top of page

Blæöspin í Grundarreit og uppgangur myndlistar

Writer's picture: Sigurður ArnarsonSigurður Arnarson

Updated: Dec 1, 2023

Árið 1899 hófst gróðursetning í svokallaðan Furulund á Þingvöllum. Markar sá reitur ákveðið upphaf skipulagðrar gróðursetningar á Íslandi eins og flestir vita. Færri vita að Furulundurinn á sér systurreit norður í Eyjafirði. Stafar þessi almenna vankunnátta sennilega af meðfæddu lítillæti Eyfirðinga sem eru ekkert að blása upp svona merkilegar staðreyndir. Líta má á þessa tvo reiti sem fyrstu tilraunir til endurreisnar skóga á Íslandi. Á sínum tíma voru gróðursettar blæaspir í báða reitina. Seinna kom í ljós að blæöspin var til á fáeinum stöðum í landinu en hafði átt langt hnignunarskeið sem nánast gekk af henni dauðri á landsvísu.

Þessi mynd sýnir ekki uppgang myndlistar heldur uppvöxt blæaspa í Grundarreit í ágúst 2018. Aftar má sjá þéttan asparskóg en fremst á myndinni eru rótarskot. Mynd: Sig.A.

Á sama tíma voru ármenn íslenskrar málaralistar að marka sín spor í listasöguna. Auðvitað hafði myndlist verið stunduð á Íslandi allt frá landnámi, en hún hafði átt sitt langa hnignunarskeið, rétt eins og blæöspin. Því má segja að þetta tvennt tengist. Um og upp úr aldamótunum 1900 var unnið brautryðjendastarf, bæði í skógrækt og myndlist á Íslandi. Fyrir hvoru tveggja ber að þakka.

Græn og gul laufblöð á blæöspum í Grundarreit. Á haustin má greina suma klónana í sundur á lit laufblaða. Mynd: Sig.A.


Tengingar

Í upphafi 20. aldar var unnið mikið brautryðjendastarf í því að skapa sjálfsmynd hinnar ungu þjóðar. Hlaut hún fullveldi árið 1918. Íslensk myndlist og ræktun skóga til nytja og yndis var partur af uppbyggingu þessarar sjálfsmyndar. Eftir að þessir tveir systurreitir, sem nefndir voru í inngangi, voru settir á stofn fylgdi gróðursetning víða um land og enn sér ekki fyrir endann á þeirri jákvæðu þróun. Sama má segja um myndlistina. Þeim fjölgaði ört sem lögðu stund á hana og túlkun myndlistarmanna á íslenskri náttúru á stóran þátt í sjálfsmynd þjóðarinnar. Stundum er talað um þá Þórarinn B. Þorláksson, Ásgrím Jónsson, Jóhannes Kjarval og Jón Stefánsson sem frumkvöðlana fjóra í íslenskri myndlist ef marka má Wikipediu. Þeir voru ungir menn þegar gróðursetning íslensku skóganna hófst.

Forsíða Ársrits Skógræktarfélgas Íslands frá 1990. Síðan hefur forsíða ársritsins og síðar Skógræktarritsins, skartað myndverkum af trjám.



Tenging milli myndlistar og skógræktar má sjá á forsíðu Skógræktarritsins sem áður hét Ársrit Skógræktarfélags Íslands. Frá árinu 1990 hefur myndlistaverk, tengt skógum, prýtt forsíðu ritsins og verður væntanlega áfram. Fram að því voru vanalega ljósmyndir á forsíðunni.


Grænar blæaspir í Grundarreit í lok september. Mynd: Sig.A.


Endurnýjun myndlistar

Eins og blæöspin á myndlist sér langa sögu á Íslandi. Handritin okkar voru iðulega skreytt (kallast lýsing handrita) og þar má oft sjá myndir af einhvers konar stílfærðum trjágróðri. Auðvitað er þar líka skrifað um tré, meðal annars Ask Yggdrasils. Samt er það svo að myndlistin fór einhvern vegin undir radarinn þegar tímar liðu, rétt eins og blæöspin.

Lýsing úr Flateyjarbók. Ekki eru plönturnar auðgreindar til tegunda. Myndin fengin heimasíðu Árnastofnunar.


Þrátt fyrir að skógar hafi að mestu horfið hefur trjágróður og annar gróður líklega alltaf verið hluti af menningu landsins í einhverju formi. Má nefna þennan pistil um átrúnað á reynivið sem dæmi. Sennilega hefur alltaf verið einhvers konar myndlist í landinu. Flestir þekkja skemmtilegar teikningar Sölva Helgasonar (1820-1895). Þar má gjarnan sjá ýmiss blóm, lauf og greinar. Á hans tíma voru skógar Íslands í algeru lágmarki. Þá lifði enginn á Íslandi af myndlist og reyndar ekki heldur af skógrækt. Svo var það um líkt leiti og gróðursetningar blæaspa hófust að sérhæfðir listamenn komu fram.

Ein af teikningum Sölva Helgasonar sem varðveitt er í Þjóðminjasafninu.


Frumkvöðlarnir fjórir eru nefndir hér ofar. Sjálfsagt er að segja ögn frá hverjum og tengslum þeirra við árin sem gróðursetning blæaspa hófs. Fyrstur Íslendinga til að fá styrk til myndlistarnáms erlendis var Þórarinn B. Þorláksson (18671924). Hann hefur einnig verið nefndur fyrsti landslagsmálari Íslands. Árið 1900, sama ár og gróðursetning danskra blæaspa hófst í Grundarreit, fékk Þórarinn styrk frá Alþingi til að nema listir í Danmörku.


Mynd frá Laugarvatni eftir Þórarin B. Þorláksson.


Flóamaðurinn Ásgrímur Jónsson (18761958) stundaði myndlistarnám í Kaupmannahöfn árin 1900–1903. Hann var fyrstur Íslendinga til að gera málarastarf að aðalatvinnu sinni.

Ein af Húsafellsmyndum Ásgríms Jónssonar.

Það má heita táknrænt að Jón Stefánsson (1881-1962) fór fyrst til Danmerkur sama ár og gróðursetningin blæaspa í Grundarreit hófst. Reyndar ætlaði Jón ekkert að verða listmálari þegar hann fór út aldamótaárið 1900, en dvöl hans í Kaupmannahöfn breytti því.

Ein frægasta mynd Jóns Stefánssonar heitir Sumarnótt og sýnir tvo lóma við Þjórsá.

Jóhannes Kjarval (18851972) var af fátæku fólki kominn. Vinir hans söfnuðu fé svo hann gæti farið til Englands árið 1911 til að nema myndlist. Hann komst samt ekki í skóla fyrr en árið 1913 og þá í Danmörku. Þar nam hann málaralist í fjóra vetur. Hann var því á landinu þegar blæösp var fyrst plantað.

Í myndum Kjarvals má oft sjá ýmsa runna frekar en tré. Aspirnar í Grundarreit voru einmitt runnar frekar en tré þegar Kjarval var upp á sitt besta.


Þess verður að geta að á undan þessum fjórmenningum hóf Sigurður Guðmundsson (1833 - 1874), sem oftast var nefndur Sigurður málari, málaranám í Kaupmannahöfn. Hans nálgun var samt töluvert önnur en aldamótakynslóðarinnar.

Sigurður málari skildi eftir sig margar skissur af leiktjöldum sem hann málaði. Áhrif hans á íslenska menningu voru mikil árin áður en gróðursetning blæaspa hófst á Íslandi.


Við getum ekki heldur farið í gegn um þessa sögu án þess að nefna að minnsta kosti eina konu. Það er eins og þær séu huldukonur í myndlistarsögunni, rétt eins og blæöspin var lengi vel huldutré í íslenskri náttúru. Öspin er komin úr felum og full ástæða til að gera huldukonum íslenskrar málaralistar hærra undir höfði, rétt eins og blæöspinni. Fyrir valinu er Kristín Þorvaldsdóttir (1870- 1944). Hún stundaði nám í myndlist bæði í Kaupmannahöfn og í Þýskalandi og var þrítug þegar gróðursetningarnar hófust.

Olíumálverk eftir Kristínu Þorvaldsdóttur. Myndin fengin héðan.

Upphaf gróðursetninga

Sama sumar og gróðursetningar hófust í Furlulundinn, árið 1899, fóru Carl H. Ryder og Einar Helgason norður í land í leit að hentugum stað fyrir sambærilegar skógræktartilraunir og hafnar voru á Þingvöllum. Magnús Sigurðsson, stórbóndi á Grund, bauð fram land til tilraunarinnar endurgjaldslaust. Hafist var handa við gróðursetningu aldamótaárið 1900 eins og klifað hefur verið á. Girðingin var 1,6 hektarar í upphafi en var stækkuð árið 1952 og er nú rúmlega þrír hektarar að flatarmáli.

Grundarösp á Hálsi í Eyjafirði er enn græn þann 25.10. 2022. Fleiri aspir frá Grund eru þarna nálægt og hafa allar fellt laufin. Þessi munur sýnir vel að klónarnir frá Grund eru mismunandi. Mynd: Aðalsteinn Svanur Sigfússon.



Í upphafi var plantað sömu 16 tegundunum í þessa systurreiti á Þingvöllum og á Grund. Tegundunum hefur samt reitt misjafnlega af. Sumt er betra sunnan heiða, annað norðan. Samt má finna glæsileg tré á báðum stöðum. Í Grundarreit eru lindifururnar sérlega glæsilegar og þar er að finna stærstu blæaspir landsins.

Sæmundur Sveinsson (2007) hefur nýtt PCR próf til að kanna kyn blæaspa á Íslandi. Honum hefur tekist að staðfesta að bæði kynin er að finna í Grundarreit. Því er ekki með öllu hægt að útiloka frekara landnám með fræi á þessum stað. Þó ber að líta til þess að blómgun í blæösp á Íslandi er ákaflega sjaldgæf. Þess má líka geta að þessi PCR próf sýndu ekki nokkur merki um Covid-sýkingu.

Blæaspir að komast í haustliti í Grundarreit haustið 2022. Mynd: Sig.A.


Almennt um aspir

Áður hefur verið fjallað um blæaspir í pistlum Skógræktarfélagsins. Meðal annars um hvernig þær gætu hafa borist hingað (sjá hér) og um blæaspir í Vaðlareit (sjá hér) og í Garðsárgili (sjá hér). Árið 2019 skrifuðum við um súlublæaspir (sjá hér).

Blæöspunum var plantað í Grundarreitin tvö fyrstu árin. Það er að segja árin 1900 og 1901. Samkvæmt C. E. Flensborg (1901) voru 600 blæaspir fluttar að Grund frá Danmörku árið 1900. Hvorki kemur fram í skýrslu hans hversu margir klónar þetta voru né nákvæmlega hvaðan. Við sjáum þó í dag að klónarnir í Grundarreit eru nokkrir en ekki er vitað hversu margir. Sjá má mun á þeim þegar grannt er skoðað. Síðan öspunum var plantað hafa þær skriðið út og bætt mjög við veldi sitt. Að auki hafa angar af öspinni verið fluttir hingað og þangað, meðal annars í Vaðlareit þar sem þær eru til mikillar prýði.

Í útlöndum er blæösp gjarnan myndarlegt tré og getur náð allt að fjörutíu metra hæð með um eins metra sverum stofni þegar best lætur. Hérlendis hefur hún náð að minnsta kosti þrettán metra hæð. Hún er í eðli sínu beinvaxið tré með fremur mjóa krónu en á flestum fundarstöðum tegundarinnar á Íslandi er hún runnkennd. Ástæða þess er fyrst og fremst langvarandi sauðfjárbeit. Sem dæmi má nefna að bæði á Gestsstöðum í Fáskrúðsfirði og Strönd í Stöðvarfirði eru blæaspir. Þröstur Eysteinsson (2015) segir frá því að á báðum stöðum er sláandi munur á grósku þeirra eftir því hvar þær vaxa. Í 150-200 metra hæð eru þær miklu gróskumeiri en niður undir byggð. Það stafar væntanlega af langvarandi vetrarbeit neðarlega í hlíðunum, en ofar voru aspirnar oftar varðar af snjóalögum, að mati Þrastar. Fái blæösp skjól og frið fyrir beit húsdýra verður hún hærri og stæðilegri en bæði reynir og birki.

Sæmundur Sveinsson og Lárus Heiðarsson rýna í kort þar sem þeir standa í asparbreiðu á Strönd í Stöðvarfirði. Mynd: Þröstur Eysteinsson.


Populus tremula

Allar þekktar lífverur eiga sér latínuheiti. Blæöspin heitir Populus tremula á útdauðu alheimstungunni. Þó er það svo að á Akureyri hefur þetta nafn allt aðra tengingu. Einkum á það við um listunnendur. Í Listagilinu var um nokkurt skeið starfandi menningarsmiðja sem bar þetta ágæta nafn.

Þessar blæösp er ættuð úr Grundarreit og er hvanngræn í fyrsta snjó haustsins þann 10.10. 2022. Hún er í landi sem listmálarinn Björg Eiríksdóttir hefur í sinni umsjón. Enn má því finna tengingar milli blæaspa og málara. Mynd: Björg Eiríksdóttir.


Þeir félagar og bræður í listum; Erlingur Valgarðsson og Aðalsteinn Svanur Sigfússon, leigðu pláss í kjallara Listasafnsins sem vinnustofu og viðburðarpláss sem gekk undir þessu nafni. Árið 2004 fjölgaði verulega í hópnum og menningarsmiðjan Populus tremula var stofnuð með formlegum hætti. Nafngiftin vísaði meðal annars í það að líkt og blæöspin hafði myndlist lifað í landinu frá upphafi byggðar. Öspin meira að segja lengur en það. Þegar blæöspin var gróðursett í Grundarreit fór listin að rísa úr öskustónni. Kom svo í ljós, snemma á síðustu öld, að blæöspin leyndist víðar, rétt eins og myndlistin. Saman komust svo öspin og myndlistin til þroska sem enn sér ekki fyrir endann á (Aðalsteinn Svanur 2022).


Heimilidir

Aðalsteinn Svanur Sigfússon. Munnleg heimild 13. 10. 2022. Einnig upplýsingar, ábendingar og aðstoð.


Brynjólfur Jónsson, Munnleg heimild 22. 10. 2022.


C. E. Flensborg (1901): Skovrester og nyanlæg af skov paa Island. V. Oscar Søtofte. Kjøbenhavn.


Pétur Halldórsson (2022): Blæösp. Frétt frá 01.08.2022 á vef Skógræktarinnar. Sjá: https://www.skogur.is/is/um-skograektina/frettir-og-vidburdir/frettir-og-pistlar/blaeosp


Sæmundur Sveinsson (2007): Uppruni og erfðabreytileiki blæaspar (Populus tremula L.) á Íslandi. Framvinduskýrsla til Orkurannsóknasjóðs Landsvirkjunar. Landbúnaðarháskóli Íslands.


Þröstur Eysteinsson (2015): Blæasparleiðangur á Austurlandi. Frétt á heimasíðu Skógræktarinnar. Sjá: https://www.skogur.is/is/um-skograektina/frettir-og-vidburdir/frettir-og-pistlar/blaeasparleidangur-a-austurlandi


Í greinar á Wikipediu er vísað þar sem rætt er um frumkvöðla í málaralist. Tenglana má sjá undir nöfnum meistaranna. Við myndir þeirra er vísað í tengla þar sem þær eru vistaðar.

302 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page