top of page
Writer's pictureSigurður Arnarson

Minjasafnsgarðurinn á Akureyri

Í Eyjafirði eru þrír merkir trjáreitir frá aldamótunum 1900. Minjasafnsgarðurinn er einn þeirra en hinir tveir eru Grundarreitur og Gamla Gróðrarstöðin. Allir bera þessir reitir brautryðjendastarfi í ræktunartilraunum á Íslandi gott vitni.

Minjasafnið á Akureyri stendur í Innbænum við Aðalstræti 58. Þar eru geymdir margir merkir safngripir. Einn stærsti safngripurinn er garðurinn framan við safnahúsið. Þar er að finna merkileg tré og garðurinn sjálfur á sér merka sögu. Fyrstu fjögur árin eftir stofnun garðsins var hann nefndur Gróðrarstöðin, síðan Trjáræktarstöðin í tæpa þrjá áratugi og jafn lengi var hann nefndur Ryelsgarður. Síðan árið 1962 hefur hann verið nefndur Minjasafnsgarðurinn.

Minjasafnsgarðurinn séður frá Drottningarbraut. Til hægri má sjá Minjasafnskirkjuna og þar fyrir aftan er Kirkjuhvoll sem nú hýsir Minjasafnið. Mynd: Sig.A.

Upphafið

Um aldamótin 1900 var mikil vakning í hverskyns ræktunarmálum á Íslandi. Það var á þeim árum sem amtsráð Norðuramts hóf að starfrækja ræktunarstöð. Heimildum ber ekki saman um hvort ræktun hafi hafist árið 1899 eða 1900 (Bjarni 2002) en það breytir ekki öllu. Ræktunarstöðin var afgirt og naut skjóls af Akureyrarkirkju sem þá stóð þar sem Minjasafnskirkjan stendur nú. Mun það hafa verið Páll Briem, amtmaður, sem kom því til leiðar að Akureyrarbær lét landið af hendi rakna. Til að stjórna ræktuninni var fenginn til verks  Sigurður Sigurðsson frá Draflastöðum sem hafði kynnt sér trjárækt í Noregi. Mun hann hafa verið fyrstur Íslendinga til að nema skógrækt í útlöndum. Hann varð síðar búnaðarmálastjóri og fyrsti formaður Skógræktarfélags Íslands (Bjarni 2002). Haustið 1900 fór Sigurður utan til frekara náms og við garðinum tók Jón Chr. Stephánsson timburmeistari og Dannebrogsmaður, ásamt konu sinni Kristjönu Magnúsdóttur. Sá hann um garðinn til dauðadags árið 1910 (Bjarni 2002).


 Gamla Akureyrarkirkja var rifin á árunum 1942 til 1943. Árið 1970 var kirkjan á Svalbarði flutt á kirkjustæðið og telst hún nú einn af safngripum Minjasafnsins. Nú er það þannig að segja má að trén skýli kirkjunni, en í árdaga var það á hinn veginn. Gamla kirkjan skýldi trjánum. Myndir: Sig.A.


Fyrstu trén

Elsta varðveitta skýrslan um sáningar og gróðursetningar í garðinum er frá árinu 1900. Þar eru þessar tegundir taldar: Greni, fura, elri, birki, reynir, síberískt baunatré, rósir, lerki, beinviður, gullregn, gulvíðir, hlynur, þyrnar og rifs. Að auki voru þarna reyndar ýmsar matjurtir (Bjarni 2002). Þetta hafa því verið talsverðar tilraunir. Vorið 1902 var strax farið að selja trjáplöntur úr stöðinni. Garðurinn var 0,2 ha að stærð og varð fljótlega svo þröngt þarna að matjurtatilraunum var hætt. Þess vegna var gróðrarstöð Ræktunarfélags Norðurlands stofnuð árið 1903 þar sem nú er „Gamla gróðrarstöðin“. Þar hafa starfsmenn Lands og skóga á Akureyri nú aðsetur sitt. Eftir að tilraunir með matjurtir voru fluttar annað var farið að kalla Minjasafnsgarðinn Trjáræktarstöðina (Bjarni 2002). Það er dálítill galli að ekki eru til neinar skýrslur um árangur þessara fyrstu tilrauna á Akureyri. Aftur á móti standa þarna enn býsna gömul tré sem trúlega eru frá þessum tíma. Sum þeirra eru farin að láta nokkuð á sjá vegna aldurs.

Eitt af eldri trjám garðsins er þessi veglegi reynir. Árið 2005 var hann 14 m á hæð. Þá var hann hæsta, mælda reynitré á Íslandi. Mynd: Sig.A.


Gamlar lýsingar

Bjarni E. Guðleifsson rekur sögu Minjasafnsgarðsins á Íslenska safnadeginum 14. júlí 2002. Myndin birtist áður í grein Bjarna um garðinn frá 2002. Mynd: Haraldur Sigurðsson.
Bjarni E. Guðleifsson rekur sögu Minjasafnsgarðsins á íslenska safnadeginum 14. júlí 2002. Myndin birtist áður í grein Bjarna um garðinn frá 2002. Mynd: Haraldur Sigurðsson.

Bjarni E. Guðleifsson skrifaði merka grein um garðinn í 2. tbl. Skógræktarritsins árið 2002. Er sú grein okkar helsta heimild við gerð þessa pistils. Bjarni hafði farið af nákvæmni yfir fjölda heimilda og gerði þeim góð skil eins og hans var von og vísa. Hann birti í greininni fáeinar gamlar myndir frá árdögum garðsins. Við sóttum um leyfi Minjasafnsins til að endurbirta sumar þeirra en það kostar meira en við gátum greitt. Þess vegna bendum við á grein Bjarna fyrir þá sem vilja skoða samanburðarmyndir. Bjarni birti líka eldri lýsingar á garðinum og er greinilegt að garðurinn hefur vakið mikla athygli á sínum tíma. Við bendum á þessa grein til frekari lesturs en getum ekki stillt okkur um að segja lítillega frá þeim áhrifum sem Jakob Líndal varð fyrir og lýsti árið 1916.

Þarna var áður grasbali gróðurlítill og blágrýtis melur, en jarðvegur allur ísaldarleir blandaður möl og sandi. . . Skjól er hér ágætt, einkum af kirkjunni að norðan og svo hefur mikil vörn verið að bárujárnsgirðingu, nær 2 álna hárri að austan og sunnan.

Horft niður tröppurnar sem liggja frá Kirkjuhvoli niður í garðinn. Mynd: Sig.A.

Grenikóngurinn og aðrir risar

Í grein sinni heldur Bjarni áfram að segja okkur frá skrifum Jakobs Líndals. Hann segir frá því hvernig gestir brugðust við er þeir gengu í garðinn úr nánast trjálausum bæ. Þar kemur þessi magnaða lýsing: „En ykkur bregður máske í brún. Svo hefi ég séð mörgum manninum fara sem inn hefir komið. Þetta eru engar smáplöntur. Það ljúkast upp yfir oss laufhvelfdir gangar beint áfram og til beggja hliða, svo háir og víðir, að laufskrúðið lykur sig saman langt yfir höfðum vorum. Það eru skuggar hið neðra, en langt hið efra gegnum laufhvelfinguna tindrar geislaskrautið sem tíbrá milli blaktandi blaða.

Þessi lýsing hefur án efa vakið mikla athygli. Má nefna sem dæmi að Ingólfur Davíðsson notar lítinn hluta þessa texta í grein sinni um skóga á 19. öld sem hann skrifaði árið 1985. Við endurbirtum þessa grein um áramótin og má sjá hana hér. Í greininni birtir Ingólfur stutta tilvitnun innan gæsalappa, en svo þekkt hefur hún verið að hann nefnir ekki hvaðan hann fékk hana.

Lýsing Jakobs Líndals vekur nokkra furðu enda var garðurinn ekki nema 16 ára gamall á þessum tíma. Hversu stór ætli þessi tré hafi verið, sem lukust saman langt ofan við höfuð gestanna? Jakob svarar því í lýsingu sinni.

En ég get sagt ykkur með sanni, að annars vegar við ganginn eru reynitrén 4,65 mt að hæð, en hins vegar 4,85 mt.“ Með öðrum orðum: Þessi háu tré með laufhveldar greinar langt yfir höfðum gesta voru innan við 5 m á hæð.

Jakob nefnir einnig í þessari grein að þarna sé stærsta grenitré landsins sem hann kallar „grenikónginn sjálfan“ er hann, að sögn Jakobs 2,45 m á hæð. Svo bætir hann við: „Þessi beinvöxnu grænu tré þarna eru lerkar, ættaðir norðan úr Síberíu hinni köldu. Þeir sýnast líka una sér allvel í kuldanum hér á Íslandi, því þeir hafa vaxið best allra aðfluttra trjátegunda. . . hæsta tré er nú 3,75 met. hann er nú aðeins 13 ára að aldri, en þó eru hér komnir fullgildir girðingastólpar.“

Horft frá safninu ofan í garðinn. Til vinstri sést í Minjasafnskirkjuna. Það hefur heldur betur tognað úr trjánum í garðinum. Ef til vill er lerkið, sem er fremst á myndinni til hægri og þekkist á grófum berki, sama tréð og lýst er hér að framan. Mynd: Sig.A.

Samkvæmt mælingum Jakobs má reikna út að meðalvöxtur á þessu hæsta lerki landsins var rúmlega 30 cm á ári. Jakob nefnir einnig að hæsta tréð í garðinum standi í suðvesturhorni garðsins og sé birki sem þá var 4,10 m á hæð. Sennilega er það sama birkið og árið 1999 var mælt sem hæsta birkitré landsins. Þá var það 14,7 m á hæð. Jakob segist hafa það fyrir satt að Sigurður Sigurðsson „hafi haft fræið út með sér frá Noregi í vestisvasa sínum.

Þeim lesendum, sem vilja lesa meira af þessu tagi, er bent á grein Bjarna frá árinu 2002.

Hæsta mælda birki á landinu stendur í garðinum og var 15,1 m árið 2012. Grenikóngarnir, sem lýst er hér að ofan, þrengja nú að því enda töluvert stærri. Myndin er tekin frá Kirkjuhvoli. Mynd: Sig.A.

Ryelsgarður

Árið 1933 keyptu hjónin Gunnhildur og Balduin Ryel garðinn og byggðu ári síðar húsið Kirkjuhvol efst í garðinum. Nú er Minjasafnið þar til húsa. Í höndum þeirra hjóna var garðurinn áfram mikil bæjarprýði. Hann var nefndur eftir þeim hjónum og kallaður Ryelsgarður. Ræktunarsvæðunum var þá að miklu leyti breytt í grasflatir.

Torgið og beðin í Minjasafnsgarðinum haustið 2002. Þá var hugmyndin að hafa í garðinum beð sem minna áttu á hlutverk hans í upphafi. Nú er eins og horfið hafi verið frá þeim hugmyndum og beðin, sem eru fjær á myndinni, eru vaxin grasi. Myndina tók Bjarni E. Guðleifsson og birti í grein sinni árið 2002.


Minjasafnsgarður

Frá því að Kirkjuhvoll var keyptur undir Minjasafnið árið 1962 hefur garðurinn verið nefndur Minjasafnsgarður. Garðurinn er í umsjón safnsins. Framan af var honum ekki sinnt sérstaklega en í lok síðustu aldar var Einari E. Sæmundsen landslagsarkitekt falið að gera úttekt á garðinum og koma með tillögur að endurnýjun. Greinargerðin var gefin út árið 1998 og endurskoðuð ári síðar. Þar var lögð áhersla á að huga að sögulegu gildi garðsins og að varðveita yfirbragð þess tíma er garðurinn er sprottinn úr. Hann lagði til að á flötinni ætti að vera sýnishorn af gömlum heimilisgarði og endurgerð garðsins ætti að vera þannig að hann þyrfti ekki mikið viðhald. Endurgerðinni átti að vera lokið árið 2018. Myndin hér að ofan sýnir að um tíma var farið eftir þessum tillögum.

Skipulagsuppdráttur Einars E. Sæmundsen af endurgerðum Minjasafnsgarði. Á teikningunni má sjá að samkvæmt tillögunni var gert ráð fyrir að á flötinni verði sýnishorn af gömlum heimilisgarði í þremur ferhyrndum beðum í krossmunstri í líkingu við vermireitina sem þarna voru í upphafi. Í einum ferhyrningi áttu að vera skrautplöntur, öðrum nytjaplöntur og í þeim þriðja berjarunnar. Eins og sjá má hér ofar var byrjað á þessum framkvæmdum en nú eru þarna grasflatir. Samt mótar vel fyrir beðunum.

Hinar lifandi minjar í umsjá safnsins eru engu ómerkari en safngripirnir sem varðveittir eru á söfnum, en þeir eru vandasamir í varðveislu. Þennan garð þarf að hugsa um, varðveita og endurnýja þannig að saga garð- og trjáræktar verði aðgengileg næstu kynslóðum. Sjálfsagt kostar það fjármuni sem öldungis óvíst er að séu til. Að minnsta kosti er ekki lengur farið að tillögum Einars E. Sæmundsen nema að hluta til.


Þótt ekki sé lengur farið eftir tillögunum frá lokum síðustu aldar, gera starfsmenn það sem þeir geta til að minna á gamla tíma í garðinum. Í bakgrunni er fræg mynd af teboði á Akureyri. Þar gefst fólki tækifæri til að setja sig í spor gestanna. Einnig má sjá tvö lítil, dúklögð teborð. Það er mjög viðeigandi. Mynd: Sig.A.

Tegundir

Við treystum okkur vel til að greina helstu trjá- og runnategundir sem finna má í garðinum í dag. Sumt af því sem þarna var reynt í árdaga er með öllu horfið, en þegar unnið var að endurgerð garðsins hafa listar yfir tilraunir í garðinum verið hafðir til hliðsjónar. Þannig má nú finna rauðblaðarós og kergi, sem á upphafsárum ræktunar í garðinum var kallað síberískt baunatré.

Rauðblaðarós, Rosa glauca, í Minjasafnsgarðinum í ágúst 2024. Að baki hennar sér í reynitré. Mynd: Sig.A.


Sum af þeim trjám sem lengi hafa prýtt garðinn eru nú á fallandi fæti og endurnýjun sumra tegunda er hafin. Þar á meðal eru gráreynitrén, Sorbus hybrida sem mynduðu röð við austurjaðar garðsins.

Búið er að fækka gráreyninum við austurjaðar garðsins. Eins og sjá má eru þau gömul og lúin. Annað þessara trjáa féll fyrripart vetrarins 2024-2025. Nú er því aðeins eitt tré eftir af upphaflegu trjáröðinni. Mynd: Sig.A.

Þegar gráreynirinn við jaðar garðsins var fjarlægður fékk þessi fegurðardís meira pláss og er nú alveg sérstaklega glæsileg. Við höfum skrifað sérstakan pistil um þetta birkitré sem sjá má hér. Mynd: Sig.A.


Mestum þroska hafa trén náð í brekkurótunum, eins og svo algengt er með tré. Á slíkum stöðum er oftast ferskur jarðraki sem trén geta nýtt sér. Vatn seytlar niður brekkur og tekur með sér uppleyst næringarefni. Þetta kunna trén vel að meta. Aftur á móti hafa trén staðið nokkuð þétt í suðvestur horni garðsins þannig að þrátt fyrir hæð sína eru það ekki endilega fallegustu trén. Þarna í horninu eru tvö af þremur trjám garðsins sem finna má í kortasjá Skógræktarfélagsins. Hvorugt þeirra er þar vegna fegurðar, heldur vegna þess að þetta eru tvö hæstu tré sinnar tegundar á landinu, sem vitað er um. Annað þeirra er hæsta birkið og er þess getið hér að ofan. Það er það þröngt um það að það er ekki mjög glæsilegt, þrátt fyrir hæðina. Árið 2012 var það 15,1 m á hæð. Að öllum líkindum er birkið norskt ef marka má Jakob Líndal, sem Bjarni (2002) vitnar í. Hann segir að fræið hafi komið hingað frá Ási í Noregi.

Horft upp í krónu hæsta, þekkta birkitrés á Íslandi. Mynd: Sig.A.

Við hliðina á þessu háa birki er eitt hæsta mælda reynitré á landinu. Árið 2005 var það 14 metrar á hæð. Því miður er þetta tré illa haldið af reyniátu og aðeins tímaspursmál hvenær þessi öldungur fellur.

Þriðja tréð í garðinum, sem ratað hefur í kortasjána, er slútbirkið við inngang garðsins. Það er ægifagurt og hefur verðskuldað fengið sérstakan pistil. Því fjöllum við ekki meira um það hér.

Á meðal annarra glæsilegra trjáa í garðinum er áberandi fallegur heggur sem blómstrar fagurlega á sumrin og svo stór og mikil grenitré og lerki sem gæti verið sama lerkið og Jakob dáðist að þegar það var hæsta tré garðsins og hefði dugað vel í girðingastaura. Ofar í þessum pistli má sjá myndir af öllum þessum trjám.


Þessi glæsilegi heggur, Prunus padus, stendur við fallbyssuna sem er í garðinum. Í þessum hegg hefur sveppurinn heggvendill, Taphrina padi, fundist. Hann lifir eingöngu í heggtrjám

og leggst á aldin trjánna. Mynd: Sig.A.


Heggber í Minjasafnsgarðinum. Eitt grænt og eðlilegt, ósýkt ber en í forgrunni eru stór og bólgin ber sem sýkt eru af heggvendli. Það er margt, bæði smátt og stórt, að skoða í garðinum. Mynd: Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir.

Þakkir

Ragnhildur Freysteinsdóttir hjá Skógræktarfélagi Íslands fær okkar bestu þakkir fyrir að skanna myndir úr grein Bjarna E. Guðleifssonar svo við gætum birt þær hér. Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir las pistilinn yfir í handriti og færði margt til betri vegar. Hún á skilið þakklæti fyrir það. Bergsteinn Þórsson fær þakkir fyrir trjámælingar og stuðning.

Haustmynd af garðinum. Mynd: Sig.A.

                                                                               

 

Heimild

Bjarni E. Guðleifsson (2002): Minjasafnsgarðurinn á Akureyri. Í Skógræktarritið 2002 (2): 31-39. Skógræktarfélag Íslands, Reykjavík.

 

0 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page