top of page
Writer's pictureSigurður Arnarson

Reynirinn við Laxdalshús

Updated: Jul 6, 2023

Þegar danskir kaupmenn fóru að setjast að á Akureyri hófu sumir þeirra tilraunir til að rækta tré við hús sín. Sögur herma að kaupmaðurinn C.F. Lynge, sem bjó á Akureyri árið 1776 hefi bæði ræktað matjurtir og tré í garði sínum. Hans W. Lever er talinn hafa ræktað kartöflur í bænum árið 1808.


Elsta hús Akureyrar

Elsta hús bæjarins er nefnt Laxdalshús og var byggt árið 1795. Það var áður en heimamenn fóru að rækta kartöflur en þá hefur elsta tré bæjarins verið um tveggja áratuga gamalt. Þegar húsið var reist stóð það nánast í fjörunni eins og hún var meginhluta 19. aldar.



Hvenær var reyni plantað við Laxdalshús?

Hallgrímur Indriðason skrifaði grein sem heitir Akureyri, bærinn í skóginum og birtist í bókinni Þekktu bæinn þinn. Akureyrarkaupstaður 150 ára. Bókin er að mestu skrifuð af Jóni Hjaltasyni og gefin út árið 2012. Í þeirri grein kemur fram að framan við Laxdalshús hafi, svo snemma sem 1797, verið gróðursettur reyniviður við húsið. Það er aðeins tveimur áru eftir að það var byggt.


Þessa mynd tók Hallgrímur Einarsson (1878-1948) sennilega á árabilin 1898-1902. Fyrir framan húsið stendur Eggert Grímsson Laxdal ásamt fleira fólki. Við hann er húsið kennt. Reynirinn er glæsilegur. Myndin er fenginn af sarpur.is og er númer H1-253.

Eina tréð á Íslandi?

Í bókinni gamlar þjóðlífsmyndir, sem Árni Björnsson og Halldór J. Jónsson tóku saman, er mynd sem teiknuð var 1836 af frönskum listamanni að nafni Gaimard. Myndin er númer 66 í bókinni og sýnir þetta reynitré og Laxdalshús. Í bókinni greint frá því að í franskri ferðabók sé sagt að þetta sé eina tréð á Íslandi. Það er því ljóst að falsfréttir eru ekki nýjar af nálinni.


Kålund

Árið 1872 kom hingað til lands Dani að nafni P. E. Kristian Kålund. Hann ferðaðist um landið í full tvö ár. Gaf hann út mikið rit um landið sem kom út árið 1879. Ritið var þýtt á íslensku af Dr. Haraldi Matthíassyni og gefið út á íslensku í fjórum bindum undir nafninu Íslenskir sögustaðir. Þriðja bindið fjallar um Norðurland og kom út árið 1986.


Kålund lýsir Akureyri eins og hún kemur honum fyrir sjónir þegar hann var hér á ferð. Hann segir að íbúar séu um 400 og telur síðan upp helstu stofnanir í bænum sem eru ekki ófáar miðað við íbúafjöldann. Svo nefnir hann að í bænum sé stunduð kartöflurækt sem, eins og áður greinir, hófst í bænum árið 1808. Síðan segir Kålund „. . .bærinn er einnig merkilegur af nokkrum mjög stórum reynitrjám, sem þar eru.“ (3. bindi bls. 83). Gera verður ráð fyrir að reynirinn við Laxdalshús hafi verið eitt þessara stóru reynitrjáa enda var hann þá farinn að nálgast áttrætt.



Rétt er að geta þess að þetta eru ekki einu reynitrén á Norðurlandi sem Kålund nefnir. Í lýsingu sinni á Hörgárdal segir hann: „Til prýði eru tré sem allvíða hafa verið gróðursett hjá bæjunum. Hafa einkum reynitré þar náð miklum vexti.“ (3. bindi bls. 80). Ekki getur Kålund þess við hvaða bæi þessi reynitré standa. Vitað er samkvæmt öðrum heimildum að Þorlákur Hallgrímsson á Skriðu í Hörgárdal hafði áður flutt reynivið úr Möðrufellshrauni í Eyjafirði og stofnað til trjágarðs við heimili sitt um 1830. Skömmu síðar var einnig plantað reynivið við Fornhaga í sömu sveit þar sem enn er einn glæsilegasti garður landsins. Sjálfsagt hefur Kålund séð reynivið við báða þessa bæi og að líkindum víðar.


Myndina tók Carl Küchler (1869-1935) árið 1908. Tréð alveg sérlega glæsilegt. Myndin fengin af sarpur.is og er númar Lpr/2009-141-163


Reynirinn á 20. öld

Vitað er að nokkru fyrir aldamótin 1900 stóðu vöxtuleg reyniviðartré í görðum við Laxdalshús og Gamla spítalann.


Samkvæmt áðurnefndri grein Hallgríms stóð tréð, sem gróðursett var árið 1797 og Kålund sá 75 árum síðar, í blóma til ársins 1920 þegar stofninn féll. Ræturnar lifðu þó enn lengur og teinungur óx upp frá þeim og varð smám saman að myndarlegri reyniplöntu.


Þegar fram liðu stundir eignaðist Akureyrarbær Laxdalshús og eins og títt er um gömul hús gekk það úr sér og var fremur illa farið. Svo bar það til að árið 1978 var húsið friðað og þá var farið í löngu tímabærar viðgerðir. Árið 1981 voru miklar jarðvegsframkvæmdir við húsið í tengslum við endurbygginguna og þá varð reynitréð, vaxið upp af rótum trésins frá síðari hluta 18. aldar, að víkja. Þeir sem stjórnuðu framkvæmdum við húsið á vegum bæjarins áttuðu sig á mikilvægi þess að við húsið stæði fallegt reynitré og var trénu, sem nú stendur framan við húsið, plantað í kjölfarið. Það var svo árið 1984 að Laxdalshús var opnað að nýju. Þá hafði myndlistamaðurinn Örn Ingi tekið húsið á leigu og þá stóð ungt reynitré fyrir framan húsið. Það tré stendur þar enn til mikillar prýði.


Þótt reynirinn við Laxdalshús sé ekki nema um fjögra áratuga gamall stendur hann á sögulegum stað og minnir okkur á hina dönsku frumkvöðla í trjárækt á Akureyri.


Fyrir það ber að þakka.


Svarthvítu myndirnar eru fengnar að láni af síðunni sarpur.is en litljósmyndir tók höfundur og færir hann Hallgrími Indriðasyni og Helga Þórssyni sínar bestu þakkir fyrir upplýsingar við ritun greinarstúfsins.



332 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page