top of page
Writer's pictureSigurður Arnarson

Runnamurur

Updated: Sep 24, 2023

Í tempraða beltinu nyrðra eru til margar tegundir af runnum og trjám sem þrífast vel á Íslandi. Þar á meðal er runnamura. Hún hefur lengi verið vinsæl í görðum um land allt. Þær eru flestar í fullum blóma um þessar mundir og munu halda áfram að blómgast langt fram á haust. Því má segja að hennar tími sé núna og því birtum við þennan pistil.

↑ Runnamurur í blönduðum runnabeðum. Líklega er þetta yrkið 'Goldfinger'.

Lýsing

Runnamura er að jafnaði uppréttur, fíngerður og þéttgreindur runni. Oftast um einn metri á hæð en einnig eru til jarðlæg yrki. Oft eru runnamurur meiri á breiddina en hæðina. Börkurinn er gulbrúnn og flagnar mikið. Blöðin eru oftast þrífingruð eða fimmfingruð.


↑ Tvær runnamurur í blönduðu runnabeði framan við hús. Þarna má greina brodd, gullsóp, mispil, gullregn o.fl. með hinum gulblómstrandi runnamurum.


Blómin eru með fimm krónublöð, líkt og svo margar aðrar plöntur, t.d. sóleyjar. Þau eru 2-3 cm í þvermál. Villtar runnamurur hafa að jafnaði gul blóm en til eru ræktuð yrki með öðrum litum. Hér á landi má finna hvít, rauð, bleik og appelsínugul blóm á runnamurum ásamt afbrigðum með liti sem ég kann ekki að nefna. Líta má á þá sem afbrigði hinna litanna. Runnamurur standa lengi í blóma og halda sér oft langt fram á haustið þegar aðrar plöntur eru farnar að láta á sjá vegna frosta.


Mynd úr Sólskógum. Nær er 'Goldteppich' en fjær er 'Goldfinger'. Töluverður stærðarmunur er á yrkjunum. Yrkið sem er fjær vex upp í bogana en ekki yrkið sem er nær.


Nafnið og ættingjarnir

Lengst af hefur runnamura gengið undir fræðiheitinu Potintilla fruticosa. Plöntur af þessari ættkvísl hafa verið kallaðar murur á íslensku og finna má villtar murur í íslenskri náttúru. Má nefna gullmuru, Potentilla crantzii og tágamuru, P. anserina (sjá mynd) sem dæmi. Þær bera gul blóm sem eru býsna lík blómum runnamurunnar. Einnig eru ýmsar murur algengar sem garðblóm og er ein þeirra sýnd hér að neðan.


Þetta eru murur, en ekki runnamurur. Til vinstri er tágamura í sunnlenskum sandi ásamt melgresi. Hún er auðþekkt á rauðum tágum sem hún notar til að auka við veldi sitt. Þetta er eina myndin í pistlinum sem ekki er tekin á Akureyri.

Til hægri er blóðmura, Potintilla napalensis, sem er algengt garðblóm. Blöðin eru dæmigerð fyrir ættkvíslina.


Talið er að allt að 500 tegundir geti verið innan ættkvíslarinnar en nýlegar rannsóknir hafa fækkað tegundunum nokkuð.

Viðurnefnið fruticosa merkir runnakenndur og vísar í það að plantan er runni en ekki fjölæringur Því er íslenska heitið bein þýðing á fræðiheitinu. Annars er runnamura af rósaætt, Rosaceae. Nær allar villtar tegundir þeirrar ættar hafa fimm krónublöð á hverju blómi, en margar tegundir mynda stundum ofkrýnd blóm eins og við þekkjum hjá rósum. Hvergi höfum við samt rekist á ofkrýndar runnamurur.

Gult, skriðult afbrigði en yrkisheiti ekki þekkt. Heldur ljósari blóm en algengast er. Líklega er þetta afbrigðið P. fruticosa var. arbuscula. Mjög flott ef það fær að hanga fram af hleðslum.


Svo gerðist það að grasafræðingar komust að því að murur sem ekki eru jurtkenndar, heldur mynda runna séu fjarskyldar öðrum murum. Því voru þær settar í sérstaka ættkvísl sem kallast Dasiphora á latínu. Viðurnefninu var þó haldið og heitir runnamuran því Dasiphora fruticosa samkvæmt nýjustu heimildum. Samt er það svo að því fer fjærri að þessi tegund gangi alltaf undir því nafni í plöntubókum eða garðyrkjustöðvum. Oftast er gamla nafnið notað enda erfitt að kenna gömlum hundum að sitja. Ekki er ástæða til að breyta íslenska heitinu til samræmis við nýtt latínuheiti. Það hefur unnið sér inn hefðarrétt. Runnamuran heitir ennþá runnamura þótt hún sé ekki lengur mura.


Dæmigert að sjá skrautrunna kominn í fulla haustliti en runnamuran lætur ekkert á sig fá.

Ræktun

Þessi tegund er alla jafna harðgerð og vindþolin en yrkin eru þó misjafnlega dugleg. Almennt má segja að gul og (sum) hvít yrki séu harðgerðust. Hin þurfa aðeins betra atlæti ef vel á að vera og blómstra stundum minna. Runnamurur þrífst um allt land. Þær þurfa góða birtu en gera ekki miklar kröfur um frjósemi jarðvegs. Þær þrífast prýðilega í miðlungsfrjórri jörð. Það getur beinlínis verið slæmt að gefa þeim of mikinn áburð, einkum ef hann er gefinn seint á vaxtartímabilinu. Ef ástæða er til að gefa runnamuru áburð er best að gera það snemma á vorin. Annars er blómgun engu minni í fremur rýrum jarðvegi.

Runnamurubeð í Lystigarðinum með nokkrum yrkjum. Annars er það svo að tegundin virðist laga sig að allskyns jarðvegi. Í lausum og frekar þurrum jarðvegi leita ræturnar djúpt til að ná í vatn. Í rakari mold liggja ræturnar frekar grunnt. Því er miklu auðveldara að flytja plöntur (ef þess þarf) sem vaxið hafa á góðum stöðum en erfiðum.


Hluti af þessari lágvöxnu runnamuru var í skugga og blómstraði þar mun minna en í birtunni. Greinarnar sem voru í skugga eru líka teygðari. Dæmigerð hegðun fyrir runnamurur.

Runnamurur eru notaðar í blönduð runnabeð, í hefðbundin blómabeð eða sem stakir runnar eða lágvaxin limgerði. Það getur þurft að grisja runnanna á nokkurra ára fresti. Það yngir þá upp og viðheldur unglegu útliti og mikilli blómgun. Ef þörf er á má jafnvel klippa þá alveg niður til að yngja þá upp, en þá blómstra þeir lítið fyrst á eftir. Almennt má segja að varast skuli að klippa runnamurur of mikið því þá dregur verulega úr blómgun. Runnarnir eru mjög blaðfallegir en blómin eru samt aðal skrautið. Yfirleitt eru runnamurur lausar við ásókn skordýra og sveppa og oftast heilbrigðir og flottir runnar.


Haustmynd af yrkinu 'Goldteppich'. Blöðin farin að hausta sig en blómin láta ekkert á sjá þrátt fyrir nokkrar frostnætur.


Í þessum pistli birtum við myndir af helstu yrkjum sem í ræktun eru á Akureyri en ekki er alltaf auðvelt að aðgreina gulblómstrandi yrki, þar sem atlæti getur haft áhrif á útlit. Sumar fá meiri áburð en aðrar, meiri sól, betra skjól eða tíðari vökvun. Allt slíkt hefur auðvitað áhrif. Til eru fleiri yrki en hér verða nefnd til sögunnar en þessi fást í gróðrarstöðvum í bænum og því nefnum við þau sérstaklega. Við fengum einnig upplýsingar um reynslu yrkja úr Lystigarðinum á Akureyri og nýttum okkur þær.


Þrjár runnamurur. Sennilega er 'Goldteppich' í forgrunni og aftar tvær 'Godfinger'. Það er þó ekki alveg öruggt því plönturnar eru enn ungar. Greinilegt er að plantan í forgrunni á að slúta yfir vegginn þegar hún vex meira.


Goldteppich

'Goldteppich' ber dæmigerð gul runnamurublóm. Yrkið er nær alveg jarðlægt en getur teygt sig upp í um 40 cm hæð en verður mun meiri á breiddina en hæðina. Yrkisheitið vísar í þetta vaxtarlag og merkir einfaldlega gullteppi. Þetta er ákaflega blómsælt yrki og blómin nokkuð stór. 'Goldteppich' getur nýst sem ljómandi góð þekjuplanta. Krónublöðin skarast stundum örlítið meira á þessu yrki en því næsta. Það er samt ekki alltaf þannig.

'Goldteppich'.


Goldfinger

'Goldfinger' ber dæmigerð gul runnamurublóm en er mun hærri en 'Goldteppich'. Yrkið getur orðið um 90 cm á hæð eða meira á bestu stöðum og enn meiri á breiddina. Mjög blómviljugt afbrigði með stórum blómum. Yrkið hefur verið verðlaunað af Konunglega breska garðyrkjufélaginu (Royal Horticultural Society eða RHS). Mjög algengt yrki á Akureyri og sennilega það mest ræktaða í bænum. Á einni myndinni má sjá unga plöntu af 'Goldfinger' í beði þar sem plantað hefur verið í gegnum jarðvegsdúk og möl sett yfir. Það gengur vel fyrir runnamurur því þær gera ekki miklar jarðvegskröfur. Til eru fjölmörg fleiri gulblómstrandi yrki í ræktun. Sem dæmi má nefna að í Lystigarðinum vex 'Katherine Dykes' sem á að verða heldur hávaxnara en yrkið sem myndirnar eru af. Einnig eru þar að finna yrkin 'Goldstar', 'Longacre' og 'Hachmanns Gigant' en lítil reynsla er af þeim. Yrkið 'Kobold' er þar einnig í skoðun. Krónublöðin hjá því yrki eru nokkuð stór og skarast á áberandi hátt. Yrkið 'Månelys' er líka með gul blóm en þau eru dálítið ljósari en á aðaltegundinni. Það yrki er líka í Lystigarðinum til reynslu. Fjölmörg önnur yrki eru til.


Fjórar myndir af yrkinu 'Goldfinger'.


Red Robin

'Red Robin' er rauðblómstrandi yrki með gulri miðju og er nefnt eftir þröstum (Robin). Stundum er hinn ameríski farþröstur, Turdus migratorius, nefndur Red Robin á ensku og jafnvel hinn evrópski glóbrystingur, Erithacus rubecula, líka. Báðir hafa þeir rauða bringu og eru vel þekktir. Aftur á móti er þtta þetta alþýðuheiti ekki viðurkennt nafn á fuglum.


Glóbrystingur er af sumum nefndur Red Robin. Þessi var við Aberlady Bay nálægt Edinborg í desember 2020. Mynd: Sig.A.

Blómin fölna stundum aðeins í mikilli sól og verða þá orangerauð. Yrkið verður allt að 70 cm á hæð en meiri á breiddina. Það er ekki eins blómviljugt og harðgert og gulblómstrandi yrkin hér að ofan. Yrkið 'Red Ace' hefur verið reynt í Lystigarðinum en stóð sig illa.


'Red Robin' ber rauð blóm sem verða bleik með aldrinum. Almennt eru rauðu yrkin einna viðkvæmust á Íslandi af þeim sem hér eru ræktuð. Þetta yrki stendur sig samt ljómandi vel.


Tangerine


'Tangerine' er ekki alveg hreingul, heldur aðeins út í orange og vísar nafn yrkisins í það. Verður varla nema um 50 cm á hæð. Liturinn breytist dálítið með aldri. Þá dregur úr gula litnum og blómin verða dálítið kremuð á litinn. Mjög skemmtilegt yrki sem hentar ekkert síður í fjölæringabeð en runnabeð, því það er lágvaxið.

Hið snotra 'Tangerine' breytir um lit þegar líður á sumarið eins og sjá má. Á einni myndinni vex yrkið í hálfskugga með brúskum, Hosta spp. en blómstrar samt. Meiri blómgun er þar sem meiri sólar nýtur.


Pink Queen

'Pink Queen' er lágvaxinn runni sem verður um 40-70 cm á hæð og ber bleik blóm eins og nafnið ber með sér. Blómin á bleiku drottningunni lýsast með aldrinum. Til eru fleiri bleik yrki í ræktun, t.d. 'Pink Paradise' sem er heldur breiðvaxnara. Annars er ekki alltaf mikill munur á þessum bleiku yrkjum og ekki alltaf auðvelt að greina þau í sundur. Í Lystigarðinum er til bleika yrkið 'Glenroy Pinkie' sem er auðþekkt frá ofangreindum yrkjum. Það blómstrar árlega en aldrei mjög mikið. Blómin eru mjög falleg og minna örlítið á vatnslitamyndir.

Ekki er alltaf auðvelt að greina í sundur hin bleiku yrki. Hér er það 'Pink Queen'.


'Glenroy Pinkie' í Lystigarðinum á Akureyri er með falleg blóm en blómstrar minna en mörg önnur yrki.


Mount Everest

'Mount Everest' er nokkuð hávaxið yrki. Verður um 80-100 cm á hæð og er harðgert. Yrkið ber hvít blóm og gula fræfla og byrjar að blómstra á undan flestum öðrum runnamurum, jafnvel í júní. 'Mount Everest' hentar mjög vel í blönduð runnabeð og framan við stærri runna. Nafnið vísar auðvitað bæði í litinn og í það hversu hátt það er. Erlendis verður það enn hærra. Af öðrum, þekktum, hvítum yrkjum má nefna 'Sandved' og 'Mackay's White' sem var plantað í Lystigarðinn árið 2019 og 'Abbotswood' sem kom í garðinn árið 2021. Of snemmt er að segja til um hvernig þeim vegnar. Yrkið 'Snowflake' er líka hvítt en hefur ekki staðið sig í Lystigarðinum.

Yrkið 'Tilford Cream' er kremhvítt á litinn. Það er í skoðun í Lystigarðinum.

'Mount Everest' er víða áberandi eins og vera ber.


Við endum þessa umfjöllun á yrkjum með því að sýna tvær myndir af ´Mount Everest´þar sem sjá má 'Goldfinger' í bakgrunni.



Myndir og texti: Sigurður Arnarson. Allar myndirnar eru teknar á Akureyri nema annað sé tekið fram.

Grasafræðingurinn Travis Anthony Þrymur Heafield fær okkar bestu þakkir fyrir upplýsingar um yrki í Lystigarðinum.


Lokaorð


Áttu börn og buru,

grófu rætur og muru.

Smjörið rann

og roðið brann

og sagan upp á hvern mann

sem hlýða kann.

Köttur úti í mýri,

setti upp á sér stýri,

úti er ævintýri.




550 views0 comments

Recent Posts

See All

Comentarios


bottom of page