top of page
mainLong-1.png
  • Facebook

Lúsaryksugan glókollur

Writer's picture: Sigurður ArnarsonSigurður Arnarson

Á 20. öld kom það annað veifið fyrir að hingað bárust pínulitlir fuglar frá Evrópu. Þeir áttu hér sjaldnast neitt sældarlíf. Lítið var um skóga og enn minna um greniskóga, sem er þeirra kjörlendi. Yfir vetrarmánuðina var nær ekkert að hafa sem þeir gátu nært sig á. Því drápust þessir litlu fuglar áður en voraði. Smám saman fóru skógræktarmenn af öllum kynjum að rækta grenitré. Við það kættist þessi spörfugl en það dugði þó ekki til. Það vantaði æti yfir veturinn þegar flest, íslensk skordýr liggja í dvala. Árið 1959 var í fyrsta skipti staðfest að nýr vágestur, sem lagðist á greni, væri mættur til Íslands. Þetta er lítil, græn lús sem kallast sitkalús, Elatobium abietinum. Sumir kalla hana grenilús, enda lifir hún á ýmsum grenitegundum en það orð er einnig notað sem safnheiti fyrir allar lýs á greni. Þær eru reyndar ekki mjög margar. Smám saman barst þessi lús út um allt land. Þá vænkaðist hagur strympu. Hér var komin fæða sem gat haldið lífi í minnsta fugli Evrópu yfir veturinn á okkar ísakalda landi.

Í pistli vikunnar fjöllum við um þennan litla fugl. Hann er mikilvægur hlekkur í vistkerfum íslenskra barrskóga og kallast glókollur eða Regulus regulus. Þessi litli og fallegi fugl er algerlega háður innfluttum skógartrjám og tilbúnum búsvæðum fæasdf(Einar og Daníel 2006).

Krúttlegur kvenkyns glókollur sem sýnir af hverju fuglinn ber þetta nafn.
Krúttlegur kvenkyns glókollur sem sýnir af hverju fuglinn ber þetta nafn.

Landnám

Samkvæmt grein eftir Daníel Bergmann (2008) var fyrst vitað um glókoll á Íslandi árið 1932. Þá flæktist einn slíkur til Íslands og alla leið til Húsavíkur þar sem hann settist á höfuðið á barni.

Glókollar héldu áfram að berast til landsins en lifðu sjaldnast lengi. Þar voru veturnir afdrifaríkir því þá var æti af mjög skornum skammti fyrir þennan litla fugl og lítið skjól að hafa. Um miðjan tíunda áratug síðustu aldar (heimildum ber ekki saman um hvort það var árið 1995 eða 1996) barst stór ganga til landsins og vel kann að vera að það megi miða við þessi ár sem landnámsár glókolls á Íslandi. Þá voru greniskógar farnir að gefa nægilega gott skjól og heppileg fæða var komin í þá sem fuglinn gat treyst á yfir veturinn. Guðmundur Páll Ólafsson (2005) benti á að það var pláss fyrir þennan dvergfugl í íslenskri vist þar sem aðrir fuglar sækjast lítið í lýsnar sem eru uppistaðan í fæðu hans. Guðmundur taldi líka að hin milda tíð fyrstu árin eftir að fuglinn barst hingað hafi hjálpað mikið við að tryggja að landnám tækist.

Fyrsta varp glókolls á Íslandi var staðfest í Hallormsstaðaskógi í kjölfarið. Fyrsta varp á Norðurlandi var staðfest árið 2002 (Guðmundur Páll 2005).

Glókollur skimar eftir sitkalús að vetri til.
Glókollur skimar eftir sitkalús að vetri til.

Staðfugl

Eitt af því sem gerir þetta landnám stórmerkilegt er að nyrst í Evrópu er glókollur talinn vera farfugl þótt hann sé staðfugl víðast hvar í álfunni. Þegar stórir hópar glókolla bárust hingað var talið að þar væru á ferð farfuglar sem lent höfðu í djúpri lægð. Það er ekki auðvelt fyrir litla fugla að fljúga rúmlega 800 km vegalengd yfir opið haf, bæði vor og haust, án þess að geta tyllt sér á svo mikið sem eina grein á leiðinni. Þess vegna töldu flestir litla möguleika á að glókollur gæti numið hér land. En þegar þessi stóra ganga barst hingað til lands, seint á síðustu öld, virðist vera sem stór hluti stofnsins hafi tekið þá bráðsnjöllu ákvörðun að reyna ekki við farflug yfir hafið. Þeir gerðust hér staðfuglar eins og þekkist sunnar í álfunni. Þannig hefur það verið alla þessa öld og ekki eru líkur á að það breytist.

Þetta gæti bent til þess að þetta hafi ekki verið ganga farfugla sem hingað barst með djúpri lægð, heldur svokallað rásfar (e. irruptions). Rásfar er það kallað þegar stórir hópar fugla af sömu tegund taka sig upp og flakka út fyrir heimkynni sín. Oftast er þetta vegna fæðuskorts eða offjölgunar. Algengast er að þetta séu fuglar úr hópi frææta en það er ekkert sem segir að fæðuskorts geti ekki líka gætt hjá lúsaætum. Ef til vill var þetta stór hópur fugla að flýja hungur sem hingað barst með hjálp djúprar lægðar á sínum tíma. Nú er glókoll að finna víðast hvar á Íslandi þar sem nægilega mikið er af grenitrjám til að veita þeim skjól og fæðu yfir veturinn. Í eldri heimildum er til þess tekið að hann sé ekki að finna á Vestfjörðum, en það hefur breyst. Glókollurinn er kominn þangað og mun eflaust festa sig enn betur í sessi þegar greniskógar vaxa meira og þroskast.

Glókollur á furugrein. Gulbrúnar tærnar sjást vel. Þær eru eitt af einkennum fuglsins.
Glókollur á furugrein. Gulbrúnar tærnar sjást vel. Þær eru eitt af einkennum fuglsins.

Lýsing

Glókollurinn er aðeins um 6 g að þyngd og um 9 cm langur. Vænghaf hans er 14-16 cm (Jóhann Óli 2011). Þessar tölur merkja að glókollurinn telst vera minnsti fugl Evrópu. Áður en hann nam hér land börðust skógarfuglarnir auðnutittlingur og músarrindill um titilinn minnsti fugl Íslands. En glókollurinn toppar þá báða í smælingjabaráttu fuglafánunnar. Það er alveg óvíst að fuglar geti verið minni en þetta til að halda nægilegum líkamshita á vetrum til að lifa af í Evrópu.

Músarrindill (fyrri mynd) og auðnutittlingur (seinni mynd) voru minnstu fuglar Íslands áður en glókollur nam hér land. Músarrindill er vanalega ögn þyngri en styttri en auðnutittlingurinn. Því er vel hægt að metast um það hvor teljist minni. Takið eftir muninum á nefi fuglanna. Músarrindill vill helst allskonar pöddur eins og glókollurinn en auðnutittlingurinn er frææta. Goggarnir sýna þetta vel.


Glókollurinn er með svo stuttan háls að hann virkar nær alveg hnöttóttur í útliti. Hann er ólífugrænn að ofan með grænleita síðu. Hann er auðþekktur á kollrákinni. Hún er áberandi gul og eru svartar rendur beggja vegna við hana. Ungfuglar eru án þessarar kollrákar. Karlfuglinn er með rauðgula rönd í rákinni (Jóhann Óli 2011). Þessi rauðguli litur karlsins sést vanalega ekki nema þegar hann ýfir fjaðrirnar. Það gerir hann í tilhugalífinu og ef óboðnir gestir gerast of nærgöngulir við óðul hans (Guðmundur Páll 2005). Vængirnir eru stuttir og breiðir. Flugfjaðrirnar eru svartar en hann er með gula fjaðrajaðra og tvö ljós vængbelti (Jóhann Óli 2011).

Goggurinn er oddhvass og mjög vel lagaður að því að tína upp pöddur á trjám. Fuglinn á auðvelt með að ná í þær jafnvel þótt þær feli sig í trjáberki. Goggurinn er svartur að lit. Þessi litli fugl er mjög kvikur, sístarfandi og alltaf á iði. Talið er að hann geti lifað í sex til átta ár.

Hægt er að greina kyn glókolla á kollinum ef og aðeins ef karlfuglinn ýfir fjaðrirnar. Fyrri myndin sýnir karlfugl, sú seinni kvenfugl.


Söngur og köll

Í þéttum grenilundum má oft heyra tíst í glókollum. Það er þó ekki öllum gefið að heyra þessi köll, því tíst þeirra er á nokkuð hárri tíðni. Með auknum aldri okkar manna dregur úr hæfni til að heyra hljóð með háa tíðni. Því er það svo að eldra fólk og fólk sem orðið hefur fyrir heyrnarskaða, til dæmis vegna hávaða, missir af sumum hljóðum þessa litla fugls sem þegir sjaldan.

Svo á glókollurinn einnig til ljómandi fallegan tveggja tóna söng. Hann er af lægri tíðni svo flestir geta heyrt hann. Minnir þessi söngur nokkuð á söng skógarþrasta. Hægt er að finna þessi hljóð glókolls á netinu, taka þau upp og spila síðan í lundum greniskóga þar sem líklegt er að fuglinn haldi sig. Þá kemur hann oftast nær til að heilsa upp á þennan nýja félaga. Þá kemur í ljós að í raun er þetta hinn spakasti fugl, þrátt fyrir að halda mætti að hann sé mjög taugaveiklaður miðað við hvað hann hoppar mikið og skoppar í leit að æti. Þannig er hægt að tæla til sín glókolla þar sem erfitt getur verið að koma auga á þá eða skoða þá náið. Hér er eitt dæmi um svona hljóðrás, en þær má finna víða.

Vængmynstur glókolla er auðgreinanlegt. Á myndinni situr fuglinn á grenigrein og skimar eftir æti.
Vængmynstur glókolla er auðgreinanlegt. Á myndinni situr fuglinn á grenigrein og skimar eftir æti.

Fæða

Glókollurinn er mjög sérhæfður í fæðuvali og algerlega háður hinni smáu sitkalús. Flest skordýr á Íslandi leggjast í dvala yfir vetrarmánuðina en á því er sitkalúsin ákaflega mikilvæg undantekning. Hún lifir og er á ferli allt árið og getur meira að segja fjölgað sér á veturna ef hitinn fer ekki langt undir frostmark. Þess vegna er sitkalúsin alger grundvallafæða á veturna fyrir glókollinn, þegar nánast ekkert annað er að hafa. Sambandið er svo náið að stofnstærð fuglsins fylgir stofnstærð sitkalúsar. Verði hrun í stofni lúsanna, þá hrynur stofn glókollsins í kjölfarið.  Það var einmitt það sem gerðist árið 2004 þegar hörð vetrarfrost gengu að sitkalúsum dauðum. Stofnarnir náði sér þó aftur. Fyrst stofn lúsarinnar og í kjölfarið stofn fuglsins. Nánar má lesa um þetta í kaflanum um stofnsveiflur hér að neðan. Önnur fæða sem fuglinn sækir í á vetrum er meðal annars stökkmor, þegar það býðst.

Á þessari mynd af glókolli á lerkigrein sést að fæturnir eru miklu dekkri en tærnar.
Á þessari mynd af glókolli á lerkigrein sést að fæturnir eru miklu dekkri en tærnar.

Rétt er að geta þess að fleiri fuglar hafa lært að nýta þessa fæðu á vetrum. Það á meðal annars við um fugla sem hafa verið lengi á landinu. En enginn fugl á landinu er jafn háður henni og glókollurinn (Einar og Daníel 2006).

Glókollurinn tínir lýs af barrnálum og laufi og getur líka pikkað þær upp af stofnum trjáa. Fuglinn er svo duglegur við þetta að kalla mætti hann lúsaryksugu. Þar kemur hinn granni, svarti goggur sér einstaklega vel. Þrátt fyrir dálæti sitt á sitkalús fúlsar hann ekki við öðrum, smávöxnum skordýrum eins og þeir Einar og Daníel (2006) benda á í sinni grein. Í greni getur hann fundið grenisprotalús, ef hann er heppinn og þegar skordýralirfur eru í boði, þá étur hann þær. Jóhann Óli (2011) bætir við að önnur fæða fuglsins sé til dæmis köngulær, aðrar blaðlýs, fetar, lirfur og púpur og einnig egg skordýra. Mest af þessu tekur hann af laufi og barri en stökkmor tekur hann stundum af jörðinni. Hann veiðir stundum skordýr á flugi og andæfir á meðan (Jóhann Óli 2011). Hann eltir samt aldrei skordýr á flugi (Guðmundur Páll 2005).

Grenisprotalús (fyrri mynd) og sitkalús (seinni mynd) eru lúsategundir sem þrífast á greni. Glókollurinn tekur þær báðar og sitkalúsin er lykilfæða fyrir hann. Myndir: Björn Hjaltason (fyrri mynd) og Sig.A. (seinni mynd). Aðrar myndir í þessum pistli tók Sigurður H. Ringsted.

Glókollur á lerkigrein að vetrarlagi. Þar gæti hann fundið stökkmor.
Glókollur á lerkigrein að vetrarlagi. Þar gæti hann fundið stökkmor.

Fjölgun

Þessi litli fugl býr sér til kúlulaga hreiður með tveimur opum. Það hangir neðan á greinum og er að jafnaði gert úr mosa og gróðurleifum en er fóðrað að innan með dúnfjöðrum. Hafa verið taldar 2500 slíkar fjaðrir í hverju hreiðri í útlöndum, en við vitum ekki til þess að lagst hafi verið í slíkar talningar hér á landi.

Í þetta hreiður verpir fuglinn 6 - 11 eggjum sem klekjast út á 15 - 17 dögum. Ungarnir halda sig í hreiðrinu í eina 17 - 22 daga (Jóhann Óli 2011, Guðmundur Páll 2005). Báðir foreldrarnir ala önn fyrir ungunum en aðeins kvenfuglinn liggur á eggjunum. Stundum, segir Guðmundur Páll (2005), hættir kvenfuglinn að fóðra ungana en flytur í annað hreiður og hefur varp aftur, áður en ungar úr fyrra varpi yfirgefa gamla hreiðrið.

Oftast nær verpir glókollurinn tvisvar á hverju sumri, samkvæmt upplýsingum sem Sverrir Þór Sigurðsson veitti á Facebooksíðunni Fuglar á Íslandi. Að jafnaði er seinna varpið heldur minna en hið fyrra. Guðmundur Páll (2005) segir að stundum nái þeir þriðja varpinu.

Ungfugl að skoða heiminn með sínum svörtu augum. Þeir fá ekki kollrákina fyrr en þeir eldast.
Ungfugl að skoða heiminn með sínum svörtu augum. Þeir fá ekki kollrákina fyrr en þeir eldast.

Stofnsveiflur

Í bók sinni frá 2011 segir Jóhann Óli Hilmarsson að stofnstærð glókolls sé um 1000 til 2000 varppör. Þetta segir ef til vill einhverja sögu um hvað stofnsveiflurnar eru miklar hjá þessari tegund.

Eftir að glókollinum tókst að nema hér land breiddist hann hratt út. Á undraskömmum tíma varð hann einn algengasti skógarfuglinn þar sem þroskuð grenitré var að finna. Fuglinn er mjög lítill og þolir illa langvarandi frost og enn verr þolir hann hungur. Hann þarf nánast látlaust að éta til að viðhalda nægilegum líkamshita (Einar og Daníel 2006). Í nóvember og desember árið 2004 gerði harðan frostakafla. Eins og sagt er frá hér að ofan var hann það harður að sitkalýs stráféllu. Það lagðist ofan á vandræði glókolls samhliða kuldanum. Afleiðingin varð sú að algert hrun varð í stofni þessa fugls. Hátíðnitístið og söngurinn hljóðnaði. Hinn síkviki, litli hnoðri var horfinn.

Sem betur fer drápust samt ekki allir fuglar landsins. Á Héraði var töluvert um fugla og annars staðar lifðu einn og einn fugl af í stærri skógum. Eftir þetta óx stofninn, smátt og smátt (Einar og Daníel 2006). Svona sveiflur í stofni glókolls eru vel þekktar í Evrópu að sögn Einars og Daníels (2006). Stofnstærð hans sveiflast með tíðarfari og fæðuframboði. Þó er sá munur á að þegar kólnar í Evrópu eiga fuglarnir möguleika á að forða sér suður á bóginn, en sá möguleiki er ekki fyrir hendi á Íslandi. Að auki eru hér nánast engar pöddur að finna í skóginum yfir veturinn, nema sitkalúsina. Því eru sveiflur í stofnstærð glókollsins óumflýjanlegar og geta verið harla miklar. Þannig mun það eflaust verða um ókomna tíð.

„Á hvað ertu að horfa?“ Gæti þessi litli hnoðri sagt. Brúnir fætur með rauðgular tær, svört augu, svart nef og hin auðþekkta rák á höfði sem gefur fuglinum nafn eru einkennandi fyrir minnsta fugl Evrópu.
„Á hvað ertu að horfa?“ Gæti þessi litli hnoðri sagt. Brúnir fætur með rauðgular tær, svört augu, svart nef og hin auðþekkta rák á höfði sem gefur fuglinum nafn eru einkennandi fyrir minnsta fugl Evrópu.

Samantekt

Við sækjum margt í skóga landsins. Eitt af því sem við viljum gjarnan skoða eru skógarfuglarnir. Þeir eru meira að segja í skógunum yfir veturinn þegar lífið er almennt í hægagangi. Unun er að fylgjast með glókolli sem er skemmtilegt afsprengi innfluttra trjáa. Hann gæðir barrskóga lífi og getur dregið fram lífið á örlitlum lúsum sem annars geta valdið skóginum miklum skaða. Þeir Einar og Daníel (2006) benda okkur á að glókollur geti verið okkur áminning um hversu öflugur lífsandinn getur verið. Þessi litli fugl dregur fram lífið í kulda, vonskuveðrum og orrahríð sem ganga yfir landið á hverjum vetri. Þökk sé íslenskum barrskógum og lúsinni sem fylgir þeim. Íslenskir greniskógar og lífið sem þeir gefa er lífæð þessa fjöruga fugls.


Texti: Sigurður Arnarson.

Fuglamyndir: Sigurður H. Ringsted. Lestur prófarkar: Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir.

„Takk fyrir að planta grenitrjám fyrir mig.“
„Takk fyrir að planta grenitrjám fyrir mig.“

Heimildir

Daníel Bergmann (2008): Landnám glókolls. Í Skógræktarritið 2008 2. tbl. bls. 8-13. Skógræktarfélags Ísland, Reykjavík.


Einar Ó. Þorleifsson og Daníel Bergmann (2006): Fuglalíf í skóginum að vetrarlagi. Í Skógræktarritið 2006 2. tbl. bls. 84-89. Skógræktarfélag Íslands, Reykjavík.


Guðmundur Páll Ólafsson (2005): Fuglar í náttúru Íslands. Mál og menning.


Jóhann Óli Hilmarsson (2011): Íslenskur Fuglavísir. 3. útgáfa. Mál og menning.


Sverrir Þór Sigurðsson (2024): Upplýsingar á Facebooksíðunni Íslenskir fuglar. Fleiri meðlimir veittu okkur upplýsingar á þeirri síðu og fá þeir allir okkar bestu þakkir.






129 views0 comments

Recent Posts

See All

Comentarios


Heimilisfang:

Skógræktarfélag Eyfirðinga

Kjarnaskógi

600 Akureyri

Netfang: ingi@kjarnaskogur.is

bottom of page