur upp stærðir, lýsingu og útlit. Svo er það starfsmanna Skógræktarfélags Eyfirðinga að finna tré sem falla að lýsingunum. Allt gengur þetta vel fyrir sig og í góðri samvinnu. Á hverju ári byrja starfsmennirnir aðeins fyrr en árið áður að skreyta og almenningur bíður spenntur eftir afrakstrinum. Eftir því sem undirbúningurinn hefst fyrr, þeim mun meiri tíma hafa starfsmenn verslunarinnar til að sinna viðskipavinum þegar jólaösin hefst. Þá er búðin löngu komin í jólabúninginn. Þetta árið byrjuðu starfsmenn JMJ og Joe's að undirbúa skreytingarnar 4. nóvember.
Krúttlegu jólasveinarnir hennar Corinu í glugga herradeildar JMJ. Merkið er upphaflega hannað af Valgarði Frímann á árdögum verslunarinnar.
Aðventutré
Hin svokölluðu aðventutré Skógræktarfélagsins eru af ýmsum stærðum og gerðum. Þau má sjá víða í bænum. Má með sanni segja að þau stuðli að samræmdri götumynd í bænum og sýni að auki velvild fyrirtækja og einstaklinga í garð félagsins. Aðventutré eru til notkunar utanhúss og eru afhent í kössum sem unnir eru úr eyfirsku greni og klæddir með eyfirsku lerki. Trén fást afhent með eða án ljósasería og þau henta vel þar sem vindálags gætir. Árlega afhendir Skógræktarfélagið um 200 aðventutré í kössum og starfsmenn félagsins sjá svo um að ná í trén eftir jól. Hægt er að fá hvort heldur sem er stafafuru eða grenitré í þessum kössum og skiptist fjöldinn nokkurn veginn jafnt. Af grenitrjánum er rauðgreni algengast en aðrar tegundir fást einnig. Frekari upplýsingar um aðventutré má sjá hér.
Mynd úr eigu félagsins af aðventutrjám í kössum sem smíðaðir eru hjá félaginu. Í þessu tilfelli er um stafafurur að ræða sem bíða þess að vera fluttar til fyrirtækja í bænum. Mynd: Ingólfur Jóhannsson.
Önnur tré félagsins
Í aðdraganda jóla hefur félagið aðventutré til sölu eins og nefnt er hér að ofan. Einnig er boðið upp á svokölluð tröpputré, torgtré og hefðbundin jólatré af ýmsum tegundum. Allt eru þetta íslensk tré, enda eru þau mun umhverfisvænni en innflutt tré af ýmsum ástæðum. Varla þarf að taka það fram að við seljum ekki gervijólatré, enda er álagið á umhverfið margfalt meir þegar þau eru keypt en þegar lifandi jólatré eru keypt eins og lesa má um hér. Umhverfisvænast er að kaupa tré sem ræktuð eru í nágrenninu og ágóðinn rennur í frekari skógrækt. Fyrir hver jól selur félagið um 1.100 til 1.200 tré og af þeim eru um 30% úr reitum félagsins, en 70% frá öðrum aðilum, svo sem skógarbændum og öðrum skógræktarfélögum.
Fyrir jólin selur Skógræktarfélagið ódýran eldivið, enda þykir mörgum ómissandi að tendra upp í kamínum eða horfa í arininn um jólin. Á myndinni er Ólöf Guðmundsdóttir, starfsmaður félagsins, með eldiviðarpoka í fanginu. Mynd: Ingólfur Jóhannsson.
Tröpputré standa á lágum trjábol og eru tilvalin á tröppur, svalir og framan við íbúðarhús. Stærðir eru á bilinu 1-1,5 m og í boði eru rauðgreni og stafafura með eða án ljósaseríu. Torgtrén eru að jafnaði mun stærri en önnur tré og prýða torg á Akureyri og í nágrannasveitarfélögum. Fyrir nokkrum árum keyptu sveitarfélög vítt og breytt um Norðurland torgré. Nú er það svo að víða er hægt að fá torgtré úr reitum skógræktarfélaga og jafnvel úr görðum landsmanna. Því hefur dregið úr sölu félagsins á torgtrjám.
Brosandi fjölskylda í skóginum að Laugalandi á Þelamörk árið 2018 með tré sem valið var í skóginum. Krakkarnir með heitt kakó í bollum og smákökur í höndunum. Að baki má sjá tröpputré á bekk. Mynd: Sig.A.
Almenn sala á jólatrjám hefst í Kjarnaskógi fimmtudaginn 5. desember og lýkur á hádegi á Þorláksmessu. Nágrannar okkar í Sólskógum lána okkur eitt af gróðurhúsum sínum undir þessa sölu og fyrir það erum við þakklát. Jólatrjáasalan er opin frá 10 til 18 alla daga. Hér má lesa nánar má lesa um jólatré félagsins.
Skógræktarfélag Eyfirðinga selur jólatré í einu af gróðurhúsum Sólskóga fyrir jólin. Jólatrjáasalan er mikilvæg fjáröflun fyrir félagið en stuðningur Sólskóga og almennings við félagið er ómetanlegur. Mynd: Sigríður Hrefna Pálsdóttir.
Stjórnarfólk stendur svo vaktina í Laugalandsskógi á Þelamörk aðra og þriðju helgina í desember. Þar getur almenningur valið sér tré úr skóginum og fengið sér kaffi og kakó í boði félagsins. Nánar um það hér.
Jólastelpa nær sér í jólatré í snjónum árið 2014. Mynd: Sig.A.
Fortíðin
Árið 1952 hófst jólatrjáasala á vegum Skógræktarfélagsin. Fyrstu árin voru seld tré og greinar sem flutt voru inn til landsins á vegum Landgræðslusjóðs. Tilgangurinn var að fjármagna landgræðslu og skógrækt. Fyrsta árið voru greinar og tré seld í bakhúsi við Aðalstræti 62 þar sem Ármann Dalmannsson bjó. Fyrstu árin var salan lítil en fór hægt vaxandi. Mest var selt af greinum en mun minna af trjám. Greinarnar voru viktaðar með lóðum eins og tíðkaðist að nota þegar ostar og skyr var selt á þessum tíma. Seinna varð Ármann frumkvöðull í því að selja furugreinar sem fengnar voru af trjám úr Kjarnaskógi.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því að Skógræktarfélagið hóf sölu jólatrjáa. Mynd: Sig.A.
Árið 1956 skrifaði Ármann í dagbók sína að þá hafi verið seld 25 jólatré og um 300 kg. af greinum (Vignir Sveinsson 2000, bls. 81)
Smám saman uxu skógarnir það mikið að ekki þurfti eingöngu að treysta á innflutt tré. Fyrstu, íslensku trén sem félagið seldi voru rauðgrenitré úr Kjarnaskógi. Hófst sú sala ekki fyrr en um 1970. Á þessum tíma voru samt innfluttu trén á vegum Landgræðslusjóðs ennþá uppistaðan í sölunni. Seinna fór félagið sjálft að flytja inn tré frá Danmörku en nú er það aflagt með öllu. Smám saman dró þó úr sölu innfluttra greina og trjáa eftir því sem fjölbreytni íslenskra trjáa varð meiri. Lengst af var rauðgreni aðaltegundin af þeim trjám sem hér voru ræktuð. Hlutur stafafuru óx samt jafnt og þétt og samkvæmt gögnum Skógræktarfélagsins tók stafafuran fram úr rauðgreninu árið 2005. Nú er það mest selda jólatréð á vegum félagsins. Skógræktarfélagið hefur lagt af þann sið að flytja inn jólatré og -greinar, enda engin ástæða til. Vel er hægt að metta markaðinn með innlendum trjám ef vilji er til þess. Þær greinar sem félagið selur eru af stafafuru, lindifuru, fjallaþin og síberíuþin. Allar halda þessar tegundir barri sínu mun betur en greni. Samt er það svo að í hugum margra bera þintegundir þingreinar í ellefu mánuði á ári, en í þeim tólfta kallast þær grenigreinar. Einkum á það við ef þær eru klipptar af trjánum.
Aðventutrén frá Skógræktarfélaginu þekkjast á kössunum undir þeim. Þau setja samræmdan svip á Akureyri í aðdraganda hátíðarinnar. Þessar stafafurur eru utan við menningarhúsið Hof. Mynd: Sig.A.
Síðasta siglingin
Þegar hlutdeild stafafuru fór vaxandi sem jólatré í stofum landsmanna, þurfti að uppfylla þær óskir. Um tíma tíðkaðist að ná í stafafurur úr nyrsta hluta Vaðlaskógar, þegar hann var enn aðeins Vaðlareitur. Það skógarhögg hófst árið 1976 þegar grisja þurfti skógarreitinn en það var löngu áður en núverandi þjóðvegur var tekinn í notkun. Þess vegna var farin sú leið að draga trén niður að fjöru og flytja þau sjóleiðina til Akureyrar. Af þessum flutningum spunnust margar sögur. Sumar sannar en aðrar hreinn skáldskapur.
Jólatré frá Skógræktarfélaginu má sjá út um allan bæ. Þetta tré var utan við Litlu saumastofuna árið 2015. Mynd: Sig.A.
Ein sagan, sem að líkindum fellur í seinni hópinn, segir frá því þegar siglt var yfir fjörðin til að ná í 10 stafafurur og fullt af greinum. Þá var stafafuran ekki farin að vinna sér hefð sem jólatré, en greinarnar voru vinsælar. Segir sagan að ekki hafi tekist að selja allan þennan fjölda af stafafurujólatrjám, en greinarnar seldust upp eins og heitar lummur. Að lokum voru greinarnar klipptar af síðustu trjánum svo hægt væri að koma þeim í verð. Önnur saga hefur það fram yfir fyrrgreinda sögu að hún er sönn. Um miðjan nóvember árið 1986 var farið yfir í Vaðlareit til að höggva stafafurur eins og gert hafði verið í rúman áratug. Trén voru flutt ofan í fjöru og var þá tekið að skyggja. Að auki gekk á með dimmum éljum. Samið hafði verið við hafnarvörðinn um þessa flutninga yfir fjörðinn og mætti hann á miklum stálnökkva til að vinna verkið. Var nú trjám hlaðið á bátinn eins og hægt var og þar með þraut dagsbirtuna. Síðan fóru skógræktarmenn eins og leið lá fyrir fjörð til að taka á móti nökkvanum við Höpfnersbryggju og afferma hann er hann næði landi. Þá reyndist báturinn ókominn.
Jafnvel úr fjarlægð er jólabærinn Akureyri jólalegur. Myndir: Sig.A. í desember 2018.
Nú leið og beið og ekki kom báturinn en þetta var fyrir þann tíma er fjarskiptabúnaður þótti sjálfsagður í bátum. Þótti þá einsýnt að eitthvað hefði farið úrskeiðis og fór um margan manninn í dimmri nóvembernóttinni. Var þá fengin trilla ein til að sigla yfir fjörðinn og kanna hverju sætti. Kom þá upp úr dúrnum að hafnarbáturinn hafði steytt á skeri skammt frá landi og sat þar fastur. Hallaði hann mikið þegar að var komið. Skipstjórinn var hinn rólegasti og þáði enga hjálp. Hann sat þarna, fastur á skerinu og beið eftir stórstreymsflóðinu sem átti að koma um miðnætti. Var hann þess fullviss að þá losnaði bátur hans af skerinu og því engin ástæða til að hafa áhyggjur. Trillan snéri þá við og fór í land. Þá sat skipstjóri stálnökkvans uppi á stýrishúsinu og veifaði í kveðjuskyni með vinstri hönd. Með þeirri hægri hélt hann dauðahaldi í mastrið.Allt gekk eftir sem hinn reyndi skipstjóri hafði spáð og upp úr miðnætti birtist báturinn úr sortanum með allar stafafururnar. Var þeim í snatri skipað upp á bryggjuna. Síðan kvöddust menn og þá mælti skipstjórinn: „Þetta geri ég aldrei aftur“. Þar með lauk flutningum á stafafurum úr Vaðlareit yfir Eyjafjörð til Akureyrar, enda var skipstjórinn vandaður og orðheldinn maður.
Við norðurjaðar skógræktarsvæðis Skógræktarfélags Eyfirðinga var á sínum tíma plantað stafafuru. Á tímabilinu 1976 til 1986 voru tekin jólatré úr reitnum og send sjóleiðina til Akureyrar. Þá var enginn akvegur á þessum slóðum og því var þetta einfaldasta leiðin. Nú er svæðið norðan við gömlu girðinguna skógi vaxið og engin þörf á girðingu við norðurjaðar Vaðlaskógar. Mynd: Sig.A.
Framtíðin
Í viðtali við tíðindamann Skógræktarfélagsins sagði Jón M. Ragnarsson að það væri hans einlæga von að almennt yrði farið í enn meiri skreytingar í bænum. Ætti það jafnt við um íbúa, bæjaryfirvöld og svo auðvitað verslunar- og fyrirtækjaeigendur. Þannig gætu allir lagst á eitt við að gera góðan bæ enn fallegri og bjartari í skammdeginu. Hinn sanni jólaandi gæti skilað sér í léttara skammdegi og auknum samtakamætti bæjarbúa í að fegra umhverfið. Það á jafnt við um JMJ og margar aðrar verslanir sem og íbúðarhús, að jólaskreytingar birtast alltaf fyrr og fyrr með hverju árinu svona skínandi fallegar í myrkrinu. Nú er svo komið að líta má á þessar skreytingar sem vetrarskreytingar, ekkert síður en jólaskreytingar. Svona skreytingar geta verið gott vopn í baráttu við skammdegisþunglyndi. Þær færa okkur birtu og yl í svartasta skammdeginu og minna okkur á að brátt tekur daginn aftur að lengja með hækkandi sól og meiri birtu.
Handan Gránufélagsgötu, gengt JMJ og Joe's, er jólasería sem hangir á milli staura. Skreytingar í bænum mynda samhangandi heild.
Þakkir
Þakkir fá Jón M. Ragnarsson fyrir gott samtal, Bergsveinn Þórsson fyrir tölulegar upplýsingar og aðrir þeir er veittu okkur upplýsingar, Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir og Pétur Halldórsson fyrir vandaðan yfirlestur, starfsmenn og stjórnarmenn Skógræktarfélagsins fyrir ómælda vinnu við jólaundirbúning, Sólskógar fyrir lán á gróðurhúsi undir jólatrjáasölu og Eyfirðingar allir fyrir að skreyta umhverfi okkar svona fallega. Einnig viljum við þakka öllum velunnurum félagsins fyrir gott samstarf.
Jón M. Ragnarsson fyrir utan tískuverslunina Joe's við hliðina á rauðgreni frá Skógræktarfélaginu. Við þökkum honum ánægjulegt samstarf. Mynd: Sig.A.
Við sendum íbúum Eyjafjarðar og landsmönnum öllum, hugheilar óskir um gleðileg jól með von um gæfuríkt og gróðursælt nýtt ár.
Við verðum auðvitað að ljúka þessu með mynd af Göngugötunni á Akureyri. Hún þekkist frá flestum öðrum göngugötum á bílaumferðinni. Á hverju ári er hún skreytt svo eftir er tekið. Mynd: Sig.A.
Heimildir
Vignir Sveinsson (2000): Þættir í sögu Skógræktarfélags Eyfirðinga 1968-2000. Í: Ásýnd Eyjafjarðar. Skógar að fornu og nýju. Ritstj. Bjarni E. Guðleifsson. Skógræktarfélag Eyfirðinga. Akureyri.
Munnlegar heimildir
Bergsveinn Þórsson, skógfræðingur.
Hallgrímur Indriðason, fyrrum framkvæmdarstjóri SE. Ingólfur Jóhannsson, framkvæmdarstjóri SE. Jón M. Ragnarsson, verslunarmaður.
Comments