Þegar alaskaöspum er fjölgað er það oftast gert með græðlingum. Það merkir að erfðaefni hinna nýju plantna verður nákvæmlega það sama og hjá foreldrinu. Þeir sem eru að fjölga öspum eru því að klóna lífverur. Algengast er að hafa orðið í hvorugkyni (klón) þegar talað er um dýr, en í karlkyni (klónn) þegar talað er um tré. Hver klónn hefur sitt nafn og er það skráð með stórum staf og að jafnaði haft innan einfaldra gæsalappa. Sumir þessara klóna eru auðþekktir hver frá öðrum jafnt á sumrin sem á veturna.
Meðfylgjandi myndir eru af mjög algengum klóni á Akureyri sem nú er #TrévikunnarSE. Þetta er klónninn ´Randi´.
´Randi´ er beinvaxinn, hávaxinn og grannvaxinn klónn á Akureyri en hefur ekki reynst eins vel nær opnu hafi. Neðri hluti hvers trés er að jafnaði verðmætastur í viðarframleiðslu. Á ´Randa´ er þessi hluti gjarnan beinvaxinn og kvistlítill en rúmmálsvöxtur er í meðallagi miðað við aðra klóna. Því er þetta heppilegur klónn til viðarframleiðslu. Að auki er hann hófsamur í myndun rótarskota og telst það eftirsóttur innan bæjarmarka.
Það sem gerir ´Randa´ auðþekkjanlegan er þetta grannvaxna vaxtarlag og svo það að neðstu greinarnar sveigjast alltaf niður en bláendinn vísar upp. Ef neðstu greinarnar eru teknar af verður einkennið ekki eins áberandi, eins og vænta má, en smám saman fara þá greinarnar sem þá eru neðst að svigna niður. Þetta sést á meðfylgjandi myndum.
´Randi´ á það til að missa toppinn þegar hann eldist og efri hlutinn hefur því stundum nokkra toppa. Þetta er minna áberandi í innsveitum en útsveitum.
Nú orðið er ´Randi´ lítið ræktaður. Klónninn ´Hallormur´ (eða ´Halla´) hefur nánast tekið við af honum. Þeir hafa svipað vaxtarlag, grannir og súlulaga og henta á svipuðum stöðum en ´Randi´ vex ögn hægar í tilraunareitum.
Yorumlar