Á eyjunni Sri Lanka og reyndar víðar í Suðaustur-Asíu, vex sígrænt tré. Ung lauf eru bleikrauð á litinn en svo verða þau glansandi græn er þau eldast. Á regntímanum er börkurinn tekinn af ungum sprotum. Á þeim tíma vex tréð hraðast og þá er börkurinn svo laus að hægt er að fletta honum af án vandkvæða. Börkurinn er skafinn og síðan þurrkaður í sólskininu þar til hann rúllast upp. Þennan upprúllaða trjábörk köllum við kanilstangir eða kanelstangir. Afurð þessa trés, kanillinn, er notuð allt árið á Íslandi. Mest er hann þó áberandi í aðdraganda jóla og á sjálfum jólunum. Þess vegna veljum við kaniltré sem tré vikunnar að þessu sinni.
Blómstrandi kaniltré á akri á Sri Lanka. Myndin fengin héðan. Þar kemur fram að með letri heimamanna er nafn þess skráð ෴ කුරුඳු.
Nafn ættkvíslarinnar og uppruni þess
Fræðiheiti ættkvíslarinnar er Cinnamomum. Augljóst er að það er sama heiti og cinnamon, sem er notað yfir kanil á ensku og fleiri tungumálum. Nokkrar kenningar eru uppi um upphaflega merkingu orðsins. Ein er sú að orðið sé komið úr grísku, en á þar í landi heitir kanillinn Kinnamomon. Hugsanlega er orðið dregið af eldri rót sem er Kin og merkir Kína (Wells 2010). Vissulega vaxa nokkrar tegundir af ættkvíslinni Cinnamomum í Kína og ýtir það undir trúverðugleika kenningarinnar. Þar hefur kanill verið framleiddur í þúsundir ára. Samt er það svo að sumir telja það fremur ólíklegt að Grikkir til forna hafi vitað að kanill væri ræktaður og unninn í Kína. Lengi framan af öldum voru ýmsar furðusagnir til um uppruna kanils og fæstar þeirra vísuðu til Kína. Við komum að þessu aftar í þessum pistli.
Önnur kenning er sú að gríska orðið eigi sér annan uppruna. Hér er því haldið fram að það merki upphaflega krydd. Það er einnig mjög trúlegur uppruni. Samt er það svo að á tímum Forngrikkja var efnið svo dýrt að fáir tímdu að nota það sem krydd. Nánar um það síðar.
Þriðja kenningin segir að orðið kunni að vera dregið af orðunum Kayu Manis sem samkvæmt þessari síðu er stundum notað yfir ættkvíslina enn í dag. Orðið mun merkja sætur viður og vera komið úr hebresku (Clapp & Crowson 2002). Að vísu er kanill ekki sætur á bragðið (enda sykri oft bætt við kanilblöndur) en mörgum þykir lyktin af honum sæt. Því getur þetta alveg staðist, rétt eins og hinar kenningarnar. Eitt eiga þessar þrjár kenningar sameiginlegt. Þær minna okkur á að verslað hefur verið með þessa asísku afurð í þúsundir ára við Miðjarðarhafið. Kanill fór forðum tíð eftir hinni fornu verslunarleið sem kennd er við silki og við munum fjalla meira um í pistli okkar um mórber. Lengi vel voru það Arabar sem duglegastir voru við þessa verslun og komu vörunum til Egyptalands og Evrópu. Þá gat kanill komið hvort heldur sem er landleiðina frá Kína eða sjóleiðina frá Sri Lanka og Indlandi.
Þótt kanill sé nýttur allt árið er hann algengastur um jólin. Einkum kanilstangirnar. Það er nánast eins og við finnum jólalyktina þegar þessi mynd er skoðuð. Hún er héðan.
Best þekktu tegundirnar
Innan þessarar ættkvíslar eru nú taldar vera um 250 tegundir (Clapp & Crowson 2002) sem allar vaxa á hlýjum og oftast rökum svæðum hitabeltisins. Sumar tegundirnar finnast reyndar á þurrari stöðum, en hitt er algengara. Algengastar eru tegundirnar í Suðaustur-Asíu.
Lengst af hafa þrjár eða fjórar tegundir verið langfrægastar og er kanill unninn úr berki þeirra allra og reyndar úr berki fleiri tegunda innan ættkvíslarinnar. Ein tegundin hefur verið nefnd Cinnamomum zeylanicum. Viðurnafnið zeylanicum merkir að tegundin kemur frá eyjunni Seylon. Nú heitir sú eyja Sri Lanka eins og við flestir vita. Reyndar vex tegundin einnig á Indlandi og jafnvel víðar í Asíu þótt hún hafi lengst af verið kennd við Sri Lanka. Þessi tegund er í auknum mæli nefnd C. verum þótt margir haldi sig við eldra heitið.
Önnur tegund er ræktuð í Kína og hefur lengst af verið nefnd C. aromaticum með vísan í hversu góð lykt er af trénu.
Þriðja tegundin er sennilega mest ræktuð þeirra allra og heitir C. cassia. Hún er einnig frá Kína. Þessar upplýsingar má fá úr mörgum bókum og netheimildum en þó með ýmsum tilbrigðum.
Í sumum heimildum er C. zeylanicum sagt samheiti með C. verum en kínversku tegundirnar hafðar sér. Þannig er það til dæmis hér. Oft er það þannig að annar kanill en C. verum er seldur sem C. cassia, þótt hann kunni, strangt tiltekið, að tilheyra öðrum tegundum. Viðurnafnið verum merkir sannur. Þannig að þótt til séu um 25 tugir tegunda í ættkvíslinni er aðeins ein tegund sem getur kallast sannur kanill ef við miðum við fræðiheitið. Samt hefur kanill verið unninn af mörgum tegundum innan ættkvíslarinnar og þykir ekkert plat. Mikil óreiða er í nöfnum ættkvíslarinnar og ein heimild setur stórt strik í reikninginn. Á vef World Flora Online (WFO 2024) sem vísindamenn í fjórum af þekktustu grasagörðum heims halda úti, segir að C. zeylanicum og C. aromaticum sé ein og sama tegundin og hana beri að kalla C. verum. Ef þetta kæmi frá minni spámönnum þá værum við sjálfsagt ekki að nefna þetta, en síðunni er haldið úti af grasafræðingum frá Missouri Botanical Garden, New York Botanical Garden, Royal Botanic Garden í Edinborg og Royal Botanic Gardens í Kew. Þetta er elítan i þessum efnum. Samkvæmt þessum upplýsingum er það sama tegundin sem vex annars vegar á Sri Lanka og Indlandi og hins vegar í Kína, jafnvel þótt nokkur bragðmunur sé á kanilnum eftir uppruna. Þessi kaniltegund er miklu minna ræktuð í Kína en C. cassia. Samt er það svo að hún er ekki talin sannur kanill, ef við tökum mark á latínunni.
Á meðal kanilræktanda og -neytanda lítur út fyrir að þetta skipti töluverðu máli en upplýsingar frá ræktendum og grasafræðingum stangast oft á. Við vitum að kanillinn af þessum mismunandi hópum er ekki eins og breytir þar engu hvar mörk tegunda liggja. Frá C. aromaticum og C. cassia í Kína og Indlandi kemur kanill sem sagður er grófari og ódýrari en þessi sem ræktaður er í Sri Lanka og bragðið er ekki eins. C. cassia er talinn mildari á bragðið en C. verum.
Á þessari síðu, sem haldið er úti af kryddframleiðandanum McCormick segir að mest sé ræktað af fjórum tegundum. Þær eru Cinnamomum burmannii sem áður hét Cassia vera, Cinnamomum loureirii, C. zeylanicum, sem nú heitir C. verum og að lokum C. cassia sem kryddframleiðandinn telur samheiti við C. aromaticum. Þarna er síðasta tegundin flokkuð á annan hátt en hjá WFO. Af þessu sést að langt er í land að allir séu sammála.
Það lítur út fyrir að það hafi gerst tiltölulega nýlega að önnur af þekktustu tegundum Kína og sú frá Sri Lanka hafi verið sameinaðar í C. verum. Aðrir telja að tvær þekktustu kínversku tegundir sé í raun ein og sama tegundin og beri að kalla C. cassia eins og McCormick heldur fram. Heitið cassia er talið komið úr hebreska orðinu q'tsi-ah eða qatsa og merkti upphaflega að skera af ef marka má þessa heimild. Á það heiti að vísa í hvernig kanillinn er unninn. Sumar aðrar tegundir innan Cinnamomum ættkvíslarinnar eru einnig seldar undir þessu sama nafni, þótt þær tilheyri öðrum tegundum ættkvíslarinnar (Spadea 2021). Þess vegna eru aðrar tegundir en hér eru nefndar miklu minna þekktar jafnvel þótt þær kunni að vera mikið ræktaðar. Því er það svo að á markaði eru einkum tvenns konar gerðir af kanil. Annars vegar sannur kanill (ein tegund) og hins vegar kassíakanill (allar aðrar tegundir). Þannig er búið að einfalda hlutina úr 250 gerðum kanils í tvær. Líffræðingar nota að sjálfsögðu ennþá 250 mismunandi heiti yfir tegundirnar þótt einföldun gefi okkur tvær gerðir af kanil.
Kaniltré sem ekki er ræktað til að framleiða krydd. Myndin er fengin héðan en hana tók Georges Jansoone.
Tilgátusaga
Í okkar heimildum er ekki alveg ljóst hvenær þessar nýjustu breytingar á nöfnum gengu í gegn enda ekki að fullu viðurkenndar. Þó fjalla Clapp & Crowson (2022) um hugsanlegar skýringar og hér er okkar útgáfa.
Kanillinn sem Portúgalar (sjá síðar) uppgötvuðu á Sri Lanka var kenndur við eyjuna og kallaður Cinnamomum zeylanicum. Svo kom að því að þetta nafn þótti minna helst til mikið á nýlendutímann, enda hafa innfæddir aldrei notað orðið Seilon á eyjuna. Því þurfti að skipta um nafn. Til að tryggja að heimsbyggðin vissi að kanillinn frá Sri Lanka væri sá eini sanni var nafninu breytt í C. verum. Þannig mátti koma því í undirmeðvitundina að kanill, sem ættaður er frá Kína sé ekki eins merkilegur. Samt barst sá kanill öldum saman eftir silkileiðinni til Evrópu og er núna mest ræktaða tegund í heimi. Ef til vill er fræðiheitið C. verum aðeins snjallt markaðsbragð. Vel má vera að hugsunin hafi verið einhvern vegin svona:
Ef kanillinn er kostarýr
þá kann ég ráðið snjalla. Hann alltaf verður æði dýr ef má hann sannan kalla.
Á Íslandi er kanill notaður árið um kring, meðal annars á snúða og út á grjónagraut. Mest er selt af honum í desember. Þá bætist við jólaglögg og skreytingar með kanilstöngum auk alls annars. Myndin fengin héðan.
Ættfræði
Í mörgum pistlum okkar um tré höfum við nefnt Linnæus hinn sænska. Það var hann sem gaf ættkvíslinni nafn og setti hana í lárviðarættina, Laureaceae. Wells (2010) segir að eitt sinn hafi hann farið og hitt ungan grasafræðing í Amsterdam að nafni Johannes Burman. Burman þessi var þá að vinna að bók um flóru Sri Lanka en sú eyja var þá á valdi Hollendinga. Hann lagði þá þraut fyrir Linnæus að greina sjaldgæfa plöntu til tegundar og rétti honum laufblað af henni. Linnæus smakkaði á laufinu og taldi að það væri af lárvið. Burman sagði að það væri ekki rétt, því þetta væri lauf af kaniltré. Hakan á Linnæusi stóð almennt það hátt að hann lét svona smámuni ekki slá sig út af laginu. Hann leiðrétti sig og sagði að vitanlega vissi hann að þetta lauf væri af kaniltré en það ætti auðvitað að vera í lárviðarættinni. Hann sagði að það væri það sem hann hefði átt við. Þessu trúði Burman eins og nýju neti og varð svo hrifinn af greiningunni að hann fékk Linnæus til að vera meðhöfund af bókinni.
Seinni tíma rannsóknir byggja á öðrum þáttum en bragðskyni Linnæusar, en þær hafa ekki breytt niðurstöðunni. Kaniltré eru af lárviðarætt, Lauraceae. Innan þeirrar ættar eru einar 50 ættkvíslir með samtals um 2.500 tegundir. Flestar þessara plantna lifa í regnskógum hitabeltisins og nánast allar hafa olíurík lauf sem lykta áberandi mikið (Tudge 2005). Við höfum áður fjallað um lárvið sem ættin er nefnd eftir en lauf hans má nýta sem einskonar krydd.
Mynd af Hollendingnum Burmann á forsíðu bókar hans um flóru Sri Lanka.
Lýsing
Þetta sígræna tré er fremur lágvaxið eða aðeins um 10 metra hátt sem getur þó orðið einir 15 metrar ef það er einstofna og vex við bestu skilyrði. Það vex fyrst og fremst í regnskógum. Það þolir ekki of mikla birtu, heldur vex það í skugga annarra trjáa. Þar getur það myndað stóra runna eða einstofna tré. Lýsingin hér að neðan er að mestu byggð á WFO (2024) nema annað sé tekið fram.
Ný lauf á kaniltrjám eru ótrúlega falleg. Myndin er fengin héðan en hana tók Vinayaraj.
Lauf
Eins og áður er frá greint er tréð sígrænt, en ung lauf eru bleik eða rauðleit. Í okkar huga minna þau ef til vill á lauf sem komin eru í haustliti. En þetta hefur ekkert með þá að gera. Oftast eru laufin gagnstæð með um 2 cm stilk. Þau eru hárlaus og glansandi og verða 11-16 × 4,5-5,5 cm að stærð. Þau eru þykk og leðurkennd viðkomu.
Laufin eru einkennandi fyrir ættkvíslina. Þau eru heilrend en hafa þrjá, áberandi æðstrengi sem ná frá blaðbotni að enda blaðsins, en ekki aðeins einn eins og algengast er með trjálauf. Gefur þetta blöðunum einkennandi svip. Miðstrengurinn er mest áberandi, enda gulur að lit. Hinir eru gulgrænir. Þetta gerir söguna af Linnæusi hér að ofan dálítið merkilega því lárviðarlauf hafa aðeins einn æðstreng. Það hefur sænski grasafræðingurinn áreiðanlega haft á tæru. Myndin er fengin héðan.
Blóm
Það má heita merkilegt að eins og kanill ilmar nú vel, þá er beinlínis vond lykt af blómum kaniltrésins. Lyktin minnir á rotnandi kjöt. Það þykir ýmsum skordýrum, einkum flugum, alveg sérstaklega aðlaðandi lykt og þær sjá að mestu um frævunina (Clapp & Crowson 2022).
Blóm á tegundinni Cinnamomum burmannii. Myndin fengin héðan. Eins og sjá má eru blöðin á þessari tegund með þrjá æðstrengi eins og allar aðrar tegundir ættkvíslarinnar.
Annars eru blómin ljómandi lagleg en mjög lítil eða aðeins um 6 mm í þvermál. Þau vekja því ekki mikla athygli nema fyrir lyktina. Ef frjóvgun tekst verða til fræ og utan um þau eru lítil (10-15 mm), blá eða blásvört og glansandi ber. Í hverju þeirra er aðeins eitt fræ.
Óopnuð blóm og fullþroskuð ber á kaniltré. Laufin koma upp um ættkvíslina. Myndin er fengin héðan.
Börkur
Svo það sé sagt þá er það börkurinn á þessum trjám sem við köllum kanil. Nánar tiltekið innri börkurinn. Ytri börkurinn er ekki nýttur. Börkurinn er mjúkur á ungum greinum og þegar tréð er í mestum vexti er hann nokkuð laus utan um tréð. Þá er honum flett af og þurrkaður í sólskini til að búa til kanilstangir. Hann er ósköp venjulegur á að líta, mjúkur viðkomu eins og til dæmis á elri eða víði í góðum vexti. Börkurinn er dökkbrúnn á litinn en yngri greinar eru gráleitar.
Það er innri börkurinn sem allt snýst um. Fyrst er ytri börkurinn skrapaður af en þegar komið er inn að grænleitu lagi hefst leikurinn. Það er vaxtarlag barkarins. Hníf er brugðið á börkinn og honum flett af í þunnum ræmum sem eru um 2-3 mm þykkar. Þær dragast saman við þurrkun og rúllast upp og rýrna. Þá krullast þær upp í vöndla sem við köllum kanilstangir (Clapp & Crowson 2002). Hér á landi er engin vinna sem kemst nálægt þessum lýsingum. Ef frjálslega er farið með má segja að þetta sé eitthvað í líkingu við að flaka fisk.
Kanilbóndinn Bakari Omar með unga grein af kaniltré sem hann er nýbúinn að höggva af trénu. Næsta skref í vinnslunni er að flaka ytri börkinn af og síðan þann innri. Mynd og upplýsingar eru héðan.
Þegar börkur er flettur af stofni trés þá drepst stofninn, eins og þekkt er. Í kanilframleiðslu er því mikilvægt að klippa tréð þannig að það myndi stóran, margstofna runna en ekki einstofna tré. Þá má taka börk af nokkrum stofnum eða greinum á hverju ári og láta tréð endurnýja sig á milli uppskera. Þetta er sambærilegt við rifsber, svo dæmi sé tekið. Til að tryggja góða uppskeru er best að fjarlægja alltaf elstu greinarnar svo runninn geti endurnýjað sig.
Kanil(l) eða kanel(l)
Mörg íslensk hugtök eiga sér lík tvínefni. Má nefna kjöt og ket, smjör og smér, Hverfell og Hverfjall, reynivið og reynitré og mörg önnur dæmi. Afurðin af tré vikunnar á sér svona par. Yfir hana hafa orðin kanil(l) og kanel(l) verið brúkuð. Orðin eru ýmist skráð með einu elli eða tveimur í nefnifalli. Ef við höfum eitt ell er orðið í hvorugkyni, annars í karlkyni. BÍN (Beygingarlýsing íslensks nútímamáls) segir að karlkynið sé algengara.
Hér förum við eftir tillögu Orðabanka Árnastofnunar og tölum um kanil í karlkyni. Sums staðar, svo sem í Biblíuþýðingum, viðgengst að tala frekar um kanel en um það fjöllum við nánar í sérstökum kafla hér aðeins neðar. Við prufuðum að slá inn orðin kanill og kanel í leitarglugga á Tímarit.is og niðurstaðan varð sú að hið fyrra fannst 3888 sinnum (kanil 3.045 sinnum) hið síðara 2592 sinnum (kanell aðeins 903 sinnum). Við getum því fullyrt að orðmyndirnar kanill og kanel séu nokkuð jafngild en heldur algengara að tala um kanil.
Hvort heldur sem við köllum afurðina kanil eða kanel hefur orðið borist hingað frá Norðurlöndum. Þar kallast afurðin kanel. Orðið gæti sem best hafa borist þangað frá Frakklandi eða öðrum löndum sem eiga rætur í latínu þar sem kanill heitir canella. Það er af sama stofni og orðið sem Portúgalar nota; canela. Hollendingar kalla þetta kaneel. Portúgalir og Hollendingar koma mjög við sögu kanils í heiminum eins og síðar verður vikið að.
Þennan orðstofn má finna í mörgum tungumálum. Á ítölsku kallast kanillinn cannella. Ella er smækkunarending í latneskum málum en fyrri hluti orðsins gæti verið sama orðið og kanóna. Kanilstangir eiga að minna á lítil fallbyssuhlaup eins og sjá má á myndinni hér að neðan. Bein þýðing væri þá fallbyssulingur. Sigríður Hrefna (2024) benti okkur á að orðið canella er líka notað yfir lítil rör á ítölsku og er samstofna orðinu canale sem merkir skurður. Þetta smækkunarviðskeyti, -ella, sést stundum í fræðiheitum plantna. Má nefna súrutegundirnar túnsúru og hina smærri hundasúru sem dæmi. Sú fyrri ber fræðiheitið Rumex acetosa en sú seinni R. acetosella (Jón 2024).
Mynd af kanilstöngum fengin héðan. Það má ímynda sér að þær líti út eins og lítil fallbyssuhlaup.
Á ensku kallast afurðin cinnamon, sem greinilega er af sömu rót og fræðiheiti ættkvíslarinnar, Cinnamomum. Það virðist vera mun sjaldgæfara í þeim tungumálum sem við könnumst sæmilega við en orðstofninn sem við notum.
Í þessu sambandi má geta þess að er Kólumbus fann Ameríku (sem var auðvitað ekki týnd) taldi hann sig vera kominn til Asíu. Að sjálfsögðu vildi hann nýta ferðina til að finna nytsamar verslunarvörur og kanill var eitt af því sem hann taldi sig hafa fundið. Hann fann tegund sem nú ber fræðiheiti sem dregið er af orðinu kanill. Hún heitir Canella winterana og vex villt í Flórída og Vestur-Indíum. Börkur trésins ilmar vel en þrátt fyrir það er hún ekki kanill. Hún er ekki einu sinni af sömu ætt (Wells 2010).
Barkarflettur kanilviður í ræktun á Súmötru. Myndina fengum við af þessari síðu en myndin er frá Tripper.
Fornar sagnir
Kanill hefur verið notaður af mönnum allt frá því á fornöld. Egyptar fluttu inn kanil og síðar bæði Grikkir og Rómverjar. Þeir sem sáu um viðskiptin við Miðjarðarhafið voru oftast Arabar. Þeir seldu þessa vöru fyrir geipiverð, enda markaður tryggur. Efalítið hefur það hjálpað við að halda uppi verðinu, að miklar tröllasögur gengu um hvað þetta fyrirbæri væri eiginlega. Best þótti ef sögur gengu um þær miklu hættur sem safnarar kanils þurftu að leggja á sig við að ná í þessi verðmæti. Wells (2010) segir frá þessu í sínu riti. Ein sagan er komin frá grískum sagnfræðingi til forna sem hét Herodotus. Hann er talinn hafa verið uppi frá um það bil 484 – 425 fyrir fæðingu Krists. Hann skrifaði, að sögn Wells, að safnararnir hafi þurft að skýla augum sínum alveg sérstaklega fyrir „verum er líkjast leðurblökum“. Annars gat farið illa. Þessar verur gerðu sér risastór hreiður úr kanilstöngum á óaðgengilegum stöðum, þangað sem enginn önnur skepna gat komist nema fuglinn fljúgandi. Að sögn Herodotusar áttu arabískir kaupmenn ráð við þessum vanda. Þeir skyldu eftir stór kjötstykki af ösnum eða nautgripum í dölunum neðan við þessi óaðgengilegu hreiður og fylgdust svo með úr öruggri fjarlægð. Hinar vængjuðu risaskepnur steyptu sér á kjötbitana og báru í hreiður sín. Bitarnir urðu að vera mjög stórir og þungir til að þetta virkaði. Þá létu hreiðrið undan þunganum og hrundi til jarðar. Þá gátu kaupmennirnir komið og tínt upp sprekin úr hreiðurefninu. Þar var kominn þessi fíni kanill.
Ekki kemur fram í bók Wells hvar þetta átti að vera, en ef orðið Kinnamomon, sem Grikkir nota yfir kanil, er af sömu rót og Kína má draga þá ályktun að þar hafi þessar vængjuðu furðuskepnur haldið til.
Þeir Clapp & Crowson (2022) bæta við þessa frásögn að kanillinn átti að vera á heimaslóðum Díónýsusar sem hafði svipað hlutverk í guðagalleríi Forngrikkja og Bakkus hafði hjá Rómverjum. Allar helstu lystisemdir komu auðvitað frá landi Díónýsusar, hvar sem það var. Átti það jafnt við um vínþrúgur sem kanil.
Bæði Wells (2010) og Clapp & Crowson (2022) segja að þessar kynjasögur hafi verið við lýði allt fram á 12. öld okkar tímatals. Að vísu höfðu þá risadýrin, sem minntu á leðurblökur, orðið að risafuglum í mörgum sagnanna.
Spadea (2021) segir að ýmsar fleiri furðusögur hafi gengið um uppruna kanils. Sumir héldu að hann yxi í vatni við upptök Nílar, en engin vissi hvar þau væru. Þangað áttu arabískir eða egypskir kaupmenn að fara til að háfa hann upp úr vatninu. Aðrir voru þess fullvissir að upprunann væri að finna í Eþíópíu eða á Arabíuskaga. Í báðum tilfellum tengdist það því að það voru oftast Arabar sem fluttu vörurnar til Evrópu.
Kanilfugl eða Cinnamologus uppi í kanilhreiðri sínu og sérlega hugaður kaupmaður sem ætlar að ná í hreiðurefnið. Myndin er úr gömlu handriti og er fengin af þessari síðu. Það er í meira lagi forvitnilegt að láta leitarvélar alnetsins leita uppi þennan fáséða fugl.
Notkun til forna
Svo er að sjá sem kanill hafi hreint ekki verið nýttur til manneldis í fornöld. Að minnsta kosti ekki fjarri heimahögum. Þetta var of dýrmætt efni til þess að hægt væri að mylja hann yfir grjónagraut eða snúða. Kanill var fyrst og fremst notaður til lækninga og til að heiðra konunga og guði. Sjálfsagt hafa þó hinar ýmsu þjóðir í Suðaustur-Asíu notað kanil sem krydd frá því fyrir löngu þótt þess sé ekki getið í aðgengilegum heimildum. Wells (2010) segir að nútíma læknavísindi hafi staðfest að kanilolía geti haft einhvern lækningamátt. Undir það taka þeir Clapp & Crowson (2022) í sínum hlaðvarpsþætti. Áður en lesendur fara að gera á sér læknisfræðilegar tilraunir er þó rétt að benda á að Matvælastofnun varar við of miklu kaniláti og telur það geta ógnað heilsu. Ástæða þess er sú að bragðefnið kúmarín finnst í kanil. Það hefur verið tengt við lifrarskaða ef þess er neytt í háum skömmtum.
Enn í dag er kanill af mörgum talinn ákaflega heilsusamlegur. Hann á að geta lækkað blóðþrýsting og haft jákvæð áhrif á minni. Myndin sýnir kanilstangir, kanilolíu og mulinn kanil. Myndin fengin af þessari síðu þar sem rætt er um þessi áhrif. Í texta undir myndinni er vísað í fræðiheiti kanilins og sagt að þetta sé ekta kanill.
Í árþúsundir þótti kanill ákaflega heppilegur til konungagjafa. Honum var einnig fórnað til ýmissa guða um langa hríð (Spadea 2021). Kanill var líka nýttur til að smyrja lík og til brennslu við jarðarfarir, enda guðum þóknanlegur. Hann hefur einnig verið nýttur til að auka geymslu matvæla. Það er í sjálfum sér sama hugmynd og að nota hann við líksmurningu á múmíum í Egyptalandi til forna. Samkvæmt Clapp & Crowson (2022) hafa verið gerðar tilraunir til að kanna þessar varðveisluaðferðir hin síðari ár. Komið hefur í ljós að þær virka ekki, nema hvað kanillinn getur dregið úr óþef rotnunar. Sjálfsagt er þægilegra að éta skemmdan mat ef hann lyktar ekki mjög illa.
Frægar eru sögurnar af Neró keisara Rómarveldis, sem var uppi á árunum 37-68 eftir Kristsburð. Athafnir hans og gjörðir voru almennt með hreinum ólíkindum. Eitt af afrekum hans var að berja hina óléttu eiginkonu sína, Poppaeu, svo fast í magann að hún lést. Þá fékk hann alveg heiftarlegan móral en datt ofan á ráð til að bæta fyrir skaðann. Hann ákvað að brenna allan þann kanill sem fannst í Rómaborg við útför hennar svo allir mættu sjá hvað hann saknaði hennar óskaplega mikið. Voru það ársbirgðir af þessu dýrmæta efni sem fuðruðu upp við jarðarförina (Wells 2010, Clapp & Crowson 2022).
Sumum þykir gott að blanda saman kaffi og kanil. Það er mun yngri siður en svo að Neró hafi prufað drykkinn, enda barst kaffi ekki til Rómar fyrr en mörgum öldum síðar. Myndin er héðan.
Verðgildi
Erfitt getur verið að meta verðgildi vara í fornöld. Þó er ljóst að kanill var seldur dýrum dómum. Þess vegna þótti brennsla kanils við jarðarför Poppaeu í meira lagi hneykslanlegt dæmi um eyðslusemi Nerós. Samkvæmt Spadea (2021) sagði rómverski sagnaritarinn Plinius eldri, sem uppi var uppi á 1. öld okkar tímatals (Hann lést í heimsins frægasta eldgosi árið 79 þegar Pompei fór í kaf eins og nafni hans og frændi, Plinius yngri sagði frá) að kanill væri verður fimmtán faldrar eigin þyngdar í silfri. Samkvæmt þessari síðu er verð á hreinu silfri 137,44 kr. hvert gramm, þegar þetta er ritað. Með því að margfalda þá tölu með 15 fáum við út að hvert gramm af kanil hafi kostað rúmlega 2000 krónur miðað við gengi dagsins. Til samanburðar má geta þess að á okkar dögum er saffran talið dýrasta krydd í heimi. Heimsmarkaðsverð á því er talið um 250 kr. á hvert gramm ef marka má Wikipediu. Ef þessar reiknikúnstir ganga upp var kanill í Róm átta sinnum dýrari en saffran er í dag.
Kryddmarkaður í Egyptalandi. Að sjálfsögðu er kanill þarna. Myndin er fengin héðan.
Kanill í Egyptalandi til forna
Eins og áður segir var kanill nýttur til að smyrja lík í Egyptalandi. Það hefur sjálfsagt auðveldað vinnuna, þótt ekki væri annað. Sagnfræðingar hafa velt vöngum yfir því hvaðan Egyptar fengu vöruna. Clapp & Crowson (2022) segja að það kunni að hafa verið frá suðri. Þá hefur kanill verið fluttur frá Indlandi eða Sri Lanka til Afríku, trúlegast Eþíópíu, og þaðan norður til Egyptalands. Spadea (2021) segir að Egyptar hafi notað kanil fyrir að minnsta kosti 4000 árum. Þetta hefur sjálfsagt haft eitthvað að segja með að sagnir urðu til um að kanill yxi við upptök Nílar, eins og að framan greinir.
Löngu seinna, eða rúmlega 300 árum fyrir okkar tímatal, stofnaði Alexander mikli borg við ósa Nílar sem við hann er kennd. Eftir það fóru Arabar að flytja kanil sjóleiðina til Alexandríu frá botni Miðjarðarhafs.
Ríkidæmið
Þeir sem réðu yfir viðskiptum með kanil á miðöldum gátu þénað vel. Arabar græddu vel á honum og á 13. og 14. öld voru Feneyingar þeir sem helst versluðu með kanill og seldu áfram til Evrópu. Hér er því haldið fram að þessi verslun með kanil hafi verið ein helsta ástæðan fyrir ríkidæmi þeirra á þessum tíma.
Kanilstangir og mulinn kanill. Í fornöld var ekki mjög heppilegt að geyma kanilduft úti ef gola lék um svæðið. Það gat kostað tugi þúsunda á núvirði. Myndin fengin héðan.
Kanill í Biblíunni
Eins og margar aðrar illfáanlegar og dýrar verslunarvörur mátti nýta kanil í sérstakan ástardrykk eða til að örva holdlegar fýsnir. Það er meira að segja sagt frá því í 7. kafla Orðskviðanna í Gamla testamentinu (Wells 2010). Þar eru ungir menn varaðir sérstaklega við léttúðarkonum sem tæla til sín karlmenn á götuhornum. Þessar konur bjuggu um rúm sitt með marglitum ábreiðum úr egypsku líni og stökktu myrru, alóe og kanil í hvíluna. Í þýðingunni frá 1981 stendur að þessar konur segi: „Kom þú, við skulum drekka okkur ástdrukkin fram á morgun, gamna okkur með blíðuhótum“. Tíðarandinn virðist ráða nokkru um hvernig þessi athöfn í marglitu líni og kanelilmi er orðuð. Í nýjustu þýðingunni er ekki talað undir rós. Þar stendur: „Komdu, við drekkum okkur ástdrukkin, njótum ásta fram á morgun.“ Í Viðeyjarbiblíunni frá 1841 segir: „Kom þú! við skulum af ástum drukkin verða allt til morguns, við skulum gleðjast af miklum blíðlátum.“ Breytingin frá 1841 til 1981 er mun minni en frá 1981 til nýjustu útgáfunnar frá árinu 2007. Það er þó sama hvaða þýðing er notuð. Af þeim öllum má sjá að hægt er að nota kanil til að örva menn til ástaratlota, ef marka má Biblíuna.
Víða annars staðar í Gamla testamentinu er fjallað um kanil. Þegar það er gert er orðið að jafnaði notað til að lýsa ríkidæmi eða allsnægtum. Að auki má draga þá ályktun að ilmur hans sé Guði alveg sérstaklega þóknanlegur, rétt eins og öðrum guðum, því hann er í uppskriftum af ilmsmyslum sem notuð voru í samkomutjaldinu.
Ef þið viljið fletta þessu upp er rétt að geta þess að í flestum Biblíuþýðingunum er orðið kanel (með bókstafnum E í stað I) viðhaft en orðið kanill finnst ekki. Í Guðbrandsbiblíu er orðið caniel notað en sá ritháttur er alveg fallinn úr tísku. Á þessari síðu er leitargluggi sem hægt er að nota til að kanna málið.
Kanilvinnsla á nýlendutímanum á Sri Lanka.
Leyndarmálið afhjúpað
Í lok 15. aldar uppgötvuðu portúgalskir sæfarendur og verslunarmenn hvers konar vara kanill er í raun og veru. Leyndarmálið afhjúpaðist á eyjunni Sri Lanka. Á landakortum er Sri Lanka eins og tár sem lekið hefur af Indlandi. Portúgalir lögðu eyjuna undir sig og nefndu hana Seilon. Þar fundu þeir tegundina sem seinna var nefnd Cinnamomum zeylanicum en fræðiheitið vísar einmitt í heitið sem Portúgalar gáfu eyjunni (Wells 2010). Eins og að framan greinir er þetta fræðiheiti nú talið úrelt af flestum. Þarna voru Portúgalir búnir að finna einskonar Eldoradó kryddheimsins. Þótt kaniltré vaxi víðar en á Sri Lanka þykir mörgum sem kanillinn af tegundinni, sem kennd var við eyjuna og ræktaður þar sé hið eina rétta kaniltré.
Portúgalar voru ekkert að halda uppgötvun sinni leyndri eins og arabarnir höfðu gert.
Kanill unnin á Sri Lanka. Myndin fengin héðan.
Árið 1635 lögðu Hollendingar eyjuna undir sig. Á þeim tíma hafði kanill alla tíð verið safnað af villtum trjám á eyjunni, en Hollendingar breyttu því. Þeir hófu ræktun trjánna á sérstökum ökrum og vörðu framleiðsluna af mikilli hörku. Það lá dauðarefsing við því að eiga ólöglega kanilstöng. Þessar ströngu reglur leiddu til þess að það var ekki fyrr en seint á 18. öld sem farið var að framleiða kanil í stórum stíl víðar en á Sri Lanka (Wells 2010). Svo mikil var ræktunin á Sri Lanka, þegar Hollendingar tóku eyjuna yfir, að þeir sögðu að finna mætti kanillykt einar 8 mílur frá landi (Spadea 2021).
Eins og svo algengt er á þessum slóðum komu Englendingar seinna til sögunnar og lögðu Sri Lanka undir sig. Þeir komu þangað fyrst árið 1767 og höfðu hrakið alla Hollendinga í burtu fyrir aldarlok (Spadea 2021). Sama röð: Arabískir verslunarmenn, síðan Portúgalir, Hollendingar og loks Englendingar, einkennir sögu margra ríkja á þessum slóðum áður en þau hlutu sjálfstæði á 20. öld eftir margra alda kúgun. Liður í að gera þann tíma upp er að hafna fræðiheitum sem vísa til nýlendutímans. Því er ekki lengur talað um C. zeylanicum.
Kanilstangir af C. verum eru að jafnaði fínlegri en stangirnar af cassia kanil. Myndn er fengin úr þessu myndbandi.
Staðan
Þegar Englendingar réðu eyjunni, sem þeir litu á sem hluta Indlands, varð verðfall á kanil. Verðið fór að nálgast það sem það er í dag. Tvennt olli því. Farið var að rækta kanil víða um heim þar sem loftslag er hentugt til ræktunar. Að auki fóru Kínverjar að rækta og selja sinn eigin kanil í meira magni en áður. Enn í dag er mest framleitt af C. verum á Sri Lanka en af C. cassia eða skyldum tegundum, er mest framleitt í Indónesíu. Það gerir Indónesíu að mesta kanilframleiðanda í heimi (Spadea 2021).
Hér á landi er líklega alltaf um kassíu-kanil að ræða nema annað sé sérstaklega tekið fram. Annars staðar, til dæmis í Portúgal, er þessu á hinn veginn farið. Ef þið smakkið kanil í því sólríka landi þá finnið þið bragðmuninn. Má nefna sem dæmi að kanilstangir eru iðulega í Sangríum sem þar eru drukknar. Að lokum viljum við þakka Guðríði Gyðu Eyjólfsdóttur fyrir vandaðan yfirlestur og óska lesendum gleðilegrar aðventu með miklum kanililmi.
Heimildir:
Clapp, Casey & Crowson, Alex (2002): Portuguese edition (Cinnamon). Hlaðvarpsþáttur úr þáttaröðinni: Completely Arbortrary frá 8. desember 2022. Sjá: MONOPOLY: PORTUGUESE EDITION (CINNAMON) — Completely Arbortrary. Sótt 10. ágúst 2024. Jón Kr. Arnarson (2024): Munnlegar upplýsingar þann 2. 12. 2024.
Sigríður Hrefna Pálsdóttir (2024): Munnlegar upplýsingar þann 30. 11. 2024.
Spadea, Thomas (2021): The Spice Trees, Part 1 (Cinnamon and Peppercorn). Podcast þáttur í þáttaröðinni My Favorite Trees https://mftpodcast.com// nr. 24 frá 4. maí 2021. Sjá: Episode 24: The Spice Trees, Part 1 (Cinnamon and Peppercorn) – My Favorite Trees (mftpodcast.com). Sótt 11. ágúst 2024.
Tudge, Colin (2005): The Tree: A Natural History of What Trees Are, How They Live, and Why They Matter. Crown Publishers, a division of Random House, Inc, New York.
Wells, Diana (2010): Lives of the Trees. An Uncommon History. Algonquin Books of Chapel Hill. Chapel Hill, North Carolina.
WFO, The World Flora Online (2024): Cinnamomum verum J.Presl
Sjá: Cinnamomum verum J.Presl (worldfloraonline.org) Sótt: 10 ágúst 2024.
Í sumar netheimildir er vísað beint í texta. Einkum ef í þær er aðeins vitnað einu sinni eða aðeins myndir sóttar á viðkomandi síður.
Comments