Samkvæmt grískum goðsögum var vatnagyðjan Daphne, dóttir fljótaguðsins Peneusar, einstaklega glæsileg gyðja. Hvorugt þeirra taldist þó til helstu guða eða gyðja Grikklands hins forna. Guðinn Appolló (ritunarháttur þessara guða er mjög misjafn eftir heimildum) girntist mjög hina fögru Daphne. Á forngrísku hét sá guð Ἀπόλλων og var einn af 12 guðum Ólympsfjalls og þar með miklu æðri en gyðjan. Rómverjar tóku Appolló inn í sín trúarbrögð eins og fleiri guði Grikkja.
Appolló með hörpu sína og lárviðarsveig á höfðinu.
Feðraveldið var óvenju slæmt á þessum tíma og auk þess margar aldir í að Mítú-byltingin ætti sér stað. Því var ekkert óvenjulegt við það að guðinn vildi koma fram vilja sínum og breyttu andmæli hinnar fögru Daphne engu þar um. Hún varð auðvitað skelfingu lostin og til að bjarga meydómi sínum kallaði hún á hjálp. Faðir hennar, fljótaguðinn Peneus, vildi koma henni til hjálpar og til að bjarga henni frá yfirvofandi skelfingu datt honum ekkert skárra í hug en að breyta dóttur sinni í tré. Þannig varð til fyrsta lárviðartré í heimi. Brjóst hennar klæddust þunnum berki, hárið varð að grænu laufi, handleggirnir að greinum, fæturnir, sem skömmu áður höfðu borið gyðjuna um landið á flótta undan Appolló, urðu að rótum og laufkrónan veitir henni þægilegan skugga, bæði þá og nú. Þannig hefur trénu tekist að varðveita þokka hennar og fegurð allt til vorra daga.
Málverk eftir George Patsouras
Aðdáun og ágirnd Appollós voru engu minni á gyðjunni þótt hún breyttist í tré fyrir framan hann. Hann vildi fá að halda greinunum í örmum sínum og kyssa börkinn. Í ástarbrímanum sagði guðinn Appolló eitthvað á þessa leið: „Fyrst þér verðið ekki kona mín getið þér að minnsta kosti orðið tré mitt. Hár mitt og harpa ásamt öllum mínum heitustu tilfinningum skulu aðeins tilheyra yður, elskulegi lárviður. Ég mun gera lauf þitt að sigurtákni um alla tíð og bera þau á höfði mínu!“
Nærmynd af laufum og blómum lárviðartrés. Myndin er héðan.
Þessi dramatíska umbreyting gyðjunnar í tré hefur verið listamönnum að yrkis- og umfjöllunarefni um aldir. Mest áberandi er það í listum frá tímum Rómverja og allt til endurreisnartímabilsins. Síðan hefur eitthvað fjarað undan þessu. Sennilega er stytta í fullri stærð eftir Bernini sem fullgerð varð árið 1625 þeirra frægust. Hún sýnir augnablikið þegar Daphne byrjar að breytast í tré þannig að Apollo nær henni ekki á sitt vald.
Appolló og Daphne. Marmarastytta eftir Bernini (1598–1680)
Daphne
Grikkir hafa alla tíð síðan nefnt tréð eftir gyðjunni. Það heitir Δάφνη á grísku og er borið fram „dafni“. Það er auðvitað sami framburður og á Daphne. Því skýtur það dálítið skökku við að á máli grasafræðinga er það allt annað tré sem heitir eftir gyðjunni. Það er tré, eða runni, sem áður hefur verið fjallað um á þessum síðum og kallast tegundin töfratré á íslensku. Það heitir Daphne mezerum á latínu þótt bæði orðin séu reyndar fengin að láni úr öðrum tungumálum.
Daphne var ekki ein af aðalgyðjum Grikkja. Satt best að segja þekkir sá er þetta ritar ekki fleiri sögur af henni en þessa einu. Hér má lesa lítillega um hana og fjölskyldu hennar. Sá runni stendur nú í fullum blóma víða á Akureyri, þegar þessi pistill birtist.
Enn í dag er heiti gyðjunnar, Daphne, notað sem kvenmanns-nafn víða um heim. Samkvæmt vef Hagstofunnar bera fjórir Íslendingar nafn hennar. Sem dæmi um fræga persónu sem bera þetta nafn má nefna sjónvarps-persónuna Daphne Moon sem vann sem húshjálp hjá þeim Crane feðgum í þáttunum um útvarps-sálfræðinginn og fyrrum fastagest á Staupasteini: Frasier. Á meðal raunverulegra persóna má nefna leikkonuna Daphne Zuniga sem lék meðal annars í Melrose Place sem eflaust einhverjir muna eftir. Fjölfræðivefurinn Wikipedia hefur sett saman alþjóðlegan lista með frægum konum sem bera þetta nafn.
Lárviðartré í potti í Kew Gardens, London. Myndin fengin héðan.
Appolló
Ekki virðist þessi goðsögn um Appolló og Dapneu hafa dregið úr vinsældum hins fyrrnefnda. Þvert á móti. Sagt er að hann hafi verið sá guð sem mest var tignaður af Grikkjum til forna. Hann var guð spásagna og sannleika. Einnig guð tónlistar, dans og kveðskapar og var harpa hans eða lýra gjarnan notuð sem táknmynd hans. Hann þótti líka frambærilegur sem guð ljóss og lækninga. Þar sem Appolló var guð spáfrétta og sannleika var véfréttin í Delfi helguð honum. Sumar sagnir herma að þar hafi lárviður gegnt mikilvægu hlutverki við spádóma.
Appolló var einn af guðunum sem áttu heimkynni sín við fjallið Ólympus. Hann var meira að segja sonur Seifs sem talinn var æðstur guðanna. Tvíburasystir hans var veiðigyðjan Artemis. Stundum var boginn notaður sem tákn þeirra beggja og bróðirinn stundum tignaður sem guð bogfiminnar. Boginn þótti líka ágætt tákn fyrir Appolló vegna þess að hann gat haft áhrif á líf manna úr fjarlægð, rétt eins og bogaskyttur geta gert. Úr fjarlægð gat hann hótað, refsað og fyrirgefið fólki sem hafði áttað sig á sekt sinni.
Mynd af Appolló eftir Charles Meynier frá 1798 Myndin er fengin héðan.
Eins og kunnugt er voru á fjögurra ára fresti haldnir sérstakir leikar til heiðurs guðunum sem bjuggu á Ólympusfjalli. Sú hefð var síðan endurvakin löngu síðar og telst nú vera stærsti íþróttaviðburður heimsins. Ekkert var eðlilegra en að veita sigurvegurum Ólympíuleikanna til forna sigurkrans sem gerður var úr laufum lárviðarins sem með svo beinum hætti tengist guðunum. Ekki nóg með það. Lárviðarkrans hefur einnig verið notaður til að krýna tónlistarfólk, ljóðskáld og ýmsa aðra listamenn. Sumir þeirra kepptu reyndar á ólympíuleikum til forna. Sem dæmi má nefna að rómverski keisarinn Neró, sem tíðum leit fyrst og fremst á sig sem listamann, vann til fjölda verðlauna á Ólympíuleikum. Meðal annars í ljóðagerð, hörpuleik og kappakstri í vagni, bæði með 2 og 4 hestum fyrir. Að vísu tókst honum ekki að ljúka keppni í vagnakstri með fjórum hestum en réttast þótti samt að krýna hann sigurvegara.
Málverk af íþrótta- og listamanninum Nero sem einnig var keisari. Myndin eftir Abraham Janssens van Nuyssen frá 1620. Að sjálfsögðu er hann með lárviðarkrans. Myndin fengin héðan.
Nafnið
Lárviður heitir Laurus nobilis á latínu. Íslenska heitið er dregið af alþjóðlega ættkvíslarheitinu en það mun merkja sigur. Viðurnefnið nobilis vísar í hversu mikið eðaltré þessi tegund er. Orðið er notað yfir aðalinn og hefðarfólk. Nafnið merkir því eiginlega sigur aðalsins. Það er því ekki að undra að margir vilji bendla sig við tréð. Má jafnvel kalla það snobb, enda er til skemmtileg saga um upphaf þess orðs, ættuð frá Cambridge á Englandi. Þar hefur lengi verið ákaflega virðulegur skóli sem í upphafi var aðeins ætlaður aðlinum eða nobilitas á latínu. Svo kom að því að hluti hinnar svokölluð efri millistéttar vildi láta mennta syni sýna. Kostaði það stórfé. Í bækur skólans var ekki hægt að skrá þá sem aðalsmenn og voru þeir skráðir sem sine nobilitate sem merkir án aðalstignar. Til að spara pláss og blek var þetta svo stytt í nob. fyrir hina aðalbornu og s. nob. fyrir þá verr ættuðu og nýríku. Síðar rann það saman í snob og er merkilega nálægt nútíma merkingu orðsins (Sölvi Sveinsson 2004).
Myndarlegt lárviðartré. Myndin fengin héðan.
Lýsing
Lárviðartré eru sígrænir og ilmandi runnar eða tré sem getur við bestu skilyrði orðið allt að 18 metrar á hæð. Almennt telst hann samt vera hægvaxta og er sjaldan svona stór. Blöðin eru sígræn og gljáandi. Þau eru nokkuð ílöng og heilrend og innihalda mikla olíu eins og algengt er hjá skyldum plöntum.
Vilmundur Hansen skrifaði grein í Bændablaðið (sjá heimildaskrá) og segir þar að tegundin þrífist best við 8 til 27° á Celsíus og að hún kjósi mikla sól og hátt rakastig. Hún þolir samt að hiti fari rétt undir frostmark en kelur ef frostið verður eitthvað að ráði. Því er alveg vonlaust að rækta lárvið utan dyra á Íslandi.
Laufin á lárvið eru sígræn. Þau þurfa samt að endurnýja sig og almennt endist hvert lauf í þrjú ár og fellur svo af. Til eru yrki sem ræktuð eru vegna blaðfegurðar en önnur eru ræktuð til manneldis.
Laurus nobilis ´Sicilian Sunshine´ er yrki sem ræktað er vegna blaðlitar.
Ættfræði
Lárviður tilheyrir lárviðarætt, Lauraceae. Innan þeirrar ættar eru einar 50 ættkvíslir með samtals um 2.500 tegundir (Tudge 2005). Flestar þessara plantna lifa í regnskógum hitabeltisins og nánast allar hafa olíurík lauf sem lykta áberandi mikið. Sem dæmi um tegund af sömu ætt má nefna avókadó, Persea americana og P. drymifolia og kanilættkvíslina Cinnamomum spp. Lárviðurinn tilheyrir ættkvíslinni Laurus og er nafnið útskýrt hér að ofan.
Ættkvíslin Laurus er fremur lítil og menn eru ekki á eitt sáttir um fjölda tegunda innan hennar. Á lista World Flora Online eru fjölmargar tegundir nefndar. Um margar þeirra er sagt að óvíst sé hvort þær teljist til sjálfstæðra tegunda. Á listanum eru fjórar tegundir taldar til skilgreindra og viðurkenndra tegunda. Það eru, auk Laurus nobilis þær L. azorica, L. chinensis og L. melissifolia. Í áðurnefndri grein Vilmundar Hansen nefnir hann einnig tegundina L. novocanariensis en hún er ein af þeim sem grasafræðingarnir sem halda úti síðunni eru ekki vissir um að kalla beri sjálfstæða tegund. Hún er merkt sem Ambiguous. Má vera að hún sé aðeins afbrigði af L. azorica.
Klipptur lárviður í pottum. Myndin fengin héðan.
Sigurtákn
Þar sem sjálfur Appolló mælti svo fyrir að lauf lárviðar yrðu notuð sem sigurtákn var ekki við öðru að búast en það yrði gert. Hér ofar er sagt frá Ólympíuleikum til forna en notkunin er miklu víðtækari. Rómverjar voru sérlega iðnir við að nota lárviðarlauf sem sigurtákn. Rómverskir keisarar tóku upp þann sið að vera með lárviðarsveig, einkum við sigurhátíðir. Margir þeirra létu búa til myndir af sér þar sem þeir skarta slíkum sveig, eins og þekkt er. Margir hershöfðingjar Rómverja höfðu einnig lárviðarsveig á höfði til að minnast afreka sinna. Um tíma þótti einnig viðeigandi að þegar sendiboðar komu frá rómverskum vígstöðvum með upplífgandi fréttir um stórsigra þá væri réttast að vefja lárviðarlaufum utan um skilaboðin.
Í gegnum tíðina hefur ótrúlegur fjöldi einvalda látið slá myntir með mynd af lárviðarlaufum til að minna á veldi sitt, sigra sína og mikilfengleika. Má þar nefna menn eins og Napoleon Bonaparte, Pétur mikla Rússakeisara og Georg þriðja Bretakonung. Einnig eru til gullmyntir af Alexander mikla þar sem lárviðargrein er á annarri hlið en andlitsmynd af honum á hinni hliðinni. Slíkar myntir af honum voru þó ekki slegnar fyrr en eftir andlát hans. Það er óvenjulegt lítillæti meðal einvalda fyrri tíma.
Fyrir sjálfan Napoleon dugar ekki minna en gullslegin lárviðarlauf. Myndin fengin héðan.
Það getur varla skaðað að hafa sigurtákn í hermerkjum sínum þótt boginn, eitt af táknum Appollós, hafi fallið úr tísku sem mikilvægt stríðstól. Enn í dag má sjá misjafnlega stílfærð lárviðarlauf í ýmsum táknum herja um nánast allan heim. Þannig gengur eitt af merkjum breska sjóhersins undir nafninu „Globe and laurel“ sem útleggst sem „hnöttur og lárviður“. Það er til í mörgum útgáfum. Bretar nota lárviðinn víðar. Sem dæmi má nefna að árlega kjósa þeir svokölluð lárviðarskáld. Þykir það mikill heiður að fá slíka útnefningu. Samkvæmt Wikipediu hafa mörg önnur lönd tekið upp þennan sama sið.
Það eru ekki bara Bretar sem á okkar tímum hafa lárviðarlauf í merkjum sínum. Meðal þeirra landa sem brúka slík merki eru meðal annars Bandaríkin, Þýskaland, Finnland og Sri Lanka auk margra annarra.
Stílfærð lárviðalauf eru algeng í allskonar hermerkjum.
Enn má oft sjá sigurkransa úr lárviðarlaufi við ýmsa atburði. Slíkt tíðkast til dæmis í kappakstri og heimsmeistaraeinvígum í skák.
Magnus Carlsen, heimsmeistari í skák með bikar og lárviðarkrans í stærri kantinum. Að vísu hefur einhverri annarri tegund verið blandað í kransinn. Mynd:Maria Emelianova/Chess.com.
Max Verstappen með sigurkrans úr lárviðarlaufum. Mynd: Lars Baron.
Önnur notkun lárviðarlaufa og -greina
Það er kunnara en frá þurfi að segja að lárviðarlauf eru notuð sem krydd í matargerð. Í áður nefndri grein Vilmundar segir að Tyrkir framleiði um 97% þeirra laufa sem eru á heimsmarkaði eða yfir 8000 tonn á ári. Vilmundur ályktar að um 40-60 kg af lárviðarlaufum séu flutt til Íslands árlega.
Þurrkuð lárviðarlauf.
Lárviðarlauf má einnig nota á annan hátt, ef marka má gamlar sagnir. Lauf af lárvið má til dæmis setja undir kodda. Þá munu draumarnir hafa forspárgildi. Má vera að sú notkun eigi tengingu við véfréttina í Delfí. Til eru sagnir um véfréttir og spákonur í Grikklandi sem ýmist áttu að hafa tuggið lauf lárviðarrunna eða hrist runnanna í gríð og erg til að komast í rétta spádómsgírinn.
Delfí í hlíðum Parnassusfjalls í Fokis-héraði á okkar dögum. Myndin fengin héðan.
Svona merkileg tré hafa ratað í fleiri þjóðsagnir í Evrópu. Plini hinn rómverski skrifaði töluvert um lárvið. Hann varaði við að brenna lárviðarlauf og -greinar á fórnaraltari. Það gæti beinlínis stuggað guðunum frá. Hann benti einnig á að lárviðartré verða aldrei fyrir eldingum. Því var talið víst að laufin gætu verndað fyrir vondum veðrum. Tíberíus keisari hafði alltaf lárviðarlauf hjá sér ef honum þótti veðurútlit válegt. Öruggast var að hafa þau á höfðinu. Þau vernduðu hann fyrir stormum og eldingum. Sams konar notkun lárviða barst til Bretlandseyja á 17. öld. Við það bættist að lauf og greinar lárviðar gátu einnig verndað fyrir illum öndum. Þá tóku margir Englendingar upp á því að gróðursetja lárviðarrunna við útidyr, heimilum til verndar. Enn má stundum sjá sígrænan lárvið í kerjum við hús í Bretlandseyjum. Þó er óvíst að það sé endilega til að verjast illum öndum. Sú hugmynd mun vera komin frá Grikkjum. Þeir hengdu gjarnan lárviðarsveig yfir bæjardyrnar til að halda illum öndum frá híbýlum manna.
Enn er algengt, víða í Evrópu, að planta tveimur lárviðartrjám nærri útidyrum. Myndin er fengin að láni héðan.
Tíberíus var ekki fyrsti keisari Rómaveldis til að tengja sig með beinum hætti við lárviðartré. Ágústínus var fyrsti keisari veldisins. Hann lét gróðursetja lárvið í potta báðum megin við innganginn að húsi sínu á Palatinus-hæð. Húsið var sambyggt musteri Appallóns. Þannig undirstrikaði keisarinn tengsl sín við guðinn og benti í leiðinni á hvað hann sjálfur var sigursæll.
Rómversk gullmynt. Önnur hliðin sýnir Tíberíus með lárviðarsveig um höfuðið. Hin hliðin sýnir konu hans, Liviu, sem heldur á lárviðargrein.
Vaxtarstaðir fyrr og nú
Vilmundur Hansen segir frá því í áðurnefndri grein að vísbendingar séu til um víðáttumikla lárviðarskóga fyrr á tímum. Það var á þeim tímum þegar hita- og rakastig á jörðinni var til muna hærra en það er í dag. Á þeim tíma uxu trén á stórum svæðum umhverfis Miðjarðarhafið en einnig á svæðum norðar í Evrópu. Núverandi útbreiðsla er miklu minni en þetta en hér ofar er sagt frá þeim tegundum sem til eru í dag. Nöfn þeirra vísa gjarnan til þeirra staða þar sem þau er að finna. Eru það ágætar vísbendingar um hversu víðfeðm útbreiðslan var áður á þeim slóðum. Talið er að útbreiðsla þeirra við Miðjarðarhafið hafi farið að dragast saman fyrir um tíu þúsund árum. Nú finnast tegundir lárviðartrjáa í fjallendi Tyrklands Sýrlands, Marokkó, á Spáni, Portúgal og á Madeira, Kanarí- og Asóreyjum. Að auki er til ein sérstök tegund, Laurus chinensis, í Kína.
Myndarleg lárviðartré.
Á seinni hluta tertíertímabilsins, þegar hita- og rakastig var hærra en nú er, uxu þessi tré ekki bara allt í kringum Miðjarðarhafið. Þau uxu einnig mun norðar en þau gera í dag. Gaman er að velta því fyrir sér hversu langt norður þau uxu á þeim tíma. Svo vill til að við vitum það. Steingerðar leifar þessara trjáa hafa nefnilega fundist allt norður til Íslands. Fyrir 10-15 milljónum ára uxu á Íslandi meðal annars magnolíur, túlipanatré og lárviður.
Þótt lárviður þrífist ekki lengur á Íslandi var hann eitt sinn íslenskur.
Heimildir
Colin Tudge (2005): The Tree: A Natural History of What Trees Are, How They Live, and Why They Matter. Crown Publishers, a division of Random House, Inc, New York.
Sölvi Sveinsson (2004): Saga orðanna. Iðunn, Reykjavík.
Vilmundur Hansen (2019): Lárviður og lárviðarlauf. Í Bændablaðið, 1. Mars 2019. Sjá: https://www.bbl.is/frettir/fraedsluhornid/larvidur-og-larvidarlauf
Í aðrar netheimildir er vísað beint í texta.
Comments