top of page
Writer's pictureSigurður Arnarson

Kristþyrnir

Updated: Nov 27, 2023

Fjölmargar trjátegundir tengjast þeirri hátíð sem að höndum ber. Flest höfum við einhvers konar jólatré í húsum okkar. Oftast eru það tré af ættkvíslunum greni (Picea spp.), fura (Pinus spp.), eða þinur (Abies spp.). Áður fyrr bjuggu Íslendingar til jólatré með því að vefja sígrænum greinum á heimasmíðuð tré. Var þá gjarnan notað einir, sortulyng eða annað tilfallandi. Ein trjátegund hefur þó tengst jólunum um allan heim mikið lengur en ofantaldar plöntur. Hún heitir kristþyrnir. Kristþyrnir er planta vikunnar.

Kristþyrnir með berjum. Mynd: Sig.A.

Ættin

Kristþyrnir, Ilex aquifolium, er af kristþyrniætt, Aquifoliaceae. Ættin er nefnd eftir viðurnefni kristþyrnis en ekki ættkvíslinni eins og algengast er. Innan ættarinnar eru um 400-500 tegundir í þremur ættkvíslum. Flestar finnast þær í Ameríku og Suðaustur-Asíu. Ein tegund er í Afríku. Ilex ættkvíslin er langstærst þessara ættkvísla. Talið er að 9 af hverjum 10 tegundum ættarinnar tilheyri ættkvíslinni.


Villtur kristþyrnir að vetri til í skoskum skógi. Mynd: Sig.A.


Ættkvíslin

Ættkvísl kristþyrna, Ilex spp., inniheldur nokkur hundruð tegundir. Þetta eru allt saman lauftré og flest eru þau sígræn. Það gerir þær öðru vísi en flest lauftré utan hlýrri svæða. Sem dæmi má nefna að á Bretlandseyjum eru bara tvær innlendar tegundir lauftrjáa sem eru sígræn (Simon Wills 2018). Algengast er þó að finna tegundir af þessari ættkvísl sem tré eða runna í fjallendi regnskógana. Þar eru sígræn lauftré býsna algeng.

Í Evrópu má víða sjá kristþyrni sem fuglar hafa sáð. Staðsetning þeirra er misheppileg. Mynd: Sig.A.


Tegundir af þessari ættkvísl finnast í öllum heimsálfum, nema Antarktíku og Eyjaálfu. Þær eru býsna fjölbreyttar. Margar þeirra eru ræktaðar vegna þessara sígrænu laufa sem mörg hver geta stungið nokkuð illilega ef ekki er farið að með gát.

Ýmis yrki eru til í ræktun af kristþyrni. Gjarnan með óvenjulegum blöðum. Sum þeirra eru blendingstegundir. Mynd: Sig.A.


Kristþyrnir á Íslandi

Sú tegund sem við köllum kristþyrni er tegundin Ilex aquifolium. Aðrar tegundir hafa ekki reynst eins vel á Íslandi. Undantekning frá því eru blendingar I. aquifolium og annarra tegunda. Gjarnan lágvaxinna. Slíkir blendingar eru ef til vill meira ræktaðir hér á landi en tegundin sjálf. Það á að minnsta kosti við um Norðurlandið.

Yrkin ´Blue Prince‘ og ´Blue Princess´ eru lágvaxin blendingsyrki sem töluvert er af á Akureyri. Aðeins prinsessan ber ber en það gerir hún ekki nema prinsinn sé nálægur. Það þarf tvo í tangó. Mynd: Sig.A.


Sólveig Jónsdóttir úr Hafnarfirði hefur góða reynslu af ræktun kristþyrnis. Henni gengur best að rækta hann í góðu skjóli og í fremur súrri mold. Þetta eru svipuð skilyrði og mælt er með fyrir lyngrósir, Rhododendron spp. Þannig gengur ræktunin vel en kristþyrnirinn vex hægt.

Sólveig Jónsdóttir hefur ræktað þennan kristþyrni í sumarbústaðalandi sínu í Hvalfjarðarsveit. Hann var í sumar orðinn 2,2 metrar á hæð.

Mynd: Sólveig Jónsdóttir.


Á okkar tímum vex enginn kristþyrnir villtur á Íslandi. Þannig hefur það ekki alltaf verið. Á tertíertíma, áður en ísöld gekk í garð, óx einhver tegund kristþyrnis á Íslandi. Við vitum mjög lítið um hvernig hún leit út, enda hefur vísindamönnum ekki tekist að greina steingerð lauf eða greinar úr fornum setlögum. Aftur á móti hafa menn skoðað frjó í gömlum mýrum og þannig bætt við mikilli þekkingu um horfnar plöntur á Íslandi. Frjókorn kristþyrnis hafa fundist í að minnsta kosti fjórum þekktum setlögum frá því fyrir ísöld. Þau hafa fundist í Selárdals-Botns setlögunum, sem talin eru um 15 milljón ára gömul, einnig í setlögum sem kennd eru við Brjánslæk og Selá sem talin eru um það bil 12 milljón ára gömul. Þetta eru tvö elstu setlög á Íslandi sem geyma plöntuleifar. Að auki hafa frjó fundist í lagi sem kallast Skarðströnd-Mókollsdalur sem eru um 9-8 milljón ára gömul og í hinu vel þekkta Tjörnesbelti, sem talið er hafa myndast fyrir 4,3-3,8 milljón árum.

Síðan ekki söguna meir (Denk og fleiri 2011).

Höfundur situr við kristþyrni, gapandi yfir stærð hans. Þeir eru báðir á milli Fossvogskirkju og minnismerkis um óþekkta sjómanninn við Fossvogskirkjugarð. Mynd: Örn Arnarson


Svo var það ekki fyrr en á 20. öld sem farið var að reyna að planta tegundinni aftur á Íslandi. Nú má finna ágæt eintök af kristþyrni víða um land. Einkum á sæmilega skjólgóðum stöðum. Sennilega er auðveldast að ganga að laglegum kristþyrni rétt sunnan við aðaldyr Fossvogskirkju, við minningarreit um sjómenn sem týndust í hafi.

Veglegt kristþyrnitré að hausti til í skoskum garði. Mynd Sig.A.


Tengsl við andaheim?

Öldum saman hefur kristþyrnir verið tengdur við einhvers konar galdra og andaheima. Ein skýringin á því getur verið hversu glansandi græn laufin eru á veturna þegar flest önnur lauftré standa nakin og lauflaus. Rómverjar hófu að notuðu sígræn lauf kristþyrna til skreytinga við sólstöðuhátíð sína að vetri. Sú hátíð hefur verið kennd við guðinn Satúrnus. Kristþyrnirinn virðist hafa verið valinn fram yfir aðrar tegundir í sjálfu Rómarveldi þótt úrval sígrænna lauftrjáa sé þar meira en norðar í álfunni. Sem dæmi má nefna að á Bretlandseyjum eru einungis tvær tegundir sem teljast til sígrænna lauftrjáa. Hin tegundin er Buxus sempervirens sem kölluð hefur verið fagurlim á íslensku. Í 150 ár hafa þarlendir grasafræðingar rifist um hvort hún sé í raun bresk eða innflutt. Þannig að hugsanlega er kristþyrnirinn eina innlenda, sígræna lauftréð á eyjunum.

Stór kristþyrnir í almenningsgarði í Edinborg. Ef vel er að gáð má sjá dúfur sem tylla sér á tréð. Mynd: Sig.A.


En aftur til Rómar. Satúrnusarhátíðin var haldin af öllum stéttum Rómarveldis og var mjög vinsæl. Það var ekki nóg með að híbýlin væru skreytt með kristþyrni heldur viðgekkst sá siður að gefa öðrum greinar af kristþyrni sem tákn um velvild og vináttu í tengslum við hátíðina. Þessum sið héldu margir löngu eftir að skipt var um trúarbrögð suður í Róm. Að auki barst siðurinn um stóran hluta Evrópu þegar Rómarveldi stóð sem hæst. Án efa höfðu Rómverjar áhrif á það hversu vinsæll þyrnirinn varð um jólin um alla Evrópu.

Vinarvottur í rigningu. Mynd: Sig.A.


Rómverjar tengdu tréð við hvítagaldur. Pliny hélt því fram að lauf hans væru vörn gegn svartagaldri og að auki átti plantan að koma í veg fyrir að fólk yrði fyrir eldingum. Hugmynd Rómverja um vörn kristþyrnis gegn göldrum barst með þeim til Bretlandseyja. Þar var tegundin talin vörn gegn nornum.

Því hefur einnig verið haldið fram (sjá t.d. Wills 2018) að hinir fornu Drúidar gætu hafa vegsamað kristþyrni, enda er hann sígrænn og skartar berjum yfir kaldan, dimman veturinn. Hann gæti hafa verið fulltrúi vonar og betri framtíðar er sólin fer aftur að hækka á lofti.

Eftir að kristnir menn tóku að nota kristþyrni til skreytinga (sjá næsta kafla) var ekki sama hvernig það var gert. Lengi vel þótti það boða mikla ógæfu að bera lauf kristþyrnis í híbýli sín fyrir jól. Jafn mikil ógæfa gat svo fylgt því að fjarlægja þau ekki að lokinni jólahátíðinni. Það var bara á jólum sem þetta var viðeigandi og hættulaust.

Jólabolli, undirskál og fylgidiskur. Allt skreytt með kristþyrni. Mynd: Sig.A.


Í bók sinni A History of Trees segir Simon Wills frá nokkrum sögum sem tengjast trjám. Þar er tilgreind sú saga að í Norðimbralandi hafi fólk talið að þyrnótt blöð væru karlkyns, en blöð án þyrna væru kvenkyns (sjá aðra skýringu síðar. Hún er ekki eins skemmtileg). Kvenlaufin höfðu heppilega og jafnvel guðdómlega eiginleika. Hægt var (og er ef til vill enn) að nýta laufin til að láta drauma rætast. Til þess að það gengi eftir þurfti að uppfylla nokkur skilyrði. Laufin þurfti að tína af trjánum á föstudegi og þess átti að gæta að sá sem tíndi hefði algera þögn frá því tínsla hefst og til morgunstundar daginn eftir. Níu og aðeins níu laufum átti að safna í þríhyrndan vasaklút og binda níu hnúta á klútinn. Í honum átti síðan að bera laufin heim. Klútinn, með laufunum í, átti síðan að setja undir koddann. Ef öll þessi skilyrði voru uppfyllt mátti treysta því að draumar viðkomandi myndu rætast (Wills 2018). Eins gott að dreyma ekki illa eftir alla fyrirhöfnina.


Stæðilegur kristþyrnir í Grasagarðinum í Edinborg. Mynd: Sig.A.


Tengsl við jól

Frumkristnar kirkjudeildir við Miðjarðarhaf bönnuðu fylgjendum sínum að skreyta híbýli sín með hinum sígrænu greinum á Satúrnúsarhátíðum og töldu það vera heiðið fyrirbæri. Það hafði ekki mikil áhrif á almenning. Svo kom að því að kristnir menn ættleiddu bæði hátíðina og skreytingarnar sem henni fylgdu. Síðan hafa jól verið haldin hátíðleg og kristþyrnirinn fylgdi með. Þetta tré þótti, og þykir enn, heppilegt til að vegsama Krist. Það er með þyrna, rétt eins og þyrnikórónan sem Kristi var gert að bera á Golgata, er með blóðrauð ber, sem minntu á blóð Krists og er sígrænt sem tákn um eilíft líf. Íslenska heitið sýnir þessi tengsl ágætlega.

Gömul mynd af jólasveini með kristþyrnikórónu.

Kristþyrnir hefur því fylgt jólahaldi mun lengur en hin hefðbundnu jólatré.

Þegar evópskir landnemar komu til Norður-Ameríku rákust þeir á þarlenda tegund, Ilex opaca, sem er býsna lík þeirri evrópsku sem hér er ræktuð. Munurinn er helst sá að blöðin eru ekki glansandi heldur mött. Latínuheitið opaca vísar í það. Innflytjendurnir voru fljótir að nýta þessa tegund í jólaskreytingar eins og þær sem þekktust í heimaálfunni og svo er enn.

Ilex opaca er amerísk kristþyrnitegund með möttum blöðum. Myndin er fengin héðan þar sem kynnt eru þau tré sem vaxa við Hvíta húsið.


Áður en gosdrykkjaframleiðandinn Kókakóla klæddi jólasveininn í rautt var hann almennt í fjölbreyttari klæðnaði en nú er. Undantekningin er ef til vill íslensku jólasveinarnir. Þeir hafa ekki enn tekið upp rauða klæðnaðinn nema til spari. Rétt eins og nú var áður fyrr algengt að sjá einhvers konar jólasvein á jólakortum. Á tímum Viktoríu drottningar voru gjarnan teiknaðar myndir af svokölluðum Jólaföður. Hann var nánast alltaf með einhvers konar jólakrans á hausnum. Einboðið var að hann væri úr kristþyrni. Einnig er enn mjög algengt að í einu horni jólakorta séu nokkur laufblöð og ber af kristþyrni á jólakortum og allskyns jólamyndum.


Dæmigerð jólakort með kristþyrnimyndum.


Nafnið

Á íslensku kallast þetta tré kristþyrnir eða kristsþyrnir. Virðast bæði heitin, með og án eignarfalls „s“ vera álíka vinsæl en í garðyrkju hefur fyrra heitið unnið á hin síðari ár. Íslensk málstöð mælir með því síðarnefnda. Enska nafnið er Holly. Það er vissulega líkt nafninu sem á þeirri tungu er notað yfir það sem er heilagt. Munar bara einu elli (holy í stað holly). Í forni ensku hét tréð holyn og á fornþýsku hulis. Líklega eru þessi orð skyld orðinu holy. (Wells 2010). Þessi tenging við heilagleika hjálpaði Bretum að trúa því að tréð og lauf þess gætu verið heppileg vörn gegn hvers kyns galdri norna. Má vera að sami siður hafi viðgengist á meginlandinu.

Seinna tóku Þjóðverjar upp nafnið Christdorn en Norðmenn og Danir kalla það kristtorn. Þetta er auðvitað sama heitið og við notum á íslensku.

Villtur kristþyrnir í Skotlandi. Mynd: Sig.A.


Latínuheitið

Á latínu heitir ættkvíslin Ilex eins og áður greinir. Nafnið er komið úr latínu en Rómverjar notuðu það á eikartegund sem kallast Quercus ilex sem heitir járneik á íslensku. Sú eikartegund er sígræn, rétt eins og kristþyrnirinn. Það var sjálfur Carl Linnaeus, höfundur tvínafnakerfisins sem við notum, sem gaf ættkvíslinni nafnið. Honum þótti lauf járneikarinnar vera líkt laufum þessarar ættkvíslar.

Myndarleg járneik, Quercus ilex, í Skotlandi. Laufblöð hennar eru lík laufblöðum kristþyrniættkvíslarinnar og ber því nafnið Ilex. Mynd: Sig.A.


Viðurnefnið aquifolium merkir að laufin eru oddhvöss. Eins og lýst er í næsta kafla á það þó ekki alltaf við en hingað til hefur það átt alveg prýðilega við um þær plöntur sem finna má í íslenskum görðum. Til eru aðrar tegundir innan ættkvíslarinnar. Aðeins fáar þeirra hafa oddhvöss lauf. Því er þetta ekki svo galið nafn.

Blöð á kristþyrni sem stendur við Kirkjugarða Reykjavíkur í Fossvogi.

Mynd: Sig.A


Yrki

Þar sem þetta er tegund sem er bæði vinsæl og hefur verið lengi í ræktun eru til fjölmörg yrki. Hér á landi eru það fyrst og fremst fremur smávaxin yrki sem hafa verið í ræktun. Mörg þeirra eru reyndar blendingar þessa venjulega kristþyrnis og annarra lágvaxina tegunda. Má nefna að á Akureyri má í görðum finna yrkin ´Blue Prince‘ og ´Blue Princess´. Við látum lesandanum eftir að átta sig á hvers kyns þau yrki eru. Þessi tvö yrki eru þó ekki alveg dæmigerð fyrir tegundina. Þau eru talin blendingar I. aquifolium og I. rugosa. Blendingurinn gengur undir fræðiheitinu I. x meserveae en grasafræðingarnir í Kew Gardens eru eitthvað efins um það heiti.

Blendingsyrkið ´Litle Rascal´ í ræktun í Sólskógum. Mynd: Sig.A.


Yngra í ræktun hér norðan heiða er yrkið ´Litle Rascal´ sem er jafnvel enn lægra og virkilega fallegt. Sannkallaður krúttrunni. Þetta yrki er líka talið blendingur og er skrifað sem Ilex x meserveae 'Little Rascal'.


Úti í hinum stóra heimi er einnig algengt að rækta yrki sem hafa tvílit blöð. Lítil reynsla er af þeim á Íslandi en þau eru til á stöku stað. Meðal annars hefur Sólveig Jónsdóttir ræktað Ilex aquifolium ‘Rubricaulis Aurea’ sem náð hefur 1,8 metrum á 10 árum. Það yrki hefur ljósa flekki sem verða meira áberandi á björtum vaxtarstað


Ilex aquifolium ‘Rubricaulis Aurea’. Myndin fegngin héðan.


Laufin

Eins og áður hefur komið fram eru laufin sígræn og gljáandi. Að auki stinga þau, því þau eru oddhvöss. Það á þó bara við um þau lauf sem eru neðarlega á trjánum.

Frosin laufblöð í desembersól í Skotlandi. Mynd: Sig.A.

Litlir runnar hafa alltaf oddhvöss blöð. En stærri tré hafa einungis oddhvöss blöð á neðstu greinunum. Þegar tréð hefur náð það mikilli hæð að allir helstu grasbítar Evrópu ná ekki lengur upp í greinarnar hættir tréð að framleiða lauf með þyrnum. Lauf, sem eru hátt í krónum, bera enga brodda. Svona getur þróunin brugðist við grasbítum. Eins og áður segir er til tegund Í Norður-Ameríku sem heitir Ilex opaca (sem merkir mattur, enda glansa blöðin ekki). Hann ber líka lauf með svona broddum eins og sjá má á mynd hér ofar. Það kemur þó ekki í veg fyrir að dádýr úði þeim í sig í þeirri álfu. Eitthvað betur virðist þetta trix virka hjá evrópsku tegundinni.

Þessi mynd er tekin af brú í bænum Delkeith, skammt frá Edinborg í Skotlandi. Þessi kristþyrnir teygir sig upp við hlið brúarinnar. Þar er hægt að skoða laufblöð sem eru hátt yfir jörðu. Þau eru án hinna dæmigerðu þyrna, enda þarf ekkert að verjast laufætum í þeirri hæð. Mynd: Sig.A.

Horft upp í krónu kristþyrnisins við kirkjugarða Reykjavíkur í Fossvogi. Eins og sjá má eru aðeins þyrnar á sumum blöðum þarna uppi. Mynd: Sig.A.



Aldin

Kristþyrnir er einkynja. Það merkir að hvert tré er annað hvort kk. eða kvk. Karlplönturnar bera karlblóm en þroska ekki ber. Það eru aðeins kvenplönturnar sem mynda aldin. En þvílík aldin! Þau eru eldrauð og mjög áberandi. Þau hanga lengi á plöntunum og eru hin mesta prýði. Kvenplöntur geta þó ekki myndað nein ber nema að karlplöntur séu til staðar. Það þarf tvo í tangó. Samt er það svo að eitt karlkyns tré getur frjóvgað mörg kvenkyns tré. Þess vegna eru kvk. plöntur miklu algengari í ræktun. Til eru aðrar tegundir innan ættkvíslarinnar sem hafa gul ber en rauði liturinn er algengastur. Bæði rauðu og gulu berin eru eftirsótt af fuglum.

Ilex aquifolium 'Bacciflava' hefur gul ber. Myndin er fengin af Instagram og er eftir Josh Egan-Wyer.


Notkun

Hér á landi eru greinar kristþyrnis fáanlegar í búðum fyrir jól og stöku runnar eru til í görðum. Í hinum stóra heimi er algengasta notkunin í allskonar limgerði og sem stök tré í litlum görðum. Hann vex hægt, er sígrænn og þéttur og auk þess getur hann stungið óboðna gesti. Allt eru þetta þættir sem gera hann vinsælan sem limgerðisplöntu í útlöndum.

Lágvaxinn kristþyrnir í litlum, skoskum garði. Þar er hann oft ræktaður sem krúttrunni. Mynd: Sig.A.


Viður kristþyrnis er harður, hvítur og mjúkur. Vegna þess hve hægt tréð vex er ekki mikið um hann á markaði enda er hann dýr, af sömu ástæðum. Hann er stundum nýttur í stað fílabeins, því liturinn á að vera svipaður. Helsti gallinn við viðinn er hversu rakur hann er og lengi að þorna. Í þurrkferlinu getur hann auðveldlega sprungið ef ekki er farið með gát.

Skál sem rennd er úr kristþyrni. Myndin fengin af þessari upplýsingasíðu.


Áður fyrr var börkurinn einnig nýttur. Úr honum var búið til svokallað fuglalím. Börkurinn var þá soðinn í tólf tíma og síðan unnið úr honum límkennt klístur. Fuglar, sem voru svo óheppnir að lenda í þessari drullu, festust. Þá mátti þá einfaldlega tína upp og selja eða hafa í matinn. Þessi veiðiaðferð er nú bönnuð (Wills 2018).

Einnig eru til sagnir um að tegundin hafi áður verið nýtt til að lækna kvef og flýta fyrir að brotin bein grói. Ekki hefur nútíma læknavísindum tekist að renna stoðum undir þær lækningaaðferðir.


Fleiri tegundir

Hér að ofan hefur fyrst og fremst verið talað um Ilex aquifolium og ein önnur, Ilex opaca, hefur verið nefnd. En ættkvíslin er stór. Því leyfum við okkur að nefna fáeinar tegundir sem ágætis dæmi.

Í Suður-Ameríku vex tegundin I. paraguariensis. Hún hefur mun smærri lauf en kristþyrnirinn í Evrópu og eru þau mjúk og alveg laus við þyrna. Þau eru nýtt til einskonar tegerðar. Sá drykkur heitir yerba maté og er mjög koffínríkur. Fyrr á öldum einokuðu Jesúítamunkar framleiðslu á þessum drykk, eða öllu heldur á þurrkuðum laufum tegundarinnar sem nýtt voru til að búa til drykkinn. Nú getur hver sem er framleitt hann og telst á okkar dögum nokkuð algengur drykkur í álfunni. Þetta er ein af þeim fáu tegundum sem fengið hefur íslenskt nafn, ef marka má orðabanka Árnastofnunar. Heitir tegundin sléttukristþyrnir eða indíánaþyrnir samkvæmt bankanum.



Mynd af yerba maté. Laufin eru án allra þyrna. Myndin fengin héðan.


Í suðaustur hluta Bandaríkjanna vex I. vomitoria. Blöð þessa þyrnis eru án þyrna og einnig nýtt í drykk. Heitir hann einfaldlega Black drink eða svarti drykkur.


Í Kína er til tegund sem ræktuð hefur verið í Evrópu frá miðri nítjándu öld. Heitir hún I. cornuta. Hún hefur ekki hlotið íslenskt nafn, en heimamenn kalla hana hundabein. Mun það vera vegna þess að viðurinn í trénu er beinhvítur og harður. Viður tegundarinnar er nýttur en tréð vex hægt.

Ilex cornuta. Myndin fengin frá Gardentags


Við verðum líka að geta tegundarinnar I. rugosa. Algengustu yrki kristþyrnis á Akureyri eru blendingar hans og I. aquifolium. Hann vex villtur í Japan og Sjakalíneyju og er alltaf lágvaxinn. Viðurnefnið rugosa er sama viðurnefnið og notað er á ígulrósir (Rosa rugosa) frá sömu slóðum. Mætti því kalla þessa tegund ígulkristþyrni.

Ilex rugosa er lágvaxinn og þéttur. Blendingar hans eru ræktaðir hér sem krúttrunnar. Myndin fengin héðan.

Íslensk málstöð heldur úti íðorðabanka. Sjá hér. Þar er listi yfir þær kristþyrnitegundir sem hafa íslenskt heiti. Alls eru þær sjö talsins og er því mikið verk óunnið. Þetta eru tegundirnar fenjakristþyrnir (I. cassine), Fjallakristþyrnir (I. montana), kattakristþyrnir (I. mucronata), kranskristþyrnir (I. verticillata), sléttukristþyrnir (I. paraguariensis) og sunnukristþyrnir (I. crenata) auk hins dæmigerða kristþyrnisins (I. aquifolium)


Hvað um Kristþyrniskóg?

Í Kaliforníu vex tré sem heimamenn kalla toyon tree eða Photinia arbutifolia sem á sér samheitið Heteromeles arbutifolia. Það tré hefur verið kallað mistilglæðurunni eða mistilrós á íslensku. Þessi trjátegund ber rauðleit ber sem geta jafnvel verið skærrauð. Þau eru oft nýtt í ýmsar skreytingar, meðal annars um jól. Þetta tré er hreint ekki af ættkvíslinni Ilex og er því ekki neinn kristþyrnir. Það er ekki einu sinni af sömu ætt. Það vissu bleiknefjarnir ekki sem settust fyrst að á þessum slóðum. Þeir stofnuðu bæ sem þeir nefndu eftir kristþyrninum sem þarna er hvergi sjáanlegur. Kalla mætti þennan bæ Kristþyrniskóg á íslensku en algengara er að nota enska heiti hans. Bærinn var stofnaður árið 1887 af Horace Wilcox. Þarna ætlaði hann að búa til samfélag hreintrúarmanna sem áttu að lifa eingöngu samkvæmt Guðslögum. Sjálfsagt má deila um hvort þeim markmiðum hefur verið náð eða hvort þau eru jafn langt frá raunveruleikanum eins og skógar kristþyrnis á sömu slóðum. Bærinn varð síðan að borg sem enn heitir Hollywood.

Mistilglæðurunni er af rósaætt og alger misskilningur að telja hann vera einhvern kristþyrni. Hann gaf samt Hollywodd nafn sitt.

Myndin fengin héðan af síðu þar sem fjallað er um flóru Kaliforníu.


Heimildir

Colin Tudge (2005): The Tree: A Natural History of What Trees Are, How They Live, and Why They Matter. Crown Publishers, a division of Random House, Inc, New York.

Diana Wells (2010) Lives of the Trees. An Uncommon History. Algonquin Books of Chapel Hill. Chapel Hill, North Carolina.

Simon Wills (2018): A History of Trees. Pen & Sword White Owl. Narnsley South Yorkshire.


Thomas Denk, Friðgeir Grímsson, Reinhard Zetter og Leifur A. Símonarson (2011): Late Cainozoic Floras of Iceland. 15 Million Years of Vegetation and Climate History in the Northern North Atlantic. Springer. http://www.springer.com/series/6623 Munnleg heimild: Sólveig Jónsdóttir 23. 08. 2022.

548 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page