top of page
Writer's pictureSigurður Arnarson

Silfurreynirinn í Grófargili

Updated: Oct 23, 2023

Í Akureyrarbæ er fjöldinn allur af fallegum trjám. Sum þeirra eru á áberandi stað en önnur í bakgörðum þar sem fáir sjá þau eða falin á milli annarra trjáa. Tré vikunnar að þessu sinni er eitt af þeim fyrrnefndu. Það stendur stakt og áberandi á fallegum stað ofarlega í Grófargili.

Þetta áberandi tré er silfurreynir (Sorbus intermedia) og er meira en 10 metrar á hæð með umfangsmikla krónu.


Tegundin

Almennt er silfurreynir talinn vera harðgert tré en uppeldi hans gengur stundum dálítið illa því ungum trjám er mjög hætt við haustkali. Endurtekið haustkal þýðir fremur lítill vöxtur framan af æfinni og getur því orðið kræklóttur og jafnvel margstofna. Það er varla fyrr en undir fermingu sem trén fara að vaxa sæmilega. Þar fyrir utan er silfurreynir talinn vind- og seltuþolinn og að auki er hann talinn þola loftmengun alveg sérlega vel. Það hefur orðið til þess að hann er nokkuð vinsæll sem götutré víða í Evrópu.


Horft upp í krónuna.


Hér á landi er silfurreynir gjarnan einstofna tré hafi það fengið klippingu í æsku. Annars er það oftast margstofna. Oftast er það fremur bolstutt með þykkan stofn og breiða krónu. Sú lýsing á sérlega vel við um tréð í Grófargili. Hæðin hér á landi er um 8 til 12 eða jafnvel 15 metrar á hæð. Fer það nokkuð eftir aðstæðum á hverjum stað hvort það vex meira upp á við eða myndar breiða krónu.

Silfurreynir getur orðið mun langlífari en íslenski reynirinn. Talið er að hann verði allt að 200 ára gamall. Þetta glæsilega tré í gilinu er því enn á besta aldri og mun vonandi fá að gleðja okkur lengi enn.


Bolurinn er óvenju þykkur en fremur stuttur. Í bakgrunni má sjá Akureyrarkirkju.


Uppruni tegundarinnar

Silfurreynir er talinn vera blendingstegund en ekki eru menn alveg sammála um hverjir foreldrarnir eru. Hann vex villtur um sunnanvert Eystrasalt en algengastur er hann í sunnanverðri Svíþjóð og á Borgundarhólmi. Þessi uppruni er suðlægari en mörg tré sem hér eru ræktuð og þar er silfurreynir vanari hlýrri og lengri sumrum en hér eru í boði. Þetta á án efa sinn þátt í endurteknu haustkali hjá ungum trjám sem nefnt var hér að ofan.


Horft í gegnum neðra borð silfraðar laufkrónu.


Laufin

Algengast er að reynitré hafi það sem kallað er fjöðruð blöð, svona rétt eins og íslenski ilmreynirinn. Innann ættkvíslarinnar eru einnig til tré með heilum laufblöðum og telst silfurreynir þar á meðal. Sumir vilja þó kljúfa slík reynitré úr ættkvíslinni og setja í sérstaka ættkvísl. Þegar það er gert heitir silfurreynir ekki heldur Sorbus intermedia heldur Aria intermedia. Þessi breyting hefur ekki hlotið almennan hljómgrunn meðal fræðimanna og verða lesendur því ekki þreyttir frekar á latínu í þessum pistli.


Mikill munur er á neðra og efra borði laufblaðanna. Neðra borð blaðanna ber fíngerð, silfruð hár en hið efra er glansandi grænt.


Laufblöðin eru breiðegglaga og sagtennt eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Þau eru nokkuð þykk og dálítið leðurkennd. Efra borð blaðanna er dökkgrænt og glansandi en neðra borðið er þakið silfurgráum hárum. Af því ber hann nafn sitt.


Haustlitir eru gulir en oft á tíðum stendur hann grænn langt fram á haust. Líklega tengist það hinum suðlæga uppruna.

Blóm og ber

Árlega blómstrar silfurreynirinn fallega. Hann ber dæmigerð reyniblóm sem eru rjómahvít á litinn og mörg saman í 8-10 cm breiðum sveipum.


Oftast nær ber hann einnig ber hérlendist en þau ná ekki alltaf fullum þroska. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum þroskast berin mun seinna en hjá íslenska reyniviðnum sem stendur nærri honum. Hann nær þó stundum að þroska fræ en spírunarprósentan er fremur lág.


Til vinstri stendur ungur íslenskur ilmreynir, hlaðinn þroskuðum berjum. Á sama tíma er þessi glæsilegi silfurreynir með mun færri ber sem eru rétt að byrja að roðna.



Saga

Á fyrri hluta 20. aldar var silfurreyni víða plantað í garða. Sérstaklega í Reykjavík og hér á Akureyri. Elsta tré í Reykjavík er talið vera silfurreynir sem stendur í gamla kirkjugarðinum á horninu á Aðalstræti 9 og Kirkjustrætis. Hann var gróðursettur árið 1884 af Schierbeck landlækni sem var stofnandi og fyrsti formaður Garðyrkjufélags Íslands. Flutti hann tréð inn frá Danmörku.


Mjög hefur dregið úr ræktun hans hin síðari ár. Kemur þar til að hann er nokkuð mikill um sig og hentar því ekki nægilega vel í litla garða. Að auki kelur hann í æsku og myndar ekki árlega fræ. Dæmi um falleg silfurreynitré má meðal annars finna í Lystigarðinum og í sumum af eldri görðum bæjarins. Má þar sem dæmi nefna fallegt tré í garðinum við Aðalstræti 17.


Til eru fjölmargar aðrar reynitegundir sem fyllt hafa það skarð sem silfurreynirinn skyldi eftir sig þegar ræktun hans dróst saman. En enn standa mörg gömul silfurreynitré eins og til minningar um frumkvöðla í trjárækt á Íslandi.

Garður

Viðbót: Eftir að ofangreindur pistill var birtur á Facebooksíðunni Tré á Akureyri bættu þeir félagar Pétur Halldórsson og Sr. Svavar Alfreð Jónsson við upplýsingum um sögu þessa trés sem rétt er að aðrir fái að njóta. Þetta glæsilega tré stóð við hús sem hét Garður og var rifið fyrir um hálfri öld. Húsið sést á þessari mynd.

Nýlátin sómakona, Álfheiður Margrét Jónsdóttir, sem fæddist árið 1921 ólst upp í Garði. Skömmu fyrir andlát sitt sýndi hún barnabarni sínu þetta glæsilega tré og rifjaði upp þegar hún og fjölskylda hennar gróðursetti það. Það er alltaf skemmtilegt að vita hver plantaði þeim trjám sem prýða bæinn.

Svavar sagði okkur einnig eftirfarandi um Álfheiði: „Álfheiður átti langa og viðburðaríka ævi. Um tíma var hún verslunarstjóri og einn eigenda skóbúðarinnar M. H. Lyngdal í Hafnarstræti 103, húsi sem nú er horfið en margir eldri Akureyringar muna eftir. Álfheiður var létt á sér og virk í starfi Ferðafélags Akureyrar. Fyrr á tíð keppti hún á skíðum fyrir Íþróttafélagið Þór og varð Íslandsmeistari í bruni árið 1946.“


Eru þeim félögum færðar þakkir fyrir fróðleikinn. Myndirnar tók Sigurður Arnarson þann 12. september 2021.



612 views0 comments

Recent Posts

See All

Comentários


bottom of page