top of page
mainLong-1.png
  • Facebook

Næfurhlynur. Tegund í útrýmingarhættu

Writer's picture: Sigurður ArnarsonSigurður Arnarson

Heimurinn er fullur af allskonar lífi. Athafnir okkar manna eru því miður þannig að mikill fjöldi dýra, sveppa og plantna á undir högg að sækja. Það er beinlínis okkur að kenna að margar tegundir ramba á barmi útrýmingar. Það er svo sem ekkert nýtt að tegundir deyi út. Sennilega hafa hið minnsta 99,9% allra tegunda, sem til hafa verið, horfið af jörðinni. Eftir því sem fleiri aukastöfum er bætt við töluna þeim mun nær erum við réttu svari.

Fimm skeið hafa gengið yfir jörðina í fortíðinni þar sem fjöldaútrýming hefur átt sér stað. Hvert skeið um sig leiddi til þess að verulegur hluti tegunda hvarf af yfirborði jarðar. Þessar fjöldaútrýmingar voru af völdum náttúrulegra þátta eins og eldvirkni, áreksturs við smástirni og náttúrulegra loftslagsbreytinga. Það sem er nýtt er að ein dýrategund skuli með eyðingu búsvæða, ofnýtingu, mengun og almennt slæmri meðferð eiga svo stóran þátt í ferlinu að skeiðið má kenna við tegundina og kalla mannöld. Slíkt á sér enga hliðstæðu í sögu lífs á jörðu.

Við stöndum frammi fyrir sjöttu fjöldaútrýmingu tegunda á jörðinni.

Í þessum pistli segjum við frá einni tegund, næfurhlyn, eða Acer griseum (Franch.) Pax, sem á undir högg að sækja og það í bókstaflegri merkingu. Þessi tegund stendur þó betur að vígi en margar aðrar. Það er ekki of seint að snúa blaðinu við og bjarga henni — ef við viljum.

Næfurhlynur í grasagarðinum í Edinborg. Takið eftir hvað stofn og greinar eru flott á litinn. Mynd: Sig.A.


Ættkvíslin

Hlyntegundir, Acer spp., mynda mjög stóra ættkvísl trjáa með um 200 tegundum ef marka má vefsíðu Britannicu, en heimildum ber illa saman um fjöldann. Ættkvíslin er útbreidd á norðurhveli jarðar, einkum í tempraða beltinu en mestur tegundafjöldi virðist vera í Kína. Þar í landi vaxa líka tvær tegundir af ættkvíslinni Dipteronia sem er talin náskyld hlynum.

Næfurhlynur að byrja að fá haustliti. Sumar aðrar tegundir nálægt honum eru komnar lengra í undirbúningi fyrir veturinn en aðrar styttra. Eitthvað kann að hafa verið átt við litina á þessari mynd sem er fengin héðan.


Tegundir ættkvíslarinnar eru einn mikilvægasti hópur skrauttrjáa og -runna í grasflötum, meðfram götum, í almenningsgörðum og einkagörðum á stórum svæðum í Evrópu, Asíu og Ameríku. Hlynir eru til í ýmsum stærðum og formum og flestar tegundir fá glæsilega haustliti en nokkrar suðrænar tegundir eru sígrænar. Sumar tegundir eru ræktaðar til viðarframleiðslu (Augustyn 2024).

Allir hlynir eiga það sameiginlegt að mynda fræ í vængjuðum pörum. Vængirnir sjá til þess að í golu geta fræin borist langar leiðir frá móðurtrénu. Þá snúast fræin í loftinu fyrir tilstilli þessara vængja, líkt og spaðar á þyrlu. Ef fræin eru látin falla til jarðar áður en þau verða fullþroskuð þá falla þau lóðbeint niður rétt eins og steinar væru.

Fræin á næfurhlyn koma upp um ættkvíslina þótt laufin séu ódæmigerð. Því miður er það oftast svo að stór hluti fræja þessarar tegundar reynist geldur. Mynd: Sig.A.


Full ástæða er til að skrifa sérstakan pistil um ættkvíslina og verður það hugsanlega gert í fyllingu tímans. Í raun má segja að tiltölulega fáar tegundir hlyntrjáa hafa verið reyndar hér á landi. Á Íslandi þurfa þau frjósaman jarðveg og skjól í æsku. Með auknum aldri og vexti verða trén þolnari.

Þar sem ættkvíslin er mjög stór og með mikinn breytileika hefur oft verið stungið upp á að skipta henni niður í smærri hópa eða deildir eftir skyldleika. Tegundir í hverjum hópi eiga sitthvað sameiginlegt sem ekki er endilega að finna hjá öðrum tegundum ættkvíslarinnar. Eflaust munum við skrifa eitthvað um suma af þessum hópum í náinni framtíð.

Kort frá Wikipediu sem sýnir útbreiðslu hlyntegunda. Þar er  því haldið fram að tegundirnar séu 128. Aðrar heimildir segja að þær séu nær 200.


Deildin Trifoliata

Deildin, sem tré vikunnar tilheyrir, kallast Trifoliata með vísan í að blöðin eru dálítið frábrugðin blöðum flestra hlyntegunda. Þau eru alltaf þrískipt eða þrífingruð eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Orðið Trifoliata vísar í þetta og er sett saman úr orðhlutunum tri (þrír) og folia (laufblað). Að auki eiga þessi tré það sameiginlegt að stofnarnir mynda áberandi næfrar sem flagna af í löngum ræmum. Þær eru misjafnlega mikið áberandi eftir tegundum. Þrátt fyrir að laufin séu dálítið ólík laufum annarra hlyntrjáa leynir sér ekki að þetta séu hlynir þegar tegundirnar mynda fræ.

Fjórar myndir af Acer triflorum í Arnold Arboretum í Boston. Á lokamyndinni er önnur hlyntegund framan við hana sem fær allt öðruvísi haustliti og hefur ólík blöð. Latínuheitið triflorum vísar ekki í þrískipt laufblöð eins og trifoliata, heldur í þrískipt blóm. Þegar höfundur var þarna á ferð í október 2012 var næfurhlynur kominn lengra í að hausta sig og litirnir voru því ekki eins rauðir hjá honum. Hann á samt að geta orðið mjög rauður. Myndir: Sig.A.


Tegundirnar sem tilheyra þessari deild eru Acer sutchuenense, A. maximowiczianum, A. triflorum, A. mandshuricum, sem heitir roðahlynur á íslensku og að sjálfsögðu tré vikunnar, A. griseum sem heitir næfurhlynur á íslensku. Aðeins þær tvær síðasttöldu eiga íslenskt heiti samkvæmt Íðorðabanka Árnastofnunar.

Allar vaxa þessar tegundir villtar í Asíu og geta myndað ótrúlega glæsilega haustliti.

Eins og hjá öðrum plöntum í þessari deild eru laufin á Acer maximowiczianum þrískipt og ekkert mjög hlynleg. Þessi tegund getur myndað blendinga með A. griseum. Mynd: Sig.A.

Lauf á roðahlyn, Acer mandshuricum í Lystigarðinum á Akureyri. Íslenska nafnið fær hann af rauðum blaðstilkum sem mynda skemmtilegar andstæður við hvanngræn blöðin. Myndin fengin að láni frá heimasíðu Lystigarðsins en hana tók Björgvin Steindórsson.


Tegundirnar í þessari deild eru það skyldar að sumar þeirra geta myndað frjótt fræ saman. Þannig hefur A. maximowiczianum sama litningafjölda og A. griseum og þær tegundir blandast auðveldlega í ræktun.

Blendingshlynur í Arnold Arboretum í Boston með þrískipt lauf stendur aftan við lauflítinn næfurhlyn með auðþekktan stofn. Mjög líklegt er að næfurhlynurinn sé annað foreldrið. Á fyrstu myndinni sést að næfurhlynurinn haustar sig fyrr en nálæg tré. Það skiptir máli eins og við segjum frá hér neðar. Mynd: Sig.A.


Næfurhlynur

Næfurhlynur eða Acer griseum er lauffellandi trjátegund sem að jafnaði nær um 6-9 m hæð í ræktun og breidd upp á 4-6 m (Sjöman & Anderson 2023) en samkvæmt lýsingum getur tréð orðið um 20 metra hátt á heimaslóðum. Hlynurinn er víða ræktaður til skrauts og er áberandi í almenningsgörðum og grasagörðum. Einkum er það vegna þess að börkurinn á trjástofnunum er einstaklega flottur og haustlitirnir eru glæsilegir. Reyndar vekja laufin líka mikla athygli áður en þau þroskast að fullu á vorin og verða fagurgræn. Fyrst eru þau rauðbleik á litinn, en það stendur stutt. Börkurinn á stofni og stærri greinum er mjúkur og verður koparbrúnn, rauðbrúnn eða orangebrúnn og mjög áberandi. Svo flagnar hann af í ræmum og myndar þannig áberandi næfrar eins og áður greinir. Af því hlýtur hann nafn sitt. Sennilega var það Björgvin Steindórsson heitinn, sem lengi vel stýrði Lystigarðinum af stakri prýði, sem stakk upp á þessu nafni.

Stofn og stór grein á næfurhlyn í grasagarðinum í Edinborg. Myndir: Sig.A.


Til eru fleiri tegundir trjáa sem kenndar eru við næfrar og höfum við meðal annars fjallað um þetta orð í pistli okkar um næfurhegg, Prunus maackii. Liturinn á stofni þessara trjáa er nokkuð líkur en næfrarnar eru enn meira áberandi hjá hlyninum en heggnum.

Laufin eru örlítið hærð í æsku, einkum á neðra borði, en hárum fækkar þegar laufin vaxa og síðsumars eru laufin með öllu hárlaus. Eins og hjá öðrum tegundum í þessari deild eru blöðin þrískipt eða þrífingruð. Blaðstilkurinn er aðeins 2-4 cm á lengd og út frá honum vaxa þrír áberandi tenntir „fingur“ sem verða 5-8 cm langir. Miðblaðið (langatöng?) er lengst og er það með áberandi stilk. Hin blöðin tvö eru nánast stilklaus.

Fullþroska fræ verða gulbrún 8-10 x 6-8 mm löng með vængi sem verða frá rúmlega 3 og hátt í 4 cm á lengd. Eins og hjá öðrum hlyntegundum vaxa fræin alltaf tvö og tvo saman. Hjá þessari tegund mynda vængirnir sem næst 90° horn við hvorn annan (WFO 2024) en stundum er hornið hvassara ef marka má eintök í grasagarðinum í Edinborg.


Næfurhlynur á Íslandi 

Mjög lítil reynsla er af þessari tegund hér á landi. Má frekar tala um fikt en tilraunir. Vitað er að næfurhlynur var reyndur í Lystigarðinum en þar varð hann ekki langlífur. Ef þessi hlyntegund fær hér þrifist getur hún aukið mjög á fjölbreytni í görðum og skógum, en líkurnar á því eru ekki miklar. Eins og svo margar hlyntegundir fær næfurhlynur glæsilega haustliti, en þeir birtast nokkuð seint samkvæmt sumum heimildum. Bendir það til þess að tegundin sé of suðlæg fyrir okkar loftslag. Þó ber að geta þess að í Boston byrjar tegundin að hausta sig á undan nánustu ættingjum sínum eins og sjá má á myndum hér ofar. Það gefur okkur smá von um að ræktun hans gæti gengið hér á landi á allra bestu stöðum. Þar sem tegundin er í ræktun er talað um að hún þurfi rakan og næringarríkan jarðveg til að þrífast vel. Oftast á hún nokkuð auðvelt með að koma sér fyrir á nýjum stað en hlynurinn vex og þroskast fremur hægt. Því miður er næfurhlynur viðkvæmur fyrir skemmdum og greinunum er hætt við að brotna ef ekki er farið varlega. Þess vegna er best að planta trénu þar sem átroðningur er lítill. Það mætti til dæmis gera með því að planta runnum undir trénu, enda er krónubygging og laufgerð með þeim hætti að næfurhlynur hleypir miklu ljósi til jarðar (Sjöman & Anderson 2023). Gott er að hafa þetta í huga. Í grasagörðum beggja vegna Atlantsála er þó farin önnur leið. Gras og annar gróður er fjarlægður undir trénu og trjákurl sett í beðin. Það er eins og það dugi ágætlega til að fólk sé ekki að kássast upp á trén.

Ef reynt er að rækta tegundina hér á landi væri gott að hafa í huga að greinar gætu verið viðkvæmar fyrir snjóbroti.

Teiknuð mynd af grein næfurhlyns úr bók eftir Bernd Schulz (2020) sem einnig teiknaði myndina. Myndin sýnir vel hvernig greinin vex og hvernig smágreinar standa gagnstætt á greinunum og bæta litlu við sig á hverju ári. Þess vegna verður krónan nokkuð gisin. Vetrarbrum eru um 5 mm að lengd.

Við spurðumst fyrir á Facebookhóp sem kallast Trjáræktarklúbburinn og þar kannast enginn við að hafa tekist að rækta tegundina þótt fáeinir hafi reynt.

Í sumum heimildum er sagt frá því að tegundin sé viðkvæm fyrir haustfrostum og reynslan sýnir okkur að vorfrost hafa oft farið illa með sumar asískar hlyntegundir hér á landi. Þetta bendir til að tíminn milli frostakafla að vori og hausti sé of stuttur til að næfurhlynur fáist hér þrifist.

Í Svíþjóð er tegundin til en þar er hún ekki ræktuð norðar en á Skáni (Hafsteinn 2024). Bendir þetta allt saman til að næfurhlynur sé af of suðlægum uppruna til að geta spjarað sig á Íslandi. Umhleypingar á vetrum gætu líka reynst tegundinni erfiðir.  Við vitum þetta ekki fyrir víst nema við reynum. Væri ekki gaman að vera sú, það eða sá sem fyrst eða fyrstur tekst að rækta þessa tegund með góðum árangri á Íslandi?

Sennilega munum við aldrei sjá svona eintök á Íslandi en lengi má reyna. Þessi næfurhlynur er í Skotlandi. Mynd: Sig.A.


Villtur næfurhlynur

Tegundin vex villt í miðhluta Kína á nokkuð mörgum, aðskildum svæðum eins og sjá má á meðfylgjandi korti. Þarna vex hann í blönduðu skóglendi lauftrjáa í 1500 til 2000 metra hæð yfir sjávarmáli. Hann vex stundum sem undirgróður í þessu skóglendi en hleypir mikilli birtu niður í gegnum krónurnar. Þar sem hann vex ekki í skugga annarra trjáa er því mikill undirgróður undir honum ef marka má Sjöman & Anderson (2023).

Kort sem fengið er héðan. Langt er á milli vaxtarstaða. Að meðaltali eru innan við 10 plöntur á hverjum vaxtarstað. Því er ekki mikill möguleiki á uppstokkun erfðaefnis.


Því miður fer þessum trjám fækkandi í náttúrunni. Nú er svo komið að aðeins er vitað um 220 til 250 fullvaxin, villt tré í heiminum. Tegundin er metin í útrýmingarhættu frá því árið 2018 (IUCN 2019). Samkvæmt sömu heimild er skógarhögg helsta ógnin sem steðjar að tegundinni.

Við þetta bætist að nokkuð langt er á milli vaxtarsvæða eins og sjá má á kortinu hér að ofan. Því er hætta á að lítið genamengi sé á hverjum stað. Það gerir aðlögun að hamfarahlýnun og öðrum erfiðleikum sem kunna að ógna trjánum vandasamari. Eykur það enn á vandann.

Af þessu sést glögglega að mikil hætta stafar að villtum næfurhlyn í heiminum og veruleg hætta er á að hann hverfi alveg úr villtri náttúru ef ekki verður gripið í taumana.

Mynd af villtum næfurhlyn í tegundaríkum, kínverskum blandskógi. Á myndinni er hann vinstra megin við miðju og þekkist tréð á stofnunum. Hann stendur í dálitlum skugga og því eru litirnir ekki eins áberandi og þar sem sólin skín. Myndin er fengin af þessari síðu þar sem fram kemur að ein af hverjum fimm hlyntegundum í heiminum sé talin í útrýmingarhættu. Mynd: Anthony S. Aiello.

Önnur mynd af villtum næfurhlyn. Hún var tekin í leiðangri til Shanxi í Kína snemma vors árið 1995. Börkurinn kemur upp um tegundina í lauflausum skóginum. Myndin er héðan en hana tók Rick Lewandowski.


Ræktaður næfurhlynur

Þrátt fyrir viðsjárverða tíma í heimi villtra trjáa er tegundin víða til í ræktun. Næfurhlynur barst fyrst til Evrópu árið 1901. Hann hefur því verið í ræktun í meira en heila öld og hefur fengið sérstök verðlaun hjá Konunglega breska garðyrkjufélaginu (The Royal Horticultural Society) sem úrvals garðplanta. Að sögn Sjöman & Anderson (2023) var það maður að nafni Ernest H. Wilson sem flutti tegundina til Evrópu. Hann var á sínum tíma ákaflega mikilvirkur plöntusafnari. Þrátt fyrir langa veru í Evrópu er næfurhlynur enn ekki mjög algengur í litlum einkagörðum þar sem höfundur hefur farið um, enda er tegundin nokkuð plássfrek ef hún á að fá að njóta sín.

Það mætti ætla að tegundinni sé borgið vegna þess að hún er ræktuð í grasagörðum beggja vegna Atlantshafsins. Það er þó ekki alveg víst. Hún myndar víða mikið fræ en algengt er að það sé gelt (Meyer 2010). Það kann að hluta til að stafa af mikilli skyldleikaræktun og það sama kann að eiga við um suma staði þar sem tegundin vex villt í Kína. Í grasagörðum hefur þessi tegund stundum blandast við A. maximowiczianum og hugsanlega (eigum við að segja: Mjög trúlega?) einnig við aðrar skyldar hlyntegundir. Þótt blendingstegundirnar geti verið fallegar eru þær ekki næfurhlynir. Hvoru tveggja, geld fræ og blendingar, hefur orðið til þess að betri grasagarðar hafa stundum sent fólk til Kína eftir fræi til að auka erfðabreytileikann.

Glóandi haustlitir á ungum, ræktuðum næfurhlyn. Myndin fengin héðan.


Árið 1907 barst fræ af tveimur plöntum af næfurhlyn til Norður-Ameríku fyrir milligöngu grasafræðinga í Arnold Arboretum. Hér að ofan eru einmitt myndir úr þeim garði sem höfundur heimsótti árið 2012. Talið er að nær allur plöntur af þessari hlyntegund í Bandríkjunum séu afkomendur þessara tveggja plantna og því er skyldleikaræktunin mikil. Það var ekki fyrr en á síðasta áratug aldarinnar sem leið að farið var í sérstakan leiðangur til að fá erfðaefni frá fleiri plöntum í Kína (Meyer 2010). Í Arnold Arboretum þarf að passa að rækta þessa tegund ekki nálægt ættingjunum ef ætlunin er að búa til fræ af hreinum næfurhlyni. Ef tegundin deyr út í Kína tekur fyrir frekari flutning á erfðaefni til Evrópu og Ameríku. Það er alltaf sorglegt þegar tegundir hverfa úr villtri náttúru. Ræktuð eintök eru einskonar sárabót, en betra er heilt en vel gróið.


Vonandi fá komandi kynslóðir áfram að dást að þessu glæsilega tré og vonandi tekst að vernda tegundina í upprunalandinu. Hver veit nema sú komi tíð að tegundin prýði Ísland. Þá gæti jafnvel verið hægt að koma hér upp fræbanka til að vernda tegundina á heimsvísu.

Okkar bestu þakkir fær Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir fyrir að gefa sér tíma til að lesa yfir pistilinn og leiðrétta villur í honum.

 Breið króna á næfurhlyn í grasagarðinum í Edinborg. Mynd: Sig.A.


Heimildir


Adam Augustyn (2024): Maple tree.  Í:  Encyclopaedia Britannica. Sótt 14. febrúar 2024.


Hafsteinn Hafliðason (2024): Munnleg heimild í febrúar.

 

The IUCN Red List of Threatened Species (2019): Acer griseum. Sjá: Acer griseum (iucnredlist.org). Sótt: 14. febrúar 2024.


Paul W. Meyer (2010): Paperbark Maple: Acer griseum. Í: Arnoldia 68 (2) Sjá: Paperbark Maple: Acer griseum - Arnold Arboretum. Sótt 15. febrúar 2024.


Bernd Schulz (2020): Identification of Trees and Shrubs in Winter using Buds and Twigs. Kew Publishing. Royal Botanic Gardens, Kew.


Henrik Sjöman & Arit Anderson (2023): The Essential Tree Selection Guide for climate resilience, carbon storage, species diversity and other ecosystem benefits. Filbert Press & Royal Botanic Gardens, Kew.


WFO, The World Flora Online (2024): Acer griseum (Franch.) Pax. Sjá: Acer griseum (Franch.) Pax (worldfloraonline.org). Sótt: 15. febrúar 2024.


Í aðrar heimildir er vísað með krækjum í texta.




Comments


Heimilisfang:

Skógræktarfélag Eyfirðinga

Kjarnaskógi

600 Akureyri

Netfang: ingi@kjarnaskogur.is

bottom of page