top of page
mainLong-1.png
  • Facebook

Suðandi rósatré

Writer's picture: Sigurður ArnarsonSigurður Arnarson

Updated: Jun 28, 2024

Í Lystigarðinum á Akureyri er mörg perlan. Ein af þeim stendur rétt neðan við kaffihúsið Lyst og vekur alltaf mikla athygli, einkum yfir hásumarið. Það er stór og ilmandi rósarunni sem laðar að sér allskonar skordýr. Þegar rósin er í fullum blóma berst frá henni mikið suð. Það er þó ekki rósin sjálf sem suðar, heldur humlurnar sem sækja í hana svo tugum eða hundruðum skiptir.


Humlur í vinnu hjá rósinni við að flytja frjó á milli blóma. Myndir: Sig.A.


Hvað á barnið að heita?

Í Lystigarðinum er þessi rós merkt sem Rosa ´Eos´. Á heimasíðu garðsins er hún nefnd Rosa moyesii ´Eos´. Rosa moyesii er kölluð meyjarós á íslensku og minnir þessi rós vissulega á hana. Heimildir eru sammála um að foreldrarnir séu meyjarós og Rosa ‘Magnifica’. Rósin er því meyjarrósarblendingur. Í rósarækt er algengt að nefna bara yrkið en ekki tegundina. Sérstaklega ef um allskyns blendinga er að ræða. Þess vegna er það svo að heimildir tilgreina þessa rós ýmist sem Rosa ´Eos´, eins og gert er á skiltinu við rósina, eða sem Rosa moyesii ´Eos´, eins og gert er á heimasíðunni.


Þessi rós er stór og stæðileg. Þar sem ekkert skyggir á hana klæðir hún sig vel. Mynd: Sig.A.


Uppruni

Á hverju ári bætast við ný og spennandi rósayrki. Þetta yrki er aftur á móti gamalreynt. Það á uppruna sinn í Hollandi og kom fyrst fram árið 1950 hjá ræktanda að nafni Ruys. ´Eos´ hefur verið í Lystigarðinum frá því 1956 eða jafnvel lengur. Það sýnir okkur að alla tíð hafa starfsmenn garðsins fylgst vel með nýjungum. Aðeins sex árum eftir að yrkið var búið til í Hollandi var það komið í garð norður á Akureyri og hefur verið þar síðan.


Ferðamenn tala undir rós. Það er ekki ónýtt að ganga á rósalaufum og hlusta á suðið. Stærðina má nokkuð ráða af stærð fólksins. Mynd: Sig.A.


Nafnið

Samkvæmt grískri goðafræði heitir gyðja dögunar Eos. Færi jafnvel enn betur á að kalla hana gyðju morgunroðans. Er hún systurdóttir sólarguðsins Heliosar og mánagyðjunnar Selenu. Á hverjum morgni ekur hún um himininn á vagni sínum sem tveir hestar draga (sumir segja fjórir). Þannig markar hún komu sólarinnar og endalok næturinnar. Í fyrsta skiptið sem hún gerði þetta varð eftir örlítið brot af morgunroðanum á jörðinni og breyttist hann í hina fyrstu rós. Þess vegna eru rósir gjarnan eins og morgunroðinn á litinn. Nú ber þetta yrki nafn gyðjunnar sem er ættmóðir allra rósa.


Leifar morgunroðans? Myndir: Sig.A.


Lýsing

Þetta er með kröftugri rósum í bænum. Hana má rækta sem runnarós eða klifurrós. Hún er nokkuð gisin í vextinum og er því stundum stungið upp á að hafa hana aftarlega í beðum. Ef hún fær nægilegt pláss klæðir hún sig samt vel niður. Þetta má vel sjá í Lystigarðinum. Stígur liggur upp að rósinni og í raun undir hana. Þar sést vel hversu gisin hún getur orðið. Hin hlið rósarinnar liggur að grasflöt þar sem ekkert skyggir á hana. Þar myndar hún lauf alveg niður að jörðu. Rósin getur orðið um 3 metrar á hæð og 1,5 metrum á breidd. Eintakið í garðinum hefur fyrir löngu náð þeirri hæð og virðist vera hærra en þessir þrír metrar.


Sú hlið sem sólar nýtur. Mynd Sig.A. Efist einhver um söguna af Þyrnirós má alveg horfa á þessa rós og syngja með sjálfum sér, eða fyrir aðra: „Og þyrnigerðið hóf sig hátt, hóf sig hátt, hóf sig hátt.“


Það er ekki árennilegt að fara í gegnum svona runna. Jafnvel ekki fyrir hugrakka konungssyni. Mynd: Sig.A.


Blóm

Blómin ilma mikið og eru einföld eða hálffyllt, dökk kirsuberja- eða kóralrauð með hvíta miðju og hring af gulum fræflum sem dökkna með aldrinum.

Mynd: Sig.A.


Rósin blómstrar mikið um hásumarið hérlendis og blómin taka við hvert af öðru. Þá falla krónublöðin, eitt og eitt, til jarðar og setur þau svip á umhverfið eins og sjá má á myndum hér að ofan. Mest áberandi eru blómin í júlí og ágúst. Nú má sjá blóm af öllum gerðum á plöntunni. Blóm sem eru búin með sitt besta, blóm sem eru að fullu opin og blómknúppa sem enn hafa ekki opnast. Undir runnanum má svo sjá krónublöð þeirra blóma sem búin eru að ljúka sér af.


Blóm á ýmsum stigum. Enn eru fullt af knúppum sem eiga eftir að opnast en önnur hafa gegnt hlutverki sínu. Myndir: Sig.A.


Blómin myndast oftast stök eftir endilöngum greinunum. Þau myndast stundum svo þétt saman að segja má að þau séu í litlum klösum.

Blómin hafa auðvitað þann tilgang helstan að laða að flugur sem frjóvgað geta plöntuna. Því hlutverki sinna blómin með mikilli prýði og getur verið virkilega skemmtilegt að sjá hversu iðnar blessaðar humlurnar geta verið. Mest ber á húshumlum og ryðhumlum í plöntunni þegar þetta er skrifað.


Þessari humlu lá svo mikið á að næra sig og sína að hún beið ekkert eftir að blómið opnaði sig til fulls. Mynd: Sig.A.


Annað sjónarhorn og önnur birta. Mynd: Sig.A.


Aldin

Aldin rósarunna kallast nýpur. Það verður að teljast nokkuð undarlegt en ´Eos´ myndar aðeins nýpur í köldu loftslagi eins og við höfum hér á Íslandi. Í bókinni sem vísað er til í heimild segir beinlínis að þetta yrki myndi ekki nýpur. Svo virðist vera sem loftslag á Íslandi henti þessari rós betur en sunnar á hnettinum, því hér myndar hún árlega þessar fínu nýpur. Þær eru flöskulaga og appelsínurauðar á litinn. Líkjast þær öðrum nýpum meyjarósa.

Fuglar sækja í þessi aldin enda eru fræ ferðalangar og fuglarnir sendiboðar.


Aldin rósarinnar. Myndin fengin af heimasíðu Lystigarðsins, en hana tók

Björgvin Steindórsson sem lengi stjórnaði garðinum.


Þyrnar

Engin rós er án þyrna. Þyrnarnir á ´Eos´ eru rauðir á ungum greinum. Með tímanum tapa þeir litnum og verða grábrúnir á eldri greinum og að lokum gráir. Á ársvextinum eru þyrnarnir ekki áberandi.

Ungir þyrnar eru rauðleitir eins og hér má sjá. Mynd: Sig.A.


Þyrnarnir missa svo litinn þegar þeir eldast. Mynd: Sig.A.


Vetrarmynd af þyrnum rósarinnar. Mynd: Sig.A.

Lauf

Laufin sverja sig mjög í ætt meyjarósa. Þegar þau vaxa eru þau ljósgræn en dökna svo, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Lengst af eru blöðin dökkgræn og nokkuð fínleg. Sumir segja að þær minni jafnvel á burknalauf. Runninn fellir laufið á haustin og eru haustlitirnir gulir.


Laufið á meyjarósinni ´Eos´ er fínlegt.

Ungt lauf er ljósara en eldra laufið. Mynd: Sig.A.




Heimildir

Heimasíða Lystigarðsins á Akureyri http://www.lystigardur.akureyri.is/default.aspx?modID=16&pId=4084&fl=2 sótt: 24.07. 2022.

Mary Moody og Peter Harkness (Ritstjórn 1993): The Illustrated Encyclopedia of Roses. Headline Bokk Publishing PLC. London. Bls. 26.

Wikipidiagrein um gyðjuna Eos: https://en.wikipedia.org/wiki/Eos sótt 24.07. 2022

Comentarios


Heimilisfang:

Skógræktarfélag Eyfirðinga

Kjarnaskógi

600 Akureyri

Netfang: ingi@kjarnaskogur.is

bottom of page