Mórber vaxa á samnefndum runnum eða trjám þar sem frost eru fátíð nema á miðjum vetri. Því er þau ekki að finna utan dyra á Íslandi. Ættkvíslin á sér merkilega sögu og kemur við á óvæntustu stöðum. Tegundirnar voru fyrir langalöngu talin nauðaómerkileg en það breyttist fyrir löngu. Eins og allir vita er mikill munur á hugtökunum „fyrir löngu“ og „fyrir langalöngu“.
Það sem kom mórberjum ofar í goggunarröðina er sú staðreynd að ein tegundin er grundvöllur silkiframleiðslu í heiminum. Þar með eignast mórberjarunnar hlutdeild í einu heimsmeti en annað heimsmet eiga þeir alveg einir. Sagt er frá þeim báðum í pistlinum.
Nafnið á plöntuættkvíslinni, sem ber fræðiheitið Morus L., hefur að geyma merkilegt dæmi um flökt á milli svokallaðra grannhljóða.
Þetta, ásamt ýmsu öðru, er efni þessa pistils.
Sortumórber, Morus nigra. Myndin fengin héðan. Ljósmyndarinn kallar sig born1945.
Fjöldi tegunda
Heimildum ber ekki alveg saman um hversu margar tegundir eru til af mórberjum, eða Morus tegundum. Kemur þar meðal annars til að mörkin milli tegunda og undirtegunda eru ekki alltaf glögg. World Flora on Line gefur upp 20 viðurkennd nöfn auk undirtegunda og afbrigða en sumar heimildir telja tegundirnar færri. Má sem dæmi nefna að Schulz (2020) segir í sinni bók að tegundir ættkvíslarinnar séu 12. Þetta er merkilegt í ljósi þess að vefsíðunni er meðal annars haldið úti af vísindamönnum Kew Gardens en Kew Publishing gefur út bókina. Vel má vera að hressileg rifrildi heyrist á kaffistofu vísindamannanna í Kew þegar talið berst að mórberjum, fyrst svona langt er á milli hugmynda þeirra um fjölda tegunda. Rétt er þó að nefna að vísindamenn Kew Gardens eru ekki þeir einu sem koma að síðunni. Grasafræðingar hjá Missouri Botanical Garden koma einnig að síðunni og þegar þetta er skrifað er síðan vistuð þar. Þeir verða líka að ráða einhverju, blessaðir karlarnir. Í stað þess að rífast á kaffistofunni í Kew geta vísindamennirnir hneykslast í sameiningu á kollegum sínum í Missouri.
Við ætlum ekki að fjalla um allar þessar tegundir. Við viljum fyrst og fremst segja ykkur frá tveimur tegundum, sem báðar vaxa sem villtir slæðingar í Evrópu, en nefnum að auki þá þriðju, svona í framhjáhlaupi. Þessar þrjár tegundir eru í stafrófsröð fræðiheita: Hvítt mórber eða bara mórber, Morus alba L., sortumórber, M. nigra L. og roðamórber, M. rubra L.
Eins og glöggir lesendur hafa vonandi tekið eftir má sjá bókstafinn „L.“ á eftir heitunum. Það merkir að það var sjálfur Linnæus hinn sænski, höfundur tvínafnakerfisins sem við notum til að nefna allar lífverur, sem gaf tegundunum fræðiheitin.
Í lok pistilsins fjöllum við nánar um þær tvær tegundir sem vaxa villtar í Evrópu en þangað til bregður þremur tegundum fyrir hér og þar í textanum.
Lýsing
Plöntur af mórberjaættkvíslinni mynda að jafnaði stóra runna eða lítil og meðalstór tré sem geta orðið um 15 metrar á hæð. Sumar tegundir mórberjatrjáa eru þó að jafnaði mun lægri og ná ef til vill um 10 metra hæð. Tudge (2005) segir frá því að þrátt fyrir að tegundirnar myndi oftast marga stofna geti trén sem best náð hámarks hæð og að allir stofnarnir verði gildir og öflugir. Vekur það, að hans sögn, upp áleitnar spurningar um hvort hægt sé að tala um þau sem runna, þrátt fyrir marga stofna.
Vetrarmynd frá Oregon í Bandaríkjunum af einstofna mórberjatré. Myndin fengin héðan.
Ungir sprotar eru mjög oft appelsínugulir á litinn, en það eldist af þeim. Eldri tré eru gjarnan áberandi kræklótt með snúna og skælda stofna. Það á samt ekki við um öll trén. Þau geta orðið meira en hundrað ára gömul en fæst tré ná slíkum aldri.
Sumir segja að börkurinn á stofni eldri mórberjatrjáa komi alltaf upp um ættkvíslina. Hann er oftast í grábrúnum tónum og á honum myndast mynstur af lóðréttum sprungum. Oft ná þessar sprungur í gegnum ysta lag barkarins og undir því má þá sjá orangegula tóna í botni sprungnanna. Það er sami rauðguli liturinn og sést oft á ungum greinum (Clapp & Crowson 2022).
Börkur á stofni mórberjatrés. Takið eftir litnum á botni sprungnanna. Yngri stofnar sýna þetta ekki því þeir mynda ekki sprungur á berkinum. Ungar greinar geta haft þennan sama lit. Myndin fengin héðan.
Lauf
Þegar kemur að útliti mórberjatrjáa og -runna má ef til vill segja að laufin séu einna merkilegust enda eru þau nokkuð sérstök. Sérstaklega á þetta við um tegundina Morus alba enn þekkist í minna mæli hjá öðrum mórberjatrjám. Sum tré innan ættkvíslarinnar virðast fyrst og fremst mynda eina gerð laufa, en algengara er að í krónum trjánna megi finna að minnsta kosti þrjár mismunandi gerðir. Blöðin á hveri tegund mórberja hafa svo gjarnan einhver sérstök einkenni sem duga oft til að greina þær í sundur. Við byrjum að lýsa þessum laufum, svona almennt. Fyrst ber að nefna að sum laufin eru heil, önnur eru fingruð.
Þegar kemur að heilu laufunum má sjá að sum þeirra eru hjartalaga og er það algengast. Sumir segja að þau minni meira á þverskurð af lauklaga turnum á moskum víða um heim. Önnur lauf eru tígullaga og alveg laus við að vera með hjartalaga blaðbotn. Oft hafa blöðin áberandi totu í endann.
Lauf á greinum hvíta mórberjatrésins. Eitt af einkennum þess er hve laufin eru fjölbreytt á einu og sama trénu. Myndirnar fengnar héðan.
Svo eru það laufin sem geta orðið fingruð. Algengt er að þau verði þrí- eða fimmfingruð. Þau lauf geta verið lík laufum sem vaxa á sumum fíkjutrjám, sem teljast til sömu ættar.
Þessi fjölbreytta gerð laufa kemur strax upp um ættkvíslina og þeir sem ekki eru of mikið bundnir við þá hugsun sem stundum er kennd við Excel finnst þetta merkilegt. Hinn hópurinn lætur þetta fara í taugarnar á sér. „Geta þessi tré ekki ákveðið hvers konar lauf eiga að vaxa á þeim?“ gætu Excelófreskjurnar sagt.
Enn er ónefnt að öll laufblöðin á öllum tegundunum eru áberandi tennt. (Clapp & Crowson 2022, Spadea 2022).
Fyrst við erum að tala um laufin er rétt að geta þess að í Asíu mælir hefðin fyrir um að lauf hvítu mórberjatrjánna séu nýtt í te eða seyði. Einkum er þetta vinsælt í Kóreu. Efni í laufunum eiga að hægja á niðurbroti sykurs í líkamanum og jafna þar með út styrk blóðsykurs í líkamanum. Þannig eiga þau að gagnast þeim sem eru með sykursýki tvö (Clapp & Crowson 2022).
Lauf mórberjatrjáa geta verið allfjölbreytt á einu og sama trénu. Totur, eins og sjá má fremst á sumum laufblaðanna, eru algengar hjá fíkusum, Ficus spp. sem eru af sömu ætt. Talið er að þær geti hjálpað laufum að losna við vatn af þeim þegar mikið rignir. Myndin fengin héðan.
Blóm og ber
Blóm allra tegundanna eru lítt áberandi. Þau birtast um leið og laufin og bera svipaðan lit. Þess vegna fara þau oft fram hjá fólki. Þau myndast á litlum, grænum reklum. Öll blómin í sama rekli eru annaðhvort kvenkyns eða karlkyns. Í flestum tilfellum vex aðeins annað kynið á hverju tré fyrir sig en í ræktuðum afbrigðum má oft sjá tvíkynja tré. Þau tré geta í flestum tilfellum frjóvgað sig sjálf.
Kvenblóm roðamórbers bíða slök eftir komu frjósins. Myndin fengin héðan.
Kvenblómin eru lítil og sitja þétt á reklunum. Þegar þau frjóvgast myndast eitt fræ í hverju blómi. Blómin eru svo þétt á reklunum og þegar þau þroskast og mynda ber, þá vaxa þau saman og mynda hin dæmigerðu mórber. Það sem við teljum vera eitt mórber er í rauninni mörg, samvaxin aldin sem mynduðust á sama reklinum. Það geta verið ein fimmtíu aldin sem eru samvaxin í það sem við teljum vera eitt ber (Clapp & Crowson 2022, Hosch 2024, Spadea 2022).
Rétt er að taka fram að svona samvaxnir berjaklasar eru ekki einsdæmi. Innan mórberjaættarinnar má finna fleiri dæmi um þetta og að auki þekkist þetta í fleiri ættum. Á Íslandi getum við ræktað hindber, Rubus idaeus, og einnig brómber, R. fruticosus, sem oft er ruglað saman við mórberin. Bæði brómber og hindber tilheyra rósaættinni, Rosaceae, en hafa samt aldin sem minna á ber mórberjatrjáa.
Hindber, Rubus idaeus, að Hálsi í Eyjafirði. Ber þeirra líkjast dálítið berjum mórberja en verða ekki dökk á litinn. Blöðin og vaxtarlag plantnanna er gjörólíkt. Seinna í pistlinum má sjá myndir af mórberjum. Mynd: Sig.A.
Óvænt heimsmet
Því miður er það svo að frjóin, sem karlblómin mynda, eru ofnæmisvaldandi. Þeir sem þjást af frjókornaofnæmi ættu ekki að vera nálægt mórberjatrjám þegar þau eru að laufgast og mynda blóm. Aftur á móti nota blómin merkilega aðferð til að koma frjóum á milli blóma. Vísindamenn hafa notað háhraðamyndavélar til að taka myndir af því þegar M. alba losar sig við frjó. Frjóhnapparnir sveigjast aftur, hægt og rólega, þegar þeir þroskast. Síðan gerist það óvænta. Þeir skjótast eldsnöggt fram og þeyta frjóunum út í loftið. Þetta gerist á ógnarhraða. Tíminn sem tekur blómið að skjóta frjóunum frá sér er aðeins 25 míkrósekúndur. Það eru 0,000025 sek. Þeir sem komust að þessu telja að þetta sé heimsins mesti hraði sem mælst hefur í öllu lífríkinu. Þessi rannsókn var gerð árið 2006 og má lesa meira um hana hér. Þetta merkir að mórber eiga heimsmet í hraða! Það getur okkur flestum þótt bráðmerkilegt, þar til við áttum okkur á því að þessi mikli hraði dugar ekki bara til að skjóta frjókornum í átt að kvenblómunum, heldur dugar hann jafn vel til að skjóta þeim upp í nefið á fólki með frjókornaofnæmi (Clapp & Crowson 2022 og Spadea 2022). Þótt mórber eigi heimsmet í hraða hefur það engin áhrif á æru þeirra. Seinna í þessum pistli er sagt frá tengslum mórberja við annað heimsmet. Það heimsmet er ekki beinlínis í eigu mórberjatrjáa en án þeirra félli það eins og spilaborg. Vegna þess heimsmets teljast mórber með merkilegustu plöntum í heimi.
Teikning úr greininni um heimsmet mórberja. Anther = frjóhnappur, filament = þráður, pollen = frjó. Það er (frjó)þráðurinn sem sveiflast á heimsmetshraða sem verður til þess að frjóhnappurinn losar sig við allt frjóið sem þeytist langar leiðir. Kvarðinn, lengst til hægri er aðeins 1 μm.
Þroskun berja
Ef frjókornin hafa skotist rétta leið mynda kvenreklarnir fjöldann allan af samvöxnum aldinum þar sem hvert smáaldin hefur eitt fræ. Óþroskuð ber eru annaðhvort hvít eða ljósgræn. Síðan þroskast þau og verða þá gjarnan rauð og að lokum dökkfjólublá eða næstum svört. Þarna er þó einhver munur á milli tegunda. Fræðiheiti sumra tegunda taka mið af þessu. Berin á Morus alba eru alveg hvít í byrjun, en ekki ljósgræn. M. nigra mynda nær alveg svört ber á meðan M. rubra myndar dimmrauð ber. Þau eru reyndar svo dökk að það má næstum kalla þau svört.
Hvert tré þroskar ekki öll berin á sama tíma. Með þeim hætti lengist sá tími sem dýr geta étið berin og (vonandi) dritað fræjunum einhvers staðar á heppilega staði.
Ber á mismunandi þroskastigi. Myndin fengin héðan.
Ber til átu
Almennt má segja að mórber séu sæt og safarík en fremur bragðdauf. Þau virðast freista margra fugla og í sumum tilfellum annarra dýra. Frumbyggjar Norður-Ameríku nýttu mórber af amerísku tegundinni M. rubra sem fæðu. Berin voru borðuð fersk eða þurrkuð til vetrarmánaðanna. Mikilvægi þeirra var fyrst og fremst það að þurrkuð ber voru geymd til köldu mánaðanna. Á þeim tíma voru þau mikilvægur vítamíngjafi (Spadea 2022, Wells 2010). Að auki, segir Wells, nýttu frumbyggjar álfunnar trefjar úr berki trjánna til klæðagerðar.
Víðast hvar annars staðar eru berin nýtt til átu en fersk geymast þau ekki lengi og eru því sjaldan að sjá á mörkuðum nema nærri ræktunarsvæðum. Þess vegna eru þau nær aldrei flutt á milli landa. Aftur á móti eru sumar tegundir nýttar til safa- og sultugerðar og jafnvel einnig til víngerðar. Hið síðasttalda á nánast bara við um sortumóber (Wells 2010). Í vökvaformi má auðveldlega flytja þau hvert sem er.
Af hinum ýmsu tegundum mórberja virðast flestir sammála um að sortumórberin beri af í bragðgæðum. Þau eru líka sögð vera góð uppspretta kalsíum. Í þau fáu skipti sem mórber sjást í búðum á Íslandi er trúlegast alltaf um sortumórber að ræða, þótt það komi ekki fram á umbúðum.
Viður
Almennt má segja að mórberjatré séu ekki ræktuð til viðarframleiðslu. Meginástæður þess eru þær að stofnar trjánna eru ekki nægilega gildir fyrir borðvið og tréð vex hægt. Það er samt þannig að viðurinn er nýttur enda er hann sveigjanlegur og sterkur. Samkvæmt hefð er hann gjarnan nýttur í allskonar íþróttavörur. Má nefna tennisspaða og hokkíkylfur. Enn eru tennisspaðar gjarnan úr mórberjavið en gerviefni hafa leyst viðinn af þegar kemur að smíði á íshokkíkylfum. Hefðin er sterkari þegar kemur að hokkí sem ekki er leikið á ís. Enn sterkari er þó hefðin í tennisíþróttinni.
Þótt mikið sé til af þessum trjám er lítið framleitt af mórberjaviði. Það gerir hann fremur dýran. Eykur það enn á þrýstinginn með að nota gerviefni í stað viðarins (Clapp & Crowson 2022).
Viður mórberjatrjáa þykir henta vel í hverskyns rennismíði. Þessar skrautlegu skálar eru af þessari Facebooksíðu.
Fræðiheitið
Á latínu kallast þessi ættkvísl Morus L. Nokkrar kenningar eru uppi um uppruna nafnsins og segir Wells (2010) frá sumum þeirra. Talið er víst að þetta sé hið forna latínuorð sem Rómverjar notuðu á tréð. Það segir samt lítið til um uppruna orðsins. Ef til vill fengu þeir orðið lánað úr grísku en ein kenningin gerir ráð fyrir að orðið sé aðlagað úr því tungumáli. Þar getur orðið mora merkt að seinka. Það gæti þá vísað í hversu algengt er að trén seinki þroskun sumra aldina. Svo eru það þeir sem segja að orðið sé samstofna orði sem margir þekkja úr enskri tungu: Moron. Eins og kunnugt er merkir það orð beinlínis fáviti. Wells (2010) telur þetta harla ólíklega skýringu og nefnir að Plinius yngri hafi skrifað að mórberjatré væru gáfuðust allra trjáa og það sjáist á því að þau laufgast hvorki né blómstra fyrr en öll frosthætta er liðin hjá. Þessi skrif renna reyndar ágætum stoðum undir gríska upprunann. Laufgun er seinkað fram yfir frosthættu. Að lokum bendir Wells á að á ítölsku merki moro bæði mórber en einnig dökkur eða svartur. Það á vel við um fullþroskuð ber. Ef til vill á þessi dökka merking einhvern þátt í því að Linnaeus valdi þetta nafn á sínum tíma.
Fjörgamalt mórberjatré. Mynd: Debra and Dave Vanderlaan.
Grannhljóðin /r/ og /l/
Í töluðu máli eru sum málhljóð svo nálægt hvert öðru í framburði að þau eru kölluð grannhljóð. Í mismunandi löndum og mismunandi menningarkimum gerir fólk skýran greinarmun á sumum þessara málhljóða á meðan önnur renna svo kirfilega saman að við heyrum ekki mun þeirra. Sem dæmi má nefna að flestir Íslendingar eiga í stökustu vandræðum með að greina í sundur mismunandi /s/-hljóð í mörgum slavneskum málum. Þeir sem tala þessi sömu mál fá lítinn botn í hvernig á þessu stendur. Má nefna pólska orðið Solidarność sem merkir samstaða. Þarna eru tveir broddstafir í enda orðs sem skipta framburð sjálfsagt miklu en fæstir Íslendingar heyra nokkurn mun þar á. Svo er ekki öllum gefið að bera fram ættarnafnið Brzęczyszczykiewicz með margvíslegum S-hljóðum. Það nafn var reyndar sérhannað fyrir pólska gamanmynd en er ekki til í raun og veru.
Rúmlega 260 ára gamalt mórberjatré í haustlitum, ef marka má Jerri Wright sem birti myndina á Facebooksíðunni Big Tree seekers.
Við finnum sambærileg dæmi í þýsku, sem er náskyld íslenskunni. Gott dæmi er þessi fræga auglýsing. Einnig má nefna þekkta sögu af smámæltum þýskukennara sem ætlaði að útskýra muninn á /s/, /sch/ og /z/ í þýsku. Íslenskir nemendur heyrðu þessa útskýringu svona: „Þið verðið að paþþa ykkur á eþþhljóðunum í þýþþku. Það getur verið eþþ en það getur einnig verið eþþ og þvo getur það líka verið eþþ!“
Af hverju erum við að nefna þetta og hvernig tengist þetta mórberjum?
Ástæðan er sú að við Íslendingar eigum stundum í vandræðum með að skilja að til skuli vera fólk í útlöndum sem á erfitt með að greina á milli /r/ og /l/. Sumt fólk telur að höfuðborg Íslands heiti Leikjavík. Þessi samsláttur þekkist hjá íslenskum börnum á máltökuskeiði. Sá sem þetta skrifar þekkir ungan dreng sem lengi gerði ekki greinarmun á þessum hljóðum og sagði að það gæti verið „elfitt að fala upp blatta blekku.“ Nú hefur hann lært þessi hljóð og á ekki í neinum erfiðleikum með að fara upp brattar brekkur.
Ekki ber á öðru en að sami samsláttur hljóðanna /r/ og /l/ hafi orðið í heiti mórberjatrjáa í evrópskum tungum. Munurinn er bara sá að það gerðist hjá fullorðnu fólki sem hlær að þeim sem ekki gera greinarmun á þessum grannhljóðum í útlöndum. Heiti tegundarinnar er í sumum nágrannamálum okkar skrifað með „r“ en hjá öðrum með „l“. Þess vegna settum við saman þessa töflu sem hér fylgir.
Tafla yfir nöfn mórberja á nokkrum tungumálum. Stundum hefur R-hljóðið breyst í L-hljóð. Má nefna að Svíar eru ekki sammála nágrönnum sínum í Noregi og Danmörku.
Við þurfum því ekki að fara til Austurlanda fjær til að heyra þennan samslátt á grannhljóðunum /r/ og /l/. Öll þessi orð eru það lík að engum vafa er undirorpið að þau eru af sama stofni. Þegar við höfum í huga að /r/ og /l/ eru grannhljóð verða orðin enn líkari hvert öðru. Af þessum tíu tungumálum er orðið skrifað með /l/ í ensku, sænsku og þýsku en hin sjö eru með /r/.
Blóðug ber
Mórber eru stundum pressuð til að ná úr þeim safanum og nýta í drykki. Hann er dimmrauður á litinn. Sennilega er það þessi rauði litur sem varð til þess að í Herför Antíokkusar V til Júdeu, sem sagt er frá í 6. kafla Fyrstu Makkabeabókar í Gamla testamentinu, má finna eftirfarandi: „Fílunum var sýndur lögur úr þrúgum og mórberjum til að gera þá bardagatryllta.“
Til er persnesk þjóðsaga sem varðveitt er í rómverskum heimildum. Hún fjallar um hið ástfangna par Pyramus og Þisbe sem ekki máttu hittast. Eins og títt er í ástarsögum lét parið það ekki stoppa sig og ákvað stefnumót undir mórberjatré. Þisbe kom á undan á stefnumótastaðinn, en þar var þá fyrir ljón eitt sem nýlokið hafði við að éta bráð sína. Eins og vænta mátti varð Þisbe skíthrædd og flúði af vettvangi en missti slæðu sína á flóttanum. Þegar Pyramus kom á staðinn sá hann ljónið og sá að það var blóðugt um kjaftinn þar sem það enn lá á meltunni. Þegar hann sá slæðu heitmeyjar sinnar var hann sannfærður um að hún hefði breyst í ljónafæðu. Hann gat ekki hugsað sér að lifa án ástmeyjar sinnar og kastaði sér á sverð sitt til að hitta hana í handanheimum. Þegar Þisbe komst að þessu tók hún einnig sitt eigið líf með því að kasta sér á sverð ástmanns síns.
Í sumum útgáfum sögunnar sprautaðist blóð þeirra á föl berin á mórberjatrénu sem við það urðu dimmrauð. Í hvert skipti sem berin þroskast taka þau upp blóðlit þessa ástfangna pars.
Þessi saga er til í mörgum útgáfum og rataði meðal annars inn í leikrit Shakespeares: Draumur á Jónsmessunótt.
Fullþroskuð ber af M. alba (þekkjast á stilknum) gefa frá sér rauðan safa þótt fullþroskuð berin séu nánast svört. Samt er tegundin kennd við hinn hvíta lit. Þetta er ekki beinlínis einfalt. Myndin fengin héðan.
Ómerkileg ættkvísl?
Svo er að sjá að á ritunartíma Biblíunnar hafi almennt verið litið frekar niður á mórberjatré og -runna. Það var Örn Arnarson (2024) sem benti okkur á það og samkvæmt einfaldri leit á biblian.is sést að það er mikið til í þessu. Verða nú tiltekin fáein dæmi.
Í 10. kafla fyrri konungabókar er meðal annars fjallað um hina frægu drottningu af Saba. Þar segir að Salómon konungur hafi verið „auðugri og vitrari en allir konungar heims.“ Til marks um ríkidæmið segir: „27 Konungur notaði silfur eins og grjót í Jerúsalem og sedrusvið eins og mórberjafíkjuviðinn sem vex á láglendinu.“ Þetta er endurtekið í 9. kafla síðari Kroníkubókar (vers 27). Af þessu að dæma ber sedrusviður af mórberjarunnum eins og silfur af grjóti. Þess ber að geta að mórber og fíkjur eru skyldar tegundir. Um það fjöllum við aðeins neðar. Annars er ekki algengt að tala um mórberjafíkjuvið og í raun óþarfi. Mórber og fíkjur eru ekki af sömu ættkvísl þótt þau tilheyri sömu ætt.
Svipuð hugsun birtist í 9. versi í 9. kafla Jesaja. Þar segir:
„Tígulsteinarnir hrundu en vér byggjum aftur úr höggnu grjóti. Mórberjatrén voru felld en vér setjum sedrustré í þeirra stað.“
Gamalt og umfangsmikið sortumórberjatré sem neitar að gefast upp þótt það sé að falli komið. Myndin fengin héðan.
Svo er einnig að sjá sem hægt sé að líta á mórberjatré sem fulltrúa einhvers lítillætis. Þessi hugsun virðist koma fram, bæði í hinu gamla testamenti og í hinu nýja.
Í 19. kafla Lúkasarguðspjalls fer Jesú til Jeríkó. Þar segir: „2 En þar var maður er Sakkeus hét. Hann var yfirtollheimtumaður og auðugur. 3 Langaði hann að sjá hver Jesús væri en tókst það ekki fyrir mannfjöldanum því að hann var lítill vexti. 4 Hann hljóp þá á undan og klifraði upp í mórberjatré til að sjá Jesú, en leið hans lá þar hjá. 5 Og er Jesús kom þar að leit hann upp og sagði við hann: „Sakkeus, flýt þér ofan, í dag ber mér að vera í húsi þínu.“ 6 Hann flýtti sér ofan og tók á móti honum glaður“.
Hvaða ástæða getur verið fyrir því að Sakkeus klifraði upp í mórberjatré, frekar en eitthvað annað tré? Sennilega er því ætlað að sýna eitthvert lítillæti, því mórberjatré voru svo ómerkileg. Stórmenni klifra ekki upp í mórberjatré.
Í Amos, 7. kafla segir: „14 Amos svaraði Amasía og sagði: „Ég er ekki spámaður og ekki lærisveinn spámanns, heldur fjárhirðir og rækta mórber.“ Þarna er eins og ekki sé hægt að komast neðar í virðingastigann en þetta. Amos er ekki bara vesæll fjárhirðir, heldur ræktar hann líka mórber.
Til eru nokkur ræktuð yrki af mórberjatrjám. Hér er það Morus alba ‘Pendula’ í borginni Wangaratta í Ástralíu. Myndina birti Fade á Facebooksíðunni Unique Trees. Eins og sjá má vísar yrkisheitið í greinarnar sem hanga á áberandi hátt.
Uppreist mórberja og ættfræði
Mórber tilheyra ættkvíslinni Morus innan ættarinnar Moraceae. Það er því augljóst að þegar ættinni var gefið nafn þá þóttu mórberin það merkileg að öll ættin er nefnd eftir þeim. Það gerist þótt innan sömu ættar sé meðal annars að finna fíkjutré, Ficus spp. sem við höfum áður fjallað um, enda er sú ættkvísl stórmerkileg og kemur víða við sögu. Það má því segja að æra mórberjanna hafi verið uppreist frá því að Biblían var skrifuð. Hvernig stendur á þessari upphefð og klifri upp metorðastigann?
Samkvæmt Britannicu eru taldar vera um 1100 tegundir innan ættarinnar í heild. Ættkvísl fíkjutrjáa hefur um 750 til 800 tegundir en aðeins eru þekktar 12 til 20 tegundir mórberja.
Vegna skyldleika mórberja og fíkjutrjáa hefur orðið mórberjafíkja stundum sést á íslensku eins og að framan greinir. Samkvæmt leit á biblian.is má sjá þetta orð í yngstu Biblíuþýðingunni frá árinu 2007, en ekki í eldri þýðingum. Tímarit.is kannast ekkert við orðið. Sennilega er réttast að nota ekki þetta orð.
Hvernig stendur á því að ættin er ekki kennd við hin mögnuðu fíkjutré, með sínum frægu fíkjuvespum? Af hverju urðu mórberin fyrir valinu sem er minni og óþekktari ættkvísl?
Það er næsta víst að þar kemur eitt ákveðið skordýr til sögunnar. Á ritunartíma Biblíunnar höfðu skrásetjarar hennar enga hugmynd um þetta skordýr sem er að vísu nokkuð stórt en er frekar litlaust mölfiðrildi austur í Kínaveldi. Það var ekki fyrr en tengsl þess við mórberjarunna urðu fólki í Evrópu ljós að mórberin virðast hafa hækkað í tign.
Nánar um það hér á eftir.
Málverk eftir Van Gogh af mórberjatré að hausti.
Mórber í Evrópu og Norður-Ameríku
Engin tegund mórberja telst upprunaleg í Evrópu. Tvær tegundir finnast þó villtar í suður- og miðhluta álfunnar og er fremur auðvelt fyrir kunnáttufólk að greina þær á ungum aldinum. Ef þau er ekki að finna vandast málið. Til að flækja málið enn frekar þá geta tegundirnar blandast án vandkvæða. Þá er útlit aldina jafnan látið ráða hvorri tegundinni afkvæmin tilheyra, jafnvel þótt önnur atriði sýni erfðaflæði frá báðum tegundum (Schulz 2020). Í lýsingum tegundanna hér á eftir má sjá atriði sem nýtt eru til að greina tegundirnar í sundur. Þessar tvær tegundir eru þær þekktustu í heimi, þótt Bandaríkjamenn vilji bæta þeirri þriðju, roðamórberjum eða Morus rubra, við.
Þegar talið er um mórber í evrópskum heimildum er langoftast átt við aðra af þessum tveimur tegundum. Ef talað er um mórber í vesturheimskum heimildum er að jafnaði átt við roðamórber eða þessi hvítu. Þeim hefur verið plantað þar vestra. Báðar tegundirnar í Evrópu mynda nokkuð hringlaga krónur, sem geta þó fengið meiri karakter þegar aldurinn hellist yfir. Greinarnar mynda að jafnaði um 90° horn við stofninn hjá þeim báðum (Schulz 2020).
Svo má nefna að þótt báðar tegundirnar hafi fjölbreytta gerð laufa er samt munur á. Fjölbreytt lögun laufa er til muna algengari hjá M. alba en M. nigra. Hvítu mórberin hafa glansandi og slétt lauf. Roðamórberin í Ameríku hafa mjög gróf og hrukkótt lauf en sortumórberin eru þar nokkurn vegin mitt á milli. Þó heldur nær þeim hvítu (Clapp & Crowson 2022).
Fljótt á litið mætti ætla að þetta væru ber af sömu tegund. Svo er ekki. Fyrri myndin sýnir sortumórber, Morus nigra, en sú seinni sýnir hvítu mórberin, M. alba. Á fyrri myndinni eru berin stilklaus eða því sem næst. Á þeirri seinni eru berin með áberandi stilk. Einnig má sjá að blöðin á fyrri myndinni eru grófari. Fyrri myndin er héðan, en sú seinni héðan.
Sortumórber, Morus nigra L.
Við byrjum á Biblíutegundinni. Þetta er tegundin sem nefnd er í þeirri ágætu bók. Hún er frá Suðvestur-Asíu, nánar tiltekið frá Suður-Kákasus og hún finnst einnig allt suður til Persíu. Þaðan hafa sortumórber smám saman borist allt að botni Miðjarðarhafs og með mannfólki um norðurstrandir þess sama hafs. Það gerðist strax í fornöld.
Þessi tegund er oftast heldur lægri en sú sem kennd er við hvítu berin, en brumin eru sjónarmun stærri. Hún verður sjaldan hærri en 10 metrar og stundum myndar hún bara runna. Greinarnar eru grágrænar og örlítið hærðar en ekki glansandi. Eldri greinar fá oft ljósari bletti (Schulz 2020).
Rómverjar og Grikkir fluttu þessa runna með sér vítt og breitt um sín yfirráðasvæði. Þeir notuðu berin bæði til átu og víngerðar, enda eru þetta þau mórber sem almennt þykja best til átu. Eftir því sem norðar dregur í Evrópu dregur úr ræktun mórberja. Tegundin finnst í suðurhluta Englands en jafnvel þar geta frost skemmt uppskeru. Sortumórber vaxa einnig í Tékklandi og víðar í Mið-Evrópu en eru meira áberandi í suðrinu.
Hér að framan er sögð persnesk þjóðsaga um elskendur og blóðlitinn í og á berjunum. Sú saga er frá slóðum sortumórberja og á við um þá tegund. Því kann einhverjum að þykja einkennilegt að tegundin skuli kallast M. nigra eða sortumórber. Því er til að svara að berin eru fyrst ljósgræn eða nánast hvít en verða síðan blóðrauð. Þá verður til þessi rauði safi. Svo dökkna berin og þau verða nánast alveg svört. Berjasafinn verður samt áfram rauður. Oft má sjá tvo eða jafnvel þrjá liti af berjum á hverju tré. Það tryggir að þau verði ekki öll étin á sama tíma og eykur það líkurnar á því að einhver fræjanna berist á heppilega staði.
Falli fullþroskuð berin á eitthvað þá geta þau sprungið og skilja þá eftir sig blóðlitar klessur.
Tegundin sem vex villt í Norður-Ameríku kallast roðamórber eða M. rubra. Hennar ber eru ekki eins dökk og þar með er rauði liturinn meira áberandi. Þess vegna bera amerísku berin sitt nafn.
Þekkja má sortumórber frá M. alba á nokkrum atriðum. Fyrir það fyrsta roðna berin ekki eins mikið á seinni tegundinni og eru bragðminni. Gott einkenni er að ber sortumórberja eru stilklaus en hin hvítu vaxa á stilk. Ung ber sortumórberja eru ljósgræn en ekki hvít eins og á hinni tegundinni. Munurinn þar á milli er samt ekki mikill. Að auki er munur á laufblöðum eins og fram kemur í kaflanum um laufin hér að ofan.
Á 17. og 18. öld voru mórber nokkuð vinsæll matur hefðarfólks í Evrópu. Þess vegna má enn sjá mjög gömul mórberjatré með áberandi ellilega og snúna stofna við herragarða um sunnanverða álfuna (Tudge 2005). Spadea (2022) segir þessi gömlu tré minna sig á víðitré í sögunum um Harry Potter sem kallast Whomping Willow. Í íslenskri þýðingu varð þetta tré að eikinni armlöngu. Gefur þetta einhverja hugmynd um hvernig gömul, virðuleg sortumórberjatré líta út.
Sortumórber. Myndin fengin héðan þar sem sagt er frá hollustu þeirra. Takið eftir hvað laufin eru gróf miðað við myndina hér að neðan.
Hvítt mórber, Morus alba L.
Þessi tegund er ættuð frá Austur-Asíu, allt frá Kína til Indlands. Berin á M. alba eru lengi hvít og þykja ekkert sérstök á bragðið (Wells 2010). Leit á þráðum alnetsins sýna myndir af berjum sem verða rauð og jafnvel svartrauð eins og berin á sortumórberjum, en þessi ber þekkjast á því að þau vaxa á stilk.
Þessi tegund getur vel náð um 15 m hæð og er oftast með hringlaga krónu. Greinarnar eru glansandi og grágrænar, grábrúnar eða rauðbrúnar að lit. Börkur eldri greina er með fínlegar sprungur (Schulz 2020).
Þetta er sú tegund sem komið hefur mórberjum ofar í virðingarröðina út frá efnishyggju mannfólksins. Það er ekki vegna þess að plantan sé svo fögur eða myndi bragðgóð ber eða verðmætan við. Ó nei. Ástæðan fyrir uppreist mórberjanna er lirfa fiðrildis sem finnst ekkert betra en að háma í sig blöðin á þessu tré en þrífst mun verr á öðrum mórberjum og alls ekki á blöðum trjáa af öðrum ættkvíslum.
Þetta skordýr hefur fræðiheitið Bombyx mori þar sem nafnið mori vísar til mórberja (Morus). Á íslensku kallast skordýrið silkifiðrildi.
Það sem eftir er af pistlinum fjallar um þetta tré, þennan orm og lífshlaup hans.
Hvít mórber. Myndin fengin héðan. Takið eftir hvað laufin eru glansandi miðað við myndina af sortumórberjum hér að ofan. Sjá má stilka á berjaklösunum sem ekki eru til staðar á efri myndinni.
Silkiormur
Samkvæmt kínverskri arfsögn var silki uppgötvað af keisaraynjunni Xi Ling-Shi um 2640 árum fyrir Krist. Þá sat hún undir mórberjatré og naut þess að drekka te úr bolla sínum þegar lirfa silkifiðrildis, sem lokið hafði við að púpa sig, féll í bolla hennar. Í stað þess að æpa, emja og kasta frá sér bollanum eins og vænta mætti af saklausri keisaraynju, þá fór hún eitthvað að toga í púpuna. Þá kom í ljós langur silkiþráður sem hún vatt utan af púpunni. Skömmu síðar kom til önnur keisaraynja, Si Ling-Chi. Hún er sögð hafa fundið upp aðferð til að vefa úr þessum ótrúlega fallega þræði (Wells 2010). Ef til vill var þetta upphaflega sama nafnið og þá sama keisaraynjan, þótt Wells geri greinarmun á. Í frásögn Vilmundar Hansen (2017) hét þessi athugula keisaraynja með tebollann Leizu og er nú talin gyðja silkis.
Hvort sem sagan er sönn eða ekki þá er vitað að Kínverjar hafa lengi framleitt silki enda eru vandfundin þau efni sem eru mýkri en þó svo sterk sem raun ber vitni. Silkiþráður er miklu sterkari en jafngildur stálþráður og silki er sú vefnaðarvara sem allar aðrar vefnaðarvörur eru miðaðar við.
Kínverjar héldu aðferðinni við vinnslu leyndri í nokkur árþúsund og seldu silki dýrum dómum til Evrópu. Það síðartalda gera þeir reyndar enn. Verslunarleiðin milli Kína og Evrópu hlaut nafn af silkinu og kallaðist silkivegurinn eða silkileiðin. Þetta var ekki einn vegur, heldur heilt net gatna og vega. Fjölmargar vörur voru fluttar eftir þessum verslunarleiðum, til dæmis hinn rándýri kanill eins og við sögðum frá í þessum pistli. Engin vara var þó jafn mikilvæg og silkið.
Rúmlega hálfri þúsöld eftir Kristsburð, eða árið 552, eða þar um bil, var uppi keisari í austrómverska keisaradæminu að nafni Justinaian sem bauð stórfé ef einhver gæti leyst gátuna um framleiðslu silkis. Þá komu til sögunnar tveir persneskir munkar, sem ferðast höfðu eftir silkileiðinni frá Kína til Miklagarðs, eins og borgin kallaðist um tíma í íslenskum heimildum. Höfðu þeir komið fyrir eggjum silkifiðrildisins í holum göngustaf sínum og gátu þannig smyglað fyrstu silkiormunum til Evrópu eftir sjálfri silkileiðinni. Munkar þessir kenndu mönnum Justiniusar að rækta silkiorminn á laufum mórberjarunna og leyndarmálið upplýstist (Wells 2010). Hafði það þá verið varðveitt í rúm þrjú þúsund ár.
Pattaralegt, hvítt silkifiðrildi verpir um 400 límkenndum eggjum á lauf mórberjatrés. Myndin fengin héðan þar sem fjallað er um eldi silkiorma.
Eftir þetta fóru Evrópubúar að rækta hvít mórberjatré um sunnanverða Evrópu ásamt silkifiðrildum. Múslimskir landvinningamenn náðu góðum tökum á ræktuninni og fluttu tæknina með sér bæði til Spánar og Sikileyjar. Rómverjar og Grikkir höfðu flutt með sér sortumórber og hófu ræktun silkiorma með aðstoð þeirra. Lirfunum líkar mun betur við hvíta tréð. Þannig gengur ræktunin á ormum ekki eins vel fyrir sig nema þar sem rétt mórberjategund er ræktuð samhliða fiðrildunum. Ræktun silkifiðrildisins er enn stunduð í Evrópu, einkum í Tyrklandi, Ítalíu og Suður-Frakklandi. Ræktunin hefur einnig verið reynd í báðum Ameríkunum en enn í dag fer stærsti hluti framleiðslunnar fram í Asíu og allra mest er framleiðslan í Kína. Það hefur ekkert breyst í allan þennan tíma. Árið 2017 sagði Vilmundur Hansen frá því að næst í framleiðsluröðinni væri Indland og Úsbekar í þriðja sæti. Svo koma Taíland, Brasilía, Víetnam, Norður-Kóra, Japan og Tyrkland.
Silkiormur. Myndin fengin héðan þar sem framleiðslunni er lýst.
Framleiðsla silkis
Þegar egg silkifiðrildisins klekjast út á mórberjatrénu byrja lirfurnar að háma í sig laufin í miklu magni. Reyndar í mjög miklu magni. Það er alveg stórmerkilegt hvað þau get troðið í sig. Sem dæmi um magnið sem lirfurnar éta nefnir Tudge (2005) að til að framleiða silki í eina silkiskyrtu þurfi um níu þúsund pund af laufi. Það eru vel rúmlega fjögur tonn.
Þessi magnaða átveisla stendur nær látlaust yfir, bæði dag og nótt, í um sex vikur. Á þeim tíma étur lirfan margfalda eigin þyngd og vex ákaflega hratt. Á sex vikum tekst litlu lirfunni ljótu að éta um fimmtíu þúsundfalda þyngd sína og verður þá um tíu þúsund sinnum þyngri en er hún skreið úr eggi. Á þessum tíma skiptir hún fjórum sinnum um ham og er þá orðin um 7,5 cm löng. Að lokum skríður lirfan í hýði með því að festa sig við grein eða eitthvað annað undirlag. Síðan myndar hún púpu. Utan um púpuna spinnir hún einn silkiþráð sem verður um 300 til 900 metra langur (Spadea 2022).
Hér má sjá myndband af lirfu að vefja sig inn í silkihjúp. Myndbandið er tæpar tvær mínútur að lengd en er sett saman af 1440 myndum sem teknar eru á 24 klukkustundum.
Ef lirfan fær að vaxa óáreitt í púpu sinni breytist hún í mölfiðrildi sem kallast silkifiðrildi. Til að komast út í lífið þarf fiðrildið að éta sig út úr púpu sinni og þá skemmist hinn dýrmæti þráður. Reyndar er það ekki alveg rétt að silkifiðrildið „éti“ sig út, enda hefur það hvorki munn né meltingarkerfi að sögn Clapp & Crowson (2022). Þess í stað myndar það sérstakt ensím sem seytlar út um framendann og skemmir þráðinn. Þá kemst fiðrildið út. Þess vegna er reynt að koma í veg fyrir að lirfurnar fari út úr púpunum, nema hjá þeim fáu sem ætlað er að búa til næstu kynslóð. Stærsti hluti púpanna er tekinn og settur í sjóðheitt vatn meðan lirfan er enn á púpustigi. Þá steindrepst skordýrið í púpu sinni og að auki verða við það efnahvörf sem auðvelda að hægt sé að rekja upp silkiþráðinn (Wells 2010, Spadea 2022). Þetta passar ágætlega við söguna af því hvernig keisaraynjan uppgötvaði silkiþráðinn sem sagt var frá hér að framan. Hún hefur sjálfsagt verið með vel heitt te í bolla sínum. Sums staðar í Kína er ormurinn sjálfur borðaður þegar búið er að rekja þráðinn af honum (Wells 2010). Hann er stór og próteinríkur. Vilmundur (2017) segir að ormarnir séu meðal annars borðaðir í norðausturhéruðum Indlands. Í Kóreu og Kína eru þeir ristaðir og borðaðir sem snakk. Japanir borða þá að sjálfsögðu með súrsætri sósu. Svo bætir Vilmundur því við að í kínverskum lækningum séu þurrkaðir silkiormar muldir í duft sem er sagt gott við iðraþembu, slímmyndun og skjálfta.
Silkifiðrildi ganga í gegn um fullkomna myndbreytingu. Myndin sýnir (frá vinstri til hægri) egg, lirfu, púpu og fullvaxið fiðrildi á mórberjalaufi. Laufið er glansandi og greinilega af tegundinni M. alba eins og vera ber. Myndin fengin héðan og er eftir Baobao Ou.
Silki er ákaflega létt efni. Þrátt fyrir að hver lirfa púpi sig með því að spinna um sig 300 til 900 metra langan þráð, eins og áður segir, þarf um 2000 til 3000 púpur fyrir hvert pund sem framleitt er af silki. Vilmundur (2017) er á svipuðum slóðum er hann segir að það þurfi að jafnaði um 5.000 púpur í vandað japanskt kímónó. Ef hvoru tveggja er rétt eru vandaður kímónó aðeins um tvö pund að þyngd eða rétt tæpt kíló. Heimsframleiðslan á hreinu silki er að minnsta kosti 200 þúsund tonn á hverju einasta ári. Sumir segja að hún sé að nálgast 300 þúsund tonn (Clapp & Crowson 2022). Ef við gerum ráð fyrir að þurfi 11.000 púpur til að framleiða eitt kíló af silki og miðum við lægri töluna í heimsframleiðslunni eru um 2.200.000.000.000 silkiormar til í heiminum. Vilmundur (2017) bendir á að ekkert annað nytjadýr í heiminum sé til í viðlíka fjölda. Þarna er komið seinna heimsmetið sem tengist mórberjum. Þetta er heimsmet í nytjadýrafjölda. Það er ekki hægt að halda því fram að það sé heimsmet í eigu mórberja, en án þeirra væru engin silkifiðrildi. Ræktun mórberja er forsendan fyrir þessu heimsmeti. Þar með má fullyrða að mórberjatré tengist náið tveimur heimsmetum, eins og fram kemur í innganginum.
Það er því ekkert undarlegt þótt framleiðsla á hvítum mórberjatrjám sé mikil.
Fullorðin silkifiðrildi
Fullorðin silkifiðrildi nærast ekki, enda hafa þau hvorki munn né meltingarfæri. Aftur á móti eru þau alveg sérstaklega virk á kynferðissviðinu. Fiðrildið hefur einn og aðeins einn tilgang í lífinu eftir að það kemst úr púpu sinni. Það er að komast yfir jafn mörg fiðrildi af gagnstæðu kyni og unnt er áður en það drepst úr hungri.
Svo lengi hefur silkifiðrildið verið í ræktun manna að það á ekki nokkurn möguleika á að lifa í villtri náttúru. Ekki frekar en sum húsdýr á Íslandi sem eru algerlega háð manninum.
Formæður þessara fiðrilda eru til. Hefur það sama ættkvíslarheitið og silkifiðrildið, Bombyx mori, en er kennt við Kína og kallast Bombyx mandarina. Silkifiðrildi í ræktun eru gulgrá eða mjallahvít á litinn á meðan hin villta tegund myndar feluliti (Clapp & Crowson 2022).
Villt silkifiðrildi, Bombyx mandarina, er brúnleitt á meðan hið ræktaða silkifiðrildi, Bombyx mori, er stærra og nær hvítt að lit. Myndin fengin héðan.
Þakkir
Þakkir fær Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir fyrir vandaðan yfirlestur og gagnlegar ábendingar. Allar villur sem kunna að finnast í texta eru þó á ábyrgð höfundar.
Heimildir
Höfundur ókunnur: Biblía. Sjá: https://biblian.is Hið íslenska biblíufélag. Sótt 20. apríl 2024.
Casey Clapp & Alex Crowson (2022): The Mothrix (White Mulberry). Hlaðvarpsþáttur úr þáttaröðinni: Completely Arbortrary frá apríl 2022. Sjá: Completely Arbortrary (arbortrarypod.com).
William L. Hosch (2024): Moraceae. Plant family. Í Britannica. Sjá: Moraceae | Ficus, Mulberry & Fig | Britannica. Sótt 24. apríl 2024.
Bernd Schulz (2020): Identification of Trees and Shrubs in Winter using Buds and Twigs. Kew Publishing. Royal Botanic Gardens, Kew.
Thomas Spadea (2022): The Mulberru. Podcast þáttur í þáttaröðinni My Favorite Trees https://mftpodcast.com// nr. 96 20. febrúar 2024. Sjá: https://open.spotify.com/episode/1HXU1ho7Jf5f1d5cTYxnhG
Colin Tudge (2005): The Tree: A Natural History of What Trees Are, How They Live, and Why They Matter. Crown Publishers, a division of Random House, Inc, New York.
Vilmundur Hansen (2017): Silkiormar framleiða mýksta og eitt sterkasta efni í heimi. Í: Bændablaðið 9. mars 2017. Sjá: Silkiormar framleiða mýksta og eitt sterkasta efni í heimi - Bændablaðið (bbl.is). Sótt 26. apríl 2024.
Diana Wells (2010) Lives of the Trees. An Uncommon History. Algonquin Books of Chapel Hill. Chapel Hill, North Carolina.
Örn Arnarson (2024): Munnleg heimild í apríl 2024.
Í heimildir er tengjast myndum eru tenglar settir undir viðkomandi myndir.
Hozzászólások