Á Íslandi teljast fjórar víðitegundir innlendar. Að auki finnast hér slæðingar sem sá sér auðveldlega í náttúrunnu s.s. alaskavíðir, jörfavíðir, viðja, selja o.fl. Af þessum fjórum íslensku víðitegundum er aðeins eitt sem stundum getur gert kröfu til að teljast tré. Það er gulvíðir. Oftast er hann þó runni. Hinar þrjár tegundirnar eru loðvíðir, fjallavíðir (einnig nefndur grávíðir) og smjörlauf eða grasvíðir. Sú síðast talda er að jafnaði minnst þessara tegunda. Það er jafnvel vel í lagt að kalla hana runna. Því er eins og hún gleymist oft. Hún er vissulega trjákennd en alveg jarðlægur dvergrunni. Grasvíðirinn gleymist því þegar fjallað er um tré og runna en telst ekki til blóma og gleymist því einnig þegar fjallað er um þau. Þar sem hann er víðir telst hann ekki lyng og ekki hægt að flokka tegundina þar. Því er stundum eins og enginn vilji kannast við blessaðan grasvíðinn. Úr því viljum við bæta þótt í litlu sé og útnefnum hann núna sem #TrévikunnarSE.
Lýsing
Grasvíðir, sem einnig kallast smjörlauf á íslensku, er af víðiættkvíslinni (Salix) eins og glöggt má sjá þegar plantan blómstrar. Þá ber hann dæmigerð víðiblóm og kemur það upp um ættkvíslina. Á fræðimáli kallast tegundin Salix herbacea þar sem Herbacea vísar í að plantan er jurtkennd. Nafnið merkir því; hinn jurtkenndi víðir. Verður það að teljast nokkuð viðeigandi. Tegundina er algeng um allt land og má finna í holtum og móum á láglendi en einnig í bollum og snjódældum til fjalla. Á slíkum stöðum er grasvíðirinn meira áberandi því fátt annað vex þar. Þar getur smjörlaufið vaxið þótt ekki leysi snjóa nema sum sumur og þá að jafnaði seint. Á slíkum svæðum vex það gjarnan með flatmosum sem einkenna snjódældir og má sjá myndir af slíku með færslunni.
Grasvíðir er oftast um 2-10 cm á hæð en getur á stöku stað á láglendi teygt sig eitthvað hærra upp. Hann skríður gjarnan um mold eða mosa þannig að greinaendarnir einir eru ofanjarðar. Þannig getur hann myndað nokkuð þéttar breiður af glansandi grænum blöðum sem geta sómt sér vel í steinhæðum í görðum.
Svepprót
Nýlega hefur verið staðfest að ofan skógarmarka í Alpafjöllum myndar hann svepprótartengsl með kóngssvepp, Boletus edulis, sem er einn vinsælasti matsveppur landsins. Það er reyndar með hreinum ólíkindum hversu fjölbreytt funga tengist rótum grasvíðs.
Myndirnar eru allar teknar í júlí 2019 en á mismunandi stöðum og misjafnlega hátt yfir sjávarmáli. Það skýrir hversu misjafnar plönturnar eru. Sumar rétt að byrja að laufgast (til fjalla) en aðrar með þéttan blaðmassa.
Grasvíðir (smjörlauf) í snjódæld ásamt flatmosanum heiðahélu. Heiðahéla er algeng í snjódældum og vex oft með grasvíði. Þarna má einnig sjá hreindýramosa og lífrænni skán sem er forstig sjálfgræðslu.
Myndin tekin ofan við Stórurð á Héraði.
Grasvíðir í Þjórsárdal.
Aska frá Heklu er áberandi. Í svona landi svarar grasvíðir vel áburðargjöf og eykur hlutdeild sína ef annar gróður vex honum ekki yfir höfuð. Áberandi er að í víðinum er meiri gróska en utan hans.
Nærmynd af þéttum grasvíði í Krossanesborgum.
Grasvíðir og mosi í Vatnsskarði milli Héraðs og Borgarfjarðar eystri.
Grasvíðir ásamt hnoðra í steinhæð í garði í Síðuhverfi. Vel mætti nota hann meira í garðrækt.
Nýlaufgaður grasvíðir í snjódæld ofan við Stórurð á Héraði.
Texti og myndir: Sig.A.
Comments