Langt er liðið á vorið og tré og runnar eru óðum að klæðast í sumarskartið. Blómgun virðist í meira lagi í vor hér fyrir norðan og allt er þetta dásamlegt. Ein er sú trjátegund sem vakið hefur mikla athygli í vor fyrir blómskrúð sitt. Má sjá tegundina í görðum á Akureyri og fer ræktun þess vaxandi. Þetta er mikið skrauttré og kallast oftast rósakirsi en sumir telja að kúrileyjakirsi sé réttara nafn. Við tilnefnum það tré vikunnar að þessu sinni.
Kirsi á Brekkunni. Mynd: Sig.A.
Lýsing
Þessi tegund er hávaxinn runni frekar en tré. Það getur orðið um 2-4 metrar á hæð og blómgast áberandi, bleikum blómum fyrir laufgun. Þegar best lætur eru runnarnir nánast alveg þaktir blómum. Einmitt núna stendur það víða í fullum blóma. Fyrstu laufin eru líka að birtast þessa dagana. Þau eru að jafnaði nokkuð bronslituð þegar þau birtast en verða síðan græn eins og vænta má. Þannig verður hann fram á haust.
Nærmyndir af blómum rósakirsis (eða kúrileyjakirsis). Bronslitur laufanna sést. Myndir: Sig.A.
Það er ýmist ræktað á eigin rót eða grætt á stofn. Ef það vex á eigin rót verður það að jafnaði margstofna runni. Ágræddar plöntur verða einstofna að ágræðslustaðnum. Misjafnt er hversu hár sá stofn er. Stofninn er af einhverri bráðskyldri tegund. Mikilvægt er að klippa greinar af sem geta birst neðan við ágræðsluna, enda tilheyra þær tegundinni sem rósakirsið er grætt á.
Rósakirsi ágrætt á einn stofn. Myndir: Sig.A.
Tegundin er miðlungi harðgerð og þrífst best í skjóli á sólríkum stað og næringarríkum jarðvegi. Dæmi eru um plöntur í hálfskugga sem blómstra prýðilega.
Hávaxið kirsi á brekkunni í morgunsól. Mynd Sig.A.
Eftir blómgun verður runninn ekki eins áberandi en á haustin getur hann fengið mjög flotta haustliti. Geta þeir verið gulir, rauðgulir eða rauðir. Stundum allt á sama trénu. Ef sumarið verður stutt í annan endann geta haustfrost komið í veg fyrir að runninn fari í fallega haustliti.
Þrjár myndir af haustlitum á Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu. Fyrst nærmynd af laufi, síðan tré í ágústmánuði í Meltungu í Kópavogi og að lokum stórt tré að byrja að fá haustliti í Grasagarðinum í Reykjavík. Myndir: Sig.A.
´Ruby´ í fullum blóma í Eyjafjarðarsveit. Myndina tók Ingólfur Jóhannsson í rigningasudda. Það er óvenjulegt þar í sveit.
Kirsuberjaættkvíslin
Eins og sjá má á kaflanum hér að ofan tilheyrir tré vikunnar ættkvíslinni Prunus sem nefnd hefur verið kirsuberjaættkvísl á íslensku. Sú ættkvísl er af rósaætt eins og sjá má á fimmdeildum blómunum. Þannig eru að jafnaði öll blóm ættarinnar ef þau eru ekki ofkrýnd eins og hjá svo mörgum ræktuðum rósum. Hafa þá fræflar ummyndast í krónublöð þannig að við fáum þessar dásamlegu rósir sem við öll þekkjum. Aftur á móti hafa villirósir fimm krónublöð eins og aðrir ættingjar. Misjafnt er milli tegunda hversu stór krónublöðin eru. Til dæmis eru blóm reynitrjáa (Sorbus) með frekar lítil krónublöð en blómin eru mörg saman í sveip. kirsuberjaættkvíslin hefur stærri krónublöð reynirinn en minni en rósirnar (Rosa). Ef til vill verður síðar skrifað meira um rósaættina á þessar síður.
Rósakirsi/kúrileyjakirsi í Giljahverfi. Myndir: Sig.A.
Prunus-ættkvíslin er stór ættkvísl innan rósaættarinnar. Til hennar teljast ýmsar tegundir sem eru víða ræktaðar. Heggur, P. padus, er sennilega mest ræktaða tegund ættkvíslarinnar á Íslandi. Einnig má finna hér blóðhegg sem er ræktað afbrigði heggs og virginíuhegg, P. virginiana, svo dæmi séu tekin. Hinn sígræni lárheggur, P. laurocerasus er dæmi um lágvaxinn skrautrunna sem finnst á fáeinum stöðum og hefur reynst harðgerðari á okkar slóðum en margir héldu.
Ungt kirsi í Innbænum blómstrar fagurlega. Mynd: Sig.A.
Innan ættkvíslarinnar eru líka nokkrir runnar eða lítil tré sem ræktuð eru til matar. Ber þar hæst kirsuber (sætkirsuber) P. avium, súrkirsuber P, cerasus. Gefa þessar tegundir (einkum sú fyrrnefnda) ættkvíslinni íslenska heitið. Svo má einnig nefna plómur P. cerasifera sem eru af þessari sömu ættkvísl. Ónefnd eru nokkrar tegundir berja eða ávaxta sem fást oft í kjörbúðum en eru ekki ræktuð hérlendis.
Myndarlegur runni í Lundarhverfi. Mynd: Sig.A.
Nafnaruglingur
Ekki eru fræðimenn á eitt sáttir hvað nefna skuli barnið. Venjulegt rósakirsi, Prunus nipponica vex í fjalllendi á eyjunum Hokkaídó og Honsú sem báðar tilheyra Japan. Viðurnefnið nipponica vísar í fornt heiti á Japan sem í fornum ritum var stundum nefnt Nippon. Sá galli er á gjöf Njarðar að bent hefur verið á að hreint rósakirsi frá þessum slóðum þrífst ekki utan dyra á Íslandi. Aftur á móti á það ættingja frá Kúrileyjum (og reyndar einnig á norðurhluta Hokkaídó) sem kallað hefur verið kúrileyjakirsi eða P. kurilensis. Tré vikunnar hefur gengið undir báðum þessum heitum og er stundum nefnt rósakirsi og stundum kúrileyjakirsi eftir því hvort latínuheitið er notað.
Stór runni í Vesturbæ Reykjavíkur. Mynd: Halldór Sverrisson. Hann birti myndina á Facebooksíðunni Ræktaðu garðinn þinn og spruttu þar upp umræður um nafnið.
Svo eru það þeir sem segja að þetta sé ein og sama tegundin en plönturnar frá kúrileyjum geti talist sérstakt afbrigði. Kallast það þá Prunus nipponica var. kurilensis. Svo virðist sem það heiti sé að vinna á en grasafræðingar Kew Gardens telja þetta aðskildar tegundir. Þess má geta að garðyrkjugúrúið Hafsteinn Hafliðason tekur undir með þeim grasafræðingum.
Rósakirsi í Síðuhverfi. Myndir: Sig.A.
Til að auka enn á ruglinginn hafa sumir vilja nefna runnann eftir latínuheitinu og kallað það japanskirsi, enda merkir Nippon Japan. Það er ekki snjallt vegna þess að önnur tegund, Prunus mume, hefur þegar hlotið það nafn. Það þrífst ekki á Íslandi.
Kirsið sem ræktað er á Akureyri virðist allt vera sama yrkið, Gengur það undir nafninu ´Ruby´. Annað yrki, 'Brilliant' hefur einnig borist til landsins. Fullt heiti gæti því verið Prunus nipponica var. kurilensis ´Ruby´. Þegar yrki af afbrigðum eru ræktuð er afbrigðinu oftast sleppt í nafnarununni og þá stendur eftir: Prunus nipponica ´Ruby´. Þá erum við næstum komin í heilan hring því hreint P. nipponica er ekki talið þrífast á landinu, en ´Ruby´ þrífst hér með miklum ágætum. Sumir telja að réttara sé að skrifa Prunus kurilensis ´Ruby´.
Rósakirsi eða kúrileyjakirsi? Mynd: Sig.A.
Ekki verður reynt að leysa þessa þraut á þessum síðum í bili. Þess í stað njótum við þess að skoða tegundina í fullum blóma víða um bæinn.
Þetta gæti sem best verið hæsta tré sinnar tegundar á Akureyri. Það vex í Innbænum. Mynd: Sig.A.
Viðbót: Athugasemd frá Hafsteini Hafliðasyni
Töluverður skyldleikamunur er á Prunus nipponica og Prunus kurilensis. Það mikill að útilokað er að P. kurilensis geti verið afbrigði af P. nipponica. Þetta var japanski grasafræðingurinn Kingo Myiabe, þá grasafræðiprófessor við háskólann í Sapporo, búinn að finna út og staðfesta alþjóðlega árið 1910 - og er viðurkennt að skilgreining hans á Prunus kurilensis standist allar efasemdir. Og því er þetta fræðiheiti - Prunus kurilensis (Myiabe) Myiabe - það sem nota skal í forgangi um allan vísindaheiminn. En í umferð eru í það minnsta 17 samheiti - sum þeirra komin frá Myiabe sjálfum.
En eitt af þeim er skilgreining E.H.Wilson - sem var mikilvirkur plöntusafnari í Kína í byrjun liðinnar aldar og hlaut vegna þess auðkennisheitið "Kína-Wilson". Wilson greindi "sitt" eintak eftir einni einstakri plöntu í Arnold Arboretum. Wilson treysti ekki japönskum fræðimönnum - eða hafði ekki lesið skrif Myiabes - svo að hann kom með eigin skilgreiningu í ritgerð sinni "The Cherries of Japan" árið 1916 - og kallaði það þar Prunus nipponica var. kurilensis. Og fékk fyrir vikið nafn sitt tengt við tegundina - næstum um aldur og ævi að segja má, því þetta nafn loðir enn við kúrileyjakirsið - þótt DNA-skoðun sýni ansi sterkan mun á þessum tveim tegundum.
En P. nipponica villan tollir enn við þær plöntur sem gróðrarstöðvar hafa fjölgað og dreift um víða veröld - þótt grasafræðingar reyni mikið til að kveða hana í kútinn.
En Myiabe fór vítt um og skoðaði og bar saman nokkur hundruð tré á sunnanverðum Kúrileyjum og norðanverðri Hokkaídó. Hann sá að mikill munur var á rósakirsinu - Prunus nipponica í suðurhlíðum Hokkaídó og á kúrileyjakirsinu frá Kúrileyjum og norðurhlíðum Hokkaídó. DNA-samanburður staðfestir þetta.
Prunus nipponica - tegundin sú sem eiginlega heitir rósakirsi - dafnar ekki í íslenskum görðum. Þrátt fyrir nokkrar tilraunir og góðan aðbúnað.
Haust í Arnold Arboretum í Boston. Einhvers staðar í garðinum var (og er e.t.v. enn) eintakið sem Hafsteinn ræðir um í athugasemd sinni. Mynd Sig.A.
Comments