top of page
Writer's pictureSigurður Arnarson

Reynir ´Dodong´

Updated: Oct 3, 2023

#TrévikunnarSE er í senn bæði kunnuglegt og framandi. Það er kunnuglegt því það er reynitré og margar tegundir reynitrjáa vaxa á Íslandi. Það er samt framandi, því blöðin, sem fljótt á litið minna á vel þekkt reynitré, eru mun stærri en við eigum að venjast. Jafnvel svo mjög að þau minna suma á pálmatré. Það gefur trénu framandlegt yfirbragð. Tréð ber að auki ákaflega fallegt en framandi nafn. Það heitir Dodong.

´Dodong´ í sölureit í garðyrkjustöð á Akureyri. Mynd: Sig.A.


Reynirinn ´Dodong´ var lengi talinn tilheyra tegundinni Sorbus commixta (sem heitir fjallareynir á íslensku) eða ef til vill blendingi af henni og óþekktri tegund. Eins og íslenska heitið bendir til vex fjallareynir til fjalla en þau fjöll eru í Japan, Kóreu, Sakhalin og Kúrileyjum. Nokkur breytileiki er í tegundinni enda langt á milli vaxtarstaðanna. Upphaflega kom ´Dodong´ upp af fræi sem sænsk-danskur rannsóknarleiðangur safnaði á kóresku eyjunni Ullung Do árið 1976. Höfnin á þeirri eyju heitir Dodong og er nafnið fengið þaðan. Upp úr þeirri sáningu komu ákaflega fjölbreyttar reyniplöntur en þessi var valinn úr sökum blaðfegurðar.

Blómvísar og hin kunnulegu en um leið framandi laufblöð á ´Dodong´. Mynd: Ingólfur Jóhannsson.

Ullungreynir

Nú orðið telja flestir að þessi reynir sé of frábrugðinn fjallareyni til að teljast til hans. Því er hann oft talinn sérstök tegund sem kallast Sorbus ulleungensis með vísan til fundarstaðarins. Upp á íslensku hefur hann stundum verið nefndur ullungreynir. Fullt fræðiheiti gæti verið Sorbus ulleungensis ´Dodong´. Hér á landi köllum við hann reyninn ´Dodong´, burt séð frá uppruna.


'Dodong' í Melatungu í Kópavogi. Á haustin myndar hann gæsilega haustliti en hér er hann enn grænn. Myndin tekin í ágúst 2019. Mynd: Sig.A.

Ræktun

Best er að að rækta ´Dodong´ í frjórri jörð og nokkru skjóli. Í erlendum heimildum er hann sagður bæði vind- og þurrkþolinn. Að auki á hann að þola allt að 30°frost. Reynslan sýnir að hér á landi vex hann prýðilega. Hann myndar beinvaxið tré með einn stofn og getur orðið allt að 15 metrar á hæð í útlöndum en er oftast lægri. Algengt er að hann verði 6-10 metrar á hæð og krónan um 3-6 metrar í þvermál. Brumin eru nokkuð klístruð, rauðbrún á lit og með lítil hár út úr endunum. Því er hægt að þekkja hann frá öðrum reynitrjám þótt ekki sjáist til blaðanna sem einkenna hann svo mjög. Hann ber stóra blómklasa, sem eru oftast mun stærri en á íslenska reyninum en hann blómgast aðeins seinna. Berin eru rauð og meira glansandi en á flestum reynitegundum. Fuglar sækjast lítið í berin og eru þau oft mjög lengi á ´Dodong´.


Hin framandi, en jafnframt kunnulegu laufblöð eru 20-26 cm á lengd með sex til átta pör af nokkuð stórum smáblöðum. Erlendis myndar ´Dodong´ mjög glæsilega, rauða haustliti og er það eitt af einkennum ´Dodong´. Því miður er sumarið hér á Norðurlandi stundum það stutt að þessa glæsilegu haustliti sýnir ´Dodong´ ekki árvisst. Haustliti fær hann frekar í fremur þurrum jarðvegi.


Haustlitir í gróðrarstöðinni Sólskógum. Mynd: Sig.A.

Reynslan í Kjarnaskógi

Enn sem komið er eru aðeins fá eintök til á starfssvæði SE. Við höfum þó reynt hann í Kjarnaskógi og þar vex hann vel og hefur vakið mikla athygli. Því miður vekur hann ekki bara athygli mannfólksins eldur einnig kanína. Þær kunna sérlega vel við hann. Reyndar svo vel að á vetrum, þegar lítið er að hafa, þá naga þær börkinn af honum og verður það honum að aldurtila. Sennilega er ekki mikið um kanínur á eyjunni Ullung Do. Við gefumst samt ekki upp og höfum nú plantað nýjum trjám og vafið stofnana með hænsnaneti þeim til varnar fyrir kanínuplágunni.


'Dodong' skemmdur eftir veisluhöld hjá kanínum. Hann lifir þó. Mynd: Ingólfur Jóhannsson.

Vonandi dugar þetta hænsnanet til að verja reyninn fyrir kanínum. Mynd: Ingólfur Jóhannsson.




1,201 views0 comments

Recent Posts

See All

Commentaires


bottom of page