#TrévikunnarSE þessa vikuna er rauðgreni, Picea abies. Rauðgreni er vinsælt jólatré enda lyktar það vel og er fallegt við góð skilyrði. Það vex í öllum landshlutum en bestum þroska nær það inn til landsins í hlýrri sveitum. Að jafnaði er það heldur hitakærara en aðrar tegundir grenis sem hér eru ræktaðar og vex hægar. Þessir eiginleikar gera það að heppilegu garðtré í stærri görðum. Það er auðþekkt frá öðru greni á töluvert ljósari lit.
Rauðgreni í Austurríki.
Náttúruleg útbreyðsla þess er mjög víðfem. Það vex um stóran hluta Evrópu, allt frá 70°N í Noregi og suður á Balkanskaga. Í Ölpunum vex það allt upp í 2.300 m h.y.s en einnig á láglendi. Austurmörk tegundarinnar eru ekki auðskilgreind þar sem það blandast við síberíugreni.
Rauðgreni í hálöndum Skotlands.
Rauðgreni hefur fallegan, keilulega vöxt og ung grenitré hafa lítillega uppréttar greinar. Með aldrinum fara greinarnar gjarnan að slúta og er það eitt af einkennum tegundarinnar. Má segja að hinar slútandi greinar séu einskonar þroska- eða ellimerki, svona eins og grá hár eða skalli hjá mannfólkinu. Rétt eins og hjá okkur er mjög misjafnt hvenær þessi einkenni koma fram og þau eru meira áberandi á kvæmum frá snjóþungum svæðum.
Rauðgreni í Kjarnaskógi gróðursett 1955. Mismunandi greinabygging.
Rauðgreni í Vaðlareit.
Ungar rauðgreniplöntur að hausti í Reykhúsum í Eyjafirði.
Blandskógur í haustbirtu austur í Skriðdal. Fremst má sjá rauðgreni. Aftar eru lerki, fura og sitkagreni á sama aldri. Öll eru þau fljótvaxnari en rauðgrenið.
Comments