Mörg af þeim framandi trjám sem ekki þrífast á Íslandi eru engu að síður vel kunn af þeim sögum sem af þeim fara. Þar á meðal er tré vikunnar að þessu sinni. Það er sedrus, sedrustré eða sedrusviður (Cedrus á fræðimálinu) sem er mögum vel kunnur af afspurn þótt færri hafi séð hann. Meðal annars er hann þekktur úr Gamla testamenti Biblíunnar. Þar sem við kveðjum brátt jólin þykir okkur við hæfi að fjalla nánar um þetta biblíutré.
Vaxtarstaðir
Til eru þrjár til fimm tegundir af sedrus, allt eftir því hver telur. Samkvæmt flestum heimildum eru tegundirnar fjórar en um þær er fjallað sérstaklega síðar í þessum pistli. Trén finnast í fjalllendi hér og þar frá Atlasfjöllum í vestri, í Tyrklandi, Sýrland og Líbanon og allt austur til vesturhluta Himalajafjalla. Að auki finnast þau í fjalllendi á eyjunni Krít. Á flestum þessara staða vaxa þær á snjóþungum stöðum og gjarnan með öðrum barrtrjám en stunum einar og sér. Frostið á veturna getur vel farið niður í -25°C í þessum fjöllum, en sumarhitinn er þó að jafnaði meiri en hér norður undir heimskautsbaug. Eins og með svo mörg önnur tré er það ekki endilega vetrarkuldinn sem kemur í veg fyrir að þau þrífist hér heldur skortur á sumarhita og stutt sumar.
Sedrusviðir eru víða ræktaðir í tempruðu loftslagi utan náttúrulegra heimkynna sinna. Oftast er það fyrst og fremst til skrauts í stórum almenningsgörðum. Þeir eru að jafnaði of stórir fyrir litla heimilisgarða og vaxa svo hægt að þeim er sjaldan plantað til viðarframleiðslu þótt á því séu undantekningar enda timbrið verðmætt. Nú finnast þeir víða í Evrópu, allt norður til Bretlandseyja og ljósmyndirnar sem hér fylgja eru allar teknar í Grasagarðinum í Edinborg. Að auki má finna gróðursett sedrustré í suðurhluta Ástralíu og Nýja-Sjálands og báðum Ameríkunum svo dæmi séu tekin.
Fjölskyldan og meintir frændur
Cedrusviður er af þallarætt – Pinaceae – sem áður hefur ratað á þessar síður. Má fræðast um ættina með því að smella á heitið hér að framan. Innan ættarinnar má finna margar merkilegar ættkvíslir sem þrífast með ágætum á Íslandi og eru meðal algengustu og verðmætustu trjáa landsins. Félagið hefur meðal annars fjallað um ættkvíslir grenis, lerkis, þintrjáa og furu sem allar tilheyra þessari ætt. Nánar má lesa um hugtökin ættir og ættkvíslir hér.
Nöfnin sedrus og sedrusviður hafa verið ranglega notað yfir óskyldar tegundir, einkum af einisætt – Cupressaceae. Þetta er þekkt bæði hér á landi og erlendis. Á þetta einkum við um lífvið (Thuja) og sýprus (Chamaecyparis) og jafnvel eini (Juniperus) þótt það eigi ekki við um Ísland. Er rétt að vara við þessum ruglingi. Hér má sjá lista á Wikipediu þar sem listað er upp hvaða tré hafa verið kölluð sedar, sem er enska heitið á sedrus. Sem dæmi um þetta má nefna að víða á alnetinu má finna samanburð á grenitoppum og sedrustoppum á gítörum (toppur á gítar er framhlið hans). Sjá má dæmi um þetta hér. Þarna er verið að bera saman toppa úr greni og það sem kallað er Western red cedar á ensku. Þessi „ceder“ er ekki sedrusviður heldur lífviður eða Thuja. Nánar tiltekið risalífviður, T. plicata. Rétt er þó að halda því til haga að stundum er sedrus notaður í toppinn á klassískum gíturum en það er mjög sjaldgæft.
Frændsystkinin sedrus (til vinstri) og fura (til hægri) hafa ólíkt vaxtarlag.
Lýsing
Eins og önnur tré af þallarætt eru tré innan síbrusættkvíslarinnar barrtré. Þau eru sígræn (eins og flest þeirra) og bæði greinar og barr eru að mestu í láréttum fleti. Þannig er það yfirleitt ekki með aðra fjölskyldumeðlimi. Tréð myndar köngla og standa þeir uppréttir á greinunum líkt og gerist meðal þintrjáa.
Könglar sedrustrjáa eru að jafnaði 6-12 cm að lengd og 3-8 cm á breidd. Þeir standa uppréttir á greinunum líkt og hjá þintrjám. Þroskun þeirra tekur eitt ár og fræin losna á haustin. Nyndin sýnir köngul af atlantssedrus.
Nálarnar eða barrið er þakið vaxhúð til að verja þær fyrir þurrki. Mjög er misjafnt milli trjáa hversu mikil og áberandi þessi vaxhúð er. Því getur litur barrnálanna verið nokkuð misjafn milli trjáa. Þær geta verið allt frá því að vera grasgrænar yfir í dökkgrænar en ef vaxhúðin er áberandi geta nálarnar orðið fölari að lit og jafnvel blágrænar. Að auki hafa komið fram einstaklingar sem bera gulara barr en algengast er.
Barrið á greinum sedrustrjáa er oftast í láréttum fleti. Aðeins stöku smágreinar hafa nálar sem vaxa í allar áttir.
Nafnið
Sedrus er ein af örfáum tegundum trjáa sem hefur haldið sama nafni öldum saman á nánast öllum tungumálum. Rómverjar til forna kölluðu tegundina Cedrus og forngrikkir kölluðu hana Kedros. Þegar ritun Gamla testamentisins hófs var mjög svipað nafn notað og hefur það síðan ratað í flest tungumál sem við þekkjum. Í viðauka I er listi yfir nöfnin á nokkrum tungumálum. Eins og sjá má eru þau flest sláandi lík. Einkum ef haft er í huga að í mörgum tungumálum er stutt á milli þeirra hljóða sem táknuð eru með K og S (sbr. Sesar og keisari, sem eiga sér sameiginlegan orðstofn). Þar sem s og k eru skyld hljóð er freistandi að draga þá ályktun að kýprusviður og sedrusviður geti í einhverjum tilfellum verið sama tréð. Það á þó greinilega ekki alltaf við.
Notkun að fornu og nýju
Í fornum sögum, meðal annars hjá Fönikíumönnum, Egyptum, Ísraelum, Assýringum, Persum, Forn-Grikkjum, Rómverjum, Aröbum og Tyrkjum er sagt frá notkun sedrusviðar. Hann hefur nánast alla tíð verið talinn kjörviður og á ófáum stöðum í Biblíunni er fjallað um hann. Sagt er að aðalefnið í musteri Salómons hafi verið sedrusviður.
Þó eru til enn eldri ritaðar heimildir um sedrus. Fyrir um 5000 árum skráðu Súmerar ýmsan fróðleik á leirtöflur með fleygrúnum. Þar á meðal er Gilgamesh kviða sem stundum er talin vera elsta skráða saga heims. Á undan henni voru það einkum hrútleiðinlegar bókhaldsupplýsingar sem voru skráðar. Kviðan var skráð á 12 leirtöflur og fjallar um leit manna að ódauðleikanum. Þar má einnig finna elstu frásagnir af flóði sem eyddi mestöllu lífi á jörðinni. Það er augljós fyrirmynd af sögunni um Örkina hans Nóa. Það sem kemur þessum pistli við er frásögn á 4. til 6. töflu. Þar segir af því þegar aðalhetja kviðanna, sjálfur Gilgamesh fór með vini sínum í hina stórbrotnu sedursskóga, og hjó niður stór sedrustré. Úr þeim gerðu þeir félaga sér bát og sigldu á honum niður Efrat og unnu nokkrar hetjudáðir í leiðinni sem einkum voru fólgnar í því að drepa mann og annan. Alla tíð síðan hefur sedrus ratað í frægar sögur. Flotar Fönikíumanna og faróanna í Egyptalandi er sagður hafa verið úr sedrusviði, enda er hann sérlega vatnsþolinn. Þó kann vel að vera að sagnir um flota Egypta úr sedrusviði séu orðum auknar og ætlað að sýna ríkidæmi þeirra. Aftur á móti virðist ljóst að Fönikíumenn, sem mynduðu fyrsta siglingastórveldið við Miðjarðarhafið, notuðu sedrus í sín skip.
Seinna komu everópskir krossfarar til Austurlanda og þá þótti sjálfsagt að þeir byggðu sér hallir úr sedrusviði eins og gert var á dögum Biblíunnar.
Árangurinn af allri þessari notkun í mörg árþúsund varð sá að nú á dögum eru villtir skógar af sedrusviði afar sjaldgæfir í heiminum og sums staðar horfnir með öllu. Sérstaklega á það við um biblíusedrusinn (sem er af tegund sem kallaður er líbanonsedrus) sem áður óx á stórum, samfelldum svæðum í fjalllendi við botn Miðjarðarhafs.
Enn í dag er sedrusviður talinn dýrmætur kjörviður og notaður í vandaða muni. Rysjan ljós og vel afmörkuð frá ljósbrúnum kjarnviðnum sem er með áberandi árhringjum.
Sedrusviður er notaður í dýra innanstokksmuni svo sem húsgögn, innréttingar, hurðir og í spónlagningu. Það er ekki alveg nýtt að nota sedrusvið í spónlagðar hurðir. Í Ljóðaljóðum Gamla testamentisins segir í 8. kafla: „Sé hún múrveggur reisum vér á honum silfurvirki, sé hún hurð þekjum vér hana sedrusviði.“
Nánar um sedrus í Biblíunni
Það liggur fyrir að í fornöld var sedrusviður talinn verðmætasta timbrið sem völ var á og meira að segja álitinn gjöf frá sjálfum Guði. Í 104. kafla Sálmanna segir beinlínis að Guð hafi gróðursett sedrus.
„16 Tré Drottins drekka nægju sína, sem sedrustré Líbanons sem hann gróðursetti.“
Í 80. kafla sálmanna segir að Guð eigi sedrustré:
„11 Fjöllin huldust í skugga hans og sedrustré Guðs af greinum hans.“
Sedrusinn sem vex í Himalajafjöllum er einnig talinn guðlegur. Á þeim slóðum eru reyndar önnur trúarbrögð ríkjandi. Það getur vel verið dæmi um hvernig hugmyndir flytjast á milli trúarbragða.
Sögurnar um notkun sedrusviðar í Gamla testamentinu eru af margvíslegum toga. Sedrus er gjarnan nýttur til að sýni göfgi eða ríkidæmi. Þegar Guð þurfti að hughreysta Ísraelslýð í útlegð sinni sagðist hann, samkvæmt 41. kafla Jesaja, ætla að standa að einskonar uppgræðslu í eyðimörkinni. Auðvitað nefnir hann sedrusviðinn fyrst.
„19. Ég gróðurset sedrustré í eyðimörkinni, akasíur, myrtusvið og ólífutré, í auðnina set ég kýprusvið ásamt barrtrjám og platanviði 20 svo að menn sjái og játi, skynji og skilji að hönd Drottins hefur gert þetta og Hinn heilagi Ísraels hefur skapað það.“
Víðar í Jesaja er fjallað um sedrus. Dæmi um slíkt má meðal annars finna í 2. kafla og í 37. kafla. Þar segir frá því hvað Asserýjukonungur hafði gert margt slæmt af sér. Meðal annars hafði hann höggvið hæstu sedrustrén. Launin fyrir mannvonsku hans, samkvæmt Jesaja, voru þau að engill Drottins tók að sér að deyða hundrað áttatíu og fimm þúsund menn í herbúðum Assýringa.
Í desember ár hvert eru mörg tré lýst upp í grasagarðinum í Edinborg. Hér er það himalajasedrus.
Musteri Salómons konungs
Í Gamla testamentinu má finna magnaðar lýsingar af musteri Salamons konungs sem hann lét gera utan um sáttmálsörkina. Í Fyrri konungabók, sjötta kafla eru mjög nákvæmar lýsingar á útliti musterisins. Dugar ekki að nefna sedrusviðinn sjaldnar en átta sinnum í kaflanum. Húsið sjálft var byggt úr tilhöggnum steini. Salómon lét klæða húsið allt að innan með sedrusborðum allt frá gólfi og upp í þakbjálka svo hvergi sá í stein. Voru sedrusþilin í húsinu útskorin með blómamyndum. Þakið var einnig úr sedrusviði svo og bjálkarnir í vegnum umhverfis innri forgarðinn. Innst í húsinu var herbergi undir sjálfa sáttmálsörkina. Altarið í því herbergi var að sjálfsögðu úr sedrusviði.
Í Síðari Kroníkubók, 9.kafla er talað um auðæfi Salómons. Þar segir: „27 Konungur notaði silfur eins og grjót í Jerúsalem og sedrusvið eins og mórberjafíkjuvið sem mikið vex af á láglendinu.“ Má vart á milli sjá hvort er merkilegra að geta notað silfur eins og grjót eða sedrusvið eins og mórberjafíkjuvið.
Í Guðbrandsbiblíu er þetta orðað svo: „Og svo var mikil gnótt á silfri í Jerúsalem sem á grjóti og svo mikill sedrusviður sem mórbertré á mörkum.“
Oflæti og sedrusviður
Þar sem musteri sjálfs Salómons konungs, sem reist var Drottni til dýrðar, var að mestu úr sedrusviði var ekki laust við að margir vildu fara að hans fordæmi og nota sedrus í ómældum mæli. Er ekki annað að sjá en að víða í Gamla testamentinu sé það notað til að benda á drambsemi, enda telst það dramb að fara í mannjöfnuð við Guð. Verða hér tilnefnd tvö dæmi en til eru önnur dæmi sem eru mjög í sama anda.
Í 22. kafla Jeremía er sedrusviður nefndur fjórum sinnum. Þar er spurt; „Ríkir þú sem konungur af því að þú sýnir yfirburði í byggingum úr sedrusviði?“ Svarið við því er auðvitað nei og tekið fram að enginn muni syrgja þann sem þannig hagar sér.
Í Esekíel 31. kafla er frásögn af sedrusviði. Þar ávarpar spámaðurinn Egypta og segir þeim að fyrir þeim muni fara eins og hinu mikla sedrustré í Líbanon. Lýsingin á trénu minnir um margt á Ask Yggdrasils sem flestir þekkja. Ekki verða líkindin minni þegar erlendum þýðingum er flett og tréð er kallað Asshur. Í Guðbrandsbibliu segir „Sjá þú, Assúr var sem eitt sedrustré á Líbanon“. Þarna er þó frekar að sjá sem Assúr sé líkt við risastórt sedrustré, heldur en að tréð heiti Assúr.
Nú erum við ef til vill komin út fyrir efnið, en sá sem þetta ritar losnar samt ekki við þá hugmynd að vel megi hugsa sér að Askur Yggdrasils og sedrusviðurinn Asshur séu eitt og hið sama.
Svona stórt og mikið tré sýnir auðvitað ákveðna drambsemi sem ekki er hægt að líða.
Sagan öll virðist vera einhverskonar dæmisaga eða myndlíking um ris og fall þjóðar. Þá dugar vitanlega ekkert minna en sedrusviður.
„10 Þess vegna segir Drottinn Guð svo: Þar sem hann varð hávaxinn og teygði krónu sína upp á milli skýjanna gerðist hann hrokafullur vegna hæðar sinnar. 11 Því seldi ég hann hinum voldugasta leiðtoga þjóðanna í hendur. Hann fór með hann eins og hann átti skilið fyrir guðleysi sitt og ég hafnaði honum. 12 Framandi menn úr hópi grimmustu þjóða hjuggu hann niður og fleygðu honum í burt. Lim hans féll á fjöllin og alla dali og greinar hans brotnuðu í öllum gljúfrum landsins. Allar þjóðir heims flýðu úr skugga hans og létu hann eiga sig. 13 Allir fuglar himinsins bjuggu um sig á föllnum stofninum og öll dýr merkurinnar komu sér fyrir í limi hans.“
Atlantssedrus í vetrarbirtu.
Hreinsun holdsveikra
Ein sagan, þar sem sedrus kemur við sögu, sker sig dálítið úr. Það er 14. kafli Mósebókar þar sem sagt er hvernig skuli staðið að hreinsun holdsveikra.
„1 Drottinn talaði við Móse og sagði: 2 „Þetta eru lög um það þegar holdsveikur maður skal úrskurðaður hreinn og leiddur fyrir prest. 3 Presturinn skal ganga út fyrir herbúðirnar og skoða hann. Staðfesti hann að hinn holdsveiki sé orðinn heill af holdsveikinni 4 skal presturinn láta sækja tvo lifandi, hreina fugla, sedrusvið, hárauðan þráð og ísóp handa þeim sem lætur hreinsa sig.“ Síðan kemur lýsing á því hvernig hreinsunin skuli fara fram. Þeir sem áhuga hafa á þeim fræðum er bent á þennan þráð.
Tegundir
Sennilegast þykir að allar tegundirnar séu komnar af einni og sömu tegundinni sem eitt sinn var útbreidd allt frá Afríku til Indlands. Þegar ísöld ríkti á norðurhveli jarðar urðu breytingar á loftslagi til þess að eyðimerkur tóku að stækka. Þá dróst kjörlendi trjánna saman og þær hörfuðu til fjalla þar sem meiri raka var að fá. Við það urður til vel afmarkaðir stofnar. Þessi lýsing úr 31. kafla Esekíels í Gamla Testamentinu gæti átt ágætlega við þessar breytingar: „Daginn sem sedrusviðurinn fór niður til ríkis hinna dauðu lét ég [Það er Guð sem talar] frumdjúpið harma hann og hylja. Ég hélt aftur af kvíslum þess og hinum miklu vötnum var haldið í skefjum. Vegna hans klæddi ekki alveg svo ég Líbanon í sorgarbúning og öll trén á sléttlendinu visnuðu.“ Að vísu á tímasetning þessara viðburða ekki alveg við jarðsöguna því þetta átti að vera á dögum faraóanna.
Nú á dögum finnast villt sedrustré í 1.500 – 3200 metra hæð í Himalajafjöllum og næstum jafn hátt í fjöllum landanna sem liggja að Miðjarðarhafi.
Þegar hóparnir einangruðust hver frá öðrum fór hver hópur að feta sig eftir eigin þróunarbraut. Það leiddi til þess að nú höfum við þrjár til fimm tegundir innan sedrusættkvíslarinnar (Cedrus) allt eftir því hvernig talið er. Að auki getur verið nokkur útlitsmunur innan hverrar tegundar og ræktunarafbrigði eru nokkuð mörg.
Himalajasedrus
Fyrst ber að nefna hinn beinvaxna C. deodara sem hefur verið nefndur himalajasedrus á íslensku. Hann er stærstur tegundanna og getur orðið allt að 45 metrar á hæð í ræktun og stundum allt að 60 metrar í heimkynnum sínum sem eru í vestanverðum Himalajafjöllunum. Einkum vaxa trén í fjallahéruðum í Afganistan og NV-Indlandi. Í minna mæli er himalajasedrus til í Tíbet og Nepal. Stofnarnir geta orðið allt að 3 metrar í þvermál og krónan getur náð að minnsta kosti 11 metra þvermáli.
Fræðiheiti tegundarinnar, C. deodara er fengið úr sanskrít. Devadāru merkir „tré guðanna“. Deva merkir guð og dāru merkir tré eða viður.
Samkvæmt lýsingum grasafræðinga er þessi tegund nokkuð frábrugðin hinum tegundunum og hefur sennilega einangrast fyrst frá megintegundinni. Því hefur hún haft lengri tíma en hinar til að þróast og breytast. Barrnálarnar hennar eru lengri en á hinum tegundunum.
Í Bretlandi og Írlandi er dálítið ræktað af sérstöku yrki sem kallast C. deodara ´Pendula´ sem hefur hangandi greinar. Má sjá það yrki hér að neðan.
Cedrus deodara ´Pendula´.
Atlassedrus
C. Atlantica eða atlassedrus er númer tvö í röðinni. Hann vex hraðar í æsku en hinar tegundirnar og er næst stærstur þeirra. Tegundin vex villt í Atlasfjöllunum í Marakó og Alsír. Vaxtarlagið er stundum nokkuð pýramídalegt en annars líkt líbanonsedrus. Ekki er alltaf auðvelt að greina atlassedrus frá líbanonsedrus og til eru þeir sem vilja flokka þá til sömu tegundr.
Þar sem atlassedrus vex hraðast sedrustrjáa hefur hann verið nýttur meira til viðarframleiðslu en aðrir ættingjar hans. Einkum eru til plantekrur í suðurhluta Frakklands þar sem atlasserus er ræktaður til viðarframleiðslu.
Því miður er það svo að útbreiðsla atlassedurs í Atlasfjöllum hefur dregist mikið saman undanfarna hálfa öld eða svo. Því veldur bæði ofnýting og skógareldar sem aukist hafa með hnattrænni hlýnun.
Í Evrópu má sums staðar sjá sérstök ræktunarafbrigði af atlassedrus. Einkum eru þrjú yrki vinsæl. Í fyrsta lagi er það yrkið ´Glauca´ sem hefur bláhvítt barr í öðru lagi er það yrki sem ber nafnið ´Glauca Pendula´. Sá klónn er ekki bara með ljósara barr heldur einnig hanga greinarnar alveg niður að jörðu. Þriðja yrkið: ’Aurea' er með gulleitt barr. Til eru fleiri yrki í Evrópu og Ameríku með bláleitu barri. Sennilega eru slík yrki algengara í ræktun en hinn venjulegi græni atlassedrus.
Eintak af atlassedrus var eitt sinn plantað við Hvíta húsið í höfuðborg Bandaríkjanna. Frægt var á sínum tíma þegar Carter forseti lét byggja trjáhýsi í sedrusnum fyrir dóttur sína Amy.
Líbanonsedrus
Þá er komið að C. libani eða líbanonsedrus. Það er tegundin sem nefnd er aftur og aftur í Gamla testamenti Biblíunnar. Hún vex í Líbanon en einnig í Sýrlandi og Suð-vestur Tyrklandi. Fyrr á öldum var hann miklu algengari en nú er. Að jafnaði er þessi tegund flatari að ofan en fyrrgreindar tegundir. Þó er það svo að ef líbanonsedrus vex þétt og þarf að teygja sig í ljósið þá fær krónan ekki þetta dæmigerða vaxtarlag. Líbanonsedrus getur náð allt að 40 metra hæð og stofninn getur orðið allt að 1,5 metrar í þvermál. Oft taka eldri greinar upp á því að vaxa upp á við þannig að þau minna á gaffla í vaxtarlaginu. Það er fátítt hjá öðrum tegundum ættkvíslarinnar.
Algengt er að líbanonsedrus verði svona gaffallaga eins og þetta tré.
Sedrusinn sem vex í Tyrklandi er stundum talin sérstakt afbrigði; C. libani var. stenocama. Barrið er að jafnaði heldur ljósara eða bláleitara og styttra en á aðal tegundinni. Að auki er þessi tyrkjasedrus talinn þola meira frost. Grasafræðingarnir í Kew Gardens segja að ekki sé grundvöllur fyrir þessari aðgreiningu.
Sedrusviður er þjóðartréð í Líbanon og mynd af honum í fána landsins. Einnig er þjóðartréð notað í ýmiss merki þar í landi, svo sem á vegabréf og alls kyns hermerki.
Þjóðartré Líbanons má meðal annars sjá í þjóðfánanum, innsigli hersins og á vegabréfum.
Kýpursedrus
Áður fyrr var þessi sedrus kallaður C. brevifolia og gekk undir nafninu kýpursedrus sem hér er notað. Hún er lágvöxnust þessara tegunda og finnst í rýrum jarðvegi í Troodos fjöllum á Kýpur. Villt tré á Kýpur geta orðið allt að 12 metrar á hæð en í ræktun á frjórra landi getur hann orðið eitthvað hærri. Bæði barr og könglar tegundarinnar eru minni en hjá öðrum tegundum ættkvíslarinnar. Þessi munur varð til þess að menn héldu lengi vel að þetta væri sérstök tegund. Latínuheitið brevifolia vísar einmitt í þessar stuttu barrnálar. Brevi merkir stuttur og folia merkir laufblað þótt það eigi hér við um barrið.
Nú telja vísindamenn að þrátt fyrir útlitsmuninn sé kýpursedrus aðeins afbrigði af líbanonsedrus. Þá er nafn hans skráð sem C. libani var. brevifolia. Ef við föllumst á það latínuheiti er ekki um sérstaka tegund að ræða heldur afbrigði (var. vísar í variant eða afbrigði) af líbanonsedrus. Þrátt fyrir að grasafræðingar telji þetta aðeins afbrigði af líbanonsedrus er það svo að í flestum heimildum er talað um fjórar tegundir innan ættkvíslarinnar en ekki þrjár.
Ný tegund?
Til umræðu hefur verið meðal grasafræðinga að til sé ein tegund í viðbót, C mahogani, sem ekki hefur fengið neitt íslenskt heiti. Ekki er full samstaða um hvort þetta sé sérstök tegund og verður ekki úr því skorið í bili. Lítið er til af upplýsingum fyrir almenning um þessa meintu tegund en hún finnst í Afríku. Þess vegna verðum við að segja að tegundirnar eru nú taldar vera þrjár til fimm.
Fleiri nöfn hafa verið nefnd til sögunnar en þetta eru þau nöfn sem nú eru notuð af grasafræðingum Kew Gardens. Sjá nánar hér. Það eru þau nöfn sem hér er stuðst við. Við nafn hinnar meintu nýju tegundar stendur: Unresolved
Myndirnar tók höfundur.
Viðauki I
Nöfn á sedrusviði á nokkrum tungumálum.
Arabíska Sidar
Danska Ceder
Enska Cedar
Finnska Setri
Flæmska (Hollenska) Ceder
Franska Cédre
Gríska Kedros (Κέδρος)
Ítalska Cedro
Japanska Sugi eða shida
Latína Cedrus
Norskt bókmál Ceder
Portúgalska Cedro
Rússneska Kedr (Кедр)
Sænska Ceder
Tékkneska Cedr
Tyrkneska Sedir
Tælenska Sī dār̒ (ซีดาร์)
Þýska Zeder
Viðauki II
Sedrusviður í Biblíunni.
Einhvers staðar stendur að sedrusviður sé nefndur 103 sinnum í Gamla testamentinu. Með leit á biblian.is hefur þeim er þetta pikkar ekki tekist að finna svo mörg dæmi. Þau eru samt æði mörg.
Tengill inn á biblian.is er undir hverjum kafla. Í sumum köflunum er sedrus margnefndur svo heildarfjöldinn er meiri en fjöldi kaflanna.
Þriðja Mósebók 14. kafli
コメント