Blæösp er ein þeirra fáu trjátegunda sem talið er að hafi vaxið á Íslandi við landnám. Hér í Eyjafirði eru vel þekktar blæaspir á tveimur stöðum. Annars vegar í Grundarreit og hins vegar í Vaðlareit eða Vaðlaskógi. Færri vita að til eru sagnir um að á síðustu öld hafi hún fundist á einum stað til viðbótar.
Getur verið að í gilinu leynist blæösp? Mynd: Sig.A.
Almennt um blæaspir
Blæaspir eru taldar með mest útbreiddu trjátegundum í heimi. Vestasti útbreiðslustaður hennar er á Íslandi. Hér er hún sjaldgæf en finnst fyrst og fremst um landið austanvert. Fyrsti fundarstaður hennar hér á landi var samt ekki á Austurlandi heldur í Fnjóskadal á Norðurlandi. Villtar blæaspir hafa aðeins fundist á því svæði sem nú kallast norðaustur kjördæmi. Má vel vera að það sé það helsta sem sameinar kjördæmið. Vel er þekkt að skóglendi Íslands er mun minna nú á tímum en það var við landnám. Rannsóknir á erfðaefni blæaspa sýna að íslenski stofninn er erfðafræðilega fjölbreyttur. Þegar þetta tvennt er haft í huga má ætla að blæösp hafi verið algengari hér fyrir landnám en nú er. Samt er ekkert hægt að fullyrða um hvar hún fannst á Íslandi fyrir landnám. Ef til vill hefur blæösp aldrei fundist um landið vestanvert.
Hér á landi hefur blæösp verið lítið notuð til skógræktar en finnst þó hér og þar í ræktuðum skógum. Vöxtur hennar er almennt mun minni en hjá frænku hennar frá Alaska. Aftur á móti kemur vel til greina að nota blæösp ef vilji er til að endurheimta einhvers konar náttúrulega skóga eða skóglendi með íslenskum tegundum. Að minnsta kosti gæti það gengið í norðaustur kjördæmi. Tegundin er harðgerð og myndar mikil rótarskot. Hún getur án efa bundið mikið kolefni bæði ofan jarðar og neðan. Að auki getur hún gegnt hlutverki við vatnsmiðlun og jarðvegsvernd svo dæmi séu tekin.
Erlendis er blæösp mikið ræktuð og má vel vera að seinna verði fjallað um það.
Blæösp á Grund. Mynd: Sig.A.
Aspir í felum
Þótt illa gangi að finna villtar blæaspir í Eyjafirði er ekki þar með sagt að þær séu ekki til. Aspir eru alveg sérstaklega vinsælar af sauðfé og það heldur þeim niðri og kemur í veg fyrir að þær geti talist ágengar. Því eru þær lítt áberandi í ófriðuðu landi. Eða eins og Þórarinn Benedikz orðaði það í grein í Skógræktarritinu árið 1994: „[M]á það teljast heppni að rekast á smásprota asparinnar innan um birki eða lyng. Sauðkindin hefur mikið dálæti á blæösp og tekur sprota hennar fram yfir annan runnagróður. Að öspin skuli hafa lifað óvarin á fyrrnefndum fundarstöðum [í greininni hafði Þórarinn nefnt þá áður] er hreint kraftaverk. Reyndar hefur hún aðeins tórt í kjarri, þar sem bitvargar hafa ekki komist að henni en jafnframt hefur beitin hindrað frekari útbreiðslu hennar.“
Blæösp í Vaðlaheiði. Mynd: Sig.A.
Öngulstaðaöspin
Ingólfur Davíðsson (1979) segir frá því að árið 1962 hafi hann séð um meters háa blæösp í garði á Öngulsstöðum í Eyjafirði. Sigurgeir Halldórsson, bóndi á bænum, sagði Ingólfi að hann hefði tekið hana í norðanverðu Garðsárgili, gegnt skógræktarreitnum á austurbrún gilsins og plantað henni árið 1954. Það er fyrsti reiturinn sem Skógræktarfélag Eyfirðinga tók að sér. Sigurgeir var þá að safna birkiplöntum í garð sinn sumarið 1954. Eins og flestir vita er gilið djúpt og bratt. Svo erfitt er að komast ofan í það að þar hefur lengi verið birki. Ingólfur fór og leitaði að öspinni en fann hana ekki. Ýmsir hafa síðan reynt að leita að öspinni en án árangurs.
Öngulstaðir að morgni þann 8. 10. 2022. Þarna eru núna ýmsar trjátegundir en engin blæösp. Mynd: Ingólfur Jóhannsson.
Ef öspin er þarna enn í gilinu er sennilega best að leita hennar á haustin. Annað hvort þegar birkið er lauflaust og öspin gul, eða birkið gult og öspin græn. Aftur á móti vekur það töluverða undrun að hún skuli ekki sjást á vorum tímum því svæðið hefur lengi verið friðað fyrir beit.
Sagnir herma að Sigurgeir hafi verið afar stoltur af íslensku öspinni sinn sem óx í garði hans og Guðnýjar Magnúsdóttur húsfreyju á Öngulsstöðum. Garðurinn var hannaður af Jóni Rögnvaldssyni sem lagði gjörva hönd á plóginn í skóg- og garðrækt í Eyjafirði á sínum tíma.
Mynd úr eigu afkomenda Sigurgeirs og Guðnýjar af garðinum á Öngulstöðum sem tekin var um það bil árið 1962. Það var sjálfur Jón Rögnvaldsson sem hannaði garðinn. Þótti nágrönnum íbúa Öngulstaða það heldur betur bruðl í þá daga að fá mann til að hanna garð, og það uppi í sveit! Öspin er til hægri á myndinni þar sem skjólbeltin mætast. Hún myndar þar eins konar runna sem er hærri en trjáplönturnar í skjólbeltunum (Halldór Sigurgeirsson 2022).
Nú er enga blæösp að finna á Öngulsstöðum. Talið er líklegast að hún hafi orðið að víkja vegna vegagerðar þegar heimreiðin var færð. Þeir sem muna öspina segja að hún hafi aldrei orðið mjög stór. Þvert á móti. Einhverjir telja jafnvel að þetta hafi í raun verið víðir en ekki ösp. Við í félaginu höfnum því algerlega því það er alveg ljóst að Ingólfur Davíðsson hefur þekkt blæösp er hann sá hana.
Urmull af rótarskotum nöturaspar á Suðurlandi. Hún er náskyld blæösp. Mynd: Sig.A.
Til eru mýmörg dæmi um það að blæöspum og nöturöspum (sem er náskyld og ekki auðgreind frá blæöspinni) hafi verið plantað og þær síðan vaxið fremur hægt. Aftur á móti hafa rótarskotin stundum vaxið hraðar eftir að plantan hefur komið sér fyrir. Ef rótarskotin hafa alltaf verið fjarlægð má vel vera að rétt að öspin hafi vaxið illa. Hafi aldrei verið um nein rótarskot að ræða vandast málið. Mikill fjöldi rótarskota er eitt af einkennum blæaspa.
Heimildir:
Ingólfur Davíðsson 1979: Blæösp á Íslandi. Í: Náttúrufræðingurinn 49. árgangur.
Halldór Sigurgeirsson 2022: Munnlegar upplýsingar.
Ingólfur Jóhannesson 2022: Munnlegar upplýsingar.
Comments