top of page
Writer's pictureSigurður Arnarson

Kasmírreynir

Updated: May 24, 2023

Á Íslandi þrífast ótrúlega margar reynitegundir með mestu ágætum. Ein af þeim er kasmírreynir, Sorbus cashmiriana og fær hún titilinn tré vikunnar að þessu sinni. Tegundin er kennd við Kasmírhérað á landamærum Indlands og Pakistan.


Kasmírreynir er stór runni eða lítið tré, oftast margstofna en er stundum haldið einstofna með klippingu. Í erlendum bókum segir að hann geti orðið um fjórir metrar á hæð en okkur er ókunnugt um að kasmírreynir hafi náð þeirri hæð á Íslandi. Laufin eru fíngerð og fjöðruð með sjö til tíu pör smáblaða. Greinarnar eru rauðbrúnar og berin eru mjallahvít og óvenju stór miðað við reyniber. Nokkrar tegundir eru áþekkar og margir þekkja koparreyni sem einnig ber hvít ber en er að jafnaði lægri og með minni ber. Kasmírreynirinn hefur það einnig fram yfir koparreyninn að kala nær ekkert.


Á haustin nýtur kasmírreynirinn sín sérstaklega vel. Laufblöðin verða gul eða rauðgyllt og stór, hvít berin eru þá mjög áberandi og standa lengi eftir að laufin eru fallin. Reyndar fellir kasmírreynir laufin á undan mörgum reynitegundum. Á vorin blómstrar kasmírreynirinn nánast fagurhvítum eða mjög ljósbleikum blómum.


Eins og margar skyldar tegundir myndar kasmírreynirinn fræ án undangenginnar kynæxlunar. Því eru allir afkomendurnir erfðafræðilega alveg eins og móðurtréð, nema stökkbreyting komi til. Allur kasmírreynir í heiminum er því einn og sami klónninn.


Í hinni ágætu bók McAllister um reyni er sagt frá því að elsta eintakið af kasmírreyni í Evrópu sé í grasagarðinum í Edinborg. Þaðan barst hann um alla Evrópu, m.a. hingað til Íslands. Þetta tré í grasagarðinum í Edinborg er því formóðir allra kasmírreynitrjáa í Evrópu, þar með talið þeirra sem hér þrífast með ágætum. Því var það að er tíðindamaður Skógræktarfélagsins átti þess kost í sumar að fara í garðinn hafði hann það erindi að finna þessa formóður og birta af henni mynd á þessum síðum. En því miður hefur það gerst, frá því að áðurnefnd bók kom út, að tréð er dautt. Því birtast hér aðeins myndir af kasmírreyni á Akureyri.


Þessi mynd af kasmírreyni er tekin um miðjan október. Öll lauf fallin en hvítu berin standa enn á runnanum.

Kasmírreynir í Lystigarðinum í september. Þessi fær að vera margstofna.
Ber kasmírreynis eru stór og mjallahvít.

Einstofna kasmírreynir í Lystigarðinum að byrja að fara í haustliti.
Kasmírreynir í góðum vexti í garði í Síðuhverfi.

Texti og myndir: Sigurður Arnarson.


255 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page